8.4.2021 | 18:24
Landamærin leka.
Það er staðreynd, með afleiðingum sem við þekkjum öll á eigin skinni.
Börnin okkar voru send heim úr skólanum, öll íþróttaiðkun var stöðvuð, líkamsræktarstöðvum, sundlaugum lokað. Fermingar vori slegnar af, fólki var meinað að kveðja samferðafólk sitt nema í gegnum alnetið, leikshús og kvikmyndahúsum lokað, fjöldatakmarkanir í verslunum, veislur mannfagnaðir, skíðasvæði, allt sem gefur hversdeginum lit var stöðvað.
Vegna þess að landamærin láku.
Vegna ferðalaga fólks sem getur ekki haldið sig heima hjá sér á meðan heimsfaraldur kóvid gengur yfir.
Gefur skít og drullu í náungann, samfélag sitt, samferðafólk, líkt og við sáum einn þingmann Sjálfstæðisflokksins gera glottandi góðglaður í algjörlega siðlausri fréttafrásögn Mbl.is.
Ókey, okkur er sagt að sum þessa ferðalaga yfir landamærin séu nauðsynleg, og það er vissulega rétt, fólk er að koma heim eftir dvöl erlendis, þarf að ferðast vegna atvinnu sinnar, og svo framvegis.
Má vel vera og er örugglega rétt, en á þá nauðsyn er aðeins einn mælikvarði, og það er hvort viðkomandi sé tilbúinn að fara í örugga sóttkví við landamærin, og haldi ekki út í samfélagið fyrr en hann er öruggur um að smita ekki.
Ef ekki þá er ferðalag hans ekki brýnt, þá er hann eins og hvert annað skoffín sem á ekkert erindi hingað, það er hans að dæma og meta, sé hann ekki tilbúinn í sóttkvína á að senda hann tafarlaust til baka.
Alvaran er staðfest, það er ekki hægt að gera sér upp vanþekkingu hvað það varðar;
"Þrjár stórar hópsýkingar bera uppi þessi 97 smit. Ein hópsýking samanstóð af einni veirutegund sem ekki hefur tekist að staðsetja. 48 smituðust út frá henni og á annað þúsund fóru í sóttkví. Önnur hópsýkingin samanstóð af tólf manns. Hún var rakin til ferðamanns sem ekki hélt sóttkví og þurftu á fjórða hundrað manns að fara í sóttkví. Þriðja hópsýkingin telur 11 manns og er einnig rakin til einstaklingas sem ekki hélt sóttkví. Aðrar sýkingar í minni hópum má einnig rekja til landamæranna.".
Þess má geta að yfirmaður smitrakningarteymis Almannavarna sagði í fréttum í dag að sú hópsýking sem ekki hefur verið rakin komi örugglega frá landamærunum, líklegast frá einstaklingi sem hafi bæði komið og farið, áður en hann var einangraður, en skyldi eftir smitið, samfélagslegu lokanirnar og sóttkví á annað þúsunda manna.
Þetta er raunveruleikinn og það er skylda stjórnvalda að bregðast við, geri þau það ekki, þá ber þeim að víkja með góðu, eða illu ef þau vilja ekki fara.
Það vald er hjá forseta Íslands, hann er öryggisventill stjórnarskráarinnar þegar óhæft fólk stjórnar landinu, óhæft fólk sem viljandi vísvitandi stefnir almenningi í hættu með vanhæfni sinni og aðgerðaleysi.
Hvernig er á nokkurn hátt að hina nýju reglugerð heilbrigðisráðherra við sóttvarnir sem stöðva lekann á landamærunum??
Vissulega er margt þarft í henni sem gerir vist fólks, sérstaklega barnafólks, manneskjulegri í sóttkvínni, en hún tekur á engan hátt á lekanum.
Allir segja, ég held sóttkví, eins og fólk játi fyrirfram brot sín, þá væri nú lítið fyrir lögregluna að gera. En ef ekki, hvað þá?? Á að treysta öllum??
Ókei, þeir sem það segja, myndu þeir taka uppá því að skilja hús sín eftir ólæst þegar þeir fara í ferðalög, því auðvitað segjast allir ekki vera þjófar, og myndu ekki gera sig heimkomna og fjarlægja verðmæti. Sem er örugglega rétt í tilvikum allflestra, en ekki allra.
Þess vegna læsir fólk húsum sínum því þjófnaðir eru staðreynd, sá sem segist skilja hús sín eftir opin, hann lýgur eins langt og nef hans nær.
Brot á sóttkví eru sama eðlis.
Þau eru undantekning, en grafalvarleg, og ógna fjöldanum, ógna samfélaginu.
Fjöldinn á ekkert val, hann býr hérna, það er hann sem tekur þá ákvörðun að ferðast ekki erlendis, það er hann sem virðir allar sóttvarnareglur.
En sá sem ferðast á alltaf val, hvort hann fari eða verði, og ef hann fer, þá þarf hann að virða reglur um sóttkví á landamærum í fjölda landa og getur alveg virt þær hérna líka þegar hann kemur til baka.
Fólk sem býr erlendis, getur dvalist erlendis ef það getur ekki virt rétt okkar hinna um frelsi frá veirunni.
Þetta veit allt siðað hugsandi fólk og þykir sjálfsagt að hlýða.
Það er undantekningin, viðrinin og skoffínin sem hafa yfirtekið umræðuna, og undir kynda gírugir sérhagsmunir sem frá fyrsta degi hafa barist gegn sóttvörnum á landamærunum.
Glæpurinn sem kenndur er við héraðsdóm er aðeins síðasta atlagan af mörgum sem hefur dunið á þjóðinni, haldið henni meir eða minna í fjötrum sóttkvíar frá því að heimsfaraldurinn barst til landsins í lok febrúar 2020.
En þetta veit ekki ríkisstjórn Íslands.
Hún lúffar fyrir hinum tilbúna kostaða stormi vatnsglassins, ver ekki þjóð sína, kemur með sýndartillögur sem eru aðeins ávísun á eitt.
Áframhaldandi samfélagslegar lokanir, sífelldan ótta við nýja bylgju, ekkert öryggi, ekkert frelsi.
Við erum eyja með um 300 þúsund íbúa, Taiwan er eyja með 28 milljónir, og þar er ekkert virkt smit, allt mannlíf gengur sinn eðlilegan gang.
Landamærin leka.
Stjórnvöld heykjast á að þétta þau.
Líklegast vegna andstöðu innan Sjálfstæðisflokksins, hann er klofinn í herðar niður, svo mikil eru ítök hinna fjársterku sérhagsmuna.
Hvað er þá til ráða?
Guðni er enginn Ólafur, enginn skörungur, hann mun ekki verja þjóð sína og víkja hinni óstjórnhæfu ríkisstjórn frá.
Froðusnakk stjórnmálanna í bland við viðrinishátt þeirra sem stilla upp helgum rétti fólks að skaða aðra, mun einkenna umræðuna næstu daga.
Á meðan mun veiran malla.
Nýta sér lekann, gera það sem hún var sköpuð til að gera, útbreiða erfðaefni sitt út í samfélagið.
Ekkert mun breytast því hinn þögli meirihluti, er einmitt kenndur við þögn, því hann lætur allt yfir sig ganga.
Allar þær starfsstéttir sem eru sífellt sendar heim, munu þegja og þegja og þegja.
Allir þegja og láta því viðrinin yfirgnæfa umræðuna.
Glottandi aurinn að baki, hefur náð sínum markmiðum.
Og ég greyið hélt að það væri eitthvað spunnið í þetta fólk sem stjórnaði okkur, að það væri skárri kostur en vitleysingabandalagið.
Og ég hélt að Þórólfur myndi standa ístaðið, uppfylla skyldur sínar gagnvart landi og þjóð.
En væri ekki leppur eða strengjabrúða misvitra stjórnmálamanna.
Jæja, maður hefur ekki alltaf rétt fyrir sér, það eitt er víst.
En þetta er jafn ömurlegt fyrir það.
Auðvitað vonar maður það besta, en engin ástæða önnur en að óttast hið versta.
Sviðin jörð Evrópu sannar að orð sigra ekki veiruna, aðeins markvissar aðgerðir.
Allavega er þessi reglugerð ekki dæmi um slíka aðgerð.
Þá huggar maður sig bara við Kára;
"Allir eiga að fara í sóttkví."
Hitt er nefnilega ekki val hvort sem okkur líkar betur eða verr.
Veiran lítur nefnilega sínum eigin lögmálum, hún berst á milli fólks nema skorið sé á smitleiðir hennar.
Það er bara svo.
Allir eiga að fara í sóttkví.
Kveðja að austan.
![]() |
Ný reglugerð: Ekkert gjald fyrir dvöl í farsóttarhúsi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
8.4.2021 | 12:46
Uppgjöf Þórólfs.
Trúnaðarmanns almennings, manns sem sór eið að vernda þjóðina gegn hættulegum smitsjúkdómum, farsóttum, er honum til vansa, vonandi gerð í þunglyndi augnabliksins.
Þessi orð hans eru óásættanleg, tilræði við lýðheilsu þjóðarinnar; " .. um tillögur að aðgerðum á landamærunum. Þær eru innan núverandi lagaramma og eru að hans mati ekki eins áhrifaríkar en fyrri tillögur voru.".
Þórólfur er skyldugur samkvæmt lögum um embætti hans að koma með tillögur sem hann telur nauðsynlegar til að hindra útbreiðslu hættulegra smitsjúkdóma, ekki tillögur sem hann telur þóknanlegar stjórnmálamönnum.
Hann ber ekki ábyrgðina á því að þjóðin hefur kosið viðrini á þing, fólk sem telur sig hafa rétt til að fikta með lög um sóttvarnir þó það hafi hvorki til þess vit eða þekkingu.
Hann ber ekki ábyrgð á dómi héraðsdóms, eða að stjórnvöld hafi ekki brugðist við honum á þann eina hátt sem þau eru skyldug til, að láta dóminn ekki skaða almenning.
Þórólfur sjálfur hefur upplýst um tilurð þeirra þriggja hópsýkinga sem hafa komið upp í þessari fjórðu bylgju faraldursins, þau eru vegna leka á landamærum, vegna einstaklinga sem hafa ekki virt reglur um sóttkví milli skimana, og hafa valdið samfélaginu gífurlegu tjóni.
Öll þjónusta sem felur í sér hópamyndun er lokuð, með tilheyrandi afleiðingum fyrir fólk og fyrirtæki sem veita þessa þjónustu, hundruð saklausra hafa verið skikkuð í sóttkví, tugir hafa sýkst.
Það er guðslán að enginn hefur veikst alvarlega, en um það er aldrei vitað fyrirfram.
Á þetta á Þórólfur að benda.
Hann á að segja dóm héraðsdóms glæpsamlegan, frá því að hann féll og fólk fór að yfirgefa sóttkví sína, og fram að þeim tíma sem heilbrigðisyfirvöld hafa til að bregðast við glæpnum, getur smit dreift sér út samfélagið, sent aftur hundruð í sóttkví, viðhaldið samfélagslegum lokunum, og ekki hvað síst, hitt fyrir einstaklinga sem eru næmir fyrir veirunni, kostað þá heilsuna, jafnvel lífið.
Enginn maður, þó hann kalli sig dómara, þó hann sái fram á þrútna vasa frá hinni örlátu hönd sérhagsmunanna, hefur þann rétt að leggja líf saklausra í hættu, ekki þegar vitað er hve veiran er hættuleg, hve alvarleg áhrif hún hefur haft á allt mannlíf á meginlandi Evrópu, ekki þegar er vitað að saklaust fólk getur skaðast af ákvörðun hans.
Á þetta á Þórólfur að benda, hann á að segja þetta á mannamáli, og hann á að standa við málsvörn sína um skilyrðis rétt sinn til að leggja til nauðsynlegar sóttvarnir eftir því sem aðstæður hvers tíma krefjast.
Sóttvarnir snúast ekki um þrætubók lögfræðinnar, heldur líf og limi landsmanna, og þá kröfu fólks að allt sé gert til að hindra útbreiðslu alvarlegra smitsjúkdóma, og reynt sé að verja eðlilegt líf fólks eins og hægt er.
Þess vegna er Þórólfur læknir, ekki lögfræðingur.
Þess vegna er Þórólfur maður en ekki viðrini.
Það er ekki hans að bregðast.
Það er ekki hans að þóknast linkulegum stjórnmálamönnum.
Það er ekki hans að bogna undan hinu stöðugu nagi gírugra sérhagsmuna.
Það er hans að standa í lappirnar.
Girtu þig því i brók Þórólfur.
Hættu þessu voli.
Gerðu það sem þú átt að gera.
Víktu ella.
Kveðja að austan.
![]() |
Búinn að senda minnisblað til ráðherra |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.4.2021 | 09:53
Einstakt tilfelli.
Lætur bugaður Þórólfur út úr sér í þessari frétt.
Hverjar skyldu vera stærðfræðilegar líkur á því að einstakt tilfelli komi til landsins og valdi hér hópsýkingu.
Svona lætur aðeins skekinn maður út úr sér.
Sem er slæm frétt fyrir almenning, að nagið gegn sóttvörnum þjóðarinnar sem nær inní ríkisstjórn Íslands, hafi valdið heilaþoku, svona svipað og kóvid veikir hafa lýst, og svipt trúnaðarmann þjóðarinnar á þessum dauðans alvöru tímum, baráttuþreki sínu og styrk.
Vonum samt að þetta sé einstakt tilfelli, yljum okkur við skeleggið hjá Kára á meðan en þetta mátti lesa á Vísi.is í gær;
"Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir þennan einstakling hafa greinst með mikið af veirunni í sér þrátt fyrir að vera með mótefni eftir fyrri sýkingu. Þetta hafi verið stökkbreyting af breska afbrigðinu sem ekki hafi áður sést hér á landi. Það bendi til þess að hann hafi komið með veiruna til landsins en ekki smitast hér.
"Þetta er alvarleg áminning um mikilvægi þess að vera ekki að létta á aðgerðum á landamærum og því miður sitjum við núna uppi með það að fólk frá hinum ýmsu landsvæðum getur komið til Íslands án þess að þurfa að lenda í sóttkví, sem er einfaldlega með hin og þessi vottorð. Og ég held að það sé full ástæða til þes að endurskoða það," segir Kári.
Reglur á landamærum voru rýmkaðar í gær og getur fólk frá löndum utan Schengen nú einnig komið til landsins með vottorð um mótefni. Kári telur ekki duga að farþegar fari í eina sýnatöku á meðan staðan í faraldrinum sé viðkvæm á heimsvísu. Allir eigi að fara í sóttkví.".
Það er aðeins eitt ráð við hinum síendurtekna leka landamærunum, það er að stöðva hann.
Ekki með orðum, enda ef slíkt dygði þá yrði lítið fyrir pípara að gera, heldur með gjörðum.
Annað hvort bönnum við ferðalög fólks, eða skikkum það í sóttkví við landamærin.
Allt annað er að rífast við staðreyndir raunveruleikans.
Og það erum við, almenningur sem gjöldum þeirrar heimsku.
Líðum það ekki.
Kveðja að austan.
![]() |
Afbrigðið ekki sést áður hérlendis |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggfærslur 8. apríl 2021
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (18.5.): 0
- Sl. sólarhring: 7
- Sl. viku: 41
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 37
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar