Sorglegasti hluti einkavinavæðingarinnar er sparnaður á kostnað öryggis.

 

Hjáguðinn græðgi krefst arðs fyrir hluthafa, honum er sama um mannslíf.

 

Það er sagt að fyllsta öryggis sé gætt, en bara fyrir miklu minni pening.  Það er sagt að það sé lúxus að hafa slökkviliðsmenn tiltæka, menn sem gætu gert svo margt þarft á meðan, til dæmis borið töskur.  

Og þessi sparnaður gengur upp, á meðan ekkert gerist.

 

En þegar eitthvað gerist, þá kemur þjálfað slökkvilið strax á staðinn.  Töskuberinn þarf fyrst að ganga frá töskum sínum, mætir síðan með sóp til að þrífa upp brakið.

En vissulega þarf aldrei slökkvilið á meðan aldrei kviknar í, og það kviknar ekki oft í flugvélum.  Sömu rök og voru notuð við Kárahnjúka þegar mafían geymdi slökkvitæki í niðurnegldum kössum svo starfsmenn væru ekki að eyða tíma frá vinnunni í að æfa notkun þeirra.  Og sú taktík gekk ágætlega þar til leiðindaseggur, titlaður Slökkviliðsstjóri neðan úr Héraði, mætti á svæðið, opnaði kassanna og fór að kenna á tækin.  Óþarfa kostnaður því aldrei reyndi á brunavarnir.

Núna er það Slökkviliðsstjóri höfuðborgarinnar sem krefst þess að tæki, tól og mönnun sé fullnægjandi.  Óþarfa kostnaður og fyrirhöfn, því aldrei brenna flugvélar; Hingað til.

En ef það skyldi brenna flugvél á morgun, þá verða eigendur Flugstoða ekki í þeim.  Sama var það við Kárahnjúka, ef það hefði brunnið eldur í göngum virkjunarinnar, þá voru stjórnendur mafíunnar ekki þar við vinnu.  

Þetta kallast viðunandi áhætta, þeir sem hirða gróðann, þeir telja sig örugga.

 

En lærðum við ekkert á hruninu 2008???

Af hverju er ennþá hlustað á siðlausa græðgi????

Er ekki nóg að berjast við þessa djöfla í ICEsave deilunni, þó þeir séu ekki líka látnir komast upp með að kveikja í okkur.

Siðað þjóðfélag hlustar á slökkviliðsstjórann, ekki framkvæmdastjóra Flugstoða.  

Við segjum Nei við ICEsave og Já við öryggi á flugvöllum.

Kveðja að austan.

 

 

 

 

 


mbl.is Hótar að loka Reykjavíkurflugvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Bara svo það sé á hreinu þá verða 2 slökkviliðsmenn úr slökkviliðinu á Keflavíkurflugvelli á vakt í Reykjavík, ekki einhverjir töskuberar.

Ekki er ég dyggast stuðningsmaður einkavæðingar. Hún á jú rétt á sér á sumum sviðum en heilbrigðis-, mennta-, löggæslu- og öryggismál ættu ávallt að vera á hendi hins opinbera.

Flugstoðir eru opinbert hlutafélag sem þarf að taka á sig sömu kröfur um sparnað og opinberar stofnanir. Það er allsstaðar verið að skera niður hjá hinu opinbera.

Fyrir u.þ.b. áratug var rekið sérstakt slökkvilið á Reykjavíkurflugvelli og þá hafði slökkvilið Reykjavíkur, nú Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins, skyldum að gegna varðandi flugslys. Þessar skyldur hafa ekkert breyst. Slökkviliðin eru hluti af öryggis- og björgunarþjónustu og geta því ekki skorast undan að sinna útköllum.

SHS tók yfir rekstur slökkviliðsins á vellinu og hafa verið þar að jafnaði 5 manns á vakt, þar af tveir á sjúkrabíl, sem mikið er að gera hjá, og er þeir því ekki slökkviliðsmenn á meðan.

Að sjálfsögðu vil ég hafa öryggið sem mest og best en ég held reyndar að þetta snúist miklu meira um peninga hjá slökkviliðsstjóranum heldur en öryggi.

Guðmundur (IP-tala skráð) 25.3.2010 kl. 15:31

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Guðmundur.

Slökkviliðsstjóri höfuðborgarsvæðisins veit hvað hann er að segja. 

Það er faglegur rógur að kenna umkvartanir hans við peningaást.

Orðið töskuberi er kalhæðni yfir þau orð forstjóra Flugstoða að vilja samnýta slökkviliðið til annarra starfa.   Slíkt hlýtur alltaf  að koma niður á viðbragi þess.

Ég veit að Flugstoðir eru opinbert félag, en sumt er ekki skorið niður.  Og hugmyndfræði Flugstoða er gegnsýrð af þeirri frjálshyggju sem hér eyðilagði allt.  Í fyllingu tímans átti að einkavæða félagið og þá gilda sömu lögmál hjá félaginu og hjá öðrum einkafyrirtækjum, hagur hluthafa er í forgang.

Gott og gilt sjónarmið, nema þegar hagnaðurinn næst með þjónustuskerðingu á öryggisþáttum.  Það er nefnilega þannig að sumt er ekki hægt að spara, þú velur hvort þú hafir efni á starfseminni eður ei, en þú sparar ekki í öryggismálum.  Annað hvort eru þau fullnægjandi eða ekki.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 25.3.2010 kl. 15:40

3 Smámynd: Evert S

flugstoðir þurfa að uppfylla ákveðnar lágmarkskröfur til að geta tekið við flugvélum og það eru flugstoðir að gera, þeir sem þar eru á vakt eiga að sinna fyrsta viðbragði þar til almenir björgunaraðilar koma á staðinn,

 Flugstoðir eru að uppfylla þær skyldur í dag og eiga ekki að sjá um að vinna vinnuna fyrir SHS

Evert S, 25.3.2010 kl. 16:06

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Og allir brunnir til ösku.

En kjarni málsins er sá, sem einkavinavæðingarsinnar skilja ekki, er að við okkar litla þjóðfélag, höfum ekki efni á að dreifa kröftum okkar.

Við þurfum öflugt slökkvilið sem getur sinn sínu hlutverki.  Það hlutverk er að slökkva elda á sem faglegasta máta, hvort sem það er í húsum, á víðavangi, í Hvalfjarðagöngum eða á Reykjavíkurflugvelli.  Það er heimskra manna ráð að dreifa kröftum.

Og það er heimskra manna ráð að láta viðskiptafræðinga móta öryggisstaðla eða útfæra kerfi sem virka.  Til þess eru fagmenn, og það er mýta að fagmenn þekki ekki til peninga.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 25.3.2010 kl. 17:30

5 Smámynd: Evert S

menn verða að átta sig á því að flugvellir eru að reka lágmarksþjónustu og eiga svo lögum samkvæmt að fá stuðning frá opinberga viðbragðskerfinu

Evert S, 25.3.2010 kl. 18:29

6 Smámynd: Ómar Geirsson

Þú telur sem sagt að Matthías þekki ekki til mála, og sé að bulla út í loftið.

En það er ekki kjarninn, þú sækir ekki vatn yfir lækinn ef brunnur er til staðar í túnfætinum.

Ekkert, ekkert réttlætir veikingu slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 25.3.2010 kl. 18:43

7 Smámynd: Benedikt V. Warén

"Sorglegasti hluti einkavinavæðingarinnar er sparnaður á kostnað öryggis." (Fyrirsögn ÓG)

Eitthvað er hér sem ekki stemmir hjá bloggara ÓG.  Eftirfarandi er úr lögum frá Alþingi, (sjá nánar http://www.althingi.is/altext/stjt/2009.153.html)
 

Lög um samruna opinberu hlutafélaganna Flugstoða og Keflavíkurflugvallar.

3. gr.Eignarhald og forræði á hlutafé.    

Hlutafé í félagi sem stofnað er skv. 1. gr. skal allt vera í eigu íslenska ríkisins og skal sala þess og önnur ráðstöfun óheimil.   Fjármálaráðherra skal fara með hlut ríkisins í félaginu.

Hvernig rímar "einkavinavæðing" við þriðju greinina?

Flugstoðir ohf fer í umboði ríkisins með og starfrækir flugvelli og flugleiðsöguþjónustu undir ströngu eftirliti Flugmálastjórnar Íslands.  Flugmálastjórn Íslands hefur eftirlit með að lögum frá Alþingi sé framfylgt og heimilar rekstur og/eða stöðvar eftir atvikum,  - ekki einhver slökkvistjóri SHS.

Rétt til umhugsunar.  Sömu flugvélar og nota Reykjavíkurflugvöll í innanlandsflugi, eru að fljúga á flugvellina á Egilsstöðum, Vestmannaeyjum og á Ísafirði, án þess að slökkvimenn hafi gert alvarlegar athugasemdir við þá ráðstöfun að þar séu ekki "löggiltir" slökkvimenn við störf. 

Þessir starfsmenn flugvalla eru þjálfaðir til slökkvi- og björgunarstarfa á flugvöllum af starfsmönnum Slökkviliðs Akureyrar. 

Er ekki eitthvað annað en fagleg sjónarmið sem hanga á spýtunni hjá þessum talsmanni SHS.

Benedikt V. Warén, 25.3.2010 kl. 18:53

8 Smámynd: Ómar Geirsson

Vá, mikill lestur hjá þér Benedikt.

En ég get svo sem sjálfum mér um kennt, að hafa ekki skrifað ítarlegan pistil um málið.  

Ég veit að Flugstoðir er fyrirtæki í eigu opinbera aðila.  En ferli einkavinavæðingarinnar byrjaði oftast þannig.  Reyndar var fyrst alltaf vegið af starfsemi þeirra fyrirtækja sem átti að einkavina, síðan var sett upp leikflétta með ohf með því fororði að ekki yrði meir  gert.  Næst kom tilkynning í Lögbirtingablaðinu að það væri búið að breyta lögum og þau tæk í sölu, og síðan selt.

Ferlið  tók mislangan tíma eftir  því hve andstaða starfsfólks og "viðskiptavina" var hörð.

Ef kreppan hefði sofið 3-5 ár í viðbót, þá hefðu flest ohf fyrirtækin verið komin í einkavinavæðingu.  Í dæmi Flugstoða þá hef ég lesið lærðar  frjálshyggjugreinar um  sambærilegan einkarekstur á nokkrum stöðum erlendis.  Það yrði fróðlegt ef  einhver stjórnmálafræðinemi myndi taka saman tímann frá birtingu svoleiðis "jarðvegsgreina" þar til að fyrirtækin eru einkavædd.  En þar sem ég  er eldri en tvævetra, þá hef ég séð þetta ferli svo oft áður, og lesið lítillega um vinnubrögðin í Bretlandi og í Skandinavíu, ferlið er mjög svipað, og fer eftir mjög einföldum reglum, líkt og til dæmis Kasína.

En ástæða þess að ég notaði orðið einkavinavæðing um þessi ohf fyrirtæki, er mjög einföld.  Flokkurinn kom alltaf mishæfum gæðingum sínum í stjórnunarstöður í þessum fyrirtækjum, oftast með slæmum eða mjög slæmum afleiðingum.  Og þar sem ég hef fullt ritfrelsi á þessari síðu, þá nota ég þau orð sem mér sýnist best hæfa þeim skilaboðum sem ég vil koma  á framfæri.

Kannski var ég bara að blogga um siðlausa verktaka á Kárahnjúkum, eða kannski var leikurinn gerður til að tengja við ICEsave, hver veit.

En þó ég noti misvafasamt orðafæri, þá leggst ég ekki svo lágt að bera það upp á fagmann gegnir lykilstarfi í öryggsimálum þjóðarinnar, að hann láti stjórnast af annarlegum sjónarmiðum.  Að halda slíku fram, án þess að rökstyðja er grafalvarlegur hlutur, og hjá mönnum eins og forstjóra Flugstoða þá krefst slík fullyrðing rannsóknar.

Ljóst er þá að annar hvor er ekki starfi sínu vaxinn og verði að víkja.

Og það er ekki fyndið.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 25.3.2010 kl. 20:00

9 Smámynd: Benedikt V. Warén

Já takk sömuleiðis Ómar, athyglisverð framsetning.  Skemmtilegt hvað þú ert góður að hræra öllu saman í nær óskiljanlegan graut.  Auðvitað hefur þú fullt frelsi til að koma þínum hugsunum í það form sem þér hentar, það getur verið jafn ruglingslegt þrátt fyrir það.    Talar um flugvöllinn í Reykjavík og Kárahnjúka í bland.  Þú verður að fyrirgefa ég skil ekki samsvörunina. 

Þú ættir hins vegar að velta því fyrir þér, hvort það hafi ekki eitthvað vægi í málflutningi Jóns Viðars Matthíassonar, að missa 110-120milljónir út út rekstri SHS. 
Það munar nú um minna. 

Þú ættir einnig að velta því fyir þér hvers vegna þessi sami Jón er ekki fyrir löngu búinn að beita sér fyrir því að stoppa allt flug á flugvellina í Vestmannaeyjum, Ísafirði og Egilsstöðum, ef það er svona brýnt að hafa "löggilta" slökkvimenn á vakt.  Það eru sömu flugvélarnar sem eru að nota þá flugvelli og í Reykjavík.  Er ekki eitthvað holur þessi málflutningur hjá slökkvistjóranum?

Gleymdu því ekki heldur að það eru slökkvimenn, þjálfaðir á Keflavíkurflugvelli, sem eru að ganga þessar vaktir í Reykjavík.

Kveðja úr efra...

Benedikt V. Warén, 26.3.2010 kl. 00:00

10 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Benedikt.

Takk fyrir hrósið, ég tel það minn aðal að geta hrært öllu saman eftir mínu nefi, og samt haldið athygli fólks.  Ekki þar fyrir utan að ég hef skoðun á þessu slökkviliðsmáli, en það var ekki verra að koma að gagnrýni á einkavinavæðingu, illvirkin við Kárahnjúka eða Nei við ICEsave, og láta fólk samt lesa.

Kárahnjúkar eru málinu algjörlega óviðkomandi, hef aðeins ekki getað fyrirgefið ómennunum þar manndrápið í upphafi framkvæmdanna.  En dæmið sem ég tók var til að benda á  að þeir sem setja staðla, sem ekki virka, það eru þeir sem ætla sér aldrei að eiga neitt undir því.  Þar sem ég sé  á myndinni af þér að þú ert venjulegur maður, þá mætti þú hafa það í huga að það eru ég og þú og við öll hin sem eru fórnarlömb þessa fósturvísa í jakkafötum, nýskriðna úr viðskiptaháskólum, sem allt þykjast vita betur en fagmenn.  Og vilja helst að öll  vinna sé unnin, án kostnaðar.

En þar sem ég hélt mig við efnisatriði málsins, þá hefur þú undirstungið það heldur betur og sannfært mig um að ég mat það rétt.

Þú segir að deilan snúist um pening, og nefnir upphæð.  Og það er kjarni málsins, það er vítavert að veikja slökkvilið höfuðborgarsvæðisins, þar sem 2/3 þjóðarinnar búa.  Og ekkert fóstur í jakkafötum á að komast upp með að reikna slíkt út.  Sé um faglega deilu, þá á ráðherra að hafa vit og manndóm til  að kalla  menn saman og hleypa þeim ekki út, fyrr en lausn er komin, og sú lausn er mönnun slökkviliðs Reykjavíkur, út frá öryggi og faglegum sjónarmiðum.

Dæmi þín um minni flugvelli svara sér sjálf, ég sá flugvöll við Vík í Mýrdal, síðast notaðan á síðustu öld, á að hafa slökkvilið þar?????  Ég veit um að Svisslendingar hafa sér slökkvilið í stóru jarðgöngunum, að gefnu tilefni, á að hafa slökkvilið í Oddskarðsgöngunum???

Ætli svarið helgist ekki að tíðni notkunar.  

Og þú veist það jafn vel og ég, annars gætir þú ekki rökstutt þitt mál á þann málefnalegan hátt sem þú annars gerðir.  Og þó ég fari út og suður í þessum pistli, þá er ég ekki bjáni sem þekki ekki muninn á Neskaupstað og London, eða flugvellinum í Vestmannaeyjum og Reykjavík.

Og ef þú skyldir lenda í því að það kikni í hjá þér, í bænum, þá munt þú þakka fyrir faglegt slökkvilið.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 26.3.2010 kl. 08:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.5.): 51
  • Sl. sólarhring: 671
  • Sl. viku: 5335
  • Frá upphafi: 1326881

Annað

  • Innlit í dag: 50
  • Innlit sl. viku: 4735
  • Gestir í dag: 50
  • IP-tölur í dag: 50

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband