19.1.2010 | 22:30
Hver ber ábyrgðina á ICEsave????
Þráinn Bertelsson kannast ekki við sína ábyrgð á samningi sem leggur 507 milljarða skuldaklafa á þjóð hans hið minnsta. Gæti farið yfir 1.000 milljarða ef illa fer.
Sá þekkti blaðamaður Bronwen Maddox hjá Times í London segir að um hina ólöglegu ICEsave kröfu breta að hún jafngildi því að
"breska ríkinu yrði gert að greiða erlendum sparifjáreigendum 720 milljarða punda, krafa sem sé óhugsandi. Bresk stjórnvöld myndu berjast af öllu afli gegn slíkri kröfu svo ekki sé minnst á fyrirsjáanlega hörð viðbrögð bresks almennings"
En á Íslandi er þingmaður, sem lét kjósa sig til launa út á loforð um að berjast gegn slíkum ógnum, að krefjast þess að þingmenn stjórnarandstöðunnar hætti að berjast af afli gegn hinu óhugsandi og samþykki það, kannski með smá leiðréttingu, þó því aðeins ef hið erlenda kúgunarvald samþykki slíkt.
Þingmanninum, sem vantaði laun, hann segir að það sé vegna þessa að þingmenn stjórnarandstöðuflokkanna beri ábyrgð á ICEsave.
Gott og vel.
Þessi þjóðsaga gengur logandi um íslenskt þjóðfélag að Framsókn og Sjálfstæðisflokkurinn beri á ábyrgð á ICEsave og eigi því að þegja.
En fyrir utan þá staðreynd að þá væri fyrir löngu búið að samþykkja Svavars samninginn hinn fyrsta þar sem íslensk stjórnvöld samþykktu bein landráð um að skuldbinda komandi stjórnvöld um að sækja ekki rétt þjóðarinnar fyrir réttbærum Evrópskum dómstólum, þá er einn hængur á þessari goðsögn.
Goðsagnir er sagnir af ætt ævintýra, ekki raunveruleika.
Framsóknarflokkurinn ber ekki ábyrgð á ICEsave, kannski Sjálfstæðiflokkurinn ef hann er hengdur fyrir að styðja EES samninginn á sínum tíma, en það er langsótt.
ICESave óskapnaðurinn er gotinn af græðgi og siðblindu þeirra sem vildu eiga allt fyrir annarra manna fé, en sá getnaður var bein afleiðing af Evrópsku regluverki. Evrópsku regluverki sem íslensk stjórnvöld höfðu aldrei neitt um að segja, en gengust undir við undirskrift EES samningsins.
Ef bankar uppfylltu þau skilyrði sem regluverkið setti, þá máttu þeir starfa hvar sem þeir vildu, á hvern þann hátt sem þeir kusu. Ef ríkisvaldið fetti fingur út í það þá varð það um leið skaðabótaskylt, refsað með sektum af hálfu Evrópska reglueftirlitsstofnana og síðan skuldbundið að aflétta hindrunum sínum.
Ef Ísland vildi banna ICEsave, þá þurfti Ísland að segja sig úr EES.
En þegar staðreyndir fella goðsagnir þá er gripið til hugarflugs EF-staðhæfinga.
Þessir flokka einkavæddu bankanna og bera því alla ábyrgð á ICEsave.
Og þetta er hundalógík.
Ríkisbankakerfi var liðið undir lok í hinum vestræna heimi árið 2004 þegar íslensku bankarnir voru einkavæddir. Einkavæðingin var kall tímans og þó einn stjórnmálaflokkur hafi staðið gegn asanum, þá lagði hann til að einum banka væri haldið eftir, ekki að hætt væri við alla einkavæðingu. Svona var nútíminn, svona var kerfið sem var unnið eftir, og ríkiskerfi var orðið andstætt prinsippum hins innra markaðar.
Það var bara tímaspursmál hvenær bankarnir voru einkavæddir, og tilviljun ein hvaða flokkar gerðu það. Á þessum tíma var engin krafa um hið gagnstæða, að horfið yrði til miðstýrðs efnahagskerfis ríkisafskipta.
Aðeins blindur maður afneitar þessum staðreyndum. Og þá stafar sú blinda af heift út í flokka eða menn, og kemur ekkert köldu mati á staðreyndum við.
En sá sem þykist ekki vera blindur, en vill samt halda í sök hinna gömlu valdaflokka, hann hengir þá hálmstrá sitt á hina meintu helmingaskiptareglu tvíflokksins. Jú, vissulega má færa rök fyrir því að aðilar nátengdir stjórninni hafi fengið að kaupa bankanna. En vildu menn erlent eignarhald á þeim?? Eða hvað innlent annað kom til greina????
Og hver segir að annað eignarhald hefði ekki líka fengið þá frábæru gróðahugmynd að kaupa útlönd fyrir erlent lánsfé?? Það voru allir að gera díla allsstaðar, í öllum löndum. Enda vandfundið land þar sem bankarnir fóru ekki með allt til andskotans.
Og það má ekki gleyma annarri staðreynd, ICEsave var hugafóstur Sigurjóns bankastjóra, ekki eiganda bankans. Og Sigurjón var í vinnu hjá öðrum banka þegar hann var keyptur yfir. Hver segir að sá banki hafi ekki líka fengið þá hugmynd???
EF- er aldrei rök í máli, en EF getur skapað goðsagnir.
Einu staðreyndirnar sem hægt er að henda reiður á að gallað kerfi, hannað fyrir stórfyrirtæki og braskara, fæddi af sér ICEsave. Það er ofsalega auðvelt að kenna goðsögnum um en aflétta ábyrgð á kerfinu.
En það býr mikil illska þar á bak við þannig að hver mafíósi, sem selur líffæri úr fólki eða stundar mannsal, yrði mjög stoltur af. Vegna þess að trúin á goðsagnir, ekki staðreyndir og lög, er að koma 507 milljarða skuldbindingu, hið minnsta, á þjóð okkar.
Sú skuldbinding á eftir að drepa fólk, bæði beint og óbeint. Og þetta fólk er samborgarar okkar, ekki fólk á fjarlægum stöðum, sem kannski fram að þessu hefur verið helstu fórnarlömb þess illskukerfis sem kemur skuld höfðingja á saklausan almenning.
En á Íslandi eru það ekki auðmennirnir og verkfæri þeirra sem hafa afl til að leggja þessar drápsklyfjar á þjóð sína.
Nei, illvirkjanir eru þeir sem trúa á goðsagnir.
Og þeir eiga ekki að komast upp með að kenna öðrum um.
Kveðja að austan.
Flokkarnir hætti að rífast um Icesave | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 28.3.2011 kl. 11:12 | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (18.1.): 7
- Sl. sólarhring: 69
- Sl. viku: 2647
- Frá upphafi: 1412705
Annað
- Innlit í dag: 3
- Innlit sl. viku: 2311
- Gestir í dag: 3
- IP-tölur í dag: 3
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Þakka þér kröftugan pistilinn, Ómar.
Má ég bæta því við, að meðvirkni flokkaverjandi vinstri manna með athæfi Steingríms og Jóhönnu leggur þunga siðferðisábyrgð á það fólk, því að í slíku umhverfi þrífast einmitt þjóðarsvik þessara tveggja foringa.
Anglófílan lekur af þessu fólki, umfram allt í Samfylkingunni og kannski ekki að undra, enda eru bæði utanríkisráðherrann og þingflokksformaður þess flokks skráðir limir í Verkamannaflokki Browns og Darlings!
Öðruvísi mér áður brá, gætu Vinstri grænir ex Alþýðubandalagið ex Sameiningarflokkur alþýðu – Sósíalistaflokkurinn – ex Kommúnistaflokkur Íslands sagt og vitnað í leiðtoga sinn Einar Olgeirsson, sem ekki aðeins var einstaklega elskur að félaga Stalín (sbr. Viðskiptablaðið fimmtud. 14. jan. 2010, s. 20: 'Til á prenti: Landsfaðirinn'), heldur balanceraði það með því að hata brezka heimsvaldastefnu út af lífinu. Já, öðruvísi mér áður brá, gæti margur gamalkomminn sagt.
Jón Valur Jensson, 19.1.2010 kl. 23:35
Ekki ætla ég að draga úr hörmulegu framferði núverandi valdhafa en einhverstaðar heyrði ég að Valgerður Sverrisdóttir (framsóknarmaður) hefði heimilað Icesave í upphafi, þá viðskiptaráðherra. Henni var í lófa lagið að hafna því að Landsbankinn fengi að opna útibú í Bretlandi og fyrir því voru mörg góð rök. Það var hinsvegar erfitt að stöðva opnun fleiri útibúa þegar boltinn var farið að rúlla.
Ég er þeirrar skoðunnar að forysta fjórflokksins beri ábyrgð á þessari skömm gagnvart íslensku þjóðinni (ekki Bretum og Hollendingum vegna þess að það var þeirra að gæta að hagsmunum í sínum löndum) og samtryggingin er augljós.
Það er full nauðsyn að varast skammtímaminnisleysis á viðsjárverðum tímum
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 20.1.2010 kl. 02:42
Blessuð Jakobína.
Okkar bloggkynni hófust ef ég man rétt þegar við ræddum "to be or not to be" varðandi þessa ákvörðun Valgerðar. Og ef ég man það rétt þá skaust þú að mér link á bloggsíðu þínu svo ég gæti betur kynnt mér þau rök og sjónarmið sem þú gengir út frá. Eftir það hefur sá linkur verið sá sem ég hef mest klikkað á í gegnum tíðina, og í mínum bloggfríum, stundum sá eini sem ég las.
Við þekkjum því bærilega þankagang hvors annars. Og við erum bæði sammála um að við megum aldrei sem foreldrar vera verri uppalendur en dýr frumskógarins, svo ég vitni í aðra grundvallargrein ICEsave Andstöðu minnar.
Ég er ekki að gera lítið úr gagnrýni á fjórflokkinn, og hina meintu spillingu sem henni fylgir. Munurinn á mér og kannski mjög mörgum öðrum úr Andstöðunni er sá að mér hættir til að sjá rautt. Og það hef ég tvisvar gert á minni æfi.
Það seinna var daginn sem bretar réðust að þjóð okkar á neyðarstundu og ætluðu að krossfesta hana fyrir gjörðir höfðingjanna. Í mínum huga er baráttan gegn ICEsave hluti af hinni eilífri baráttu hins venjulega manns fyrir tilveru sinni, og sú tilvera byggist á rétti hans til lífs, mannsæmandi lífs útfrá þeim gæðum sem er til skipta í samfélagi hans á hverjum tíma. Og ekkert mannsæmandi líf er án réttar til réttlætis, sanngirni og þess að þurfa ekki að taka ofan fyrir öðru fólki.
Og þessi réttur er þess verðugur að fyrir honum sé barist, og á neyðartímum að allt sé lagt í sölurnar til að verja hann. Í götuvirkjum Parísar voru hlið við hlið góðborgarar, snobbaðir stúdentar, erfiðismenn, vændiskonur, melludólgar, vasaþjófar, rónar og illa lyktandi táfýlupúkar. Og þessi mislita hjörð varði rétt sinn, án þess að spyrja hver mannaði vígin.
Fyrra skiptið sem ég sá rautt var eftir viðskipti mín við litlu ljótu klíkuna sem seinna var uppistaðan í því valdabatterí banka og stjórnkerfis sem olli bankahruninu. Mér bar gæfa til að snúa minni rauðglóðandi heift frá einstaklingum yfir í kerfið sem þeir unnu fyrir, kerfið sem seinna meir mótaði það samfélag sem fór með þjóð okkur í Helreið sem virðist í dag stefna til Heljar. En fórnarlömb þessa kerfis er ekki bara íslenska þjóðin, það hefur haldið heimsbyggðinni í heljargreipum síðustu áratugi, er langt komið með að gera hana gjaldþrota, og er forsenda þeirra átakalína sem í dag mun enda með þriðju heimsstyrjöldinni, hörmungum sem gætu kostað mannkynið milljarða auk sjálfra siðmenningarinnar, ef ekkert er að gert.
Það er ef enginn sér ástæðu til að lyfta vopnum og berjast gegn því.
Og þetta kerfi græðgi og siðblindu er kennt við Nýfrjálshyggjuna, hvort sem það er fullkomlega sanngjarnt eður ei að klína baráttu góðs og ills við þá lítt skilgreindu hagfræði og stjórnmálastefnu.
En ég er í þessu stríði, það er bara þannig. Menn velja sér sínar vindmyllur og slást við þær ef getan dugar ekki til stærri stríðsátaka.
Mínar vindmyllur er að fá fólk til að skilja stærra samhengi hlutanna. Þess vegna ræðst ég stundum á goðsagnir og ef ég held þessu bloggi áfram, þá mun ég sveigja það í átt að vindmylluslag við helið sem er óhjákvæmilegt ef enginn fæst að fylkja liði gegn því.
Það sem ég er að reyna opna augu fólks fyrir er að það sem gerðist á Íslandi, gerðist líka um gjörvallan heim. Okkar borgaralegi kapítalismi sagði skilið við siðalögmál sín og gekk taumlausri græðgi og siðblindu á hönd. Það sem gerðist síðan var óhjákvæmileg afleiðing þess. Þetta er ekki spurning um flokka eða einstaklinga. Hugmyndafræðilega vorum við komin inn á brautir sem leiða aðeins á eina endastöð, Tómið.
Svo ég fókusa mig meira inn í þá atburðarrás sem við erum að ræða, þá er ljóst að Valgerður Sverrisdóttir varð að skrifa undir ICEsave leyfið. Vissulega gat hún þumbast við, en regluverkið krafðist þess að henni að hún gerði það, og regluverkið brást hart við ef því var ekki hlýtt. Gott dæmi um þau viðbrögð er ósigur breta og gífurlegar skaðabætur sem breska ríkið þurfti að greiða vegna þess að það þumbaðist við að hlýða regluverkinu um sameiginlega sjávarútvegsstefnu.
Það eru ekki rök í málinu að vitna í augljós sannindi dagsins í dag um afleiðingar ICEsave. Þær voru ekki þekktar 2006. Og það þurfti meiri bóg en Valgerði til að taka slaginn gegn regluverkinu og tíðarandanum, og sá bógur þurfti öflugan stuðning að baki sér. Slíkt var ekki til staðar 2006, andstaða græðgi og nýfrjálshyggju var sundruð og meira upptekinn við ræða skeggtísku keisarans en að bregðast við yfirtöku auðmanna á íslensku samfélagi.
Og þessi atburðarrás er liðin, allir með heilbrigða dómgreind sjá að eitthvað mikið var að. En við endurtökum ekki ákvörðunarferlið, við hindrum ekki ICEsave lög Valgerðar í dag. En við getum hindrað afleiðingar þeirra. Þær afleiðingar þeirra að íslenskt samfélag sé selt hæstbjóðanda úr röðum ameríska vogunarsjóða og annarra skrímsla sem Nýfrjálshyggjan lætur éta samfélög fólks.
Þetta er baráttan Jakobína og þú veist það jafnvel og ég. Annars hefðir þú ekki skrifað allar þínar frábæru greinar. Mitt framlag er að benda á forsendur baráttunnar, hvað þarf að gera til að leggja skrímslið að velli.
Það þarf að þekkja óvininn, fylkja liði gegn honum, og fella hann. Til þess þarf ný vinnubrögð, nýja hugsun, nýja hugljómun um eitthvað sem er þess virði að berjast fyrir og eitthvað nýtt og betra bíði við enda regnboga sigursins.
Andstaðan þekkir óvininn en vinnubrögð hennar eru svo frumstæð að hún eflir hann ef eitthvað er og óhjákvæmilega afleiðing af taktleysi hennar er hinn endalegi sigur Nýfrjálshyggjunnar sem kenndur er við endurreisn hagkerfisins undir leiðsögn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
Og það er glæpur Jakobína að láta það gerast. Glæpur gagnvart farmtíðinni, gagnvart börnum okkar. Við erum þá aumari en dýr frumskógarins.
Ég er ekki eigandi neins sannleika, sannleikurinn er eitthvað sem við öll komum að, sem við öll formum með orðum okkar, og reynum þannig að gera sýnilegri og huglægari, en sannleikurinn er alltaf við enda regnbogans, þú getur nálgast hann en þú nærð honum ekki.
En frumstaðreyndir eru eitthvað sem allir þurfa að átta sig á ef þeir vilja leggja skrímsli græðgi og tortímingar af velli. Ég hef reynt að forma nokkrar með orðum og viðurkenni fúslega að aðrir geti orðað þær mun betur. En mér finnst standa dálítið á þessum öðrum. Þess vegna sit ég til dæmis núna fyrir framan tölvuna þó ég sé kvalinn í baki og ætti að vera gera allt annað. En að forma þessar hugsanir sem ég stíla á þig, er líka tæki til að gefa þeim líf, láta þær fljóta inn i umræðuna, sem vonandi næst að formast í öfluga baráttu gegn heli Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
En við töpum baráttunni ef við áttum okkur ekki á vonlausum aðferðum, þó ég sé enginn eigandi af einhverjum töfralausnum, þá veit ég þó þetta.
1. Þú nærð ekki árangri með því að gera 35-40% þjóðarinnar að glæpamönnum. Og bætir síðan við hin 15-20% sem kusu Framsóknarflokkinn, og síðan hin 20-30% þjóðarinnar sem kaus Samfylkinguna. Vissulega fór eitthvað úrskeiðis, það þarf að ræða, en fólki er stillt upp við vegg, þá slær það frá sér. Og á meðan er enginn að verjast innrásarsveitum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
2. Þú gerir ekki upp heilt kerfi þar sem allflestir voru innvinklaðir á einn eða annan hátt með aðferðum dómsstóla og þeirra refsiúrræða sem þeir bjóða upp á. Ástæðan er augljós, þú hefur ekki styrk til þess, eini árangurinn er nokkrir fallnir sökudólgar á meðan hið siðspillta kerfi nær vopnum sínum á ný og herðir tök sín á þjóðfélaginu. Slíkt er að gerast á Íslandi í dag.
Þetta vissi Nelson Mandela, enda hafði hann nægan tíma til íhugunar í fangavist sinni. Hann þróaði leið sátta og sannleiks sem kom í veg fyrir ólýsanlegar hörmungar þjóðar hans. Það er kannski til betri leið en þessi, en hún hefur ekki ennþá verið formuð með orðum. Hvað þá framkvæmd.
3. Við megum ekki láta goðsagnir villa okkur sýn í baráttunni fyrir betri heimi. Endalaust þras um hverjum er hvað og hverjum er hvurs, leiðir ekki til neins nema sundrungar. Stundum þarf að manna vígin með illa lyktandi táfýlupúkum, og ef framtíð barna okkar er í húfi, þá er ekkert val. Það er alltaf hægt að hita baðvatnið seinna.
Ef vandinn blasir við öllum, óvinurinn þekktur, þá þarf að móta baráttuaðferðir sem virka. Og þá er lykilatriðið ný vinnubrögð og hugljómun um eitthvað betra. Og síðan einbeittur vilji til að sigra, með öllum þeim mistökum og krókaleiðum sem fylgir því að vera maður.
En baráttan snýst um að fá að vera áfram ófullkominn maður og vera í þeim sporum sem fimm ára sonur minn hótar mér alltaf með þegar ég er að angra hann með einhverju sem hann upplifir ósanngjarnt eða algjör vitleysa (þó ég telji það tilraun til aga og uppeldis). "Pabbi, vilt þú ekki sjá afabörn þín þegar ég er orðinn stór".
Og það er kjarni þinnar greinar Jakobína, og það kjarni míns vindmylluslags. Ég vil sjá barnabörn mín þegar ég er orðinn gamall. Þó ég sé ófullkominn manneskja, þá hefur enginn rétt til að svipta mig því.
Tortíming þess sem ég kalla Nýfrjálshyggjunnar mun örugglega gera það.
Þess vegna spái ég ekki í táfýlunni af næsta manni, ég hleð byssur mínar og verst hinum raunverulega óvini.
Það er sá sem ógnar framtíð minni.
Stríð fortíðar eru að baki.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 20.1.2010 kl. 11:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.