Hvenær fær Inga Sæland afsökunarbeiðni??

 

Núna þegar Ísland er orðið veirulaust, og landið varið gegn smiti á landamærum, þá er tími til kominn að vega og meta hvað vel hefur verið gert, en ekki hvað síst að spyrja;

Af hverju fyrst núna??

Af hverju fyrst núna, um ári eftir að Kínversk stjórnvöld hættu að þráast við að afneita alvarleik kóvid veirunnar og lokuðu á smitleiðir hennar í Whuan.

 

Í um ár höfum við vitað að það er ekki hægt að lifa með þessari veiru, hún er það bráðsmitandi, finnur sér alltaf leiðir framhjá hefðbundnum sóttvörnum, og hún er banvæn fólki í áhættuhópum, og hún getur leikið fullfrískt fólk grátt þannig að heilsa þess verður kannski aldrei söm á eftir.

Við þurfum þetta uppgjör, við þurfum að læra jafnt af mistökum okkar sem og því sem vel er gert, því það eru veirur þarna úti, jafnt í dýraríkinu sem og á tilraunastofum sýklahernaðarins, sem eiga eftir að gera strandhögg og drepa milljónir ef við þróum ekki tækni okkar að skera á smitleiðir.

 

Fyrsta skrefið væri að fígúrurnar og álitsgjafarnir, sem höfðu Ingu Snæland að spotti fyrir ári síðan þegar hún barðist fyrir lokun landamæranna, að veiran yrði stöðvuð þar en ekki leyft að dreifa sér út í samfélagið, að þeir komi fram og biðji hana afsökunar.

Gísli Marteinn gæti til dæmis riðið á vaðið í næsta föstudagsþætti sínum.

Yrði maður að meiri, sannaði jafnvel að baki strákslegu yfirborðinu er fullorðinn maður.

 

Inga barðist nefnilega fyrir lífi samborgara sinna, og því að þjóðfélagið yrði ekki stöðugt í herkví sóttvarna.

Hún var sögð ekki hafa vit á málinu og það væri ómögulegt að loka landinu.

Sem kom á daginn að var hægt og hefur bjargað lífi tugi eða hundruða samlanda okkar.

 

En hefðu menn ekki þjóskast við og lamið hausnum í hinn margfræga stein, og gripið til sömu ráðstafana og Kínverjar, Ný Sjálendingar, Taivanir og fleiri þjóðir og lokað landamærunum strax og alvarleiki kóvid veirunnar var ljós, þá væru margir lifandi í dag, sem dóu ótímabærum dauða vegna kóvid, einhverjir úr fyrstu bylgjunni en allir sem dóu í seinni bylgjunni, því þá hefði aldrei orðið nein seinni bylgja.

Um það þarf ekki að rífast í dag, tíminn hefur skorið úr um að landamærin halda þegar réttum vinnubrögðum er beitt.

Þessu megum við ekki gleyma, verðum að halda til haga, því annars gerist þetta bara aftur og aftur að fíflin spotta og kæfa hina vitrænu umræðu, sem er ekki líðandi á dauðans alvöru tímum.

 

Síðan, síðan verða þeir að sæta ábyrgð sem hleyptu veirunni inní landið í byrjun sumars, þvert gegn aðvörunum lækna og virtra hagfræðinga, þeir stórsköðuðu þjóðina og í besta falli erum þeir sekir um manndráp að gáleysi.

Það getur enginn sagt; úps, ég vissi það ekki, þegar banvæn drepsótt herjar á heimsbyggðina.

Það var ekki vitað hverjir myndu deyja, en það var vitað að einhverjir myndu deyja.

Einbeittari getur brotaviljinn ekki verið.

Og fyrir utan bankaræningjana okkar sem kenndu sig við útrás, þá hefur þjóðarbúið aldrei orðið fyrir eins miklu skaða vegna einbeitts brotavilja örfárra.

 

Það á að rannsaka ákvörðunartökuna, hvað gerðist í bakherbergjum valdsins, hvaða hagsmunir toguðu í spotta, hverjir í raun réðu hinni röngu ákvörðunartöku.

Sérstaklega þarf að rannsaka hvernig sóttvarnaryfirvöld voru kúguð til að kóa með vitleysunni, því ef svo er ekki, þá er ljóst miðað við málflutning Þórólfs og félaga í dag, miðað við það sem sagt var í byrjun sumars 2020, og fram eftir öllu því sumri, að ekki er um sama einstaklinga að ræða, grunur hlýtur því að beinast að geimverum um að hafa skipt þeim út.  Og þá til að bjarga þjóðinni.

 

En djóklaust.

Það er ekkert eðlilegt við þennan umsnúning, að baki hlýtur að búa óeðlilegur þrýstingur sem þarf að koma uppá yfirborðið, svo svona atburðir endurtaki sig ekki aftur þegar á reynir, að stjórnsýslan virki og reyni að tækla erfiðar aðstæður út frá þekkingu og staðreyndum en ekki einhverju öðru.

Feisum þetta, rannsökum þetta, og munum að Landsréttur hefur verið kallaður saman af minna tilefni.

Ekki að þess þurfi heldur eiga menn að hafa þann manndóm að geta gert upp það sem miður fór, játað mistök sín og beðist afsökunar á þeim.

 

Slíkt er forsenda lærdóms.

Og guð hjálpi okkur ef við höfum ekkert lært þegar næst veira ræðst á heimsbyggðina.

Það er ekki lengur hægt að hundsa sérfræðinginn sem sagði eins og biluð plata og enginn nennti að hlusta, þetta er ekki spurning um hvort, heldur hvenær.

 

Hann hafði rétt fyrir sér.

Og hefur ennþá rétt fyrir sér.

 

Eftir stendur, höfum við þroska til að læra?

Kveðja að austan.

 


Bloggfærslur 24. febrúar 2021

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 6
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 47
  • Frá upphafi: 1440177

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 41
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband