Þjóð í skuldahlekkjum

 

Er þjóð sem á sér enga framtíð.

Þetta vissi Forngrikkinn Sólon þegar hann sannfærði fjármagnseigendur um nauðsynlegar eftirgjafir á skuldum almennings.  Hinn möguleikinn var upplausn og síðan endalok borgríkisins.

Á Íslandi í dag stjórnar fólk sem hefur ekki þann þroska sem þarf  til að átta sig á þessum einföldum staðreyndum.  

Á Íslandi í dag er til svo vitgrannt fjölmiðlafólk að það lætur ráðamenn leiða sig út í umræðu um hvort vandinn mælist í þessari prósentu eða hinni, eða hvort hann sé yfir höfuð til.  Forsætisráðherra hefur jú talið upp 50 úrræði sem hún hefur gripið til, og þar sem fjölmiðlamenn hafa ekki nema tíu fingur, og tíu tær, þá finnst þeim að manneskja sem getur talið upp 50 úrræði, að hún hljóti hafa rétt fyrir sér.  

En ekki hvarflar að þeim að kynna sér sjálfir málin.  Að leiða umræðuna frá tölfræði yfir í hold og blóð.  Til  þess þarf jú einhverja þekkingu og eitthvað vit.

Er ekki miklu einfaldara að tækla vandann þannig að fyrst að um 25% heimila eigi í vanda, þá eigi 75% heimila ekki í vanda.  Og fyrst að um 20.000 manns séu á vanskilaskrá, þá séu tæp 300.000 þúsund það ekki.  

Engar blóðfórnir á þessari tölfræði.

 

En gefum okkur að tölfræði Seðlabankans sé rétt.  Látum sannleikann ekki trufla umræðuna.  

Hvað þýðir það á mannamáli að um fjórðungur heimila landsins eigi í miklum fjárhagsvanda????

Nú er það þekkt staðreynd að fasteignageðveikin var bundin við höfuðborgarsvæðið, þess vegna er mjög líklegt að allflestir í fjárhagsvanda eigi heima þar, þó vissulega séu undantekningar þar á.  Einnig er ákaflega líklegt að fólk um fimmtugt og yfir hafi ekki staðið í íbúðakaupum, nema þá til að minnka við sig og losa um fjármagn, svona almennt séð.  Einnig er mjög líklegt  að yngsti aldurshópurinn hafi annaðhvort staðið í makaleit, eða verið að safna fyrir íbúðakaupum, einnig svona almennt séð.  

Eftir stendur aldurshópurinn milli 25-50, að meginhluta á höfuðborgarasvæðinu.  Og þar er hlutfallið gott betur en 25%, hvort annað hvert heimili í þessum aldurshópi eigi í erfiðleikum, eða hvort hlutfallið sé hærra, um það er ekki hægt að segja, umræðan á Íslandi er ekki þroskaðri en það að stjórnvöld hafa komist upp með að fela vanda þessa fólk á bak við tölfræðina að aðeins fjórðungur heimila landsins eigi í fjárhagsvanda.  

Það eru engar aðgengilegar upplýsingar um heildarvanda þessa unga fólks.

En þetta er fólkið sem hefur menntunina, reynsluna, og á börnin sem munu erfa landið.  Þetta er fólkið sem skilur milli feigs og ófeigs hvort hér verði rekið nútímaþjóðfélag á næstu áratugum, eða hvort Ísland verði fátæk hráefnisnýlenda hins alþjóðlega auðmagns, skjólstæðinga Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Og þetta fólk er út í kuldanum.  

Fórnarlömb getulausra lýðskrumara sem kenna sig við félagshyggju og norræna velferðarstjórn.

 

En vandi þessa unga fólks, er vandi okkar allra.  Þegar upp er staðið mun þjóðin öll blæða út, ef lunga hennar og kjarna er fórnað á altari fjármagnseiganda sem öllu ráða í dag.  Vandinn er í gruninn sá sami og hann var í Aþenu um 600 fyrir Krist.  Og lausnin er sú sama.  

Þeir sem hafa ekki siðferðisþroska til að skilja skyldur sínar gagnvart fólki í neyð, ættu að íhuga afleiðingar núverandi stjórnarstefnu.  

Tökum sem dæmi ákall félagsmálaráðaherra um þjóðarsátt um frystingu launa.  Hann sér ekki aðra leið til að hægt sé að halda hér uppi heilbrigðisþjónustu og umönnun aldraða, fatlaðra og annarra sem þurfa á aðstoð samfélagsins að halda.  Og það er mikið til í þessu.  Það er ekki hægt að halda uppi sömu lífskjörum og var, það þarf að borga skuldir, og það þarf að endurreisa atvinnulífið, það þarf að sá í nýjan akur áður en nýrrar uppskeru er neytt.

En er virkilega til svo heimskur maður, svona fyrir utan háttvirtan félagsmálaráðherra, sem trúir því að tugþúsundir manna sætti sig við launfrystingu ofaná skuldaþrældóm sinn?????

Og hvað afleiðingar hefur það að hér fer á stað blóðug kjarabarátta auk annarrar upplausnar samfélagsins sem er fyrirsjáanleg ef ekkert rótækt er gert??????

Sólon spáði borgarstyrjöld, telur einhver að ungt fólk á Íslandi hafi minni döngun í sér en fátækt fólk fyrir 2.600 árum síðan????

 

Nei, rökin eru þau sömu, vandinn er sá sami, lausnin er sú sama.  

Og sú lausn heitir almenn skuldaleiðrétting, að Hrunskuldir fjármálakerfisins verði ekki látnar lenda á almenningi vegna verðtryggingar sem aldrei var hugsuð til að takast á við kerfishrun, og vegna gengistryggingar sem alla tíð hefur verið kolólögleg, en enginn þorði að hreyfa við vegna ægivalds fjármálakerfisins.

Síðan þarf að hjálpa öllum sem þurfa á hjálp að halda, dugi ekki almenna skuldaleiðréttingin til.  Til þess eru mörg þekkt úrræði sem margoft hefur verið bent á.  

 

Vegna þess að kjarni siðaðs þjóðfélags er samkennd og samhjálp á hörmungartímum, að þá standi fólk saman, og þeir sem aflögufærir eru, að þeir hjálpi hinum.  

Og að baki þessari siðuðu hugsun er ákaflega einföld rökhyggja, sem hinir siðlausu stuðningsmenn félagshyggjunnar ættu að skilja;

Rökhyggja sem segir að Þjóð í skuldahlekkjum, er þjóð sem á sér enga framtíð.

Það er nefnilega mikið vit í mannúð.

Kveðja að austan.

 

 

 

 

 

 


mbl.is Sökkva í skuldafen
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristján Hilmarsson

Blessaður og sæll Ómar !

Gaman að sjá þig kominn í gang aftur og vona að þú hafir átt góða daga undanfarið!

Er líka búinn að kíkja á næsta innlegg hjá þér, þar sem þú "tekur í gegn" "Pétur", og eftir að hafa lesið og kynnt mér þitt álit á málum sem um ræðir, er ég ekkert hissa á hvernig þú bregst við honum, en svo er það þó ekki þannig að hann fari alveg með rangt mál hvað varðar eigin ábyrgð, þ.e. "flottræfilshætti" alltof margra undanfarandi hrunsins sbr. þetta HÉR, en eins og þú bendir honum/okkur á kemur það svosem ekkert málinu við, í sambandi við hvernig haldið er á "spöðunum" núna, held að hann hafi ekki alveg náð kjarnanum hjá þér, en gerir það með tíð og tíma.

En það var annað sem ég rakst á hjá þér sem mig langar að viðra við þig, og það er þegar þú nefnir ameríska vogunarsjóði sem eiginlega eigendur skulda Íslands (og væntanlega flestra vestræna landa) það er að vissu leyti rétt, nema svo vaknar spurningin, hvar fengu þeir svo fjármagn til að gera okkur öll skuldug ?

Ég er nefnilega búinn að leita með "logandi ljósi" um vefinn og spyrja ýmsa einnig, en litlu nær og þó, um það HVERJIR EIGA SVO ALLAR ÞESSAR SKULDIR ? flest bönd berast að Asíu og þá helst Japan og ekki síður Kína, sem er reyndar mjög athyglisvert í ljósi þess að búið er að undirrita nú nýlega viljayfirlýsingu við Kína um fjármögnun og útboð á Búðarhálsvirkjun, þessu veltir svo Axel J. Axelsson fyrir sér HÉR  og verð ég að viðurkenna að ég er langleiðina sammála honum , reyndar snerist svo umræðan þarna upp í ESB umr. kannski mér að kenna en samt eru þarna nokkur góð innlegg.

Þetta sem Axel segir um muninn á hvernig Kínverjar hugsa til langtíma meðan Íslendingar (og líklega flestar vestrænar þjóðir) eru meir svona fljóthuga, er einnig athyglisvert er það ekki ?

Svo rak ég augun í það að að Bilderberg hafði sinn árlega fund á Spáni milli 2 og 6 júní s.l. og þó ég sé nú ekki sá sem er mest upptekinn af "conspiracy theories" þá fannst mér tímasetningin skondin.

Svo kannski verður Kína bjargvætturinn sem bjargar Íslandi frá bæði AGS, Icesave og ekki síst ESB (hef nú talið að Íslenskur almenningur væri fær um ákveða ESB sjálfur) þannig að þá kemur "byltingin" til landsins og þarf þar með ekki að ske innanfrá, bara spurningin hvað gjaldið í ýmsu öðru en beinhörðum peningum verður ? Axel mælir með að fólk læri kínversku sem fyrst, en nefndi ekki hvaða mállýsku :(

Veit þú kemur með gott "comment" á þetta hjá mér þegar þú finnur tíma Ómar !  lýk þessu núna með smá fróðleik um þessi tvö "svoldið" misstóru en sjálfstæðu ríki, hvort í sínu heimshorni Kína Hér og svo Ísland HÉR.

MBKV að "Utan"

KH

Kristján Hilmarsson, 10.6.2010 kl. 12:55

2 Smámynd: Hammurabi

Vel skrifuð og áhugavert innleg, fyrsta skipti í svoldin tíma sem einhverjum tekst það. Er ekki alveg sammála "lausinni" hinsvegar, en greiningin er góð.

Hammurabi, 10.6.2010 kl. 13:54

3 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Hammurabi,

ég er ekki heldur alveg sammála öllu því sem stóð í þínum lagabálki, en met viljann fyrir verkið.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 10.6.2010 kl. 23:35

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Kristján, og fyrirgefðu hvað ég kem seint inn.

Bæði er það sólin sem glepur, sem og hitt að ég fór aðeins að hugsa og síðan að leita að gömlu innslagi sem svarar að ég held ágætlega þessu fyrsta "hérna" þínu.  Setti þá hugsun í sérpistil sem eru lokaorð dagsins, gráglettni mín út i Pál var aðeins auglýsing á honum.

Og til  að hnykkja á kjarna hins siðlega manns þá vil ég vitna í orð Meistara Gandálf Gráa, sem ég hafði fyrir að skrifa í hliðarspori um umræðu um drápsfíkn Kanans á ógæfufólki.  Sú hugsun sem kemur fram í þessum orðum, á líka við í víðara skilningi.

"Já, sjálfsagt er hann réttdræpur.  Margir sem lifa ættu skilið að deyja.  Og sumir sem deyja ættu skilið að fá að lifa.  -Getur þú þá veitt þeim líf?  -Ónei, en þá skaltu ekki heldur vera of fljótur á þér að deyða.  Jafnvel hinir vitrustu sjá ekki allt fyrir."

En hvað gaf mér rétt til  að vega Pétur er svo önnur Ella en stríð eru alltaf óþverri.  Þess vegna eiga menn að forðast þau, og fyrstu mánuðir míns bloggferils einkenndust af mikilli þolinmæði við að ræða málin, og takast á við þau sjónarmið sem hann stendur fyrir.  

En sú stund er liðin hjá mér, í bili að minnsta kosti.

En það er þetta með amerísku vogunarsjóðina, sjálfa handbendi andskotans hér á jörðu.

Svona í það fyrsta þá skal  ég útskýra hina algjöru óbeit sem ég hef á þeim.  

Einhvernvegin þá hélt ég alltaf að skuldavandi Afríku væri flókinn, að ef skuldir væru gefnar eftir, þá þyrfti einhver að bera tapið.  Fáfræði mín stafaði af því að ég trúði hinni almennu fjölmiðlaumfjöllun. 

Svo las ég bloggpistil síðastliðinn vetur þar sem bent var á að upprunalegir lánveitendur væru fyrir löngu búnir að afskrifa lán sín sem þeir veittu misspilltum einræðisherrum til vopnakaupa og fjármálaspillingar.  En lánin voru keypt af illmennum á hrakvirði, svona 3-5 % af nafnvirði.  Og þessi illmenni, hafa beitt áhrifum sínum á fjölmiðla og stjórnmálamenn á þann hátt að allir trúa því sem ég hélt.  Og að Afríka yrði að borga, að borga sínar skuldir.  

Allar þessar  skuldaráðstefnur voru því sýndarmennska og shjófið eitt.  

Og milljónir hafa fallið út af þessari mannvonsku sem á ekki að kennast við menn, hún er djöfulleg.

Og þessi illmenni, kennd við ameríska vogunarsjóði, gerðu það sama hér.  Þau keyptu skuldabréf íslensku bankanna á hrakvirði, og ætla sér góðan hagnað.  Og verkfæri þeirra sem fyrr eru ómenni Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, samviskulaus kvikindi sem engu eira þegar gróði braskara  er annars vegar.

Flóknari er tengingin ekki Kristján.  Vissulega eiga fleiri bankanna, en ég er jú í áróðri og legg allt upp á versta veg fyrir stjórnvöld, svona af kvikindisskap mínum því margur VG liðinn hefur sama álit á þessum illmennum og ég.

Og áður en þú bendir mér á að allt sé ekki alvont við þessa sjóði, þá vil ég benda þér á að það sást einu sinni til Himmlers að snýta barni, þó ekki gyðingabarni.  Hann var ómenni fyrir það því sumt má hreinlega ekki.  Níðingsskapurinn gagnvart íbúum Afríku er eitt af því.

En mér brá dálítið þegar ég var kominn á heimasíðu CIA, mætti halda að þú værir agent.  En Kína mun ekki bjarga einum eða neinum.  Það er gríðarlegur undirliggjandi óstöðugleiki í landinu, og ástandið í dag minnir um margt á undanfara margra bændauppreisna sem leiddi til fall keisaraætta.  Menn ættu að kynna sér vel sögu Quin ættarinnar áður en þeir sjá ljósin frá Kína í dag.  

En þú veist það vel Kristján, að ég er dálitið í Ragnaraka fíling þessi misserin, og tel  að allskonar afglapar séu langt komnir með að láta hinar fornu goðsagnir rætast.  

En ég er þekktur fyrir að hafa rangt fyrir mér, svo Ragnarakafílingur minn verður að skoðast í því ljósi.  En ekki finnst mér gáfulegt hjá mannkyninu að treysta endalaust á leiðsögn afglapa, sérstaklega ekki þá sem kenna sig við Nýfrjálshyggju og alþjóðaránskap.

En það er líka önnur Elle.

Kveðja,  Ómar.

Ps.  Hef haft það virkilega fínt, vildi svo innilega að hann Gylfi Forseti hefði ekki kveikt neistann í gær svo ég sæi mig tilneyddan að koma frá mér enn einum ICEsave pistlinum.   Var orðinn virkilega sáttur við að vera kominn í bloggfrí sumarsins án þess að hafa nokkrar áhyggjur af höfðingjanna ráðum og dáðum.  

En ég fer í Víkina mína 17. og þá skal ég hundur heita ef ég blogga aftur fyrr en í miðjum ágúst, ef þá ekki seinna.  Sumarið í sumar, er nefnilega sumarið sem sólin kom austur, eftir 4 ára hlé.

Og ég ætla að njóta hennar ásamt drengjunum mínum. 

Og fótboltans.

Kveðja aftur að austan.

Ómar Geirsson, 11.6.2010 kl. 00:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.5.): 376
  • Sl. sólarhring: 684
  • Sl. viku: 5660
  • Frá upphafi: 1327206

Annað

  • Innlit í dag: 340
  • Innlit sl. viku: 5025
  • Gestir í dag: 317
  • IP-tölur í dag: 311

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband