30.7.2011 | 09:08
Hagfræði fyrir byrjendur.
Verðtrygging skulda á samdráttarskeiði eftir eignabólu gerir skuldara gjaldþrota.
Eftir stendur hve lengi greiðsluviljinn haldi, hve lengi borga menn af eignum sem þeir eiga ekkert í og munu aldrei eignast neitt í.
Verðtrygginging sér til þess.
Afar heimskir stjórnmálamenn komu landinu á kné.
Þeir horfðu á gífurlega þenslu byggða á skuldasöfnun og kölluðu það hagvöxt og velmegun, þeir horfðu á gífurlega útþenslu bankakerfisins byggða á skuldasöfnun og kölluðu hana fjármálasnilld sem sannaði gildi einkavæðingar og frjálsræðis.
Þeir skyldu aldrei að það sem byggt er á skuldum, hrynur.
Afglöp eru eitt, illvilji er annað.
Eftir Hrun kom í ljós að flestir stjórnmálamenn okkar eru sálarlaus illmenni sem svívirtu fórnarlömb Hrunsins, neituðu þeim um sanngirni og réttlæti.
Rannsóknarnefnd Alþingis sýndi, svo ekki verður um deilt, hvernig bankar og fjármálamenn gerðu atlögu að krónunni og á sama tíma var almenningur blekktur á skipulagðan hátt til að taka gengislán til að verja sig gegn glórulausri hávaxtastefnu Seðlabankans.
Einnig er ljóst að ráðamenn vissu að bankakerfið var komið í þrot en viðbrögð þeirra var að taka þátt í blekkingarleiknum sem hét, "Hér er allt í lagi". -'Það er góðæri, undirstöðurnar eru traustar, kaupið, fjárfestið, það er ekkert að óttast'; einhvern veginn svona hljómaði áróðurinn.
Og fólk trúði, sat í skuldasúpunni þegar allt Hrundi.
Eina hjálpin sem því bauðst var að lengja í lánum og aðlaga greiðslubyrðina að tekjum, svo þegar þrýstingur jókst frá almenningi, þá var ákveðið að fresta nauðungarsölum.
Fjármálakerfið fékk aðstoð, auðmenn fengu afskriftir, en almenningur átti að borga.
Þrátt fyrir sannaðan forsendubrest þess kerfis sem stökkbreytti skuldum hans.
Þetta er það sem ég kalla sálarlausa illmennsku í ljósi ábyrgðar stjórnmálamanna á því sem gerðist. Þeir reyndu ekki einu sinni að hjálpa, reyndu ekki einu sinni að bæta úr misgjörðum sínum.
Þeir hjálpuðu ekki fólki í neyð.
Og þeir lögðu drög að langvarandi stöðnun og samdrætti því heimilin eru grunnstoð samfélagsins og samfélag þar sem heimilin eru í skuldafjötrum, er samfélag þar sem ekkert gerist, nema jú deilur, átök, upplausn.
Sagan kann engin dæmi um annað, heimskan á bak við illviljann er því algjör.
Ein röksemd þingmanna Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar þegar þeir vörðu hina meintu hjálp gagnvart skuldsettum heimilum sem tilkynnt var í fyrsta aðgerðarpakka Jóhönnu Sigurðardóttur, var að hagvöxtur myndi snúa við dæminu, með auknum tekjum gæti fólk greitt af lánum sínum og aftur farið að eignast eitthvað.
Hugsun sem er vissulega rétt ef það væri ekki verðtrygging.
Of mikill launaþrýstingur leitar út í verðlagið sem aftur hækkar skuldirnar, hækkun aðfanga eins og olíu eða matvæla, hækkar skuldirnar, það hækkar allt skuldirnar.
Kerfið er eins og hundur sem eltir skottið á sjálfum sér og ekki er ennþá þekkt dæmi um að slíkt hafi tekist.
Og það sem meira er að á samdráttartímum eiga fyrirtækin allt undir að það sé ekki launaþrýstingur, bæði vegna samdráttar í rauntekjum sem og vegna hinna stökkbreyttu skulda.
Þau þola ekki lengi víxlhækanir launa og verðlags.
Fyrirtækin eru því líka fórnarlömb þeirra heimsku að leiðrétta ekki skuldir heimilanna.
Eftir stendur þá, hverjir græða??
Stjórnmálamenn standa í þeirri trú að fjármagnið græði, að það haldi sínu.
En það er rangt, fjármagn er ekkert annað en greiðsluvilji og greiðslugeta þeirra sem skulda, þeirra sem reka, þeirra sem framleiða.
Fjármagn býr ekki til eignir, fjármagn viðheldur ekki eignum.
Þessa einföldu hagfræði fyrir byrjendur hefur gleymst að kenna á Íslandi, engin önnur skýring er á stuðningi almennings við þá stjórnmálamenn sem báru ábyrgð á Hruninu vilja allt gera svo kreppan vari sem lengst og þjáningar almennings verði sem mestar.
Fólk trúir að það sé vit í heimskunni, að það sé vit að verja fjármagn á kostnað almennings.
Á Íslandi komast stjórnmálamenn, dyggilega studdir af hagdvergum háskólanna, upp með að fullyrða bábiljur, að fullyrða að það sé hægt að breyta vatni í vín, grjóti í gull, eða það sé hægt að verðtryggja skuldir á samdráttartímum eftir eignabólu.
Hve lengi bábiljurnar hafa staðreyndir undir í umræðunni, má guð vita.
Ekkert bendir til að breytingar séu í aðsigi. Aðeins tíuþúsund manns hafa stutt réttmætar kröfur Hagsmunasamtaka Heimilanna um frystingu verðtryggingarinnar. Eini stjórnmálaforinginn sem skilur hagfræði og lemur ekki hausnum í vegg staðreynda, nýtur innan við 20% fylgis.
Líklegast mun ekkert breytast á meðan greiðsluvilji fólks heldur.
Og við því er lítið að gera.
Kveðja að austan.
Verðbólgan étur skuldalækkun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 280
- Sl. sólarhring: 822
- Sl. viku: 6011
- Frá upphafi: 1399179
Annað
- Innlit í dag: 238
- Innlit sl. viku: 5093
- Gestir í dag: 227
- IP-tölur í dag: 224
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Ekki nema því eðlilega sé leyft að gerast.
Eftir eignabóla ætti að koma verðhjöðnum. Þá væri verðtrygging til bóta fyrir skuldara og hann ætti að geta staðið við sitt.
En Már í Seðlabankanum og Steingrímur með Jóhönnu í stjórninni.
...Það er slæm blanda. Líka í krísu, eins og er að verða meira en augljóst.
jonasgeir (IP-tala skráð) 30.7.2011 kl. 09:21
Það er einnig kaldhranalegt að það þarf ekki alþingi til þess að afnema neysluvísitölu. Ráðherra getur ákveðið það einhliða skv. gildandi lögum. Það er einungis vilji sem þarf til.
Eggert Guðmundsson, 30.7.2011 kl. 09:35
Verðhjöðnun já jonasgeir, þú segir það.
"Verðhjöðnun er það versta sem getur komið fyrir" sagði Jón Daníelsson af fljúgandi mælsku í viðtali við Egil Helgason í okt 2008.
Líklegasta skýring þess er að eftirspurn er drifkraftur hagkerfisins eins og við þekkjum það og að það ferli sem við köllum verðhjöðnun á sér aðeins einn endir.
Ekkert.
Ég skil hvað þú meinar jonasgeir en grunnhugsunin er röng.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 30.7.2011 kl. 09:36
Já, Eggert, þetta er aðeins spurning um vilja, verðtrygging er ekki meitluð í stein og send til manna af himnum ofan.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 30.7.2011 kl. 09:38
",,,,,,,,hve lengi borga menn af eignum sem þeir eiga ekkert í og munu aldrei eignast neitt í."
Svo lengi sem menn trúa á áð réttlætið ná fram að ganga. Ég yfirgaf austurlandið okkar til að starfa hér í Noregi til þess að geta sent peningana heim til minna skulda.
Enn held ég í þá von Ómar, að sú glæpsamlega heimska sem þú lýsir svo vel í þessum pistli muni fá sín maklegu málagjöld og þá er verra að hafa kastað því sem næst heilu ævistarfi á glæ og það á þeim tímapunkti sem uppskeran verður að fleyta manni inn í haustið og veturinn.
Horfurnar benda vissulega ekki til annars en ég sé algjör hálfviti. Og svo gæti farið eins og ágætur eldhugi sagði eftir að eitt atkvæði vantaði upp á að hann kæmist að við bæjarstjórnarborðið sem mikill minnihlutamaður í rauðasta bæ á Íslandi, "það væri kannski runnin upp sú stund að hann stæði við kosningaloforðið sem hann hefði gefið konunni og drullaði sér í burtu".
Bestu kveður í sólina fyrir austan.
Magnús Sigurðsson, 30.7.2011 kl. 10:06
Jónas Geir, það hefur aldrei komið verðhjöðnun á Íslandi. Það er alveg sama hvað gengur á, verðtryggingin sér um það að það verður aldrei verðhjöðnun. Verðtryggingin sjálf eins og hún er samansett á íslandi veldur verðbólgu, það er alveg sama hvað skeður, skattahækkanir, hækkanir á þjónustugjöldum ríkisstofnana, hækkun a áfengi og tóbaki í forvarnarskyni, hækkun á eldsneytissköttum, allar hækkanir valda því að annað sem er tengt vísitölu hækkar, t.d. húsaleiga. Þannig verða víxlhækkanir stanslaust og aldrei verðhjöðnun nema kannski eitthvað 1% tímabundið "af því að það voru útsölur". Allar hækkanir á Íslandi mælast inni í verðtryggingunni, erlendur doktor í hagfræði sem ég hitti á dögunum átti ekki til orð yfir þessari víðtæku verðtryggingu sem mælir bókstaflega allt. Hann var hissa á því að fólk væri ekki tugþúsundum saman að mótmæla eignaupptökunni sem felst í "íslensku leiðinni". Skrifum undir hjá Hagsmunasamtökum Heimilanna: www.heimilin.is og mótmælum þessu.
Margrét S. (IP-tala skráð) 30.7.2011 kl. 11:22
Sæll Ómar.
Góð færsla.
Eitt þó. Kreppa og ástæður hennar er ekki sér íslenskt fyrirbæri heldur afsprengi undirmálslána í USA þar sem að pólitískussar ætluðu sér að fara USSR leiðina þ.e.a.s. að slá því ryki í augu þeirra er almennt höfðu eki efni á húsnæði að þeir væru að eignast eitthvað með því að taka lán sem ekkert veð var síðan fyrir né fólk borgendur af. Þetta er síðan vegna þess að Aðili sem heldur að hann sé að græða fer ekki í verkfall og auðveldara er að stjórna (kúga) honum til að gera það sem "stjórnin" vill.
Hefði ríkið á einhverjum tímapunkti reynt að draga saman eða hefta bankana, sem þá voru ein hæst metnu fyrirtækun í heiminum (Standard & Poors / Moodys) hefðu bankarnir fallið strax og þá bara hér og almenningur setið uppi með stjarnfræðilegar upphæðir sem gera Icesave Svavars að klinki.
Það er nefnilega ekki svo einfalt að stöðva hinn frjálsa markað.
Seingrímur síðan sem sífellt gagnrýndi Davíð fyrir að haga til genginu (vöxtum seðlabanka) til að slá á þenslu gerir nú slíkt hið sama en munurinn er bara sá að engin þensla er fyrir hendi.
Boðuð hækkun stýrivaxta er í raun ein undarlegasta ákvörðun hagstjórna í Evrópu á seinni árum enda slíkt yfirleitt aðeins gert til að hefta neyslu og minnka eftirspurn eftir fjármagni (lánum) sem ekki eru nánast nein hér á landi og á þetta eftir að fara í sögubækurnar.
Vissulega komums við að því ða embættismannakerfið hér var gerspillt en þar (utan Alþingis) hefur enurnýjunin ekki verið nein heldur aðeins gert það sama og venjulega þegar skipt er um stjórn, ráðnir vinir stjórnarliða yfir þá sem fyrir eru og þetta er það sem kallað er "þensla ríkisins".
Raunin er nefnilega sú að þrátt fyrir að boðað hafi verið til samdráttar og niðurskurðar að þá hefur ríkisbáknið þanist meira og hraðar út nú á síðustu 30 mánuðum en það gerði á uppgangi Sjallanna 2000-2004 og þykir það mikilli furðu sæta.
Raunin er nefnilega sú að pólitískussar hér eins og Seingrímur, Ömmi blanki og Jóhrannar eru hér aðeins til að halda völdum en valda ekk þeim völdum sem þau hafa. Það kallast óstjórn og myndi í öðrum lýðræðisríkjum kalla hátt á riftun þings og kosningar en ekki hér enda erum við ekki lengur lýðræði heldur er hér kommúnísk valdastjórn, ekki svo ósviðað t.d. Venesúela (Hugo Chaves).
Eini munurinn er sá að þegar er búið að henda þér út úr húsinu þínu geturðu ekki sofið á ströndinni....
Óskar Guðmundsson (IP-tala skráð) 30.7.2011 kl. 11:49
"Verðhjöðnun er það versta sem getur komið fyrir" - Þetta er satt ef þú ert banki. Það er vegna þess að þá myndu verðtryggðu lánin lækka.
Margrét S. Í janúar sl. varð verðhjöðnun á milli mánaða. Hún hvarf hinsvegar strax eins og yfirleitt gerist þegar bankarnir sjá eignasöfn sín lækka í verði, fá hland fyrir hjartað og hringja í olíufélögin til að segja þeim að hækka bensín og fjármálaráðuneytið til að segja þeim að hækka álögur, svo aftur mælist verðbólga. Svona hefur bankakerfinu á Íslandi verið forðað frá gjaldþroti um árabil. Það "besta" við þetta frá sjónarhóli kerfisins er að með þessu móti þarf ekki að veita skattfé úr ríkissjóði til að styrkja bankana (það myndi vera óvinsælt) heldur er það tekið beint úr vösum skattgreiðenda og fært bönkunum milliliðalaust án þess að lögfesta þurfi heimildir til þess í hvert sinn, og enginn skilur neitt. Með tékkhefti skattgreiðenda opið fyrir bankana búum við í raun í hagkerfi sem er eitt stórt samfellt bail-out (bankabjörgun).
Takið þátt í Undirskriftasöfnun Heimilanna gegn verðtryggingu og skaðlegum áhrifum hennar: undirskrift.heimilin.is
Guðmundur Ásgeirsson, 30.7.2011 kl. 12:46
Blessaður Magnús, eldhuginn er kominn suður, ekki vegna kosningaloforða, heldur dróg konan hann á eyrunum þangað.
Það er þetta með réttlætið, og vonina þar um.
Ég trúði alltaf á "innri" mann þjóðar minnar, að hún myndi hjálpa þegar á reyndi. Ég hélt að sérhyggja og síngirni myndi aldrei ná að sundra henni. Ég bjóst ekki endilega við að hún skyldi hagfræðiforsendur skuldaleiðréttingar, þar eru margar misvísandi raddir uppi, en og taldi og tel mig vita að Íslendingar þekki muninn á réttu og röngu.
Og ég hafði rangt fyrir mér.
Síðan þegar maður skoðar ICEsave ruglið og öll furðin sem viðgengust í þeim málflutningi, ásamt allt lýðskrumið sem hinir svokölluðu vinstri flokkar hafa komist upp með, eða hina akademísku heimsku að ræða um kosti og galla "stöðugs" gjaldmiðil í heimi þar sem allt er á fallandi fæti og enginn veit um framtíð helstu gjaldmiðla heims, líkt og ennþá væri árið 1998, þá hef ég sannfærst að sterkari öfl eru að verki en mannlegur vilji fái við ráðið.
Engin náttúrulögmál eða rökhugsun getur úskýrt þau furður eða heimsku sem tröllríða öllu hér, þetta er handan mannlegs skilnings.
Við Íslendingar erum gott fólk, við erum hvorki illmenni eða ómenni, við myndum aldrei skjóta börn fyrir málstaðinn. Samt styðjum við fólk sem eyðileggur lífsgrundvöll barna okkar, fólk sem eyðileggur heilbrigðiskerfi okkar fyrir aurasparnað en eyðir ómældum fjármunum í fjármagn og fjármálakerfi.
Það er eitthvað í þessu sem meikar ekki sens og mannleg hugsun getur ekki úskýrt.
Í dag lýsa Hávamál þjóðfélaginu betur en nokkur þjóðfélagsrýnir gerir, og þau voru skrifuð á miðöldum.
En missi maður vonina, þá missir maður kraftinn sem þarf til að þrauka. Missi maður trúna á hið góða í mannlegu eðli, þá glatar maður öllu.
Ég held að von og trú sé það eina sem hinn venjulegi maður hefur sér og sínum til varnar.
Það er það sem vantar á Íslandi í dag, á meðan stjórna "ómennin" okkur.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 30.7.2011 kl. 12:51
Góður pistill. 100% sammála.
Seiken (IP-tala skráð) 30.7.2011 kl. 13:40
Blessaður Óskar.
Svona áður en lengra er haldið, hvernig getur rökhugsun þín kyngt því að lán til undirmálsfólks í Bandaríkjunum geti kollsiglt fjármálakerfi Vesturlanda??? Segjum að þetta séu 20 milljónir heimila (er ekki almenn fátækt í Bandaríkjunum um 20%??), og meðal vanskil árið 2008 10.000 dollarar, hver er þá upphæðin???? Svona fyrir utan að það eru til aðgerðir eins og endurfjármögnun, lánalenging og svo framvegis, sem og það eru veð fyrir þessum lánum.
Það sem þú ert að benda á Óskar er það sama og hrjáði stuðningsmenn bolsévika á fjórða áratugnum þegar þeir bentu á prómil breytingu á úrkomu eða meðalhita til að útskýra hungursneyðina miklu í Ukraníu, þeir keyptu hugsunarlaust útskýringar "geranda" harmleiksins en settu aldrei spurningu við gjörðir þeirra eða það kerfi sem þeir störfuðu eftir..
Þessi svokölluðu lán til undirmálsfólks í Bandaríkjunum hrintu vissulega skriðunni að stað, líkt og ein grjótvala getur komið heilu fjalli af stað, eða einn dropi látið 10.000 lítra tank yfirfyllast. En það er eina orsakasamhengið, ekki orsök vandans eða skýring hans.
Sökudólgur Hrunsins, hin stjórnlausa græðgi Nýfrjálshyggjunnar kom þessari gróusögn að stað, líkt og Stalín kenndi veðrinu um, en það er enginn fótur fyrir henni.
Þingnefnd á vegum öldungardeildar bandaríska þingsins gaf út skýrslu svo snemma sem 2009 þar sem þessi bábilja var hrakin lið fyrir lið.
Í fyrsta lagi eru Fanney og Mac ekki opinberisjóðir, þeir eru með markaðsívilnun frá ríkinu en annars algjörlega á frjálsum markaðir. Þar með er tengingin við stjórnmálamenn hrunin.
Í öðru lagi var ekki teljandi aukning á vanskilum hjá sjóðunum, í aðdraganda Hrunsins, en eignahrunið snerti þá líkt og Íbúðalánasjóð hérna. Og þegar fjármögnun á markaði brást, þá þurftu þeir ríkisaðstoð, en ekki vegna vanskila áður en Hrunið varð.
Í þriðja lagi þá voru flest lánin til undirmálsfólks á vegum fjárfestingarsjóða utan við hið opinbera kerfi, var það vegna reglubreytinga sem voru svipaðar eðlis og hér þegar bönkunum var gert kleyft að koma inn á húsnæðismarkaðinn. Og þessi lán voru að miklu leyti glópalán, seld upphaflega á forsendum lágra vaxta, með endurskoðunarákvæði sem gerði lánaeiganda kleyft að hækka vextina upp úr öllu valdi. Sem var gert og þá fór hrina vanskila af stað. Þess má einnig geta að kröfur til lántakanda voru litlar enda lánin alltaf hugsuð sem blóðtaka til skamms tíma en ekki upphaf af landvarandi viðskiptum llíkt og er með sjóði sem starfa á húsnæðismarkaði.
Í fjórða lagi, þá var ekki um "óeðlilegt" hlutfall vanskila að ræða, ekkert sem alvöru sjóðir hefðu ekki ráðið við með endurfjármögnun, lánafrystingu og öðru sem menn nota til að stabílesera markaðinn þegar eignverð hrynur eða kaupgeta dregst saman.
Lengi má áfram telja en upplýsingar um þessa skýrslu mátti lesa í góðri grein í Fréttablaðinu eftir Óskar Ármannsson fréttamann, og ég skora á þig að lesa hana.
Málið er að það var óttinn sem felldi kerfið vegna þess að það mátti ekki við neinu.
Og vandi þess stafaði af stjórnlausum fjármálagerningum sem enginn hafði yfirlit yfir. Grunnurinn af þeim var lagður með lagabreytingum í stjórn Bill Clintons að kröfu Wall Street sem taldi reglur um afleiðiviðskipti og svipaða gerninga hamla nútíma fjármálastarfsemi. Þær reglur voru settar vegna biturrar reynslu af slíkum gjörningum í aðdraganda kreppunnar miklu. Upphæðirnar sem eru að falla eru margfaldar þeim sem liggja í öllum lánunum til undirmáls fólks í Bandaríkjunum. Og þær eru að falla núna, en eðli húsnæðislána eru að þau eru til langs tíma og vanskil á ákveðnum tímapunkti aldrei stór hluti af heildarlánum, ekki nema kerfið sé svo heimskt (og siðblint) að gjaldfella öll lánin og henda fólki út.
Og ekki hvað síst ættir þú að hafa í huga Óskar að undirmálsfólk þarf líka að lifa og búa, og ef póltíkusar í rykdreifingu gæta ekki að því, þá á þetta fólk til að valda bæði borgurum og góðborgurum ýmsar kárínur, sem líka kosta.
Það er skýring á velferðarkerfinu og skýringar á því að undirmálsfólk er ekki látið éta það sem úti frýs. Skýringin kallast Öld byltinganna og er heiti á tímabili byltinga og átaka sem hófst með frönsku stjórnarbyltingunni, því þó Metternich kanslari hafi reynt að láta sem hún hafi aldrei orðið, þá voru hauslausir aðalsmenn staðreynd sem þeir sem eftir lifðu gátu ekki gleymt. Það er skýring þess að feður nútímavelferðarkerfis komu úr röðum íhaldsmanna og aðals, kenndu sig við kristni og mannúð en í raun vildu þeir losna við þetta stöðuga byltingarástand og óttann við hausleysið.
Og það tókst, en getur alltaf komið aftur. Og Nýfrjálshyggjan og eyðilegging hennar á verlferðarkerfinu sér til þess.
Það er mikill munur Óskar á óskynsamlegri nýtingu fjármuna og því að það þurfi ekki að nota fjármuni í ákveðin verkefni. Og aðeins þeir sem vilja ekki verða ellidauðir, taka undir málflutning þeirra sem rændu samfélög okkar og eyðilögðu efnahag Vesturlanda.
Og það voru ekki vinstri menn. Ekki núna.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 30.7.2011 kl. 13:44
Óli Kristján hét hann víst.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 30.7.2011 kl. 14:32
Mikið djöfulli er þetta allt saman satt og rétt hjá þér Ómar mitt lán persónulega hefur hækkað úr 80 þúsundum á mánuði í 123þúsund þetta er alveg galið að mínum mati og ekki nóg með það að bankarnir hafi fengið lán mitt á afslætti heldur þurfa þeir lika að rukka það upp í botn og hækkuðu einnig vexti við fyrstu endurskoðum um 1.5% !!!!. Maður spyr sig hver einustu mánaðarmót hversvegna lætur maður koma svona fram við sig. Ég hvet alla til að skrá sig á heimasíðu hagsmunasamtaka heimilana ekki seinna en strax. Hvað er að fólkinu sem er að stjórna þessu landi eginlega er ekkert sem heitir að vernda hagsmuni fólksins í landinu? Það hlýtur að vera kominn tími til að stoppa þessa bandsettans rányrkju sem viðhefst hér á landi og bölvanlegt að horfa upp á þessi viðrini sem halda því framm að bankahrunið á Íslandi hafi ekki lent á herðum fólksins þvílík fjarstæða og veruleika firring hjá þeim sem halda því fram.
Elís Már Kjartansson, 30.7.2011 kl. 17:15
Flest rétt og satt. Það eru menn sem vilja verðtrygginguna og stjórna henni.Þessa menn þarf að taka á, láta snýta rauðu. Þeir munu aldrei breyta verðtryggingunni nema tilneiddir og því hættum að tala um það sem aldrei verður. Illgresi skal hent út fyrir garð.
sverrir Kristjánsson (IP-tala skráð) 30.7.2011 kl. 17:30
Það að verðhjöðnun sé slæm er ekki vel rökstutt.
Dæmi; Allir kaupa i Phone 4 (nema ég), þó allir vita að númer fimm verði bæði ódýrari og betri.
Ekkert hagkerfi í heiminum hefur farið á höfuðið í verðhjöðnun. Ekki eitt einasta.
Öll samfélög heimsins hafa farið á höfuðið í verðbólgu. Öll. Það segir sína sögu.
...En bankarnir ráða ótrúlega miklu. Alltof miklu.
jonasgeir (IP-tala skráð) 30.7.2011 kl. 18:13
Lánin hækka já, einnig mitt ó-lán,þ.e. skerðing frá tryggingarstofnun voru tilkynnt með bréfi í gær 39.549.- Ég sem hélt mig vera að takast að grynnka verulega á skuld,en má ekki vinna svona mikið,gæti fatlaðs barns og 2svar á ári í prófyfirsetu H.Í. Jæja ,ég er ekki að byggja upp heimili, og þeir dreifa þessu. Heitasta ósk mín til handa þjóðinni er, að hún fái að ráða sínum málum sjálf,ekkert yfirþjóðlegt vald ráðskist með landið og auðlindir þess. Mb.Kv.
Helga Kristjánsdóttir, 31.7.2011 kl. 04:32
"Líklegasta skýring þess er að eftirspurn er drifkraftur hagkerfisins eins og við þekkjum það og að það ferli sem við köllum verðhjöðnun á sér aðeins einn endir.
Ekkert."
Það er í sjálfu sér ekkert meir að segja um verðhjöðnun en ég sagði hér að ofan jonasgeir, "Ekkert" er endir verðhjöðnunarinnar í sinni tærustu mynd.
Lýsing þín er eins og lýsing fíkilsins sem lýsir sælu vímunnar en skautar algjörlega framhjá heildarmyndinni sem er fíknin, fráhvarfseinkenni og loks dauðinn. Vissulega er það sæla að skuldir lækka, vöruverð lækkar, en það er ekki bara þannig.
Fyrirtæki bregðast við minnkandi eftirspurn með því að lækka verð, vissulega rétt en hvatinn til að kaupa hverfur því neytandinn bíður alltaf eftir nýrri verðlækkun. Og fyrirtækin þurfa að draga úr kostnaði á móti verðlækkuninni, sá kostnaður heitir laun.
Og þar er hnífurinn sem drap kúna. Þú hefur ekkert að gera við lægri verð, lægri skuldir, ef þú færð ekki laun.
Eftirspurn er drifkraftur hagkerfisins eins og við þekkjum þau. Það er þá sem þau vaxa og dafna.
En eftirspurnarskeið hafa verið fá í hagsögu mannsins, stöðnun eða hjöðnun hefur verið meginreglan. Þá fólst jafnvægistemprunin í mannfelli. Skemmtileg framtíðarsýn það.
Vissulega virkar sú temprun og hagkerfi stöðnunar hafa sem slík ekki orðið gjaldþrota, en þau hafa horfið fyrir öðrum þróttmeiri hagkerfum. Stöðnun gengur ekki upp nema allir staðni, en saga mannsins er saga þróunnar svo sú forsenda er ekki til staðar.
En þessi hugsun er lúmsk og margir gleypa við sögum um glópagull, sérstaklega í harðindum. En hún þjónar þeim eina tilgangi að veikja andstöðuna við verðtrygginguna, sem er höfuðmeinsemd þjóðfélags okkar í dag, svona fyrir utan skaðleg ítök auðmanna í stjórnkerfi landsins.
Það er ekkert jákvæt við verðtrygginguna eins og staða mála er í dag. Hún á að víkja og við eigum ekki að láta glópagullssagnir villa okkur sýn.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 31.7.2011 kl. 10:32
Og að lokum vill ég þakka öllum fyrir innlit og lestur, sem og allar athugasemdir. Þannig skerpist umræðan og flýtur áfram.
Tek undir hvatningu HH, þar er þarft framtak og mættu sem flestir gefa sér tíma til að pikka inn nafn sitt og kennitölu, þannig búum við til afl sem getur breytt.
Með því að styðja og hvetja gott fólk áfram í sinni baráttu. Þetta snýst ekki um að vera sammála öllum um allt, það væri nú meira kalkúnabúið og heiladauðinn.
En grunnmarkmið okkar eru þau sömu, að við fáum lifað með reisn í samfélagi okkar.
Ákallið um sanngirni og réttlæti má aldrei hljóðna.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 31.7.2011 kl. 10:37
Hér hafa farið fram miklar umræður og þær má ekki stöðva.
Þeir sem höfðu lán hjá hinu föllnu bönkum og voru látnir skrifa undir og samþykkja að hinir "nýju" bankar tækju við skuldbindingum hinna föllnu..
Það má vera umhugsunarefni að þeir nýju bankar voru látnir taka á móti skuldbindingum þeirra föllnu, þ.e. þeirra lánasafna sem "keypt " voru með stuðningi ,Hæstvirtar Ríkisstjórnar. Með þeim gjörningi fylgdu ólögleg lán til "hinna nýju" sem Hæstiréttur okkar hefur dæmt ólögleg.
Þær undirskriftir lántaka, sem veittar voru til hinna "nýju banka" !, þá voru mörg þessara lána dæmd ólögleg af dómstólum. Eggert hefur verið dæmt í samþykki skuldara með ólöglegu láni.
Hver er sök hans?
Voru saklausir lántakendur blekktir, og á eftir að dæma þessar undirskriftir ólöglegar?
Gæti það verið rétt sem sumir halda fram, að fella þurfi niður þessar undirskiftir og ógylda þær, þar sem ólögleg lán var um að ræða.
Getur það verið að lán landsmanna að stórum hluta þ.e. lán frá hinum föllnu bönkum, séu innheimt á röngum forsendum. Þá er ég að tala um þær forsendur, að stór hluti þeirra er í formi skuldabréfa, sem lántaki þarf að samþykkja nýjan móttakanda greiðslna, þ.e. ef ekki er um að ræða HANDHAFABRÉF, sem er í fæstum tilfellum.
Er búið að framfylgja núgildandi lögum í þessu samhengi?
Hvað gerist ef einhver fer í mál og lætur reyna á undirskift sína, um ólögleg lán, sem hann veitti hinum "nýju bönkum" í okt 2008.! Sömu bankamönnum, útibústjórnum, stjórnendum, sem vissu frá 2001 að um ólögleg lán var um að ræða skv. greinargerð sem þeir skiluðu inn til alþingis.
Hverja hefur Hæstvirt Ríkisstjórn þjónkað með tilliti til ofangreinds?
Eggert Guðmundsson, 31.7.2011 kl. 21:18
"Eggert hefur verið dæmt"
á að sjálfsögðu að vera ekkert hefur verið dæmt.
Hver er sök hans? Á við lántakandann.
Eggert Guðmundsson, 31.7.2011 kl. 23:36
Blessaður Eggert.
Í sjálfu sér stöðvaði það fólk sem á hagsmuna að gæta um sanngjarna og réttláta leiðréttingu, umræðuna. Með því að þegja, með því að hætta að standa saman, með því að draga sig í hlé úr mótmælunum. Það var hársbreidd frá því að ná árangri haustið 2010, svo ekki neitt,.
Spurningar þínar eru réttmætar, og svarið um hverjum stjórnvöld þjóna, almenningi eða fjármálaöflum, er augljóst.
Og það er það sem ræður á meðan fólk kyngir ógeðinu.
Það þarf afl til breytinga, það afl er ekki til staðar í dag.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 1.8.2011 kl. 12:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.