Fífluð þjóð, rænd og svívirt.

 

Á hinum meintu góðærisárum fyrir Hrun reis upp ný stétt Íslendinga, fjárfestar.  Þetta voru menn sem áttu ekki neitt í byrjun en með pappírsgambli byggðu þeir upp gífurleg auðævi, byggð á pappírum.  

Og skuldsettum yfirtökum á fyrirtækjum í raunverulegri starfsemi, þar sem fyrirtækin voru rúin eignum en skilin eftir sem skel um miklar skuldir.

Þetta voru með öðrum orðum ræningjar, þjófar, glæpamenn sem gátu nýtt sér upplausn hefðbundins kapítalisma í kjölfar yfirtöku Nýfrjálshyggjunnar  á hugmyndaheimi íhaldsmanna.

 

Ránið, þjófnaðurinn, glæpirnir fóru fram fyrir opnum tjöldum, ekkert var falið.  Blasti við öllum en ekkert var gert.  Vegna þess að fyrsta verk hinnar nýju stéttar var að kaupa upp fjölmiðla og fjölmiðlamenn, þeir mútuðu háskólasamfélaginu og hugmyndafræðibylting Nýfrjálshyggjunnar tryggði þeim stuðning ráðandi stjórnmálaflokka.

 

Þessir menn héldu ítökum sínum og völdum eftir Hrun.

Núna er búið að staðfesta það í tölum, 83% í eftirgjöf og rest borguð eftir minni.

Þeir eiga ennþá fjölmiðlanna, að vísu í samstarfi við mútufé ESB.  Mútuprófessorarnir stjórna ennþá umræðunni og gjamma alfarið í þágu kjötkatlanna.  

Alþingi lýtur stjórn þeirra.

Og blekkingarmeistarar í þeirra þjónustu stjórna umræðunni í þjóðfélaginu.  Og á þann hátt að umræðan snýst um allt annað en uppgjör við hið fallna kerfi og endursköpun nýs samfélags þar sem auðrán og auðræningjar eru ekki hafðir með í ráðum.

 

Tvennt er það sem blekkingarmeistararnir hafa lagt áherslu á.

Þeir sefa reiði almennings með sýndarréttarhöldum kennd við Landsdóm þar sem einn fallinn stjórnmálamaður var dubbaður upp í gervi sektarlambs.  Og þeir passa sig á að gera það á það aulalegan hátt að öllum er ljóst að um sýndarréttarhöld er að ræða. Pólitískir andstæðingar sektarlambsins láta það yfir sig ganga, telja öllu fórnandi, æru sinni og réttlætiskennd, til að einhver, bara einhver sé tekinn og dæmdur.   Samherjar hans koma honum hins vegar til varnar og sú vörn er auðveld því það liggur í eðli sýndarréttarhalda að þau koma lögum og rétti ekkert við.

En á meðan ræðir þjóðin ekki um raunverulegt réttlæti.  Og heiðarlegt uppgjör við fortíðina.

 

Og blekkingarmeistararnir stjórna þjóðfélagsumræðunni á þann hátt að hún snýst um ekkert.  Ekki einu sinni aukaatriði.  Aðeins þannig geta ræningjarnir, þjófarnir, glæpamennirnir tryggt sér næði til að endurskapa nýtt þjóðfélag í sömu mynd og það gamla líkt og guð gerði forðum þegar hann skóp manninn.

Því líkt og sköpun mannsins er ekki þessa heims þá er ekkert mannlegt sem útskýrir hvernig hægt er að fífla rænda þjóð með því að láta hana rífast um það sem ekki er.  Og loka augunum fyrir því sem er að gerast.

Hvernig var hægt að láta alla umræðu snúast um aðild að efnahagsbandalagi sem er í algjöri upplausn og enginn veit hvernig verður eftir örfá misseri og upptöku á gjaldmiðli sem er í dauðateygjunum???

Ég veit það ekki, efa að guð viti það, sumt er einfaldlega ekki hægt að skýra.  

 

En með því að láta umræðuna snúast um ekkert og koma uppgjörinu í þann farveg að það er heldur ekkert, þá engjast þúsundir samlanda okkar á öngli Hrunskuldanna og þeim er ekki komið til hjálpar.

Það er svívirðan, það er ósóminn, það er smán þessa þjóðfélags.

Smán sem við öll berum ábyrgð á meðan við látum það viðgangast.

 

Því þó ræningjar, þjófar, glæpamenn hafi fíflað okkur, rænt og svívirt þá afsakar það ekki okkur, hinn þögla meirihluta þessarar þjóðar að láta smánina viðgangast.

Við vitum að við erum öll á sama báti, og við vitum að við eigum að koma náunga okkar í neyð til hjálpar.  Þó við séum hólpin í dag þá geta hörmungarnar bankað upp hjá okkur á morgun.  Hvort sem það er eldgos, jarðskjálftar, snjóflóð, fjármálarán, þá getur sérhvert okkar orðið fyrir þeim og þurft á aðstoð samborgaranna að halda.

Það er ekki aðeins siðleysi að neita fórnarlömbum fjármálahörmunga um aðstoð, það er líka heimska því þar með eyðileggjum við samtrygginguna sem er forsenda þess að við séum ein þjóð í einu landi.  Þar með gröfum við undan framtíð þjóðarinnar, velmegun hennar og velsæld því sagan kann engin dæmi að sundraðir sem berast á banaspjótum hafi búið við velsæld og velmegun til lengri tíma.

Siðuð breytni er því ekki aðeins rétt breytni, hún er líka skynsamleg.

 

Hættum því að vera fífluð þjóð, rændi og svívirt.

Látum ekki smánina viðgangast.

Hjálpum þeim sem eru í neyð.

 

Hættum að hjálpa þeim sem rændu okkur, fífluðu og svívirtu.

Hættum að láta þá stjórna okkur.

Gefum leppum þeirra á Alþingi rauða spjaldið.

 

Tökum málin í okkar hendur.

Kveðja að austan.

 

 


mbl.is Hundruð milljarða gefin eftir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þú gleymir alveg hverjir opnuðu dyrnar upp á gátt fyrir glæpahyskinu!   Það voru pólitíkusarnir, aðalega Sjálfstæðismenn með aftaníossunum frá Framsókn. Samfylking spilaði með svo fljótt sem hún gat en V.G komust ekki að fyrr en eftir "veisluna".

Afhverju opnuðu þeir dyrnar upp á gátt?  Það er spurning sem Geir þarf að svara. Með því að draga Geir fyrir landsdóm er í raun verið að draga alla meðreiðarsveina hans þangað líka.   Það er alveg bráðnauðsynleg naflaskoðun fyrir þessa þjóð.

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 18.1.2012 kl. 09:31

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Nei Bjarni, ég gleymi engu, ég sagði allt.

Sleppti því bara að skrifa ritgerð til að rökstyðja hverja setningu.  Það geri ég í athugsemdarkerfinu ef einhver vill ræða málin frekar. 

"...  hugmyndafræðibylting Nýfrjálshyggjunnar tryggði þeim stuðning ráðandi stjórnmálaflokka."

Þetta hélst allt  í hendur en fólk  má aldrei gleyma að stjórnmálamenn eru afleiðing, sjaldnast orsök.  Stjórnmálamenn í ráðandi flokkum fara ekki gegn hugmyndafræðinni, gegn keyptum fjölmiðlum, gegn mútuðum háskólamönnum.

Vissulega undantekningar eins og Davíð Oddsson, en honum var skipt út, settur á eftirlaun stjórnmálamanna.

Því kerfið lætur ekki bylta sér innan frá, byltingin kemur alltaf að utan.

Geir Harde hefði ekki enst einn dag í embætti hefði hann reynt að koma böndum á bankamafíuna, svo einfalt er það.

Og það er í grundvallaratriðum röng ályktun hjá þér að með því að "draga Geir fyrir landsdóm er í raun verið að draga alla meðreiðarsveina hans þangað líka".  Þetta er ákkúrat þveröfugt, með því að draga Geir Harde einan fyrir dóm þá ertu að frýja aðra meðreiðarsveina ábyrgð. 

Og fyrst og síðast er leikurinn gerður til að umræðan snúist ekki um raunverulega gerendur Hrunsins.

Og á því er ég að vekja athygli.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 18.1.2012 kl. 10:13

3 identicon

Mér finnst þú fara ágætlega af stað í pistlinum en svo eins og ubeygja í þeim seinni. 

Ég held að það sé alveg rétt hjá þér að byltingin komi að utan, það var t.d. sögulegt hlutverk Davíðs Oddssonar að rífa allt niður (ruddi frjálshyggjunni braut) sem hafði verið sögulegt hlutverk Jónasar frá Hriflu að byggja upp.  Báðir voru í raun eins og pólitískar tískulöggur, þýðendur útlendra áhrifa. Báðir höfðu mikið til sinna sjónarmiða, en það er alltaf stutt í háskann frá hugsjónunum. Samfélagsleg forræðishyggja Jónasar kom ekki nógu vel út hjá þýskum og endaði hér í einhversskonar forstjórakapítalisma utan um fé án hirðis.   Frjálshyggja Davíðs reyndist síðan uppvakningur sem hann réð ekkert við og drap meira að segja kolkrabbann þann hinn sama og hafði veðjað á hann í upphafi.

              Framsóknarmenn eru og hafa alltaf verið tækifærissinnar og hentistefnumenn (það er þjóðareðli íslendinga) getur virkað vel sérstaklega í neyðarástandi en öllu verra  þegar þarf að koma með langtímaplön, þá getur framsóknarhugsunin valdið neyðarástandi. Ekki bætti úr þegar persónulegur metnaður Halldórs Ásgrímssonar dróg flokkinn á asnaeyrum út í fenið.  Vinstrimenn voru í sárum eftir fall kommúnismans. Samfylkingin fór leið Blairismans þ.e. gerðist ómerkileg hækja fyrir frjálshyggjuna en Allaballar þeir er eftir urðu vissu hvorki upp né niður en fylgdu Steingrími J. sem talaði fallega en var eins og H.Á. eingöngu að fylgja eigin metnaði en gaf skít í hagsmuni heildarinnar.      

En hvað gerðist eiginlega? Hvar lá meinsemdin? Maður heldur hitt og þetta en vantar staðfestingar. Ég held ekki að núverandi stjórn hafi viljað landsdóm eða séu að þessu í pólitískum tilgangi. Hin pólitíska samkend elítunnar er alltof sterk til þess. Þeir glöptust á landsdómsleiðina vegna reiði í samfélaginu. Hugleysingjarnir og mannleysurnar í Samfylkingunni drógu þó sína menn út svona rétt eins og ítalski skipstjórinn sem fór fyrstur frá borði.      Vissulega er bölvað að ná ekki til Halldórs og Davíðs, á þeirra vakt var þjóðarskipinu siglt allt of nærri landi þó að Geir og Solla hafi verið dubbuð upp í skipstjóra og stýrimann á síðustu metrunum. Hinir löngu komnir í lúxusbjörgunarbáta lífeyrissjóðskerfisins.  

Ég held að þú sért á röngu róli að telja þetta pólitískar árásir, þetta eru pólitísk "mistök" sem geta orðið þjóðinni til heilla ef Geir fer fyrir landsdóm! 

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 18.1.2012 kl. 13:05

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Bjarni.

Taktu það ekki nærri þér þó þú náir mér ekki í fyrstu atrennu.  Þú ert ekki sá fyrsti og fæstir ná mér nokkurn tímann, en hafa samt gaman að kíkja við og máta hugsanir sínar við skoðanir bloggara.

Kjarninn í því sem ég er að benda á er að hið eiginlega réttlæti felst í að fórnalömb Hrunsins, almenningur fái réttlæti.  Að skuldir hans séu gerðar viðráðanlegar, að þjófnaður gengis og verðtryggingar sé leiðréttur og almenningur haldi heimilum sínum.  

Það hefur ekki verið gert.  

Á sama tíma þá sjáum við hverjir hafa fengið afskriftir og hvað miklar, og við þá frétt blogga ég þennan  pistill.

Á þessu eru skýringar sem ég útskýri, lauslega hér en allt á sér dýpri umfjöllun í bloggi mínu og athugasemdum hér og þar og allsstaðar.

Aðferðafræðin er einföld, hvort sem þú lest Macchivelli og umfjöllun hans um Borgara eða spáir í grænum baunum Steingríms, þá er lógíkin einföld, náðu stjórn á umfjölluninni og láttu hana snúast um allt annað en þú ert að gera.

Og miðað við hvað þetta fólk fór illa með þjóðina þá er endurkoma þess ekki þessa heims, að ég hygg.  

En allt byggist þetta á trúgirni og að fólk láti plata sig, fífla sig eins og ég orða í fyrirsögn.

Þú mátt alveg trúa þinni mynd af Landsdóminum fyrir mér.  Að eitthvað annað en pólitísk hráskinnskaup hafi búið að baki að einn maður af mörgum sem báru ábyrgð, sé ákærður.  Og sú ákvörðun var meðal annars tekin af fólki sem bar sömu ábyrgð.

En þú ert bernskur í trú þinni Bjarni ef þú telur að útúrsnúandi lögfræðiskotgrafahernaður upplýsi eitthvað um það sem raunverulega gerðist.  Það er skýring á því að menn stofna rannsóknarnefndir til að fara yfir svona mál og á grundvelli þeirrar vinnu fari yfir og ræði málin.  Fyrir opnum tjöldum, með því markmiði að fá sannleikann upp á yfirborðið.

Mér vitanlega kann sagan engin dæmi um að eitthvað gott hafi komið út úr skotgrafahernaði þar sem ólíkar fylkingar skiptast á að bömma hverja aðra.  Réttarhöldin um Geir Harde munu aðeins snúast um eitt, og það er hvort ákæran standist gildandi lög.  

Og það er augljóst að hún gerir það ekki.

Gildismat er aldrei forsenda dóms í réttarríki, að eitthvað hefði átt að vera gert, á þennan eða hinn veginn.  Um það verða menn seint sammála.

En á meðan halda þjófarnir áfram að stela, því kerfið er hannað um þjófnað þeirra.  Það er kerfið sem er sekt, og þeir sem græða á sekt þess, þeir ráða öllu.

Og eru núna skellihlæjandi hve auðvelt var að fífla þessa þjóð.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 18.1.2012 kl. 17:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.5.): 6
  • Sl. sólarhring: 360
  • Sl. viku: 3849
  • Frá upphafi: 1329380

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 3375
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband