3.12.2020 | 23:01
Ögmundur út að aka.
Hefur ekki þá afsökun að vera dópaður.
Aðeins af gamla skólanum, skilur ekki að Ólöf Nordal setti lög sem girti fyrir geðþóttaákvarðanir stjórnmálamanna varðandi skipun dómara, einstaklingar sem sækjast eftir dómaraembættum þurfa sýna fram á að þeir hafi áunnið sér hnossið með störfum sínum og menntun.
En ekki pólitískum tengslum.
Alveg eins og aðrir sem sækja um störf á vegum ríkisins.
Sigríður Andersen gat ekki rökstutt af hverju hún tók 4 einstaklinga út af lista hæfnisnefndar, og afhverju hún bætti þeim fjórum sem ekki voru á listanum inn.
Auk þess að brjóta lögin þar um, þá leikur vafi á trúverðugleik viðkomandi einstaklinga sem hún skipaði.
Ganga þeir erinda ákveðinna hagsmuna, tilheyra þeir einhverju leynifélagi, keyptu þeir embættið og svo framvegis??
Ekkert af þessu vægast sagt líklegt, en á meðan er ekki farið á eftir lögum, og geðþótti ræður för, þá er vafi, og við þann vafa er ekki unað.
Það er í raun ótrúlegt að maður sem hefur verið þingmaður í öll þessi ár, skuli ekki ennþá skilja að tími hins pólitíska geðþótta er liðinn.
Þjóðin vill gegnsæi og að leikreglur séu virtar.
Hvað þá að Ögmundur láti það út úr sér að Alþingi geti upp á sitt eigið einsdæmi sniðgengið lög, að samþykkt þess sé æðri lögum þjóðarinnar.
Eins og hann hafi ekki öll þessi ár frétt að uni menn ekki lögum, þá breyta þeir þeim, en brjóta þau ekki.
Vissulega var þetta liðið á árum áður, en það er liðið enda stjórnvöld ítrekað dæmd brotleg í hinum og þessum málum, sem og að Alþingi hefur verið gert að taka upp sum lög sín sem stangast á við aðra lagasetningu, Ögmundur var til dæmis ráðherra í einni ríkisstjórn sem var gerð brottræk með lög sín um útreikninga vaxta á fyrrum ólöglegu gengislánum.
Dómskerfið er nefnilega farið að dæma sjálfstætt, það er eftir lögum en ekki vilja framkvæmdarvaldsins.
Svona er bara nútíminn og fáránlegt að leika sig eitthvað nátttröll, og þykjast ekkert skilja í breyttum tíðaranda.
Síðan er það ómerkilegt að hjóla í MDE á þeim forsendum að hann eigi ekki að dæma í svona málum því það séu önnur verri þarna úti.
Hvers eigum við sem þjóð að gjalda að hafa stjórnmálamenningu sem telur sig hafna yfir lög??
Á bara að taka verstu bandítana og láta öll önnur brot eiga sig.
Og hvað innilega heimska er þetta að halda að málið fyrir MDE snúist um einhvern dópaðan mann á hjóli??
Málið snérist fyrst og síðast um rétt okkar sem þjóðar að fá að lifa í friði fyrir spilltum stjórnmálamönnum sem telja sig ríki í ríkinu, í stað þess að vera hluti af þjóðinni, deila með henni kjörum sínum og RÉTTLÆTI.
Heitir þetta ekki ein lög fyrir alla.
Síðan ætti Ögmundur Jónasson að vita og muna, að öll mannréttindabrot eiga sér eitt upphaf.
Að stjórnvöld telji sig ekki þurfa að lúta leikreglum réttarríkisins.
Og fyrsta skref hinna brotlegu eru alltaf að ná tökum á dómskerfinu.
Ítalía Mússólínis, Þýskaland Hitlers, Tyrkland Erdogans, að ekki sé minnst á Sovétið sem engin mannréttindi virtu.
Enda fyrsta verk hinna nýfrjálsu þjóða Austur Evrópu að ganga í Evrópuráðið og gangast undir lögsögu MDE.
Því þar vissu menn á eigin skinni hvað það var að hafa valdhafa sem virtu ekki mannréttindi.
Eiginlega á Ögmundur bara bágt þessa dagana.
Hann er ekki að gera þjáðum Tyrkjum gagn með því að ráðast á MDE á þeim forsendum að hann eigi ekki að sinna öðrum en stórbrota þjóðum.
Dómurinn hlýtur að vera allra.
Annars er hann ekki hlutverki sínu vaxinn.
Sem er draumastaða böðlanna sem geta þá alfarið hundsað hann.
Stundum eiga menn að hugsa áður en þeir tala.
Þó það sé gaman að vera slegið upp í Mogganum.
Það er blettur á stjórnmálamenningu okkar og framkvæmdarvaldi að það skuli hafa vogað sér að gera sem það gerði í Landsréttarmálinu.
Og svartur blettur að það skuli hafa þurft dóm að utan til að leiðrétta þá ósvinnu.
Vilji menn ekki slík afskipti, þá skulu menn virða sín eigin lög.
Í stað þess að hrópa eins og frekur krakki, ég má, ég má, ég á, ég má.
Það er tími til kominn að þroskast.
Því sá tími er liðinn.
Og við búum í betra samfélagi á eftir.
Kveðja að austan.
![]() |
Dópaður bílstjóri og Mannréttindadómstóllinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
3.12.2020 | 14:53
Alþingi brást.
Það er ekkert flókið.
Fyrst að þingmenn á annað borð töldu sig hæfa til að greiða atkvæði um skipan dómara í hinn nýja dómsstól þjóðarinnar, Landsrétt, þá var lágmarkið að þeir kynntu sér lögin sem Ólöf Nordal þáverandi dómsmálaráðherra af skörungsskap sínum náði breiðri samstöðu um á Alþingi og voru hugsuð til að koma í veg fyrir pólitísk afskipti stjórnmálamanna af skipan dómara.
Þar var staðfesting ráðherra á niðurstöðu hæfnisnefndar fyrst og síðast hugsuð sem eftirlit á að hæfnisnefnd færi eftir lögum og reglum um starfsemi sína, að hún mæti hæfni en ekki til dæmis vinskap eða fjölskyldutengsl.
Staðfesting Alþingis gaf síðan dómurum hins nýja dóms þá vigt að þeir sætu í umboði þjóðarinnar.
Hefðu þingmenn kynnt sér lögin og umræðuna þá hefðu þeir í hið minnsta aldrei viðurkennt þau glöp og þá aðför að lögum landsins sem lesa má um í frétt Mbl.is frá því feb 2018 undir fyrirsögnini; "Viðreisn stöðvaði lista dómnefndar."
"Það vorum við sem rákum hana til baka vegna þess að við hefðum ekki hleypt fyrri listanum í gegn, sagði Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar, á opnum fundi þingflokksins 7. júní á síðasta ári. Vísaði hún þar til lista dómnefndar yfir þá sem nefndin taldi hæfasta til þess að gegna embættum dómara við Landsrétt.
Rætt var einnig við Benedikt Jóhannesson, þáverandi formann Viðreisnar og fjármálaráðherra, sem segist hafa gert athugasemdir við lista dómnefndarinnar þegar Sigríður hafi borið listann undir hann. Við sögðum einfaldlega að listi sem að uppfyllti ekki jafnréttissjónarmið, að við gætum ekki samþykkt hann.".
Tækifæri þeirra til að setja inn svokölluðu jafnréttissjónarmið inní lögin, það er að kyn en ekki hæfni ætti að ráða vali á dómurum, og hæfnisnefnd myndi þá hafa heitið "hæfnis og kynjanefnd", rann út þegar lögin voru endurskoðuð 2017.
Sú tillaga kom vissulega fram þá en þáverandi dómsmálaráðherra, Sigríður Andersen var snögg að afgreiða hana út af borðinu með þeim orðum að konur væru líka fólk, og þyrftu ekki að óttast að hæfni þeirra væri metin til jafns við karla.
Lögin hins vegar voru skýr um það að geðþótti einstakra stjórnmálamanna eða stjórnmálaflokka, "um að ég vil hafa þetta svona en ekki hinsegin, þetta er æskilegur maður en þessi óæskilegur og svo framvegis", væri ekki lengur inní dæminu þegar dómarar við Landsrétt yrðu skipaðir.
Að láta sér detta annað í hug eins og kemur fram í tilvitnuðum orðum Hönnu og Benedikts er því annað hvort dæmi um óendanlega heimsku eða algjöra fyrirlitningu á leikreglum lýðræðisins.
Í því ljósi eiga menn að skoða þessi orð réttlætingar Hönnu Katrínar í frétt á Ruv.is í gær;
"Þingið hafi lagt áherslu á að fá úr því skorið hvort ákvörðun dómsmálaráðherra væri í samræmi við ráðleggingar fagfólks. En það er erfitt þegar samstarfsfólk og ráðherra fara fram með ósannindi og blekkingar, segir hún. Þótt þingið hafi vitað að tillaga ráðherra væri ekki sú sama og hæfnisnefndarinnar hafi þingið ekki haft forsendur til að vita að ákvörðun ráðherra væri þvert á allar ráðleggingar sérfræðinga innan stjórnsýslunnar".
Kallast þetta ekki að stinga rýting í bakið í mesta bróðerni til að fría sjálfan sig sök??
En aldrei þessu vant þá lét fréttamaður Ruv ekki gæluþingmenn sína komast upp með slík ómerkilegheit og kattaþvott, á eftir þessum orðum og öðrum þar sem áfram voru dregnir fram rýtingar til að stinga í bak Sigríðar, kom kafli þar sem falsið og yfirdrepskapurinn var afhjúpaður.
Algjörlega ljóst öllum sem lesa að Alþingi brást algjörlega og getur ekki kennt Sigríði um;
"En hörð gagnrýni lá fyrir.
Áður en þingið samþykkti tillöguna höfðu lögspekingar varað opinberlega við framgöngu ráðherra. Í umsögn um tillöguna varaði Jóhannes Karl Sveinsson hæstaréttarlögmaður til dæmis við því að í uppsiglingu væri hneyksli sem yrði samfélaginu dýrt og myndi valda langvarandi vandamálum í réttarkerfinu. Hann minnti á að ráðherra væri bundinn af því að velja þá hæfustu: Og samkvæmt dómaframkvæmd Hæstaréttar þarf hann að geta rökstutt að dómnefnd hafi í einstökum tilvikum farið villur vegar, sagði í umsögninni. Rökstuðningur ráðherra hafi engan veginn uppfyllt lágmarkskröfur stjórnsýslu um rökstuðning og ekki staðist efnislega skoðun. Þar hafi ekki verið minnst á jafnréttissjónarmið.".
Í sjálfu sér þarf ekki að hafa fleiri orð um þetta.
Þetta fólk á bara að skammast sín.
Það virti ekki lög þjóðarinnar í einhverjum pólitískum hrossakaupum.
Réttlætingin á óhæfunni, að reyna að verja hið óverjanlega er síðan önnur saga.
Er fyrst og síðast heiðarleg tilraun mætra manna að gera lítið úr vitsmunum sínum og trúverðugleik.
Það getur öllum orðið á mistök en það er sorglegt að það skuli þurfa dóm að utan til að þau mistök sé viðurkennd, og það með hangandi hendi svo jafnvel Ragga Bjarna hefði þótt nóg um og haft áhyggjur hvort viðkomandi væri ekki í hættu að fá sinaskeiðabólgu í úlnliðina.
Ennþá sorglegra er að menn skuli rífast við þann dóm, og þær staðreyndir sem hann byggir á.
Að það hafi ekki verið farið að lögum þegar skipað var í Landsrétt og að geðþótti hafi ráðið skipan hluta dómaranna.
Því það er ekki bara réttarfarið sem er undir, heldur líka æra þjóðarinnar, jafnt út við sem og hjá okkur sjálfum.
Ef við getum ekki gert þetta rétt, hvað getum við þá gert rétt??
Af hverju lítillækkum við okkur svona??
Sem þjóð sem og þeir einstaklingar sem reyna að verja þetta.
Svo hlæjum við að trúðnum í Hvíta Rússlandi.
Sem er eiginlega alveg sjálfsagt.
Hann er hlægilegur.
Verra er að aðrir skuli hlæja af okkur á svipuðum forsendum.
Að við séum svona brandaraþjóð.
Þetta er nefnilega ekki einkamál þeirra sem klúðruðu eða brugðust.
Þetta snertir okkur öll.
Sem og landið sem við unnum.
Það er hið alvarlega eða hið alvarlegasta í öllu þessu máli.
Og það sér allt skynsamt fólk.
Hinir?
Hinir eiga bara bágt.
Kveðja að austan.
![]() |
Alþingi fékk pillu frá MDE |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
3.12.2020 | 09:37
Valdaflokkurinn stærstur.
Af hverju??
Eru kjósendur hans búnir að gleyma svikum hans í Orkupakkamálinu, eða skandalnum að ráðherra flokksins gat ekki einu sinni farið eftir lögum þegar skipað var í Landsrétt, og í stað þess að gangast í að leiðrétta þann skandal, þá þurfti dóm að utan til að rétt yrði breitt, það er farið að lögum.
Er kjósendur hans sáttir við opnun landamæranna í sumar sem kom af stað kóvid bylgju með gífurlegu tjóni fyrir allt hagkerfið, en efnahagslegur ávinningur ferðaþjónustunnar enginn.
Eru þeir sáttir við að nokkrir fjársterkir einstaklingar hafi það gífurleg ítök innan flokksins að almannahagur er látinn víkja þegar hagsmunir þeirra eru annars vegar??
Eru þeir sáttir við mannavalið í ráðherraliði flokksins, svona í ljósi þess að þeir eru flestir í eldri kantinum, og eru komnir með þann þroska og það vit, að þekkja fólk sem ekki er komið með vit og þroska svo hægt sé að telja það til fullorðna??
Svarið er einfalt.
Formaður flokksins, Bjarni Benediktsson, ber af öðrum stjórnmálaleiðtogum þjóðarinnar, hann er traustur, staðfastur, málefnalegur.
Er kjölfesta á tímum þar sem veltingur virðist alltaf vera að fleyta öllu á hvolf.
Það er bara svo, um þetta þarf ekki að rífast.
Þeir flokkar sem eru ósáttir, ættu að íhuga sín innri mál, og hvað það er sem fær hinn almenna kjósenda ekki til að treysta þeim.
Það er til dæmis þannig að það virðist ekki hafa verið nothæfur leiðtogi í Samfylkingunni frá því að Ingibjörg Sólrún var og hét, skrumið byrjaði eftir brotthvarf hennar.
Bara svona svo dæmi sé tekið.
Það er gífurleg óánægja í þjóðfélaginu með svo margt.
Samt er svo margt sem er gott.
Eina skýring þess eru stjórnmál sem hafa ekki náð að fanga eftirmál Hrunsins eða bjóða fólki uppá framtíðarsýn.
Á meðan er þó þekktur stöðugleiki illskástur.
Vilji menn breyta því.
Þá byrja menn á að breyta sjálfum sér.
Kveðja að austan.
![]() |
Sjálfstæðisflokkurinn stærstur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggfærslur 3. desember 2020
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (18.5.): 7
- Sl. sólarhring: 7
- Sl. viku: 48
- Frá upphafi: 1440178
Annað
- Innlit í dag: 5
- Innlit sl. viku: 42
- Gestir í dag: 5
- IP-tölur í dag: 4
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar