16.8.2019 | 16:40
Sannleikanum verður hver sárreiðastur
En það er óþarfi að missa sig þó fólk sé með allt niðrum sig, svikið stefnu sína, kjósendur, lífsskoðanir líkt og það virðist vera plagsiður VinstriGrænna þegar þeir sitja í ríkisstjórn.
Af hverju eru þeir að taka þátt í að innleiða regluverk sem festir endanlega í sessi markaðsvæðingu raforkumarkaðarins eftir forskrift Friedmans um að almannavald megi ekki skipta sér að markaðnum og ákvörðunum hans??
Af hverju eru þeir að samþykkja regluverk um tengingar milli landa þegar ljóst er að ef til slíkrar tengingar kemur þá mun það þýða stórhækkun á rafmagni og að fjöldi fólks mun missa atvinnu sína.
Af hverju eru þeir að samþykkja regluverk sem Evrópusambandinu og stofnun þess, ACER forræði yfir raforkumálum þjóðarinnar þegar til lengri tíma er litið.
Og hví í fjandanum eru þeir svo miklir bjánar að þeir vita ekki hvað þeir eru að samþykkja??
Hrópandi síðan ókvæðisorð að fólki sem í hrekkleysi sínu mætir á fund til að útskýra hvað felst í regluverkinu á eins hópværan og kurteisan máta og hægt er.
Mikil má sárreiði þeirra vera.
Sannleikurinn gerir samt fleira en að ergja fólk sem þolir ekki að heyra hann.
Sannleikurinn geri þig líka frjálsan er sagt.
Jæja, það er ljóst að VinstriGrænir eru ekki frjálsir.
Þeir eru í fjötrum valdaþorsta síns.
Og vinna að því hörðum höndum að fjötra okkur hin.
Á klafa Evrópusambandsins.
Í fjötra samkeppnismarkaðarins.
Þeir kusu sína fjötra.
Við kusum ekki okkar.
Og munum aldrei sætta okkur við þá.
Kveðja að austan.
![]() |
Þetta er bara mjög móðgandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.8.2019 | 13:21
Er hægt að vera sérfræðingur í bulli??
Og ekki er ég þá að vísa í stjórnmálamenn sem geta haft atvinnu af slíkri iðju, heldur þessi orð dósents við Háskólann í Reykjavík.
" Það má vel vera að ESB hafi það að markmiði að búa til sameiginlegan raforkumarkmið en að það markmið leggi skyldu á íslenska ríkið að leggja sæstreng er afar langsótt, segir Margrét. Þetta stendur bara ekki í þessari löggjöf, segir hún.".
Það er ekki beint akademísk vinnubrögð að fjalla um regluverk út frá því sem stendur ekki í því en láta það ósagt sem stendur í því. Slíkt gjaldfellir bæði viðkomandi einstakling sem og þá stofnun sem hann vinnur hjá.
Orkupakki 3 fjallar um tengingar milli landa þar sem markmið Evrópusambandsins er að koma á einum raforkumarkaði, það er skýrt, það er ekkert "má vel vera" í því sambandi.
Það er augljóst að slíkt markmið næst ekki ef einstök aðildarríki gætu hindrað slíkar tengingar, haldið raforkumarkaði sínum út af fyrir sig. Þess vegna er talað í aðfaraorðum reglugerðarinnar um "hindrunarlaus viðskipti" með raforku, þess vegna er talað um "single market".
Regluverkið fjallar ekki um skyldur einstakra ríkja til að leggja tengingar, heldur er það regluumgjörð um hvernig markaðurinn, fyrirtæki á markaði, geti ráðist í slíkar tengingar, telji það þær vera hagkvæmar.
Um þetta er ekki hægt að deila, og aðeins bjánar nálgast umræðuna á þeim forsendum að tína eitthvað til sem hugsanlega gæti nýst íslenskum stjórnvöldum í að koma í veg fyrir slíkar tengingar.
Markaðurinn verður að geta gengið að skýrri lagaumgjörð um millilandatengingar, hann verður að geta treyst því að geðþótti stjórnmála hindri ekki á síðustu stundu framkvæmd sem miklum fjármunum og tíma hefur verið veitt í að undirbúa.
Hann verður að geta treyst því að slíkar tengingar séu tengdar við innri tengingar, það er landsnetið, og hann verður að geta treyst því að raforkusalar sem ætla að skipta við hann, séu ekki hindraðir í að tengjast millilandatengingunni.
Það er til einn góður mælikvarði á hvort regluverk sé skýrt eða ekki, og það er hegðun og gjörðir markaðarins.
Frá því að orkupakki 3 kom fram 2009, þá hefur breskt einkafyrirtæki unnið að því hörðum höndum að undirbúa lagningu sæstrengs til Íslands, kostað miklu til og segist núna vera á lokametrum undirbúnings og fjármögnunar.
Móðurfyrirtæki þess svissneskt hefur þegar fjárfest hér á landi.
Þetta gera menn ekki ef þeir treysta ekki regluverkinu.
Þeir sérfræðingar sem halda því fram að íslensk stjórnvöld geti samþykkt regluverk um cross border tengingar og síðan hundsað innihald þess, verða að sýna fram á hvar reglusmiðum Evrópusambandsins varð á að skilja eftir glufu fyrir einstök aðildarríki að hindra millilandatengingar og hvernig íslensk stjórnvöld geta nýtt sér þá missmíð.
Það er of seint að uppgötva það í réttarsalnum að menn hafi rangt fyrir sér, slíkt er dýrt fyrir íslensku þjóðina.
En þetta hafa menn ekki gert, hvorki vísað í viðkomandi ákvæði reglugerðarinnar eða dóma um að einhliða fyrirvarar haldi.
Það er aðeins fullyrt án rökstuðnings.
Eða hreinlega bullað um að engin kvöð sé á íslenska ríkið að leggja sæstreng.
Það stendur heldur ekki í regluverkinu að það eigi að virkja Gullfoss, eða leggja malbikaða vegi yfir hálendið.
Það stendur nefnilega svo ótalmargt ekki í regluverkinu, eiginlega óendanlega margt.
Það sem stendur hins vegar er að markaðurinn á sjá um tengingar milli landa, og ef hann telur tengingu hagkvæma, þá má ekki hindra hann í að leggja slíka tengingu.
Og um það eiga sérfræðingar að fjalla, útskýra hvernig regluverkið virkar, og hvað það hefur í för með sér.
Annað er afvegleiðing umræðunnar.
Þeim til vansa sem slíkt gera.
Og mál að linni.
Kveðja að austan.
![]() |
Það sem er ekki í þriðja orkupakkanum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggfærslur 16. ágúst 2019
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (4.7.): 356
- Sl. sólarhring: 811
- Sl. viku: 4819
- Frá upphafi: 1457767
Annað
- Innlit í dag: 305
- Innlit sl. viku: 4164
- Gestir í dag: 289
- IP-tölur í dag: 287
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar