11.10.2020 | 13:08
Mogginn á batavegi.
Ár og dagar síðan hann flutti skrumskælda frétt (bein útsending Andersen með Tegnel) um alvarleik farsóttarinnar, enn lengra síðan að beinlínis hallað var máli í fréttaflutning (engin smit við tvöfalda skimun), ófréttir varla á stangli.
Ef ekki hefur verið fenginn andasæringarmaður frá kaþólsku kirkjunni til að skvetta vígðu vatni á hægri öfgann, þá hljóta eigendur blaðsins að hafa fattað að ekki er gáfulegt að vera bendlaður við blað þar sem hluti ritstjórnar vinnur markvisst að því að fækka stórum hluta lesenda blaðsins, ekki með leiðinlegu efni því Mogginn er ferskur sem fyrr, heldur með því að berjast fyrir ótímabæru andláti þeirra undir yfirskininu, "Förum sænsku leiðina".
Morgunblaðið hefur nefnilega verið hluti af óvæginni áróðursherferð sem á sér rætur í innsta kjarna Sjálfstæðisflokksins, þar sem jafnt hefur verið vegið að Bjarna formanni sem og kjarnafylgi flokksins, eldra fólki.
Það er mál að linni sagði Þórarinn Guðnason hjartalæknir á feisbókarsíðu sinni, og frjáls blaðamaður fékk að gera frétt um og fékk áberandi pláss á Mbl.is.
"Mikil er ábyrgð þeirra sem leggja til óheftari smit í landinu og tala gegn okkar bestu sérfræðingum í smitvörnum, sem nú eiga undir högg að sækja í þjóðfélagsumræðu og hjá ákveðnum hópum".
Orð hans ættu að vera skyldulesning öllum þeim sem taka mark á niðurrifsfólkinu, það þarf nefnilega tvo til svo sóttvarnaryfirvöld eiga undir högg að sækja í umræðunni, illviljann sem grefur undan og fólkið sem er nógu vitgrannt til að trúa honum.
Kannski hafa eigendur Morgunblaðsins skynjað, að þó þau séu nógu efnuð til að byggja upp múra og kastalaveggi í kringum sig, að þá er utan þeirra fólk, lifandi fólk; "getum við verið að tala um að það sé afi þinn, amma, faðir eða móðir eða jafnvel langveiki litli bróðir þinn eða frændi sem verður snúið við á bílaplani Landspítala í Fossvogi", og múrar verða ekki byggðir um allt þetta fólk.
Vatnaskilin í fréttamennsku Morgunblaðsins urðu síðan í gær þegar frjáls fréttamaður fékk að vekja athygli á sönnu, raunsönnu bréfi Ólafs Jóhanns Ólafssonar rithöfundar til þjóðarinnar sem hann birti í Morgunblaðinu, en var í kjölfarið birt í heild sinni á Mbl.is.
Eftir það bréf ætti öllum að vera ljóst hvaða viðrinisháttur það er að tala niður alvarleik veirunnar, eða hampa fólki sem beinlínis lýgur og blekkir í þágu myrkurs og dauða líkt og skrifara Reykjavikurbréfsins varð á núna nýlega.
Allavega veit viðkomandi að sá viðrinishátturinn verður ekki falinn bak við orðskrúð, slepju eða aulahúmor, nakinn á berangri blasir sannleikurinn við, jafnt sjáandi sem blindum.
Gefum Ólafi orðið áður en vikið er að orðum Kára í viðtengdri frétt;
"Nú erum við stödd í nýrri bylgju og ólíkt því sem áður var erum við ekki samstiga lengur. Það er stutt í þræturnar sem við getum verið svo dugleg við. Sóttvarnalæknir er talinn ganga of langt. Þríeykið þarf að tönnlast á sömu leiðbeiningunum við okkur eins og ungling á mótþróaskeiði.
Það spyrst út að óeining sé í ríkisstjórn. Og spekúlöntum og sumum stjórnmálamönnum þykir þetta heppilegur tími, nú þegar faraldurinn geisar og sjúkrahús eru byrjuð að fyllast, að viðra kenningar sínar um frelsi einstaklingsins sem þeir lásu kannski um þegar þeir voru ungir og móttækilegir en eiga lítið erindi í því stríði sem nú er háð við óvin sem kann ekki einu sinni þá kurteisi að klæðast einkennisbúningi svo við sjáum hann á færi.".
Bad timing, það er bara svo.
Hafi maður samt efast um batann, þá sannfærðist ég þegar ég las þessa frétt um smittölur dagsins, blaðamaðurinn þurfti þess ekki, hann hefði til dæmis alveg getað vitnað í Sjakalann, en hann vitnað í orð Kára okkar klára á Bylgjunni í morgun.
Sumir, lesist frjálshyggja Sjálfstæðisflokksins, vilja að sögn Kára kljást við faraldurinn með því að hundsa hann.
"Það er hægt að rökstyðja á ýmsan máta þá leið en mér finnst hún ansi óaðlaðandi vegna þess að þú ert raunverulega með því að fórna þeim sem eiga undir högg að sækja, gömlu fólki, því sem er með undirliggjandi sjúkdóma. Ef þú ætlar að fara þá leið að reyna að hemja þessi smit er alveg nauðsynlegt á landamærum að hafa tvöfalda skimun, sagði Kári.
Nokkur umræða hefur verið í þriðju bylgju faraldursins um að fara ekki í eins harðar sóttvarnaaðgerðir vegna áhrifa þess á aðra þætti í samfélaginu en Kári efast um að til sé millileið. Annaðhvort hemji maður útbreiðsluna eða leyfi veirunni að flakka: Ég held að millileiðin sem menn eru að tala um sé bara ósköp einfaldlega ekki til".
Millileiðin er ekki til, það liggur í raunheimi veirunnar, að annað hvort er skorið á smitleiðir hennar, eða hún smitar.
Vatn rennur ekki uppá móti þó þingmenn og ráðherrar Sjálfstæðisflokksins segi að það geri það ef því er sagt að gera það, rigning verður ekki þurr þó við viljum ekki blotna, orð eða vilji breyta engu án aðgerða í þá átt.
Það eru sóttvarnir sem halda veirunni í skefjum, áður en gripið var til þeirra, þá drap hún og þau dráp voru í veldisvexti.
Vilji menn ekki sóttvarnir, þá eiga menn að viðurkenna alvarleik hennar og hætta að vitna í meint dánarhlutfall sem voru afleiðing af ströngum sóttvörnum.
Geri menn það ekki þá ljúga menn og blekkja í annarlegum tilgangi.
Og þegar dauðinn er undir þá lýsir slíkt alltaf botnlausri mannvonsku eða illsku.
Alvarleikinn getur verið sá að það séu ekki neinir góðir kostir í stöðunni, ef veiran grefur um sig og blossar alltaf upp á ný.
Það er ekkert að því að ræða þá stöðu, en sú umræða þarf að byggjast á staðreyndum, ekki falsi, eða blekkingum.
Það er staðreynd að veiran hefur komið mishart niður á þjóðum, en gagnályktunin, að fyrst sumar þjóðir hafi sloppið betur en aðrar án sýnilegra skýringa, að þá hljóti allar þjóðir að gera það, er röng.
Það er staðreynd að þessi farsótt er margfalt skæðari en venjuleg flensa og þó hún virðist helst drepa eldra fólk og fólk með undirliggjandi sjúkdóma, þá er ekkert vitað um langtímaáhrif hennar á ungt fólk. Nema að þau geta verið alvarleg.
Og það er staðreynd að það er hægt að útrýma smitsjúkdómum, þeir sem halda því fram að veiran sé komin til að vera, og að það sé ekkert hægt að gera en að láta hana veikla og drepa, hafa því rangt fyrir sér, í versta falli ljúga vísvitandi þar um.
Það er ekkert dularfullt við veirur, þær þurfa smitleiðir og með nýjustu tækni eru þær hvergi óhultar, geta hvergi falist.
Að útrýma þeim er aðeins spurning um vilja.
Eins verða menn að hafa í huga að hver dagur sem líður án þess að veirunni er leyft að drepa, er dagur sem færir okkur nær lækningu.
Ekki bara bólusetningu heldur líka lækningu.
Af hverju þá asinn við að fella niður varnir á meðan veiran er ennþá svona mannskæð, ef menn hafa þá ekki viljann til að útrýma veirunni??
Þeirri spurningu sem og margri annarri getur venjulegur maður ekki svarað.
Vegir drottins eru vissulega órannsakanlegir en botnlaust díki illskunnar er og verður alltaf venjulegu fólki óskiljanlegt.
Þess vegna eigum við að standa ístaðið.
Vernda okkar fólk í umræðunni fyrir falsi og blekkingum áróðursins.
Leyfa samt öðrum röddum að heyrast og mismunandi sjónarmiðum að ræðast.
Gera bara kröfuna um að menn haldi sig við staðreyndir.
Þannig hefst þetta.
Á þann hátt að við minnumst þessa tíma með stolti.
Við gerðum okkar besta.
Við héldum haus.
Kveðja að austan.
![]() |
60 innanlandssmit í gær: 36 innan sóttkvíar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Bloggfærslur 11. október 2020
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (19.5.): 1
- Sl. sólarhring: 9
- Sl. viku: 47
- Frá upphafi: 1440180
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 41
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar