Enn einn brestur í lygahjúp ríkisstjórnarinnar.

Í lygahjúp háskólaprófessora ríkisstjórnarinnar.

Í lygahjúp verkalýðsleiðtoga ríkisstjórnarinnar.

Í lygahjúp atvinnurekenda ríkisstjórnarinnar.

 

Öll þessi hjörð hefur við öll hugsanleg tækifæri sagt að þjóðin verði að sætta sig við fjárkúganir breta og Hollendinga til að ávinna sér TRAUST.

Heimurinn sé byggður af blóðþyrstum verum sem telja að engin þjóð eigi traust skilið nema hún fórni velferð sinni og framtíð barna sinna.

Til  að vera treystandi.

 

Samt segja forsvarsmenn álfyrirtækjanna að þeir vilji fjárfesta á Íslandi.  Hér sé hagstætt rekstarumhverfi og ef nægileg orka fáist, þá standi ekki á þeim að reisa verksmiðjur.

Samt kemur hingað fólk sem segist vera tilbúið að reisa hér gagnver, ef nægjanleg orka fáist.  Og ef það sé gert á heiðarlegan hátt, þannig að þeir íslensku auðmenn sem eiga Samfylkinguna, njóti ekki óeðlilegrar fyrirgreiðslu.

Samt eru til menn sem eru tilbúnir að leggja fé í starfsemi Íslenskrar erfðagreiningu.  

Þessir  menn átta sig á að erfiðleikar Íslands er ekki einskorðað við landið.  Forsendur fjárfestingar þeirra lúta allt öðrum lögmálum.  Fjárfestar meta fjárfestingu eftir arðsemi og þeim forsendum sem eru til staðar í því umhverfi sem þeir fjárfesta í.

Það er kjarni málsins, ekki hvort landið hafi lent í einhverjum efnahagshremmingum. 

Og vandi þjóðarinnar felst í skipulagðri aðför stjórnvalda, sem eru að framkvæma Helstefnu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, að þessum forsendum.

1. Stjórnvöld hækka skatta á einstaklinga og fyrirtæki.

2. Stjórnvöld veitast af hinum menntaða vinnuafli sem hér býr með því að skera niður grunnþjónustu, með því að neita almenningi um réttlátar leiðréttingar á þeim hækkunum sem Hrunið hafði á skuldir þess.  Stjórnvöldum virðist fyrirmunað að skilja, að án velmenntaðs vinnuafls, þá fjárfestir enginn í vestrænu landi.  Þrælafjárfestarnir, þó þeir séu ástmögur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, þeir eru í fátækustu löndum heims þar sem almenningur nýtur engrar verndar gegn illsku þeirra og græðgi. 

Og þetta velmenntaða vinnuafl, það fer úr landi, ef ekki tekst að hrekja Leppstjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins úr landi, og Íslendingar taki sjálfir málin í sínar hendur.

3. Stjórnvöld drepa atvinnulífið í dróma með hávaxtastefnu sinni.  Vaxtastefnu sem hyglar spákaupmennum á kostnað atvinnulífsins.

 

Loks má geta að enginn fjárfestir í landi þar sem borgarstyrjöld er í uppsiglingu.  Og það er óhjákvæmilegt þegar stefna AGS fer að bíta af fullum þunga á næstu árum.  Von þjóðarinnar um framtíð felst í því að hinn venjulegi vinstri og félagshyggjumaður hætti að styðja hrægammana.

Og þjóðin sameinist um heilbrigða skynsemi og stjórnarstefnu sem hefur manngildi og samhjálp af leiðarljósi.

Önnur leið er ekki í boði ef þjóðin ætlar að vinna sig út úr þeim efnahagshamförum sem hún lenti í haustið 2008.

Því fyrr sem menn horfast í augun á hinu gjaldþrota kerfi, ábyrgð þess og þeim afleiðingum sem það hefur að endurreisa það í boði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins,  og taki sig því taki sem þarf að henda því á öskuhauga sögunnar, ásamt öllum hugsuðum þess og uppklöppurum, því fyrr hefst endurreisn þjóðarinnar.

Það er ekki eftir neinu að bíða.

Kveðja að austan.

 

 

 


mbl.is Ísland ekki brennimerkt segir áhættufjárfestir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Ómar, að undanförnu hef ég meir og meir hallast að þeirri skýringu að aðför Steingríms og félaga í VG að hagsmunum landsmanna, stafi af sérkennilegri heimssýn (Weltanschauung) þeirra. Þeir virðast líta á sig sem vinnumenn réttlætisins sem bornir eru til að hegna Íslendingum fyrir frjálshyggju, sem í augum þessara manna er glæpsamlegt viðhorf.

Þessir Xrossfarar hins alþjóðlega kommúnisma gera allt sem þeir geta til að koma efnahag landsins á vonarvöl - hindra fjárfestingar, samþykkja Icesave-klafann og ráðast gegn öllum sem dirfast að benda á lagalegar forsendur málsins.

Steingrímur á sér bandamenn erlendis, eins og kom í ljós þegar Kristin Halvorsen hin Norska sendi Íslendingum fúlar kveðjur í beinni útsendingu. Það er athyglisvert að alvöru græningjar leggja okkur lið, eins og Alain Lipietz. Vinstri Grænir eru engir græningjar, heldur hreinræktaðir kommúnistar sem að vanda nota þau dularklæði sem henta hverju sinni.

Loftur Altice Þorsteinsson, 15.2.2010 kl. 14:37

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Loftur.

Ekki hef ég á móti því að kommar séu skammaðir út í eitt.  Las ungur bókina "Ég kaus frelsið" eftir Viktor Kravchenko og hef aldrei kunnað vel við þann söfnuð síðan. 

En þar sem ég veit Loftur að þú varst á landsfundi Sjálfstæðisflokksins (og skammaðir ICEsave sinna) í janúar, þá komst þú ekki hjá því að hlusta á ræður forystumanna flokks þíns um nauðsyn skatthækkana, niðurskurðar á ríkisútgjöldum, að borga ICEsave til að öðlast trúverðugleika, nauðsyn hárra vaxta og hvað sem allar fyrirskipanir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hétu sem þið voruð búnir að lofa að framkvæma, það er þegar þið voruð í stjórn.  Ég fylgist þokkalega með, og ég man ekki eftir því að þungavigtarmenn í Sjálfstæðisflokknum hafi tekið undir skoðun Davíðs Oddssonar um skaðsemi sjóðsins fyrir íslenskt efnahagslíf.

Og svo ég haldi áfram upprifjunum þá á ég viðtal við Þorstein Pálsson úr Morgunblaðinu þar sem hann hrósar staðfestu Steingríms J. við að framkvæma, ekki stefnu VG, heldur stefnu sem hann sagði að væri sú stefna sem Sjálfstæðisflokkurinn ætti að hafa.

Loftur, það er enginn púki í mér að rifja þetta upp.  Kommana má skamma út í eitt mín vegna, en þeir eru dauðir og langt síðan útförin fór fram.  Skrímslið sem við erum að glíma við heitir Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og ef fólk vill lifa áfram í þessu landi, þá er tími til kominn að fólk horfist í augun á því, og hreki úr landi.  Enda hefur jafnvel núverandi formaður ykkar imprað á að þeir mættu alveg fara, sérstaklega ef menn vildu endurreisa efnahagslífið (þetta síðasta er kannski mín túlkun á orðum Bjarna, hann rökstuddi þessa skoðun en orðaði hana ekki).

Og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn villtist af leið á níunda áratugnum, hann greip sótt Nýfrjálshyggjunnar, höfuðandstæðing klassískrar íhaldsstefnu og kristilegs siðgæðis.  Bara svo ég minni á rætur ykkar Sjálfstæðismanna, því sama sótt greip flokk þinn.  Og þið eruð ennþá það sýkt að þið munið ekki eftir ykkar sanna uppruna.

Ef þið náið að rifja hann upp, þá hef ég ekki áhyggjur af framtíð Íslands.  En Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn þyrfti þá að finna sér ný fórnarlömb.  

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 15.2.2010 kl. 18:06

3 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Sæll Ómar.

 

Þú hefur ekki tekið rétt eftir varðandi stefnu Sjálfstæðisflokksins. Það hefur verið stefna flokksins að hækka EKKI skatta og lækka vexti, til að atvinnulífið kæmist á skrið. Til að afnema halla ríkissjóðs vill Sjálfstæðisflokkurinn minnka útgjöld ríkisins og ég sjálfur vildi lækka hærri laun hjá ríkisstarfsmönnum um 25%.

 

Nær allir Sjálfstæðismenn sem ég þekki, hafa frá upphafi viljað hafna Icesave-klafanum. Það sem menn voru að reyna fyrst eftir hrunið, var skipulagt undanhald fyrir atlögu nýlenduveldanna. Vinsamlega ekki að tala um Þorstein Pásson í sama orðinu og Sjálfstæðisflokkinn. Hann hefur ekki átt þar heima lengi og engar horfur eru á að honum yrði vel tekið, ef hann gengi aftur.

 

Kommarnir eru ekki dauðir, heldur sprell lifandi. Ég þekki vel hugarheim þeirra og veit hvar þeir eru í dag. Þair halda um alla tauma í Icesave-stjórninni. AGS villtist af leið upp úr 1970, þegar Bretton Woods fyrirkomulagið var lagt af og hnattvæðingin í peningamálum hófst. Þá tók Chicago hagfræði-skólinn völdin og torgreinda peningastefnan, sem peningaöflin nefna sjálfstæða peningastefnu. Hnattvæðingin er ekkert nema nútíma form á nýlendustefnunni.

 

Rætur Sjálfstæðismanna liggja víða og eru ekki eins augljósar og þú vilt meina. Sjálfstæði einstaklinga og fullveldi þjóðar eru megin drættir í stefnu flokksins og allir sem fylgja þeim markmiðum eru velkomnir. Hins vegar vitum við báðir að valdið spillir og það hafa Sjálfstæðismenn viðurkennt og skilið líklega betur en aðrir Íslendingar.

 

Kveðjur að sunnan.

Loftur Altice Þorsteinsson, 15.2.2010 kl. 19:00

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Loftur.

Þegar ég las þitt góða innslag, þá brosti ég út á eyru.  Upp í huga mér kom umræða sem Ragnar Arndals, þáverandi fjármálaráðherra átti í sjónvarpssal við fyrrverandi fjármálaráðherra, Matta Matt.  Ég gleymi aldrei skemilssvipnum á Ragnari þegar hann var búinn að hlusta á skammir Matta um skattagleði hans, og Ragnar svaraði því til að Matta færist, vissulega hefði hann hækkað hina og þessa skatta, en Matti hefði fundið þá upp.  "Ég hefði til dæmis aldrei haft hugmyndaflug til að finna upp á gúmmígjaldinu" sagði Ragnar.  Og ég get svarið að Matthías hló líka.  Allavega í minningunni.

En við þurfum ekki að ræða hverjir eru hugmyndafræðingar núverandi stefnu ríkisstjórnarinnar.  Það er Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn.  Í tillögum hans felst krafa um að halli ríkissjóðs sé 0 stilltur á 4 árum (er það ekki?) og þeir gera ekki ágreining um hvort leið skattahækkana eða niðurskurðar sé farinn, þó ég eigi viðtal við landstjórann þar sem hann telji líklegast að blönduð leið verði notuð.  Skattar voru hækkaðir í fjárlagafrumvarpinu 2009, og frekari skattahækkanir boðaðar.  Ég man það eins og gerst hefði í gær þegar Bjarni Ben sagði í Kastljósi að Sjálfstæðisflokkurinn vildi blandaða leið, en meiri áherslu á niðurskurð.

Um þetta er ekki hægt að gera ágreining Loftur, þetta er bara svona.  En ég er hins vegar andvígur skattahækkunum við núverandi aðstæður, þó það megi skoða hugmyndir Ragnars Önundarsonar um "bóluskatt".  Og ég hef formað tillögur um launlækkun ríkisstarfsmanna, reyndar ekki eins kræfur á 25%, vil það aðeins á tekjur yfir 500 þús (að mig minnir), en annars taldi ég þeir félagar Jón og Gylfi hefðu komið með skýrustu sýnina á lausn efnahagsmálanna.  En þær tillögur gengu þvert gegn tillögum AGS.

Og þú veist það jafn vel og ég að flokkur þinn hækkaði vextina eftir samkomulagið við AGS, gegn vilja Davíðs Oddssonar.

Enn og aftur Loftur, heimskan er komin frá AGS, enda tillögur þeirra þrautreyndar til að mistakast.  Og þú veist það jafn vel og ég að andstaða Davíðs var í minnihluta í þínum flokki.

Því miður,  því minnihlutinn hafði rétt fyrir sér.

Hvað ICEsave varðar, þá er það gott að þú þekkir marga IcEsave andstæðinga.  Það mat þitt í byrjun árs 2009 gaf mér til dæmis von um breytingar á stefnu flokksins í ICEsave deilunni.  En forystan hékk utan í AGS eins og kusk á flibba, og mjög fáir höfðu þann kjark sem þú hafðir að tala opinberlega gegn stefnu flokksins.  Til dæmis var ég að líta á úrklippu úr Morgunblaðinu þar sem þú skrifaðir gegn ICEsave í des 2008.  En mig rekur ekki minni til að aðrir flokksbundnir Sjálfstæðismenn hafi gert það á þeim tíma.

Loftur, kommarnir eru dauðir.  Þau ríkisafskipti sem við upplifum, hafa einkennt flest efnahagskerfi frá örófi alda í eiginlega öllum menningarheimum.  Og nútíma skrifræði  Vesturlanda kemur annars vegar frá Svíum, sem urðu að hafa sterk tök til að fjármagna her sinn á stórveldatíma 16.-18 aldar, og hins vegar frá Friðriki mikla Prússakeisara, sem líka þurfti að fæða stóran her.  Og skilvirk stjórnsýsla var aðal Frakka á einveldistímum Loðvíkanna, og hún hélt landinu saman eftir byltinguna 1789.  Einnig má minna á umbætur Péturs mikla og svo framvegis.  Kjarni þess sem ég er að benda á er sá að ríkisafskipti og skrifræði var forsenda sterkra hervelda, hinir með lausari tök féllu fyrir þeim sterku, örlög Póllands er besta dæmið um það.

En kommarnir eru dauðir, þó kratarnir lifi ágætis lífi.

Ég er mikið sammála þér um nútíma form nýlendustefnunnar og deili með þér andúðinni á Chicago skólann.  Fordæmi þó hugmyndafræðina sem að baki býr ennþá meir, tel hana helstefnu.

Og jú rætur Sjálfstæðisflokksins eru mjög augljósar, þjóðlegt íhald atvinnurekenda og embættismanna sem með sjálfstæðisstefnu sinni og rótum í kristilegri íhaldsmennsku (mjög sterk samsvörun við breska og þýska íhaldsmenn) náðu mjög breiðri skírskotun meðal þjóðarinnar.  Þið íhaldsmenn virðist alltaf gleyma því að jafnaðarmenn fundu ekki upp á velferðarkerfinu, höfundur þess er þýski íhaldsmaðurinn Ottó Bismarck.  Og enginn flokkur þarf að skammast sín fyrir þá Bjarna og Ólaf.  Segi ég sem er ekki íhaldsmaður.  Og þú orðar hlutina ákafleg vel líka, og ert að lýsa sömu hlutum og ég, þó orðin séu ekki alveg þau sömu.

Og vald spillir, og ekki bara það, ennþá hefur ekki fundist samfélag manna sem spilling þrífst ekki í.  Heiðarlegt uppgjör er öllum hollt, ekki bara sjálfstæðismönnum.

Og ég stend við það að siðfræði nýfrjálshyggjunnar er vond, og á ekki djúpar rætur í Sjálfstæðisflokknum.  Og það kemur frelsi eða hömlum á einstaklinginn ekkert við.  Þætti það líklegt að 99 af hverju hundraði þætti það betra að vera frjálsir frekar en ófrjálsir.  Og hömlur á frelsi einstaklinga voru settar af fyrsta höfðingjanum sem setti lög, síðan eru allavega 5.000 ár síðan.  Og Marx ekki fæddur.

Og ég stend við það að þið íhaldsmenn leggið margt gott í púkkið þegar þjóðin sameinast um að reka AGS úr landi, neitar IcEsave, og einhendir sér í að byggja upp Nýtt Ísland.  Raunar miklu meira en þig grunar ef ræturnar verða ræktaðar.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 15.2.2010 kl. 22:51

5 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Það er erfitt fyrir mig að gera ágreining við þig Ómar, því að við höfum svo svipaðar skoðanir. Það sem stendur útaf er minniháttar. Við erum þó ekki sammála um hvort kommúnisminn sé dauður. Við erum ekki heldur sammála um málflutning Bjarna Benediktssonar og andstöðu hans og Sjálfstæðisflokksins við skattahækkanir. Hér er kafli úr ræðu Bjarna á Eldhúsdegi 07.apríl 2009:

 

Fleiri kunnuglegar hugmyndir eru þegar byrjaðar að koma fram sem gefa smjörþefinn af því hvernig þessir flokkar hyggjast standa vörð um heimilin í landinu eftir kosningar. Frambjóðandi Vinstri grænna lagði á dögunum á það áherslu að taka bæri upp eignarskatt að nýju, eignarskattinn sem var réttnefndur ekkna-skattur og Sjálfstæðisflokkurinn nam úr gildi enda er hann fyrst og fremst skattur á ævisparnað eldra fólks. Það er sem sagt ekki nóg að hlutabréfin hafi hrunið og lífeyrissjóðirnir tapað stórfé, steinsteypan skal tekin af fólkinu líka. Þetta er glæsileg framtíðarsýn. Þess má reyndar geta að formanni Vinstri grænna þótti ekki sérlega skynsamlegt af frambjóðanda sínum að kynna þessa hugmynd til sögunnar rétt fyrir kosningar.

 

Við sjálfstæðismenn höfum allt aðra sýn á það hvernig standa beri vörð um heimilin í landinu. Engir skattar eru á dagskrá hjá Sjálfstæðisflokknum og við höfnum framkomnum hugmyndum um nýja skatta á heimilin. Staðreyndin er nefnilega sú að við munum ekki skattleggja okkur út úr þessum vanda.

 

Með vænstu kveðjum.

Loftur Altice Þorsteinsson, 16.2.2010 kl. 00:10

6 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Loftur, það er ekki til betri leið til að þróa og prófa sínar skoðanir en að takast á um þær.  Þess vegna við sjálfan sig ef ekkert annað býðst.

Ég er sammála þeim forsendum sem Bjarni gefur sér um fáráð skattahækkana við núverandi aðstæður.  Tel reyndar að stjórnmálamenn hafi þá skyldu að hafa skatta eins háa og hægt er, en í þeirri skyldu felst að þeir hækki þá ekki þegar ljóst er að skattahækkun dregur úr heildarskatttekjum vegna skaða á tekjugrunni, bæði vegna hættu á samdrætti, sem og að greiðsluvilji fólks minnki, og hluti af hagkerfinu verði svartur.

En við erum ekki að ræða um stjórnarandstöðu Sjálfstæðisflokksins.  Við erum að ræða um hvað flokkurinn sagði og gerði á meðan hann var í ríkisstjórn.  Ef ég man rétt þá tóku forystumenn flokksins ekki undir hugmyndirnar á skattlagningu lífeyrissjóðaeitthvað fyrr en þeir voru komnir í þá stöðu að geta ekki framkvæmt þær hugmyndir.  Enda eru þessar hugmyndir ekki skynsamlegar.  Jafnvægið á að fást með aðlögun, ekki skattahækkunum.  Þær gera aðeins vont verra.

En við erum ekki að ræða mínar skoðanir á skattamálum.  Heldur þær staðreyndir að í fjárlagafrumvarpinu 2009 eru skattahækkanir, og frekari skattahækkanir boðaðar í frumvarpinu 2010.  Og sú hugmyndafræði niðurskurðar sem fylgt er í dag, var mótuð af fyrri ríkisstjórn.  Hafi Sjálfstæðisflokkurinn ætlað sér i dramatískari niðurskurð (þá er ég að tala um kerfisbreytingar) þá kynnti hann ekki þær hugmyndir.  Og úrklippusafn mitt frá haustinu 2008 og byrjun árs 2009 er mjög ítarlegt.  Auk þess að ég hef ágætt minni á hvað sagt var í sjónvarpsviðtölum.

Og af hverju er ég að þessu tuði Loftur.  Mér er slétt sama þó þú hafi þínar skoðanir á sossum og kommum.  Við höfum öll okkar skoðanir, annars værum við ekki vitsmunaverur.  En við getum ekki kallað höfuðmusteri hins alþjóðlega kapítalisma verkfæri kommúnista.  Fyrir utan öfugmælin, þá sigrum við ekki andstæðing okkar með því að kalla hann öðrum nöfnum en hann er.  Vandinn sem við erum að glíma við í dag, er ekki afleiðing Hrunsins.  Vandinn er sá  að samstarfið við AGS meinar þjóðinni að gera það sem hún þarf að gera til að ná sér upp úr skítnum.  Í því samstarfi er fólgin nauðsamningarnir við breta og Hollendinga, heimskulegar vaxtahækkanir ofan á gjaldeyrishöft.  Neitun á aðstoð við heimili landsins sem muna aldrei taka á sig launaskerðingar ef ekki er tekin til baka aukning skulda þeirra vegna gengishrunsins 2008.  Og ekki hvað síst að risaskammtímalán eru tekin til að fjármagna útgreiðslu krónubréfa á yfirgengi.  Jú, og ég gleymdi líka að minnast á of hraða aðlögun að jafnvægi ríkisfjármála, gerir ekkert annað en að auka vandann.

Og Loftur, þetta er ekki neitt venjulegt ástand, þetta eru hamfarir, ígildi stríðsástands.  Þá hafa menn ekki efni á kritum milli flokka, heldur þurfa að standa saman, sameinaðir, gegn hinum raunverulega óvini.

Og hann heitir ekki Stalín.  Stalín er dauður.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 16.2.2010 kl. 09:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 127
  • Sl. sólarhring: 335
  • Sl. viku: 5618
  • Frá upphafi: 1327442

Annað

  • Innlit í dag: 110
  • Innlit sl. viku: 5015
  • Gestir í dag: 106
  • IP-tölur í dag: 106

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband