Fólk veslast upp í allsnægtarþjóðfélagi fjármagnsins.

 

Þegar ógæfufólkið sem kom þjóð okkar í þrot, kallaði eftir alþjóða björgunarsveit fjármagnsins, AGS, þá var ljóst að allt átti að gera til að tryggja að fjármagnið  myndi ekki bíða skaða vegna Hrunsins.

Og björgunarráðin, hávextir, erlend gjaldeyrislán, ICEsave samningar, áframhaldandi verðtrygging, hafa bjargað því sem bjargað varð.

Vissulega töpuðu fjármagnseigendur mikið, en mest tilbúnum pappírsgróða, grunnur þeirra stóð traustur sem aldrei fyrr.

Afleiðingarnar eru vissulega einhverjar, eins og aukaverkanir af lyfjum.

Sveltandi fólk, skuldagildra ungu kynslóðarinnar, niðurbrot velferðarkerfisins, en þær voru þekktar, og þjóðin fékk að kjósa um þær.

Og þjóðin kaus velferð fjármagns.  Hún kaus ríkisstjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, og á hliðarlínunni er stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn með sömu stefnu.

Og samkvæmt skoðanakönnun þá ætlar þjóðin að staðfesta stuðning sinn við velferðina með því að samþykkja bresku fjárkúgunina.  Festa þannig lögmæti hungurstefnunnar.

 

Og þá þýðir lítið að gráta hungrið.

Kveðja að austan.

 

 

 


mbl.is Svelta sig svo börnin fái mat
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Við héldum að við værum að kjósa andstæðinga AGS.

marat (IP-tala skráð) 5.3.2011 kl. 14:42

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Og ég sá ekki ljónið sagði strúturinn.

Ef þetta er rétt skýring þá eru stuðningsmenn VG og samfó veruleikafirrtir með afbrigðum. 

Á sínum fyrsta blaðamannafundi, daginn sem bráðabirgðastjórnin var mynduð, sagði Jóhanna Sigurðardóttir að samstarfið við AGS væri hornsteinn stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum.  Daginn eftir svaraði Steingrímur fyrirspurn á Alþingi, sem hafði verið beint til fjármálaráðherra, þegar hann hét Árni og var sjálfstæðismaður, þar sem það kom fram að stóriðjuframkvæmdir væru forsendur hagvaxtar og bla bla, hann hafði ekki fyrir því að láta ráðuneytismenn semja nýtt svar, þó ljóst væri að allt sem hann las upp var andstætt stefnu flokks hans.

Nei marat, þetta fólk villti ekki á sér heimildir, það voru kjósendur sem gerðu því upp skoðanir.  Og flokksapparötin styðja AGS og stefnu hans.  Og þau eru alltaf með skýringuna á hreinu, þetta ástand er afleiðing nýfrjálshyggju Sjálfsstæðisflokksins.

Og þessa helför ætlar þjóðin að samþykkja í apríl, það er ekki hægt að taka ábyrgðina frá þeim sem hana ber.

Mikill meirihluti almennings á Íslandi vill hungur og vesöld sinna minni bræðra.

Og kallar hungrið skynsemi í efnahagsmálum.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 5.3.2011 kl. 15:05

3 identicon

Þetta er stefnan um allann heim.....WORLD GLOBALIZATION....með AGS í broddi fylkingar !!!!

Anna Grétarsdóttir (IP-tala skráð) 5.3.2011 kl. 15:49

4 identicon

Þá getum við andstæðingar AGS andskotann ekkert kosið.

marat (IP-tala skráð) 5.3.2011 kl. 15:56

5 Smámynd: Lúðvík Júlíusson

við erum í fangelsi eigin hugmynda.  Ríkjandi hugmyndafræði gengur út á neyslu, meiri skuldsetningu og verðbólgu, eins og kom fram á fundi með Seðlabankastjóra í gær.

Þangað til stjórnmálamenn og almenningur átta sig á því að eina leiðin til að "frelsa" okkur undan ánauð erlendra og innlendra lánadrottna er að spara og greiða niður skuldir, þá mun þetta alltaf verða svona.

Lúðvík Júlíusson, 5.3.2011 kl. 16:55

6 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Lúðvík, almenningur hefur áttað sig á þessu - líklega vissi hann það alltaf.

En almenningur fær engu ráðið því stjórnvöld eru "í fangelsi eigin hugmynda". Seðlabankastjóri er talsmaður stjórnvalda - nánar til tekið forsætisráðuneytisins.

Persónufornöfn eru víða misnotuð þessa dagana; VIÐ erum ekki endilega sama sinnis og ÞAU/ÞEIR.

Kolbrún Hilmars, 5.3.2011 kl. 18:22

7 Smámynd: Lúðvík Júlíusson

Kolbrún, mér heyrðist stjórnarandstaðan á fundi með Seðlabankastjóra ætla að fara verðbólguleiðina úr kreppunni.  Þeas. að hækka vexti, lækka krónuna, herða höftin, stunda eignaupptökur/eignatilfærslur, og láta þá sem síst geta varið sig(bótaþega og láglaunafólk) borga brúsann.

Sú hugmyndafræði að "neysla" sé undirstaða hagkerfisins er því miður enn ríkjandi.

Það er samt jákvætt merki um breytt hugarfar hversu fáir tóku undir með 20% leið Framsóknarflokksins sem snérist fyrst og fremst um að láta auðugustu einstaklinganna fá peninga.

Lúðvík Júlíusson, 5.3.2011 kl. 18:41

8 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Lúðvík, ekki falla í þá gryfju að benda á stjórnarandstöðuna til þess að réttlæta eitthvað. Almenningur hefur líka áttað sig á því að þar er ekkert skjól að finna - um það bil helmingur kjósenda hefur játað sig munaðarlausa ef næstu þingkosningar bjóða ekki upp á aðra valkosti en fjórflokkinn.

Framsókn má eiga það að þaðan koma þó EINHVERJAR hugmyndir, jafnvel þótt þær séu misgáfulegar.

Kolbrún Hilmars, 5.3.2011 kl. 18:53

9 Smámynd: Lúðvík Júlíusson

Kolbrún, ég er ekki að falla í neina gryfju eins og þú lest í fyrstu athugasemdinni, þeirri nr. 5.

Lúðvík Júlíusson, 5.3.2011 kl. 19:02

10 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Lúðvik, #5 var einmitt það sem upphaflega vakti athygli mína; beint úr málfræðigryfjunni - VIÐ. :)

Annars svona í fyllstu alvöru; íslenskur almenningur er tilbúinn til þess að vaða eld og brennistein til þess að gæta hagsmuna sinna og afkomenda, svo framarlega sem landið og kostir þess verði ekki seldir eða veðsettir undan fótum hans til þess að þóknast erlendum auðmönnum og alþjóðlegu fjármálaveldi

Kolbrún Hilmars, 5.3.2011 kl. 19:35

11 Smámynd: Kristján Hilmarsson

Ég vil bara byrja á að minna okkur öll á fyrirsögn fréttarinnar, þetta er ekki líðandi að ekki skuli vera afgangs til að fólk þurfi ekki að svelta á íslandi í dag, eitt er að sumir þurfi að láta vera að skifta fjallajeppanum annaðhvert ár núna um tíma, en að meðborgararnir í þessu landi svelti ???

Þar fyrir utan langar mig til að svara Lúðvík varðandi það sem hann sagði um stjórnarandstöðuna og seðlabankastjóra og það að hakda áfram á þeirri braut sem landið er búið að vera á sl 2 ár.

Að kalla það verðbólguleiðina, að gengið var fellt, er eins og að bölsótast yfir hitanum, en ekki sjúkdómnum sjálfum, hitinn er nefnilega viðbrögð líkamans til lækna af sjúkdómnum, nú er einmitt þjóðin á tímamótum, eftir að hafa reist við með, já rétt !! blóði svita og tárum" og landið stendur nú best af öllum þeim evrópulöndum, sem harðast lentu í kreppunni, einmitt vegna gengisfellingar og ekki síður neyðarlaganna, svo þó haldið verði áfram og afraksturinn af þessu striti látin fá sína fulla útrás, er ekki endilega ávísun á aukna verðbólgu og kjaraskerðingu, en það mun aftur aukin skuldsetning og viðvarandi ánauð undir AGS gera, að ekki sé talað um að samþykkja Icesave.

En þetta krefur samtímis ábyrgðar í fjármálastýringu, skynsamlegri nýtingu auðlindanna og gætni á öllum sviðum, sem aftur þíðir að skifta þarf hressilega um á toppunum, þar er jú leyfilegt að vera asvartsýnn, en dekkra yrði útlitið samt, ef óreiðuskuldir einkabankanna fá staðfestingu og hrunadansinn byrjar upp á nýtt.

MBKV

KH

Kristján Hilmarsson, 5.3.2011 kl. 22:10

12 Smámynd: Lúðvík Júlíusson

Kristján,

það er lengi vel hægt að deila um orsakir og afleiðingar en það er deginum ljósara að gríðarleg erlend skuldsetning sem var afleiðing ógnvænlegs viðskiptahalla og síðan ótrúleg útlánaaukning bankakerfisins(sem Seðlabanki Íslands ýtti undir) olli gengisfalli krónunnar.

Góð staða landsins nú er ekki krónunni að þakka heldur er staða landsins í dag svona góð þrátt fyrir krónuna.

Það má þakka krónunni fyrir það að almenningur fattaði ekki þegar tekjurnar lækkuðu um ca 40%.  Bág kjör þeirra verst settu eru afleiðing af því!  Afleiðing af því að almenningur fattaði ekki hversu mikið tekjurnar lækkuðu... og umfram allt á hverjum það bitnaði!!

Ég ætla ekki að setja mig í þann hóp sem er þakklátur fyrir það. 

Lúðvík Júlíusson, 6.3.2011 kl. 00:52

13 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk fyrir innlitið kæra fólk.

Ég ætla svo sem ekki að skipta mér að umræðunni, en Lúðvík, ég hló að athugasemd þinni um að 20% leiðin hefði verið leið hinna auðugu.

Svona í ljósi þess að það eru hinir auðugu sem hafa haft allt sitt á þurru út úr kreppunni.  Það eru þeir, sem skulduðu mest, og áttu minnst, sem hafa grætt mest á leiðum flokks þíns.

Og þar sem þú ert ekki bjáni Lúðvík, þá áttu ekki að láta eins og húsráðandi hér sé þeirrar tegundar.  Og Spaugstofan sér um að skemmta mér.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 6.3.2011 kl. 01:39

14 Smámynd: Lúðvík Júlíusson

Ómar, í 20% leiðinni áttu þeir sem skulduðu mest(og áttu mest) að fá mest á meðan þeir sem áttu ekkert, td. bótaþegar, hefðu ekki fengið neitt!

20% leiðin hefði tryggt verðbólgu og þar af leiðandi enn meiri kjararýrnun bótaþega!  Hvar átti að fá peninga til að hækka bæturnar?

Þetta er sú leið sem verðbólga berst um efnahagskerfið og ég ekki haldið því fram að þeir sem mótmæli því séu bjánar.  Ég myndi hins vegar vilja fá rök fyrir því að verðbólgan hagi sér eitthvað öðruvísi í tilfelli 20% leiðarinnar en hún almennt gerir.

Lúðvík Júlíusson, 6.3.2011 kl. 09:43

15 Smámynd: Lúðvík Júlíusson

Ómar, hvort sem það eru samflokksfólk mitt eða aðrir þá fá þeir að heyra mína skoðun.

Lúðvík Júlíusson, 6.3.2011 kl. 09:44

16 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Lúðvík.

Þegar hugsun er tjáð í örfáum setningum, þá getur hún verið misvísandi.  Ég var ekki að meina að þú færir um og kallaðir menn bjána, veit ekki dæmi þess, og það væri mikið stílbrot miðað við umræðuhefð þína.  Ég taldi mig einfaldlega vera að benda þér á að þú ætti ekki að ætla mig bjána með því að bjóða uppá þennan  útslitna frasa " 20% leið Framsóknarflokksins sem snérist fyrst og fremst um að láta auðugustu einstaklinganna fá peninga", sem er beinlínis rangur.  Svona þar sem þú veist að ég hef skrifað töluvert um leiðréttingu Hrunskulda, þá myndi ég aldrei láta hann óátalinn á minni síðu.

Flóknara var það nú ekki.

Í útskýringu þinni hér að ofna þá hamrar þú á því, sem og algjörlega ósambærilegum hlut, hlutskipi bótaþega, sem koma leiðréttingu Hrunskulda ekkert við, nema þá á þann hátt að þeir séu með verðtryggð lán.

Víkjum þá af efnisatrið málsins. 

Föst prósentutala er sú leiðin sem tryggir hugtakið "jafnt".  Þess vegna er sagt að skuldbréf séu með jafn háa vexti, til dæmis 5%.  Menn fá sömu kauphækkun, til dæmis 10% og svo framvegis.

Föst krónutala er leið mismunar.  Það er ekki talað um sömu vexti, ef til dæmis það er ákveðið að öll skuldabréf séu með fasta krónutölu, til dæmis 100.000.  Sá sem skuldar 10 milljónir er augljóslega að borga lægri vexti en sá sem skuldar milljón.  Eins er föst krónutala hærri kauphækkun hjá tekjulægri en tekjuhærri og svo framvegis.  

Og ég veit Lúðvík að þetta veist þú líka.

Samt ákvaðstu að nota frasa sem flokkurinn þinn kaus að nota í baráttunni gegn sanngirni eftir Hrun.  Málstaðurinn var það slæmur að blekkingum var beitt til að sannfæra fólk um að Ísland ein þjóð ætti að sætta sig við að lánin hækkuðu við efnahagshrun, vegna kerfis sem var hugsað við eðlilegar aðstæður, til að tryggja eðlilegar aðstæður.   Og þetta var ekki eina blekkingin sem var beitt, leiðrétting á verðtryggingu sem fellur til á löngu árabili var stillt upp sem aðgerð dagsins í dag eða þá morgundagsins og einhver gífurleg upphæð fundin út.  Ekkert var rætt um þegar fallin kostnað vegna greiðsluþrots eða meints kostnað vegna fyrirsjáalegs greiðsluþrots þúsunda.

Og réttlætið var metið til fjár, og sagt að þjóðin hefði ekki efni á því.   Það voru bara peningar til fyrir þá ríku.

Þetta er nefnilega ömurlegur málflutningur Lúðvík vegna þess að sú leið sem var farin, að láta bankana sjálfa handvelja viðskiptavini, að það var leiðin þar sem stóru lánin voru afskrifuð.  Og þegar 110% leiðin var síðan endanlega ákveðin, þá er hún einmitt til hagsbóta hinna auðugu, verknað sem þú berð upp á hlutlausa leið sem hyglaði engum.

Ég reikna ekki með að þú sért viljandi að fara svona rangt með Lúðvík heldur hafir þú fallið í gildru hins ranga blekkingarfrasa.  

Um rök með og á móti 20% leiðinni má síðan deila um.  Þú minnist á meinta verðbólgu.  Að auka eftirspurn í hagkerfi sem er að hrynja innan frá út af skorti á eftirspurn, þá er hættan á verðbólgu aukaatriði segja þeir færustu sem kenna kreppuhagfræði í dag.   Ógnin felst í stöðnuninni og samdrættinum.  Og þeir einu sem deila á þetta er villta hægrið.

En mesta ógn hvers þjóðfélags er gjá, gjá milli hópa, hvort sem hún er af grunni kynþáttar, þjóðflokka, stéttarleg, eftir landshlutum og svo framvegis.

Og gjáin sem varð á Íslandi þar sem sparfé fólks sem lá í húsnæði var rænt með tilbúnu tæki, verðtryggingunni, á sama tíma þegar miklum peningum var varið í að vernda annað peningaform, að hún er tifandi tímasprengja.  Fólk sem nær ekki endum saman, mun endalaust velta sér upp úr óréttlætinu, það mun styðja þá hópa sem gera óraunhæfar kaupkröfur, styðja þau stjórnmálaöfl sem gera út á óstöðugleika og svo framvegis. 

Því þetta fólk  mun ekki verja stöðugleika annarra.  

Það er nefnilega hagfræðileg skynsemi á bak við réttlæti, eða hugsunarinnar að þú eigir að gæta bróðir þíns, ekki bara gæta peningabuddu auðmanna eins og núverandi ríkisstjórn er að gera.

Og enginn alvöru jafnaðarmaður styður þessi ósköp.

Og það er tími til kominn að þið kveikið áður en borgarstyrjöldin brýst út.  Þá er það of seint.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 6.3.2011 kl. 13:04

17 Smámynd: Lúðvík Júlíusson

Sæll Ómar,

ég tók mig til árið 2006 og benti á að verðbólga væri brot á eignaréttarákvæði stjórnarskrárinnar m.a. vegna þess hvernig hún skerðir laun, hækkar vexti og hækkar lán.

Ég er enn á þeirri skoðun.

Verðbólgan sem varð í hruninu er uppsöfnuð verðbólga, líklega allt frá árinu 2005.  Verðbólgunni var haldið í skefjum með sífellt meiri erlendum lántökum sem birtist m.a. í gríðarlegum viðskiptahalla og háum stýrivöxtum.  Þess vegna var engin innistæða fyrir kaupmáttaraukningu síðustu ára.  Verðbólgan tók í raun þennan falska kaupmátt til baka.  Auðvitað bitnar það á fólki, en þannig virkar verðbólgan.  Verðbólgan er slæm og gerir engan greinarmun á fólki, þó hún bitni yfirleitt mest á þeim sem minnst hafa.

Verðbólgan bitnar verst á þeim sem geta síst varið sig og því hlýtur það að vera skylda okkar að berjast gegn verðbólgu.

Verðtrygging lána þýðir að lántakar greiða lægri vexti að jafnaði en að verðbólgan bætist við eftirstöðvar lánsins.  Með þeim hætti þá hækka afborganirnar "tiltölulega lítið"(um það má alltaf deila) ef verðbólgan eykst.

Ef lán væru ekki verðtryggð þá myndu vextir hækka til að endurspegla verðbólguþáttinn.  Þannig myndu eftirstöðvar lánsins ekki hækka, heldur lækka vegna afborgana.  Hins vegar myndi vaxtaþátturinn hækka gríðarlega og gera mörgum ókleyft að greiða af lánunum sínum.

Spurningin er hvort sé sanngjarnara, hærri afborganir eða hærri eftirstöðvar.  Hefði verið siðferðilega réttlátara að almenningur hefði greitt hærri vexti í staðinn fyrir að taka á sig hækkun lána?

En eins og þú bendir á þá eru til hagfræðingar sem segja verðbólgu vera af hinu góða.  Þessir sömu hagfræðingar vita það mæta vel að verðbólgan er af "hinu góða" vegna þess að hún lækkar raunvirði launa og um leið raunvirði bóta.  Það er hlutverk verðbólgunnar í hugum þessara manna því þegar laun hafa lækkað þá er hægt að ráða fleira fólk í vinnu og ríkið getur betur staðið við skuldbindingar sínar.  Þetta vissi Keynes þó stuðningsmenn kenninga hans virðist hafa gleymt því.

Ef stéttarfélög og framkvæmdavaldið næðu að sjá til þess að verðbólgan næði ekki að lækka kaupmátt launa þá myndi verðbólgan ekki skila neinu nema óðaverðbólgu, hærri vöxtum og samdrætti í raunhagkerfinu.

Málið er að ef við höfum ekki stöðugleika, þeas. lága verðbólgu, þá mun baráttan fyrir bættum kjörum þeirra verst settu verða miklu erfiðari.

Gott dæmi um það að ákveðið var að hækka ekki skattleysismörk um síðustu áramót.  Það er hrein og klár skattahækkun ef skattleysismörk fylgja ekki verðlagi.

Eins og ég hef bent á þá eru gjaldeyrishöftin aðallega til að gæta hagsmuna fjármagnseigenda.  Þeir þurfa ekki að skila fjármagnstekjum sínum til landsins til að taka þátt í uppbyggingunni og með gjaldeyrishöftum erum við að nota meiri gjaldeyri til að borga erlendum krónueigendum.  -  Hefurðu heyrt marga mótmæla þessu?  Flestir halda því fram að þetta sé nauðsynlegt.

Ég tók 20% leiðina vegna þess að ég vissi að ég myndi fá viðbrögð ;)  Aðal málið er að aukinn kaupmáttur skilar sér í meiri eftirspurn eftir gjaldeyri.  Það lækkar krónuna sem veldur verðbólgu.  Eina leiðin til að koma í veg fyrir lækkun krónunnar er að taka erlend lán(sem ekki er hægt) eða með hærri sköttum og stýrivöxtum.  -  Það virkar betur í stóru hálf-lokuðu hagkerfi að auka eftirspurn með verðbólgu.  Hins vegar hefur það allt önnur áhrif í litlu ríki sem þarf að flytja inn nær allar nauðsynjavörur, sérstaklega ef það er líka gjaldeyriskreppa.

Lúðvík Júlíusson, 6.3.2011 kl. 13:43

18 Smámynd: Óskar Arnórsson

"Að verðbólga sé brot á eignaréttarákvæði stjórnarskrárinnar m.a. vegna þess hvernig hún skerðir laun, hækkar vexti og hækkar lán."

Þetta sem Lúðvík Júlíusson hér að ofan er nú bara með því athyglisverðasta sem ég hef lesið lengi. Það skildi þá aldrei vera svo að Stjórnarskrábrot sé algengasti glæpurinn á Íslanbdi í dag?

Óskar Arnórsson, 6.3.2011 kl. 15:12

19 identicon

Sæll Ómar

Nú ættirðu að kíkja á Icesave spunablogg Vilhjálms Þorsteinssonar á eyjunni.

Mikið væri gott, ef þú skelltir einni pottþéttri dúndru á kauða, Ómar minn.

Með kveðju til þín og þinna

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 6.3.2011 kl. 16:06

20 identicon

Lúðvík skrifar: "Verðtrygging lána þýðir að lántakar greiða lægri vexti að jafnaði en að verðbólgan bætist við eftirstöðvar lánsins. Með þeim hætti þá hækka afborganirnar "tiltölulega lítið"(um það má alltaf deila) ef verðbólgan eykst.

Ef lán væru ekki verðtryggð þá myndu vextir hækka til að endurspegla verðbólguþáttinn. Þannig myndu eftirstöðvar lánsins ekki hækka, heldur lækka vegna afborgana. Hins vegar myndi vaxtaþátturinn hækka gríðarlega og gera mörgum ókleyft að greiða af lánunum sínum."

Ég segi á móti að ef íbúðalán væru óverðtryggð á jöfnum afborgunum með breytilegum vöxtum í stað verðtryggðra jafngreiðslulána (annuitet)væri greiðslubyrðin búin að lækka um 45% frá árbyrjun 2007 í stað nærri 35% hækkunar eins og staðan er í dag.

Höfuðstóll verðtryggða lánsins hefur hækkað um nærri 35% á móti 10% lækkun óverðtryggða lánsins.

Verðtryggðu jafngreiðslu lánin eru stór þáttur í fasteignabólunni sem enn á eftir að leka talsvert úr. Í því ljósi er hægt að segja að lántaka vegna íbúðarkaupa hefði getað verið 25-40% minni síðustu 10 ár eða svo.

Þetta er aðeins út fyrir efni pistilsins og bið ég síðuhöfund afsökunar á því.

Um efni pistilsins get ég sagt þetta. Svengd er orðið að stóru vandamáli á Íslandi í dag. Vinnandi fólk, sem er vant því að hafa nóg í mat og nóg til að veita börnum sínum menntun og tómstundir á ekki lengur til hnífs og skeiðar.

Á árabilinu 2008 til 2009 þrefaldaðist atvinnuleysi. Laun þeirra sem héldu vinnu sinni lækkuðu og nauðsynja vara hækkaði verulega. Á mjög stuttum tíma var stór hluti þjóðarinnar fallin í fátækt og það hefur ekki fækkað í þessum hópi, heldur þvert á móti hefur fjölgað.

Síðasta árið hefur þessi hópur fólks þurft að takast á við vandamál sem ekki hefur verið til á Íslandi í meira en 50 ár. Næringaskort og svengd. Fjölskyldufeður geta ekki skafað vegna atvinnuleysis eða lágra launa og mæðurnar minnka við sig í mat svo börnin geti mætt í skólann sæmilega nærð.

Það er "vísitölu" fjölskyldan sem kreppan leikur verst og þegar hún á ekki fyrir lágmarks nauðsynjum þá byrjar að þrengja að þeim sem þurfa á stuðningi að halda vegna atvinnuleysis eða veikinda.

Ég tek undir með Pétri. Þú ert þungavigtarmaður í icesavebaráttunni og stjórnlagaþingmaðurinn Vilhjálmur þarf að fá leiðbeiningar um grundvallaratriði í siðfræði.

Og þakka þér fyrir þína mörgu og góðu pistla, bæði þá um icesave og líka hina sem fjalla um grundvöll mennskunar.

Með kveðju að sunnan,

Toni.

Toni (IP-tala skráð) 6.3.2011 kl. 18:35

21 identicon

Sæll Ómar

Vilhjálmur veður uppi hérna á moggablogginu líka, með sömu tugguna og á eyjunni.

Þú þarft því ekki að fara langt til að lesa honum pistilinn, eða eins og Toni segir réttilega: 

"Þú ert þungavigtarmaður í icesavebaráttunni og stjórnlagaþingmaðurinn Vilhjálmur þarf að fá leiðbeiningar um grundvallaratriði í siðfræði."

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 6.3.2011 kl. 19:16

22 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Lúðvík.

Verðbólga, ekki verðbólga, það er efinn.  Um hana rífast menn eins og menn rífast um hlýnun lofslags eða annað sem gæti verið á okkar valdi en samt ekki, hvað er orsök, hvað er afleiðing.

Það er staðreynd að fá eða engin dæmi eru um vöxt hagkerfa án verðbólgu, og það er líka staðreynd að ef stöðugleiki er hundsaður, að þá vill allt fara úr böndum.  En almennar pælingar um verðbólgu eru ekki það sem rætt er í dag, þegar menn ræða um hvernig eigi að bregðast við samdrættinum, um það er bæði hin viðtekna, sem og þeir sem gagnrýna viðbrögð þess, sammála.  Enda nokkuð ljóst að vandi morgundagsins er ekki í umræðunni hjá þeim sem þarf að bregðast við núna til að lifa af.

En ég ætla ekki að taka þá umræðu núna, eða ræða lánamál, var aðeins að benda þér á nokkrar staðreyndir, sem breyta því ekki hvort menn séu hlynntir þessu eða hinu, og svarið var kannski lengra en ella þar sem fyrstu orð mín mátti kannski misskilja.

En þetta með stjórnarskrána er dálítið langt sótt, en ég skil meininguna, það þarf að gæta vits og hófs í stjórn efnahagsmála sem og öðru.  En ef við túlkum ekki blessaða skrána þröngt, þá verður hún merkingarlaust plagg.

En annars ætla ég ekki að skipta mér af þeirri ágætu umræðu sem spratt hér, og ég er talsmaður innlendrar framleiðslu sem ég tel forsendu velmegunar, að fólk noti vit sit og þekkingu til að nýt gögn landsins og gæði.  Og efnahagsstjórnun snýst um að gera allt slíkt sem hagfelldast.

Það þarf fyrst að afla áður en það er eytt.  Eitthvað sem hefur skolast til í huga margra þinna flokksmanna, þeir vilja eyða því sem fyrir er, út á eitthvað óljóst.

En það er önnur saga.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 6.3.2011 kl. 22:40

23 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Pétur.

Fyrirgefðu að hvað ég kem seint inn með innslag.  Misjöfn hjá mér heimatökin.

En ég last blogg Vilhjálms í gær, og seifaði það, vildi eiga það því hjá honum sér maður "rökin" fyrir ICEsave stuðningi Samfylkingarinnar.  Það má mikið ganga á ef Vilhjálmur fer beinlínis rangt með, eða bullar algjörlega út í loftið.  Þess vegna fylgist ég með pistlum hans til að kanna vígstöðuna, sjá hvort það sé eitthvað sem þeir hafa til síns máls.

Og hreint út sagt, þá er það ekki merkilegt.

En ég ræðst ekki inná annarra manna blogg, skipti mér eiginlega ekki af öðrum bloggum.  Einstaka sinnum vil ég koma einhverju á framfæri, vekja athygli á rökum eða rökstuðningi sem mér finnst megi fara í loftið, en annað er það nú ekki.  Svo náttúrulega þakka ég fyrir góð blogg ef þannig stendur á. 

En ég les ekki öðrum pistilinn enda finnst mér það ekki við hæfi að einn bloggari sé að skamma annan fyrir skoðanir hans.  Umræðuna eiga lesendur, og það er þeirra að kommintera hvort sem það er til hróss eða lasts, eða allt þar á milli.  Þannig flýtur umræðan best.

En ég hafði hugsað mér að fjalla um þetta blogg Vilhjálms, og gerði það núna áðan.  Það er bara síðan fólks að meta rökin og lítið um það að segja.  Í kjarnanum þá snýst ICEsave ekki um hvort einhver lög segi eitthvað, kjarninn er hvort fólk viti hvað er að vera manneskja og breyti rétt.

Og að verjast er rétt breytni gagnvart kúgun.

Og það að vera maður, því fylgir ákveðnar skyldur.  Ein af þeim er að samþykkja aldrei ólög, og ICEsave er dæmi um það.  Það hefur enginn rétt á að setja saklausa manneskju í ábyrgð á skuldum annarra af henni forspurðri.

Og stjórnvöld sem virða ekki mennskuna, þau er ólögleg og eiga að setjast af.

En við Íslendingar virðumst vera svo ung þjóð að hafa ekki ennþá náð þeim þroska að þekkja þessi grunnatriði.  Það myndi enginn reyna í öðrum Evrópulöndum að segja skattgreiðendum að núna hætti þeir að vinna fyrir menntun barna sinna eða umönnun foreldra sinna, því nú eigi skattpeningur þess að renna í ríkissjóði annarra landa vegna einhverrar reglugerðar sem enginn skilur. 

Þú yrðir bara umsvifalaust stimplaður fáviti ef ekki þaðan af verra.

Þetta er svona bara svipað eins og þú rökræðir ekki við fólk um af hverju það má ekki nauðga eða svívirða fólk, það vita þetta allir, og þeir sem vita þetta ekki, taka ekki rökum, það er einhver brenglun sem sviptir þá viti.

Það er einhver svona brenglun í gangi á Íslandi í sambandi við ICEsave.

Og þessi brenglun kemur mjög skýrt fram, bæði í pistli Vilhjálms, sem og í athugasemdum.  Hann hreinlega gerir sér ekki grein fyrir því hvað hann hefur innilega rangt fyrir sér.  Hvort sem það eru hagsmunir sem villa honum sýn eða eitthvað annað.

En venjulegt fólk sem vill selja börn sín og þjóð, og kemur inná síður borgunarsinna, til að hrósa þeim, það er fólkið sem þarf að lesa pistilinn.

En ég hef ekki tök á því Pétur, því miður.

Kveðja að austan,.

Ómar Geirsson, 6.3.2011 kl. 23:32

24 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Toni.

Hér má ræða allt, bæði við sjálfan sig og aðra.  Ekkert annað en fróðlegt að lesa skoðanaskiptin við Lúðvík, þann mæta fiskimann.

Við Íslendingar erum í krísu, við breytum ekki lengur rétt.  Við kjósum stjórnvöld sem hafa það sem grunnstefnu að láta samborgara okkar éta það sem úti frýs, ef þeim stendur ekki annað til boða.

Í siðuðum löndum væri í gangi átak til að hindra slíkt.

Ég skrifaði einu sinni pistil um hlutfalla illskunnar, 2/162 eða eitthvað svoleiðis.  Þessir 2 voru fyrir þá uppæð sem þingheimur stærði sig af að hafa sett í vaxtabætur til hjálpar skuldugu fólki  og 162 eru milljarðarnir sem áttu að greiðast í vexti á þessu ári ef bretar hefðu ekki gert okkur þann greiða að hafna ICEsave 1 með fyrirvörunum.  

Þetta hlutfall segir allt sem segja þarf, og hinn þögli meirihluti styður hana.

Það erum aðeins við kverúlantarnir sem ybbum gogg, og okkur fer óðum fækkandi sökum þess að enginn nennir að hlusta á okkur.  

Ég er löngu hættur að nenna að skrifa um eitthvað annað en ICEsave, og tel dagana þar til það leiðinda mál er frá.  Nennan hvarf þegar ég gerði mér grein fyrir að fólk er sátt, og allflestir hafa það það gott, að þeir sjá ekki ástæðu til að styðja nýja hugsun, ný viðmið.  

Og það má líka vel vera að það sé allt í lagi, og landið sé farið að rísa á ný.  Tíminn sker úr um það.  Það allavega hrundi ekki allt, fólk hélt áfram að borga af lánum sínum, og fyrirtæki áfram starfsemi sinni þó þau borguðu ekki af lánum sínum.

Eftir stendur bara úlfur, úlfur, og á þessari stundu er hreinlega ekki vitað hvort hann var á ferðinni.

Ég tel það, en ég tel líka svo margt.

En þeir sem komu okkur á hausinn, þeir sigruðu allavega þetta stríð, og ráða öllu í dag.  Og það er ekkert raunhæft afl á móti þeim, þess vegna er svo erfitt að halda úti svona bloggi, maður hefur engan til að styðja, ekkert til að benda á sem valkost.

Ef stjórnvöld hefðu haft vit á að svæfa ICEsave, enda skiptir það engu máli fyrir breta eða ESB, þá væri ekki lengur andstaða.  Hún bara gufaði upp í haust.

Og ég sé engin merki um hana í mínu nærumhverfi.

Því miður.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 6.3.2011 kl. 23:52

25 identicon

Sæll Ómar

Takk fyrir þitt greinargóða svar.  Þú ert pott-þéttur sem fyrr Ómar.

Og sannaðu til ... Þjóðin mun segja dúndrandi NEI þann 9. apríl.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 7.3.2011 kl. 00:28

26 Smámynd: Ómar Geirsson

Við skulum vona það Pétur, en ég er hóflega bjartsýnn.  En þá skaðar ekki að hafa lögin með sér, og það verður látið reyna á þau.

Og þá orrustu munum við vinna.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 7.3.2011 kl. 08:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.11.): 48
  • Sl. sólarhring: 675
  • Sl. viku: 4472
  • Frá upphafi: 1401552

Annað

  • Innlit í dag: 39
  • Innlit sl. viku: 3848
  • Gestir í dag: 38
  • IP-tölur í dag: 38

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband