26.12.2020 | 15:44
Skinhelgi á jólum.
Ótrúlegt að upplifa hvernig fólk og fjölmiðlar gátu farið hamförum út af meintum brotum Bjarna Ben á sóttvörnum, það hefði mátt halda að Bjarni hefði boðið til mannfagnaðar og staðið fyrir djammi langt fram á nótt, í stað þess sem gerðist, að honum varð á, og gætti ekki að sér.
Hvernig fólk gat velt sér uppúr þessu eða gripið tækifærið til að vega að pólitískum andstæðingi, á þessum tíma þar sem við eigum að huga að ljósinu og birtunni, jafnvel hafa aðgát í dómum okkar og fordómum gagnvart náunganum, að ekki sé minnst á að leggja eitthvað gott til, gagnvart okkar nánustu, gagnvart náunganum, gagnvart samfélaginu.
Jafnvel á erfiðum stundum kemst maður ekki hjá því að finna fyrir inntaki jólanna þegar sagt er í fréttum frá hinu óeigingjarna sjálfboðastarfi hermanna Hjálpræðisins sem gefa gjafir, gefa mat, og ekki hvað síst, gefa kærleik.
Þá eyða menn tímanum í aðför að manni, manneskju, sem gaf á sér höggstað, og bullusullast út um víðan völl um eitthvað sem á sér ekki flugufót í raunveruleikanum.
Góðglaður Bjarni var ekki að vanvirða fólk sem býr við einangrun þessi jól. Einangrun þess stafar af því að það er í áhættuhópi, og þarfnast því sérstakrar verndar.
Mistök hans eru ekki hvatning til annarra að virða ekki sóttvarnir, fólk er ekki svo heimskt að það lætur einhverja meinta áhrifavalda stjórna lífi sínu, til góðs eða ills. Þeir sem virða sóttvarnir, halda áfram að virða þeir, hins vegar gæti umræðan um þessi mistök orðið til þess að þeir sem eru kærulausir, hugsi betur sinn gang, og þá eru þessi mistök til góðs.
Síðan er engin tvískinnungur fólginn í því að gegna skyldum sínum innan ríkisstjórnar Íslands og taka réttar ákvarðanir um sóttvarnir þjóðarinnar, sem og í kjölfarið að hvetja fólk til dáða, og verða síðan sjálfum á mistök á þessum tímapunkti þar sem fólk slakar og vill gleðjast með sínu nefi.
Annars vegar er það hin opinbera persóna, hins vegar er það manneskjan að baki henni.
Og illa er fyrir sálarlífi fólks ef það áttar sig ekki á þessum mun.
Fjarstæðan er síðan sú að leggja út af þessu broti og samkvæmi, að eitthvað meint ríkt fólk telji sig geta komist upp með athæfi sem almenningi líðist ekki. Það er tekist á við þetta brot eins og önnur, það fær sína afgreiðslu, eins og önnur sama eðlis.
Frekar mætti halda því fram að hinir skinheilögu krefjist að strangara sé tekið á sumum en öðrum, og þessir sumir séu allir þeir sem viðkomandi er illa við, hvort sem það er pólitískt, eða persónulegt.
En af hverju er ég með svona langan aðdraganda að því sem ég sagt vildi hafa út frá þessari frétt?
Jú, þegar fárið stóð sem hæst, þá blöskraði mér hvernig ómál fékk alla athygli en stórmál, mál sem snerta okkur öll, falla í skuggann, eru ekki rædd, nema þá sem aukafrétt.
Stórfréttin fyrir jól, fyrir utan hörmungarnar á Seyðisfirði, var sú staða sem upp var komin að fyrirheitin um bólusetningu uppúr áramótum, og hjarðónæmi fyrir vorið, var orðið að engu, hafði drukknað í skriffinnskutilburðum Brussel.
Eitthvað sem átti að kalla á svör, og jafnvel kröfu um afsögn heilbrigðisráðherra.
Þá hjó ég eftir því að Bjarni hjólaði ekki í VG þó það hefði glatt margann haukinn í flokki hans; hann lét til dæmis þessi orð Katrínar ekki út úr sér; " .. að vissulega séu það vonbrigði að málið hafi komið upp og að það skaði traust milli flokka í ríkisstjórn".
Hann fóðraði ekki nagið gegn ríkisstjórninni með því að ráðast á samstarfsflokk og ráðherra sem lá við höggi.
Þess í stað var reynt að bæta úr, Katrín tók upp tólið, sambönd voru virkjuð.
Þá kom stórfrétt þessarar hátíðar, hugmynd var uppi um samstarf við Pfizer um tilraunabólusetningu þjóðarinnar til að rannsaka hið mögulega hjarðónæmi, sem í dag er aðeins tilgáta, nútíminn hefur aldrei staðið frammi fyrir viðlíka hremmingum gagnvart svona smáum og illvígum drápara.
Frábær frétt, en hvað gerðist svo?
Jú, aðilar málsins fóru að karpa eins og smástrákar um heiðurinn, drógu skugga deilna fyrir tjald vonarglætunnar.
Hversu heimskt þetta er er í raun ekki hægt að lýsa með orðum, það eina sem afsakar er þandar taugar hinna örmögnuðu sem hafa of lengi staðið vaktina í framlínu baráttunnar.
Eitthvað sem snerti líf og limi, eitthvað sem gæti flýtt fyrir að við fengjum líf okkar aftur úr hremmingum sóttvarna, og þá karpa menn um heiðurinn.
Og fjölmiðlar og netheimar veltir sér uppúr mannlegum breyskleika, eins og drulluslagur og mannorðsníð sé það eina sem menn hafa til málanna að leggja á dauðans alvöru tímum.
Eins og við séum stödd á þeim tíma þar sem Íslands ógæfu varð allt að vopni.
Margir eiga að skammast sín eftir þessa hátíð.
Það er enginn sómi að svona aðför á sjálfri jólahátíðinni.
Vonandi hafa menn vit til að sjá það.
En fyrst og síðast erum við að bregðast framtíðinni með því að láta svona.
Það þarf ekki að eyða orðum að vitleysingabandalaginu, en full ástæða til að lesa yfir fullorðnum mönnum sem taka uppi hætti smástráka.
Kyrrð jólanna virðist samt hafa haft góð áhrif, Kári gerðist auðmjúkur og Þórólfur er hættur að kýtast.
Það er vel því þannig á það að vera.
Það er verkefni sem þarf að vinna.
Ekki með hangandi hendi heldur með eldmóði þess sem trúir að hann nái árangri, að hann skili góðu verki.
Gangi ykkur vel Þórólfur, Kári, Katrín og þið öll hin.
Verk ykkar skiptir máli.
Kveðja að austan.
![]() |
Þórólfur: Vonandi sér Pfizer kosti Íslands |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggfærslur 26. desember 2020
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (18.5.): 7
- Sl. sólarhring: 7
- Sl. viku: 48
- Frá upphafi: 1440178
Annað
- Innlit í dag: 5
- Innlit sl. viku: 42
- Gestir í dag: 5
- IP-tölur í dag: 4
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar