Hvernig þekkir maður glæpamenn þegar þeir ganga ekki með grímur???

 

Jú, maður les lögin, athugar hvort atferli þeirra varðar við lög.

Áttum okkur fyrst á staðreyndum ICEsave málsins.  

 

Krafa breta um að íslenska ríkið ábyrgist kröfur á hendur Tryggingasjóð innlána byggist á tilvísun þeirra í EES samninginn og tilskipun ESB nr 94-19 um innlástryggingar.  Í EES samningnum er ekki minnst á þessa ábyrgðarskyldu, en þar eru skýr ákvæði sem mæla gegn ríkisábyrgð.  Með öðrum orðum þá er krafa breta ólögleg samkvæmt EES samningnum.  Vissulega eru undantekningar, en þær þurfa þá að uppfylla ákveðin skilyrði, og vera sett af því ríki sem ætlar að veita ríkisábyrgð.  Hvergi er gert ráð fyrir því í EES samningnum að annað ríkið geti sett einhliða ríkisábyrgð fyrir viðkomandi ríki, líkt og bretar eru að fara fram á.  

Tilvísun breta í EES samninginn er því öfugmæli, EES samningurinn bannar háttsemi þeirra.

Tilskipun ESB um innlánstryggingar, er eins og orðið hljómar, fjallar um tryggingakerfi fjármagnað af fjármálastofnunum sem aðild eiga að tryggingarkerfinu.  Ekkert er minnst á hvað gerist ef tryggingakerfið kemst í þrot, minnst er á lántökur, og er líklegast þá miðað við að um skammtímafjárvöntun er að ræða.  En það er ekkert minnst á hvað gerist við kerfishrun.  Þó er skýrt tekið fram að aðildarríki séu ekki ábyrg gegn tjóni tryggingataka, ef þau hafa uppfyllt það skilyrði að stofna tryggingasjóð eftir ákvæðum tilskipunarinnar.  Einnig má hafa í huga að í almennum tryggingum er alltaf varnaðarákvæði að ef  allsherjartjónverður  vegna til dæmis náttúruhamfara eða styrjalda, að þá gildir tryggingin ekki, enda vandséð hver á þá að hafa fjármuni til að greiða út.

En það er alltaf þetta stóra EF og einhver er ósáttur við að ekki sé ríkisábyrgð á íslenska tryggingasjóðnum, þá gerir hann kröfu á íslenska ríkið, og reynir að fá þeim lögum hnekkt og íslenska ríkið gangi í ábyrgð.  Og það er dómsstóla að skera úr um þessa kröfu.

Það er dómsstóla að skera úr um ágreining sem viðkemur lögmæti laga.  

Falli dómur á íslenska ríkið, þá er lítið við því að gera, þá þarf að semja, og miða þá við alþjóðalög og reglur, sem og auðvita íslensk lög sem ná um gjaldþrot og svo framvegis.

 

Hefðu bretar virt þetta lögbundna ferli réttarríkisins, þá væru þeir ekki sekir um glæp, fengju þeir dóm, þá væru þeir með lögvarða kröfu á hendur íslenskum stjórnvöldum, væri kröfu þeirra hnekkt, þá næði málið ekki lengra.

En bretar fóru ekki með kröfuna fyrir dómsstóla, þeir hafa aldrei gert það.  Þetta er staðreynd sem enginn deilir um.  Það sem slíkt er ekki ólöglegt, að banka upp á og biðja um pening eða réttara sagt krefjast penings, færa rök fyrir sínu máli, og reyna að ná samningum

En þá leið fóru bretar ekki, þeir beittu strax þvingunum, þeir settu landið á hryðjuverkalista, beittu áhrifum sínum til að stöðva flæði gjaldeyris til landsins, og þeim þvingunum afléttu þeir ekki fyrr en íslensk stjórnvöld skrifuðu undir samkomulag við AGS þar sem íslensk stjórnvöld lofuðu að ná lausn í ICEsave deilunni.  Síðan hafa breta verið margstaðnir að því að beita áhrifum sínum innan AGS og ESB til að þrýsta á að íslensk stjórnvöld samþykktu kröfu sína, ásamt því að ljúga til um lögmæti hennar á alþjóða vettvangi.  

Allt þetta, að þvinga, að hóta, að skemma, að ljúga til um lögmæti eða háttsemi, allt þetta varðar við lög.  Bæði bresk lög og íslensk, ásamt lögum allra annarra þjóða heims.

Þess vegna er háttsemi breta glæpur, og þjóðaratkvæðið 9. apríl, þjóðaratkvæði um glæp.

 

Framferði breskra stjórnvalda er glæpsamlegt samkvæmt breskum lögum, og á að kærast í Bretlandi.  Þar segja lögin þetta um kúgun (extortion).

 

"Extortion, outwresting, and/or exaction is a criminal offense which occurs when a person unlawfully obtains either money, property or services from a person(s), entity, or institution, through coercion (þvingun). Refraining from doing harm is sometimes euphemistically called protection. Extortion is commonly practiced by organized crime groups. The actual obtainment of money or property is not required to commit the offense"

 

Það er bannað að hafa verðmæti af öðrum á ólögmætan hátt með þvingun.   Og ótal ótal dómar þar um hafa verið felldir á Englandi, enda var þetta aðal fjármögnunaraðferð IRA á meðan samtökin áttu i stríði við bresk stjórnvöld.

Lagatextinn er það skýr að jafnvel velgreindur Samfylkingarmaður getur ekki hártogað hann.

 

Ég skrifaði grein í gær á bloggi mínu um að stuðningsmenn bresku fjárkúgunarinnar væru glæpamenn því lögin eru þannig að sá sem aðstoðar við glæp, eða tekur þátt í honum, að hann er glæpamaður samkvæmt laganna hljóðan.  Augljóst mál, en skrýtið, það urðu einhverjir sárir.  Það er eins og fólk geri sér ekki grein fyrir að lög gildi í landinu, og banni ýmsa hegðun, þar á meðal opinberan stuðning við fjárkúgun.

Til að eyða þeirri umræðu þá vil ég vitna beint í lögin í trausti þess að fólkið sem skrifar opinberlega um stuðning sinn við glæp, að það sé líka læst, ekki bara skrifandi.

 

Þetta segir í almennum hegningarlögum um hlutdeild.

 

"22. gr. Hver sá maður, sem með liðsinni í orði eða verki, fortölum, hvatningum eða á annan hátt á þátt í því, að brot samkvæmt lögum þessum er framið, skal sæta þeirri refsingu, sem við brotinu er lögð."

 

Að liðsinna glæpamanni með orðum eða í verki, með fortölum, hvatningu, það er glæpur líka.  Flóknara er það ekki.

Eina spurning er hvort fólk sé hrekklaust í stuðningi sínum við glæpinn, er það dómsstóla að meta það.  En þá erum við með brot á 253. grein hegningarlaganna sem bannar að plata fólk í þá vegu, þeir sem ljúga mest í fjölmiðlum um ICEsave mættu alveg hafa það bak við eyrað.

 

"253. gr. Hafi maður notað sér bágindi annars manns, einfeldni hans, fákunnáttu eða það, að hann var honum háður, til þess að afla sér með löggerningi hagsmuna eða áskilja sér þá, þannig að bersýnilegur munur sé á hagsmunum þessum og endurgjaldi því, sem fyrir þá koma eða skyldi koma, eða hagsmunir þessir skyldu veittir án endurgjalds, þá varðar það …1) fangelsi allt að 2 árum."

 

Já, lygi til að blekkja fólk við stuðning við glæp, er líka refsiverð.

 

Þjóðfélagið okkar féll vegna þess að lygi og blekkingar tröllriðu almennri umræðu.  Núna er ljóst að margt af því sem var sagt var sagt til að auðvelda bankaránsmönnum og öðrum fjárglæfra mönnum að ræna hvort sem það var fyrirtæki sín eða almenning.

Sömu menn og aðstoðuðu fjárræningja við þá iðju, hafa ráðið sig í málaliðamennsku hjá bretum, og innlendum leppum þeirra.  Og fjölmiðlamennirnir eru allflestir þeir sömu.  En líklegast sleppir þetta lið vegna þess að ekki var um einn skilgreindan glæp að ræða og því erfitt að hanka menn fyrir eitthvað ákveðið, það er jú erfitt að ákæra fyrir rán á samfélagi eða eitthvað svoleiðis.

 

Þessir menn halda að þeir geti leikið sama leikinn, logið og blekkt fyrir pening (störf, bitlinga o.s.frv.) og komist upp með það.  En þeir átta sig ekki á að núna er glæpurinn einn, hann er vel skilgreindur, og engin lagavafi leikur um tilurð hans.

Og allt atferli þeirra varðar við lög.

Sem og atferli þeirra sem styðja ICEsave fjárkúgunina opinberlega, en þar er um hópsefjun að ræða, sem varla yrði refsað fyrir.

En ICEsave glæpamennirnir komast ekki upp með fjárkúgun sína eða aðstoð við hana, ef ríkisábyrgðin verður samþykkt.  Þá er glæpurinn fullframinn, og hjól réttlætisins taka við að malla.

 

Þess vegna má segja að Já sinnar eru þeir einu sem eiga eitthvað undir þjóðaratkvæðinu um glæp.  Verði það samþykkt, þá verður ríkisábyrgðin kærð, og hið glæpsamlega atferli líka.  Og þar sem lögin eru skýr, þá munu dómsstólar ógilda ríkisábyrgðina og sekir ráðmann látnir sæta ábyrgð.  

Falli lögin þá er aðeins um tilraun um glæp að ræða, og enginn mun sjálfsagt nenna að lögsækja tilraunamennina, þeirra refsing verður skömmin.

Þetta er líklegast skýring þess að stjórnmálamenn okkar hafa lítið sést í umræðunni síðustu daga.  Það mætti halda að það hafi verðið ASÍ sem samdi við bretana, aðrir opna varla munninn.

Þeir vita eins og er að þeir eiga mest undir því að ICEsave verði fellt.

 

En ég ætla samt ekki að leggja til af skepnuskap mínum að þjóðin segi Já, þá væri ég um leið orðinn hlutdeildarmaður í stærstu fjárkúgun seinni tíma.

Og margt er ég, en ekki fjárkúgari og glæpamaður.

 

En það er ofsalega gaman að stríða glæpamönnunum á glæpnum.

Kveðja að austan.

 

 

 

 

 


mbl.is Fjörugar umræður um Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Svona bara til að tala um tilskun 19/94 Þá minnir mig að segi þar að ríkjum sé skilt að koma upp trygginarkerfum einu eða fleirum sem TRYGGJA innistæður upp að þessu lágmarki sem nú er 21 þúsund evrur. Eins þá skv. lögum frá 1999 um innistæðutrygginarsjóð þá átti ríkið 2 fulltrúa í stjórn Innistæðutrygginarsjóðs. Þetta var væntanlega gert til að ríkð hefi yfirsýn um að sjóðurinn væri rekin þannig að hann stæði við það sem honum var ætlað að tryggja. En eitthvað brást í eftirliti með honum sem að stjórnvöldum bar að fylgjast með. Þá var þessi sjóður rekin og staðsettur í Seðlabankanum minnir mig. Nær allar þjóðir í ESB sem og hér hafa í raun ábyrgst þessa sjóði beint og óbeint með því að leggja þeim til fé nú í hruninu sbr. að trygginarsjóður Breta borgaði allar innistæður einstaklinga á Icesave m.a líka okkar hluta í tryggingunni.

Það voru ráðin virtar lögfræðistofur til að kanna möguleika okkar á kæra hvernig að bretar fóru inni í Kaupþing og bæði tapaði Kaupþing máli og önnur voru talin vonlaus. Svo bendi ég þér á að Íslenska ríkði átti engan af þessum bönkum og hafði því ekki beinan aðgang að því að geta farið í mál út af þeim.

Svo væri gaman að vita hvernig þú ætlar að fara að rökstyðja "kúgun". Þetta eru milliríkjadeilur og hafa ekkert með hegningarlög hér eða í Bretlandi að gera.

Magnús Helgi Björgvinsson, 25.3.2011 kl. 00:27

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Nei blessaður Magnús, það er ekki á hverjum degi sem maður rekst á hlutdeildarmann hér á síðunni.

Málflutningur þinn er einmitt dæmi um "liðsinni í orði eða verki, fortölum, hvatningum", það hlýtur að vera hroðalegt að vera lagður svona í einelti af lögunum.  Þið ICEsave sinnar ættuð að stofna sjálfshjálparhóp með Steiner og öðru ofsóttu fólki.

Rangfærslur, eða skyndileg vanlestrarhæfni, eru dæmi um svona liðsinni.

Þar sem ég ætla ekki út um víðan völl, þá ætla ég ekki að taka umræðuna við þig hvort ríkisábyrgð sé innifalin í tilskipun ESB um innlánstryggingar, finnst rétt á þessu stigi að trúa þeim sem sömdu tilskipunina og þeim sem sjá um eftirlit með henni innan ESB.  Þeir segja að það sé ekki ríkisábyrgð, og ég sé enga ástæðu að draga orð þeirra í efa, enda stendur það skýrt í tilskipuninni.

Ég skal viðurkenna að stundum hvarflar að mér að þú sért ekki að plata viljandi, þú lemur ítrekað hausnum í stein, og endurtekur sömu frasana sem marghafa verið hraktir.  Og þú kýst ekki að skilja einfalt mál.  Spurningin er því hvort um vilja sé að ræða, eða einhverja blindu, líkt og lesblindu.

Þú segir það sjálfur, tryggingakerfið á að tryggja, endi benti ég á að tilskipunin notaði orðið trygging og innlánstrygging.  Athöfn eða skyldur ríkisvaldsins var að koma á fót stofnun sem tryggir innlán, og sjá til þess að hún geri það.  

Við höfum tvennt til að meta hvort íslenska ríkið hafi uppfyllt þær skyldur, það fyrra er eftirlitskerfi EES samningsins sem er skýrt ákveðið í þeim samningi, og það seinna er svo dómsstólar ef einhver er ósáttur við lögin, framkvæmd þeirra eða eftirlit.

Eftirlitskerfið gerði ekki athugasemdir, engin mál eru fyrir dómsstólum, þannig að hefði rök eru út úr kú, því orðum er alltaf hægt að stjórna, þú getur sagt það um hverja athöfn ríkisins að hún sé brot á EES eða einhverri tilskipun, og síðan sagt að við þurfum að gera eitthvað, annars gerist þetta. 

Svoleiðis hegðun  sem slík er meinlaust, líkt og að þú eigir að strá salti yfir hægri öxlina ef þú sért svartan kött, en líkt og ef þú byrjar að hræða fólk og hafa út úr því fé með því að spila með hjátrú þess, þá eru lögin skýr að slíkt er glæpsamleg hegðun.

Eins er það með þessa fullyrðingu þína, hún styðst ekki við athugasemdir framkvæmdaraðila þegar lögin voru sett, á meðan lögunum var framfylgt, og hún styðst ekki við dóm.  Samt reynir þú að stela hluta af skattpeningum mínum með tilvitnun í hjátrú og bábiljur.

Það er það sem þessi pistill fjallaði um, þá gjörð að hafa skoðun á framkvæmda laga, og í stað þess að leita til dómsstóla með þá skoðun, þá var sagt, þú áttir að gera svona, núna borgar þú mér.

Hvað órök þín varðar um aðkomu ríkisins vegna stjórnarmanna, þá er ljóst að um sjálfseignarstofnun var að ræða, og ríkið hafði ríka eftirlitsskyldu með henni, og skipaði þess vegna fólk i stjórn sjóðsins.  Það er hvergi minnst á í lögum að ríkisábyrgð myndist við gjaldþrota stofnana eða fyrirtækja þar sem ríkið á mann í stjórn.

Hvað þú ert að tala um Kaupþing og hina bankanna skil ég ekki, reikna samt með að þú sért að tala um lögsókn vegna ólöglegrar yfirtöku breskra banka í íslenskri eigu.  Ég var ekki að tala um þá en fyrst þú ert að því þá er ljóst að fyrrum eigendur bankanna geta farið í mál, og ótrúlegt að þeir skuli ekki hafa gert það því miklir hagsmunir eru í húfi.  Íslensk stjórnvöld geta síðan farið í mál vegna beitingu hryðjuverklaganna, auk þess að ýmis ummæli Browns og Darlings eru sannarlega röng og varða við meiðyrðalöggjöfina.

En ég var að tala um þá athöfn eða gjörð sem kallast kúgun eða extortion á ensku.

Já, þú talar um eitthvað sem einhver hefur gert, önnur ríki eða eitthvað.  Rökin þín eru sambærileg að þú mættir fyrir rétt, ásakaður um að hafa selt Everestförum ónothæft súrefnistæki, og það hafi því miður fellt þá, þá svarir þú því til að slíkt passi ekki, þú hafir sjálfur notað það á Esjuna.

Það hefur ekkert ríki lent í þeim aðstæðum sem Ísland lenti í með banka sína, að vitna í aðra er órök.  Það sem menn gera heima hjá sér, fer vonandi eftir lögum, og það sem íslensk stjórnvöld gera hjá sér, fer vonandi líka eftir lögum.  

Sá sem ber brigður á lögmæti, hann fer með ábendingar sínar til dómsstóla og lætur þá skera úr um álitamálin, ef hann vill fá fram breytingar á atferli viðkomandi ríkisvalds eða hann telji sig hafa orðið fyrir skaða sem hann vill fá bættan.

Þetta er ekki flókið, kallast réttarríki Magnús.

En húmorinn svíkur þig ekki og ég verð að endurprenta lokasetningu þína, hún er óborganleg;

"Svo væri gaman að vita hvernig þú ætlar að fara að rökstyðja "kúgun". Þetta eru milliríkjadeilur og hafa ekkert með hegningarlög hér eða í Bretlandi að gera."

I love it svo ég sletti aðeins á útlensku.

Já hvernig ætlar maður að rökstyðja brot á lögum????  Svona fyrir utan að vitna í skýran lagatexta sem nákvæmlega lýsir þeirri hegðun sem ég tel brotlega.

Sko, ég ætla að senda kröfuna til Bretlands, og segja að ef þeir skrifi ekki upp á skuldabréf upp á 1.800 milljarða dala, þá muni ég beita þá efnahagsþvingunum, og dreifa út um þá óhróðri og lygum.  Eins ætla ég að fá vini mína og aðra sem sjá feitan bissness í skaðabótunum, til að taka þátt í leiknum.  Hugsanlega fjárfesta sem geta lánað cash svo maður geti auglýst glæpsamlegt atferli bretanna og hvað maður muni gera ef þeir borga ekki.  Það verður eitthvað hræðilegt sem við ætlum að gera, eitthvað mjög hræðilegt.  Og við munum kaupa til liðs við okkur ýmislegt ógæfufólk, innlent og lofa því gulli og grænum skógum ef það hjálpar okkur.  Til dæmis við að fylla netheima af ótta við hið hræðilega, eða múta þingmönnum til að samþykkja kröfu mína eða annað sem ég get lært af vinnubrögðum íslenskra hlutdeildarmönnum í glæp.

Eða Magnús, ég get lagt inn kæru.  Það gerir siðað fólk og þar fyrir utan þá er ekkert vit í að beita handrukkun þegar lögin eru skýr, og standa með manni.  Svo er handrukkun ólögleg.

Í tilvitnaða gullkorni þínu þá kallar þú þessa fjárkúgun milliríkjadeilu, og þar með nái lög ekki yfir hana.  Stundum held ég að þráðurinn sé ákaflega stuttur í ykkur hlutdeildarfólki, þið hljótið að geta eitthvað betra en þetta.

Hugsaðu orð þín aðeins lengra, eru sem sagt að segja að þeir Brown og Darling sem og aðrir ráðamenn þessa heims þurfi ekki að virða almenn hegningarlög, ef athafnir þeirra eru erlendis eða beinast að erlendum ríkisborgurum eða erlendum ríkjum???  Þeir geti bara kallað athafnir sínar milliríkjadeilu, og þá er málið dautt.

Mega þeir sem sagt til dæmis láta drepa fólk ef þeim sýnist svo.  Eða láta eitra vatnsból, eða annað.  Segjast svo ætla að hætta því ef viðkomandi ríki skrifi upp á skuldabréf upp á um 40% af þjóðarframleiðslu.  Heldur þú að hernaður gegn Bretlandi væri eina svarið, að breskir dómsstólar myndu láta þetta líðast???

Hugsaðu aðeins Magnús, þó það sé erfitt að finna rök sem réttlæta glæp, þá á að vera viss takmörk á bullinu.

Það var milliríkjadeila þegar Gaddafi lét sprengja flugvél í loft upp yfir Bretlandi.  En það var líka glæpur, bæði samkvæmt breskum lögum og lýbískum.  En lög ná ekki yfir einræðisherra og þess vegna var hann ekki ákærður i heimalandi sínum, og breta mátu olíuhagsmuni sína meiri en réttlætið og hættu þvi a bögga kallinn.  En kallinn er sekur um glæp og það er hægt að ákæra hann hvenær sem er.

Mannrán Norður Kóreu manna á Japönskum ríkisborgurum er líka dæmi um glæp, mannrán.  þar sem lög ná ekki yfir athafnir stjórnvalda í Norður Kóreu þá var lítið hægt að gera, vissulega var það milliríkjadeila, en glæpamennirnir voru öruggir.

En svona opinberar glæpabullur geta ekki treyst á eilífa vernd síns ríkis, það fengu morðingjarnir í Chile og Argentínu að reyna þegar lýðræðisstjórnir tóku við af herforingjastjórnunum.  Til dæmis í dæmi Pinochet þá hélt ekki sú vernd sem hann hafði tryggt sér heima fyrir, glæpir hans gagnvart spænskum ríkisborgurum voru tilefni þess að hann var ákærður á Spáni.

Valdhafar eru ekki ofar lögum og þeir hafa ekkert skjól með lagabrot sín með tilvísun í milliríkja eitthvað.  Þeir hafa skjól í löndum einræðis, þar sem réttarkerfið lýtur stjórn valdhafa, en ekki í lýðræðisríkjum þar sem réttarkerfið er aðskilið frá framkvæmdarvaldinu.  Bretland er lýðræðisríki, Bretland er réttarríki.

Og þetta vita allir alveg eins og fólk veit að deilumál eru leyst fyrir dómi, að einhliða innheimta með hótunum og ofbeldi varðar við lög, og að glæpir borga sig ekki.

Ef ég væri hlutdeildarmaður um glæp, þá hefði ég virkilega áhyggjur af framtíð minni.

Það þarf ekki nema einn að kæra og þá mallar réttarkerfið, og það dæmir eftir lögum, ekki vilja ráðamanna eða guða þinna í Brussel.

En ég skal leggja inn góð orð um þig, þetta með blinduna gæti verð læknisfræðilegt.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 25.3.2011 kl. 08:26

3 Smámynd: Einar Karl

Langur pistill hjá þér Ómar. Samt minnist þú ekki einu orði á MISRÉTTIÐ. Sem er aðalmálið, ekki tilskipunin. Umræðan um tilskipunina hefur bara verið miklu miklu fyrirferðarmeiri hér, því þau atriði málsins eru ekki jafn afdráttarlaust á móti okkur.

Hlustaðu t.d. á orð Margétar Einarsdóttur, sem var í Silfrinu í síðustu viku. (Hún er annars gallhörð hægrimanneskja og engin málpípa stjórnarinnar, ESB eða xD formannsins.)

Það þýðir ekkert að pikka bara út þau atriði sem mögulega gagnast manni í ágreiningsmáli, og líta algjörlega framhjá öðrum atriðum sem eru manni miklu óhagstæðari.  Slíkt gagnast kannski heimafyrir í áróðursstríði en ekki fyrir dómi.

Ef ég hefði keypt af þér hús og svo ekki borgað, þá gæti ég alveg búið til ágreining t.d. um smá leka í bílskúrnum (sem væri kannski raunverulegur og jafnvel tilefni til minniháttar afsláttar) og svo sagt að það væri bara eðlilegt að málið væri leyst fyrir dómi og neitað að borga, og kallað þig svo glæpamann og þaðan af verra. En eðlilegra og sjálfsagðara væri að setjast niður og semja um málið á sanngjarnan hátt.

Einar Karl, 25.3.2011 kl. 11:53

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Einar Karl, ég skrifa langa pistla, fulla af löngum setningum, sem eru skilyrtar út og suður, með mörgum og-um og en-um og ef-um.  Ég skrifa gegn ICEsave og AGS, gagnrýni ríkisstjórnina, og Hrunið, íhaldið og búsáhaldabyltingarfólkið.  Og ég á það líka til að styðja sömu aðila, það er alla en óbermi AGS.

Innslögin mín eru líka oft löng, mjög löng, og vilja oft fara út og suður.  

Þrátt fyrir þetta allt þá er ég núna í 5 sæti á Moggablogginu, samt er enginn hiti í samfélaginu en það eru mínar kjöraðstæður.  Og ég lendi í því að vera bent á að það sem ég segi núna passar ekki við það sem ég sagði í einhverju ofurlöngu innslagi mörgum vikum áður.

Þetta segir mér það Einar að það er til fólk sem vill rök fyrir fullyrðingum, og það les mig ekki endilega vegna þess að það er sammála mér, enda ekki hægt þar sem ég fer svo út og suður í skoðunum mínum enda Hriflingur, heldur vegna þess að það mátar sín rök við mín.  Og menn láta sig jafnvel hafa það að sitja undir kárínunum til að komast að rökunum.

Heimsókn mín á blogg þitt um daginn var þess eðlis, þú skrifaðir einstaklega vandaðan pistil, og ég reyndi að útskýra mín sjónarmið þar sem þú bauðst mönnum í heimsókn.  Í heimsókninni þá notaði ég ekki sama orðlagið og heima hjá mér, enda sagði mamma alltaf við okkur bræður að við ættum ekki að blóta í annarra manna húsum.

Þeir sem átta sig á þeim sannindum, og virða almennar umgengisreglur í annarra manna húsum, og eru ekki að setja út á þrifnað, klæðaburð eða atferli gestgjafa, þeim er alltaf boðið í kaffi, hjá mér og allflestum öðrum.

En ég skal játa það að Magnús hér að ofan er alltaf kurteis og almennilegur, en hefur þann leiðinlega óvana að svara aldrei og því hef ég það alltaf fyrir sið að gefa honum þunnt kaffi með útrunnu konfekti, svona til að athuga hvort ekki sé hægt að fá líf í kappann.

Og þú átt það líka til að vera fyrirmyndargestur, þó ég hafi litið haft að þér að segja, og vissulega ertu það núna.  Enda eyði ég löngu máli í aðdragandann, en ætla mér minni í efnið.  

Þessi pistill er rökstudd úttekt á glæp, og af hverju ákveðin hegðun er glæpur.  

Rökin gegn því eru ekki að það sé þrátt fyrir allt sanngirni í kröfunni, það kemur málinu ekkert við, heldur að sú aðferðarfræði að rjúka til að ná fram kröfum sínum með hótunum hafi ekki átt við í þessu tilfelli.  Og mér er fyrirmunað að sjá að það sé hægt.  Klassískar dæmi um fjárkúgun er vart hægt að finna, mikil fjárhæð er í húfi, krafan er ekki lögð til úrlausnar fyrir dómi, og það er hótað til að innheimta hana.

Ef til er lögskýring gegn þessum einföldum grunnatriðum, að það sé ekki sama hver á í hlut, líkt og haft var eftir eðlum aðalsmanni í Frakklandi á átjándu öld, sem var ákærður fyrir einhvern fjandann sem ég man ekki hvað var, lögin (hinar hörðu refsingar) eru bara fyrir almúgann, það er hneisa að ég sé ákærður, og ég krefst þess að verða dæmdur af jafningjum mínum.  Svona hugarfar leiddi til frönsku byltingarinnar, og ég held að það sé úr sögunni í dag.

En Einar, þú mátt reyna að finna lögfræðing sem getur hnekkt rökfærslu minni, þú getur það auðsýnilega ekki.  

Örstutt með rök þín, ég ætla linka hér að neðan á pistil þinn þar sem má lesa spjall okkar um þetta meinta misrétti, ég hreinlega nenni ekki að endurtaka mig, við gerðum báðum sjónarmiðum alveg ágætlega skil.  Ef einhver er að lesa, þá getur hann kíkt á umræðuna okkar, menn verða allavega ekki vanfróðari á eftir.

Ég hlustaði á orð Margrétar, fannst þau sorgleg, því hún fór svo ítrekað rangt með staðreyndir og lögfræði.  Það eina sem var nokkuð veginn í lagi hjá henni var lýsing hennar á verklagi ESA/EFTA, enda þjónaði það tilgangi hennar í hræðsluáróðrinum.

Hún fer rangt með ríkisábyrgðina, ESB hefur kveðið úr um það.  Hún fer rangt með forsendur hinnar meintu mismunar, það er ekki ríkisábyrgð á Íslandi, og þeir sem trúa því munu brenna sig þegar núverandi bankaskrímsli rúlla innan ekki svo langs tíma.  Atvinnulíf og heimili eru jú að falla saman og standa ekki undir núverandi skuldum.

Mismunarökin, ef sönn væru, eru líka heimil samkvæmt EES samningnum.  Bæði hefur ESA fallist á neyðarréttinn sem er skýr samkvæmt þeim samning, og eins er þekkt í hvað tilfellum mismunareglan gildir ekki.  Hér er linkur á góða grein þar um: http://www.advice.is/?p=337

Eftir stendur að ung manneskja lét misnota sig í þágu vonds málstaðar.

Þetta er frasi hjá þér að ekki þýðir að pikka eitthvað út.  Það liggja fyrir ítarleg lagaálit um réttarstöðu okkar, bæði innlend og erlend, frá lögmönnum sem eiga ekki hagsmuna að gæta.  Innanhúsmenn hjá ESB hafa komist af sömu niðurstöðu, enda ekki annað hægt og hin túlkunin alveg stóralvarleg fyrir allt regluverk ESB, og ekki hvað síst þá þorði FT að segja það í leiðara, að framferði Browns og Darling hefði verið lögleysa.

Á móti eigið þið Já sinnar ekkert, bresk stjórnvöld eiga ekkert sem stenst skoðun.  Þess vegna beittu þau FT innri hótunum en svöruðu blaðinu ekki opinberlega.  Þegar þér tekst best til Einar, þá ertu mjög rökfastur, og þess vegna á rökgáfan þín að segja þér hvað það þýðir.

Allavega, þá er sannleikurinn ekki að pikka neitt út.

Með þetta síðast nefnda Einar, þá veistu þú jafnvel og ég, að þú meinar ekkert með því sem þú ert að segja.  Vissulega ertu að vitna í að ef eitthvað kemur upp, sem þarf að ræða, þá reyna menn að leysa ágreininginn ef hægt er.  En ef ekki þá nota menn dómsstóla, ekki hnefann.  Þú myndir líka gera það. 

Þar að auki er enginn að kalla hvern annan glæpamann í svoleiðis málum.

En ICEsave deila snýst einmitt um að eðlileg samskipti  voru ekki virt.  Það var ekki þannig að ég seldi þér húsið, það var maður sem ég var einu sinni á fyllirí með í Atlavíkinni á sínum tíma, og síðan höfum við alltaf skipst á kveðjum.  Önnur kynni hafði ég ekki að honum.  

Það næsta sem ég vissi var að þú hafði keypt hús með leyndum galla, af þessum staupsátta kunningja mínum, og í stað þess að fá bætur hjá honum, þá snérir þú þér að mér því þú vissir að ég hafði látið þekkta þjófa ræna mig, og væri því tilvalið fórnarlamb.  Þess vegna hefðir þú beðið Jón sterka að mæta á svæðið og hóta mér öllu illu ef ég færi ekki úr húsi mínum og afhenti þér það til eignar, og rökin, misréttið sem þú varðst fyrir við að kaupa hið gallaða hús af manni sem ég varla þekkti.  En hafði jú vissulega boðið góðan daginn.

Mér fyndist það ekki eðlilegt að semja, hvað þá setjast niður og semja, ég myndi hringja umsvifalaust á lögregluna, og léti það mig engu skipta að vinir Jóns sterka væru að hringja í mig, ekki til að hóta mér barsmíðum, heldur að segja mér hryllingssögur um að dómsstólar væru spilltir og dæmdu alltaf eftir því sem handrukkarar bæðu þá um, ekki eftir því sem lögin segðu.

Jafnvel Einar þó ég kæmist að því að þetta væri rétt, að sá sem ætti að gæta laga og réttar væri spilltur, þá myndi ég samt ekki gefast upp, heldur halda áfram baráttu minni fyrir réttlæti. Og sú barátta sigra alltaf að lokum.

Það vita mæðurnar sem misstu börn sín í morðingjakjaft í Argentínu eru núna að endurheimta barnabörn sín.  Því ómennska og lögleysa vinna gegn samfélagi fólks, og á einhverjum tímapunkti missa þau ógnarvald sitt sökum þess að fólk vill ekkert með það að hafa.

Þannig er það Einar, burtséð frá fórnarlömbum íslensku útrásarinnar, þá leysir þú ekki óréttlæti með því að skapa öðrum óréttlæti.

Hér er linkurinn á bloggpistil þinn, þeir sem vilja lesa geta hlaupið yfir fíflagang okkar nafnanna, við látum alltaf svona við hvorn annan, en umræða okkar er upplýsandi fyrir báðar hliðar, eða það held ég.

 http://bloggheimar.is/einarkarl/2011/02/24/icesave-%C3%BEess-vegna-a-a%C3%B0-semja/

Og það verður enginn verri af því að lesa, hafi hann til þess næði og tíma.

Kveðja að austan.

Ps. þú gertur ímyndað þér hvað ég hefði orðið langorður ef ég hefði tekið umræðuna um hið meinta misrétti.

Ómar Geirsson, 25.3.2011 kl. 13:53

5 Smámynd: Eggert Guðmundsson

Sæll Ómar og þakka frábær skrif.  Einar Karl skifaði um þessa hluti í blokki Vala.blog.is (Icesave afturgangan) Vala svaraði Einari ítarlega og vil ég birta þetta svar hennar á þinni síðu.

Svar Völu:

Einar Karl spyr: "þú segir hér í seinustu athugasemd "Mönnum á aldrei að leyfast að brjóta á eignarrétti annarra þ.e.a.s. að stela, hvorki með beitingu klækja eða jafnvel laga. En var ekki einmitt Landsbankinn nánast að gera það, þegar hann - með fullri vitund íslenskra yfirvalda - sóttist eftir að geyma og ávaxta sparifé almennings í Bretlandi og Hollandi. Hvað með "náttúrurétt" þeirra, sem í mesta sakleysi lögðu peninga SÍNA inn í traustan íslenskan banka?"

Skilgreiningin á þjófnaði er sú ætlun að taka varanlega af mönnum eignir án þeirra samþykkis og án þess að til standi að skila þeim.  Fagaðilum innan Landsbankans mátti líklegast vera ljóst þegar þeir tóku við innistæðunum almennra borgara að mjög takmarkaðar líkur væru á því að þeim yrði skilað til eigenda sinna og bera þeir fulla ábyrgð á þeim gjörðum.  Þegar kemur að því að framfylgja þeirri ábyrð þá hefur íslenska ríkið enga lögsögu í öðrum löndum og hefur engan rétt, skyldu, eða möguleika til að framfylgja lögum í Bretlandi og Hollandi.  Peningastuldur sem á sér stað í Bretlandi fellur undir lögsögu breskra stjórnvalda, ekki íslenskra, enda myndi maður sem væri rændur í London hringja í bresku lögregluna, en ekki í lögreglustjórann í Reykjavík, jafnvel þó að þjófurinn væri íslenskur.  Íslenska þjóðin ætlaði aldrei að ræna breska og hollenska sparifjáreigendur og rændi aldrei þessa sparifjáreignedur því að spariféð er hvorki í hennar höndum né fulltrúa hennar.  Bretum og Hollendingum er frjálst að gera það við sína peninga sem þeir vilja.  Sumir kusu að leggja þá inn í útlendan banka sem lofaði þeim dúndur vöxtum.  En öllum lánum og innlánum fylgir áhætta og sú kvöð að athuga hvernig bankarnir stóðu lá á þeim og stjórnvöldum þeirra, enda komu peningarnir aldrei í íslenska lögsögu svo vitað sé.  Að halda því fram að íslenska ríkið hafi viðtað (hvað þá samþykkt) að bankarnir væru að ræna breska og hollenska sparifjáreigindur hef ég ekki séð stutt rökum.  Að auki breyta milliþjóðareglur á borð við Directive ekki grunnreglu um lögsögu fullvalda ríkja.  Um náttúrurétt þeirra sem lögðu í sakleysi/græðgi/fávisku sinni peninga inn í erlend bankaútibú er það að segja að þeir hafa rétt á því að þeirra eignir séu ekki teknar af þeim án þeirra samþykkis eða dóms og laga og hafa þar af leiðandi rétt til að leita réttar síns gegn þeim sem eignirnar tóku. Þeir sem tóku eignirnar voru hins vegar einkafyrirtæki en ekki íslenskir skattgreiðendur.  Íslenskir bankaræningjar eru ekki ríkisábyrgð á Íslandi frekar en nígeríusvindlarar eru í ábyrgð hjá stjórnvöldum Nígeríu.

Það er algengara en ekki að tryggingar bæti aðeins hluta tjóns og það er á ábyrgð kaupanda að athuga með tryggingar á sínum eignum.  Sá sem leggur inn peninga í Landsbankann er að kaupa skuldbindingu frá Landsbankanum og þeir sem ekki treystu sér til að leggja mat á gæði þeirrar skuldbindingar hefðu átt að setja peningana sina í eitthvað annað sem þeir treystu sér til að leggja mat á, t.d. innlendan banka eða rúmdýnuna sína.  Þeir sem ráðfærðu sig við ráðgjafa sem gaf þeim grænt ljós á að leggja inn á Icesave ættu að íhuga að fara í mál við þá ráðgjafa, eða við breska ríkið fyrir að leyfa Landsbankanum að starfa innan sinnar lögsögu.

Einar Karl segir einnig "Dírektífið margumtalaða skilgreinir ákveðin lágmarks skilyrði sem tryggingakerfi þurfi að hafa, uppfylli kerfið þau skilyrði er ríki ekki ábyrgt. Uppfylli kerfið engan veginn skilyrðin, ja þá er eðlilegt og rétt að gagnálykta að RÍKIÐ BERI ÁBYRGÐ. Og ríkið, það eru í raun og veru ég og þú og hinir sem hér kommentera + hinir 320.000. Þannig getum við því miður lent í því að þurfa að greiða hærri skatta vegna reginmistaka ríkisins. Við erum ekki "stikkfrí", og "náttúruréttur" hjálpar ekkert, frekar en Finnum sem þurftu að greiða geysiháar stríðsskaðabætur í meir en áratug eftir stríðslok seinna stríðs."

Túlkun laga er hlutverk dómstóla og túlkun annarra aldrei annað en getgátur.  Það er þó meginregla laga að dómarar eigi ekki að taka sér lagasetnignavald í dómum eða bæta orðum inn í lög.  Því er ég alls ekki sammála þér að þessi gagnályktun um íslenska ríkisábyrgð sé eðlileg, mér þykir hún þvert á móti ólíkleg og óeðlileg, enda fara dómarar með dómsvald yfir settum lögum og hafa mjög takmarkað umboð til þess að fylla í eyður, ekki síst þegar eyðufylling hefur jafn afgerandi og lagabreytingaleg áhrif og hér um ræðir.  Enda er það meginregla að lög skuli birt og eyðufyllingar eftirá brjóta klárlega þá reglu. Ef íslenska ríkið ætti að bera lagalega ábyrgð á Icesave krefjast réttlætissjónarmið þess að sú lagalega kvöð hefði mátt að vera ljós frá upphafi.  Hún er það hins vegar ekki.

Það er ekkert sjálfvirkt samasemmerki á milli Íslensku þjóðarinnar og íslenska ríkisins.  Þeir sem kosnir eru til starfa fyrir íslenska ríkið fá aðeins umboð til að framkvæma hluti sem teljast eðlilega vera innan þeirra umboðs.  Allt sem starfsmenn ríkisins gera utan síns starfssviðs (e. ultra vires) eða af vanhæfi og gáleysi eru þeir sjálfir ábyrgir fyrir, enda veit ég ekki til þess að neinir stjórnmálamenn hafi fengið umboð frá kjósendum um að þeir megi gera hvað sem þeim dettur í hug og vera eins vanhæfir og gálausir eins og þá lystir án þess að þurfa að taka á því neina ábyrgð.  Þingmenn og ráðherrar fá ekki friðhelgi þegar kemur að starfsemi utan valdsviðs eða gáleysi í starfi enda væri það brot á reglum réttarríkisins.

Einar Karl svara Núma og segir "Ríkið - það erum við. Stundum, raunar oftar en ekki, þurfa þegnar að bera töluverða ábyrgð á athöfnum stjórnvalda. Ekki síst þegar ríki er stjórnað af lýðræðislega kjörnum stjórnvöldum. Stjórnvöld eru FULLTRÚAR þegnanna, en ekki eitthvað algjörlega sjálfstætt apparat. Heldurðu að við - skattgreiðendur - getum neitað að greiða skuldir Vegagerðarinnar vegna Landeyjarhafnar, ef hún reynist ónýt?  Blogghöfundur Vala býr í Bandaríkjunum. Hluti af hennar sköttum fer í að reka gríðarstóran her, sem stendur í stríðsrekstri úti í heimi. Hún getur ekkert bara sí svona neitað að greiða þá skatta, og vísað í sinn "náttúrurétt".

Svo ég bæti aðeins við það sem ég ræddi hér að ofan, ef ég veiti manni umboð til að kaupa hús í Reykjavík og hann fer og kaupir musteri í Indlandi á ég að bera ábyrgð á því að greiða honum fyrir það?  Eða ber mér aðeins skylda til þess að greiða honum svo lengi sem hann starfar innan síns umboðs?  Gildir það sama um íslenska ráðamenn eða hljóta þeir sérstaka réttarstöðu lík og kóngafólk gerði forðum þ.e.a.s. að allt sem þeir gera er gert í nafni ríkisins alveg sama hvað það er?  Ef svo er, er varla hægt að kalla landið réttarríki, hvað þá lýðveldi, og engin er þörfin fyrir stjórnarskrá lengur.

Það er engin spurning um að Vegagerðin fellur undir starfssvið ríkisins, enda íslenskt ríkisfyrirtæki með eðlilega ríkisstarfsemi og umboð enda eru mörg verkefni hennar kosningaloforð réttkjörinna fulltrúa.  Það er hvorki rétt né sanngjarnt að jafna fjármögnun Vegagerðarinnar við það einstaka og óviðjafnanleg verk að veita ríkisábyrgð vafasamri starfsemi einkaaðila erlendis, enda hefur íslenska ríkið aldrei gert slíkt áður né heldur er það augljóst að íslenska þjóðin hafi samþykkt það, sérstaklega ekki að því leyti að þjóðin hefur samþykkt vegagerð og aðra eðlilega ríkisstarfsemi í landinu.

Bætur fyrir stríðsrektur eru refsingar ríkis sem lýst hefur opinberlega stríði á hendur annarri þjóð, ráðist á hana og valdið skaða.  Ég veit ekki til þess að Íslenska þjóðin eða ráðamenn hennar hafi gert slíkt gagnvart Bretum og Hollendingum.

Ég verð að láta þetta nægja í bili, ég er í fyrstu heimsókn minni á Íslandi í tvö ár.  Ég svara fleirum þegar tími gefst.

Eggert Guðmundsson, 25.3.2011 kl. 14:20

6 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Eggert, takk fyrir hlýleg orð, ég vissi fyrir að Já menn hefðu athugasemdir við pistla mína, en var ekki viss um hinn arminn, margir vilja taka ofan hattinn fyrir þeim sem vilja fjárkúga þá, og biðjast afsökunar á að fá að lifa.

Ég stofnaði sérstakan fæl fyrir athugasemdir Völu sem eru magnaðar og svara eiginlega öllu sem skiptir máli. Rök hennar staðfesta að við hið venjulega fólk höfum rétt fyrir okkur.  Náttúruréttur okkar er að fá að lifa í friði fyrir höfðingjanna kvöðum.

Takk fyrir að vekja athygli á hennar góðum rökum.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 25.3.2011 kl. 16:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 33
  • Frá upphafi: 1318297

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 31
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband