12.2.2010 | 10:09
Rannsökum líka hinar meintu lygar á Íslandi.
Sannleikurinn um atburðarrásina í aðdraganda bankahrunsins þarf að koma í ljós.
Hver sagði hvað, hvenær og hvar.
Og hvaða heimild viðkomandi maður hafði fyrir orðum sínum.
Það vita það til dæmis allir að þó rússneska mafían hefði undirskrifað skjal frá fjármálaráðherra að hún mætti opna hér útibú, þá væri það ekki gilt því enginn ráðherra hefur vald til að sveigja lögin með undirskrift sinni.
Í því ljósi verður að skoða þær fullyrðingar að íslensk stjórnvöld stæðu á bak við bankakerfi sitt. Ef einhver trúir þeim, þá er það hans mál, en enginn stjórnmálamáður hefur vald til að ráðstafa skatttekjum þjóðar sinnar um ókomin ár með einhverju orðum eða yfirlýsingum.
Og enginn stjórnmálamaður getur sagt íslenska ríkið ábyrgjast einhvern tryggingasjóð umfram sína getu. En hann getur lýst yfir vilja til þess að gera það sem hann getur til þess. Á þessu tvennu er reginmunur.
Yfirlýsing íslenska viðskiptaráðherrans verður að skoðast í ljósi þeirra aðstæðna sem voru uppi í september 2008. Þá höfðu menn miklar áhyggjur af fjármálakerfinu, jafnt á Íslandi sem annars staðar. Og allsstaðar voru ráðamenn að gefa út yfirlýsingar til að róa hvern annan, róa almenning og viðhalda trúna á fjármálakerfið. Engin trúði þeim vísbendingum sem bentu til allsherjar hruns.
Þegar Björgvin G Sigurðsson sendir frá sér sína yfirlýsingu, þá er það í þeirri góðri trú að vandinn sé viðráðanlegur, að hægt verði að vernda trúverðugleika íslenska bankakerfisins.
En þær vonir gengu ekki eftir, bankakerfið féll. Og þar með brettust allar forsendur íslensku ríkisstjórnarinnar til að standa við fyrri yfirlýsingar.
Þetta kallast raunveruleiki, og það hengir enginn þjóð sem glímir við afleiðinga fjármálahamfara, með þeim rökum að ráðamenn hennar hafi sagt eitthvað, í góðri trú, áður en hörmungarnar gengu yfir. Og við megum aldrei gleyma þætti breskra stjórnvalda í að taka íslenska bankakerfið af lífi.
Bretarnir sáu um aftökuna, ollu ómældum skaða á eignum Landsbankans, og krefja síðan Íslendinga um skaðann sem þeir ollu. Ef fólk, ekki hryðjuverkamenn, hefði stýrt þroti Landsbankans, þá hefðu eignir bankans dugað fyrir öllum innistæðum. Þá væri engin ICEsave deila.
Þetta mættu þeir Íslendingar sem taka alltaf undir málstað fjárkúgara okkar hafa í huga.
Orð Björgvins G. Sigurðarsonar skuldbinda ekki íslensku þjóðina í ICEsave deilunni. Þau voru gefin við aðrar aðstæður, á öðrum tíma, þó nokkrir dagar hefðu aðeins liðið, þá var raunveruleikinn allt annar í okt 2008 en í september sama ár. Þetta er öllu hugsandi fólki ljóst.
Segjum til dæmis ef hollensk stjórnvöld hefðu lofað stjórnvöldum á Haiti að þau myndu leggja til sinn neyðarbúnað til að aðstoða þarlenda í uppbyggingunni sinni. En svo viku seinna hefði hamfaraflóðið mikla skollið á ströndum Hollands og þriðjungur landsins farið á kaf. Hvert hefði neyðarbúnaðurinn þá farið?? Yfir Atlantshafið á fjarlægar slóðir svo hægt væri að standa við fyrri yfirlýsingar, sem nota bene voru gefnar út áður en hamfarir urðu í eigin landi???? Hver sem aðstoðin hefði verið til Haiti, þá hefði hún alltaf verið táknræn, meginþörfin var við sitt eigið fólk.
Sama gerðist á Íslandi eins og í þessu tilbúna dæmi mínu. Það urðu hér hamfarir í byrjun okt 2008, og eftir það höfðu íslensk stjórnvöld enga burði til að koma íbúum annarra landa til hjálpar, þó þeir höfðu orðið fyrir tjóni í sömu hamförum. Þeir urðu að treysta á sín eigin stjórnvöld þar sem þeir voru skattgreiðendur og þegnar viðkomandi lands.
Björgvin G. Sigurðsson og ríkisstjórn Íslands reyndi samt að koma þeim innstæðueigendum til hjálpar sem urðu fyrir tjóni við hrun íslensku bankanna. Og reyndi þar með að standa við sínar fyrri yfirlýsingar eftir því sem getan leyfði. Og gleymum því aldrei að það gerir enginn meira en hann getur.
Íslensku neyðarlögin tóku á vanda innlánseiganda bankanna með því að gefa kröfum þeirra forgang á aðrar kröfur. Og ef bretar hefðu ekki hagað sér eins og hryðjuverkasvín, þá hefði þessi forgangur dugað til að flestir hefðu fengið innlán sín til baka.
Þetta vill alltaf gleymast í umræðunni þegar við erum sí og æ að skíta niður fyrri ríkisstjórn, að hún reyndi þó það sem hún gat til að bjarga því sem bjargað varð eftir bankahrunið mikla. Það má rífast um getuna, og það má rífast um ráðin, en hún reyndi.
Og þessi forgangur hin almenna innstæðueiganda á aðra kröfuhafa er skýring þess skítburðar sem á þjóðinni hefur dunið í íslenskum fjölmiðlum. Vegna þess að þegar Jón fékk peninga sína, þá var gengið á rétt Séra Jóns. og hann á fjölmiðlanna.
Þetta skýrir svik íslenskra fjölmiðlamanna við þjóð sína í ICEsave deilunni. Þeirra húsbændur er ekki þjóðin.
Þess vegna er Björgvin rægður, þess vegna er Ingibjörg Sólrún rægð. Þess vegna er Eva Joly rægð. Þess vegna fær fulltrúi ríkra Hollendinga alltaf að koma fram í Silfri Egils og handrukka íslensku þjóðina með lygum og blekkingum. Þess vegna hefur Jón Kaldal aldrei skrifað eitt einasta satt orð í ICEsave deilunni. Ekki nema þá óvart. Og þess vegna ..........
Og aðeins heiðarleg opin rannsókn mun afhjúpa allan þann blekkingarvef sem auðmenn létu Leppa sína vefa um sannleikann í ICEsave deilunni, því þeir vildu að þjóðin borgaði skuldir þeirra. Það er endurfjármögnun á þeirra eigin skuldum sem er í hættu ef við móðgum hið alþjóðlega auðmagn með því að standa á rétti þjóðarinnar í ICEsave deilunni.
En þeirra plott mun ekki ganga upp. Þó þeir eigi sálir fjölmiðlafólks þá eiga þeir ekki lengur þjóðina.
Tími auðmanna er liðinn.
Kveðja að austan.
Rannsaka ásakanir um lygar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:36 | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 520
- Sl. sólarhring: 675
- Sl. viku: 6251
- Frá upphafi: 1399419
Annað
- Innlit í dag: 442
- Innlit sl. viku: 5297
- Gestir í dag: 406
- IP-tölur í dag: 399
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Rökfastur og snjall pistill hjá þér, Ómar, sannarlega vel rökstuddur.
(Ætli Jón Ásgeir verði ekki kallaður séra Jón Ágeir eftir þetta? Ég hafði tekið þá meðvituðu ákvörðun nýlega að tala jafnan um Fréttablað Jóns Ásgeirs og sé nú, að ég verð strax að endurskoða þá ákvörðun!)
Jón Valur Jensson, 12.2.2010 kl. 10:36
Blessaður Jón Valur.
Vissulega hafði Jón Ásgeir í huga þegar ég skýrði auðmenn Séra Jón. En hinsvegar er ég almennt að tala um þessa menn sem keyptu Ísland, og íslenska fjölmiðla, íslenska álitsgjafa og íslenska hagfræðinga, án þess að leggja út krónu.
Um þetta má lesa í stórsnjöllum pistli Marínós sem heitir Tikk, takk.
Og um fáráð ICEsave skuldbindingar í samanburði við Versalasamninginn má líka lesa í nýjasta pistli Friðriks Hansen.
Ég vildi reyna að kæfa þá umræðu, að margföld Versalaskuldbinding yrði lögð á þjóðina vegna tilvísana i orð og yfirlýsingar ráðamanna í aðdraganda hrunsins. Um þau orð má lesa hjá Magnúsi bretavina í næsta bloggi fyrir ofan mitt við þessa frétt.
Ég veit að auðmiðlarnir reyna að fá fólk til að trúa lyginni, og þeir setji svona yfirlýsingar í rangt samhengi. Þannig séð þá voru þessar yfirlýsingar eðlilegar miðað við þá stefnu stjórnvalda að trúa að allt myndi þetta einhvern veginn reddast, og þau voru reyndar ekki ein um þá skoðun, hún var hin viðtekna skoðun hjá vestrænum ráðamönnum. En þegar hrun, af þeirri stærðargráðu sem varð haustið 2008, á sér stað í fjármálakerfi einnar þjóðar, þá er ljóst að svona yfirlýsingar hafa ekkert vægi.
Og það skilja allir þeir nema sem hafa hagsmuni af öðru.
Á því vildi ég líka vekja athygli.
Og þú vaktir heldur betur athygli á tengslum ICEsave álitsgjafanna við hugmyndafræði Hrunsins, í pistli þínum í morgun. Ef þú bætir við Snötunum á Moggablogginu, og Þórólfi og Þorvaldi, þá ertu kominn með ICEsave gengi Íslands. Stuðningsmenn auðmenna sem styðja þá fram yfir gröf og dauða, það er gröf þjóðar sinnar.
Ef við setjum alla þessa pistla í samhengi Jón Valur, þá er ljóst hvað er verið að gera okkur og af hverju. Og hverjir eru á launum við að styðja hið meinta þjóðarmorð, því ef allt hefði farið á verri veginn, þá var ICEsave samningurinn endalok þessarar þjóðar.
Slík örlög vil ég ekki, og þess vegna tek ég upp hanskann fyrir fyrri ríkisstjórn, þó ég hafi talist í hópi andstæðinga þeirra flokka sem hana skipuðu. Og mér var meira að segja mjög illa við hugmyndafræði hennar, þó vissulega hafa einnig margt gott verið gert, og margt gott var í pípunum eins og leiðrétting á kjörum öryrkja svo dæmi sé nefnt. Þetta fólk vildi vel, en kerfið var rangt, og raunveruleikinn sannaði þá skoðun mína og margra annarra.
En eftir Hrun, þá reyndi þetta fólk sitt besta við mjög erfiðar aðstæður. Ég hefði vissulega viljað meiri hörku gegn bretum, og virkjað Nató og Sameinuðu þjóðirnar til þess, og ég hefði frekar borðað fjallagrös í öll mál en að fá Alþjóðagjaldeyrissjóðinn til landsins. En það er ekki málið, hvað ég eða aðrir vildu, lýðræðið er til þess að afla skoðunum sínum fylgis.
En það er glæpur gegn þjóðinni að rangtúlka og skrumskæla bretum í hag það sem stjórnvöld töldu réttast að gera, þeirra var ábyrgðin og kvöðin að gera eitthvað.
Því mega menn aldrei gleyma.
Við þurfum að standa saman um réttlætið og réttláta málsmeðferð í ICEsave deilunni. Okkar mál gerum við upp seinna eftir leikreglum réttarríkisins. Vonandi samt til að læra af, ekki til að hefna.
En bretar eiga ekki krónu inni hjá okkur, en þeir skulda okkur stórfé vegna glæpa sinna.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 12.2.2010 kl. 11:53
Gefum okkur að það sé rétt að þetta vitstola fólk sem sinnti engum viðvörunum en gerði umbúðalaust grín að þeim sem létu í ljósi efasemdir; gefum okkur að það sé undir niðri hið vandaðasta fólk, sem ég vil trúa. Hroki þess á þeim tíma þegar sagt var að þekktur háskólaprófessor ætti nú að fara heim og lesa fræðin sín betur sýnist mér reyndar vera stjórnsýsluglöp og eigi að dæma viðkomandi til refsingar fyrir.
Þá er okkur auðvitað skylt að benda jafnframt á það að sá hópur sem á sínum tíma andmælti en tók síðan að sér að taka ásamt öðrum hrunflokknum þátt í vinnunni við að endurreisa og leiða þjóðina til baka út úr ógöngunum sé hið mesta óþverrahyski sem einlægt situr á svikráðum við okkur og gengur grímulaust erinda hinna erlendu kúgara úr öllum áttum. Við verðum ekki endilega alltaf að vera sanngjarnari en okkar pólitísksu trú hentar.
Eða hvað?
Það er nefnilega þessi pólitíski sljóleiki sem finnur einlægt afsakanir fyrir þá sem brugðust skyldum sínum við þjóðina- umbjóðendur sína sem í dag ber ábyrgð umfram aðra; umfram Breta, Hollendinga, ESB. IMF og allt það djöfuls móverk með tölu, á siðblindu og ábyrgðarlausri stjórnsýslu þessarar þjóðar.
Ég hef ekki stöðu til að bjóða mig fram sem fyrirmynd í leit að hinum eina, rétta sannleika,-og þó. Ég bendi á að hér á þessum vettvangi má finna ályktanir mínar um pólitíska vinnu stjórnsýslunnar. Þar sýni ég öllu stjórnmálapakkinu sömu lítilsvirðingu. Ég helli mér af sama þunga yfir pólitíska vanburði vinstri- jafnt sem hægri manna og bið engan afsökunar. Hinsvegar bið ég sjálfan mig ævinlega afsökunar ef mér verður það á að láta velvild til einhverra stjórnmálamanna skekkja dómgreind mína. Það gerist ekki oft sem betur fer.
Árni Gunnarsson, 12.2.2010 kl. 17:33
Blessaður Árni.
Vissulega villir velvild þér sýn eins og öðrum, en þú reynir þó alltaf að vera samkvæmur sjálfum þér. En hinn vandinn er stærri, þegar við látum óvildina út í menn eða flokka spilla dómgreind okkar og veikjum þar með varnir þjóðarinnar. Það eru jú við, ég og þú og allir hinir sem sitja í súpunni, ekki þau sem gambla með tilveru okkar og framtíð.
Persónulega finnst mér mín staða oft vera fyndin, það er aðeins eitt sem fær mig til að sjá rauða litinn rauðari, en ICEsave, og það er blessuð Nýfrjálshyggjan. Og núna er svo komið fyrir mér að eftir núverandi yfirvofandi svik íhaldsins og framsóknar, að þá er félagf rjálshyggjupilta í Reykjavík, einu stjórnmálasamtökin sem standa þétt með þjóðinni í þessu máli.
Eiginlega væri þetta drepfyndið ef málið væri ekki svona sárgrætilegt.
En núna er Ögurstundin Árni, eins og ég heft oft bent þér á áður. Núna þurfum við, ég og þú, og við öll hin, að gera það upp við okkur hvort við viljum mannsæmandi framtíð fyrir börn okkar og barnabörn, og barnabarnabörn, og barnabarnabarnabörn, eða hvort við viljum láta gamla kerfið festa ennþá meiri skít í sessi.
Ef við viljum framtíð þá er tvennt sem þurfum að átta okkur á.
Kerfið er siðblindur andskoti ættað úr ranni Tregðunnar sem á svo auðvelt með að eyða því sem manneskjan hefur byggt upp með svita sínum og erfiði. Það er kerfið sem við þurfum að fella, ekki fólkið sem vinnur eftir því. Það er fórnarlömb, og allra mestu fórnarlömbin eru auðmennirnir okkar sem standa uppi sem ærulaus viðrini, jafnvel án sálar.
Verri örlög eru ekki til, maður óskar ekki neinum slíkra örlaga, sama hvað menn annars hafa orðið á í lífi sínu.
Og þetta kerfið þurfum við að fella Árni, því við höfum tækifæri til þess án blóðsútláta, en ef ekki þá mun blóð barna okkar renna. Því sjálft Helið er samofið þessari siðblindu og græðgi sem engu eirir.
Það seinna sem við megum ekki gleyma er að fella óvini og ógnvalda nútíðar, þeirra sem ógna framtíðinni, ekki þá sem þegar hafa nýtt sitt tækifæri til óskunda. Um þá gildir lærdómur Meistarans frá Nazaret, ef þeir iðrast og koma heim í föðurhúsin, þá slátrum við whiskíflösku og bjóðum þá velkomna í baráttuna. Nú ef þeir vaða áfram í sinni villu, einhversstaðar án þess að valda öðrum skaða, þá þeir um það, en það er hollt að upplýsa þá um skjól föðurhúsa mennskunnar og vonarinnar um betri tíð. En þeirra er valið, það stækkar enginn á því að sparka í liggjandi menn, það er nóg til að uppréttum andskotum sem þarf að fella.
Einnig er hollt að hafa í huga að það var vissulega rétt hjá manninum sem sá stökk Vilhjálms Einarssonar á hvíta tjaldinu og hafði það að orði að tæknin hefði mátt vera betri. Vandinn var sá að Vilhjálmur keppti, ekki hann.
Svo megum við ekki gleyma því að við lifum í ófullkomnum heimi og maðurinn er breyskur, en vill vel. Og ég tel það meiri speki að meta viljann, en fordæma breyskleikann. Um þessa speki orti Steinn sitt stórgóða kvæði um Jón Kadet. Brennivínið getur verið djöfull, og kerfið var siðspillt, og hugmyndafræðilega mjög heimskulegt, en þeir sem neyta, og þeir sem voru dansarar í Hrunadansinum, þeir eru ekki endilega slæmir. Þetta er alltaf spurning um orsök og afleiðingu, og síðan þann vilja sem rekur menn áfram.
Já, innst inni voru flestir dansararnir "hið vandaðasta fólk" og í því liggur von okkar um nýtt kerfi, um lífvænlegan heim.
En þeir sem höggva mann og annan, þeir jú ....., bara höggva mann og annan.
Þeir breyta ekki neinu Árni minn.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 12.2.2010 kl. 22:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.