Mun Morgunblaðið biðjast velvirðingar á frétt sinni??

 

Viðtalið við norska prófessorinn sem gerði lítið úr alvarleik kórónaveirunnar minnir einna helst á nauðvörn tóbaksiðnaðarins þegar tengsl milli reykinga og lungnakrabbameins voru sönnuð, að þá voru keyptar sjónvarpsstöðvar fengnar til að fá í viðtöl aldraða vísindamenn, lækna og aðra sem titils síns vegna voru taldir hafa vit á málum, og þeir fullyrtu að þessi tengsl væru með öllu ósönnuð, og í raun algjörar kellingarbækur.

Svo kveiktu þeir í pípu sinni, og síðan leið yfir skjáinn myndir af öldruðum mönnum með pípu (gömul mýta að tengja pípur við gáfur og þekkingu) og þetta voru sagðar pabbar eða afar, sem reyktu frá barnæsku og urðu manna og kellinga elstir.

Áróður sem margir keyptu, og styttu þar með líf sitt að meðaltali fyrir vikið.

 

Svona frétt eins og Mbl.is birti á áberandi stað, flýgur um netheima, og margir trúgjarnir gína við henni.

Og nota hana sem réttlætingu þess að taka sameiginlegar aðgerðir þjóðarinnar ekki alvarlega. Sem bitnar ekki bara á þeim, heldur líka okkur hinum.

Með tilheyrandi uppskeru fyrir manninn með ljáinn.

 

Það er engin iðrun eða bót að birta seinna aðra frétt þar sem staðleysurnar eru leiðréttar, því slíkar fréttir fara ekki á flug.

Þess vegna gerir enginn alvörufjölmiðill það sem Mbl.is gerði í morgun. 

Ekki þegar dauðans alvara er undir.

Andstæð sjónarmið og umræða er réttlætanleg, en menn birta þetta í fréttskýringum þar sem rökin kallast á.

 

Mogginn er krosstré sem almenningur á að geta reitt sig á um alvörufréttaflutning.

Trúverðugleiki hans er undir ef ritstjórar blaðsins gera sér ekki grein fyrir alvörunni.

Mistök geta alltaf átt sér stað, en mistök eru þá leiðrétt.

Og beðist velvirðingar á þeim.

 

Annars eru þau viljaverk.

Kveðja að austan.


mbl.is Mikilvægt að gera ekki lítið úr hlutunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fíflin sjá ástæðu til að fagna.

 

Fjölmiðlar fundu loksins manninn sem sagði að þetta væri stormur í vatnsglasi.

Norskan prófessor í veirufræði sem segir að "kór­ónu­veir­an er venju­leg veira sem er væg­ari en hefðbund­in flensa." og að "vanda­mál­in byrja þegar yf­ir­völd fá móður­sýkiskast, þá öpum við eft­ir þeim". Klikkir svo út með að "lítið höf­um við lært og erum fljót að gleyma því að við höf­um lent í þessu oft áður án þess að stór­hætta sé á ferð".

Þessu slær Mbl.is upp kinnroðalaust, loksins þegar stjórnvöld virðast átta sig á alvöru málsins, og nú þegar þar maður að lækka niður hljóðið vegna glasaglaums fíflanna á samfélagsmiðlum.

 

Það er rangt hjá prófessornum að við höfum lenti í þessu áður, það er rangt hjá honum að kórónaveiran sé vægari en hefðbundin flensa, og það eru einmitt viðbrögðin sem hann gagnrýnir, sem skýra að alvarlegir vírusar hafa ekki breiðst út, ásamt þeirri breytu sem við ráðum ekki yfir, að smitleiðir hafa ekki verið öflugar.

Einfaldar staðreyndir sem blaðamaður Mbl.is hefði getað kynnst sér áður en hann hóf skurðgröftinn gegn viðleitni stjórnvalda að hemja útbreiðslu farsóttarinnar.

 

Norski prófessorinn minnist á Ebólu veiruna, það eru tvær ástæður að hún varð ekki að farsótt, hún kom fyrst upp í strjálbýli og hún hún var ekki með öflugar smitleiðir, líkt og flærnar sem dreifðu Svarta dauða eða með úða í andrúmslofti eins og kvefið.  Þess vegna tókst að hamla útbreiðslu hennar í tíma eða þar til bóluefni fannst. 

HIV veiran drap ekki eins marga og menn óttuðust upphaflega, ekki vegna þess að hún væri ekki bráðsmitandi, heldur vegna þess að það var ekki hlustað á fífl sem töluðu niður alvarleik málsins.  Menn stöðvuðu smitleiðir hennar, bæði með því að herða reglur um blóðgjöf, og dreifa smokkum, með því að uppfræða um smitleiðir og svo framvegis.

Hún var stöðvuð vegna varnarviðbragða, ekki vegna þess að hún væri ekki eins skæð og aðvaranir heilbrigðisyfirvalda hváðu á um.

 

Síðan vitnar prófessorinn í svínainflúensuna, og kveðst hafa varað við ýktum viðbrögðum.

Gott og vel,hún drap ekki eins marga og menn óttuðust, eða var það vegna þess að það var gripið til varnarviðbragða sem dugðu, eða var það vegna þess að hún var hættulítil veira sem var blásin upp af athyglissjúkum sóttvarnaryfirvöldum??

Í þessu samhengi megum við ekki gleyma að það er nokkurn vegin ein skýring á drepsóttum fortíðar, og það var þekkingarskortur á smitleiðum þeirra, sem og menn höfðu þá ekki lækningu.

Kóleran næstum hvarf í Evrópu við það eitt að menn hættu að sækja vatn í sýkt vatnsbóla eða brunna, og hvorki Stóra Bóla eða Svarti dauði eru heimsfaraldrar í dag, þó þessi sjúkdómar séu ennþá til í umhverfinu á vissum svæðum heims.

 

Að letja til varnarviðbragða, og monta sig síðan af því að það hafi verið lítil ástæða fyrir þeim, vegna þess að þær virkuðu, þá hafi það sem óttast var, ekki gengið eftir, er ekki aðeins eitt af hámörkum heimskunnar, heldur líka siðlaust þegar mannslíf eru undir.

Þetta er svipað að einhver færi að hneykslast á fjárveitingum til Slysavarnarskóla sjómanna með rökum að slysum hafi fækkað og engin séu dauðsföllin eins og var á árum áður.

 

Þetta er heimskan, en alvarlegri er sú fullyrðing að þessi veira sé hættuminni en venjuleg inflúensuveira.

Eitthvað svona viðhorf skýrði sinnuleysi kínverskra stjórnvalda þegar þau brugðust seint og illa við sýkingum sem dreifðust um Whuhan borg og Hubei hérað.  En svo lokuðu þau á allt, og lögðu í raun kínverskt efnahagslíf undir.

Hvaða erkifífl og fáviti heldur að þau hafi gripið til slíkra ráðstafana út af venjulegri saklausir veiru sem gerði jafnvel inflúensuveiru hættulega í samanburðinum??

Viðkomandi hafa allavega engan rétt að kenna sig við Homo sapiens, hinn vitiborna mann.

 

Viðbrögð kínverskra stjórnvalda, og síðan í kjölfarið ákall WHO til heimsbyggðarinnar um að taka veirufaraldurinn alvarlega, er ekki eitthvað sem við höfum oft lent í áður, þetta er fordæmalaust, og sjálfsagt eitthvað sem ekki hefur sést áður frá dögum spænsku veikinnar.

Skýringar á því, og af hverju þessi veira er svona hættuleg, má fá í góðu viðtali á Channel 4 í Bretlandi þar sem fréttamaður ræðir við "Dr. Richard Hatchett, sérfræðingur í faraldsfræði og smitsjúkdómum og ráðgjafi breskra og bandarískra stjórnvalda í heimsfaröldrum" svo ég vitni á frétt á Viljanum.

https://viljinn.is/frettaveita/mesta-heimsogn-fra-spaensku-veikinni-koronaveiran-gaeti-smitad-50-75-mannkyns/

Eftir 4 mínútur og 50 sekúndur er dr. Hatchett spurður um þennan samanburð, og svarið ætti að þýðast og birta í öllum fjölmiðlum heimsins.  Hann útskýrir af hverju veiran er svona hættuleg, og það er vegna hinnar alvarlegu lungnasýkingar sem hún getur valdið, og síðan bendir hann á að sterk rök hafi verið færð fyrir að sú tölfræði sem við höfum um dánarhlutföll séu eins og toppurinn á píramídanum, sérfræðingar hafi fært sterk rök fyrir að í raun sé það mun hærra í Kína, sem aftur skýrir hin harkalegu viðbrögð þar í landi.

Ekkert í svörum eða málflutningi dr. Richard Hatchett má kenna við að það sé verið að ala á ótta eða gera of mikið af hættunni sem fylgir þessum vírusfaraldri.  Hann ræðir málið skynsamlega um faraldur sem þegar er ljóst að geti verið sá hættulegasti sem við höfum séð frá dögum spænsku veikinnar, um hvað við vitum og hvað er hægt að gera.

Þetta er ekki maður sem er að hrópa úlfur, úlfur.

 

Þess vegna er það dálítið skrýtið að það er jaðarmiðill eins og Viljinn sem vekur athygli á orðum hans.

Á meðan er mest úbreiddi netmiðill landsins að veikja viðbrögð þjóðarinnar með því að vitna gagnrýnislaust í mann sem fóðrar fíflin og lætur út úr sér rangar staðhæfingar um kórónavírusinn. 

Það hefur áður hvarflað að mér að fjárskortur skýri þessa blaðamennsku Mbl.is, að þar telji menn sig á þeim aldri, við þá heilsu, að þeir þurfi ekki að óttast kórónuvírusinn, en hann gæti flýtt fyrir ótímabærum arfi.

Af hverju geta menn ekki lært af því sem er að gerast í kringum mann??

 

Það er mál að linni því mannslíf eru í húfi.

Menn fíflast ekki með dauðans alvöru.

 

Menn berjast við hana.

Kveðja að austan.


mbl.is Segir yfirvöld ala á óþarfa ótta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 8. mars 2020

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 76
  • Sl. sólarhring: 122
  • Sl. viku: 1635
  • Frá upphafi: 1321527

Annað

  • Innlit í dag: 65
  • Innlit sl. viku: 1393
  • Gestir í dag: 57
  • IP-tölur í dag: 57

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband