25.1.2010 | 10:22
Þarft framtak góðra manna.
Almenningur þarf upplýsingar.
Almenningur fær ekki upplýsingar úr sínum eigin fjölmiðli, ríkisútvarpinu.
Ríkisútvarpið lýtur stjórn spunakokka Samfylkingarinnar, og þar er unnið út frá aðferðarfræði áróðurstækninnar, ekki aðferðarfræði hlutlausrar fréttamiðlunar.
Jón Steinar Ragnarsson kvikmyndagerðarmaður átti mjög góðan pistil um vinnubrögð spunakokkana í síðustu viku, og ég hef fengið leyfi hans til að birta hluta hans. Þörf lesning fyrir alla þá sem vilja ekki að börn þeirra alist upp í þriðja heims ríki skulda og fátæktar
"Á íslensku heita þetta Almanatengsl og eru mörg öflug fyrirtæki að störfum í þessum iðnaði, sem oft er kallaður ímyndariðnaður, eða upplýsingaiðnaður. Markmið þessa iðnaðar er ekki endilega að koma réttum upplýsingum til fólks, heldur miðar hann að því að móta almenningsálit og skoðanir eftir pöntun hagsmunaaðila, með óljósum sálfræðilegum tengingum og slagorðum.
Allir stjórnmálaflokkar á Íslandi hafa slík fyrirtæki á sínum snærum og sennilega beitir enginn þeirra þessu eins augljóslega og Samfylkingin. Þeirra menn fylla sæti álitsgjafa og skrifa greinar í blöð, t.d. til að vinna IceSavesamningum fylgi. Þar er látið hjá liggja að halda á lofti rétti okkar og lögfræðilegum vafaatriðum, heldur er höfðað til heiðarleika fólks með að hamra á skyldum okkar og óútskýrðu skuldbindingum gagnvart öðrum þjóðum, mannorði okkar hjá alþjóðasamfélaginu og hættu á einangrun og útskúfun. Ekkert af þessu er þó rökstutt frekar. Við höfum þennan djúpstæða ótta við höfnun og öll viljum við vera álitin heiðarleg.
Á þessa strengi er spilað af mikilli list. Meira að segja er ríkistjórnin með almannatengslafyrirtæki í vinnu í Bretlandi og Hollandi, til að vinna þessu sjónarhorni fylgis og gæta þess að hingað berist sömu möntrur að utan og ríkistjórnin viðhefur hér heima.
Aldrei er mikilvægra en nú að menn sjái í gegnum slíkan moðreyk og taki allt sem í fjölmiðlum birtist með gagnrýnu hugarfari. Sér í lagi orð og áherslur, sem endurteknar eru í sífellu án frekari skýringa á hvað að baki liggur. Aldrei mikilvægara að fólk taki mið af sinni innbyggðu réttlætiskennd og krefjist skýringa."
Frétt ríkisútvarpsins frá því í gær um hina hugsanlegu sátt milli stjórnmálaflokkana er dæmi um þessi vinnubrögð.
"Stjórnarliðar sem fréttastofa ræddi við meta stöðuna þannig að þverpólitíska yfirlýsingu þurfi um að Ísland standi við lágmarkstrygginguna, ríflega 20 þúsund evrur á hvern reikning. Fyrr væri ekki grundvöllur fyrir nýjum samningum. "
Gleymum aldrei hvað Alain Lipietz, einn af reglusmiðum ESB, sagði i viðtali við Egil Helgason.
"Í tilskipun 94 er skýrt að tryggingasjóður innstæðueigenda er einkarekinn sjóður."
Hvaða hagsmuna hefur Alain Lipietz að halda þessu fram??? Aðra en þá að hann er siðaður maður sem segir það sem hann best veit. Og það er vandfundinn maður sem veit betur, því hann er einn af mönnunum á "bak við reglugerðartjöldin".
Hvernig bregst ríkisútvarpið allra landsmanna við þessum staðreyndum úr innsta hring. Að það sé verið að krefja landsmenn um 507milljarða á ólöglegum forsendum??? Vinnur fréttaskýringaþátt?? Tekur frekari viðtöl við fræðimenn??? Tekur fram vafann þegar viljugir borgunarsinnar úr hópi stjórnmálamanna fullyrða að kröfur breta séu lögmætar???
Eða það birtir svona frétt "að Ísland standi við lágmarkstrygginguna".
Þessi fullyrðing er spiluð aftur og aftur án rökstuðnings. Allt gert til að telja heiðarlegu grandvöru fólki, sem hefur vanist á að treysta hlutleysi ríkisútvarpsins, í trú um að það sé skuldbundið til að fórna framtíð barna sinna.
Eins og einhver maður, þó ráðmaður sé, hafi þann rétt. Að börnin séu réttlaus en stjórnmálamenn alvaldir.
Aumari í mannfyrirlitningu og siðblindu getur áróðurinn ekki verið og aðeins ærulaust fólk tekur þátt í þessum hráskinsleik.
Þess vegna er svo mikilvægt ef þjóðin ætlar að halda sjálfstæði sínu og reisn, að til séu menn sem vilja fórna tíma sínum og fé í að upplýsa þjóð sína um staðreyndir þessarar alvarlegustu aðfarar villimennsku græðgi og illsku á hendur nokkurri þjóð, allt frá því að Hitler braut undir sig Tékkóslóvakíu með sömu aðferðafræðinni.
Enda sækja spunakokkar Samfylkingarinnar í þann brunn sem þar var grafinn í áróðurstækni villimanna og siðblindingja.
En á meðan gott fólk dregur andann, þá eiga þeir ekki sviðið.
Mannkynið á alltaf von gegn villimennskunni.
Kveðja að austan.
Indefence á leið í fundaherferð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (18.1.): 7
- Sl. sólarhring: 64
- Sl. viku: 2647
- Frá upphafi: 1412705
Annað
- Innlit í dag: 3
- Innlit sl. viku: 2311
- Gestir í dag: 3
- IP-tölur í dag: 3
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Algjörlega sammála því að almenningur þurfi upplýsingar, aldrei meir en nú þegar þjóðkosninginn nálgast og trúlega þess vegna sem In defence er að búa sig undir fundaherferð.
Sammála því líka að Indefence hópurinn hefur sýnt mikið framtak og unnið málstað sínum mikið fylgi.Ég veit ekki hvernig hópurinn kostar starfsemi sína en séu þeir fjárhagslega óháðir hagsmunahópum eða stjórnmálaflokkum hafa þeir greinilega unnið kraftaverk í almannatengslum.
Mér finnst miður að vefsíða þeirra skuli ekki gefa aðgengilegri upplýsingar um hvaða efnahagslegu afleiðingar það kynni að hafa ef frumvarpið tengt Icesavesamningnum við Breta og Hollendinga sem þjóðkosningin er um verður ekki samþykkt í þjóðkosningunni. Mér finnst líka upplýsingar um álit Indefence hópsins á hugsanlegum dómsúrskurði í Icesavedeilunni ekki beint aðgengilegar á vefsíðunni þeirra.
Kannski er Indefence fyrst og fremst mótmælahreyfing gegn núverandi samningum og breytingartillögum Alþingis á þeim . Kannski er til of mikils ætlast að þeir leggi áherslur á hvaða kosti og galla aðrar leiðir til að leysa Icesavedeiluna gætu haft í för með sér?
Agla (IP-tala skráð) 25.1.2010 kl. 11:42
Blessuð Agla.
Ég þekki ekki til heimasíðu þeirra, en ég hef lesið nokkur blogg hjá aðilum þeim tengdum þar sem sýnt er fram á með skýrum hætti hvað þetta eru ókleyfar skuldbindingar.
Og í umræðunni vill svo það alltaf gleymast, að þessar risaupphæðir koma ofan á allan þann vanda sem fyrir er, enda þarf þjóð í neyð aðstoð, ekki aðkomu þrælakaupmanna sem vilja selja landslýð.
En Indefence menn eru ekki fullkomnir frekar en aðrir menn. Þeir reyna sitt besta. Og vissulega má gera betur, enda hindrar það enginn að svo sé gert.
En takk fyrir fróðlegt innslag sem er þörf lesning þeim sem vilja hindra lögleysu ríkisstjórnarinnar.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 25.1.2010 kl. 17:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.