Við erum ekki sek.

Á öllum  tímum hafa harðstjórar og yfirgangsseggir stundað þann óþverraskap að koma sekt á hópa eða heilu þjóðirnar svo auðveldara sé að fá aðra til að taka þátt í kúgun og níðingsskap með tilvísun í hina meintu sekt.

Úr nútímasögu er þekkt hvernig Serbneskir ofstopamenn náðu völdum með því að höfða til forna væringja við nágranna sína, bæði Króata og Múslima.  Níðingur sem batt spotta í kynfæri fanga sinna í einum af útrýmingarbúðum Bosníuserba og dró þá eftir sér á skellinöðru, hann vísaði í forna sögn um  pyntingar Tyrkja á 14. öld þar sem hestar, en ekki skellinöðrur komu við sögu.  Þess vegna var fórnarlamb hans sekt.

Ungt fólk sem fór um sveitir Úkraínu í upphafi fjórða áratugar síðustu aldar og rændi bændur uppskeru sinni, var fóðrað með sögum af ríkum bændum sem léku leiguliða sína og vinnufólk grátt.  Þetta unga fólk rændi því "Kúlakka" þó í raun væri það að stela lífsbjörginni af afkomendum hinna meintu fórnarlamba fortíðarinnar.

Og drápu ekki Gyðingar Krist????

 

Þessi formáli minn eru hugleiðingar um þann óþverraskap sem spunakokkar Samfylkingarinnar innleiða í hugum fólks, að það megi ekki leiðrétta skuldir vegna þess að þá fá sukkarar og svínarar ómaklega hjálp.  Skiptir engu þó um heila kynslóð ungs fólks sé að ræða. 

Allur hópurinn er dæmdur sekur vegna gjörða hluta hans.  Og í þessa gryfju fellur fólk, og trúir því auðleppum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem mega ekki hugsa sér lífvænlegt þjóðfélag hér á næstu árum og áratugum.

Ég fékk innslag á pistil fyrir nokkrum mánuðum sem ég svaraði eftir bestu samvisku og ég tel að þessi orð mættu alveg rifjast upp núna þegar baráttan um heimilin er að hefjast á ný.

Innslagið var svona:

 
"Eru aðstæður íbúðarkaupenda með verðtryggð lán, eitthvað erfiðari nú en var bæði í upphafi níunda og tíunda áratugar síðustu aldar? Verðbólgan lék fólk verr þá en nú, miklu verr. Það eina sem breyst hefur er að nú styðst fólk við 100% lán (m.ö.o leggur ekkert í íbúðarkaupin og getur þá vart tapað nokkru) og hefur haft aðgang að erlendum lánum, sem það ætlaði að endurgreiða í íslenskum krónum. Það er óviturlegt og áhættusamt. Og hverjum er um að kenna? Fólkinu, sem lét freistast eða bankanum sem nánast otaði erlendri mynt að viðskiptamönnum sínum, eða jafnvel bauð ekki upp á önnur bíti? Sannleikurinn er auðvitað sú að þjóðin spennti bogann of hátt og er nú að súpa seiðið af óvarfærni sinni og mest þeir sem óðu lengst út í fenið."
 

Og mitt andsvar var þetta:

 

"Blessaður, ekki veit ég hvort aðstæður séu verri núna, áður hafa margir lent í áratuga skuldabasli. En rangindi úr fortíð réttlæta aldrei rangindi dagsins í dag. Svona í það fyrsta.

Og í dag erum við líka með gjaldeyrislánin, og við erum líka með yfirspenntan fjárhag hjá mjög stórum hópi ungs fólks í Reykjavík.

Þú segir að menn geti sjálfum sér um kennt. Því er ég ekki sammála. Fólk tók sín lán út frá gefnum forsendum um tekjur og greiðslubyrði, og flestir höfðu borð fyrir báru. Það sem það sá ekki fyrir var að stjórnvöld skyldu leyfa hinum yfirskuldsettu bönkum (skuldum sem stöfuðu af hinni erlendu útrás) að gera atlögu að hagkerfinu með öllum sínum stöðutökum. Og halda áfram gamblinu þó allir sæju hvert stefndi.

Slíkur forsendubrestur hefur aldrei verið áður í sögu þjóðarinnar. Og það eitt og sér gerir ríkisvaldið ábyrgt. Og skyldugt til að grípa til þeirra ráða að samfélagið leysist ekki upp, því þjóðfélag skuldaþræla mun aldrei halda, sérstaklega ekki þegar skuldaþrælarnir hafa menntun og reynslu sem gerir þeim kleyft að leita á önnur mið.

En jafnvel þó allir ættu þess skuldörlög sín skilin, þá er aðgerðaleysi í málefnum heimilanna stórhættulegt framtíð þjóðarinnar. Það verður aldrei hagvöxtur í þjóðfélagi þar sem framtíðartekjur heimilanna er bundinn í klafa húsnæðisskulda. Það er eðli fjármálakreppa, að það tapa allir, líka fjármagnseigendur. Annars kemst ekki á nýtt jafnvægi.

Síðan má minna á þann kostnað sem hlýst af félagslegri upplausn skuldugra fjölskyldna. Sá kostnaður mun falla á framtíðina og verða miklu hærri en kostnaðurinn við að stemma verðtrygginguna af, og taka Hrunið út úr henni."

 

Og lokorð mín þá ætla ég að gera að lokaorðum dagsins að "grunnpunktur minnar gagnrýni er sú einfalda speki sem ég lærði í biblíusögunum í gamla daga að kristilegt siðgæði byggist á að hjálpa náunganum, jafnvel þó hann sé bjánabelgur.  

Það er æðra dómsvalds að dæma, ekki okkar.

Kveðja að austan.

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.5.): 294
  • Sl. sólarhring: 531
  • Sl. viku: 4742
  • Frá upphafi: 1329304

Annað

  • Innlit í dag: 246
  • Innlit sl. viku: 4173
  • Gestir í dag: 227
  • IP-tölur í dag: 225

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband