23.2.2021 | 23:22
Á hvaða öld lifum við??
Er það ekki á þeirri 21. þar sem vestræn samfélög súpa seyðið af frjálshyggju síð 20. aldarinnar, einkavæðingu grunngæða, sjálftöku fjármálamarkaðarins með þekktum afleiðingum, útvistun grunnframleiðslu til Kína svo ekki stendur steinn eftir í áður óvinnandi múrum iðnaðar okkar og velmegunar.
Hnignun innviða svo til hamfara horfir, niðurbrot velferðar svo gjáin milli þeirra sem eiga og hafa góða vinnu, sem og allra hinna, er að verða óbrúanleg með tilheyrandi ólgu sem líklegast mun enda í borgarstríði líkt og allt bendir til að muni verða í Bandaríkjunum.
Undirrótin er sú hugmyndafræði sem taldi sjálftöku auðs og auðmanna vera forsenda framþróunar og velferðar, hið frjálsa flæði frjálshyggjunnar.
Eða eigum við að rifja upp lok þeirrar 18. og byrjun þeirra 19. þar sem stórríkin töldu grunnþjónustu eins og póstflutninga vera límið sem héldi saman samfélögum, þess vegna kostaði það sama seinna meir að senda bréf frá París til Lyon, eða um hálfan hnöttinn til Tahití í Kyrrahafinu, því eitt ríki, sama þjónusta.
Útjaðrar áttu að hafa sama hag og kjarninn að tilheyra alríkinu, sömu bönd, sömu hagsmunir.
Sama hugsun, sama aðferðafræði og gerði Ísland byggilegt í nútímanum, hinar dreifðu byggðir framleiðslunnar nutu sömu verðlagningar og þéttbýlið í Reykjavík, flutningskostnaður var jafnaður út, vegakerfið, dreifikerfi rafmangs, símalínur, allt tekið úr sama potti og fjármagnað.
Ein þjóð í einu landi.
Svo kom Davíð og frjálshyggjan.
Svo kom Evrópusambandið og frjálshyggjan.
Landsbyggðin hefur goldið fámennisins, en hefur ekki snúist til varnar og krafið þéttbýlið um arðinn af orkunni eða fiskauðlindinni, þar sem landfræðilega aðeins núll komma eitthvað tilheyrir suðvestur horni landsins.
Því við erum ein þjóð í einu landi.
Svo kemur svona viðrinisfrétt um einhvern sjálfstæðismann sem enginn veit hvað heitir, sem ætlar að slá sig til riddara í prófkjöri flokksins á suðvestur horninu.
Og blaðamaðurinn nýtir sér að það er ekki runnið af öllum eftir Klaustursumblið.
Afhjúpar líklegast að Sigmundur Davíð hefur litla stjórn á sínu fólki, enda framboð hans til í fljótheitum og varð að nýta það sem bauðst.
Eftir stendur, hver er stefna Sjálfstæðisflokksins?
Hvaða skilaboð er varaformaður samgöngunefndar að flytja út til hinna dreifðu byggða??
Sundrungu og ósætti??
Er það leiðin til að einhver sem enginn veit hvað heitir, fái fylgi og kjör ofarlega á lista flokksins í þéttbýlinu??
Vill flokkurinn virkilega þessa umræðu í aðdraganda kosninganna??
Eða er þetta tilbúin frétt hönnuð af hagsmunum eiganda blaðsins sem fjárfestu í póstdreifingafyrirtæki og vilja samnýta fjárfestingu sína til að bæta rekstrargrundvöll samstæðunnar.
Mogginn sé svona eins og fjölnota sendibíll sem dreifir bæði blaði og pósti, ekki sjálfstæður fjölmiðill sem á aðeins eina eign, trúverðugleika sinn, sem byggist á áratuga langri fagmennsku og hlutleysi hvað fréttaflutning varðar.
Já, bjóðum út.
Bjóðum út, bjóðum út.
Árið er 1991, útboð og einkavæðing lofar gulli og grænum skógum.
Reyndin varð bara önnur.
Og við erum ennþá að súpa seyðið.
Sem er beiskt, án næringar, líkt og svala þorsta með söltum sjó.
Árið er 2021, sjálfstæði og velmegun þjóðar er í húfi.
Forræði orkunnar er komin til Brussel, í æ ríkari mæli víkja innlend lög fyrir tilskipun skriffinna þess.
Verði ekki snúist til varnar, þá er engin vörn þegar næst verður kosið 2025.
Um annað á ekki að ræða.
Og allra síst að láta tímaskekkju fallinna hugmyndafræði eða innihaldslausra slagorða afvegleiða þá umræðu.
Því tilgangur þess er aðeins einn.
Afvegleiða, að láta umræðuna snúast um annað en það sem skiptir máli.
Árið er 2021.
Árið sem við þurfum að verja sjálfstæði okkar og framtíð.
Árið er 2021.
Kveðja að austan.
![]() |
Sammála um að bjóða ætti út póstþjónustu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
23.2.2021 | 18:21
Verður Sjálfstæðisflokkurinn rukkaður?
Eða er þetta enn eitt dæmið um þar sem þjóðin er rukkuð, en vildarvinir flokksins hirða arðinn??
Að við viðurkennum að flokkurinn með Bjarna er aðeins vel fjármagnað útibú fjárglæfra og hagsmuna, þar sem kostnaður við auglýsingar, almennan áróður, er metinn á vogarskál þess hagnaðar sem fjármögnun og stjórnun eins íhaldsflokks kostar.
Ef svo er þá rukkum við Sjálfstæðisflokkinn, þessi lítilvægi kostnaður við að terrorista dómskerfi þjóðarinnar er aðeins pínut (hvað sem sú útlenska þýðir) miðað við ávinninginn að eiga og stjórna dómskerfi þjóðarinnar.
Og þegar sá hagnaður er metinn, þá má aldrei gleyma skilyrðislausri hagsmunagæslu Björns Bjarna, sem alltaf passar uppá frænda sinn Bjarna Ben, eða ótal Reykjavíkurbréf Davíðs sem greinilega finnur skylduna renna um æðar sínar.
Það er kostaði flokkinn ekki neitt, ávinningurinn reyndar enginn, því bæði Flokkur og þjóð var dæmd sem spilling á pari við þennan í Hvíta Rússlandi, en þá heldur ekki draga frá tilbúinn kostnað sem vísar í að bæði Björn og Davíð hafi ráðist á æru sína og tiltrúnað, án þess að fá til þess borgun.
Þjóðin eða flokkurinn má aldrei detta niður á þetta plan, að áróðurinn sem metinn er til kostnaðar, eða að hinn beini kostnaður þjóðarinnar við sjálftöku flokksins sé rukkaður eins og hver önnur útgjöld.
Þó ekki væri annað en fordæmi sem vísar til fortíðar, það væri eins og sumir þyrfti að selja sumarhús sín á Flórída, eða Hannes þyrfti að fá sér vinnu.
Ótækt, til skammar.
Sumt er eins og það er.
Og um það var kosið.
En samt??
Er ekki flokkurinn holur að innan, án stefnu eða hugsjóna, ef frjálshyggja hans er aðeins ávísun á útgjöld okkar, óháð hagnaði vildarvina, þeirra sem fjármögnuðu sjálftökuna, græðgina, árásina á innviði þjóðarinnar??
Hvílík spurning.
Ekki mikið gáfulegri en fyrirsögn þessa pistils.
Til hvers er þjóð ef hún borgar ekki??
Kveðja að austan.
![]() |
Landsréttarmálið kostað 141 milljón |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
23.2.2021 | 08:33
Ég ræð.
Ég á kvótann.
Ekkert flóknara en það.
Segi menn upp??
Hvað með það, nóg til af mannskap, en þeir sem eru svo vitlausir að hlýða ekki og skríða ekki, þeir fá hvergi pláss.
Því við eigum kvótann, og við stöndum saman.
Hver þorir gegn okkur??
Afleiðingar??, ha ha.
Maður fjárfestir ekki stjórnmálamönnum fyrir ekki neitt.
Gunnvör á eitt stykki ráðherra, og sjávarútvegsráðherra þekkir sinn bás.
Hann fer ekki gegn okkur.
Og Flokkurinn á dómarana þó þeir séu eitthvað væla þarna í Strassborg, hverjum er ekki sama um það á meðan enginn dómur fer gegn okkur sem fæða.
Þetta er svo plein að það á ekki einu sinni að þurfa að gera frétt um svona augljósa hluti.
Skipstjórinn hlýddi eins og hundur, tók á sig ábyrgðina og allt.
Og þú refsar ekki hundinum þínum eftir að þú hefur sagt honum að bíta leiðinlegan nágranna, jafnvel þó þú þurfir að sýna einhverja auðmýkt og iðrun svo það sé ekki eins augljóst þegar vinir þínir þarna sem samfélagið ætlast til að dæmi eftir lögum (ha ha eins og það sé eitthvað í stöðunni fyrir mig og mína) dæma þig aðeins til að skammast þín og já tjá iðrun.
Nei þú skammar ekki hundinn þinn og nágranninn hefur lært sína lexíu.
Eins er það með skipverjana á Júlíusi Geirmundssyni.
Hvað annað geta þeir gert??
Yfirgefið plássið og svo plássið, byrja uppá nýtt að harka á mölinni í einhverri kjallaraholunni sem þeir fá fyrir einbýlishúsið sitt hérna fyrir vestan??
Skipstjórinn vildi það ekki.
Hann hlýddi.
Þeir munu hlýða.
Því ég á kvótann.
Ég ræð.
Kveðja að austan.
![]() |
Sviptur skipstjóri á Júlíusi ráðinn stýrimaður |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggfærslur 23. febrúar 2021
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (18.5.): 4
- Sl. sólarhring: 7
- Sl. viku: 45
- Frá upphafi: 1440175
Annað
- Innlit í dag: 3
- Innlit sl. viku: 40
- Gestir í dag: 3
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar