Í upphafi skal maður endann skoða og á endanum gera upp upphafið.

 

Þann fimmta febrúar hóf ég formlega bloggferil minn með grein, sem bar heitið " Í upphafi skal maður endann skoða " þar sem ég rakti ástæður þess að ég startaði andspyrnubloggi mínu gegn ICEsave og AGS, sem ég kallaði reyndar IFM á þeim tíma.

Í dag eru viss tímamót, ICEsave er að baki og AGS er ekki lengur ógn, það er að samstarfið við hann er lokið og líklegast hefur ekki ennþá verið gengið að lánum hans sem neinu nemur.

En þegar ég hóf bloggferil minn þá var rætt í fullri alvöru að nota 60% af tekjum ríkisins í vexti og afborganir, mest vegna ICEsave og AGS krónubraskaralánsins.  Eitthvað sem hefði þýtt endalok íslenska lýðveldisins og varanlega fátækt landsmanna, það er þeirra sem ekki hefðu kraft og getu til að flýja landið.

 

Ég er stoltur af því að hafa þorað á þessum tímapunkti að hafa farið í beina andstöðu við ógnaröflin, þá var umræðan í þjóðfélaginu allflest á þann veg að skuldaþrældómurinn væri óhjákvæmileg afleiðing af útrásarhruninu.

Mjög fáir þorðu að leggja nafn sitt við beina andstöðu gegn fjölmiðlum, gegn stjórnmálamönnum og öllum álitsgjöfum þjóðarinnar.  Fólki fannst þetta ekki rétt, talaði um sanngirni, að við ættum ekki að greiða svo og svo mikið, það ætti að rukka auðmenn og svo framvegis.

En að segja hreint út að bretar gætu troðið fjárkúgun sinni upp í óæðri endann á sér, var ekki eitthvað sem frómar sálir sögðu.  Við vorum nokkur sem gerðu það, gáfu aldrei afslátt á rétti þjóðarinnar og smátt og smátt náðum við að vinna skoðunum okkar fylgis.

Og við unnum baklandið, það var sama hvað auðfjölmiðlar landsins eða útibú breskra stjórnvalda, sem einu sinni var kennt við þjóðina, sögðu og lugu, sama hvað mannvitsbrekku úr háskólanum þau drógu fram, þjóðin hlustaði á okkur en ekki þau.

 

En þetta var ekki beinn og breiður vegur, Alþingi samþykkti samhljóða fyrsta svikasamninginn í ICESave 28. ág. 2009, og allflestum í andstöðunni fannst það sigur miðað við fyrstu ósköp Svavarssamningsins.  Þá bloggaði ég fyrir tómu húsi grein sem kallaðist "ICEsave er ekkert val" þar sem ég áréttaði að Alþingi hefði engan rétt til að semja við breta því krafa þeirra væri ólögleg samkvæmt íslenskum lögum, og andstæð regluverki ESB.

Það er því vissulega mikill sigur fyrir jaðarblogg að stjórnmálamenn viðurkenndu almennt fyrir ICEsave 3 svikasamninginn, að krafa breta væri "ólögvarin" og væri í raun kúgun.  En mörgum fannst reyndar skynsamlegra að semja en að standa í eilífar þrefi um ICEsave.  

Lokahnykkurinn var svo þegar Ólafur Ragnar talaði um "ofbeldi" breta og Evrópusambandsins.  Orðalag sem var notað strax hér á þessu bloggi við litlar vinsældir ráðvandra manna.

Sem sagt, við "öfgafólkið" höfðum sigur, og sjónarmið okkar um að krafa breta í ICEsave væri bein fjárkúgun, var almennt viðurkennt.  Og ríkisstjórn Íslands sendi ESA bréf þar um.

Og allt er gott sem endar vel.

 

Baráttan við AGS hefur ekki hlotið eins almenna viðurkenningu, en samt, af einhverju ástæðum gekk ekki allt það versta eftir.  Ekki bara að það krónubröskurum hefur ekki ennþá verið greitt út eins og samningurinn við AGS kvað á um, heldur líka atriði eins og síendurtekin frestun á almennum nauðungaruppboðum fólks, þrátt fyrir að um annað hafi verið samið, og smærri sigrar eins og ég horfi á út um glugga minn þar sem ég sé gröfur í óða önn byggja snjóflóðavarnargarð.  Eitthvað sem fjármálaráðherra sagði að AGS hefði ekki viljað sökum þenslu í hagkerfinu.  Hvað sem það nú þýddi því dauði og djöfull blasti við.

En samt er ég sáttur, ég var hluti af andófi sem allavega veitti ráðamönnum aðhald.

 

Annað gekk verr.  Stærsti ósigurinn er sigur stjórnvalda yfir heimilum landsins.  Um það átti ég marga pistla,  en ólíkt ICEave, fyrir tómu húsi.

En á heildina litið var þetta gaman, hér leit margt fólk inn og tjáði sig með og á móti,.  Bæði uppskar ég skammir, sem ég reyndi óspart að vinna mér inn með ögrandi stíl, sem og jákvæð ummæli sem voru einlæg og gefandi.

Og þegar ég gaf af mér í þessum pistlum, þá get ég ekki kvartað yfir undirtektum.  Þarna úti er margt fólk sem finnst tilbreyting að lesa sérvisku eftir sérvitring.  Sem segir mér að það er markaður fyrir velmeinandi fólk sem vill þessu landi vel.

Markaður sem er alveg ótrúlegt að einhver stjórnmálamaður hafi ekki nýtt sér.

 

En allt gott og skemmtilegt tekur enda (hjá mér hafa þeir verið fleiri en puttar beggja handa geta talið og þeim á örugglega eftir að fjölga) og eins og það er gott að skoða endinn í upphafinu, þá er líka gott að skoða upphafið í endanum.

Ég tel að þetta blogg hafi verið í sigurliðinu í ICEsave og það mun einhvern tímann vera í sigurliðinu gegn kúgun og arðráni bankamafíunnar á almenningi þessa lands.  Og það á sér þann draum að vera líka í sigurliði heimsins gegn sömu öflum.

Á því er einhver bið en allar "biðir" taka enda.

Heimskreppan blasir við og hún er upphaf þriðju heimsstyrjaldar sem fátt virðist geta hindrað í dag.  Við því er lítið að gera, annað en að biðja fyrir guði og góðu fólki.

Og þegar orð bloggsins duga ekki, þá reynir maður bara bænirnar.  Og það mun ég svikalaust gera næstu misseri.

Það þarf enginn að skammast sín að biðja fyrir lífinu og framtíð þess.

Og bænir hafa áhrif, mun meiri en orðræða sem varar við hættum sem fáir sjá og skynja.

Fari allt á betri veginn þá er það staðfesting þess að bænir virki, geri það ekki þá hefur maður allavega reynt það sem í manns valdi er til að stöðva ógnaröflin sem hóta að eyða framtíð barna okkar.

 

En baráttan við ICEsave og AGS er búin, hún er sagnfræði í dag. 

Önnur barátta er ekki í sjónmáli, allavega ekki sem ég get samsinnað mig við.

En bloggið lifir, og andófið lifir.

Hér sem og annars staðar.

 

En ég ætla að pásast næstu vikurnar af persónulegum ástæðum, ekki vegna þess að ég hef gefist upp eða ég telji baráttuna tapaða.  Heldur bara vegna þess.

Og þegar þar að kemur verður nýtt upphaf þar sem endirinn verður skoðaður.

Því stríðið heldur náttúrulega áfram og enginn er stikkfrí í þeim átökum.

 

En ég pára þessar línur á tölvuskjá til að útskýra hina meintu þögn, og um leið til að tjá óendanlegt þakklæti til allra þeirra sem hafa lesið og stutt baráttu þessa bloggs gegn ógnaröflunum sem ógna framtíð barna okkar.

Og ég minni á hið fornkveðna og hef það mín síðustu orð í bili.

 

Við eigum öll líf sem þarf að vernda.

Kveðja að austan.

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Það verður leitt að sjá á eftir þér af þessum vettvangi Ómar, en auðvitað er það þín ákvörðun.

Þakka öll skrif þín, þau hafa verið skemmtileg og fróðleg aumum bloggara að vestan.

Gunnar Heiðarsson, 5.10.2011 kl. 19:27

2 identicon

Hið versta mál fyrir okkur, en örugglega hið besta fyrir þig og þína.  Hafðu bestu þakkir fyrir fyrir ómetanlegt framlag og magnaða pistla.  Kannski þú þú hafir rýmri tíma til að dundað við að bæta veðurfarið hér á suð/vestan horninu með hæfilegum skömtum af því Austfirska...??

Guðmundur 2. Gunnarsson (IP-tala skráð) 5.10.2011 kl. 20:07

3 Smámynd: Haraldur Haraldsson

með kveðju að sunnan, munum við sakna þessara góðu písla að Austan,en það koma ,vonandi tímar og ráð hjá þér Ómar bloggvinur að koma inn aftur tvíefldur,ef heimur ekki ferst???/Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 5.10.2011 kl. 21:07

4 Smámynd: Elle_

Oh, hann kemur aftur með ómissandi pistla.  Hann mætir í skæruliðagallanum.  Hann ætlar líka bara að skoða endann á e-u, ekki endinn, þannig að við skulum hafa von-_-  En ICESAVE var ekkert val, NEI og aftur NEI.

Elle_, 5.10.2011 kl. 22:31

5 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Takk fyrir frábært blogg...

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 6.10.2011 kl. 01:36

6 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

  Geymdi pistilinn til að enda yfirferð þessa dægurs. Eftir langa upprifjun í huganum,virðist sem stjórnvöld hafi allan tímann,vitað að Icesave var ekki okkar skuld. Það sannar bréf þeirra til ESA. Þið hugrakka unga fólk, Ómar þakkir og góðar óskir.

Helga Kristjánsdóttir, 6.10.2011 kl. 01:47

7 identicon

Ég segi sem Elle "Oh, hann kemur aftur með ómissandi pistla.  Hann mætir í skæruliðagallanum."

Af fullri einlægni sagt:  Takk Ómar fyrir alla frábæru pistlana þína hingað til ... og síðar, vonandi fyrr en síðar.

Við bíðum, enda er ljóst að þegar Ómar byrjar næstu atrennu gegn óréttlæti, þá er bil tímans liðið

og þörf á stórsókn runnin upp og þá mætum við skæruliðarnir.

Með bestu kveðju úr suddanum. 

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 6.10.2011 kl. 03:14

8 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Mæli með að þú hvílir þig í smá tíma og kíkir svo aftur. Gangi samt vel með það sem þú ætlar að gera.

Kv V

Valdimar Samúelsson, 6.10.2011 kl. 11:50

9 Smámynd: Umrenningur

Takk fyrir það sem komið er. Ég er nokkuð viss um að von er á meira frá þér, næg eru tilefnin því miður. Hafðu það sem allra best þar til næst.

Bið að heilsa í víkina fögru.

Umrenningur, 6.10.2011 kl. 18:31

10 Smámynd: Magnús Óskar Ingvarsson

Ómar, þú átt miklar þakkir skilið fyrir alla þína eldheitu og tæpitungulausu pistla. Vonandi verður hléið þitt ekki nema einhverjar vikur eins og þú talar um, svo kemur þú aftur endurnærður og ferð að hrista upp í kerfinu. Það er ekki vanþörf á!

Magnús Óskar Ingvarsson, 6.10.2011 kl. 22:56

11 identicon

Þar fór í verr!  Ég var rétt að byrja að skoða blogg aftur eftir mánaðar fýlu sem ég komst í þegar "þeir" eyðilögðu Eyjuna!  Þessi Ómar Geirsson fannst mér bara nokkuð góður, og svo er hann barasta hættur!

Jæja, þitt er valið og hafðu það gott.

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 7.10.2011 kl. 07:53

12 Smámynd: Dagný

Takk fyrir góð skrif og baráttuanda. Ég er ekki í nokkrum vafa um að fleiri baráttumál eigi eftir að skjóta upp kollinum - við lifum á þannig tímum. Eigðu gott líf þangað til.

Dagný, 24.10.2011 kl. 19:10

13 Smámynd: Óskar Arnórsson

Ómar, það er ekki hægt að hætta að blogga. Ég reyndi einu sinni. Fráhvarfið er ógurlegt...jæja, það verður gaman að sjá þig reyna. Ég votta samúð mína yfir ástandinu á þér fyrstu mánuðinna. Svo breytist þetta í hreint helvíti...takk fyrir frábær skrif og baráttu þína fyrir hinu góða...

Óskar Arnórsson, 14.11.2011 kl. 09:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 15
  • Sl. viku: 995
  • Frá upphafi: 1321547

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 834
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband