12.4.2021 | 13:31
Þjóðin eitt.
Lögmenn gegn sóttvörnum núll.
Landamærin halda og stjórnvöldum ber þá skylda til að færa allt mannlíf í eðlilegt horf.
Til vara alla íþróttaiðkun.
Til vara vara allavega fótboltann.
En víkjum aðeins að orðum Þórólfs; ".. mikilvægt að hafa góða stjórn á landamærunum, annars fáum við þetta bara inn í landið".
Það er ekki hans hlutverk að tala um þetta, það er hans hlutverk að sjá til þess að þetta sé gert, að sóttvarnir á landamærum séu þess eðlis að þær haldi.
Annars er hann ekki starfi sínu vaxinn, og ber að víkja.
Nema lekinn sé eftir óþekktri leið sem illt er að verjast, til dæmis með kaffisendingum frá Brasilíu eða öðrum svæðum þar sem ófullnægjandi sóttvarnir hafa gefið veirunni tækifæri á að þróa með sér illvígari afbrigði.
Hópsmitið í Mýrdalnum var vegna þess að maður með pappír um að hann smitaði ekki, smitaði, en Þórólfur sagði líkurnar svo litlar að slíkt hefði ekki átt að gerast, og þar með útilokað að menn með pappíra um smitleysi, smiti á ný inní samfélagið.
Hafi Þórólfur rangt fyrir sér hvað það varðar, sem auðvita allir vona að svo sé ekki, þá er svarið ekki eins og hann gaf í skyn, að þá yrði hann tilneyddur að taka á ný upp sóttvarnarhandjárnin úr læknatösku sinni, og setja á þjóðina, heldur að hann axli ábyrgð og víki.
Veiran er þá komin til að vera, það er ekki endalaust hægt að fíflast í þjóðinni.
Sama gildir ef sóttkvíar í heimahúsum halda ekki, eða ef hin svokölluðu sóttvarnarhótel eru meira hótel en sóttkví, ekki sé gætt að einangrun veirunnar.
Reglugerðin treystir fólki, og sé fólk ekki traustsins vert, þá só bí it.
Þjóðin á ekki að vera scapegoat vanhæfra embættismanna sem geta ekki varið landamærin.
Það er nefnilega þannig að það er komið að Ögurstundu í sóttvörnum þjóðarinnar.
Fjórar bylgjur höfum við látið yfir okkar ganga vegna þess að landamærum er ekki lokað.
Ekki á fólk heldur smit, það er veiran sem smitar en ekki fólk, þeir sem smita eru aðeins hýslar hennar.
Skýringarnar á þeim öllum er óskhyggja í bland við bull um að ekki sé hægt að halda veirunni úti.
Margfalt, margfalt fjölmennari lönd hafa náð því, þar á meðal fjölmennasta ríki heims.
Óskhyggjan hefur alltaf snúist um að það dugi að ná næstum því öllum smitberum, en sama tíma fara menn með möndru þekkingarinnar, að það þurfi aðeins eitt smit til að smita samfélag.
Í Wuhan tók það rúmar 6 vikur frá fyrsta skráðu smiti þar til veiran var það útbreidd, að eina ráðið var að læsa allt mannlíf inni, og hleypa fólki ekki út fyrr en öruggt var að veiran var útdauð.
Núna vita menn betur og segja að varnirnar á landamærunum dugi, veiran haldist úti.
Hafi menn rangt fyrir sér þá axla menn ábyrgðina en koma sökinni ekki á þjóðina enn einu sinni.
Aðeins þá, hugsanlega, hugsanlega er almenningur tilbúinn að taka einn slag í viðbót.
En ef sama fólkið stjórnar, þá er slíkt algjörlega tilgangslaust, og eins gott að láta veiruna hafa sinn gang.
Því annars er þetta bara aftur og aftur og aftur.
Hringekjan endalausa sem enginn vilji er til að stöðva.
Vonandi halda landamærin.
Vonandi mun það sem er fullreynt að virki ekki, loksins virka.
Annað eins hefur nú gerst.
Liverpool varð til dæmis Englandsmeistari í fyrra.
Annars.
Já, annars??
Kveðja að austan.
![]() |
Skilar minnisblaði í dag útlit fyrir tilslakanir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
12.4.2021 | 08:47
Klúður heilbrigðisráðherra.
Hafi einhver efast að á meðal vor sé ennþá til rammgöldrótt heiðni sem hefur vald og kraft til að gala magnaðan seið, þá ættu síárásirnar á sóttvarnir þjóðarinnar á landmærum að færa hinum sama sönnur á að sá efi hafi verið óþarfur.
Er ég þá ekki að vísa í að myrkraröfl hægri öfga hafa lagt undir sig ritstjórnarherbergi Morgunblaðsins, rót illskunnar hefur jú fylgt manni frá því sköpun hans, heldur þá atburðarrás á þingi sem varð til þess að fyrsta stoð réttarríkisins, löggjafarvaldið brást þjóðinni á Ögurstundu hennar.
Á Alþingi er svona að öllu jöfnu skipað fólki sem er eins og við flest, bara venjulegt fólk, vissulega margir lögfræðingar þar en ætti varla að skaða því hlutverk þingsins er að setja lög.
Viðrinisháttur er þar ekkert algengari innan þings en utan, þó á þingi sé segull í einum flokki sem dregur að sér slíka hegðun, en þar er verið að uppfylla eftirspurn útí þjóðfélaginu.
Þess vegna getur ekkert annað en forn vitneskja skýrt hvernig þingmenn gengu úr skafti og viti, gerðust Píratar, og fóru að fikta í hinum nýju sóttvarnarlögum, gerðu þau andvana fædd með því að taka út þau ákvæði sem þurfa að vera til að markmið sóttvarna náist, það er heimild yfirvalda til að skylda fólk að fara í sóttkví og heimild yfirvalda að setja á útgöngubann þegar enginn annar möguleiki er í stöðunni til að stöðva bráðsmitandi drepsótt.
Heimskan er líkt og að setja lög sem banna skotvopnanotkun almennings, og eftir að markmiðum laganna og tilgangi er skilmerkilega lýst, að hafa svo þriðju málsgrein svona; Öllum skal heimilt að eiga skotvopn, allar gerðir.
Klúður heilbrigðisráðherra er kannski ekki að gera sér grein fyrir að hið óútskýranlega, að hópur venjulegs fólks breytist ekki á einni nóttu í hóp viðrina, sé ekki þessa heims, að baki hljóti að búa forn þekking sem seinna var kennd við svartagaldur, heldur að mæta ekki leiðtogum viðrinisháttarins, skora þá á hólm með rökum, kalla til samfélag vísindanna til að mæta bábiljunni.
Í stað þess að leyfa fiktinu að renna átakalítið í gegn.
Síðan var það skylda hennar, því hún er jú kjörinn embættismaður þjóðarinnar, að afneita frumvarpinu, leggja sjálf fram nýtt, krefja forsetann um að senda bastarðinn til baka með ávítum til óvitanna, standa og falla með þjóð sinni.
Ekki að lúffa, hvað þá að lýsa yfir fögn.
Þetta er klúður heilbrigðisráðherra.
Söguna þekkjum við síðan.
Kveðja að austan.
![]() |
Stjórnsýsla í molum í heilbrigðisráðuneyti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggfærslur 12. apríl 2021
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (18.5.): 0
- Sl. sólarhring: 7
- Sl. viku: 41
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 37
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar