22.5.2024 | 09:00
Voðaverkin bera ávöxt
Það er fátt sem lýsir betur firringu og innihaldsleysi blaðurs vestrænna stjórnmálamanna en að leiðtogar Hamas skyldu veðja á sigur í áróðursstríðinu sem þeir hófu þann 7. október með voðaverkum sínum.
Þar sem mesta voðaverkið var að þeir skyldu leggja líf og limi sinna eigin þegna undir í því stríði.
Ákæra breska múslímans afhjúpar aðeins leyndarþræðina frá Persaflóanum en beinn stuðningur evrópskra stjórnmálamanna sýnir að voðaverk þeirra hafa borið ávöxt.
Ávöxt úr jarðvegi illskunnar.
Vitnum í gáfumennið Þórdísi Kolbrúnu utanríkisráðherra og varformann Sjálfstæðisflokksins; "Þegar ég horfi á þessa ákvörðun og þá vinnu sem dómstóllinn er búinn að vinna, horfir það þannig við mér að það sé verið að setja alþjóðalögin á sama stalla, það sé verið að setja fórnarlömbin á sama stall".
Það er verið að verja rétt fórnarlambanna segir Þórdís Kolbrún en af hverju styður hún þá voðamenni Hamas með því taka undir leyndarþræðina frá Persaflóa og ákæru breska múslímans??
Fórnarlömb þessara átaka er fólkið sem var drepið í fordæmalausri árás Hamas á Ísraels 7. október og þeir gíslar sem voru teknir þann skelfingardag.
Alveg eins og fórnarlömb Þjóðverja í Seinna stríði voru óbreyttir borgar þeirra landa sem þeir réðust á að ekki sé minnst á allar þær milljónir sem þeir drápu í útrýmingarbúðum sínum.
Vissulega féllu margir óbreyttir borgarar í innrás Bandamanna inní Þýskaland, og vissulega voru þeir líka fórnarlömb, en þeir voru ekki fórnarlömb árása Bandamanna heldur fórnarlömb sinna eigin stjórnvalda sem hófu árásarstríð við önnur lönd, frömdu þar voðaverk og mögnuðu upp það heiftarbál sem endaði með innrásinni í Þýskaland þar sem aðeins skilyrðislaus uppgjöf kom til greina.
Og alveg eins og íbúar Þýskalands voru fórnarlömb nasistanna þá eru íbúar Gasa fórnarlömb Hamas, að halda öðru fram er eins og að snúa faðirvorinu uppá andskotann.
Faðirvor andskotans er samt kyrjað í Evrópu í dag.
Hlutunum snúið á hvolf, árásaraðili orðinn fórnarlamb, hornsteinn alþjóðalaga, rétturinn til að verja sig, takmarkaður við það að ef árásaraðilinn flýr inn yfir sín eigin landamæri þá er hann stikkfrí, sbr helli helli hættur í einum leik æsku minnar.
Sjálfum sér samkvæmir þá hljóta menn næst að afvopna lögreglu og sleppa ofbeldismönnum úr fangelsum. Þeir eru jú fórnarlömb og fórnarlömb á að setja á stall.
Sjálfum sér samkvæmir hljóta leiðtogar Evrópu síðan að krefja breska múslímann um að hann ákæri þá líka fyrir stuðning þeirra við Úkraínu en þar senda þeir vopn sem eru notuð til að drepa fórnarlömb.
Þórdís Kolbrún ríður kannski á vaðið.
En við hin sem göngum ekki um akur illskunnar til að tína þar upp ávexti, við bíðum spennt eftir frekari ákærum Alþjóðaglæpadómsstólsins.
Nýlegt dæmi er til dæmis stríðsglæpir og síðan þjóðarmorð Azera á armennskum íbúum Nagorno-Karabakh, eins má minna á innrás Tyrkja í Kúrdíska hluta Sýrlands, stríð þeirra við Kúrda í héruðum sínum innan Tyrklands bera líka öll einkenni stríðsglæpa og þjóðarmorðs.
Og talandi um þjóðarmorð, hvenær verður Kína ákært fyrir þjóðarmorð sitt á Úígúrum eða er það alltí lagi að það sé markvisst unnið að því að útrýma heilli þjóð??
Því ef við fáum ekki þessar ákærur, strax á morgunn, þá er ljóst að ákæra breska múslímans er röng, hún er kostuð pólitík olíuauðsins og hefur ekkert með lögfræði að gera.
Jafnvel þó gáfumenni okkar segi annað.
Og talandi um gáfumenni og alla vitringana sem leiða Vesturlönd í dag, þá er það ákaflega sorglegt að sá leiðtogi sem sannarlega er að glíma við ellina og fylgifiska hennar, skuli vera sá eini sem stendur keikur gegn firringu forheimskunnar og segir; "Það sem er að gerast er ekki þjóðarmorð, við höfnum því".
Enda þarf aðeins heilbrigða skynsemi til að sjá og skilja að íbúar Gasa eru fórnarlömb voðmenna Hamas, það eru þeir sem hófu átökin, og það eru þeir sem viðhalda þeim.
Þá skynsemi hefur sá elliæri þó hann skrifi ekki undir allt og hefur reynt að hafa hemil á verstu öfgamönnunum í ríkisstjórn Ísraels, öfgamenn sem eru sprottnir uppúr sama akri og voðamenni Hamas.
Þá skynsemi hefur varaformaður Sjálfstæðisflokksins ekki og maður spyr sig; Hvernig getur eldra íhaldsfólk, sem er mótað og hert af lífsbaráttu raunveruleikans, haldið áfram að styðja þann flokk þegar vitið þar er ekki meira en það er.
Og fyrst það er enginn sjáanlegur munur á Samfylkingunni og Sjálfstæðisflokknum, af hverju styðja þessir eldri íhaldsmenn þá ekki Samfylkingunni, formaðurinn þar er þó ekki illa gefinn.
Reyndar er ég farinn að endurskoða álit mitt á Loga Einarssyni eftir margt af því sem ráðherrar Sjálfstæðisflokksins hafa látið út úr sér nýlega.
Þetta er allt orðið eitthvað svo skrýtið í heimi þar sem öllu er snúið á hvolf.
Höfum samt á hreinu að það er engin framtíð í heimi þar sem akrar illskunnar sjá um að fæða stjórnmálin.
Allavega ekki framtíð sem við viljum börnum okkar og barnabörnum.
Og það er okkar að verja, að snúast gegn.
Þó það kosti þau átök að við þurfum að hugsa hlutina uppá nýtt, átta okkur á að gömul bandalög er rofin og okkur ber að mynda ný.
Það er vegið að lífinu úr öllum áttum.
Þar er einn versti fjandinn sem telur fólki í trú um að það megi drepa fólk sem er ekki eins og það sjálft.
En sá versti er sá sem segir að þú megir græða eins og engisprettan án nokkurrar ábyrgðar gagnvart fólki eða samfélögum þess.
Þessum fjöndum þarf að mæta.
Áður en það er orðið of seint.
Því sjálft lífið er undir.
Kveðja að austan.
Segir Ísraela ekki fremja þjóðarmorð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
22.5.2024 | 07:10
Það verður enginn friður.
Það verður enginn friður í Palestínu með tveggja ríkja lausn þar sem annað ríkið er stjórnað af fólki sem telur sér skylt að útrýma hinu ríkinu.
Slíkt er alltaf ávísun á ítrekaðar blóðugar styrjaldir, í nútíð og framtíð.
Síðan geta menn spurt sig hvernig verða lífsskilyrðin á Gasa eftir að Ísraelsmenn eru búnir að sprengja þar allt í loft upp??
Á fólk að búa þar í tjöldum um ókomna framtíð eða ætla Vesturlönd virkilega að eyða milljörðum dollara til að endurbyggja Gasa ströndina til þess eins að sjá allt sprengt aftur í loft upp??
Svo eitthvað sé talið til sem sýnir einfeldningshátt svona málflutnings að það verði ekki friður án Palestínuríkis.
Vandinn er töluvert djúpstæðari en það.
En vér vitringarnir vitum.
Eða þannig.
Kveðja að austan.
Norðmenn viðurkenna palestínskt ríki | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggfærslur 22. maí 2024
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 10
- Sl. sólarhring: 14
- Sl. viku: 456
- Frá upphafi: 1412818
Annað
- Innlit í dag: 10
- Innlit sl. viku: 395
- Gestir í dag: 9
- IP-tölur í dag: 9
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar