Lygamerðir evrunnar.

 

Á sama tíma og umræðan í Evrópu er á þann veg að annaðhvort sé það of seint að bjarga evrunni eða stjórnmálamenn evrusvæðisins séu á síðasta snúning við björgun hennar, þá fylkja lygamerðir evrunnar liði á Íslandi.

Þeir ríða um héruð jafnt sem og yfirfylla ríkismiðla og boða helgisögnina miklu, að evran sé lausn á öllum vanda íslensku þjóðarinnar.

Núna nýlega hélt ASÍ morgunfund (vinnandi fólk ekki velkomið) þar sem framtíð krónunnar var nídd niður.  Og vissulega er það rétt, krónan á enga framtíð meðan verklýðshreyfingin kemst upp með að gera kjarasamninga sem engin innistæða er fyrir.  

Það er að segja stöðug króna en ef þjóðin hefði evruna þá yrði hún fljótlega gjaldþrota með núverandi forystu ASÍ.  Því raunveruleiki evrunnar er sá að hún er sniðin um efnahag Þýskalands og það þýðir meðal annars að það er þýska verkalýðshreyfingin sem ræður launaþróun evrusvæðisins.  Og Þjóðverjar hækka ekki laun nema eiga vel fyrir því.  Og þá kannski.

 

Annar mörður var í Silfri Egils núna nýlega.  

Hann hefur aðra nálgun á boðun sinni helgisögninni um evruna, hann ræðst beint að þjóð sinni, snýr ófullkomleika hennar upp á versta veg og lætur eins og að heimur helgisagnarinnar sé fullkominn.

Við erum svo spillt sagði hann Agli og lygndi aftur augunum.

 

Og það er rétt, spilling þrífst á Íslandi og hefur gert frá því að land byggðist.  En við erum ekki einstök í þeim málum, í fyrstu rituðum textum sem varðveist hafa, frá Súmeru, er minnst á spillingu ráðamanna.  Og síðan þá hefur ekki lát verið á umfjöllun um hana.

Mörðurinn hlýtur þá að meina að við séum spilltari en aðrar þjóðir.  Og þar sem hann er fræðimaður, prófessor, þá skyldi maður ætla að Ísland kæmi mjög illa út í alþjóðlegum rannsóknum þar sem spilling einstakra landa er metin og borin saman við aðrar þjóðir.

Vissulega erum við bara í þrettánda sæti árið 2011 samkvæmt " Corruption Perceptions Index 2011" og gætum staðið okkur betur, til dæmis vorum við í öðru sæti árið 2003.  En hvaða fræðimennska er það hjá merðinum að nota spillingarrök fyrir núverandi vanda íslensku þjóðarinnar, sérstaklega í ljósi þess að aðrar þjóðir Vesturlanda eiga líka í gífurlegum vandamálum.

Og hvað vill hann, að við séum jafn spillt og Evrópusambandið sem hefur ekki einu sinni getað skilað af sér ársreikningi í mörg mörg ár????  Vill hann að það sem er gott, en gæti vissulega verið betra, að það sé gert vont, verra verst????

Enda glotti Egill út í báðar kinnar og það þarf mikið til.

 

Þetta er lítið dæmi um bullið hjá merðinum í Silfrinu, hann fann það líka út að alþjóða fjármálakreppan hefði ekkert með fall íslensku bankanna að gera.  Þeir féllu vegna spillingar og krónunnar, og ef Egill hefði spurt, þá hefði mörðurinn farið létt með að kenna séríslenskum vandamálum um fall banka í Bandaríkjunum og Bretlandi.  

Að eitthvað sé að forsendum fjármálakerfa Vesturlanda hvarflar ekki að honum.  Hugsanlega hefði hann bent á að vandi breta og Bandaríkjamanna stafaði af því að löndin hefðu ekki evru sem gjaldmiðil, en aðeins hugsanlega, líklegri skýring er íslenska krónan.

 

Það aumkunarverðasta við þetta er að fólk trúir þessu bulli út í eitt.  Það er klappað hæst fyrir þeim sem níða mest niður skóinn af þjóð sinni.

Skiptir fólk engu þó Sameinuðu þjóðirnar eru á fulli að mæla lífskjör, stjórnarfar, heilsufar og íslenska þjóðin skorar hátt á öllum mælikvörðum. 

Þrátt fyrir krónuna, þrátt fyrir spillt stjórnvöld.

Þrátt fyrir að hún sé ófullkomin eins og annað í þessum heimi.

 

Það er ótrúlegt að heill stjórnmálaflokkur skuli gera út á svona aumingjatal, og það er sorglegt að Andstaðan sem reis upp eftir Hrunið, hefur týnt sér alveg í svona tali.

Við erum verst, aumust, spilltust.

 

Margt er að í íslensku þjóðfélagi en leiðin til að bæta þjóðfélagið er að gera það betra sem við höfum, ekki að kasta sjálfstæði þjóðarinnar á mykjuhaug ESB.   Og enda uppá náð og miskunn fjarlægs miðstjórnarvalds, sem útnári eins og við vorum á meðan við réðum ekki sjálf okkar málum.

 

Vandi þjóðarinnar er ekki krónan og vandi þjóðarinnar leysist ekki með upptöku evrunnar.

Vandi þjóðarinnar er röng forgangsröðun, þar sem stjórnvöld taka fjármagn fram yfir fólk.  

Lýsandi dæmi þess er að við fórnum innviðum samfélagsins fyrir nokkra milljóna sparnað en borgum á sama tíma tugþúsunda milljóna í óþarfa vexti.

 

Og þjóð sem tekur fjármagn fram yfir fólk, endar alltaf í örbirgð og vesöld.

Því efnhagslífið, fjármálakerfið, öll yfirbyggingin byggist á velferð og velmegun fólks, að það njóti menntunar, njóti heilsugæslu, og að athafnasemi þess og dugnaður fái að blómstra í friði fyrir ofvöxnu regluverki, arðráni auðmanna  og blóðtöku fjármagns.

 

Það er framleiðsla okkar, jafnt til innanlandsbrúks sem útflutnings sem ræður velmegun okkar.

Og framleiðsla okkar byggist á heilbrigðum innviðum ásamt því að fjárfest er í menntun, samgöngum og sprotum. 

Að menn skilji þá einfalda hugsun að öll uppskera byggist á því að það sé sáð fyrir henni, og að hún sé sáð í frjóan jarðveg og njóti þar bestu vaxtarskilyrða.

 

Skortur á þessum skilningi er vandi íslensku þjóðarinnar í dag. 

Krónan hefur ekkert með þann skilningskort að gera og innganga í ESB mun engin áhrif hafa til að bæta úr þeim skorti.  

Þvert á móti, hún eykur vandann.  

Því sagan kennir að útnári er alltaf fátækur.

 

Íslendingar standa á tímamótum, líkt og aðrar þjóðir Vesturlanda. 

Annars vegar er það hyldýpi kreppunnar, hins vegar er það að fikra okkur áfram til betra mannlífs, betra samfélags.

Í dag erum við á breiða veginum og lygamerðir evrunnar vilja auka hraðann á þeirri leið.

 

Við megum ekki gleyma því að þetta eru sömu aðilarnir og töldu okkur í trú um að allt væri í stakast lagi í aðdraganda Hrunsins.  

Og reyndu að sannfæra okkur um að velmegun þjóða fælist í einokun stórfyrirtækja (hagkvæmi stærðar) og auðsöfnun hinna ofurríku.

Og svo margt annað sem þeir bulluðu um.

 

Þeir höfðu rangt fyrir sér þá og hafa rangt fyrir sér nú.

Enda eru þeir ekki lygamerðir fyrir ekki neitt.

 

Í ICEsave deilunni reyndu þeir að telja okkur trú um að fjárkúgun breta byggðist á lögum og reglum ESB og að það væri í þágu velferðar þjóðarinnar að hún tæki á sig hundruð milljarða fjárskuldbindingar vegna starfsemi einkabanka í útlöndum.  Að slík ofurskuldsetning væri forsenda hagvaxtar.

Þá endaði ég oft greinar mínar á orðunum, "við eigum öll líf sem þarf að vernda".

Vísaði þar til að þjóð sem trúir lygamörðum á enga framtíð.

 

Ég ætla halda  mig við þessa speki  mína en bæta því við; hættum að láta ljúga að okkur.  Og losum okkur við stjórnvöld sem breyta rangt.  

Sem taka fjármagn fram yfir fólk.  Sem kæfa alla grósku og allt framtak.

Sem telja okkur í trú um að við getum ekki verið sjálfstæð því við séum svo aum, veik, spillt.

 

Hættum að trúa lygamörðum og förum að trúa á okkur sjálf.

Og gerum eitthvað í okkar málum.

 

Áður en það verður of seint.

Kveðja að austan.

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góð grein hjá þér Ómar og svo sannarlega orð í tíma töluð.

Við skulum vara okkur á lygamörðunum, sem margir hverjir vaða nú uppi í eigin sjálfsupphafningu og eru allt of margir fastir viðmælendur með úrtölur sína og vesældóm þjóðarinnar, í Silfrinu og hjá fleiri fjölmiðlum !

Gunnlaugur I (IP-tala skráð) 16.1.2012 kl. 17:53

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Þessi silfurmörður kom að mínu mati illa út úr viðtalinu, sérstaklega þegar hann fór að tala um friðin í Evrópu og lét að því liggja að með ESB væri aðalmálið að tryggja frið í Evrópu.  Það er sem sagt búið að skipta um kúrs, nú er það friðurinn sem er aðalmálið þegar hann getur ekki lengur tengt velsæld aðild að Evrópu, enda þvældist fyrir honum að réttlæta inngöngu í ESB núna.  Ég hef megna fyrirlitningu á svona fólki og það er mín persónulega skoðun að slíkir séu á mála hjá Brussel og sé greitt fyrir að þvinga okkur þangað inn með loforðum um gott gengi innan ESB þegar við erum kominn í ánauðina.  

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 16.1.2012 kl. 18:32

3 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Gunnlaugur.

Ég verð að játa að ég sá ekki nema 2 mínútur af Silfrinu, en glottið á Agli fór ekki framhjá mér.  

Það er viss andstaða að leyfa þessum mönnum að bulla í beinni, núna þegar raunveruleikinn blasir við öllum.

Og þegar á reyndi þá kom Egill með Lipietz.

Það verður seint þakkað.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 16.1.2012 kl. 19:06

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessuð Ásthildur.

Allavega í núinu þá ber ég ekki mikla virðingu fyrir þessu liði, og það leynir sér ekki í orðnotkun minni.

Ég hef oft hugsað, hvað er svo slæmt við ESB að ekki er hægt að segja stakt orð satt um aðildina að sambandinu, um bæði kosti hennar og galla????

Og svo megum við ekki gleyma einu, friður í fortíð segir ekkert um friðinn í framtíðinni.  Núna þegar almenningi er fórnað á altari evrunnar, þá mun sjóða upp úr.

Suður Evrópubúar munu ekki til lengdar sætta sig við arðrán Þjóðverja.

Og ef auðstéttin heldur áfram sukki sínu og svínarí, þá mun líka sjóða uppúr í París og London.

Og hvar er þá friðurinn????

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 16.1.2012 kl. 19:10

5 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Einmitt Ómar friðurinn er eiginlega á ystu nöf, líka hér heima. Ég bara finn á sjálfri mér að ég er búin að fá algjörlega upp í kok af þessu fjandans liði og stend sjálfa mig að því að óska þeim norður og niður, þó er mér þannig farið að ég get ekki einu sinni drepið mýs, og er öll vor að bjarga býflugum upp úr tjörninni minni,týni upp ánamaðka af götunni eftir rigningu og kem þeim í skjól.  Þá er fokið í flest skjól tel ég. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 16.1.2012 kl. 19:21

6 identicon

Mjög góð grein hjá þér og er sammála þér í hverju orði. Flest þetta lið sem á þingi situr er meira og minna búið að ljúga að þjóð sinni og svíkja bak og fyrir. Ekkert af þesssum lygamörðum sér sóma sinn í því að koma sér burt vegna þess að það er ekki hefð fyrir slíku á Íslandi og skiptir engvu máli hversu mikið sumir brjóta af sér, Þeim er þá bara gefin uppreisn æru svo þeir geti haldið áfram. Maður er alveg búin að fá meira en nóg og það fyrir löngu síða. Svo ég bendi á að slæmt er nú ástandið orðið Þegar Ásthildur er farinn að hugsa þeim þegjandi þörfina, þá getum við bara ímyndað okkur hvað aðrir hugsa.

Sigurður Kristján Hjaltested (IP-tala skráð) 16.1.2012 kl. 19:46

7 Smámynd: Ómar Geirsson

Kannski í rass og rófu???

Takk fyrir innlitið Sigurður.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 16.1.2012 kl. 21:41

8 identicon

Ómar. Þú hefur skrifað margan góðan pistilinn. Þessi er með þeim betri og þörf upprifjun og áminning. Vonandi getur þú gefið þér tíma til að halda þínu góða verki áfram. Það er margur sem les pistlana þína og nýtir vopnabúrið sem þar er oftast að finna. Fleiri en þú gerir þér ljóst. Hafðu þökk fyrir.

Rekkinn (IP-tala skráð) 16.1.2012 kl. 22:00

9 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk Rekkinn.

Ég er þakklátur hvað margir lesa þessi skrif mín þrátt fyrir stopula ástundun síðustu mánuðina.  Og ég er ekkert hættur, hef ennþá verk að vinna því stríðinu er ekki lokið.  Veit ekki hvernig en veit að þeir ætla að svíkja í ICEsave.  Það verður því að standa vaktina.

En þetta er óneitanlega miklu daufara þegar enginn hasar er í gangi, allavega leiðist mér lognmollan.

Les þá Óskar Helga mér til hressingar.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 17.1.2012 kl. 07:01

10 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Er það ekki bara lognið á undan storminum Ómar, það er allavega þung undiralda, sem þyngist frekar en hitt. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 17.1.2012 kl. 12:43

11 Smámynd: Ómar Geirsson

Finnst þér það Ásthildur????, mér finnst frekar lítið fara fyrir henni.   Taldi að eitthvað myndi gerast haustið 2010 en þegar á reyndi þá skorti skuldurum þessa lands kjark til að rísa upp.  Restin á þjóðinni er komin á eyðslufyllerí og er ligeglad svo framarlega ef aðrir lenda í niðurskurði eða atvinnuleysi.

Veit ekki hvað veldur en þetta er bara svona.

Ég held að Hrunið í útlöndum muni valda ólgu og upplausn sem að lokum mun skila sér hingað til Íslands í andófi gegn ríkjandi kerfi sem byggist á siðleysi og sjálftöku fámennrar auðstéttar.

Að fólki muni að lokum sjá að þetta er allstaðar sami óvinurinn og að lausnin sé alltaf sú sama.   Að standa saman og hafna kerfi auðráns og rányrkju.  Og hugmyndafræðarinnar sem þar að baki býr.

Að fólk hafni í eitt skipti fyrir öll hörmungum í nafni hugmyndafræði og um leið taki sig taki og geri upp við þær lífsskoðanir og viðhorf sem leiða alltaf til átaka og hörmunga.

Eða eins og ég segi stundum, að fólk horfi á börnin sín ákveði að það vilji verða afar og ömmur.  Og aðeins það sjálft, hugsun þess og gjörðir geti tryggt að svo verði.

Hugmyndafræðin er löngu þekkt, hún kveður á um að þú eigir að gæta þíns minnsta bróður, að þér eigi að þykja vænt um náungann og að þú eigir að yrkja þinn garð.

Og þú þarft að verja þann garð fyrir þjófum og ræningjum.

Ég sé ekki Ásthildur að nokkuð sé það að gerast hér á Íslandi sem fær fólk til að uppgötva þessi einföldu sannindi.  Þjóðin kýs að veðja á hið fallna kerfi og á þá einstaklinga sem er fyrirmunað að skilja að það var reist á sandi, og mun ætíð hrynja undan sínum eigin þunga.

Þeir munu fá annað tækifæri til að hafa aftur rangt fyrir sér.

Mikið af þessu fólki vill vel en þó þú dreifir blásýru í nafni kærleika, þá uppskerðu aðeins dauða þó í kærleika sé.

Aðeins siðferðislega gjaldþrota þjóða lætur allar deilur kristallast um aðild að dauða efnahagsbandalagi á meðan þúsundir heimila líður neyð.  Og að gjaldið við inngöngu er að skuldsetja þjóðina í erlendri mynt til helvítis.

Slík þjóð veldur engum stormi, kannski hávaða, en hún hefur engin áhrif á veðrabrigðin.

Þau koma að utan.

Kveðja að austan. 

Ómar Geirsson, 17.1.2012 kl. 17:45

12 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Að mörgu leyti hefurðu rétt fyrir þér Ómar, en ég vil taka Pollýönnu á þetta og vona það besta.  Vonin er eiginleg það eina sem við eigum eftir. Reyndar sagði Lilja Mósesdóttir í síðdegisútvarpinu áðan að mikið væri að kvarnast úr fjórflokknum, og mönnum myndi koma á óvart sumt það fólk sem hefur ákveðið að fylgja henni. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 17.1.2012 kl. 18:05

13 Smámynd: Ómar Geirsson

Já, líklegast vantaði Pollýönnu í upptalningu mína hér að ofan, án trúar á hið góða er engin von.

En þó ég eigi  mínar hugsjónir byggðar á ákveðnum lífsskoðunum sem mér var kennt í æsku, þá er ég fyrst og síðast stríðsmaður hér í bloggheimum og maður hefur lítið að gera í stríð ef maður metur ekki styrk andstæðinganna raunsætt.  Og spáir í hver verður næsta orrusta.

Það er staðreynd að fjórflokkurinn er með um 60-70% fylgi meðal þjóðarinnar, íhaldið sínu mest.  Innan hans hefur ekkert uppgjör átt sér stað við forheimskuna, nema í þeirri heiðarlegu undantekningu sem Sigmundur Davíð er. 

Svo er það hún Lilja, megi hún fá sem mest fylgi en hingað til hef ég ekki hitt venjulega manneskju sem skilur fyrir hvað Lilja stendur.  Heilbrigð skynsemi og þekking er ekki eitthvað sem vekur hrifningu hjá fólki, lýðskrum, bull og lygi á miklu greiðari aðgang að þjóðarsálinni.  Lilja mun ekki meika það, ekki nema þá að Ögmundur geri uppreisn og stofni nýjan flokk með Lilju sem efnhagsráðgjafa. 

Fólk hlustar á Ögmund.

Þá er það lausa fylgið, út á það ætla margir að gera.  

Þar er sterkasti kandídatinn Mútufé ESB í ýmsri mynd.  Peningar og aðgangur að fjölmiðlum mun tryggja því fylgi. Og hjálpa þjóðinni að fara úr öskunni í eldinn.

Svo er það hreyfingin í kringum Hreyfinguna sem virðist ætla að fylkja liði með öðrum óánægðum jaðarhópum í pólitík.  Landsbyggðarhatur hefur náð nýjum hæðum hjá Hreyfingunni og allavega þeir sem eiga heima út á landi munu berjast á móti, svona þegar þeir átta sig á úlfinum.

Og svo er það hver???

Ekki sé ég það en ég hef alltaf huggað mig við þá staðreynd að á Íslandi býr ótölulegur fjöldi af góðu fólki og það er í öllum flokkum.  En hugmyndafræðin og hugljómunin sem þarf til að það fylki sér í eina fylkingunni gegn tregðunni sem öllu vill í hel koma, er ekki sjáanleg, og það sem verra er, maður finnur ekki einu sinni lyktina af henni.

Ögmundur kannski, spurning?????  

En eins og ég sagði Rekkann, þá hafa stríðsmenn nóg að gera, núna brýna þeir axir.

Og berjast fyrir þeim málstað sem þeir telja vænlegastann.

Ég hygg að næstu breiðsíður mínar munu dynja eins og oft áður, á fólki sem ég átti einu sinni samleið með.  

Stjórnarskráarmálið mun kveikja elda á landsbyggðinni, hún lætur ekki endalaust míga á sig.

Og þá ætla ég að fylkja mér um höfðingja af mongólsku bergi, þó aðeins sé um einn blóðdropa að ræða að mér skilst.  Hann brýnir, hann eggjar.

Og hvetur fólk til að verja samfélag sitt og búsetu.

Og það ætla ég mér að gera.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 17.1.2012 kl. 19:52

14 identicon

Hraustlega mælir þú og af kappi góðu Ómar, sem jafnan.

"Það er löngu orðið tímabært að efna til kosninga, þannig að kjósendur geti komið fólki inn á þing sem skilur skuldavandann og vill leysa hann"

segir Lilja Mósesdóttir í athugasemd við pistil á heimasíðu HH um "Fagleg vinnubrögð eða fúsk Hagfræðistofnunar Háskólans?"  Algjört fúsk og loddaraskapur er niðurstaða HH um vinnubrögð Hagfræðistofnunar Háskólans, sem kemur víst ekki almennningi á óvart, eftir bullið sem þaðan hefur komið, iðulega aðkeypt af greifum og furstum.

Mér finnst Lilja vera mjög skiljanleg, en gott væri fyrir hana að hafa svo öflugan mann sem þig Ómar í liði.  

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 20.1.2012 kl. 02:59

15 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Pétur.

Ég var að bíða eftir kaffibollanum áður en ég settist niður til að spjalla.  Það er snúinn dagur framundan, ég ætla að reyna að gróðursetja þá hugmynd að ekkert uppgjör sé uppgjör nema fórnarlömb hamfara njóti réttlætis.  Á meðan Fýkur yfir hæðir á götum Reykjavík þá er ljóst að svo er ekki. 

Hef aðeins verið að æfa mig í glímu við tvö heljarmenni um rökin þar að baki. 

Hvernig er hægt að fá fólk til að sjá hver er kjarni hvers máls???

Ég veit að það hefur mikið með styrk og stöðu þess sem ræðir málið en líka held ég að þetta sé spurning um sannan tón sem yfirvinnur allar hindranir.  

Ég hef mikið spáð í þetta og oft reynt að nálgast stjörnuþokuna sem umlykur hann en aldrei haft erindi sem erfiði.  Næ ekki að setja mína sýn fram á þann hátt að aðrir sjái hana sömu augu og ég.  

Ekki að það sé eitthvað til að gráta yfir, að ná sönnum tón er eitthvað sem gerist ekki oft á hverju árþúsundi því það þarf svo margt að ganga upp.  Bæði er erfitt að ná hreinum tón sem og að umhverfið þarf að hafa tóneyra til að nema hann.  Hefði Mozart slegið í gegn á öllum tímum???  Eða Paul McCartney????

En tóninn verður aldrei sleginn ef enginn reynir.

En gróðursetningin virðist stundum ganga upp, ef sami hluturinn er nefndur nógu oft, og þá tengdur við hina ólíklegustu  hluti sem við fyrstu sýn eiga fátt sameiginlegt, þá kemst hann oft inní umræðuna.  Mér er forvitni að vita hvort aðrir áhugamenn um skuldaréttlæti tengi sig við Landsdómsmálið.

Eða hvort taktleysið sé ennþá algjört.  

Ég hef oft hugsað til þess að skuldarar eru stærsti óánægjuhópurinn á landinu en engum hefur tekist að sameina þá í einni baráttu fyrir réttlæti.   

Sjáum til dæmis stöðu Lilju Mósesdóttur.  Hvaða fylgi hefur hún í raun að baki sér??  Mjög hæf málefnaleg manneskja sem virkilega skilur samhengi hlutanna.  En er aðallega þekkt fyrir að vera óþekk, ekki manneskjan sem strax náði að tækla vandann eftir Hrun og koma með raunhæfar tillögur sem hefðu bjargað svo mörgu og svo mörgum.

Af hverju stukku Hagsmunasamtök heimilanna ekki strax á Lilju og bökkuðu hana upp??  Menn þurfa ekki að vera sammála henni í öllu, og geta áfram kosið sína flokka og þá út frá víðara samhengi, en ef Lilja hefði fengið vægi, þá hefðu aðrir stjórnmálamenn komið á eftir og gert hennar málstað að sínum.

En í staðinn fengu málaliðar auðmanna að slátra henni.  Því enginn kom henni til varnar.

Þetta eru allt svona spúkí spurningar Pétur sem maður spáir í.  

En ég er The Lonley Rangers þó ekki sé ég eins snar með framhlaðninginn og Lukku Láki.  Ég samsinni mig aðeins við drauminn um betri heim og mun ekki fylkja liði með öðrum fyrr en ég heyri rödd með Sýn, þá skrái ég mig í fótgönguliðið.  

Ég er ekki að gera lítið úr Lilju og öðru góðu fólki sem vill vel.  Það er nauðsynlegt að til sé fólk sem spáir í hið daglega brauð, hvað þarf að gera til að takast á við skuldamál, uppbyggingu efnhagslífsins og svo framvegis.  Í raun lífsnauðsynlegt.

En það er ekki nóg.  Það þarf að fella sjálft kerfið og byggja upp nýtt á rústum þess.  Það þarf að fella auðhyggjuna og byggja upp samhyggju.  Annars verð ég ekki afi.  Svo einfalt er það í mínum huga.

Ég hef oft sagt að ekkert mannlegt geti útskýrt það sem gerðist á Íslandi eftir Hrun, hvernig heiðarlegt gott fólk breyttist alltí einu í ófreskjur sem nærast á blóði fórnarlamba Hrunsins.  Hvernig félagshyggjan breyttist í andhverfu sína.

Það var þá sem ég hætti að hlæja að spádómunum um heimsendi.  Ég tel að þeir sem sjá fram í tímann hafi skynjað sjálf átökin, átökin um framtíð mannsins.  Því í dag á hann enga möguleika, hann verður að taka næsta stig þroskans, að hætta leysa deilumál sín með hjaðningsvígum.   Það er tæknin sem útrýmdi valinu, það er hún sem er endanleg ef til stórátaka kemur.

Það verður heimsendir á næstu árum, endir þess heims sem við þekkjum.

Og valið stendur aðeins um tvennt, um rústir eða ég verð afi.

Og mér finnst þeir sem sáu fram fyrir nef sitt í gamla daga, vera glöggir að sjá þetta fyrir.

En auðvita hlæja flestir þegar maður setur hlutina fram á þennan hátt.  Fólk kann betur við þekkt hjólför en að skora auðmagnið á hólm.  Og þeir sem skora það á hólm, þeir vita ekki hvað á að taka við.  Eða réttara sagt, geta ekki komið sér saman um það.

Og þá þarf hugmyndafræðing.

Sá eini sem mér finnst reyna að hugsa og orða hugsanir sínar er Ögmundur Jónasson.  Það er um hann sem fólk eins og Lilja þarf að fylkja sér um, ekki öfugt.  

En Ögmundur virðist ekki skilja það, ekki hafa kjark til að rísa upp.  Kjark til að láta reyna á hvort hann geti slegið hinn sanna tón.

Segi ég og eiginlega eina ástæðan sem ég fór að blogga aftur eftir eyðimerkurdvölina er sú að ég ætla hafa bloggið virkt svo ég geti liðsinnt góðum dreng, hversdagshetju sem tók af skarið og ákvað að ekkert myndi gerast nema fólk tæki sig saman og léti það gerast.

Og í þeim stuðningi felst að ég þarf að hjóla í Ögmund, og það grimmt.

Og þannig er ástandið í dag Pétur, við erum öll í skotgröfum og enginn virðist geta hafið sig yfir þær.

En ég er stríðsmaður og þrífst í skotgröfum, kvarta aðeins þegar ekki er nóg fútt i gangi.  Ég veit ekki um virknina á bloggi mínu í dag.  Ég hef hjólað dálítið í skoðanir fasta kjarnans í lesendahóp mínum.  Reynslan segir mér að þá detta IP tölurnar niður og ef almenningur les ekki bloggið í dag, þá mun ég ekki hafa erindi sem erfiði.

En á einhvern hátt, ef rétt andrúmsloft næst á blogginu og fréttatenging býður uppá, þá ætla ég að reyna að vekja athygli á að enginn talar um einstæðar mæður sem eru bornar út af heimilum sínum.

Enginn nema Jónas Hallgrímsson, og hann er löngu dauður.

Og veistu Pétur, það væri ekkert mál að koma því inní umræðuna ef það væri einhver hópur fólks sem hefði metnað í þá átt.

En ég ætla alla vega reyna en það er atburðarrás dagsins sem sker úr um hvort ég næ flugi.  

Sjáum til.

Kveðja, Ómar.

Ómar Geirsson, 20.1.2012 kl. 09:06

16 identicon

Það er mér nú orðið algjörlega ljóst að skyldir erum við mjög í anda Ómar. 

Þér að segja Ómar, þá hef ég oft skrifað Ögmundi bréf á síðu hans, undir eigin nafni og einnig undir nöfnum sem ég hef notað í skæruliðahernaði mínum, sjaldnast til að skjalla hann, heldur einmitt til brýninga, sem þú hér.

Hugmynd þín um að "ekkert uppgjör sé uppgjör nema fórnarlömb hamfara njóti réttlætis" er afbragðsgóð til gróðursetningar og í reynd það sem málin eiga að snúast um, en ekki einmenninginn um Geir.

Mínar vonir hafa um nokkurt skeið verið þær, að Ögmundur, Lilja, Marinó og HH og "tunnurnar" og flokkur Guðmundar Ásgeirssonar, auk heiðarlegs og vandaðs fólks úr öllum flokkum, taki höndum saman og myndi nýtt stjórnmálaafl, sem sammælist um lýðræði og heiðarlegt uppgjör til réttlætis hinna raunverulegu fórnarlamba hamfaranna, þeas. hins óbreytta og venjulega fólks, Jóns og Gunnu og barna þeirra og framtíðar þeirra.  Við erum ríkt land og vel gerð þjóð og því ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að öllum gæti liðið vel hér, ef réttlæti ríkti hér.  Það er hins vegar með ólíkindum að ójöfnuður hafi farið hér vaxandi á tímum "vinstri velferðarstjórnarinnar".

En við, Ómar Geirsson, gefumst ekki upp.  Og pistla þína les ég alltaf, það máttu vita.

Með bestu kveðju, Pétur 

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 20.1.2012 kl. 15:12

17 identicon

En varðandi hinn dýpri undirtón hjá þér, um nýja sýn, sbr. fræga ræðu MLK um draumsýn og einnig gildi þess sem þú hefur oft rætt um, þeas. sannleiks- og sáttanefnd í stíl við NM, þá skil ég það vel.  En ég er svo mikill Hegelisti í mér, að ég tel að í okkur öllum búi viska alheimsandans og þess svipi þeim nú alltaf hjörtunum í Súdan og Gímsnesinu (og svo sem nýrunum líka).  Við erum í ferða-lagi og þá er mikilvægt að skynja hrynjandina og taktinn.  Annars er það svo í minni fílósófíu að frummyndir þær sem Plató ræddi um eru ekki endurvarp í helli, heldur búi þær í hjörtum okkar, enda vita allir, innst inni, hvað er rétt, hvað er satt, hvað er sanngjarnt, þó sumir kjósi stundum að sveigja hjá því, vegna drambs, hroka eða sið blindu.  Ég hef þá trú, að við séum í miðju ferli viðlíka vitundarvakningar og lýðræðisvakningar og varð í kringum árhundruðin fram að Kristi á krossi.  Eftir að Konstantín ríkisvæddi svo kristna trú í Rómaríki byrjaði hrynjandin að fipast í ríminu.  Ég ætla ekki að fílósófera meira um þetta, en Heracleitos sagði að ekkert er fast ... allt er hreyfing.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 20.1.2012 kl. 15:41

18 identicon

Hugur Steingríms Joð er hins vegar grjótfastur.  Þannig hugur hreyfist ekki, ekki fremur en Jóhönnu.

Þess vegna eru þau brátt dæmd úr leik, því ekkert er fast ... allt er hreyfing ... þau enda sem nátt-tröll.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 20.1.2012 kl. 15:47

19 Smámynd: Ómar Geirsson

Gefðu Steingrími séns, innst inni er hann vel meinandi sveitadrengur sem lét fínu strákana í stórborginni leiða sig á glapstigu.  Það sem okkur finnst vera grjótfesta í rangindum og valdstjórn er bara venjuleg þrjóska útnárabúans sem Halldór lýsti svo vel í Sjálfstæðu fólki þegar hann skrifaði um frænda minn í andanum, Bjart í Sumarhúsum.

Ef félagsskapurinn hefði verið annar og betri þá myndi þjóðin njóta góðs af þessu grjóti.  Trúðu mér því forsenda betri heims er trúin á að fólk sé í eðli sínu gott.  Svo náttúrulega þarf að sparka í rassgatið á þeim sem gleyma því að þeir eru ágætisfólk, en það er gert í fullri vinsemd þess sem er tilbúin að fyrirgefa um leið og fólk sé villu síns vegar, hvort sem það er vegna innri hugljómunar eða sársauka í rasskinnum.

Það er þetta með hreyfinguna, ég var farinn að halda að garðyrkjustörfin mín væru án tilgangs því eina hreyfingin sem ég mældi var hreyfing á pistlum mínum en ekki IP tölum.  Þjóðin var ekki á blogginu í gær en þetta reddaðist svo í gærkveldi.  Og vissulega trúi ég á að vitræn umræða skili sér þó ég kysi frekar fá viðbrögð á rök en fullyrðingar.  Og þetta styður það fólk á þingi sem tjáir sig á vitrænan hátt, ekki bara til dæmis Ögmund og Guðfríði, Árni Páll, sá margskammaði maður hér á bloggi, hann átti líka ágæta ræðu, ég lenti í að heyra hluta af henni og það var himinn og haf á milli  hans og frasaliðsins.  

Hvort fólk ræði svo alvöru uppgjör, það er önnur ella.  Upp til hópa þá gerir Andófsliðið það ekki, en mér finnst örla á að hin venjulega manneskja geri það.  Ég er með ágæta mælistiku á mannleg rök, hún Anna Sigríður kemur stundum inn og ég er alltaf ánægður þegar hún, öldruð heiðurskonan, finnur samhljómun hjá stráknum.

En fyrst og fremst hafa alvöru stjórnmálamenn komið þessari kröfu inní umræðuna.  Ég hjó eftir því í fréttunum að Jóhanna Vigdís lét hrífast að ræðu Guðfríður Lilju og matreiddi fréttina á þann hátt að aðrir komu út eins og kjánar miðað við hana.

Þar er kjarninn, þar er vonin, en svo eru hún og Ögmundur að væflast með Jóhönnu og Steingrími.  

En hvað um það, mér líst vel á að gott fólk nái saman og tel það skráð í skýin.  Forlögin eru að raða upp liði fyrir lokaátökin.

Eða eins og ég sagði við stóra bróður minn núna á dögunum, allar byltingar hefjast á því að einhver orðar nauðsyn þess að bylta, og þess vegna eigi menn ekki að vera feimnir að tjá hugsanir gegn hinu hefðbundna.  En ef byltingin á að verða til góðs er nauðsynlegt að rætt sé við almættið um stuðning og velvilja.  Þeim sem það gera er aldrei of mikið þakkað.  

Bloggið er ágætur vettvangur en maður gerir ekki síður gagn á labbinu á spjallinu.

Og það er miklu meira gefandi.

Bið að heilsa í borgina, takk fyrir spjallið Pétur Örn.

Kveðja, Ómar

Ómar Geirsson, 21.1.2012 kl. 13:51

20 identicon

Takk sömuleiðis ágæti drengur.  Og ég hef einnig veitt góðum orðum Önnu Sigríðar athygli.

Mbkv. Pétur Örn

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 22.1.2012 kl. 21:43

21 Smámynd: Ómar Geirsson

Eitt að lokum Pétur.

Garðyrkjustörfum mínum er lokið.

Lokapistillinn fæddist loksins núna í kvöld, ótengdur því enga fann ég fréttina til að tengja. 

Meira get ég ekki gert fyrir fiðrildin.

Ekki í bili.

Kveðja, Ómar.

Ómar Geirsson, 22.1.2012 kl. 23:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.5.): 35
  • Sl. sólarhring: 276
  • Sl. viku: 3878
  • Frá upphafi: 1329409

Annað

  • Innlit í dag: 34
  • Innlit sl. viku: 3403
  • Gestir í dag: 32
  • IP-tölur í dag: 32

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband