22.9.2021 | 17:59
Þegar rógurinn einn er eftir.
Svíar kalla ekki allt ömmu sína þegar kemur að meintum kynferðisbrotum.
Þegar tvær konur, sem höfðu samfarir við Julian Assange stofnanda Wikileaks, með fullu samþykki allra, sáu eftir samförunum daginn eftir og kærðu hann fyrir nauðgun, þá kröfðu Svíar framsals Assange til að geta réttað yfir honum.
Sök hans var að hafa blekkt þær með einhverju ástarhjali og óljósum loforðum um frekari samband, upplifun blekkingar var sem sagt ígildi nauðgunar.
Púrítanskara og ofstækisfyllra getur eitt samfélag ekki orðið, samt sjá Svíar ekki þá sök hjá Kolbeini Sigþórssyni að úthrópa hann sem kynferðisofbeldismann og setja hann út af öllu sakramenti líkt og krafan var um hér á landi.
Knattspyrnusérfræðingur Gautaborgspóstsins orðar kjarna málsins vel;
"Þeir hafa engan rétt til þess að rifta samningi hans við félagið því þeir atburðir sem um er að ræða áttu sér stað fyrir löngu og áður en hann varð leikmaður hjá IFK Gautaborg. En þeir eru sem vinnuveitendur skyldugir samkvæmt lögum að styðja hann í þessari stöðu. Ég tel að félagið hafi höndlað málið vel".
Málið var liðið og uppgert, og af því gat ekki orðið neinir eftirmálar.
Eftir stendur hvað gerðist eiginlega á Íslandi sem hratt af stað því fári sem níddi niður saklaust fólk, hrakti fólk að ósekju úr störfum sínum hjá KSÍ, skapaði hér andrúmsloft ótta og ógnar, þar sem enginn þorði að vitna um sannleikann, eins og að segja til dæmis; "ég kannast ekki við þetta", því þá var öruggt að viðkomandi lenti sjálfur í fárinu.
Kínverska menningarbyltingin hvað!!, Rauðu varðliðarnir hvað!!, þegar á reyndi þá var ekki dýpra á ofstækinu hjá okkur.
Eftir að staðreyndir málsins liggja fyrir, eins mikið og reynt var að þagga þær niður og skjóta sendiboðann, þá hefur enginn málsmetandi maður séð ástæðu til að biðja Kolbein Sigþórsson afsökunar, biðja fráfarandi stjórn KSÍ afsökunar, biðja þau Guðna Bergsson og Klöru Bjartmarz afsökunar.
Forseti Íslands, forsætisráðherra Íslands, menntamálaráðherra Íslands, voru hluti af hýenuhjörðinni sem rann á blóðslóðina, allt út af einu viðtali við unga stúlku sem fór ekki efnislega rétt með eitt einasta atriði í frásögn sinni.
Auðvitað gat fólk ekki vitað það þá, en hver stekkur svona á blóðslóðina án þess að kynna sér málin, nema skríllinn í sinni ljótustu mynd??
Er sem sagt forseti Íslands, forsætisráðherra Íslands, menntamálaráðherra Íslands, hluti af skrílmenningu í anda þess ofstækisfólks sem kennt er við kínversku menningarbyltinguna??
Greinilega fyrst þetta fólk hefur ekki manndóminn til að biðja hlutaðeigandi afsökunar.
Það er núna ljóst að Guðni Bergsson fór rétt með þegar hann sagði að ekkert ofbeldismál hefði komið formlega inná borð til hans sem formanns KSÍ.
Rógurinn og gróusögurnar sem eru í gangi snúa allar af málum sem eru á tímalínu fyrir formennsku Guðna.
Atlagan að honum er því smánarblettur allra viðkomanda, og verður það þar til fólk hreinsar æru sína með því að biðjast afsökunar á gönuhlaupi sínu.
Smán sem aðeins vex með tímanum því það er ekki merkilegt fólk sem getur aðeins haldið andliti sínu innan um sína líka í hýenuhjörðinni.
Mandran um að það eigi alltaf að trúa orðum meintra þolenda gerir fólk aðeins heimskara, svo það má efast um að sé hæft í að sinna nokkru öðru en að bursta skó í sögum eftir Charles Dickens.
Það er ljóst að á ögurstundu brást stjórn KSÍ, hún hafði ekki þann kjark sem Svíar hafa að standa með fórnarlömbum samfélagsmiðlaníðs, hún brást leikmanni sem hafði orðið á, en gert upp sín mál í fullri sátt við þá sem báru hann sökum.
Hún brást leikmanni sem hafði þjónað vel, lagt sig allan fram fyrir landsliðið, og átti ekkert annað inni en fullan stuðning, þó það hefði kostað einhvern tímabundin stuðning héra í hópi styrktaraðila, samfélagsmiðlaníð fjarar alltaf út að lokum og eftir standa staðreyndir mála.
Hún brást formanni sínum og framkvæmdarstjóra, sem að ósekju voru sökuð um eitthvað sem þau höfðu ekkert með að gera.
Og ekki hvað síst þá brást hún framtíðinni í íslenskum fótbolta, því þó margt hafi betur mátt fara í fortíðinni, og mörg klögumálin réttmæt, þá er það eitthvað sem menn læra af, bæta úr.
En að láta undan Níðhöggum eru skýr skilaboð til allra ungra drengja að þeir séu réttlausir í íþrótt sinni, að það sé hvenær sem er hægt að vega þá með rógi og níði, sökum kyns þeirra.
Í dag er rógurinn einn eftir.
Fótboltamenn fortíðarinnar eru örugglega ekki syndlausir frekar en annað fólk, og kynbundið ofbeldi er og hefur verið viðloðandi samfélag mannanna, og verið liðið alltof lengi.
Þær syndir réttlæta samt aldrei þá aðför að siðuðu samfélagi líkt og þetta KSÍ-fár er.
Óstaðfestar sögur réttlæta aldrei hópsekt, aldrei rógburð, eða saklaust fólk sé tekið fyrir og þess krafist að það vitni og játi.
Slíkt er og verður alltaf svívirða.
Rógurinn lifir núna sjálfstæðu lífi.
Ekki seinna en í gær þurfti Gróan í ritstjórn Morgunblaðsins að hnýta við í frétt um að Klara Bjartmarz hafi snúið aftur til starfa sinna að "KSí varð fyrir mikilli gagnrýni fyrir þöggun og meðvirkni með gerendum innan sambandsins.".
Þegar enginn er gerandinn, þegar engar eru staðreyndirnar, þá skal samt halda áfram að leggja út af tilbúningnum.
Áfram skal halda að naga af fólki æruna.
Gömul saga og ný með Gróurnar frá Leiti, en ný hvað Morgunblaðið og ritstjórn þess varðar.
Kosturinn er þó sá að núna verða ekki lengur skrifaðir leiðarar eða bréf frá Reykjavík þar sem sett er út á sið og hegðun annarra.
Núna verður ekki lengur sagt; Svona gerir maður ekki, eða þetta með grjótkastið úr glerhúsi eða flísina sem sást ekki fyrir bjálkanum, innistæðan fyrir slíkum orðum er ekki lengur til staðar, hafi hún þá nokkurn tímann verið það.
Það er skítt að Svíar skuli sjá sem okkur var um megn að sjá.
Að allir hafa sinn rétt og við höfum leikreglur sem þarf að virða.
Vonandi höfum við sem þjóð eitthvað lært af þessu.
Til dæmis að það er ekki lifandi í samfélagi þar sem Níðhöggar og Gróur sjá um fréttaflutning, dómstóll götunnar um réttarfarið.
Kínverjar sáu það fyrir rest og fangelsuðu fjórmenningaklíkuna og hafa síðan ekki litið um öxl.
Sárin eru samt ennþá að gróa eftir þetta 10 ára tímabil sturlunar og gengdarlausra ofsókna.
Þar sem orð voru talin ígildi staðreynda, ásakanir voru fullsannaður glæpur.
Það voru ekki við sem fundum upp frasann að það eigi skilyrðislaust að trúa orðum ásakanda, rætur hans eru miklu eldri, og hafa alltaf verið fóður ofsókna og réttarglæpa.
En ef við höfum ekkert lært, þá verður annað svona fár.
Og svo annað.
Svo annað.
.......
Svo annað.
Þar til Níðhöggur er einn uppistandandi, aðrir fallnir fyrir eiturtungu hans.
Kannski.
En kannski biðja þau Guðni, Katrín og Lilja Guðna og Klöru afsökunar, kannski hafa þau manndóminn til þess.
Það væri mikið áfall fyrir Níðhögg og Gróu.
Hver veit.
Hver veit.
Kveðja að austan.
![]() |
Þeir hafa höndlað mál Kolbeins vel |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
22.9.2021 | 09:49
Já en hvað um loftslagsmálin??
Af hverju komast þau ekki á blað í kappræðum leiðtogana??
Er Þorgerður Katrín búin að gleyma að hún ætlar hvorki meir eða minna lýsa yfir neyðarástandi í lofslagsmálum heimsins, og eitthvað minnir mig að Píratar hafi talað á svipuðum nótum.
Samfylkingin segir að lofslagsmálin verði þungamiðja næstu ríkisstjórnar.
Samt eru loftslagsmálin ekki rædd á þessum síðustu metrum kosningabaráttunnar, það er marka má þessa frétt Morgunblaðsins.
Líklega skýring að hið meinta stríð íslenskra stjórnmálamanna við Útblásturinn felst í skattlagningu á öllu sem viðkemur samgöngum, sem vegna stærðar landsins og dreifbýli, er lífæð, forenda atvinnu og byggðar.
Skatturinn þarf að bíta sagði umhverfisráðherra á góðri stundu, en kveikti ekki á perunni að skattur sem er lagður jafnt á alla, bítur hina tekjuminni en er eins og léttvægt kitl fyrir þá efnameiri.
Hugmyndafræðin er úr ranni Friedmans sem Hannes Hólmsteinn kenndi í stjórnmálaskóla sínum, margreynd og þróuð af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum víða um heim. Vandinn við yfirfulla spítala hvarf eins og döggin, ekki vegna dreifinga á vítamína og lyfja, heldur vegna gjaldtökunnar svo fátækt fólk hafði ekki lengur efni á að nýta þjónustu þeirra, jafnvel þó lífshætta væri undir.
Fólk er ekki fífl, þó stjórnmálamenn okkar haldi að það líkist þeim.
Gunnar Smári er ekki fífl, þó það megi efast um einlægnina sem býr að baki, hann þekkti frjálshyggjuna sem hann einu sinni blótaði og benti á hið augljósa;
"Til að draga úr þeirri losun sem á sér stað viljum við betri sátt um orkuskiptin sem eru ósanngjörn í dag og birtast okkur aðallega í formi afsláttar fyrir hátekjuheimili á meðan lágtekjuheimili sem eru ekki vel þjónustuð af almenningssamgöngum þurfa að greiða há gjöld á dælunni".
Það er engin tilviljun að Sósíalistaflokkurinn siglir hraðbyri inní tveggja stafa fylgi, þetta vita hinir flokkarnir sem kenna sig við jafnaðar eða félags eitthvað, þess vegna þegja þeir í dag um skattana sem eiga að bíta, því sá þriðjungur þjóðarinnar sem á að útiloka frá samfélaginu til að ná lofslagsmarkmiðum þjóðarinnar, hann kýs, það gleymdist nefnilega að miða kosningarétt við tekjur eða þjóðfélagsstöðu.
Síðan má spyrja sig svona almennt, hvaða víðáttuvitleysa er á ferðinni gagnvart þeirri vá sem blasir við framtíð barna okkar??
Af hverju geta menn ekki tekið þennan vanda alvarlega og gert það sem þarf að gera svo mannkynið lifi af??
Af hverju látum við sökudólgana stjórna hinni meintu vörn mannsins, vörn sem miðar að því einu að gera þá ríkari, ná heljartökum á framleiðslu heimsins, en snertir í litlu eða engu þann vanda sem við er að glíma.
Til að átta okkur á hve þessi meinta vörn er heimsk þá má rifja upp dæmi af frétt sem birtist undir lok síðustu aldar og fjallaði um mengun í bæjarfélagi einu í Tékkóslóvakíu, þar sem fyrirtæki í efnaiðnaði dældi öllum úrgang í þró sem var útvíkkuð tjörn, vatnasvið hennar náði því í grunnvatn og eitrið seytlaði bæði í drykkjarvatn sem og út í jarðveg í landi bænda svo afurðir þeirra voru mengaðar.
Augljóslega þurfti að hætta þessari dælingu og eyða úrganginum á öruggan hátt án þess að mengun af honum leitaði út í umhverfið. Og um það stóð deilan, fyrst könnuðust menn ekki við mengunina en sögðu svo síðan ekki hafa efni á að tryggja öruggar mengunarvarnir, og það voru náttúrulega störf í húfi.
Gamalkunnugt stef, en í fréttinni kom ekki fram að einhver hefði verið svo víðáttuvitlaus að leggja til þá lausn, að heimilin á svæðinu þyrftu að taka sig á í flokkun á sorpi, batterí og geymar geta alltaf valdið mengun, spurning hvort hvert heimili setti upp hreinsunarbúnað sem fjarlægði þungamálma og annað eitur úr drykkjarvatni, jafnvel að menn flyttu drykkjarvatn á svæðið og allt frárennsli frá, skiptum um jarðveg eða annað sem var verulega íþyngjandi.
Af hverju ekki??, örugglega allt þarfaverk því fólk mengar, vissulega, nema það bara kom málinu ekki við.
Sökudólgurinn var verksmiðjan sem mengaði, og mengunin var alltaf sú sama á meðan ekki var tekist á við hana. Að sterilisera heimili og fyrirtæki fólks skipti engu hvað það varðar.
Þetta er kjarni málsins, menn eru ekki að glíma við vandann, menn bara þykjast gera það.
Með íþyngjandi sköttum og íþyngjandi regluverki koma menn menguninni frá sér til annarra, þar sem sama vara er framleidd með margfalt meiri útblæstri en er í dag í þróuðum ríkjum Vesturlanda.
Eftir stendur mengunarlítil framleiðsla, en hún væri hvort sem er, og hefur sem slík ekki áhrif á kolefnisbókhald heimsins.
Ef brennsla jarðefnaeldsneytis hefur sannarleg áhrif á lofslag jarðar, þá drögum við úr brennslu, en aukum hana ekki með tilflutningi framleiðslu til landa þar sem megnið af orkunni kemur úr kolabrennslum.
Ef úrgangur og skítur er að drekkja heimshöfunum, þá finnum við uppsprettu viðkomandi úrgangs og hjálpum viðkomandi þjóðum að ná tökum á sorphirðu og förgun úrgangs.
Hve heimskir þurfa menn að vera til að skilja ekki að það er sýndarmennskan ein að banna einnota plast í landi þar sem sorphirða tekur við megnið af plastinu, á sama tíma þegar sorpið flæðir óhindrað út í náttúruna í ofurvöxnum stórborgum þriðja heimsins.
Aðgerða er þörf en það er ekkert verið að gera í dag annað en að auka vandann.
Skattlagning dregur þrótt úr vestrænum fyrirtækjum til að finna mengunarminni lausnir, og þegar heimurinn er einn markaður, þá tapa þau í samkeppninni við framleiðslu landa þar sem engar eða litlar kröfur eru gerðar.
Í þessu samhengi megum við ekki gleyma að vestræn fyrirtæki borga miklu hærri laun en þrælakistur glóbalsins, þegar fleira íþyngir þá er eðlilegt að þau láti undan, leita með framleiðsluna annað, eða hreinlega hætta rekstri.
Það þarf ekki neitt sem bítur, neytandinn öskrar á grænar lausnir, það er svipan sem stjórnar hinni þrotlausu leit að nýjum lausnum og nýrri tækni.
Ásamt hvötum, grænum hvötum, þar má Viðreisn eiga að hún talar að viti.
Ef fólk vill að börn þess og barnabörn eigi sér framtíð, þá hættir það að hlusta á þessa vitleysu kostaða fólksins í vasa glóbalauðsins.
Það krefst raunhæfra aðgerða, og það sjálft reynir að gera sitt, til dæmis að beina neyslu sinni frá einnota vörum í margnota, ferðast í nærumhverfi frekar en fjær, og svo framvegis.
Raunhæfar aðgerðir eru til dæmis að setja skorður við innflutning á mengunarvörum og einnota vörum, það er vörum sem illa hannaðar að þær endast ekki nema brot af því sem sambærilegar vörur entust áður en græðgimódel glóbalsins tók yfir framleiðslu heimsins.
Alveg eins og tóbaksvörur eru merktar hættulegar, þá má merkja búðir sem sérhæfa sig í að dreifa ódýrum vörum í samkeppni við fyrirtæki sem þó reyna að framleiða eitthvað ennþá á Vesturlöndum, "Varúð, með því að stíga inní þessa verslun, þá tekur þú þátt í glæpsamlegu athæfi". Myndi þetta ekki sóma sér vel hjá Icewear eða HM??
Síðan á að taka úr sambandi alla ferla sem leiða til innkaupa á mengunarvörum, það er vörum sem eru framleiddar í þrælabúðum glóbalsins, ferla eins og skylduna hjá hinu opinbera að taka lægsta tilboði og svo framvegis.
Vandinn er nefnilega kerfislægur og huglægur, að átta sig ekki á því, eða takast ekki á við það, er feigðarflan þess sem vill vel, en er ófær um bjarga sér og sínum.
Tímaglasið er runnið út, það er ekkert flókið við það.
Spurningin er aðeins hvort við ætlum að spyrna á móti, eða gefast upp.
Allar staðreyndir liggja fyrir.
Við vitum hverjir menga og af hverju þeir menga.
Við vitum hvaða kerfi knýr áfram síaukna mengun og rányrkju umhverfisins.
Við vitum að lausnir vestrænna stjórnmálamanna eru sýndarlausnir, þær sneyða framhjá kjarna málsins, eru í besta falli skaðlitlar, en oft til tjóns líkt og reglugerðin um íblöndun lífeldsneytis á bifreiðar, fyrir utan að bílar menga meira vegna hennar, þá var þessi reglugerð bein árás á lungu heimsins, regnskógana sem hafa verið höggnir grimmt svo hægt sé að framleiða viðkomandi lífeldsneyti.
Við vitum líka að það er hægt að gera eitthvað.
Við erum jú hinn vitiborni maður.
Það fylgir stríðum sem virðast óvinnandi, að ef menn þrauka, þá leggst eitthvað til, og þau vinnast oft að lokum.
En hingað til hefur ekkert stríð unnist sem ekki hefur verið háð.
Í dag háum við ekki stríð við lofslagsvána.
Við þykjumst það bara.
Það er harmur barna okkar.
Kveðja að austan.
![]() |
Kappræðuþáttur 1: Margt ber í milli þrátt fyrir allt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Bloggfærslur 22. september 2021
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (17.5.): 1
- Sl. sólarhring: 5
- Sl. viku: 39
- Frá upphafi: 1440165
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 36
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar