12.5.2010 | 22:40
Hræsni.
Hver er munurinn að taka andstæðinga sína af lífi með tilvísun í lög sem eru sérstaklega til þess hönnuð, eða að dunda sér reglulega við að senda flugskeyti á meinta andstæðinga sína sem þess vegna geta verið saklausir gestir í brúðkaupsveislu???
Það síðarnefnda er reglulega iðkað af herliði Nató í Afganistan, og í því herliði eru margar ESB þjóðir.
Væri ekki nær að taka fyrst til í sínum ranni, áður en tiltekt er framkvæmd hjá öðrum ríkjum, sem þó fara eftir sínum lögum og reglum. Engin lög í Evrópusambandinu heimila að saklaust fólk í brúðkaupi sé sprengt i loft upp.
Þetta er ein hlið á hræsni ESB. Önnur hlið er ekki stærsta rán síðara tíma, tilraun breta og Hollendinga til að ræna íslensku þjóðinni aleigunni, það er jú bara rán, ekki morð.
Hin hliðin er að ef menn eru á móti morðum ríkisvalds, þó löghelgað sé, þá eru menn á móti slíkum morðum, allstaðar, um allan heim.
Íranar, þó slæmir séu, eru ekki eins morðóðir eins og helsti bandamaður ESB, Bandaríki Norður Ameríku. Íran er líka einræðisríki, stjórnað af miðaldamönnum. Síðast þegar ég vissi þá töldu Bandaríkjamenn sig vera lýðræðisþjóð, stjórnað af nútímamönnum. Samt fær þjóðin kikk út úr því að steikja fólk með rafmagni, eða eitra fyrir því með aðstoð lækna.
Þann sjúkleika fordæmir ekki ESB, aðeins morðóða miðaldamenn.
Þess vegna er þessi gagnrýni ESB með öllu marklaus. Ef þú líður athæfi vina þinna, þá þegir þú yfir gjörðum þeirra sem eru þér ókunnir.
Mannréttindi og mennska eru algild, byggjast á því boði að þú skalt ekki mann deyða. Þau voru ekki hugsuð þannig að þau skuli aðeins í heiðri höfð hjá óvinum þínum, eða þeim sem þú þekkir ekki, og telur þig því geta gagnrýnt.
En þessa einföldu hugsun skilur hræsnarinn ekki.
Þess vegna komast illmenni um allan heim upp með að drepa fólk.
Það kallast pólitík, líkt og hjá íslenskum stjórnmálamönnum sem neita þjóð sinni um réttlæti í ICEsave deilunni við breta og Hollendinga. Þar kallast það pólitík að stefna þjófunum ekki fyrir dóm.
Pólitík er orð siðblindingjans sem sér aðeins eitthvað athugavert yfir rangar gjörðir, ef það eru "hinir" sem þær framkvæma. Og því þarf að breyta.
Það sem er rangt, er rangt.
Líka þegar gerandinn er VinstriGrænn.
Kveðja að austan.
ESB fordæmir dauðarefsingar í Íran | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (31.10.): 112
- Sl. sólarhring: 114
- Sl. viku: 5643
- Frá upphafi: 1388476
Annað
- Innlit í dag: 86
- Innlit sl. viku: 4822
- Gestir í dag: 81
- IP-tölur í dag: 78
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Íran.........okei, þar sem samkynhneigð er td. ekki til, að sögn forseta landsins, á maður að taka þetta "lið" alvarlega, ha?????
Guðni Ólason (IP-tala skráð) 12.5.2010 kl. 23:19
Þetta er bara ein tegundin af rógsherferðinni sem er hafin gegn Íran til að fá blessun heimsins til að ráðast þarna inn, eins og gert var gegn Írak og Afganistan.
Sérð ekki ESB skamma þá í BNA vegna dauðarefsinganna þeirra, og þeir tóku þroskaheftan mann af lífi.
Við munum sjá meira af skítlegum fréttum um hversu slæmir þeir eru þarna í Íran, kannski þeir séu með gereyðingarvopn líka, oops, samkvæmt BNA eru þeir að vinna í því undir því yfirskini að vera byggja orkuver.
Sagan endurtekur sig reglulega vegna þess að fólk kann ekki að muna.
Tómas Waagfjörð, 12.5.2010 kl. 23:49
Blessaður Guðni.
Ég held að stjórnarandstæðingarnir tveir sem á að taka af lífi, taki þetta lið alvarlega.
En ég var ekki að blogga um Írani.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 12.5.2010 kl. 23:50
Það tók mig undir 2 mins að finna þetta
http://www.thaindian.com/newsportal/world-news/eu-slams-us-after-1000th-execution-by-lethal-injection_100221167.html
Evrópusambandið er þarna að gagnrýna bandaríkin fyrir aftökur, og hefur gert það áður.
Það er allur munurinn á að skjóta eldflaug og ætla sér að drepa hriðjuverkamenn.
Eða skjóta eldflaug og ætla sér að drepa saklausa borgara.
Ertu að vitna í þekkta bók með þessari tilvísun?
"þú skalt ekki mann deyða".
Það er önnur vel þekkt tilvísun í sömu bók.
"Auga fyrir auga".
Illmenni um allan heim komast upp með að drepa vegna þess að eiginhagsmunaseggir/ aumingjar/ heiglar neita að fara í átök/stríð til þess að stoppa svona illmenni.
Teitur Haraldsson, 13.5.2010 kl. 02:09
Telur þú þig geta dæmt, teitur, um hvor ætlar sér að drepa saklausan og hvor ekki, eða ferðu eftir bandarískum og breskum fréttamiðlum?
Steinar Hrafn (IP-tala skráð) 13.5.2010 kl. 02:48
Það var Lýðræði í Íran þangað til árið 1953, þegar Bandaríkjin steyptu lýðræðislega kjörnum forseta af stóli.
www.en.wikipedia.org/wiki/1953_Iranian_coup_d'état
palli (IP-tala skráð) 13.5.2010 kl. 06:31
Forsætisráðherra meina ég.
palli (IP-tala skráð) 13.5.2010 kl. 06:33
Blessaður Teitur.
Svo við höfum það á hreinu, þá er mér ákaflega illa við menn sem í nafni einhvers málstaðar telja sig hafa rétt á að myrða náunga sinn. Í því felst að mér er líka illa við þá sem skapa þessum mönnum jarðveg, til dæmis heimskingja í stjórnkerfum sem telja það baráttu við hryðjuverkamenn að sprengja í loft upp saklausa borgara.
Hvað þekkingu þína á ákveðinni bók, þá vil ég benda á að tilvísun mín er í boðorðin tíu, í þeim kemur ekki fram boð um tönn fyrir tönn, hvað þá auga fyrir auga. Enda benda vísir textaskýrendur á að líklegast hafi hagsmunasamtök græðara, með sérþekkingu á tannviðgerðum, komið þessum frasa inn bókina, líkt og þegar lobbýistar í bandaríkjunum geta komið olíuleit á vernduðum svæðum inn í lög um umhverfisvernd.
Flott hjá þér að finna tilvísun í að Evrópusambandið hafi gagnrýnt aftökur í Bandaríkjunum, það tók mig sekúndubrot (hef ekki millisekúndumæli, get því ekki verið nákvæmari) að rifja upp gagnrýni þess á réttarmorðið sem Tómas minnti á. En greinarstubbur minn fjallaði um hræsni, að áróður sé magnaður upp gegn Írönum fyrir sömu óhæfu og helsti bandamaður ESB stundar ítrekað, án nokkurra annarra viðbragða en málamyndaröfls. Og tilgangur þessarar hræsni er augljós, og Tómar kom lítillega inná það samhengi.
En þá er ég kominn af stóru rökvillu þinni sem lýsir mikilli siðblindu, ef meining er að baki. Það er enginn munur á að drepa saklaust fólk undir því yfirskyni að þú sért skjóta á meinta hryðjuverkamenn, eða drepa saklaust fólk undir því formerkjum að það sé "óvinur" sem er sjálfsréttlæting hryðjuverkamanna. Ég reikna með því að þú sæir villu þinnar hugsunar ef þú værir í brúðkaupi í Borgarfirði, og sæir þar alla þína vina og ættingja sprengda í loft upp af mannlausri flugvél, bara vegna þess að CIA hefði fengið nafnlausa vísbendingu að þar væri hugsanlega maður sem hefði sést drekka tebolla með Laden fyrir 25 árum síðan.
Siðfræði er nefnilega mjög einföld, það sem maður vill ekki sjálfum sér, vill maður ekki öðrum. Og það sem er rangt, það er rangt.
Önnur megin rökvilla þín er að kalla þessi meintu skotmörk Natóherja hryðjuverkamenn, bara vegna þess að áróðursmaskína Nató gerir svo. Í stríðsglæparéttarhöldunum í Nurnberg var einmitt tekið á við svona spurningar, getur hernámslið dæmt alla heimamenn hryðjuverkamenn, á þeirri forsendu einni að þeir eru grunaðir um andspyrnu. Til grundvallar lágu 2 fræg þorp, sem ég kann ekki að nefna, og nenni ekki að eyða 2 mínútum í að fletta upp á Netinu. En annað er í Tékkóslóvakíu, og þar drápu SS liðar allt kvikt eftir banatilræðið við Heydrich. Hitt þorpið var í Frakklandi, en þar fengu pirraðir SS liðar í frægri skriðdrekasveit alveg nóg af eilífum töfum af völdum andspyrnumanna sem gerði það að verkum að þeir komust ekki í tíma til að hrekja innrásarlið bandamanna út í sjó meðan það var hægt. Og gremjan fékk útrás í litlu friðsælu sveitarþorpi, og fórnarlömbin voru allir karlmenn sem þeir náðu í. Allt hugsanlegir andspyrnumenn.
Réttlæting þessa voða glæpa hefði þú getað skrifað miðað við innslag þitt hér að ofan. En dómarar Nurnberg kváðu skýrt úr um að hermenn í stríði gætu ekki mætt í næsta brúðkaup og skotið fólk, þó þeir teldu hryðjuverkmenn vera meðal gesta. Eins var skýrt kveðið á um að heimamenn væru í fullu rétti til að verja hendur sínar, væru stríðsmenn, ekki hryðjuverkamenn. Þess vegna voru aftökur Þjóðverja á andspyrnufólki á grundvelli hryðjuverkalaga, dæmdar ólöglegar og flokkaðar undir stríðsglæpi.
Teitur, það gilda sömu lög í dag og dæmt var eftir í Nurnberg. Og þau lög leggja ríkar skyldur á ríkisstjórnir að haga sér eins og siðað fólk, en ekki eins og ótýndir stríðsglæpamenn.
Og hvað varðar heigla tal þitt, þá er það hámark heigulsskaparins að ráðast úr mikilli fjarlægð á manngrúa undir því formerkjum að þar gætu hugsanlega verið hryðjuverkamenn. Hið siðaða samfélag notar aðeins eitt orð yfir slíkan aumingjaskap, og það eru hryðjuverk.
Og hryðjuverk ala af sér hryðjuverk.
Hin fullkomna hræsni er að leyfa einum eitt og réttlæta illvirki hans, bara vegna þess að hann er bandamaður, en berjast síðan gegn öðrum með þeim rökum að illvirki séu illvirki og glæpssamleg.
Rangt er rangt, glæpur er glæpur, hryðjuverk er hryðjuverk, og morð eru morð, þó þau séu löghelguð af stjórnvöldum.
Og þeir sem eru svo mikil fífl að fatta ekki ógöngur hins forna lögmáls "auga fyrir auga og tönn fyrir tönn", þeir munu að lokum sitja á hól og horfa yfir rústir heimila sinna og lík sinna nánustu.
En það versta við þessi fífl, að þið eruð að stuðla að ótímabærum dauðdaga okkar hinna.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 13.5.2010 kl. 11:55
Sæll Ómar ! Þú ferð víða og "mikinn" í innleggi og andsvörum í þessum hér umræðum um þennan "grimma" hluta okkar "Homo Sapiens" sem gengur svo sorglega seint að þróa niður/burt úr okkar eðli, þetta með að leysa deilur og ýmis ósamkomulög, með stríði og drápum, það sorglega er auðvitað að þó við mjökumst hægt í átt að því að verða eins og kannski flest okkar dreymir um að við verðum einhverntíma, þá fjölgar okkur því miður hraðar en við þroskumst.
Og heiftin og hatrið sem skín í gegn hjá hérna þér, gagnvart þeim sem eru á öndveðri skoðun, styrkir þetta svo ekki verður um villst, enda ertu bara eins og við hin, einn af "Homo Sapiens" kannski þetta sé rétta leiðin til flýta fyrir jákvæðri þróun mannkyns, kalla andstæðingana "fífl" og teikna upp myndir þar sem þeir "horfa á lík sinna nánustu" og svo rúsínan: "En það versta við þessi fífl, að þið eruð að stuðla að ótímabærum dauðdaga okkar hinna." Við gætum tekið umræðu um það einhvern tíma og vitnað í "hetjur" okkar M.L.King, Ghandi ofl. sem ekki notuðu svona orðbragð en kipptu okkur samt í stórum skrefum nær "draumnum", en á meðan verðum við að lifa við "hræsnina" annar fremur óvinsæll þáttur í eðli "H.S."
Vildi gjarnan að menn/konur stöldruðu við aðeins, og spyrðu sjálf sig hvort það væri til ártal í þekktri sögu mannkyns, þar sem ekki hefði verið stríðsátök með meðfylgjandi glæpum, einhversstaðar í veröldinni og ef svo var hversvegna ?
Kv að utan
KH
Kristján Hilmarsson, 13.5.2010 kl. 14:25
Takk fyrir gott svar Ómar.
Mig langar að svara þér betur þegar ég hef tíma til, en langar að segja ör stutt núna að ég var ekki að segja að mér líkaði við boðskapinn sem "auga fyrir auga og tönn fyrir tönn" boðar. Heldur eingöngu að benda þér á að í þessari sömu bók er andstæðan, sem er "auga fyrir auga og tönn fyrir tönn".
Að þetta máltæki sé komið af einhverju hagsmunapoti er alveg ótrúleg að láta sér detta í hug.
Þetta kemur fram í Biblíunni sem refsing fyrir að valda fósturláti eða frekari skaða.
"líf fyrir líf, auga fyrir auga, tönn fyrir tönn, hendi fyrir hendi, fót fyrir fót"... o.s. frv.
Þú ættir ekki að setja þig á svona háan stall, þetta lögmál, ef því er fyllt rétt kemur fullkomlega í veg fyrir morð. Og í vanþróuðum réttarkerfum er þetta mjög gott.
En eins og með svo margt annað að mannskepnan er ekki fyllilega fær um að fylgja reglum og lögum rétt.
Teitur Haraldsson, 13.5.2010 kl. 14:27
Blessaður Teitur.
Núna þar sem tónninn hjá þér er kurteis, þá skal ég líka skipta um gír.
Þetta var textaskýringuna var sett fram til að fíflast í þér og verður að lesast í samhengi við ertandi hluta míns andsvars. En þeir sem kalla mig heigul, þeir fá oft svona einkahúmor.
Og ég er ekki á háum stalli, kannski var meistarinn frá Nazaret það, þegar hann hafnaði þessu gamla siðalögmáli fullkomlega, og gaf mannkyninu nýja hugsun, sem gæti komið því til bjargar á þeirri ögurstundu að það hefur náð því marki að geta eytt sjálfu sér, ef það þroskast ekki frá hinu gamla siðalögmáli ættbálkasamfélags Miðausturlanda.
Og ef maður horfir á málið frá því sjónarmiði að fordæma þá heimsku sem fær menn til að fljúga saklaus fólki á skýjakljúfa, þá finnst mér stallurinn vera hár og víður og færa okkur von um framtíð.
Hinn möguleikinn er sá að þú verður heppinn að lifa til að telja náinn.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 13.5.2010 kl. 19:30
Blessaður Kristján minn.
Alltaf gaman að heyra í þér, og takk fyrir að fylgjast með skrifum mínum.
Heift og hatur, jamm það er alltaf smekksatriði, og ekki ætla ég að gera ágreining við þína túlkun, en ég get fullvissað þig um að fleira knýr áfram orðræðu en þær hvatir.
Ósammála mér, jamm og jæja, bloggið þrífst á þeim sem eru ósammála, annars nenntu fáir að standa í þessu. En þetta er ekki friðarblogg, hafi þú haldið það þá skal ég strax leiðrétta þann misskilning. Og það er mjög góð leið að ná fram púkanum í mér með því að mæta á svæðið og tengja andsvar sitt við að ég sé fífl eða heigull eða annað það sem margir sárkvartandi menn kvarta yfir að ég skuli ekki kunna að meta.
En það er til leið til að friða ófriðsegginn á þessu bloggi, og Teitur fann þá leið. Hún er ekki flókinn, heitir rök, og sleppa stóryrðum. Og náttúrlega skamma mig blóðugum skömmum ef ég geri ekki hið slíkt sama.
En ég held að þessi pistill sé ekki að angra þig svo mjög Kristján, heldur ýmsar trakteringar mínar út i það fólk sem þú hefur talið þig eiga samleið með í pólitík, þó þú sért ekki sammála gjörðum þess í dag. En þetta er ekki flókið Kristján, ég á í stríði, er skæruliði reynandi að vega og fella sem flesta af mínum andstæðingum sem styðja ICEAGS. Lít á þá sem ótýnda landráðamenn og svikara, alveg þangað til þeir endurskoða afstöðu sína.
Og já, það eru fífl sem skilja ekki að hin gamla hugsun um hefnd og ófrið eru komin á endastöð. Það er ekki rök í málinu að vitna í ófrið fortíðar, það er möguleikar okkar í dag til að stunda ófrið, sem marka þessa endastöð. Ófriður er ekki lengur valkostur. Og þetta eru aðeins örfáir aðilar sem spila á þessa villimennsku að þurfa endalaust að gjalda illt með illu, að þurfa að hefna forna illgjörða með nýjum illgjörðum.
Við flest viljum lifa og sjá börn okkar vaxa upp úr grasi. Það er hámark heimskunnar að sjá þá framtíð eyðast vegna þess að við höfum ekki þann manndóm að stöðva þessa örfáa illvirkja og ófriðarseggi sem sjá alltaf hag sínum best borgið í ástandi ófriðs og hörmunga.
Þetta er ekkert persónulegt Kristján, þetta er bara svona. Lífvera sem vill ekki tryggja framtíð sína, er heimsk lífvera. Um það er ekki hægt að deila. Það eina sem hægt er að deila um er hvort fólk tilheyri þeim hópi. Og mér skilst á Teiti að hann ætli að ræða það betur við mig.
Hans er völin og kvölin.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 13.5.2010 kl. 19:59
Þú drepur ekki nokkurn mann nema í nafni einhvers málstaðar.
Hvort sem það er réttlæti, hefnd eða stríð. Þannig að þér er illa við öll dráp.
En heimurinn er bara alls ekki svo einfaldur.
Það er göfugt að vera friðarsinni en á meðan það er svo mikið sem einn maður með byssu reiðubúinn að nota hana til að komast yfir peninga/völd. Þá gengur það ekki.
Það er allur munurinn að drepa af ásettu ráði saklaust fólk, og drepa saklaust fólk óviljandi.
Allir dómstólar sem ég veit um viðurkenna þá staðreynd.
Slysaskot, sem eitt dæmi.
Bílslys.
Vinnuslys þar sem maður gætti ekki að öryggi. T.d þegar krani dettur.
Villtu í alvöru leggja það að líku þegar menn fljúga flugvél inní skýjakljúf í þeim tilgang að drepa sem flesta borgara.
Og þegar BNA skjóta menn sem þeir telja vera vopnaða skæruliða, hryðjuverkamenn?
Sem einn eitt dæmi um þetta, það kom upp atvik í Vietnam þar sem BNA hermenn drápu salklausa borgara í einu litlu þorpi. Morðaðferðirnar voru hræðilegar, grimmdin algjör, nánast allir drepnir.
Þetta er óafsakanleg hegðun, enda vakti þetta upp mikla reiði í BNA.
Og þarna kemur munurinn, þetta vakti upp reiði og hneykslun í BNA.
Þegar tvíburaturnarnir í BNA voru sprengdir voru sýndar myndir af fólki í mið austurlöndum dansandi útá götum.
Hvernig túlkarðu þennan mun á grimmdarverkum, eða frekar viðbrögggð við grimmdarverkunum?
Með dæmið þitt um að ég myndi sjá villu míns vegar, þá finnst mér dæmið ekki gott.
Þú getur allt eins spurt mig hvernig mér þætti ef maður myndi missa stjórn á bílnum sínum og keyra inní veisluna þar sem „margir mínir vinir og ættingjar yrðu fyrir bílnum ég létu lífið“
Ég tek ekki í mál að BNA myndi sprengja svona veislu fyrir mann sem drakk tebolla með Laden.
En þeir gætu gert það myndu þeir hafa ástæðu til að halda að allir í veislunni væru hryðjuverkamenn.
Teitur Haraldsson, 15.5.2010 kl. 01:47
Blessaður Teitur og takk fyrir málefnalegt svar.
Hvar á ég að byrja, kannski það fyrst að það er ekki sama að sprengja upp brúðkaup okkar viljandi og sá verknaður að valda þar slysi óviljandi. Svo við gerum dæmin sambærileg, þá væri það að ef sprengjunni hafi sannarlega verið miðað á skotmark sem var í þvílíkri fjarlægð að saklausu fólki stafaði ekki hætta af, en eitthvað komið upp sem hefði breytt ferli hennar, þá ert þú með slys, sorglegt slys, sem vissulega vekur upp spurningu um réttmæti hernaðarins, en ljóst að vilji var ekki til staðar að drepa saklaus fórnarlömb.
Bandaríkjamenn hafa sannarlega skotið á mannfjölda í þeim tilgangi að drepa grunaða menn og ekki spáð i mannfalli saklausra borgara, enda íbúar í Fjaristan. Þú skalt ekki ímynda þér þá hræsni að þú munir taka þá skýringu gilda að þeir hafi talið að hryðjuverkjamenn hefðu verið í hópnum. Þú munt örugglega steyta hnefa á loft og ef þú ert í hernumdu landi, þá hefur andspyrnan eignast nýjan liðsmann.
Og það er kjarni málsins, svona villimennska skapar meiri vanda en hún leysir. Þú drepur einn andstæðing en býrð til 100 í staðinn. Það voru til dæmis ekki nema örfáir sérvitringar sem héldu til fjalla í Frakklandi á sínum tíma, svipað og við sérvitringarnir sem lemjum á AGS hernámsstjórninni (smá lagt í stílinn), en fantaskapur Þjóðverja og kúgun, það var hún sem skóp andstöðuna.
Og það sem þeir gerðu í þorpinu í Frakklandi var í engu ólíkt og Kaninn er að gera í Fjaristan, eini munurinn er sá að Þjóðverjarnir tóku karlmen út svo þeir dræpu aðeins þá en sprengjan drepur alla, líka konur og börn. En tilefnið það sama, það að útrýma grunuðum hryðjuverkamönnum.
Þeir sem telja þetta ekki rangt og ósiðlegt, þeir þurfa þá að senda bréf til Nurnberg og biðja menn að taka dóma yfir stríðsglæpamönnum Nasista upp, það er þá sem voru dæmdir fyrir glæpi gegn almennum borgurum undir yfirskyninu að þeir væru að útrýma hryðjuverkamönnum.
Stríð eru stríð en meginreglan er sú að þú veldur ekki saklausum borgurum óþarfa tjóni.
En hvað gera menn þá þegar þeir hernema lönd?? Þjóðverjar kölluðu alla andspyrnu hryðjuverkastarfsemi, og þeir voru dæmdir fyrir þá skilgreiningu. Ég veit ekki að þeim dómi hafi verið hnekkt. Og Kaninn veit upp á sig skömmina og vill því ekki játast undir lögsögu stríðsglæpadómstóls Sameinuðu þjóðanna.
Hvernig átt þú þá að berjast við andstöðu óbreyttra borgara, ef þú mátt ekki kalla alla hryðjuverkamenn og slátra þeim eins og þér sýnist??? Góð regla er að hernema ekki þjóð, heldur til dæmis koma á lýðræði og fara svo.. Það gerðu Tansaníumenn eftir að þeir settu Idi Amin af og það gerðu Víetnamar eftir að þeir losuðu heiminn við meindýr Pol Pot.
Þú spyrð hvort ég líki slysum að jöfnu við hryðjuverk, og skil ekki hvernig þú lest þá út úr orðum mínum. Og ég viðurkenni réttinn til að verja sig. Þó það nú væri. En þá verður hinn siðaði maður að þekkja skilinn á því sem má og því sem má ekki. Og ef þú beitir sömu vinnubrögðum og sá sem þú fordæmir, hvernig á þá hin hliðin að þekkja muninn?????
Að þín dráp séu lögleg, vegna þess að þú vinnur hjá ríkisstjórn, en ekki þín sem ert að verja hendur þínar?????
Skilur þú það ekki Teitur, að ef þú gefur einu sinni tóninn, þá hefur þú í raun engan rétt til að fordæma aðra sem taka upp sama söng. Enda skiptir það engu máli, menn gjalda líku líkt, einn sprengir upp turna, en annar upp brúðkaup.
Sérðu ekki hvernig það endar á tímum vetnissprengju og lífefnavopna??? Eða öll þessi gómsætu kjarnorkuver sem bíða eftir því að komast á matseðil manna sem telja sig í nafni málstaðar eða hefndar hafa rétt til að sprengja þau í loft upp til að valda hinum skilgreinda óvin tjóni, óbætanlegu tjóni, og hvað þá????
Þú ættir að íhuga þá hugsun sem ég er að reyna að orða, það er þinn hagur því veist aldrei hvenær næst kemur röðin að fólki sem þér þykir vænt um.
Ef þú íhugar þau, þá skilur þú að það er enginn eðlismunur að sprengja upp turn með flugvél, eða sprengja upp mannfjölda vegna þess að þú heldur að andstæðingar þínir séu þar. Það er stigsmunur á illskunni, ekki eðlismunur.
Og það er óþarfi að bíða með að fatta þessa staðreynd fyrr en víglínan er komin í túnið heima hjá þér.
Það þarf nýja hugsun, ný viðmið til að takast á við vanda heimsins.
Og það þarf að vera skýr greinarmunur á góðu gæjunum og þeim sem sprengja upp saklaust fólk.
Sumt er bara þannig að það má ekki.
Kveðja að austan.
PS. Ekki veit ég hvernig þú færð það út að ég sé friðarsinni, margreyndur skæruliði í ICEsave stríðinu og hef sett mér það markmið að fella ræningjakerfið sem er langt komið með að ræna þjóðir heims inn að skinni.
En ráð fortíðarinnar, hversu vel sem þau hæfa eðli okkar og hversu vel sem þau hafa dugað til að leysa deilur, þau virka ekki lengur í dag.
Ástæðan er "púmmm" og síðan ekki söguna meir.
Ég varð pabbi á gamalsaldri og mig langar mikið til að verða afi. Það setur mér þær skyldur á hendur að nota vit mitt en ekki þann frumstæða hluta heilans sem mótar allt okkar samfélag í dag.
Og þér er alveg óhætt að trúa mér, það er meira vit í mannskepnunni en fólk vill halda.
Kveðja, Ómar Geirsson.
Ómar Geirsson, 15.5.2010 kl. 14:43
Sæll aftur !
Takk fyrir að þú nenntir yfirhöfuð að svara innlegginu mínu, og svarið var gott og upplýsandi, en kannski er ég að missklilja eitthvað, en af öllu sem mér getur dottið í hug að kalla þig, þá er "fífl" og "heigull" ekki þar á meðal, en þú kannski varst að vitna í eitthvert annað innlegg.
"Lífvera sem ekki vill tryggja afkomu sína, er heimsk lífvera" mikið rétt Ómar, en eftir stendur að verða sammála um aðferðirnar við að tryggja afkomuna.;)
Sjáumst/heyrumst í öðru bloggi einhversstaðar.
MBKV að "Utan"
KH
Kristján Hilmarsson, 16.5.2010 kl. 16:48
Blessaður Kristján, ég er ekki svo latur.
Veit ekki hvernig þú fórst að því að taka þetta til þín. Þú barst upp á mig hatur og heift, og ég lagði það á mig að útskýra þann tón sem var í svari mínu til Teits, benti þér á að forsendur svona bloggs væri að láta engan eiga neitt inni hjá sér. Hér fær enginn að koma inn og með háði, árásum eða öðru skemma fyrir því sem ég er að segja, og þá hugsun sem pistlum mínum er ætlað að ná fram.
Blogg mitt hefur tilgang, og það er áróðursblogg, skæruliðablogg eða hvað sem þú vilt kalla svona andóf. Það að bjarga heiminum er svona aukabúgrein, sem fær að fljóta með og er þá með öðrum tón og öðrum áherslum. En hvort sem það er aðalstarfsemin, eða aukabúgreinin, það þjónar engum tilgangi að standa í löngu pikki, ef stutt innslög fá óáreitt að rústa öllu erfiðinu.
Fyrsta vinnuregla mín er að hér fær andskotinn að hitta ömmu sína, og þannig hefur mér tekist að haga mér eftir mínum geðþótta, stundum með mjög beinskeyttar árásir, stundum mjög rætnar, stundum hvorutveggja, og ég er laus við hælbíta andstæðinganna, svona að mestu leiti.
Þetta er nú inntakið í því sem ég var að reyna að útskýra fyrir þér, kvað þig hvorki hafa kallað mig fífl eða heigul, en það seinna kom fram óbeint hjá Teiti, og þar með lenti hann í kvörninni. Það fyrra kemur reglulega upp þegar ég ræðst beint að núverandi stjórn með orðbragði VG liða sem þeir notuðu til að herja á íhaldið þegar það var við stjórn. Þá tók ég þátt í þeirri herferð, en hélt henni áfram þó skipt væri um menn í brúnni, en ekki um stefnu.
Kallast að vera sjálfum sér samkvæmur, og það finnst mörgum vera mikil heimska.
Ekki ætla ég öðrum mínum vinnubrögð Kristján, það er misjafnt hvernig menn verja blogg sín. Ég hef allavega ekki þurft að kasta neinum út og tek slaginn við alla. Um árangur má alltaf deila, en skoðaðu fyrra innslag Teits og það síðasta. Mikill munur þar á, og það blasir líka við að tónn minn í því síðasta er ekki á slóðum heifta rog haturs eins og þú upplifðir þann fyrri.
Það hæfir einfaldlega skel kjafti, og þeir sem eru ekki hörundsárir þeir mæta oft aftur, með þyngri skotfæri í byssunum, kallast rök, og þá geta oft spunnist fróðlegar vangaveltur fyrir þá sem á annað borð hafa áhuga á rökræðum, já eða skylmingum þegar hart er sótt að pistlahöfundi fyrir galgopaleg ummæli.
Núna hef ég útskýrt mig mun betur Kristján, og ég vona að ég hafi ekkert sagt sem þú tekur persónulega til þín, taldi mig reyndar vera mjög hóflegan i mínu fyrsta. Vil enn og aftur minna þig á að meira rekur menn áfram til að skrifa en heift og hatur. Og ég hata ekki Nýfrjálshyggjuna eða það sem ég ákvað að kalla auðræði, ég hef fullkomlega viðurstyggð á henni.
Og ég hef fullkomlega viðurstyggð á þeirri stjórnarstefnu sem hér er framfylgt í boði AGS. Og það hvarflar ekki að mér að leyna þeirri viðurstyggð.
En svo við víkjum að því síðasta. Um þann vanda sem ég var að tala um þá er sú leið sem endar í Búmmi, ekki tæk. Og að sjá það ekki flokkast undir heimsku.
Heimsku sem mun líklega hindra að ég verði afi.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 16.5.2010 kl. 17:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.