5.3.2010 | 23:59
Fylgjum fordæmi Ólafs og kjósum á morgunn.
Á morgun hefst nýr dagur í sögu þessarar þjóðar.
Við fáum tækifæri að til að hafa áhrif á líf okkar og framtíð. Tækifæri til að sýna að okkur sé ekki sama um þau launráð sem höfðingjarnir brugga okkur í skúmaskotum leyndarinnar.
Hvort sem það er rétt að það standi í lögum að við eigum að borga ICEsave eður ei, þá skiptir það ekki máli. Frjálst fólk sættir sig ekki við slík ólög ef þau væru til. Þau væru þá þrælalög sem enginn frjáls maður myndi una.
Það eru ekki nema rúmlega öld síðan sem hluti fólks í Evrópu bjó við ánauð, bændaánauð. Á Íslandi voru vistarbönd sem heftu val fólks til búsetu. Og fólk hafði lítil áhrif á þær ákvarðanir sem vörðuðu líf þess og framtíð. Ætlast var til að það ynni og hlýddi.
Hlýddi höfðingjunum, hvaða nöfnum sem þeir annars nefndust. Þú þurftir að vera borgari, vel stæður maður til að hafa kosningarétt. Konur, þær elduðu og bjuggu um rúmin, og sinntu börnum og þvotti, og ætlast var til að þær hlýddu.
Það áttu allir að hlýða, en fáir áttu að ráða.
Þó var franska stjórnarbyltingin rúmlega aldargömul, en breytingarnar tóku svo langan tíma. Samt var heimurinn miklu lýðræðislegri en hann var á dögum einvaldskonunganna, og hann var að breytast, því hugmyndir lýðræðis og frelsis höfðu skotið rótum.
Og smán saman fékk fólk réttinn til að vera fólk, til að ráða sínum málum sjálft. Og það hafði val um líf sitt og gat menntast til allra þeirra starfa sem það hafði áhuga á.
Svo kom ICEsave. Tvö hundruð ára réttindabarátta hins venjulega manns hvarf á einni nóttu. Allt í einu var okkur sagt að hlýða, og við ættum að borga, og láta eigur okkar að hendi ef við hefðum ekki mátt til þess að borga. Rökin voru að höfðingjarnir hefðu safnað skuldum, en þeir vildu að við greiddum þær.
Hvað gerir venjulegur maður sem stendur allt í einu frammi fyrir svona tíðindum?????
Þökk sé Ólafi Ragnari Grímssyni, þá fáum við svar við því á morgun.
Og heimsbyggðin býður með öndina í hálsinum um hvert svar hins venjulega manns á Íslandi er. Því á fleiri stöðum er verið að rukka hinn venjulega mann fyrir skuldum höfðingjanna. En enginn haft kjark til að vefengja vald þeirra til að skipa málum á þann hátt að þeir safni auði, en almenningur borgi skuldir þeirra.
Því er stórt spurt á Íslandi laugardaginn 6 mars 2010. Kannski er verið að spyrja um framtíð sjálfrar mennskunnar, því ef fólk missir rétt sinn til að ráða málum sínum sjálft, þá gæti það sótt þann rétt aftur með valdi. Og enginn veit hvað kemur út úr því vopnaskaki á tímum þar sem einn rauður hnappur getur útrýmt lífi hér á jörðu.
Það er líka verið að spyrja um þá framtíð sem við ætlum börnum okkar, og hvað við viljum leggja á okkur til að tryggja að þau fái sömu möguleika til lífs og menntunar og við fengum. Þjóð sem notar tekjur sínar til að greiða burgeisum og auðmönnum skatt, notar ekki þann pening til að byggja upp skóla eða reka sjúkrahús, ekki nema þá hryggðarmynd þess sem var.
Þjóð sem ætlar að nota 60% af tekjum hins opinbera í vexti og afborganir, ætlar börnum sínum ekki mannsæmandi lífskjör. Hún ætlar þeim líf þrælsins í húsgarði höfðingjans.
Laugardaginn 6. mars 2010 ætlar þjóðin að svara því hvort hún sé sjálfstæð þjóð frjálsra manna. Ég veit hverjum ég greiði mitt atkvæði.
Ég greiði börnum mínum atkvæði, ég ætla þeim ekki að greiða skuldir höfðingjanna. Þó þeir hafi öll lög heimsins myndi ég frekar falla en að láta slíka kúgun og ofríki yfir mig ganga. Það gerðu áar okkar þegar þeir áunnu börnum sínum og afkomendum þeirra það frelsi og lýðréttindi sem ég hef í dag.
Ég er af sama blóði, af sama stofni. Ég er ekki minni maður en þeir.
Ég tel að sem maður hafi ég þennan rétt, rétt til að lifa lífi mínu sem manneskja. Og ég mun verja þann rétt.
Ég hef varið þann rétt með orðum mínum og hugsunum hér í Netheimum, ég hef reynt að orða það sem okkur finnst rétt vera og við vildum öll segja.
En núna líður að byrjun hins stóra dags og mínu hlutverki er lokið. Ég hef alltaf haft það fyrir reglu að stunda ekki áróður á kjördag. Það er réttur hvers og eins að greiða atkvæði eins og samviska hans bíður.
Þegar úrslitin eru kunn þá ætla ég að þakka fyrir mig og kveðja í bili. Mín tilfinning segir mér að þetta IcEsave blogg mitt hljóti farsælan enda og hafi því lokið hlutverki sínu.
Ég ætla að segja Nei við ICEsave, það er minn lýðræðislegi réttur.
Réttur sem er heilagur.
Kveðja að austan.
12.297 atkvæði skráð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.3.2010 kl. 00:06 | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 488
- Sl. sólarhring: 702
- Sl. viku: 6219
- Frá upphafi: 1399387
Annað
- Innlit í dag: 414
- Innlit sl. viku: 5269
- Gestir í dag: 381
- IP-tölur í dag: 376
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Frábær færsla, tek undir hvert orð og tek mér það leifi að setja þetta á Facebook síðuna hjá mér.
Takk
Þorsteinn Valur Baldvinsson, 6.3.2010 kl. 20:45
Takk fyrir Þorsteinn, og öllum er heimilt að nýta það sem þeir vilja úr þessu bloggi.
Og til hamingju með daginn.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 6.3.2010 kl. 22:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.