Til hvers að samþykkja regluverk ??

 

Þegar þú ert annað hvort á móti viðkomandi regluverki, og samþykkir það með þeim fyrirvara að það gildi ekki, eða þú afneitar innihaldi þess, segir að það fjalli um eitthvað allt annað en stendur í því.

Það fyrra er fáránlegt því ef þú ert á móti regluverkinu, þá setur þú ekki haldlitla fyrirvara heldur hafnar því, það seinna er heimskt og ætti ekki að vera til umræðu á Alþingi Íslendinga.

Spurning Arnars Þórs; "Til hvers voru Íslend­ing­ar eig­in­lega að samþykkja þriðja orkupakk­ann ef þeir vilja síðan ekki flytja raf­orku til annarra landa" mun verða spurð í háðungarskyni um langa framtíð og mun verða notuð sem dæmi í kennslubókum um langa framtíð um að samþykkt lög gildi, þó brotamenn haldi öðru fram.

 

Krakkarnir sem hafa staðið í eldlínu skítverkanna skilja ekki þessa spurning og munu aldrei gera.  Og það er ekki við þá að sakast, mannavalið og vitsmunirnir á þingi er á okkar ábyrgð sem þjóðar, ekki þeirra sem komust á þing fyrir tilverknað almannatengla og ímyndasmiða.

Þeir sem eru eldri og standa á bak við, þeir bæði skilja þessa spurningu, og vita svarið við henni.  Því þeir eru í raun svarið.

Sem og raunveruleikinn sem þeir búa við.

 

Sá raunveruleiki sem Arnar Þór lýsir svo vel í viðtalinu og erfitt að taka eitt úr.  En í sambandi við þessa spurningu er kjarninn kannski þessi;

"Mikl­ar breyt­ing­ar hafa átt sér stað á EES-sam­starf­inu á þeim 25 árum sem Ísland hafi verið aðili að því, seg­ir Arn­ar Þór. Lýðræðis­leg vinnu­brögð hafi þannig til að mynda vikið fyr­ir val­boði ofan frá. „Dóm­stól­ar og eft­ir­lits­stofn­an­ir taka ákv­arðan­irn­ar og stýra ferl­inu, en ekki kjós­end­ur og lýðræðis­lega kjör­in lög­gjaf­arþing. Þetta þarf að ræða heiðarlega, sér­stak­lega út frá hags­mun­um smáþjóða í alþjóðlegu sam­starfi. Hér er runn­inn upp nýr veru­leiki sem ég tel að við þurf­um að vera vel vak­andi gagn­vart sé okk­ur á annað borð um­hugað um full­veldi Íslands og efna­hags­legt sjálf­stæði.“".

Þetta er raunveruleikinn og svarið er uppgjöf.

 

Þeir hafa hvorki andlegan eða pólitískan styrk að fara gegn regluveldinu, þeir hafa fyrir löngu verið samlagaðar, þeir samþykkja allt, neita engu.

Annað er fyrir þá pólitískt sjálfsmorð, endalok launanna, eftirlaunanna og hinna ímynduðu valda sem þeir telja sig hafa á meðan þeir passa sig á að samþykkja.

Ægivaldið er það mikið að það sligar ekki bara meðalmanninn, vandséður er sá stjórnmálamaður sem stæðist það. 

 

Í ICEsave þurfti heila þjóð til, og eins er það með þetta regluverk sem sviptir okkur forræði yfir orkuauðlindum okkar, og mun knýja orkuna okkar á hinn sameiginlega samkeppnismarkað Evrópusambandsins.

Það þarf heila þjóð því þó það sé hægt að klekkja á einstökum stjórnmálamönnum, þá er það flóknara að knésetja þjóð.

Það þarf líka heila þjóð til að skera fullveldi okkar úr snörum EES samningsins.

 

Því ef einu rök stjórnmálamanna okkar fyrir samþykki regluverksins, sem þeir segjast sjálfir vera á móti, og þess vegna setja þeir lög sem banni að það taki gildi, séu þau að þeir óttist afleiðingarnar að virkja skýr ákvæði samningsins um ágreining, þá er ljóst að samningurinn er ekki á milli tveggja jafnrétthárra aðila.  Heldur meira svona eins og sambandið er á milli húsbænda og hjúa.

Samningurinn er skýr, jafnvel fyrir torlæsa, svo óttinn hlýtur að byggjast á einhverri ógn sem stjórnmálamenn okkar telja raunverulega eða upplifa sem raunverulega.

Því eins og Arnar Þór bendir réttilega á; "Ekk­ert er því til fyr­ir­stöðu að við höfn­um því að inn­leiða þessa til­skip­un Evr­ópu­sam­bands­ins. Slík ákvörðun trufl­ar ekki sam­starfið við það. Þetta er hags­muna­gæsla. Ef við meg­um ekki gæta okk­ar eig­in hags­muna, hvað seg­ir það þá um stöðu okk­ar? Erum við ekki frjáls þjóð í viðskipt­um við Evr­ópu­sam­bandið?“".

Ótti er ekki rök hjá frjálsri þjóð, hvort sem deilt er um smámál eða stórmál, og stærri verða þau ekki en þegar forræði yfir sjálfum orkuauðlindum þjóðarinnar er að ræða.

 

Í þessu samhengi skiptir engu hvort EES samstarfið hafi verið farsælt eður ei, ef það hefur þróast með þeim hætti að stjórnmálamenn okkar þora ekki öðru en að samþykkja allt sem frá Brussel kemur, að þá er tími til kominn að skipta um stjórnmálamenn, og skipta út samningi sem vekur þennan ótta.

Fyrir til dæmis viðskiptasamning þar sem við kaupum vörur af Evrópusambandinu, og þeir kaupa vörur af okkur, svo setja þeir sínar lög og reglur án afskipta okkar, og við setjum okkar lög og reglur án afskipta þeirra.

Eitthvað sem heitir gagnkvæm virðing fyrir fullveldi hvors annars.

 

Eins og Arnar Þór á þá er löngu tímabært að ræða eðli EES samningsins, og í því samhengi er enginn eðlismunur, aðeins sá stigsmunur sem felst í framgang tímans, að nýta dómstóla eða skriðdreka til að knýja fram vilja sínum gagnvart öðrum sjálfstæðum ríkjum, eða eigin þjóðum sbr. þessi orð Arnars; "Evr­ópu­sam­bandið virðist nú starfa með þeim hætti, seg­ir hann, að ef ekki sé hægt að koma markaðsbreyt­ingu í gegn með lýðræðis­leg­um hætti, vegna þess að kjós­end­ur vilja það ekki, skuli það gert í gegn­um dóm­stóla­kerfið."

Þeirri umræðu má þó fresta ef orkupakki 3 fær eðlilega lýðræðislega umfjöllun, út frá rökum og staðreyndum, en ekki forheimsku og blekkingum, og ef Alþingi kemst að þeirri niðurstöðu að það sé sátt við innhald hans, það er hið evrópska yfirvald og markaðsvæðing orkunnar sem seld er á samkeppnismarkaði sbr. single market, þá samþykkir það hann án fyrirvara.

Þá reynir ekki á EES samninginn, heldur lýðræðið því vandséð er hvernig Alþingi gæti samþykkt slíkt regluverk án þess að málið hafi verið kynnt fyrir kjósendum í aðdraganda kosninga,  næsta skref þess gæti þess vegna verið að það legði niður lýðveldið Ísland, eða einkavæddi það, seldi það hæstbjóðenda eða annað sem geðþóttinn einn ræður.

Þá reynir á hvort þjóðin sé sátt við gerræðið, eða rís upp gegn því.  Í því samhengi öllu er EES samningurinn alltaf aukaatriði málsins.

 

Ef Alþingi er hins vegar á því að þetta regluverk eigi ekki við Ísland og íslenskar aðstæður, þá samþykkir það ekki haldlausa fyrirvara, því slíkt er aðeins fífla háttur, heldur vísar málinu til sameiginlegu EES nefndarinnar, og þar verður svo samið um sá hluti regluverksins sem varðar tengingar yfir landamæri, og yfirþjóðlega vald, verði ekki tekið upp í íslenska löggjöf. 

Punktur.

Og þar með er náttúrulega ekkert regluverk til að samþykkja, nema þá hugsanlega það sem tekur á gasleiðslur yfir landamæri.

Ef EES samningurinn virkar, þá verður samið því Ísland er ekki tengt við hinn sameiginlega orkumarkað, og ef til þess kæmi að væri gagnkvæmur vilji Evrópusambandsins og Íslands að leggja sæstreng til landsins, þá verður það gert með tvíhliða samning. 

Það er aðeins forræðið sem þjóðin er ekki tilbúin að semja um, og aðeins illvilji setur sig ekki í þau spor smáþjóðarinnar.

 

Virki EES samningurinn, þá má vissulega hafa áhyggjur af þróun hans í náinni framtíð, og vissulega má spyrja spurninga um umfang regluverksins og þann gífurlega kostnað sem því fylgir, sem er náttúrulega bara kostnaður sem dreginn er beint frá lífskjörum almennings.

En hann virkar samt sem áður.

Og verður ekki vefengdur af þeirri forsendu einni saman.

 

Þess vegna er svo mikilvægt að hnúturinn um orkupakka 3 sé leystur í sæmilegri sátt við heilbrigða skynsemi og hagsmuni þjóðarinnar.

Fyrsta skrefið er því að stjórnmálamenn affíflist og ræði regluverkið út frá innihaldi þess, og ef einhver undirliggjandi ótti býr að baki, ræði hann af hreinskilni.

Næsta skrefið er sáttin.

Sátt um sannsögli, heiðarleika, hagsmuni almennings.

 

Hana má finna í sumar.

Vilji er eina sem þarf.

Kveðja að austan.


mbl.is Verið að samþykkja óheft flæði raforku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 6. júní 2019

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.5.): 66
  • Sl. sólarhring: 963
  • Sl. viku: 5552
  • Frá upphafi: 1338439

Annað

  • Innlit í dag: 64
  • Innlit sl. viku: 4898
  • Gestir í dag: 64
  • IP-tölur í dag: 64

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband