"Með hag íslensku þjóðarinnar í fyrirrúmi"

 

Tók ég þessa ákvörðun segir Bjarni Benediktsson.

Og hann hefur mætt flokksmönnum sínum og rökstutt hana, á hann heiður skilið fyrir það.  Hvergi í hans málflutningi vottar fyrir þeim lygum og blekkingum sem einkennt hafa Samfylkinguna í þessu máli, hann fullyrðir hvergi að þetta sé lagaleg skuldbinding Íslands samkvæmt EES samningnum, og hann lýgur ekki til um upphæð samningsins, hvorki þess fyrri eða núverandi.

En vissulega má deila um þær forsendur sem Bjarni gefur sér, og hér á eftir ætla ég að tæpa á efnahagslegum óvissum samningsins og hversu varhugarvert er að gera lítið úr þeim.

Bjarni vitnar í Gamma greiningu (upplýsingar um hana má finna í fylgiskjali með áliti meirihluta fjárlaganefndar) þar sem samningurinn er áætlaður kosta þjóðina 60 milljarða að teknu tilliti til inneignar uppá 20 milljarða í Tryggingasjóði innstæðna.  Þá er gengið út frá núverandi gengi, sem og áætlun um innheimtu sem skilanefnd Landsbankans hefur unnið.  Núvirði þessa 60 milljarða ætlar Gamma að sé 47 milljarðar.

Hann kýs að halda sig við þá tölu, viðurkennir vissulega að hún gæti verið hærri en það sé ólíklegt.   Og vitnar þá aftur í Gamma.

 

En þegar maður les Gamma skýrsluna, þá skilur maður ekki hvernig hægt sé að fullyrða slíkt.  Óhætt er að segja að ósvissan drjúpi þar af hverri blaðsíðu. 

Hún er aðallega þrennskonar, hún snýr að þróun gengis íslensku krónunnar versus pundsins, um þróun útflutnings þjóðarinnar og um áætlun skilanefndar, það er hve mikið skilar sér inn og hvenær það kemur til greiðslu.

 

Gamma tekur á öllum þessum þáttum og rökstyður hinar ýmsu sviðsmyndir, og það er óhætt að fullyrða, að hún telur enga líklegri en aðra.  Ef þetta gerist, þá er þetta kostnaðurinn, og hann getur farið í 220 milljarða segir Gamma.

Hún treystir sér ekki til að fullyrða um framtíðina, þróun efnahagsmála Íslands er samtvinnuð þróun hagkerfa Vesturlanda, og það getur allt gerst.  

 

Hver hefur fyrirfram trúað að fjármálakerfi Bandaríkjanna og Bretlands féllu haustið 2008???

Hver hefði trúað fyrir ári síðan að evran réri lífróður og áhrifamenn í Evrópu tala um það fullum fetum að henni verði ekki bjargað, ekki nema þá með róttækri uppstokkun???

Í þessu samhengi má ekki gleyma að þeir hagfræðingar sem vöruðu við fjármálakreppunni, vara við nýju hruni, og öll helstu merki þess eru þegar komin fram.

 

Á þetta bendir Gamma, þar telja menn sig ekki þess umkomna að segja til um framtíðina.

Í athugasemdarkerfinu hér að neðan, ætla ég að peista áhætturök Gamma greiningar, geri það ekki hér í pistlinum sökum lengdar.  

Þeir sem telja sig hafa fulla ástæðu til að treysta stjórnmálamönnum sem gera lítið úr áhættu, þeir spá ekki í svona rök, þeim dugar það sem leiðtogar þeirra segja.  Svona í ljósi þess sem gerðist hér í aðdraganda Hrunsins, þegar stjórnmálamenn kepptust hver um annan að sannfæra stuðningsmenn sína og alla landsmenn um öryggi hins íslenska bankakerfis, þá er slíkt hæpin afstaða.  

Máltækið Brennt barn forðast eldinn var ekki til út af neinu.

 

Síðan má einnig taka fyrir rökin hið meinta tjón af dómsmálum, rökin að fyrri samningur hafi verið lögleysa en þessi ekki, og rökin um hinn meinta ávinning að því að samþykkja ICEsave.

Og það er efni í fleiri pistla.

 

En mikilvægast er að gera sér fulla grein fyrir þeim kostnaði sem núverandi samningur hefur í för með sér.

Kveðja að austan.

 

 


mbl.is „Sætti mig við þessi málalok“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Geirsson

Gengisáhætta vegna þróunar á gengi krónunnar

Kröfur í þrotabú gamla Landsbankans hafa verið festar miðað við gengi krónunnar þann 22. apríl 2009. Þannig er krafa Tryggingasjóðs innistæðueigenda og fjárfesta (TIF) fest í 674ma króna. Gengi krónunnar hefur samt sem áður áhrif á væntar endurheimtur þar sem að baki kröfunnar eru að mestu erlendar eignir eins og áður hefur komið fram. 

Samkvæmt fyrirliggjandi Icesave samningi yrði TIF skuldbundið til að greiða breskum og hollenskum stjórnvöldum 2,350ma punda (GBP) og 1,329ma evra (EUR) þ.e. skuldin er ákveðin í erlendum gjaldeyri. 

Krafa TIF er þannig í íslenskum krónum en skuldbinding TIF er í breskum pundum u.þ.b. 2/3 hlutar og evrum 1/3 hluti. Gjaldeyrisáhætta TIF er fólgin í því að að veiking krónunnar hækkar skuldbindinguna en krafan er óbreytt í krónum. Að sama skapi mun styrking krónunnar lækka skuldbindinguna en krafan helst óbreytt í krónum.  

 

Í öllum forsendum um skuldastöðu og greiðslugetu vegna Icesave samningsins er miðað við skráð gengi Seðlabanka Íslands á íslenskri krónu. Í ljósi tilvistar gjaldeyrishafta sem hafa það markmið að stöðva eða takmarka óstöðugleika í gengis- og peningamálum er eðlilegt að velta því upp hvort að taka eigi tillit til þess að gengi krónunnar hefur kerfisbundið verið haldið uppi með höftum með því að takmarka fjármagnshreyfingar til og frá landinu. Vegna gjaldeyrishaftanna hefur myndast nýtt gengi með svokallaðar aflandskrónur, þ.e. krónur sem ekki er heimilt að flytja af reikningum erlendra bankastofnana inn á bankareikninga íslenskra bankastofnana. Gengi aflandskróna hefur verið töluvert lægra en á hefðbundnum krónum. Það er þó ekki hægt að draga þá ályktun að gengi aflandskrónanna sé nær því að vera ,,hið rétta gengi krónunnar“ ef að gjaldeyrishöft yrðu afnumin í einu vetfangi, heldur spila þar inn í aðrir hlutir eins og líkur á að aflandskrónur verði ekki aftur hluti frjálsra króna og aðrar ástæður. En í ljósi þess að gengi aflandskróna hefur verið töluvert lægra en annarra króna allt frá hruni að þá er líkleg ályktun að ,,réttara“ gengi krónunnar sé til skamms tíma sé a.m.k. lægra en núverandi opinbert gengi króna.

Veiking krónunnar hækkar virði þrotabúsins í krónum talið þar sem eignir eru að stærstumhluta í erlendri mynt. En athuga verður að sú hækkun mun ekki skila sér til TIF að þar sem hámark endurheimta TIF úr búinu er  fest í 674 milljarða.  Ef virði þrotabúsins hækkar í krónum talið (ef krónan veikist) gæti sú staða komið upp að aðrir kröfuhafar á eftir forgangskröfuhöfum fái hluta af sínum kröfum greiddar út. Rétthæð krafna, samkvæmt lögum um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991, á hendur þrotabúi er þannig að mjög litlar líkur eru á að TIF fái greidda vexti og gengismun á kröfu sína á hendur þrotabúinu.

Sést hvernig gjaldeyrisvörnin sem er innbyggð í eignasafn þrotabúsins er takmörkuð til að verjast veikingu krónunnar endurheimtum og skuldbindingu TIF við 25% og 50% veikingu krónunnar að við 16% veikingu krónunnar ná endurheimtur TIF í rauninni 100% en verða ekki hærri. Skuldin aftur á móti heldur áfram að hækka með frekari veikingu krónunnar

Af ofangreindu sést að það er töluverð áhætta sem felst í veikingu krónunnar. Vegna ósamræmis eigna og skulda í pundum þá er sú áhætta sérstaklega til staðar gagnvart pundi þar sem stærsti hluti skuldbindingar TIF er í pundum. Hafa verður í huga að þrátt fyrir að Seðlabanki Íslands geti stutt við krónuna og haldið henni stöðugri með áframhaldandi gjaldeyrishöftum þá er ekki hægt að halda öllum gjaldeyriskrossum gagnvart krónu stöðugum

Feitletranirnar eru mínar en óhætt er að segja að Gamma talar ekki um óverulega áhættu.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 6.2.2011 kl. 11:39

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Tafir á endurheimtum eða greiðslum úr þrotabúi

Það er möguleiki á að tafir gætu orðið á fyrstu greiðslum til kröfuhafa. Það gæti gerst vegna m.a. tafa á endanlegri úrlausn dómstóla vegna neyðarlaga og heildsölulána, eða að slitastjórn ákveði einhverra hluta vegna að hún geti ekki hafið greiðslur fyrr en tiltekin ágreiningsefni séu leyst.  Í Samantekt samninganefndar á niðurstöðum viðræðna við bresk og hollensk stjórnvöld vegna Icesave frá 9. desember 2010 14 gr. segir um áhættu vegna tafa greiðslna: ,,Tafir á því að úthlutað sé úr þrotabúi Landsbankans myndu valda því að uppsafnaðir vextir á ógreiddan höfuðstól yrðu hærri. Það eru einkanlega mögulegar tafir á úrlausn dómsmála sem kynnu að valda slíkri frestun...

Af sviðsmyndunum hér að ofan sést vel að endurheimtuáhættan er töluverð, bæði hvað varðar heildarupphæð endurheimta krafna sem og tímasetningu á þeim greiðslum. Þessi áhætta hlýtur að velta á því hvernig efnahagsástand og fjármálamarkaðir þróast í þeim löndum sem eignir þrotabúsins liggja. Í þessu efni hefur þróunin frá síðasta samningi verið mjög hagstæð þar sem eignamarkaðir ytra hafa tekið verulega við sér á síðustu misserum. Það er hins vegar alls ekki gefið að þessi hagstæða þróun haldi áfram eða geti ekki gengið til baka.

Í þessu samhengi má geta að skilanefnd Landsbankans hefur lýst því yfir að hún greiði ekki út úr þrotabúinu fyrr en dómsmál eru útkljáð.  Er það í samræmi við viðteknar venjur.

Þess eru dæmi að málarekstur hafi tafið greiðslur í áratugi og ekkert sem segir að það geti ekki gerst í tilviki Landsbankans.  Mikið er í húfi og það getur þjónað hag annarra kröfuhafa að höfða ný og ný dómsmál þar til menn gefast upp og semja við þá.

Þekkt taktík og raunveruleg áhætta.

Menn gleyma alltaf að ríkissjóður á ekki þessa peninga, þeir eru eign þrotabúsins sem getur ekki hyglað einum kröfuhafa á kostnað annarra.  Gjörðir þess þurfa að vera lögmætar og standast skoðun dómsstóla.

Að fullyrða á þessari stundu að greiðslur verði hraðar og öruggar, er í besta falli blekking.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 6.2.2011 kl. 11:46

3 Smámynd: Ómar Geirsson

Og að lokum vegna ytri áhrifa.

Hafa verður þó í huga að ef greiðslubyrði þróast á sem óhagstæðastan hátt (sviðsmynd 4) þá er það vegna mikillar niðursveiflu í erlendum hagkerfum. Að öllum líkindum mun sú erlenda niðursveifla hafa neikvæð áhrif á íslenska hagkerfið og því mun fara saman þung greiðslubyrði af Icesave ásamt verri horfum Íslands

Greiðsluhæfið hefur nú verið tryggt til skemmri tíma en þegar litið er til lengri tíma er nauðsynlegt að afla erlends lausafjár með afgangi á utanríkisviðskiptum. Gjaldeyrisforða sem tekinn er að láni þarf að greiða til baka auk vaxta og þó slík forðasöfnun geti lengt í endurfjármögnunarferli landsins, bætir hún ekki hreina erlenda stöðu þess. Hins vegar er skuldaþol ríkisins vitanlega háð endurnýjuðum hagvexti auk þess sem afnám gjaldeyrishafta myndi minnka skuldaþolið verulega vegna hærri fjármagnskostnaðar hér innanlands.

Hins vegar skyldi því ekki gleymt að greiðslur íslenska ríkisins vegna Icesave samningsins eru raunverulegar millifærslur frá íslenskum skattgreiðendum út úr landinu og sem slíkar minnka þær velferð í landinu.

ICEsave minnkar velferð, og hvers á íslenskur almenningur að gjalda???

Þegar menn segja að það sé hryllingur að semja ekki, þá þurfa sterk rök að fylgja þeirri fullyrðing.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 6.2.2011 kl. 11:54

4 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Mikið sammála þessu Kveðja

Haraldur Haraldsson, 6.2.2011 kl. 12:20

5 Smámynd: Ólafur Ingi Hrólfsson

Sæll vertu Ómar þú veist að ég er einn af þeim Sjálfstæðismönnum sem varð arfavitlaus þegar ég heyrði fyrst af þessu - eftir það aflaði ég mér upplýsinga m.a. með samtölum við 2 þingkonur sem þekkja MJÖG vel til.

Síðan var ég á fundinum. Þar flutti Bjarni málið af yfirvegun og skynsemi og þótt sumir fjölmiðlar hafi hlaupið eftir buxnatali Sturlu ( þeim er tamt að hlaupa á eftir honum í einu og öllu ) þá voru þeir sem ekki sjá neitt gott við Bjarna ( hafa verið andstæðingar hans allt frá því að hann var kjörinn formaður ) lítill hópur sem ég vona að hugsi málið OG KYNNI SÉR ÁSTÆÐUNA FYRIR ÞVÍ AÐ BB VILL SEMJA NÚNA . Hann hefur alltaf haldið fram samningsaðferðinni ( sem ég var á móti ) og þau meta stöðuna þannig núna að lengra verði ekki komist. Spurningin er ER ÞAÐ FÓLK SEM ENN VILL DÓMSTÓLALEIÐINA TIL Í ÞAÐ - RAUNVERULEGA - AÐ TAKA ÞÁ ÁBYRGÐ Á SIG - PERSÓNULEGA -??  Bjarni er að leggja pólitíska framtíð sína undir.- Og með réttu - tekur hann hagsmuni heildarinnar framyfir sína eigin. Hann gefði getað farið Þór Saari leiðina og farið í lýðskrum - en þar skilur á milli þeirra enn einu sinni - Bjarni er svo miklu stærri maður en Þór Saari

Ólafur Ingi Hrólfsson, 6.2.2011 kl. 14:42

6 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk Haraldur.

Ólafur, það er nú það, mér finnst það dálítið öfugsnúið að lesa að ég sé að taka á mig persónulega ábyrgð ef ég vill að leikreglur réttarríkisins séu virtar.  Vissulega getur siðað fólk alltaf tapað fyrir villimennskunni, á þá ekki að berjast???

Tók Churchil á sig persónulega ábyrgð þegar hann stóð gegn villimennsku nasismans??? Það voru mjög litlar líkur á að þegar bretar stóðu einir gegn vígvél nasismans að þeir hefðu nokkuð annað en sprengdar borgir og sokkin flota, og síðan hertekið land.   Þá hefði ískalt mat á aðstæðum sagt þeim að fylgja leið hertogans af Windsor og klíku breskra iðnrekenda sem vildu samninga við Hitler.

Átti Churchil síðan ekki að flytja frægu ræðu sína gegn Stalín og hans villimennsku, þegar hann mælti sín frægu orð um járntjald í Evrópu og hinn siðaði heimur hefði brugðist þeim þjóðum sem voru austan megin við það??

Til hvers voru Belgar að berjast í seinna stríði, þeir höfðu upp úr því stærstu loftárás á vestræna borg, sem þá var þekkt, Antwerpen, en gróðinn var enginn.  Landið var hertekið hvort sem er, en það var hægt að komast hjá eyðileggingunni með því að gefast strax upp.  En ef þeir hefðu gert það þá hefðu Þjóðverjar náð að króa af breska herinn við Dunkirk, og sagan hefði orðið öðruvísi.  Í raun var hin óvænta andspyrna Belga upphafið af falli Þýskalands, þó aðrir atburðir hefðu seinna vegið þyngra. 

En þeir hefðu ekki orðið nema vegna þess að það var til fólk sem skyldi gildi siðmenningarinnar, og hvað felst í því að vera maður.

Ólafur, ég skal alveg játa upp á mig smá stríðni í nokkrum pistlum fyrst eftir að Bjarni Ben tilkynnti ákvörðun sína, en þessi þríleikur minn (síðasti pistillinn eftir ef konan lofar), hann er svona eins málefnalegur eins og mér er unnt, svona miðað við að ég hef séð rautt frá því að bretar réðust á land mitt, þegar við þurftum svo sárlega á aðstoð að halda.

En ég hef viðurkennt þann flöt að menn geta lagt á málið það sem þeir kalla kalt hagsmunamat.  Það er hægt í öllum tilvikum, forsenda þess er rökfærsla og sanngjarnt mat á aðstæðum.  En þú skalt athuga að það er það sama og þau skötuhjú Jóhanna og Steigrímur gerðu allan tímann, sem og síamstvíburinn, Gylfi og Villi.  Harkaleg gagnrýni mín á þau stafar ekki af því að ég hafi ekki skilið afstöðu þeirra, það voru lygarnar og blekkingarnar sem ýfðu skap mitt.

Ég hef verið fyrstur manna til að taka fram að ég sættist á rétt Bjarna til að taka þessa ákvörðun, líkt og ég áskil mér rétt að vera á móti henni, og færa fyrir því rök.  Mér finnst margt sem hann segir, vera á mörkum velsæmis, til dæmis þegar hann vanmetur áhættuna af samningnum, ekki vegna þess að hann viti ekki betur, heldur vegna þess að hann treystir á að þú og þínir viti ekki betur.  En ég svara því í pistlum eins og þessum.  Rök Björns Bjarnasonar um þjóðaratkvæðið eru sama eðlis, og þau eru einfaldlega sterkari en Bjarna.  

Ef Bjarni tekur málefnalega afstöðu, þá viðurkennir hann stjórnskipan Íslands, og leggur til á Alþingi að samningurinn fari í dóm þjóðarinnar.  Fyrir utan að það er eina sáttaleiðin ef þjóðin á ekki að klofna, er það líka það eina rétta í stöðunni.  

Síðan takast menn á.  Ég skil það og virði, þó ég áskili mér rétt á að skjóta þá ef þeir vinna fyrir breta, en samborgara mína, sem takast á við málin á heiðarlegum forsendum, þá virði ég.

En Ólafur, þetta með persónulegu ábyrgðina, það eru rök andskotans í öllum siðferðislegum málum.  Það er ekki einu sinni sæmandi bretavinum, hvað þá þeim sem voru andstæðingar þeirra í gær, og söðla núna um í flokkstryggð.

Ef enginn berst gegn kúgun og ofbeldi, vegna þess að hann óttast það tjón sem kúgarinn getur valdið, þá stjórna fantar og fúlmenni þessum heimi.  Bjarni Benediktsson er hvorki fantur eða fúlmenni, og hann þarf ekki rök af þessu tagi.  

Tökumst á um hið kalda hagsmunamat, vonandi verðum við samherjar í að biðja um þjóðaratkvæði en ef ekki, þá er það ekki og nær ekki lengra.

En látum málflutning Samfylkingarinnar eiga sig.

Kveðja að austan. 

Ómar Geirsson, 6.2.2011 kl. 15:22

7 Smámynd: Guðmundur Pétursson

Að sjálfsögðu er þessi gjörspillti óskapnaður sem kallar sig Sjálfstæðisflokkin, fyrir löngu dauður. Jarðaförin hefur hinsvegar ekki farið fram og líkið rotnar bara á meðan.

Guðmundur Pétursson, 6.2.2011 kl. 18:28

8 Smámynd: Elís Már Kjartansson

Ég verð að segja like á þetta hjá þér Ómar. Í þjóðaratkvæðagreiðslu með ólögin.

Elís Már Kjartansson, 6.2.2011 kl. 18:32

9 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaðir félagar.

Guðmundur, hér er gerð sú krafa að fólk sé frumlegt, það er ekki í fjölpeistun.

Elís, þjóðaratkvæði er alltaf lendingin hvað varðar stjórnmálin, en mér er annars gott sama.  ICEsave samningurinn stenst ekki stjórnarskrána, og honum verður slátrað í Hæstarétti þegar skattgreiðendur kæra hann.

Þó meirihluti þjóðarinnar samþykkir hann, þá bindur sú samþykkt ekki Hæstarétt, hans eina skylda er að dæma í samræmi við lög, og þar er stjórnarskráin æðst bálka.

Þannig að ég hef engar áhyggjur af ICEsave sem slíku, enda leggur reykinn af friðarpípu minni langar leiðir.  Í dag sjá aðrir um vígaferlin, og mér leiðist ekki að vera orðin friðardúfan í hópnum.

En þjóðarinnar vegna þá vona ég að menn vitkist og virði stjórnskipan landsins, bæði þeirra vegna og okkar vegna.

Og leysi síðan skuldavanda heimilanna svo sómi sé að.

En mér sýnist að ICEsave blogg mitt sé á enda runnið, núna sjá fjölmennir herir um orrustuna.

Og það er fínt, hvíldinni feginn.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 6.2.2011 kl. 19:41

10 identicon

Að kjósa Icesave er að leggja blessun sína yfir siðlaust arðrán á þriðja heims þjóðum sem eru að slignast undan þjóðarskuldum. Að kjósa Icesave er að bregðast fátækustu þjóðum heims á úrslita stundu í stað þess að koma með gott lagalegt fordæmi um undankomuleið frá þjóðarskuld. Þjóðarskuldir drepa lítil börn á hverri sekúndu, og drepa fleiri en sjúkdómar og matarskortur til samans. Það eru þjóðarskuldir sem lama Afríkuríkin umfram allt. Að kjósa Icesave, eða leggja blessun sína yfir það á nokkurn hátt, er að vera siðleysingi og viðbjóður sem getur ekki kallað sig manneskju, og á sjálfur skilið að deyja eins og börnin sem eru að deyja núna undan þjóðarskuldum. Að kjósa Icesave er að vera hugleysingi og ragmenni sem þorði ekki að berjast fyrir réttlætinu, og á ekkert gott skilið.

Ef við bregðumst heiminum á slíkri úrslitastundu eigum við bara skilið fátæktina sem þá kemur niður á okkar eigin börnum, því ÞAÐ ER TIL RÉTTLÁTUR DÓMUR!!!

BREYTUM RÉTT = SEGJUM NEI! 

Að kjósa Icesave er að vera viðbjóður.

Ég kýs ekki Icesave!

En ÞÚ?!!!

Make Poverty History!

http://www.makepovertyhistory.org

http://www.makepovertyhistory.org (IP-tala skráð) 6.2.2011 kl. 21:36

11 Smámynd: Ómar Geirsson

Amen.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 6.2.2011 kl. 22:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 122
  • Sl. sólarhring: 334
  • Sl. viku: 5613
  • Frá upphafi: 1327437

Annað

  • Innlit í dag: 105
  • Innlit sl. viku: 5010
  • Gestir í dag: 102
  • IP-tölur í dag: 102

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband