24.9.2021 | 09:26
Samræðan við þjóðina.
Við Íslendingar stöndum á tímamótum.
Ný öld felur í sér nýjar áskoranir sem við verðum að mæta, þær áskoranir verða ekki leystar með hugmyndafræði eða stjórnmálum liðinnar aldar, sú öld er liðin, hugmyndafræði hennar, óheft auðhyggja og glóbalismi gjaldþrota.
Þrátt fyrir áður óþekkta velmegun og efnahagslegan styrk, þá eru lykil innviðir okkar að grotna, vinnumarkaðurinn okkar er kvalinn af félagslegum undirboðum hins frjálsa flæði Evrópusambandsins, sama frjálsa flæði veltir hverri krónu úr landi í gegnum skúffufélög aflandseyjanna, sama regluverk hefur náð til sín yfirstjórn á orkuauðlindum þjóðarinnar og mun knýja fram markaðsvæðingu þeirra innan ekki svo margra ára.
Önnur regla úr þeim ranni, krafan um hið lægsta tilboð skýrir að við kunnum ekki lengur að byggja hús nema úr hálfónýtum efnum, myglandi og grotnandi fyrir tímann.
Enn önnur meinsemd er offjölgun háskólamenntaðs fólks, fyrir utan siðblinduna að ætla að önnur störf séu unnin af fátæku fólki úr fjarskanum, þá virðist margt af því halda að hlutverk þess sé að semja reglur, verkferla, viðmið, skrifa síðan skýrslur, gera kröfur á að aðrir skrifi skýrslur, útkoman er óskilvirkni í stjórnsýslunni sem sýgur til sín fólk og fjármuni og skilar æ minna frá sér.
Erum við sátt við þetta??
Sátt við hnignunina, sátt við að vinnumarkaður okkar gagnvart ófaglærðu fólki líkist æ meir vinnumarkaði hinnar fornu Rómar, erum við sátt við reglufarganið, óskilvirknina, við hina síhækkandi þröskulda sem mæta fólki sem ætlar að gera eitthvað, en einmitt þetta að ætla að gera eitthvað er forsenda grósku og gróandans í samfélaginu.
Erum við sátt við þá hugmyndafræði að við komandi orkuskiptum sé betur stæðu fólki hyglað en kostnaðurinn látinn lenda á fullum þunga á hinum tekjuminni, eða að innviðir eins og vegir séu fjármagnaðir með notendagjöldum þar sem skúringakonan greiðir jafnt og forstjórinn þegar vegir eru notaðir??
Eða þá hugmyndafræði sem hefur kallað eftir flötum niðurskurði í heilbrigðiskerfinu frá því lengur en ég man, afleiðingarnar sífellt stirðara og óskilvirka kerfi sem jú sýgur til sín fjármuni en býr við ákaflega frumstæðar aðstæður til að leysa verkefni sín. Við starfsmannaumhverfi þar sem fólk er pískað út, með þekktum afleiðingum, æ stærri hluti launaútgjalda fara í veikindi og sjúkrakostnað, restin af starfsfólkinu vinnur stanslausar aukavaktir, sem er dýrasta form launagreiðslna.
Erum við sátt við þetta, erum við sátt við hitt??
Ef svo er þá þarf stjórnmálastétt okkar ekki að þurfa að eiga samræður við þjóð sína.
Allir ligegladir, og styrkur samfélagsins til að takast á við nýjar áskoranir fjarar út, en þær eru óumflýjanlegar, við munum sem þjóð þurfa að takast á við þær.
Þessar kosningar áttu að snúast um þessa samræðu.
Stjórnmálaflokkar hafa þrátt fyrir allt margt að segja, stjórnmálamenn okkar hugsa sitt þó þeir segi annað í því umhverfi sem þeim er boðið uppá.
Þeir hafa skoðanir á til dæmis fjórða orkupakkanum, þeir hafa skoðanir á því hvort sem við þjóð getum ekki lengur staðið sjálfstæð og þurfum skjól og forræði stærri ríkja eða ríkjabandalaga, það er allavega ekki boðlegt að við séum innlimuð í Evrópusambandið í gegnum regluverk EES samningsins, án umræðna.
Auðvitað er það hlægilegt að hlusta á formenn Viðreisnar og Samfylkingarinnar tala um evru sem einhverja lausn til að bæta lífskjör þjóðarinnar, svona miðað við hina stanslausu kreppu eða stöðnun á evrusvæðinu síðustu 10 árin eða svo, og hvaða stöðugleiki er fólginn í að sækja um inngöngu í ríkjabandalag sem er á fallandi fæti vegna innri sundrungar og óstöðugleika??
En er núverandi ástand eitthvað betra??, erum við ekki raun að aðlagast Evrópusambandinu í einu og öllu, í dag krefst það yfirráða yfir orkuauðlindinni, hvenær krefst það yfirráð yfir öðrum auðlindum þjóðarinnar, til dæmis undir merkjum sameiginlegrar matvælastefnu??
Hvernig á að fjármagna vegi eftir innreið rafmagnsbílana??, er annað í boði en veggjöld??
Er hægt að hrista uppí heilbrigðiskerfinu, fá heilbrigða togstreitu á milli ríkis og einkarekstra, án þess að sígræðgi auðhyggjunnar rýi allt inn að beini??
Hvernig sjáum við fyrir okkur framtíðina þar sem allir eru háskólamenntaðir en mörg störf krefjast annars konar menntun eða færni?? Ætlum við að leyfa lögmáli framboðar og eftirspurnar að ráða, sem þýðir að háskólamenntað fólk lækkar í launum en ófaglært hækkar, eða eiga lífskjör háskólamenntaðra að byggjast á lúsarlaunum hinna ófaglærðu, að þeim sé haldið niðri með félagslegum undirboðum og innflutningi á fólki frá fátækari löndum??
Hvernig??, hvernig??, hvernig??
Þar sem ég tengdi þennan pistil sem ég ætlaði að vera búinn að skrifa fyrir löngu, við frétt um að ríkisstjórnin gæti haldið, þá er annað mjög mikilvægt sem þarf að ræða og snýr að þjóðinni.
Og það er í hvernig þjóðfélagi viljum við lifa??
Þolum við ekki velmegun og velferð, þurfum við sundrungu og upplausn til að bregðast við þeim ósköpum.
Hvað sem sagt verður um þessa ríkisstjórn, fortíð sumra flokka og svo framvegis, þá er ljóst að hún náði að stýra þjóðarfleyinu í gegnum öldusjó heimsfaraldursins, og gerði það þokkalega vel.
Lífskjarasamningarnir, mesta kjarabót láglaunafólks í manna minnum, héldu meir að segja þrátt fyrir eitthvað væl um að ekki hafi verið staðið við hitt og þetta, eins og það sé eitthvað issjú þegar þriðjungur gjaldeyristekna þjóðarinnar hverfur á einni nóttu.
Við getum rifjað upp starf barnamálaráðherra, manns sem reynir að láta eitthvað gott af sér leiða og hefur gert það með sóma.
Við getum rifjað upp að tannlækningar barna eru loksins orðnar gjaldfrjálsar, þvílík tekjubót fyrir barnafjölskyldur. Eða það er staðið við reglugerðina um endurgreiðslu á helmingshlut öryrkja vegna sömu þjónustu.
Það eru nefnilega svona atriði sem telja, eru kjarabót, líkt og þegar til dæmis Samfylkingin kom á ókeypis skólamáltíðum í grunnskólum Fjarðabyggðar.
Bætt lífskjör snúa nefnilega ekki um hækkun á einhverjum bótum eða launum, eitthvað sem hverfur jafnóðum vegna til dæmis hækkaðs kostnaðar við að eiga eða leigja húsnæði, heldur um að eitthvað sem er brýnt, er gert viðráðanlegt.
Ef laun heimsins á alltaf að vera vanþakklæti, þá geta menn ekki búist við öðru en að ekkert verði til að þakka.
Að stjórnmál snúist eingöngu um lygi og lýðskrum líkt og þessi kosningabarátta er gott dæmi um.
Af hverju halda stjórnmálaflokkarnir að bull og vitleysa, að ekki sé minnst á yfirboð jólasveinsins, sé leiðin að réttu e-xi á kjörseðilinn??
Er sökin ekki líka okkar, er hún ekki beggja??
Allavega, samræður óskast, vonandi verður þetta síðustu kosningarnar þar sem allir haga sér eins og fífl, látandi slagorðasmiði auglýsingastofanna reka hana.
Búið og gert, en þörfin fyrir samræðuna mun aðeins aukast eftir að úrslit liggja fyrir.
Knýjum á þá samræðu.
Tökum hana sjálf.
Kveðja að austan.
![]() |
Ríkisstjórnin gæti haldið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
Bloggfærslur 24. september 2021
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (17.5.): 0
- Sl. sólarhring: 4
- Sl. viku: 38
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 35
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar