10.1.2010 | 20:48
Röng vörn er verri en engin vörn.
Hvað skuldbindingar stóðu íslensk stjórnvöld ekki við???
Veit liðsmaður Indefence að íslenskur fjármálamarkaður var undir ströngu eftirliti eins og aðrir evrópskir fjármálamarkaðir???
Hvaða ábendingar OECD hundsuðu íslensk stjórnvöld???
Hvaða ábendingar frá alþjóðlegum matsfyrirtækum voru hundsaðar????
Hvaða kvartanir komu frá ESA um slælegt eftirlit íslenskra stjórnvalda????
Ef Magnús getur ekki komið með rökstudd dæmi, þá ætti hann að biðja þjóð sína afsökunar að ljúga upp á hana sekt í erlendum fjölmiðlum.
Íslensk stjórnvöld fóru í einu og öllu eftir því regluverki sem fjármálamörkuðum voru sett á Evrópska efnahagssvæðinu. Þau álagspróf sem fjármálaeftirlitið gerði voru ekki íslensk uppfinning, þau komu að utan. Og enginn, ég endurtek enginn gerði athugasemdir við þau.
Halda menn að bankarnir hefðu fengið hátt í 13.000 milljarða af láni, ef eftirlit hér á landi hafi verið í ólestri. Fólk ætti aðeins að staldra við og íhuga orð sín áður en það kýs sér hlutverk píslavottarins.
Kerfið brást, það er rétt hjá Magnúsi. Og það kerfi brást um allan heim.
Eina sérstaða Íslands var stærð bankakerfisins miðað við stærð baklandsins.
En engar reglur og lög voru um stærð bankakerfa í hlutfalli af þjóðarframleiðslu. Ef íslensk stjórnvöld hefðu gripið til aðgerða, þá hefðu þau fyrst þurft að segja landið úr EES samstarfinu. Regluverk þar hindraði slík afskipti.
Og hver vildi úr EES.
Kveðja að austan.
Skammast sín fyrir bankana | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 266
- Sl. sólarhring: 838
- Sl. viku: 5997
- Frá upphafi: 1399165
Annað
- Innlit í dag: 225
- Innlit sl. viku: 5080
- Gestir í dag: 217
- IP-tölur í dag: 214
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Frábærir punktar og allir sannir og réttir. Takk fyrir þetta og vonandi lesa sem flestir. Gaman væri að sjá einhvern myndast við að svara þessu, en mig grunar að menn láti sem þeir séu uppteknir við annað.
Jón Steinar Ragnarsson, 10.1.2010 kl. 21:08
Let me guess.....sjálfstæðismaður, Davíðs armurinn.....vannst í banka eða í starfi nátengdu bankastarfsemi?.....
Jón Kristjánsson (IP-tala skráð) 10.1.2010 kl. 21:08
Það segir sin nú nokkuð sjálft að Fjármálaeftilitið brást illa í þessu máli. Það hefur heimildir til að fara í hvaða banka sem er og skoða þar öll skjöl. Nú er að koma í ljós að árum saman hefur verið haldið uppi fölsku gengi á t.d. Kaupþingi til að forkólfarnir misstu ekki bónusana sína. Það er búið að lána sftur og aftur stórar summur útá engin veð. Flest öll stærstu lánin eru til stærstu eigenda bankanna án sérstakra veða. Yfirmenn og fleiri eru að taka lán uppá margfaldar eignir sínar til að gambla með á hlutabréfamarkaði með engar tryggingar á bak við sig. Bankarnir lánuðu bröskurum til áhættu fjárfestinga án sérstakra trygginga annara en í áhættufjárfestingunni sjálfri og ekki nóg með það heldur voru þeir sjálfir meðal stórra hluthafa.
Þetta voru bankar sem voru með samþættan rekstur viðskiptabanka og fjárfestingabanka þannig að öll innlán voru undir ef illa færi eins og við höfum svo illilega komsit að núna.
Þetta átti og mátti Fjármálaeftirlitið vita og stöðva því það af þessu sem ekki var beinlínis ólöglegt var á það gráu svæði í því magni sem það var gert að auðveldlega hefði mátt stemma stigu við þessu fyrir löngu. Hvers vegna sá Fjármálaeftilitið þetta ekki 2006 þegar einhver jóli í dönskum banka gat séð það.
Landfari, 10.1.2010 kl. 21:26
Blessaðir Jónar og Landfari.
Svona til að byrja með, Jón Kristjáns; Bö bö.
En Landfari, þú virðist engan veginn ná um hvað málið snýst.
Það var kerfið, og þær eftirlitsreglur sem það setti einstökum aðildarríkjum EES, sem brást.
Heldur þú ekki að allt það sem þú telur upp hafi verið eitthvað leyndó, Ísland er lítið land, svo augljóst má vera að eignarhald er á fáum höndum og krosstengsl mikil. Reglurnar tóku ekki á slíku. Hefðu þær gert það, og ekki verið brugðist við á þann hátt sem þú sakar Fjármálaeftirlitið um, þá hefðu eftirlitsaðilar kerfisins brugðist við.
Og þá erum við að tala um OECD, ESA, Moody´s og félaga, ásamt þeim risabönkum sem lánuðu þessar risaupphæðir til íslensku bankanna og íslensku útrásarfyrirtækjanna. Hvernig dettur þér það í hug í eina mínútu að þær staðreyndir sem þú telur upp, hafi ekki verið þessum aðilum vel kunnugar?????? Hefur þú enga hugmynd hvernig yfireftirlitið vann, og um allar þær ýtarlegu skýrslur sem OECD og alþjóðlegu matsfyrirtækin gáfu út um Ísland????
Veistu ekki að OECD gaf bankakerfinu, eins og það var uppbyggt, í heildina jákvæða dóma alveg fram að hruni. Vissulegar voru á því ágallar, einna helst smæð íslenska markaðarins, og þess vegna var innlánsstarfsemi í öðrum löndum hrósað sérstaklega, þó þeir kannist kannski ekki við það núna, en þá eru öll þau orð til á blaði.
Og veistu ekki að Moody´s og Poor hækkuðu lánshæfismat bankanna uppí úrvalsflokk sumarið 2007, og þeir ítrekuðu það síðast febrúar 2008.
Með hvaða rökum átti þá íslenska fjármálaeftirlitið að setja bönd á bankanna. Ef ekki er farið eftir lögum og reglum, þá skapar það eftirlitsaðilum skaðabótaskyldu. Valdi ólöglegar aðgerðir þeirra hluthöfum tapi, þá eru þeir með unnið mál á hendur ríkinu.
Og telur þú dómsstól, til dæmis vorið 2008, þegar bankarnir voru i bullandi gróða (því þeir stálu öllu steini léttara hér á landi með skipulöguðum árásum á krónuna), með hæsta lánhæfimat, að hann hafi tekið spámiðil sem vitni um að röng fjármögnun þeirra og innbyrðis viðskipti myndu fella bankanna þá um haustið????
Það sem gerist í framtíðinni, eru ekki rök í núinu, einföld staðreynd sem fólk ætti að hafa í huga þegar það lýsir yfir sekt íslenskra stjórnvalda.
Og þú vísar í álit dansk hagfræðing hjá einhverjum dönskum smábanka, samkeppnisaðila íslensku bankanna. Og hvað með það??? Þó nokkuð margir hagfræðingar vöruðu við yfirvofandi fjármálahruni og þá fjármálahruni hins vestræna fjármálakerfis.
En þessar raddir voru í miklu minnihluta, og á þá var ekki hlustað í City eða Wall Street, ekki í London eða Washington. Þeir höfðu rétt fyrir sér, því bæði féll City og Wall Street, og ábyrgð stjórnvalda um allan hinn vestræna heim eru mikil, líka á Íslandi.
En það að stjórnvöld okkar skyldu ekki taka mark á þeim aðvörunum, sem að þeim var beint, er ekki sértækt fyrir Ísland. Það er það sem skiptir máli ef á að hengja einhvern sérstakan upp á lappirnar og hýða hann.
Og það að taka eitt land út og segja að stjórnvöld þar séu sek um fram aðra sem dönsuðu kringum gullkálfinn, það er absúrd og stenst enga lögfræði, siðfræði eða heilbrigða skynsemi.
Vegna þess að allir dönsuðu kringum gullkálfinn, þá er kerfið sekt, það var það sem brást. Það er hið sértæka í málinu.
Ekki einstaklingar eða stjórnmálamenn sem fóru eftir þeim leikreglum sem voru hið almenna viðmið. En þeir eru samsekir, en það er langur vegur á milli þess að vera samsekur, eða vera sérstaklega sekur um fram aðra. Fyrir utan lögleysuna að hengja einn fyrir glæp fjöldans, þá kemur slíkt í veg fyrir að nauðsynlegar kerfisendurbætur séu gerðar.
Það mætti halda það að þú og þínir sem upplifa þjóðina seka, að þið séuð á mála hjá þeim sem mergsugu hin vestrænu hagkerfi á meðan veislunni stóð. Og þið teljið allt til þess vinnandi að hið gamla kerfi verði endurreist aftur, til að húsbændur ykkar geti haldið áfram að mjólka kerfið.
En það er einmitt það sem þarf að hindra.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 10.1.2010 kl. 22:42
Verð að fá að deila þessari fréttasnilld með öllum hundtryggum stjórnarsinnum:
Uppreisn, verði kröfur samþykktar
Steingrímur J. Sigfússon, formaður vinstri grænna, segir að það verði gerð uppreisn hér á landi verði gengið að kröfum Breta og Hollendinga um að Íslendingar greiði 600 milljarða króna vegna Icesave-reikninganna.
Pétur Blöndal sagði í hádeginu í dag að einungs fjárkröfur Breta og Hollendinga væru margfalt hærri en þær stríðsskaðabætur sem Þjóðverjar voru neyddir til að greiða í lok fyrri heimsstyrjaldarinnar. Grófir útreikningar bendi til þess að þær hafi numið um einni milljón króna á hvern Þjóðverja. Þær lögðust þungt á þýskt efnahagslíf, verðbólgan magnaðist og atvinnuleysir jókst gríðarlega.
Steingrímur segir, eins og Pétur, að Íslendingar eigi að spyrna gegn kröfum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem gera ráð fyrir að gjaldeyrislán sé háð því að samið verði við Breta. Íslendingar hafi uppfyllt allar lagalegar skyldur og tilskipanir Evrópusambandsins um innlánstryggingarkerfi. Íslendingar eigi ekki að láta undan kröfum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins því þeim beri ekki skylda að greiða tapið vegna Icesave-reikninganna.
frettir@ruv.is
http://www.ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item233100/
Kær kveðja úr suð-vestan vætunni.
Guðmundur 2. Gunnarsson (IP-tala skráð) 10.1.2010 kl. 23:44
Ómar minn, þú hefur greinilega ekki lesið það sem ég hef skrifað ef þú heldur að ég telji þjóðina seka.
Því fer svo víðsfjarri að það er á mörkum að þú sért svara verður. Í trausti þess að um sé að ræða einhvern misskilning vil ég þó benda þér á stjornmálamenn á íslandi eins og víðar eru engnir fagmenn í þeim ráuneytum sem þeir stýra. Þeir hafa sér til halds og traust embættismenn eftirlitsstofnanir með starfsmenn sem eru fagmenn á sínu sviði. Ef eftirlitið kemst að því að reglur eru ekki fullnægandi þá eiga þeir að koma þeim ábendingum á framfæri svo bæta megi úr. Það er ekki að ástæðulausu sem Fjármálaeftirlitið hefur heimild til að skoða allt, bóksaflega allt, í rekstri banka. Ef þeir hefðu verið að vinna vinuna sína hefðu þeir átt að sjá að lán til stjórneda voru óeðlilega há. Útlán til eigenda óeðlilega stór partur af heildarútlánum. Ónógar tryggingar tryggingar og óeðlileg lán til hlutabréfakaupa í sjalfum sér. Það búið að benda á hvernig bankarnir bygðu upp falskt eigið fé. Þetta hefði eftirlitið átt að sjá og benda á.
Þeir hefðu líka getað bent stjórnvöldum á að bankarnir væru orðnir of stórir til að þeir gætu haft nægajnlegt eftirlit með þeim miðað við manskapinn í Fjármálaeftirlitinu.
Jón Baldvin sagði þegar hann var að fría sig ábyrgð af þessu öllu en hann innleiddi þessar reglur sem bankarnir sörfuðu eftir. Það er ekki vegagerðarmanninum að kenna ef slys verður vegna og hraðs akstur á vegi sem hann lagði.
Málið er að Jón lagði enga vegi í þessari samlíkingu hér. Þeir komu tilbúnir frá Brussel. Jón leifði hinsvegar að þeir væru notaðir hér án þess að setja reglur um hámarkshraða og því fór sem fór.
Þeir sem á eftir honum komu gerðu það ekki heldur því það reyndi ekkert á það. Bankarir voru litlir og vélarvana og komust ekki hraðar en öruggt var talið. Þegar bankarnir komust síðan í einkaeign og fóru að nota nítro í staðin fyrir bensín gengdi öðru máli. Bankarnir fengu ómælt fé að utan og stækkuðu óeðlilega hratt. Það hefði átt að kalla á aukið eftirlit.
Ábyrgð stjórnmálamannanna er mikil eins og þú segir sjálfur. Það frýar þá ekki ábyrgð að aðrir stjórnmálamenn hafi brugðist. ég er ekki sáttur við að vera með bankamálaráðherra sem talar ekki við seðlabankastjóann sinn í á annað ár á miklum uppgangstímum bankanna. Hvað var maðurinn að gera?
Þessi lánshæfismatsfyrirtæki erlendu eru búin að gera sjálf sig að þvílíku athlægi að ég sé það ekki skipta nokkru máli hvað þau segja eða gera. Þau eiga langt í land með að ávinna sér það traust sem þau höfðu. Mér er það reyndar óskiljanlegt að nokkur skuli leita álits þeirra eftir framistöðu þeirra undanfarið.
Þú segir að kerfið sé sekt. Það er nú svolíið skondið því kerfið setti sig ekki sjálft. Sökin liggur því hjá þeim sem settu kerfið á. Það eru stjórnmálamenn. Þeir í Brussel sem settu það í lög hjá ESB og þeir á Íslandi sem settu það í lög hér óendurskoðað miðað við íslenskar aðstæður. Hættan sem oft hefur verið bent á þegar lögum er rutt í gegnum alþingi á methraða og enginn tími til að skoða málin.
Þegar ég segi að fjármálaeftirlitið hér hafi brugðist þíðir það ekki að íslenska þjóðin eigi ein að bera tjónið. Fjármálaeftirlitin í Bretlandi og Hollandi, sem fría sig allri ábyrgð, bera fulla ábyrgð á eftriliti með þeim fjármálstofnunum sem þar starfa þó það séu útibú frá bönkum í örðurm löndum. Þess vegna fékk Glitnir ekki leifi til að feta í fótspor hinna íslensku bankanna þegar hann vildi fara sömu leið. Seðlabanki Hollands gaf Íslensku bönkunum toppeinkunn alveg þar til þér hrundu. Það er miklu fremur út á slíkar einkunnir sem Hollendingar lögðu inn á reikninga einhvers banka norður í ballarhafi en þeir hafi tekið eitthvert mark á glansbæklingum sama banka um eigið ágæti.
Í öllu falli er íslenskur almenningur alsaklaus af þessum gjörningum öllum en honum er ætlað að vera fjárhagslega ábyrgur fyrir öllum pakkanum. Það er því gríðarlega mikið atriði að þessi samningur verði felldur með miklum mun, helst öllum greiddum atkvæðum í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Það gefur okkar mönnum mjög sterka stöðu ef til þess kemur að samningarnir verði teknir upp frá grunni.
Landfari, 10.1.2010 kl. 23:59
Blessaður Guðmundur.
Og veistu hvað, þá leit ég á Steingrím sem bandamann í baráttunni gegn þeim sem vildu láta almenning greiða skuldir höfðingja.
Og mikið sammála þessum orðum hans.
En svo varð vík á milli vina. Og það var ekki ég sem lagði á stað í þá sjóferð.
En ég heldi að þetta sé ekki Steingrímur sem ég sá í sjónvarpinu i kvöld. Þetta var sjö barna faðir úr Álfheimum.
Ég vil fá gamla góða Steingrím aftur.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 11.1.2010 kl. 00:01
Já Steingrímur skuldar okkur skýringu á því hvað sneri honum um 180° í þessu máli öllu. Eru það einhver pögg sem ekki eru enn komin upp á borðið. Hver var það aftur sem krafðist þess fyrir kosningar að allt væri upp á borðinu í þessu máli?
Landfari, 11.1.2010 kl. 00:10
Blessaður Landfari.
Þú mátt alveg sleppa því að mæta og svara fyrir þín sjónarmið. Þetta er frjáls bloggsíða hvað athugasemdir varðar.
Og ég misskildi þig ekki neitt. Ekki baun í bala.
Ég hef líka mjög sterkar skoðanir á vinnubrögðum Fjármálaeftirlitsins og framgöngu íslenskra ráðamanna í aðdraganda Hrunsins. Og ég hafði það áður en allt fór hér til helvítis, ferli sem var svo fyrirsjáanlegt.
En ég stunda ekki þann málflutning að telja það sértækt fyrir Ísland. Menn verða aðeins sekir ef þeir hafa brotið þau lög og þær reglur sem um málið gilda.
Og það var ekki gert hér á landi. Og það er kjarni málsins. Kerfið tók ekki á þessum hlutum.
Ekki frekar hér en annars staðar. Því allt sem þú bendir á, átti sér stað í öðrum löndum. Með því er ég ekki að frýja stjórnmálamenn okkar ábyrgð, þeir þurfa að axla hana gagnvart sinni þjóð.
En það sem þú virðist ekki átta þig á, er sú einfalda staðreynd, að gjörðir þeirra og sofandaháttur gerði þjóð okkar ekki seka. Hún þarf ekki að sleikja ráðamenn annarra þjóða og biðjast afsökunar, eins og skýrt kemur fram í málflutningi þeirra sem tala um að íslensk stjórnvöld hafi brugðist skuldbindingum sínum.
Og það er þessi aumingja málflutningur sem er jafn hættulegur og málflutningur þeirra Steingríms og Jóhönnu. Og líklegast hættulegri, því öllu hugsandi fólki er ljós fjarstæða raka þeirra ICEsave hjúa.
En þessi er lúmskari. Hann bendir á augljós mistök, og heimfærir út frá þeim sekt upp á heila þjóð. Sektin ætti vissan rétt á sér ef við ein hefðum fallið, og líka ef stjórnvöld hefðu gengið gegn ábendingum eftirlitsaðila.
En hvorugt á við. Það féllu allir. Og það var ekki gengið gegn réttmætum ábendingum eftirlitsaðila. Og ég er nógu læs til að sjá að þú skautar alveg fram hjá þessum staðreyndum þó mörg séu þín orð. En þær eru kjarni málsins.
Sekt okkar snýst um ætluð brot á þeim lögum og reglum sem í gildi voru. Allt sem þú bendir á var viðtekin venja annars staðar enda datt engum eftirlitsaðila að fetta fingur út í það.
Svona var það kerfi sem féll.
Um ábyrgð þeirra sem tóku það upp, þarf ekki að rífast. Hún er augljós. Kerfið féll.
En það gerir ekki þjóð okkar seka umfram aðrar þjóðir.
Og það er tími til kominn að þið spillingarsinnar áttið ykkur á þeirri staðreynd.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 11.1.2010 kl. 00:23
Það er nú bara ekki allt í lagi með þig Ómar minn. Reyndu að slaka aðeins á ná þér niður á jörðina.
Þú ert ekki þess umkominn miðað við skrif þin hér að kalla mann og annan spillingarsinna fyrir það að benda á að eftirlitsstofnanir og stjórnmálamenn beri ábyrgð í þessu máli. Um það eru allir sammála. Það þíðir ekki að þeir og þeir einir beri ábyrgð á öllu málinu.
Ég hef hvergi verið að sega að þessi eða hinn sé sekur um einhvern glæp. Hvað þá að ég hafi verið að koma "sök" á þjóðina. Það er allt frá þér og þínum "spillingarsinnum" komið að vera að tala um "sakir" og þjóðina í sömu setningu.
Ég skauta ekki framhjá einu né neinu þó sleppi því að ræða þetta hugarfóstur þitt að kalla þjóð okkar seka eða ekki sekari en aðrar þjóðir. Það einfaldlega liggur engin sök á bankahruninu hjá þjóðinni.
Það má hinsvegar ef þú vilt endilega tala um sök íþessu máli alveg fullyrða að stjórnmálamenn og eftirlitsstofnanir séu sekar um andvaraleysi í þessu máli öllu en það gerir ekki þjóðina seka eins og þú og þú einn virðist halda.
Það er bara fyrir neðan allar hellur hjá þér að vera að tala um sök þjóðarinnar í þessuu máli. Þjóðin, fólkið í landinu, ber enga og alls enga sök á bankahruninu. Ég veit ekki hvað þér gengur til að vera að reyna að læða því inn í umræðuna bakdyramegin. Með þessum Icesave samingum er hinsvegar verið að gera þjóðina ábyrga fyrir hruninu og það er miður.
Þess vegna verður að fella þennan samning í þjóðaratkvæðagreiðslunni með afgerandi mun, helst öllu greiddum atkvæðum.
Það gefur okkar mönnum gríðarlega sterka stöðu í framhaldinu ef til þess kemur að samningarnir verði teknir upp frá grunni.
Landfari, 11.1.2010 kl. 18:44
Blessaður Landfari.
Hef ekki fundi fyrir svona hressilegum blæstri frá því að hann Runki var að taka mig á beinið í ágúst í fyrra. Hafðu þökk fyrir það.
En á hverju á ég að byrja???? Jú, í það fyrsta, þá er langt í frá að það sé allt í lagi með mig. Ef svo væri þá sæti ég ekki við tölvuna og skrifaði um ICEsave dag og nótt, eða þannig. Í öðru lagi þá ætla ég að ítreka við þig að þetta er frjáls síða, og ef þér finnst skrif mín ekki merkileg, þá skil ég ekki hvað þú ert að flækjast hérna, ber vott um masókisma.
En ég skal viðurkenna á mig sök þegar ég kallaði þig viljandi spillingarsinna. Það er án þess að skilgreina hugtakið betur. Taldi það augljóst út frá samhengi minna skrifa, en kannski var það ekki svo augljóst. Og úr því skal ég bæta.
Spillingarsinni er sá sem er með spillingu fortíðar á heilanum og telur baráttuna við hana og hina föllnu útrásarvíkinga skipta höfuðmáli. Og á meðan gáir hann ekki að því hvað er verið að gera þjóðinni í dag.
Það er verið að endurreisa gamla kerfið svo til óbreytt, en þær breytingar sem þó verða eru mjög til hins verra. Og leikendurnir eru hinir sömu að hluta, en ný andlit koma úr röðum erlendra skammtímafjárfesta og annarra násuga sem þrífast á eymd þjóða í efnahagserfiðleikum. Og það á að selja hana bretum og Hollendingum.
Spillingarsinni sér hinar fyrirhuguðu hörmungar en hann bregst ekki við að neinu viti því hugur hans er allur við fortíðina, eins og lifandi menn geti drepist í fortíð. Og það er endalaust hægt að draga spillingarsinna á asnaeyrunum ef það er kallað "Spilling". Enda hefur slíkt verið hernaðartækni hinnar nýju valdklíku Samfylkingarinnar á meðan hún kemur þrælahlekkjum ICEsave á þjóðina.
Þekkt dæmi um spillingarsinna er ofurbloggarinn Lára Hanna og Njörður P. Njarðvík. Þau eru það illa haldin af þessu að þau sjá í raun fátt að ICEsave samningunum því þetta var allt íhaldinu og framsókn að kenna (einföldun en ég hef bloggað um þetta). Það er þetta fólk sem talar um að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn eigi að skammast sín fyrir málþófið og skrípalætin á Alþingi eins og Lára Hanna sagði í útvarpinu. Þjóðin á sem sagt að taka á sig ICEsave skuldbindingarnar því óverðugir standa í varnarbaráttunni á þingi.
Einn angi af þessu spillingaráráttu tali er sá sem var kveikjan af þessum bloggpistli.
Þetta er röng fullyrðing eins og ég rökstuddi í pistlinum. Og það sem verra er að svona fullyrðingar taka undir kröfugerð andstæðinga þjóðarinnar. Aðeins bjánabelgir af hæstu gráðu byrja að játa sekt og treysta síðan á að hinir geri það líka. Geri þeir það ekki, þá þarft þú að sanna það fyrir dómi, en þeir ekki þína, því þú ert þegar búinn að játa á þig brot.
Og svona handarbakavinnubrögð, ef fólk sér ekki rökleysuna við þau, kosta þjóðfélagið fjármuni. Þó hugsunin sé sú að minnka þær kröfur sem bretar gera til þjóðarinnar, þá hafa menn engan rétt á að bulla svona. Þeir eru ekki sjálfir borgunarmenn fyrir sektinni. Peningarnir eru teknir úr velferðinni. Og öllu er lokað, sem hægt er að loka á landsbyggðinni, þar sem ég bý.
Fyrir mig og mína eru þessi gulrót grafalvarlegt mál. Og fyrst hún byggist á bulli, þá á að skjóta hana i kaf.
Það má vel vera að þú sért ekki sektarsinni, en fyrsta innslag þitt gat ég ekki skilið á annan hátt en það væri stuðningur við þann þankagang sem lá að baki þessum skrifum Magnúsar. Vissulega get ég skrifað heilu langlokunar um það sem miður fór, og ég gerði það á meðan íhaldið var í stjórn, svona til að auka á eymd þess. En á meðan ICEsave slagnum stendur þá verður okkar innri uppgjör Íslendinga að sitja á stól inn í biðstofu. Það er í rannsókn, og vonandi verðum við menn til að gera upp mistökin og líka að læra af þeim.
En það er rangt að stofna til mannvíga núna á meðan við sætum árásum erlends auðvalds. Það var aðeins ein von fyrir Forngrikki í stríðinu við Persa, og hún hét samstaða. Og samt voru þeir meiri Sturlungar en við.
En nota bene, samstaða þeirra sem vildu verjast, en ekki samstaða með þeim Grikkjum sem vildu semja frið við árásaröflin, eða ganga þeim á hönd, eða hvað þá vinna með þeim.
En þá að efnisatriðum málsins.
Þeir sem tala í innslögum sínum gegn þeirri hugsun, sem ég vil fá fram með pistlum mínum, þeir fá viðeigandi andsvör eftir tilefninu. Langi þeim ekki í það þá mæta þeir ekki á svæðið.
Viljir þú fá mig á spjall um gamla fjandvini mína og ræða klíkutengsl þeirra og meinta vanhæfni, þá er það ekki rétti vettvangurinn að mæta með innslag þar um, þegar ég er að skjóta á helgar kýr. Nógu er nú efnið viðkvæmt samt.
En ef þú ert sammála honum Magnúsi, þá skaltu ekki vera sár þó ég svari fyrir mig.
Ég var ekki að klína sök á þjóð mína, en skemmtileg stílbrögð hjá þér engu að síður. En ef ríkisvaldið bregst skyldum sínum í máli sem veldur ytri skaða, þá er mjög líklegt að einhver dómsstóll dæmi það skaðabótaskylt, og þar sem ríkisvaldið er ekki með sjálfstæðan fjárhag, þá lenda þær skaðabætur á þjóð okkar. Sem er svo aftur skýring þess að ég vil losna við svona bjálfagang úr umræðunni.
Hafir þú ekki ennþá skilið rökfærslur mínar um þá einföldu staðreynd að þú þarft brot á gildandi lögum og reglum, ekki þeim reglum sem þú telur að hefðu átt að vera í gildi, til að hægt sé að dæma einhvern sekan, þá skaltu bara fá einhvern annan til að útskýra það fyrir þér. Sem þú skilur vonandi betur.
Þetta er lykilatriði málsins, það hefur enginn rétt á að lýsa því yfir að stjórnvöld hafi brugðist skyldum sínum, nema hann geti sannað hvaða skyldum, og sýnt dóm þar um. Slíkt er fullkomið siðleysi því það getur valdið saklausu fólki miklum þjáningum. Skiljir þú það ekki þá skaltu ræða við gamalmennið fyrri vestan sem á að bera út í sparnaðarskyni. Telji menn stjórnvöld hafi ekki staðið við skyldu sínar og geta ekki þagað, þá er þeim fullkomlega heimilt að lýsa því yfir og síðan leggja fram aleigu sína i skaðabætur handa þeim sköðuðust á hinni meintu vanrækslu.
En menn iðrast ekki á kostnað annarra.
Og ef þú ert sammála mér, þá er það gott og vel. Það verður enginn verri á því að lesa rökfærslur okkar, og það er merkilegt hvað margir nenna að lesa svona langhunda.
Hafi ég misskilið þig, þá skaltu venja þig á að tala skýrar í návist viðkvæmra sála sem eru ekki alveg í lagi.
Og eitt erum við alveg sammála um. Svo ekki hefur þetta verið til einskis.
Stjórnvöld brugðust þjóð sinni algjörlega.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 11.1.2010 kl. 23:11
Það er nú eiginlega hálf fyndið að við séum að rökræða þetta eitthvað frekar því í grunni held ég að við séum meira en sammála.
Það sem ég vil þó benda á að það fylgir ekki alltaf að bera ábyrgð ef eitthvað klúðrast og vera sekur.
Ráðherrar (að vísu bara erlendis) hafa sagt af sér því þeir bár ábyrgð sem æðstu yfirmen, jafnvel þó þeir hefðu hvergi komið nærri sjálfir. Þannig hafa ráðherrar fokið út af einhverju klúðri hjá lögreglu viðkomandi ríkis þó þeir hafi sjálfir ekkert haft með málið að gera.
Síðan geta menn verið sekir um ótrúlegustu hluti en enga ábyrgð borið (jafnvel þó þeir hafi fengið stjarnfræðileg laun því starfinu fylgdi svo mikil ábyrgð) þegar á reyndi. Samanber bankamafíuna sem var hér.
Eins geta menn brugðist í starfi þó þeir hafi ekki brotið nein lög. Þegar ég segi að Fjármálaeftirlitið hafi brugðist þá er ég ekki að segja að þar hafi verið framin lögbrot. En það má nokkuð ljóst vera að tilgangurinn með þesu eftirlit var að koma í veg fyrir einstaklingar og hópar gætu farið sínu fram í eiginhagsmunaskyni á kostnað almennings.
Það er ekkert ríki án fjármálastarfsemi. Það er engin fjármálastarfsemi án banka. Það er enginn banki án trausts viðskiptavina.
Þess vegna voru innistæður tryggðar í byrjun hrunsins. Ekki til að bjarga einhverju ríku fólki sem á sand af seðlum, heldur til að halda trausti viðskiptavina þannig að þeir hefðu seðlana sína áfram í banka.Það er einfaldlega forsenda til að ríkið geti starfað. Þess vegna er það ríkinu nauðsyn að bankarnir njóti trausts og Fjármálaeftirlitið hefur þessar víðtæku heimildir í lögum til að geta sinnt þessu eftirliti til þess að það sem gerðist, gerist ekki. Þess vegna segi ég að það hafi brugðist. Ég sagði aldrei að það hefði brotið einhver lög. Ég sagð heldur ekki að Fjármáleftirlitið ætti sök á því að bankarnir gerðu það sem þeir gerðu og ekki heldur að þeir bæru ábyrgð á því.
Hinsvegar finnst mér þeir bera ábyrgð á því að hafa ekki, með þeim ráðum sem þeir hafa sem eru ansi víðtæk, stöðvað þessa starfsemi áður en hún söðvaðist af sjálfu sér. Þar með er ég ekki að segja að þjóðin sé orðin ábyrg fyrir banakstarfseminni og því sem þar fór fram. Enn síður að þjóðn sé sek um það sem þar fór fram (sem má nú reyndar setja spurningamerki við hvort hafi talist almenn bankastrfsemi).
Mér finnst þú stundum gera engan greinarmun á hugtökunum glæp, sekt, ábyrgð og lögbroti.
En nú snúum við bökum saman því eins og þú segir náum við engu fram nema með samstöðu.
Landfari, 12.1.2010 kl. 18:22
Blessaður Landfari.
Svona í það fyrsta þá þekki ég vel muninn á öllum þessum hugtökum. En ég vil minna þig á þann flöt sem ég tók í debati okkar. Ég var að mótmæla því sjónarmiði sem kom fram hjá Indefence að íslensk stjórnvöld hefðu brugðist skyldu sinni. Og ég rökstuddi forsendur mínar. Og ég benti á þær afleiðingar sem svona tal hefur í för með sér.
Og innslag þitt um fjármálaeftirlitið passaði ekki inn í þá umræðu, svo ég varð að svara því.
En annars á ég fullt af næstum því orðrétt eins innslögum hér og þar í netheimum á meðan ég var að beina spjótum mínum að litlu ljótu klíkunni. Sem ég hafði ákaflega gaman að á meðan íhaldið var að vinna að vondum málum með Samfylkingunni.
En svo var íhaldið sent í sturtu, og ég tala sjaldnar um litlu ljótu klíkuna og gjörðir hennar. Sé ekki tilganginn að efna til ófriðar við samherja í ICEsave deilunni. Og svo geri ég mér fullkomlega grein fyrir því að mjög margur íhaldsmaðurinn er ósáttur við það sem gerðist, en þeim leiðist að láta krossfesta sig. Þó þeir margir eigi heima á Seltjarnarnesinu.
Það er ekki sama hvernig gagnrýnin er orðuð, sérstaklega ef þú telur það brýnt að fólk snúi bökum saman til að hindra gjöreyðingu þjóðarinnar eins og mér sýnist allt stefna í. ICEsave er aðeins toppurinn á þeirri vitleysu sem stefnt er að. Og allavega smákapítalistarnir eru sömu fórnarlömb og við hin, ef draumurinn um AGS gengur eftir.
Með öðrum orðum höfum við ekki efni á deilum um keisarans skegg.
En ég leit ekki á debat okkar þeim augum. Hún var ágætis tilbreyting til að skerpa á röksemdarfærslunni og fá fram rök í málinu. Bæði finnst mér hollt að orða hugsanir mínar, og geta gengið að þeim seinna meir, og svo er ég ítrekað að reka mig á að fólk hefur gaman að spá í hlutina og les þessi innslög. Með öðrum orðum þá er þetta lesið í einhverju mæli hjá fólki sem líka er að forma sínar hugsanir og taka afstöðu til mála.
Og út úr þessu hafði ég líka mjög gott innslag frá þér sem tekur utan um flókið mál, á mjög skýran hátt. Get ekki verið meira sammála. Og þetta fer í rökbankann hjá mér ef ske kynni að ég héldi áfram að dunda mér við að fá fólk með ólík sjónarmið, en talandi í raun um sama hlutinn, að stilla saman strengi sína.
Ég held til dæmis að hann Jón Steinar, sem er orðinn dálitið þreyttur á að allar heimsins syndir séu núnar íhaldinu um nasir, og það geri allt og alla "seka" (varla að ég þori að nota þetta orð), að hann myndi skrifa upp á þessa skilgreiningu þína.
Það eru svona orðræða sem nær fram sameiginlegum flötum, sem orðar viðkvæma hluti á þá vegu að allt hugsandi fólk ætti að geta tekið undir, án þess að allt fari í háa loft.
En ég er sérstakur áhugamaður (þó þú sjáir það kannski ekki við fyrstu kynni, þegar ég hegg í mann og annan) um að umræðan sé ekki upp á lofti, heldur þoki hún málum áleiðis, og skili okkur betra þjóðfélagi.
En gaman að spjalla við þig Landfari.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 12.1.2010 kl. 20:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.