Þjóð mín, engin nýfrjálshyggja meir.

 

Þetta voru orð þeirra Steingríms og Ögmundar þegar þeir tilkynntu myndunar bráðabirgðastjórnar VinstriGrænna og Samfylkingarinnar sem tók við af Hrunríkisstjórn Geirs Harde.

Í dag sagði skurðhjúkrunarkona mér að hún biði eftir uppsagnarbréfinu.  Og nú hefur heilbrigðisráðherra upplýst alþjóð að hann ætli að boði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins segja upp 633 starfsmönnum heilbrigðiskerfisins í viðbót. 

Þessa fólks bíður ekkert annað en að leita sér að vinnu á erlendri grund.

Eftir stendur lamað heilbrigðiskerfi, sérstaklega á landsbyggðinni.

 

Ef þetta er ekki þekkt aðferð nýfrjálshyggjunnar við einkavæðingu, þá veit ég ekki hver hún er.  Í mörgum löndum heims hafa stjórnmálamenn, hlynntir gróðaöflum veikt hið almenna heilbrigðis og menntakerfi, þannig að því hefur verið gert ókleyft að sinna skyldum sínum á sómasamlegan hátt, og afleiðingarnar hafa verið tvö kerfi, þeir sem eiga pening, hafa getað keypt sér almennilega þjónustu hjá einkaaðilum.

Oft hefur skrefið síðan verið stigið til fulls, öll almannaþjónusta einkavædd.

Slíkt hefur gerst í mörgum löndum þar sem AGS hefur komist að með skítuga putta sína.

 

Rökin fyrir þessari aðför eru engin.

Það er þegar búið að sýna fram á að peningalegur sparnaður er enginn, ef markmið er að veita sömu þjónustu, þá er ódýr nærþjónusta flutt á dýr hátæknisjúkrahús þar sem verkin kosta miklu meira, og flutningur á sjúku fólki er ekki ókeypis.

Þá hefur aumkunarvert fjölmiðlafólk, og vitgrannir bloggarar verið virkjaðir til að bera út þá lygi að þetta sé kall tímans, og það þýði ekki að vera með dýrar aðgerðir um allt land.  

Margar greinar hafa þeir sem til þekkja á landsbyggðinni skrifað gegn þessum blekkingum, í Morgunblaðinu i dag birtast tvær greinar eftir landsbyggðarfólk þar sem það afsannar þennan málatilbúnað.

 

Ásgeir Böðvarsson, framkvæmdarstjóri lækninga á Heilbrigðisstofnun Þingeyinga sagði meðal annars þetta:

 

"Ég verð að viðurkenna að ég var ekki eins hrifinn af ummælum Birnu Jónsdóttur, formanns Læknafélags Íslands, en laugardaginn 30. október birtist viðtal við hana í Morgunblaðinu. Þar ræddi Birna um þá staðreynd sem raunar er flestum ljós, að ekki sé hægt að bjóða upp á alla þjónustu í heilbrigðismálum alls staðar á landinu. Eina dæmið sem hún nefndi þessu til stuðnings var kransæðavíkkun og skýrði blaðamanni frá því að þessa aðgerð væri ekki hægt að gera á hverju sjúkrahúsi landið um kring. Nú veit ég ekki nákvæmlega hvers vegna Birna valdi að taka þetta dæmi því mér finnst dæmið í besta falli afar óheppilegt.  Kransæðavíkkanir hafa aldrei verið gerðar utan Landspítalans frá því þær hófust á Íslandi og ég veit ekki betur en að allir í heilbrigðisstétt séu sammála um það að ekki standi til að taka slíkar aðgerðir upp annars staðar á landinu.

Hins vegar er það svo að þetta dæmi ýtir enn undir þann misskilning að heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni séu litlar útgáfur af Landspítalanum og allar með sérhæfða þjónustu og þar að auki fokdýrar. Forsvarsmönnum fagfélags eins og Læknafélags Íslands ber að vera fyrirmynd í umræðunni og forðast að gefa tilefni til slíks misskilnings. Þótt vel kunni vera að túlkun mín á viðtali við formanninn beri fyrst og fremst vott um mína eigin vænisýki, þá virðist mér af fyrirspurnum sem ég hef fengið um hjartaaðgerðir úti á landi, að svo sé ekki.

Svona misskilningur, sem að vissu leyti má segja að byggist á fölsun staðreynda, er síðan tugginn upp aftur og aftur af leikum og lærðum, fréttamönnum og stjórnmálamönnum og enginn man lengur hver tuggði fyrstur. Til að nefna dæmi um þetta þarf ekki lengra en í fyrrnefnt viðtal í Morgunblaðinu en í inngangsorðum vitnar blaðamaður í Steingrím J. Sigfússon fjármálaráðherra og hefur eftir honum »að núverandi fyrirkomulag heilbrigðisþjónustunnar hafi runnið sitt skeið. Fækka þurfi smáum og dýrum einingum«. Þessi skoðun á »smáum og dýrum« einingum í heilbrigðisþjónustunni hefur heyrst af og til undanfarin 20 ár en fékk byr undir báða vængi þegar drög að fjárlögum 2011 birtust, en þar eru áætlaðar gríðarlegar skerðingar á fjárlögum til þessara stofnana. Í ljós hefur komið að sumar af þeim forsendum sem gengið var út frá í fjárlögum eru rangar og aðrar mistúlkaðar og hefur þetta að hluta til verið viðurkennt, bæði í heilbrigðisráðuneyti og af stjórnmálamönnum.

Það virðist þó hafa litlu breytt því enn er tuggin sama tuggan um hin smáu og dýru sjúkrahús, þrátt fyrir þá staðreynd að þjónusta þeirra (sem byggist á almennum lækningum og hjúkrun og í sumum tilfellum fæðingarþjónustu ljósmæðra) er hvorki sérhæfð né dýr og þar að auki nauðsynlegur bakhjarl heilsugæslunnar og mikilvægur stuðningur við aðalsjúkrahúsin í Reykjavík og Akureyri."

 

Það sorglegast við þetta er að þetta er allt satt, hvorki heilbrigðisráðherra eða fjármálaráðherra eiga rök á móti sem þola skoðun fagmanna.

 

Nokkrir stjórnendur á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja skrifa einnig grein í Morgunblaðið þar sem þau útskýra hlutverk og tilgang landsbyggðarsjúkrahúsa. Og þau benda á sáttina sem starfsemi þeirra byggist á.

 

"Meginþunginn í þjónustu sjúkrahúsa á landsbyggðinni er hins vegar almenn lyflæknisþjónusta ýmiss konar, lungna- og hjartasjúkdómar, sýkingar, bráðar öldrunarlækningar o.fl., ásamt líknandi meðferð og fæðingarþjónustu. Slíka sjúklinga þarf ekki og á ekki að flytja til Reykjavíkur.

Þessi þjónusta sjúkrahúsa heilbrigðisstofnana er hluti af grunnheilbrigðisþjónustu, sem kveðið er á um í lögum um heilbrigðisþjónustu, að veitt skuli í hverju heilbrigðisumdæmi. Lög um heilbrigðisþjónustu eru niðurstaða umræðu og samráðs við fjölmarga aðila í þjóðfélaginu og eru einn mikilvægasti þátturinn í búsetuskilyrðum á hverju landsvæði. Lækkun fjárveitinga til sjúkrahúsa heilbrigðisstofnana skv. frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2011 kemur í veg fyrir að hægt verði að veita grunnheilbrigðisþjónustu í landinu og rýfur þá sátt, sem mótuð hefur verið um heilbrigðisþjónustuna. Hætta verður t.d. starfsemi sjúkrahúss HSu á Selfossi í núverandi mynd og þar með verður horfið áratugi aftur í tímann með heilbrigðisþjónustu á Suðurlandi.

Skýringar stjórnvalda benda til að framangreind áform byggist á röngum upplýsingum eða misskilningi. Samráð hefur ekki verið haft við stjórnendur heilbrigðisstofnana og fulltrúa íbúa á viðkomandi svæðum. Afleiðingar fyrirhugaðra breytinga eru því allt aðrar og skelfilegri en stjórnvöld virðast gera ráð fyrir. Framkvæmdastjórn HSu hvetur til að áður en tekin er ákvörðun um að gjörbreyta búsetuskilyrðum og raska lífsgæðum víðast hvar um landið fari fram umræða, sem byggist á sem réttustum upplýsingum, þannig að stjórnvöld og íbúar geri sér sem best grein fyrir afleiðingum breytinganna. "

 

Það er sorglegt líka til þess að vita að vanþekking og hlutdrægni veður upp í ríkisfjölmiðlunum, þar hafa menn brugðist hlutverki sínu að upplýsa landsmenn, bæði um það sem gert er, og á hvaða forsendum það er gert.Hvað þá um þau lög og reglur sem er verið að brjóta.

 

Einnig spyr enginn sig þeirrar grunnspurningar, til hvers, jafnvel þó stjórnvöld væru ekki að ljúga til um sparnað, til hvers???

Til hvers er verið að raska byggð í landinu og færa lífsgæði á landsbyggðinni áratugi aftur í tímann??

Hvað hrundi haustið 2008 sem réttlætir slíkt gerræði??'

Ekki getur það verið fjárhagur ríkisins því það á að standa undir vöxtum af 800 milljarða gjaldeyrissjóði.

Og starfsmenn Seðlabankans reiknuðu það út að ríkissjóður og þjóðarbúið réði ágætlega við ICEsave greiðslur uppá 40-60 milljarða á ári, samtals upp á 506 milljarða að teknu tilliti til vaxta og ákveðinna gengis og endurgreiðsluhlutfalls á eignum  Landsbankans.

Svo taka allir, þeir sem trúðu að þetta væri bæði hægt og nauðsynlegt, því gefnu að þjóðin hafi ekki efni á landsbyggðinni.

Að þessir 2,6 milljarðar sem eiga að sparast séu þjóðarbúinu og efnahagsstöðugleika ofviða.

 

Hvaðan kemur þessi trúgirni, af hverju finnst fólk sem styður ríkisstjórnina í þessari aðför að íbúum landsbyggðarinnar.

Hvað hefur gamla fólkið á Vopnafirði eða Akureyri gert þessu unga vinstra fólki, eins og stelpunni sem er aðstoðarkona Ögmundar, að hún vill frekar borga dauðu fjármagni vexti en að leyfa því að lifa áhyggjulaust síðustu ár lífsins??

Er valdagræðgin svona taumlaus að allt má, að allt sé leyfilegt??'

 

Ég skal játa að ég veit ekki svarið, ekki frekar en móðir bekkjarfélaga strákanna minna.

Venjulegt fólk skilur þetta ekki.  

Svona mannvonska er hugsun okkar ofviða.

 

Ég sagði henni að það fyndist enginn landsbyggðarþingmaður sem myndi styðja uppsögn hennar.  

Ekki þegar á reyndi.

Ég vona að ég hafi rétt fyrir mér.

Kveðja að austan.

 

 

 

 


mbl.is 634 gætu misst störf sín
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.5.): 65
  • Sl. sólarhring: 750
  • Sl. viku: 5273
  • Frá upphafi: 1328086

Annað

  • Innlit í dag: 60
  • Innlit sl. viku: 4732
  • Gestir í dag: 59
  • IP-tölur í dag: 59

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband