Aumingja ríkisstjórnin, aumingja forysta Sjálfstæðisflokksin.

 

Þjóðin virðist  ekki ætla að skera stuðningsmenn bretafjárkúgunarinnar niður úr snörunni.

Samt hefur enginn Já sinni í röðum stjórnmálamanna sagt orð, hreinlega hafa allir steinþagað.

 

Þjóðin virðist trúa mútupeningum ESB, sem geta fjármagnað neyslu sína með því að styðja ólög og glæp.  Það er eins og allt sé í góðu lagi líkt og var daganna fyrir Hrun.  Þá fengu stjórnmálmenn kúlulán, þá fengu rithöfundar í nös.

Í dag fær mútufé ESB, líklegast 5,6 milljarða á þessu ári.  Og svo virðist Jón Ásgeir ennþá fóðra nasverja á Fréttablaðinu, hirðskáld hans, þeir Hallgrímur og næstum því Thor, geysast fram á ritvöllinn, margefldir eftir fóðrun hans.

 

Það skelfilega er að gerast, þjóðin virðist ætla að löghelga fjárkúgunina, og þar með loksins að gefa réttlætinu færi á að lögsækja glæpamennina sem aðstoðuðu bretana við fjárkúgunina. 

Samkvæmt hegningarlögum er nefnilega mikill munur á því að reyna að framkvæma glæp, og að framkvæma hann.  Það fyrra er afglöp, það seinna er glæpur.

Og þar með sitja í súpunni þeir sem eru hjálparkokkar breta, þeir sem lugu glæpnum upp á þjóðina.

 

Af hverju fór svona illa fyrir þeim sem þorðu ekki annað en að styðja glæpinn á þingi, en vonuðu innilega að þjóðin myndi hafna honum og þar með sleppa þeim við dóm laga og réttar???

Jú, þau gleymdu að segja stuðningsmönnum sínum að ICEsave væri ekki grín sem menn samþykktu fyrir flokka sína.  Heldur dauðans alvara fyrir þá sem komu nálægt glæpnum.

Spurningin er hvort að Hrunverjar nái að leiðrétta þann misskilning, að þeir sem eru jafnvel tilbúnir að eyðileggja framtíð barna sinna vegna hagsmuna flokks síns, að þeir kjósi rangt með því að samþykkja ICEsave.

Að það sé endalok þríflokksins, að lög og regla muni dæma hann fyrir fjárkúgun.

 

Ef ég á að segja satt, þá hryggir það mig ekki að ICEsave verði samþykkt, glæpir eiga ekki að borga sig, tilraun til stærstu fjárkúgunar mannkynssögunnar á ekki að vera liðin.

Tilraunarliðið var ekki sekt fyrr en lögin væru undirrituð af forseta Íslands, aðeins þá myndu lögin grípa inn í.

Vegna þess að skattborgarar þessa lands myndu kæra hina ólöglegu skattheimtu, og áhugafólk um lög og reglu myndu kæra hina beinu fjárkúgun.

 

Og það virðist vera ganga eftir.

Að lögin fái sitt tækifæri, að hinir hræðilegu dómsstólar munu grípa inn í og dæma lögbrjótana.

Í raun er ekkert af því, ekki hef ég á móti því að hinir seku fái makleg málagjöld.

 

En samt vona ég að þjóðin segi Nei, því hún á ekki von fyrr en hún lærir að þekkja Hrunverja frá fólki.  Að hún læri að þekkja muninn á réttu og röngu.

Það er nefnilega ekki nóg að fangelsa fjárglæpamenn á meðan þjóðin kýs glæpi þeirra.  Það er ekki nóg að sannleikurinn sé sagður á meðan þjóðin trúir fjölmiðlum þeirra sem rændu hana.

 

Þessi skoðanakönnun sýnir því miður fram á að það er bið í endurreisn þjóðarinnar.  

Samt vona ég ekki að örlög hennar verði eins og örlög Dúdú fuglsins í Ísöldinni.

En því miður er margt sem bendir til þess að auðræningjarnir geti keypt sér hvað sem þeir vilja, þar á meðal stuðning meirihluta Íslendinga.  Ofaná að þeir keyptu sér friðhelgi frá réttlætinu, og að þeir keyptu sér VinstriGræna.

Hvað um það, þetta er lýðræðið með sínum kostum og göllum.  Maður verður að taka því.

 

En ég vorkenni fólkinu sem treysti á Nei, einu sinni var þetta ágætis fólk.

Kveðja að austan.

 

 

 

 


mbl.is 56% segja ætla að styðja lögin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar

Hinn þögli skynsami meirihluti veit að JÁ er svarið vilji fólk að þjóðin komist uppúr þessari kreppu.  Þrátt fyrir að NEI heykvíslahjörðin tröllriði öllum blogg og kommentakerfum þá lætur þjóðin þessi harmakvein sem vind um eyru þjóta og tekur skynsamlega ákvörðun í þjóðaratkvæðagreiðslunni.  Þar með bjargar þjóðin sjálfri sér og mönnum eins og þér sem vilja að þjóðin fremji efnahagslegt sjálfsmorð.  Vertu glaður Ómar, þjóðin kemur þér till hjálpar á ögurstundu!

Óskar, 25.3.2011 kl. 18:08

2 Smámynd: Árni Gunnarsson

Við heykvislamenn munum berjast drjúgt og ekki er verra Óskar minn ef þið, skynsömu landar okkar verðið óviðbúnir falli. Aðalatriðið er þó að enginn meiðist.

Árni Gunnarsson, 25.3.2011 kl. 18:21

3 Smámynd: Ólafur Björn Ólafsson

Við sögðum NEI við síðustu samningum og hvað breyttist??? EKKERT, við fórum ekki í þrot vegna fjárskorts og það var enginn sem ekki vildi lána okkur.

Hvað mun gerast ef við segjum NEI núna??? Sama og síðast, EKKERT...

Það er reyndar möguleiki að farið verði í mál við okkur en reglugerðir og alþjóðalög eru okkur hliðholl. Þeir einu sem ekki eru okkur hliðhollir og eru því í mínum huga "landráðmenn" eru JÁ-sinnar.

Kveðja

Kaldi

Ólafur Björn Ólafsson, 25.3.2011 kl. 18:28

4 identicon

Auðvitað segjum við NEI. Það er ekki líklegt að þeir sem sögðu nei í fyrra segi núna já. Það þætti mér afskaplega undarlegt!

anna (IP-tala skráð) 25.3.2011 kl. 18:34

5 Smámynd: Óskar

Ólafur Björn spyr hvað breyttist.  Ekkert, nei atvinnuleysið er enn 8% en væri kannski komið niður í 4% ef þetta mál væri frá.  Atvinnulífið er lamað hér að stórum hluta útaf þessu máli.  Þeir sem ekki sjá það hljóta að vera með lögheimili á Suðurpólnum.

Óskar, 25.3.2011 kl. 18:38

6 Smámynd: Björn Birgisson

Ómar, skynja ég uppgjafartón í þessum pistli? Eða er ég enn ekki laus við mínar ofskynjanir? Hvað heldur þú, duglegi skrifari?

Björn Birgisson, 25.3.2011 kl. 18:42

7 identicon

Það hefur nákvæmlega ekkert breyttst,hvorki til hins verra né betra sýðan þjóðin hafnaði icesave 2, ég bara trúi því ekki að 56% þjóðarinnar hafi glatað glórunni á þessum stutta tíma.Við segjum að sjálfsögðu nei við þessum fáránlegu kröfum breta og hollendinga.

Alfreð (IP-tala skráð) 25.3.2011 kl. 19:20

8 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

  Spyrjum að leikslokum!!!!!!!

Helga Kristjánsdóttir, 25.3.2011 kl. 20:03

9 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk fyrir innlitið kæra fólk.

Spyrjum að leikslokum, en núna held ég að ljóst sé að úrslitin eru tvísýn.  Og að þjóðin er klofin.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 25.3.2011 kl. 21:20

10 identicon

Heill og sæll Ómar; sem fyrr - og aðrir gestir, þínir !

Ómar !

Svo nærri; stend ég, þeim forfeðrum mínum - Kveldúlfi úr Hrafnistu, svo og Valgarði hinum Gráa (föður Marðar), að Hofi á Rangárvöllum, að lítt hirði ég um skoðana kannanir, svonefndar, fornvinur góður, miklu fremur, það hyggjuvit, sem Norrænum mönnum á að vera gefið, að nokkru - ekki síður; en þeim Austurheims - sem Suðurhvelsins.

Því; skulum við ódeigir; mæta þeim forlögum, sem okkur eru ánöfnuð, af hendi genginna forfeðra- sem formæðra okkar, Austfirðingur kæri.

Nafni minn; Haraldsson !

Hafa skyldir þú í huga; að núv. stjórnvöld, hafa ekkert gert, til þess að leita almennilegs liðsinnis, utan hinnar ört hrörnandi Evrópu, svo að; ályktanir þínar, standast tæpast, ágæti drengur. Nefni lönd; eins og Rússland - Kína - Persíu (Íran/ olíumálefni) - Brasilíu og Indland, sem mögulegar liðsheildir.

Með beztu kveðjum; sem jafnan - og fyrri /

Óskar Helgi 

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 25.3.2011 kl. 21:35

11 Smámynd: Viðar Friðgeirsson

Það er dapurlegt að lesa skrif þín Óskar. Svo full eru þau af hroka og lítilsvirðingu. Greinilegt að þú hefur skipt þjóðinni í tvo hópa. Annarsvegar "heykvíslahjörð" (væntanlega illa gefið fólk) og hinsvegar skynsama fólkið, þig og þína líka.

Í seinni athugasemd þinni segir þú svo; "atvinnuleysið er enn 8% en væri kannski komið niður í 4% ef þetta mál væri frá.  Atvinnulífið er lamað hér að stórum hluta útaf þessu máli."

Hvað hefur þú fyrir þér í þessu? hvernig veist þú að þetta séu staðreyndir. Veist þú eitthvað sem við "heykvíslahjörðin" vitum ekki? Af hverju talið þið skynsama fólkið alltaf þannig að ef við segjum "já" þá verði allur okkar vandi leystur og allur heimurinn muni keppast um að dæla peningum inn í íslenskt efnahagslíf, keppast um að fá að lána okkur peninga? Hvað ætlið þið skynsama fólkið að gera þegar þessi draumur rætist ekki og eymdin og volæðið verða orðin föst í sessi næstu 50 - 100 árin?Er ykkur ekki ljóst hvað er að gerast í heiminum? Er Island eina landið sem á í erfiðleikum með að endurfjármagna sig? eða eru kannski öll lönd að glíma við sitt ICEsave? Eru Portúga, Spánn, Írland, Grikkland og fleiri lönd að glíma við vandamál af því að þessar þjóðir hafa tekið að sér himinháar skuldir óreiðumanna? Eða er það vegna þess að alþjóðleg kreppa sem ekkert hefur með ICEsave að gera  er ríkjand? (og á sennilega eftir að versna og þá verður nú fínt að skulda bretum og hollendingum hundruð miljarða)

Eins og Ólafur Björn bendir þér á her að ofan þá gerðist ekkert af því sem stjórnarliðar og útsendar þeirra spáðu. engir af þeim dómsdagsspám rættust. það sama mun gerast núna þegar þjóðin hefur fellt þennan samning.

VIÐ ÞURFUM EKKI AÐ GERAST UNDIRLÆGJUR OG LEIGUÞÝ BRETA OG HOLLENDINGA TIL AÐ KOMAST UPP ÚR FARINU, (munum reyndar aldrei komast úr því ef við kjósum það) VIÐ ÞURFUM NÝJA OG ÖÐRUVÍSI ÞENKJANDI RÍKISSTJÓRN.

Viðar Friðgeirsson, 25.3.2011 kl. 22:13

12 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Björn, þar sem þú ert naskur á blæbrigðin, og dyggur lesandi, þá ætla ég að skjóta á þig innslagi sem ég hefði kannski kosið að hafa okkar á milli, en þar sem hvorugur okkar hefur beðið hinn um bloggvináttu, þá verður það fyrir opnu húsi í trausti þess að ekki of margir lesi.

Ef þú skynjar uppgjafartón, þá er hann af persónulegum ástæðum, og kannski þekkir þú skýringuna, átakblogg krefst viðveru og hún er ekki alltaf vinsæl.  Á vissan hátt þarf maður að geta réttlætt tímaþjófinn.

Vonbrigði væri kannski nærri lagi, en skýrir samt ekki tónbreytinguna.  

Þó það hafi ekki verið opinbert (en þeir sem áttu upptök að kjosum.is vita mína afstöðu), þá vildi ég ekki þetta mál í þjóðaratkvæði, taldi það aldrei öruggt og þó það yrði naumur sigur, að þá yrði hann lítið betri en ósigur.  Ég  mat veðrabrigðin þannig að Hrunöflin væru búin að sigra, fólk bæði sætti sig við ránið, og hlutskipti sitt sem þrælar fjármagns.  Ef það eru vonbrigði, þá fannst mér þetta vera að breytast, að mat mitt væri ekki rétt.  Og það sem fór fram úr vonum mínum voru einhörð viðbrögð virkra sjálfstæðismanna við svikum flokksforystunnar, satt best að segja þá hélt ég að undirlægjan væri ríkjandi í þeirra hópi.  En mótspyrnan er mest frá hægri, svo og sá hluti andófsins sem aldrei sveik, fólk eins og Jakobína, Rakel, Gunnar Skúli svo dæmi séu tekin.  Og það sem mest munaði um voru lagarökin, þau komu frá hópi ungra lögfræðinga sem tóku við þegar þeir gömlu gáfust upp fyrir vilja flokksforystunnar.

Ég játa að ég hélt að vígstaðan væri betri, og greinar mínar um glæpinn voru hugsaðar sem salt í sárin.  Stríðni til að minna á á hvaða hæpnum forsendum málatilbúnaður breta og stuðningsmanna þeirra væri.  Ef staðan væri tvísýn, eða töpuð, þá léti ég ekki svona, og skal útskýra það seinna.

En mín afstaða var alltaf á hreinu, ég vildi samþykkt laganna, það er þing plúss Ólafur (sem var alltaf frekar ólíklegt en samt, af hverju var farið í þennan leiðangur aftur??) og síðan vildi ég þjóðarsamtök um kæru, það er að láta dómsstóla meta málið, sem ég hef alltaf talið grundvöll sátta.  Get vitnað í mína Lilju frá því að ég varð 47 ára.  

Tapað þjóðaratkvæði skekkir þessa mynd, ekki hef ég afl til að kæra, mun myndast samtök um þá kæru??????????'

Þannig að frétt dagsins er sem slík beggja blands, lög samþykkt af Alþingi, staðfest af forseta, er eitthvað sem er svo auðvelt að skapa úlfúð gegn.  En hvað með niðurstöðu þjóðaratkvæðis???

Ólög eru vissulega ólög, og ef menn meta það, og vilja berjast, þá er ég ánægður.  Ekki spurning, og því græt ég ekki Jáið, óttast reyndar meira naumt Nei, að ég fái nýjan samning eftir nokkra mánuði með næstum því Ragga Hall, og þá enn ein barátta.

Málið er Björn, að ég er búinn að berjast lengi, strax frá 6. okt 2008, og það var ekki fyrr en ég fann þá Jón og Loft, sem ég fékk sálufélaga.  Ég barðist gegn fyrsta samningnum, og ég skrifaði ICEsave greinina mína að kvöldi þess dags sem fyrstu ICEsave lögin voru samþykkt, ICEsave er ekki val.  Og síðan kom næsti samningur, og síðan komu hótanir um þennan samning, og svo kom hann.  Og ég hef alltaf upplifað þörfina fyrir þá andstöðu sem er að finna á þessu bloggi.  Að hún sé þess virði að fórna öðru fyrir.

Einnig upplifði ég mjög mikla skekkju í málflutningi ríkisstjórnar, og mikla misnotkun ríkisfjölmiðlanna, um auðskrípin þarf ekki að hafa orð.

Þetta þjónaði því tilgangi allt saman.  Var hægt að réttlæta.

Í dag eru kannski vonbrigðin sú að bæði sjónarmið eru aðgengileg, það er ekki bara við í  heykvíslahjörðinni sem erum á móti, heldur öflugur hópur ungs fólks sem hefur aðgang að fjölmiðlum.  Á sama tíma er ekki hægt að saka stjórnvöld um óeðlilegan hræðsluáróður eða blekkingar, í raun hafa þau haldið sig til hlés.

Samt mun Já ið sigra, eða tapa með naumindum.

Og þá er minn í klípu.

Ég taldi mig alltaf tjá rödd hins nafnlausa manns sem endalaust hefur verið níðst á í gegnum aldirnar.  Með ertni minni og galgopahætti þá sýndi ég fólki fram á að það sem því fannst rétt, var rétt, annars hefði þessi vitleysingur löngu verið jarðaður með rökum.  En staðreyndin er sú að það er ekki, rökin gegn ICEsave eru það sterk, að svona blogg hefur flotið.

Og maður skrifar, það er ef maður trúir að maður sé að berjast gegn kúgunaröflum.

En ég er ekki viss um að ég væri jafn einbeittur í stríði við venjulega samborgara mína.  Mér finnst niðurstaða skoðunarkönnunarinnar sýna að svo sé raunin.  Að venjulegt fólk kýs Hrunið, og Hrunverja, og hvað gefur mér rétt til að vega það????

Ég hef rétt að vera á móti.  En í bloggi mínu veg ég fólk, ég ræðst beint á andstæðinga mína, og felli þá ef ég hef minnsta möguleika á því.

Ég get skrifað svona blogg gegn fámennri klíku sem stal, og vill stela, en ekki gegn náunga mínum og samborgara.

Það er allavega vandlifað í þjóðfélagi þar sem hátt í eða rúmlega 50% fólks er sekt um hlutdeild í glæp.  Þá er eins og maður sé að berjast við náungann, og það er ekki markmið mitt.

Ég hóf skrif mín eftir rúmlega 20 ára stopp, það er ég hafði ekki skrifað stafkrók frá haustinu 2007, með bréfi til Egils Helgasonar, þar sem ég vakti athygli hans á í hvað farveg þjóðin stefndi í eftir Hrun, eyðandi átök sem myndu endurreisa hið gamla þjóðfélag.  Og ég vakti athygli hans á að til væri leið, sannleiksleiðin, sem gæti gert upp Hrunið án þess að allir væru dveljandi á banaspjótunum.  Og banaspjótin var ekki sú framtíð sem ég vildi börnum mínum.

Í sannleika sagt, eins mikið og ég get sagt satt, þá óttaðist ég að Bræður myndu berjast og að bönum verðast, og það yrði að koma í veg fyrir það.  Fyrstu mánuði skrifa minna í netheimum, þar sem viljinn var meiri en getan, þá reyndi ég að vekja athygli á að framtíðin skipti meira máli en fortíðin. Var ekki einn um það, og var því ekki einn sem tapaði því stríði.

Eftir stóð ICEsave, það eina sem réttlætti áframhaldandi vindmylluslag.  Og ég tel mig hafa verið drjúgan og mótandi í því stríði, fórnirnar hafa verið réttlætanlegar.

En ég vildi ekki vera gerandi í Bræður munu berjast og að bönum verðast.  Hef ekki góða minningar frá slíkum átökum, vægast sagt.

Núna upplifi ég mig ekki í stríði við valdaklíku Óberma sem ég vil höggva, heldur er þetta valkostur þjóðarinnar að treysta þessu fólki.  Vissulega er ég á móti því, en ég kann ekki neitt annað en að höggva, og ég hegg.

En þess högg vill ég ekki höggva Björn, þannig er nú það.

Ef það er uppgjöf, þá verður það að vera.  Ég hét því einu sinni við sjálfa sálu mína að aldrei skyldi ég berjast aftur fyrir óviljuga, vilji þeirra yrði að hafa sinn gang.  En ég hef alltaf verið tilbúinn að falla fyrir það sem skiptir máli, í hópi sem telur eitthvað skipta máli.

Núna met ég það þannig að þjóðaratkvæðið verði að hafa sinn gang.  Fullt að góðu fólki er að kynna sín sjónarmið, og er það vel.

Ég er bara ekki í þeim hópi.

En ég skrifaði einu sinni góða grein, ég ætla hana sem lokaorð mín, í bili að minnsta kosti, í þessari deilu.  En ég mun skipta um skoðun ef ég finn þef af illvígu trölli, illalyktandi rekandi við á Ruv, með lygaslepju og ósannindum, þá mun ég mæta, en ekki núna, finn ekki fyrir þeirri stemmingu að ég nenni.

Ég held til baka í þann hóp sem ég tilheyri, nafnlaus meðal nafnlausra.  Og ég ætla mér að virða rétt hans til sjálfstæðra ákvarðana.  En ég áskil mér rétt til að vega að rangindunum með því að taka þátt í starfi fólks sem vill láta reyna á réttlætið.

En þá höggvum við óvininn, ekki samborgara okkar.

Björn, þú namst þau blæbrigði sem kröfðust ítarlegs svars.

Kveðja, Ómar.

Ómar Geirsson, 25.3.2011 kl. 22:23

13 Smámynd: Björn Birgisson

Ómar Geirsson, ódrepandi baráttumaður og duglegi skrifari, þakka þér kærlega þitt mjög svo ærlega svar. Ég lít ekki á mig sem þinn andstæðing. En væri það svo, að þú værir andstæðingur minn í hvívetna, og ég hefði eitthvert val um andstæðinga, þá myndi ég alltaf velja þig. Eitthvað segir það.

Stolt er viðsjárverð dyggð, sagði mætur maður.

Bestu kveðjur austur!

Björn Birgisson, 25.3.2011 kl. 23:02

14 identicon

Heill og sæll Ómar

Ekkert er fast !  Allt er breytingum undirorpið.

Úr þessu segjum við bara enn hærra NEI ... svo bergmáli fjöllunum í !

Takk fyrir dúndrandi pistla þína og og aragrúa frábærra athugasemda.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 25.3.2011 kl. 23:33

15 Smámynd: Ólafur Björn Ólafsson

Óskar, svar þitt er ekki fullnægjandi mér. Það að benda á atvinnuleysistölur eru jú kanski ágætis rök en það verður að líta á staðreyndir sem eru t.d. sögulegar en það hefur aldrey verið hægt að hafa vinstri stjórnir við völd í kjölfar kreppu, þær geta ekkert þar sem bankarnir halda að sér höndum.

Ef það væri hægristjórn þá færi atvinnuleysi minkandi. Ég er samt ekki að mæla með hægrimönnum þar sem ég er vinstri maður. Einu skiptin sem vinstri stjórnir hafa verið góðar er í góðæri enda þarf engu að stjórna þegar svo er.

Það að einblína á ICESAVE varðandi atvinnuleysistölur er léleg rök.

Með kveðju til allra og von um NEI við ICESAVE

Kaldi...

Ólafur Björn Ólafsson, 26.3.2011 kl. 01:44

16 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Hvað er að þegar þjóðin lætur smala sér eins og kindur til slátrunar með því að segja já fyrir flokksræðið og ESB innlimunina! Ég mun segja nei og það munu flestir í minni ætt gera enda erum við Íslandsvinir og lýðræðissinnar!

Sigurður Haraldsson, 26.3.2011 kl. 02:01

17 identicon

Það er ekki nokkur leið að átta sig á því með því að lesa þennan samhengislausa þvaður pistil hvort þú ert já eða nei maður

Skúli Skelfir (IP-tala skráð) 26.3.2011 kl. 11:56

18 Smámynd: Ómar Geirsson

Enn og aftur takk fyrir innlitið félagar, Skúli Skelfir mér finnst þú reyndar skemmtilegri í sjónvarpinu, og líka þroskaðri.

Sigurður, já og fólk, ekki gleyma því, fólk verndar framtíð barna sinna. 

Björn, það heyrist oft mikið sverðaglamur hjá þeim sem byggja á svipuðum lífsskoðunum en komast að ólíkri niðurstöðu.  Við endum sem samherjar í byltingunni einn daginn, þó ég efi að hún verði eftir rúma viku.

Mæltu manna heilastur Viðar, og Ólafur og anna, við segjum Nei.

Óskar, núna þarf virkilega að brýna forna bardagahetjur um liðveislu, þó frábið ég mér stuðning Assýringa, þetta voru bölvaðir ICEsave sinnar.

Og forlögum mínum mun ég mæta, en mikið vildi ég að menn færu að drífa í að blása burt þessari lognmollu.

Afsakið annars síðbúna kveðjur, ég fór í ICEsave helgarfrí.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 28.3.2011 kl. 00:48

19 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Pétur.

Vissulega er margt breytingum undirorpið, en mér sýnist að fátt ætli að breyta núverandi Hrunferli, og mér sýnist líka að helmingur þjóðarinnar er fastákveðinn í að gefa sama fólkinu aftur tækifæri á að ræna okkur og rupla.  Það sem skelfir mig er að þegar tveir álíka stórir hópar takast á, er að út úr því komi einhver heimskuleg átök á meðan skrímslin festa á okkur hægt og rólega hlekki ánauðs og örbirgðar.

Og jafnvel þó það náist til að hindra það, þá mun það kosta mikla baráttu við samborgara okkar.  Þetta er ekki bara fémenn klíka auðmanna og leppa þeirra, hugmyndaheimur þeirra og þekkt ránstaktík hugnast stórum hluta þjóðarinnar.

Ég tel reyndar að við munum vinna ICEsave slaginn, og ætla svo sem að aðstoða okkar fólk í baráttu sinni.  En naumur sigur er Pyrrhosar sigur, og í besta falli fáum við nýja kennitölur til að framfylgja sömu hálfvita stefnunni og fyrr.  Þó það sé þegar byrjað að undirbúa sölu á almannaeignum til auðskrípa í Grikklandi og á Írlandi, og það er augljóst að sama mun gerast hér, þá er litið á fólk eins og Lilju Móses sem viðrini að vera endalaust að tönglast á sömu hlutunum, AGS=samdráttur=skuldafangelsi=endir sjálfstæðis okkar.

Meinið er að andstöðunni hefur ekki borið gæfu til að móta trúverðugan valkost, og á meðan eiga hinir sviðið.

Og ég á engin svör við því.  

En ætla samt að slíðra sverðin, þegar ég vill að allt fari í bál og brand, þá átti brandurinn að beinast að auðræningjunum og leppum þeirra, ekki nágranna mínum (sem er reyndar Nei maður) eða helftinni að samborgurum mínum.

Mér finnst vanta eitthvað inni jöfnuna, þetta er ekki að ganga upp.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 28.3.2011 kl. 00:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.1.): 7
  • Sl. sólarhring: 69
  • Sl. viku: 2647
  • Frá upphafi: 1412705

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 2311
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband