11.8.2020 | 16:16
102 dagar án ótta.
Dagar sem verða ekki metnir til fjár í miðjum heimsfaraldri.
Ekki án kostnaðar, því landamærum var lokað, og fólki aðeins hleypt inní landið að undangenginni 14 daga sóttkví.
Þungt högg fyrir ferðaþjónustuna sem er mikilvæg atvinnugrein á Nýja Sjálandi.
Stjórnvöld á Nýja Sjálandi vissu samt að veiran gæti borist inní landið og voru tilbúin með viðbragðsáætlun sem strax var gripið til. Hægt er á öllu mannlífi í Auckland á meðan reynt er að rekja veiruna og finna upptök smitsins. Þar beinist grunur að sóttkvínni við landamærin;
"In addition, we are working over the next few days to test all people that are working at our borders and everyone that works at a managed isolation facility.". (Úr fréttatilkynningu sóttvarnaryfirvalda).
Og það á ekki að gefast upp fyrir veirunni, að fyrst hún kemst óboðin inní landið, að þá eigi að bjóða hana velkomna líkt og gert er hér á Íslandi.
"As weve been saying for several weeks, it was inevitable that New Zealand would get another case of community transmission. We have been working on the basis that it could be at any time and that time is now. The health system is well prepared for this eventuality and the important thing now is that we dont let the virus spread in our community. As we did in the early days of this virus emerging, we need to stamp it out.".
Veirunni verður ekki leyft að dreifa sér um samfélagið, það á að útrýma henni.
Sem er grundvallarmunur og á þeirri stefnu að sætta sig við að landamærin leki inn smiti því það sé aldrei hætt að útiloka það.
Þegar Gylfi Zoega skrifaði grein sína voru liðnir 100 dagar frá síðasta innanlandssmiti á Nýja Sjálandi, urðu 102 þegar smit blossaði upp á ný.
Stjórnvöld þar rannsaka snertiflöt við útlönd, það er í gegnum sóttkvína, og ætla að sjá til þess að slíkt endurtaki sig ekki.
Vitandi það að það þarf bara eitt smit til að smita samfélag.
Samt virðast einhver öfl á Morgunblaðinu sjá ástæðu til að tengja þessi nýsmit við röksemdir Gylfa Zoega um afhverju almanna hagsmunir kalli á lokun landamæra, að mannlíf og þjóðlíf sé undir, og kostnaðurinn við innflutning á smiti sé margfaldur á við þann sem hlýst við að landinu sé lokað.
Lágt leggst Mogginn i þessari aðför sinni.
Fyrir utan aulaskapinn og ómerkilegheitin, þá er það bara svo að fleiri hafa vakið máls á sömu röksemdum og Gylfi, þar á meðal Tinna Laufey Ásgeirsdóttir, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands sem segir í viðtali við Ríkisútvarpið að "Það er mikil áhætta fyrir lítinn ávinning að hleypa fólki inn í landið".
Hún segir líka að "eftir því sem tíminn leið hafi orðið ljóst að kostnaðurinn af áhættunni sé svo mikill að það borgi sig að viðhafa mjög strangar reglur um ferðir fólks yfir landamærin og þær sóttvarnir sem hver og einn farþegi þarf að hlíta".
Eins spyr hún ferðamálaráðherra kurteislega hvað búi að baki fullyrðingum hennar um að áhættan sé ásættanleg.
"Aðspurð um ummæli ráðherrans segir Tinna Laufey þau fyrst og fremst vekja forvitni sína um hvernig ráðherra eða stjórnvöld meti áhættuna: Ef það liggur einhver greining þarna að baki þá finnst mér forvitnilegt að reyna að skilja af hverju hennar niðurstöður stangast svo mikið á við mínar. Ég hef verið að reikna út virði þessarar áhættu með mjög hefðbundnum aðferðum hagfræðinnar og fæ út mjög háar tölur. Jafnvel miðað við íhaldssamasta mat mitt, þá er kostnaður vegna áhættunnar mjög mikill. Ég spyr mig fyrst og fremst: Hvað gerir það að verkum að mat okkar stangast svona mikið á?, segir hún. ".
Já hver eru rökin??
Svarið er: Engin.
Hvernig vitum við það??
Jú, það er ráðist á sendiboðann.
Með skít.
Miðað við að rauði listinn sér sjálfkrafa til þess að hinn litli ávinningur af komu erlendra ferðamanna gufar upp, þá spyr maður sig hvaða hagsmunir búa þá að baki sem skýrir heiftina sem gýs nú upp gagnvart þeim sem gagnrýna opnun landamæranna??
Minni á orð Katrínar Jakobsdóttur þar sem hún sagði að "Því fari fjarri að hagsmunir ferðaþjónustunnar hafi verið í fyrirrúmi" og viðurkennir þannig að eitthvað annað skýri þá ákvörðun.
Á meðan lifum við í ótta.
Sem enginn endir virðist vera á.
Því smit skal flutt inn hvað sem tautar og raular.
Þannig er Ísland í dag.
En ekki Nýja Sjáland.
Kveðja að austan.
![]() |
4 ný innanlandssmit á Nýja-Sjálandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
11.8.2020 | 13:55
Ég styð Kára.
Og þó Kári sé um margt sérstakur og magnaður, þá bjó hann ekki til veiruna og ber ekki ábyrgð á núverandi faraldri.
Það er hreinlega með ólíkindum að það hafi verið lagt af stað með landamæraskimun án þess að stjórnvöld hafi haft nokkra burði til að standa að þeirri skimun, og hafi þurft að treysta á einkafyrirtæki út í bæ þar um.
Sem og ósvífnin að gera það fyrirtæki eða manninn sem leiðir það að blóraböggli.
Við eigum Íslenskri erfðagreiningu það að þakka hvað fyrri faraldurinn gekk hratt yfir eftir að hið nauðsynlega skref að loka landamærunum var tekið, vegna þess að skimunargeta fyrirtækisins þefaði uppi einkennalausa einstaklinga sem gátu borið með sér smit, útí samfélaginu, þannig tókst að vinna bug á hópsýkingunni fyrir vestan sem og í Vestmannaeyjum.
Skíturinn útí Kára er engin tilviljun, sérhagsmunaöflin hafa virkjað skítadreifara sína og blása til gagnsóknar svo hægt sé að reka síðasta naglann í líkkistu ferðamannalandsins Ísland, með því draga úr sóttvörnum á landamærunum frá því sem nú er.
Landið á rauða listann áður en sumarið er úti og hver er þá ávinningurinn??
Það mætti halda að lokun landamæranna hefði truflað aðra og ábatasamari starfsemi, og því allt lagt undir til að halda þeim opnum.
Allavega hjálpar þessi þráhyggja ekki ferðamannaiðnaðinum, það eitt er víst.
Munum síðan að þó skimun á landamærum hafi tekist vel að sögn Kára, og ekkert bendir til að meint örugg lönd hafi ekki ennþá lekið inn smiti, að þá eru björgunarbátar ekki um borð í skipum vegna þess að þau flest fljóta.
Þeir eru um borð vegna þess að sum sökkva, líka þau stærstu.
Það var því rangt hjá útgerð Titanic að spara þann kostnað, það sem átti ekki að geta sokkið, sökk nú samt.
Eitthvað sem Kári hefur í raun viðurkennt og þarf að klæðast sóttvarnargalla öllum stundum til að auðveldara sé fyrir hann að þrífa af sér drulluna og skítkastið að kveldi.
Vegna þess að hann sagði sannleikann, ef við viljum lifa án ótta, þá lokum við landamærunum.
Með 5 daga sóttkví.
Það var nú allur glæpurinn.
Kveðja að austan.
![]() |
Heilbrigðiskerfið gerði ekkert til að efla getuna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
11.8.2020 | 10:42
Játningar Þórólfs.
Í fréttum helgarinnar missti Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir það út úr sér að í tillögum sínum um hertar aðgerðir til að hindra frekari útbreiðslu kórónuveirunnar þyrfti hann að taka tillit til sjónarmiða þeirra sem vilja hafa landamærin opin án sóttvarna eða skimunar.
Eða með öðrum orðum að það sé eitthvað annað en fagþekking sem móti tillögur hans.
Þær snúist ekki í raun um sóttvörn heldur pólitík, að það sem lagt er til þurfi að þóknast ákveðnum öflum eða hagsmunum svo líkur sé á að það sé samþykkt.
Það er ótrúlegt að fjölmiðlafólk hafi ekki fiskað eftir þessum orðum Þórólfs og spurt hann nánar út í þau, því sérhagsmunirnir sem knúðu á hina ótímabæru opnun landamæranna, hafa skýlt sér í því skjóli að tillögur sóttvarnalæknis séu faglegar og teknar án utanaðkomandi þrýstings.
Orð Þórólfs eru líkt og neyðaróp manns sem er í þeirri óbærilegri stöðu að vera knúinn til óhæfu og tekur þátt í til að þó að geta bjargað því sem bjargað verður.
En vill samt að það sé upplýst að hann sé ekki frjáls.
Sérstaklega núna þegar bæði Morgunblaðið og Ríkisútvarpið er farið að spyrja réttmætra spurninga og sætta sig ekki lengur við augljóst bull úr munni ráðamanna eða hagsmunaaðila.
Betur er seint en aldrei, og þessa helgina hafa hinir stóru fjölmiðlar endurvarpað rökstudda gagnrýni sérfræðinga á hina ótímabæru opnun landamæranna og í raun stendur ekki steinninn eftir uppréttur í rústum málflutnings innflytjendanna á nýsmitinu til landsins.
Nauðvörnin er; "Þórólfur sagði þetta, hann er skúrkurinn".
Spurningin er því hvort þessu verði fylgt eftir á blaðamannafundi dagsins þar sem Þórólfur tilkynnir uppgjöf sína varðandi sóttvarnir við landamærin.
Þórólfur játaði líka í gær heimskuna að baki þess að krefjast ekki sóttkvíar við landamærin þegar hann sagði að "Það þarf ekki nema einn einstakling til þess að sleppa inn til þess að valda svona faraldri eins og við erum búin að vera með,".
Í þessu samhengi er gott að átta sig á þeirri hugsun sem felst í aðvörunarorðum Kára Stefánssonar að línuleg hætta á að smit sleppi inní landið eykst í réttu hlutfalli eftir því sem fleiri koma inní landið án undangenginnar sóttkvíar.
Í því samhengi skiptir ríkisfang fólks ekki máli enda sýkja veirur ekki eftir þjóðerni eða vegabréfi fólks.
Þumalskrúfan á Þórólfi fékk hann til að bæta við að hann telji það "mjög ólíklegt að það sé hægt að loka landinu þannig að við fáum ekki veiruna inn" og þau orð eru haldreipi þeirra sem vilja áfram opin landamæri án undangenginna sóttkvíar.
Það er rétt, það er ekkert útilokað í þessum heimi, en þó það kvikni í þrátt fyrir brunavarnir þá er það ekki greindarlegt að gagnálykta á þann hátt að þar með séu þær óþarfar. Enda reyndin sú að með aukinni þekkingu fækkar alvarlegum eldsvoðum, af sem áður var þegar heilu borgirnar fuðruðu reglulega upp fyrr á öldum.
Ástralir misstu veiruna út í samfélagið þrátt fyrir sóttkví við landamæri, skýringin er þekkt, og verður ekki endurtekin.
Við Íslendingar náðu hins vegar að útrýma veirunni, það sama gerðu Nýsjálendingar og borgaryfirvöld í Whuan borg í Kína, þrátt fyrir stjórnlausan faraldurs á ákveðnum tímapunkti.
Allt þetta veit greindur maður eins og Þórólfur, og hann veit að það er auðvelt að fá fólk með sér í stríð við faraldur sem herjar vegna einhvers sem ekki var við ráðið, eða ekki vitað um að gæti valdið smiti, en því sem næst vonlaust ef skýr yfirlýsing fylgir hinum hertu sóttvörnum, að þetta sé allt til einskis því við munum örugglega aftur hleypa smitinu inní landið.
Vísvitandi og viljandi.
Heimskan þarf að vera djúp til að menn átti sig ekki á muninum.
Beirút var sprengd í loft upp vegna óafsakanlegs kæruleysis þarlendra yfirvalda.
Og almenningur kallar á ábyrgð.
En ekki þá ábyrgð að fyrst að ein sprengjugeymsla sprakk, að þá sé sagt; "shit happens", og borgin sé markaðssett sem borgin sem geymir sprengjuefni og það þurfi ekki einu sinni hátalara til að hvellurinn heyrist.
Það þarf ekki nema eitt smit að sleppa framhjá sóttvörnum landamæranna til að nýr faraldur brjótist út. Og línleg áhættan eykst eftir því sem fleiri koma inní landið án undangenginnar sóttkvíar.
Sóttkví lágmarkar hins vegar áhættuna.
Og raunveruleikinn sannar að hún virkar.
Þetta veit Þórólfur sóttvarnarlæknir.
Og sú vitneskja skýrir játningar hans.
En það þarf einhver að hlusta.
Áður en samfélag okkar lamast.
Kveðja að austan.
![]() |
Verða fyrir mjög þungu höggi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
11.8.2020 | 08:18
Prófessor kaghýðir ráðherra og ríkisstjórn.
"Þegar þjóðfélag okkar stendur frammi fyrir einhverju alvarlegasta vandamáli lýðveldistímans þá er mikilvægt að leyfa mismunandi sjónarmiðum að koma fram og ráðamenn þurfa að sýna ábyrgð með því að bregðast við umræðu í samræmi við embætti þeirra og ábyrgð.".
Þó Þordís Kolbrún, ráðherra ferðamála hafi þó haft þá döngun að reyna að verja hið óverjanlega, að opna landamærin fyrir smiti og bjóða þannig nýja bylgju farsóttarinnar velkomna, þá er orðum Gylfa Zoega ekki síður beitt gegn ríkisstjórninni allri.
Og það er hún sem á að taka þau til sín.
Það er hún sem á að skilja þessi skilaboð Gylfa sem hann orðar á svo einföldu og skiljanlegu máli að fólk á öllum aldri ætti að skilja.
"Valkostir okkar sem búum á eyju eru því þessir: Öflugar sóttvarnir við landamæri líkt og Nýsjálendingar hafa gert og sóttvarnir sem eru minna hamlandi á efnahagsstarfsemi innan lands, eða takmarkaðar sóttvarnir við landamæri og miklar sóttvarnir innan lands eins og nú virðist stefna í. Ef ráðamenn eru að horfa á neyslu, atvinnustig og stöðu ríkissjóðs þá þarf ekki hagfræðing til að benda á að fyrri kosturinn gæti komið betur út. Hættulegt er að gera að einu hagsmuni ferðaþjónustu, annars vegar, og efnahagslífsins alls, hins vegar. ".
Það þarf ekki hagfræðing sagði Gylfi, aðeins þroska og heilbrigða skynsemi.
Katrínu greinilega svíður undan gagnrýni Gylfa en fer Albaníu leiðina í að svara henni, ybbar sig eitthvað við samþingmann sinn sem vissulega og réttilega kastar steinum úr glerhúsi, hin æpandi þögn þingmanna og hin óskiljanleg meðvirkni þeirra gagnvart þeirri ákvörðun að opna landamærin fyrir veirusmiti er þingheimi til vansa og skammar.
Málsvörn hennar er að slá keilu, "Það eru mörg dæmi í heiminum um stjórnmálamenn sem þykjast hafa öll svör um faraldurinn á reiðum höndum. Við erum ekki í þeim hópi", ha ha, ég er ekki Trump. En þetta snýst ekki um að vita allt, þetta snýst um að vita það sem er vitað, og íslensk sóttvarnaryfirvöld náðu ekki tökum á fyrri faraldrinum fyrr en innflutningur á nýsmiti var stöðvaður.
Reynslan borgaryfirvalda í Whuan áttu síðan að vera sterkur leiðarvita um að það er hægt að sigra veiruna með því að skera á smitleiðir hennar, og loka síðan á nýsmit með sóttkví á landamærum, héraðsmörkum, borgarmörkum eða á mörkum allra smitlausra svæða sem menn vilja halda smitfríum.
Það var ekki verið að finna upp hjólið, við lifum ekki í formyrkvun miðalda.
Síðan gerist hún fyndin og ætlar að slá vopnin úr höndum prófessorsins með því að segja; "Í þessum efnum séu ótal erfiðar spurningar og þeim verði ekki svarað með hagfræðiúttekt eingöngu" sem er broslegt því í hýðingu Gylfa má lesa þetta; "Ef ráðamenn eru að horfa á neyslu, atvinnustig og stöðu ríkissjóðs þá þarf ekki hagfræðing til að benda á að fyrri kosturinn gæti komið betur út".
Aðeins ein önnur rök þurfa stjórnvöld að hafa í huga og það er heilsa og heilbrigði þjóðarinnar, og það er ekkert heilnæmt við illvígar veirusýkingar eða samfélag í höftum sóttvarna.
Enda fordæmdu heilbrigðisstéttirnar þessa ákvörðun ríkisstjórnar hennar, og það þýðir ekkert fyrir hana að vísa í að sóttvarnarlækir hafi samþykkt þessa ákvörðun, svipur hans var eins og svipur Galileos þegar hann kom út pyntingarklefa rannsóknarréttarins og sagði kvalinn, "hún er flöt".
Vissulega merkilegt fyrir áhugamenn um sögu að fá að sjá flashbakk til horfins tíma en ekkert umfram það.
Loks játar Katrín að fleiri hafi þrýst á bak við tjöldin en ferðaþjónustan; "Því fari fjarri að hagsmunir ferðaþjónustunnar hafi verið í fyrirrúmi", einhverjir með ríkari hagsmuni en hún.
Og hverjir skyldu það vera??
Hvaða starfsemi þrífst ekki nema við galopin landamæri??
Það eina sem ég veit um er mannsal og félagsleg undirboð sem og innflutningur á ólöglegum efnum ýmiskonar en það er Katrínar að útskýra orð sín.
Hverjir eru svona leyndó að ferðaþjónustan tekur á sig sök þeirra og er þjóðaróvinur númer eitt í dag að ósekju??
En þetta skiptir ekki máli.
Þannig séð.
Röng ákvörðun var tekin.
Hana þarf að leiðrétta.
Ekki bæta í afglapaháttinn með því að auka streymi á nýsmiti til landsins líkt og sóttvarnalæknir virtist sárkvalinn með þumalskrúfu á fingri reyna að útskýra í fréttum sjónvarps í gær.
Ef svo er þá er ljóst að eitthvað mikið er að í stjórnarráði Íslands, jafnvel svo manni grunar þvingun einhverra leyndarafla.
Röng ákvörðun einu sinni er ekki tilviljun ef hún er tekin aftur.
Ég myndi kalla út sérsveitina.
Það þarf að stöðva þá sem ábyrgðina bera.
Kveðja að austan.
![]() |
Katrín furðar sig á tækifærismennsku |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggfærslur 11. ágúst 2020
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (19.5.): 3
- Sl. sólarhring: 4
- Sl. viku: 49
- Frá upphafi: 1440182
Annað
- Innlit í dag: 3
- Innlit sl. viku: 43
- Gestir í dag: 3
- IP-tölur í dag: 3
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar