13.1.2022 | 09:15
Hinn óbærilegi léttleiki tilverunnar.
Það er glatt á hjalla víða á landinu í dag, ungt fólk hittist, jafnt í leik sem starfi, kynin gera hosur sínar grænar fyrir hvort öðru, eða á maður kannski að segja fyrir öllum hinum, og eiga jafnvel í nánum samskiptum.
Á morgnanna sér maður kát og hlæjandi börn fara í skólana, unglingarnir á heimilinu stunda sitt nám, mæta á fótboltaæfingar, og í kvöld á að keppa í Gettu betur.
Faraldurinn setur vissulega skorður en lífið er samt eins eðlilegt og það getur verið á tímum farsóttarinnar.
Þessi léttleiki tilverunnar virðist samt vera sumum óbærilegur í þjóðfélaginu í dag.
Þeir vilja herða sóttvarnir frá því að vera mjög íþyngjandi fyrir daglegt líf æsku þjóðarinnar yfir í að vilja loka á þetta daglega líf.
Rökin er bráðsmitandi pest, sem þjóðin er reyndar bólusett við, pest sem í raun enginn vissi útbreiðsluna á, ef til kæmi ekki sú nútíma tækni að geta greint pestarveiruna með PCR prófum.
Prófum sem voru ekki aðgengileg fyrir nokkrum árum síðan, fyrir nokkrum árum síðan hefði enginn vitað að bráðsmitandi pest léki lausum hala útí samfélaginu.
Fyrir nokkrum árum síðan hefðu hótel landsins fengið að vera hótel, ekki sóttvarnarhótel, því fyrir nokkrum árum síðan hefði ekki hvarflað að nokkrum manni að læsa inni fullfrískt fólk í öryggisskyni svo það myndi ekki smita annað fullfrískt fólk.
Fyrir nokkrum árum síðan hefði ekki verið talað um álag á Landsspítala eða gjörgæslu, því fyrir nokkrum árum síðan var ekki búið að skera niður gjörgæsluna þannig að hún réði illa við lágmarks álag, hvað þá aukið álag vegna pestar sem veldur erfiðum veikindum hjá 0,eitthvað prósent þjóðarinnar.
Við getum ekki snúið til baka til þess tíma sem var fyrir nokkrum árum síðan, áður en stjórnmálaflokkar þessa lands tóku þá ákvörðun að gjörgæsla væri óþarfi í þeim nútíma þar sem fjármagn og lúxusneysla væri æðra öllu.
Gleymum ekki í því sambandi að þar eru allir flokkar sekir, nema Flokkur fólksins, eðli málsins vegna.
Og sekust erum við sem þjóð að hafa umborið þessa sjálfsmorðstefnu stjórnmálastéttarinnar gagnvart heilbrigðiskerfi þjóðarinnar.
En það er sem er, fortíðin er ekki tekin til baka.
Af henni má læra, en fyrst og síðast þarf að axla ábyrgð á henni, eitthvað sem var svo aðdáunarvert í Þýskalandi eftirstríðsárana.
Þar gerði Þýska þjóðin sér grein fyrir að hinar óendanlegu hörmungar sem hún gekk í gegnum á lokaárum stríðsins, voru á hennar ábyrgð, ekki annarra.
Það var hún sem efndi til óvinafagnaðarins.
Þá visku ættum við fullorðna fólkið að hafa í huga þegar okkur finnst léttleiki æskunnar vera óbærilegur.
Hvað sem við gerum, þá er ekkert sem réttlætir að loka samfélaginu, að þurrka út æsku og unglingsár heillar kynslóðar.
Og fyrr sem menn átta sig á því, því fyrr fara menn að velta fyrir sér raunhæfum lausnum, eitthvað sem eflir heilbrigðiskerfið og gerir því kleyft að takast á við núveranda vanda þess.
Þeir sem sjá einu lausnina að loka og læsa á tímum farsóttar sem bólusetningar verja okkur gegn alvarleik hennar, þeir eiga að víkja.
Þeir eru frosnir í hugsun og eru því ekki starfi sínu vaxnir.
Þeir leita ekki lausna, þeir leita í þekkta flóttaleið vímunnar.
Flóttaleið samfélagslokana er eins og bregðast við falli á prófi með að reykja sig skakkann.
Tilveran er nefnilega ekki óbærileg, hún er erfið, það er vandi, en ekkert sem ekki er hægt að takast á við.
Við eigum nóg til af menntuðu fólki, við eigum nóg til að húsnæði, það er aðeins úrlausnarefni að koma þessu saman þannig að heilbrigðiskerfi ráði við aukið álag á meðan farsóttin útrýmir sjálfri sér með myndun hjarðónæmis í samfélaginu.
Munum að til þess fær hún góða hjálp af bólusetningum.
Við þurfum aðeins forystufólk sem tekst á við verkefni, en flýr þau ekki með þekktum óbærilegum flóttaleiðum.
Því til lengdar eru samfélagslokanir óbærilegar hverju þjóðfélagi.
Ekki pest sem auðvelt er að ráða við.
Höfum það hugfast.
Látum ekki segja okkur annað.
Kveðja að austan.
![]() |
Jafnvel von á hertum aðgerðum fyrir helgi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Bloggfærslur 13. janúar 2022
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (16.5.): 0
- Sl. sólarhring: 10
- Sl. viku: 43
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 40
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar