Grundvallarhagsmunir þjóðarinnar.

 

Er að orkuauðlindir hennar séu sameign þjóðarinnar.

Að þær lúti forræði hennar að fullu.

Og þær séu nýttar til að skapa velmegun og hagsæld innanlands en ekki til að bæta neytendavernd í Þýskalandi eins og eina röksemd Viðreisnar í þessu máli er.

 

Orkutilskipanir Evrópusambandsins ganga gegn öllum þessum lykilatriðum svo þeir sem berjast fyrir innleiðingu þeirra ganga annarra erinda en þjóðarinnar.

Þeir ganga erinda auðmanna sem ásælast orkufyrirtæki okkar sem og hina óbeisluðu orku.

Þeir ganga erinda Evrópusambandsins sem sárlega vantar græna orku til að bæta kolefnisbókhaldið sitt.

Þeir ganga erinda hræðslunnar og óttans, þeirrar minnimáttarkenndar sem sífellt nagar og segir að við getum ekki ráðið málum okkar sjálf, við getum ekki verið sjálfstæð þjóð.

Og þessir þeir eru stjórnmálastétt þjóðarinnar eins og leggur sig, með heiðvirðum undantekningum eins og Ingu Snæland, formann Flokks fólksins, og Sigmundar Davíðs, formanns Miðflokksins.

 

Hvað veldur?

Hví getur það verið metnaðarmál stjórnmálanna að rjúfa griðinn við þjóðina, og koma auðlindum hennar undir erlend yfirráð??

Af hverju að rjúfa þá hundrað ára gamla sátt, milli vinstri og hægri, milli ríkra og fátækra, milli höfuðborgar og landsbyggðar, að orkan okkar sé sameign, hún sé auðlind, og til hennar sækjum við hita og rafmagn á sem hagkvæmasta hátt, svo allir, og þá meina ég allir, óháð efnahag, geti kynnt og lýst upp hýbýli sín.

Sama sátt og var um heilsugæslu fyrir alla, óháð efnahag, um menntun fyrir alla, óháð efnahag.

 

Hvernig ætla þessir sömu stjórnmálamenn að hitta gamla fólkið og tjá því að innan ekki svo margra ára þurfi þeir að bæta neytendavernd í Þýskalandi með því að margfalda orkuverðið og því sé það gott fyrir það að kaupa sér lopa í tíma og prjóna á sig föðurland og lopapeysur.

Því ekki getum við gert eins og Norðmenn í sömu aðstæðum, farið út í skó og höggvið í eldinn.

Hvílík framtíðarsýn í landi ís og kulda að spóla tímann hundrað ár aftur á bak og eyðileggja það sem best er heppnað í landi okkar.

Eða hvað ætla þeir að segja við fólkið sem missir vinnuna þegar orkan verður markaðsvædd, að það sé göfugt að fórna sér fyrir málstaðinn??  Söngla svo bless, bless stóriðja, bless bless gróðurhús, halló innflutningur, halló atvinnuleysi.

Eða eru þeir svo lygnir og ómerkilegir að þeir kannast ekki við afleiðingar gjörða sinna.

 

Fyrst þeir geta logið því að EES samningurinn sé í hættu ef þjóðin virkjar ákvæði hans um að hafna tilskipunum sem ganga gegn grundvallarhagsmunum hennar, og var sett í þann sama samning einmitt ef svona tilvik kæmu upp í framtíðinni, þá geta þeir örugglega logið að þeir hafi ekki vitað betur.

Tönglast svo á hinum svokölluðum fyrirvörum sem þeir setja, án þess að geta nefnt eitt dæmi að einhliða fyrirvarar hafi haldið þegar regluverk Evrópusambandsins er annars vegar.  Enda eitthvað svo augljóst að einn markaður krefst einnar reglu, ef hann á að virka. 

En þeir átta sig ekki á því að með því að leggja svona gífurlega áherslu á hina meintu fyrirvara, þá eru þeir í raun að játa markaðsvæðingu orkunnar, einkavæðingu hennar og sölu hennar um sæstreng með tilheyrandi hækkun á rafmagnsverðinu.

Því þú þarft ekki að setja fyrirvara ef ekkert er að óttast.

 

Það er tímabært að verja hagsmuni Íslands, segir Sigmundur Davíð, og það er kjarni málsins.

En af hverju þurfum við alltaf að verja hagsmuni landsins gagnvart svikuli stjórnmálastétt, sem stöðugt gengur erinda annarra en þjóðarinnar??

Af hverju þessi stöðuga varðstaða gegn henni??

Fyrst skuldaklafar ICEsave samninganna, núna orkan.

Að ekki sé minnst á alla innviðina sem eru látnir grotna án nokkurs sýnilegs tilgangs, öðrum en þeim að valda tjóni og skaða, líklegast til að réttlæta einkavæðingu þeirra seinna meir.

 

Þegar allt þetta er lagt saman, blasir við einarður illvilji til að ganga af sjálfstæði okkar dauðu, og koma þjóðarauðnum í vasa Örfárra eignamanna og fyrirtækja þeirra.

Um þetta virðist ríkja þverpólitísk sátt því það virðist engu máli skipta hvaða flokka við kjósum í ríkisstjórn, og ef einhverjir flokkar gera sig út fyrir að vera andkerfisflokkar eins og Píratar, þá haga þeir sér eins þegar á reynir.

Sátt genginna kynslóða er rofin, hundrað ára samhent uppbygging á innviðum, menntun og heilsugæslu er í húfi, ekkert virðist skipta máli en hörð markaðslögmál sem þjóna þeim eina tilgangi að færa auð frá þjóð í vasa útvaldra.

 

Þess vegna hljótum við að spyrja okkur, eru þessir stjórnmálamen okkar þess virði að hljóta atkvæði okkar??

Þeir hafa sýnt vilja til að selja þjóðina, en þó ég viti að enginn vill kaupa, þá má samt spyrja hvort við eigum ekki að gera það sama.

Skipta þeim út sem misbjóða okkur svona.

Skipta þeim út sem ganga erinda annarra en þjóðarinnar.

 

Munum að í öllum flokkum er gott fólk sem ofbýður þessi framkoma og hegðun forystufólks síns.

Fólk sem er fullfært að taka við keflinu og vinna í þágu lands og þjóðar.

Í þágu velferðar hennar og velmegunar.

Þannig að við skilum af okkur til barna okkar og barnabarna allavega jafngóðu samfélagi og við tókum við frá áum okkar.

 

Eða viljum halda áfram að standa varðstöðuna??

Hvað gerum við ef hún brestur??

 

Íhugum það.

Kveðja að austan.


mbl.is Tímabært að verja hagsmuni Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hræðsluáróður eða fáfræði??

 

Ekkert annað fær skýrt pistil Björns Leví Píratahöfðingja í Mogganum í dag.

Þar útskýrir hann fordæmalausan stuðning Pírata við orkupakka 3, fordæmalausan því sá stuðningur breytir Pírötum úr meinlausum andófsflokki í harðsvíraðan kerfisflokk sem gengur erinda auðs og auðmanna gegn hagsmunum almennings.

Eins og slíkir flokkar hafi ekki verið nægir fyrir á þingi.

 

Í pistli sínum sem hann kallar "Sundrungarpólitík og vælubíllinn" leggur hann út af Brexit vandræðum breta þar sem embættismannakerfið og stjórnmálaelítan leggur dag við nótt að afskræma niðurstöðu þjóðaratkvæðis um að Bretlandi eigi að segja sig úr Evrópusambandinu.

Ekki sem andófsmaður sem fordæmir slík vinnubrögð, heldur sem kerfiskall sem segir, "sjáið, svona hefst uppúr því að standa á móti vilja okkar".

Og þetta er það sem hann hræðist, eða réttara sagt, hræðir þá kjósendur sína sem ennþá taka eitthvað mark á honum;

"Ef við segj­um upp EES-samn­ingn­um og orkupökk­un­um, hvað verður þá? Það er staðan sem Bret­ar eru í núna, tveim­ur árum eft­ir að þeir ákváðu að segja bless við ESB hafa Bret­ar enn ekki hug­mynd um hvernig Brex­it end­ar. Við mynd­um þurfa að semja um nýj­an fríversl­un­ar­samn­ing við Evr­ópu. Jafn­framt mynd­um við missa aðgang að öll­um viðskipta­samn­ing­um okk­ar í gegn­um EFTA. Mynd­um við enda með betri samn­inga? Mynd­um við ganga inn í viðskipta­samn­ing til vest­urs? ".

 

Gallinn við þetta er bara sá að þó við samþykkjum ekki orkupakka 3, því hann gengur gegn fullveldi þjóðarinnar að þá gerist fátt annað en að við stöndum utan við hann.

Og ef þingmenn nenna ekki að lesa EES samninginn sem þeir vitna í með svona hræðsluáróður, þá gætu þeir allavega kynnt sér álit þeirra Stefáns Más og Friðriks Árna þar sem segir;

"Það er réttur EES/EFTA-ríkjanna samkvæmt EES-samningnum að neita upptöku gerða í EES-samninginn og eftirfarandi innleiðingu á viðkomandi gerðum á þeim grundvelli, sbr. 103. gr. EES-samningsins. Slíkt kallar hins vegar á sáttameðferð á vettvangi sameiginlegu EES-nefndarinnar, sbr. 102. gr. samningsins." EES-samstarfið byggist á þeirri forsendu að EES/EFT A-ríkin innleiði löggjöf Evrópusambandsins i landsrétt sinn á þeim sviðum sem EES-samningurinn tekur til, hvort heldur óbreytta eða með aðlögunum m.a. með hliðsjón af forsendum EES-samningsins og sérstöðu hvers ríkis um sig. Í því ljósi virðist nærtækt að Ísland leiti lausna sem eru fólgnar í því að aðlaga ákvæði þriðja orkupakkans þannig að þau fái samrýmst þeim takmörkunum sem stjórnarskráin setur framsali ríkisvalds til alþjóðlegra stofnana líkt og ESA. Um slíkar lausnir þyrfti þá að semja á vettvangi sameiginlegu EES-nefndarinnar í samræmi við málsmeðferð samkvæmt 102. gr. EES- samningsins.".

 

ESB má vera komið langt frá upprunalegum lýðræðissjónarmiðum sínum ef það telur að umsaminn réttur um að neita upptöku gerða sé ígildi uppsagnar á EES samningnum, og í raun ótrúlegt að halda fram að slík alræðishugsun stjórni sambandinu í dag.

Auðvita mun ESB sýna því skilning að orkan ásamt fiskimiðum okkar er forsenda byggðar og búsetu á Íslandi, og því slíkt grundvallarmál að íslenska þjóðin vilji stjórna þeim málum sjálf.

Nú ef ekki, þá gerist ekkert annað en það að fyrri viðskiptasamningar sem við höfðum gegnum EFTA, sem og við höfum í gegnum Alþjóða viðskiptastofnunina WTO taka gildi, og örugglega mun Ísland ná svipaðri lendingu eins og Sviss, sem er í EFTA, en ekki í EES.

Að halda öðru fram er að halda því fram að ESB sé skrímsli sem engu eirir, og ef það er ekki hræðsluáróður, hvað er þá hræðsluáróður???

 

Hvað fær hins vegar þingmann til að halda því fram að ef þjóðin neiti að samþykkja orkupakka 3, að þá sé verið að segja upp EES samningnum, og þar með "Jafn­framt mynd­um við missa aðgang að öll­um viðskipta­samn­ing­um okk­ar í gegn­um EFTA."??

Er þetta fáfræði, að hann viti ekki neitt??

Eða er hann að ljúga??

Ljúga til að hræða??

 

Hvort sem er, þá hittir hann allavega skottið á sjálfum sér með þessum orðum sínum um sundrungarpólitíkina; "Hún kvart­ar und­an um­fjöll­un og ræðir ekki hvað er satt og rétt. Sundr­ungar­póli­tík­in kast­ar bara fram hálfsann­leik og mistúlk­un­um sem rýra traust og ýfa upp það óvissu­ástand sem sundr­ung­in þrífst í.".

Enda erfitt að halda sig við sannleikann þegar á að sannfæra kjósendur sína um að það sé þeim fyrir bestu að vera rændir orkunni.

Með þeim afleiðingum að rafmagnsreikningurinn snarhækkar, og þúsundir missa atvinnuna þegar landið verður tengt við hinn sameiginlega orkumarkað Evrópu.

 

En þetta er neytendavernd.

Fyrir þýska neytendur.

 

Það má halda því til haga.

Án þess að ljúga miklu.

Kveðja að austan.


Málefnafátækt

 

Er réttnefni ef andstaða þjóðar við stofnanayfirráð ESB yfir orkuauðlindum okkar er látin kristallast í meintum hagsmunum ráðamanna af virkjunum einhverra smálækja hér og þar.

Það er umræða tittlingaskítarins gagnvart risahagsmunum í bráð og lengd.

 

Ef menn á annað borð vilja skoða hagsmunatengsl þá eiga menn að spyrja hvaða einstaklingar og félög tengd þeim hafa verið að kaupa upp virkjunarleyfi hér og þar, tilbúnir að leggja inn kæru á grundvelli tilskipunarinnar sem bannar markaðsmismun og markaðshindranir svo ESA er nauðbeygt að höfða mál á hendur íslenskum stjórnvöldum um að aflétta markaðshindrunum, og leysa upp Landsvirkjun.

Það er að heimila lagningu sæstrengjar og hluta Landsvirkjun uppí smærri einingar sem verða einkavæddar af hluta eða öllu.

Þar eru fjármunirnir, þar eru hagsmunirnir.

Þar er Engeyingarnir.

 

En þetta mál snýst ekki um hagsmuni einstakra gróðaafla, eða tengsl stjórnmála við fjármagnið.

Þetta er grundvallarmál, og snýst um hvort við ætlum að hafa landið byggilegt eða ekki.

Hvort við nýtum orkuauðlindir okkar sem þjóð, eða hvort þær séu nýttar að einkaaðilum sem selja þær hæstbjóðanda hverju sinni.

Hvort við höfum yfirráð yfir þeim, eða hvort aðrir hafi yfirráð yfir þeim.

 

Guðlaugur græðir á umræðu tittlingaskítsins.

Andstæðingar orkupakka 3 tapa á henni.

 

Svo spurningin er hvaða almannatengill kom henni í loftið?

Hver á hagsmuna að gæta??

Var utanríkisráðherra tilbúinn með svarið niðurskrifað??

 

Veit ekki en hann grætur allavega ekki umræðuna.

Kveðja að austan.


mbl.is „Ber vitni um málefnafátækt“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 16. apríl 2019

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.7.): 470
  • Sl. sólarhring: 824
  • Sl. viku: 5025
  • Frá upphafi: 1458515

Annað

  • Innlit í dag: 409
  • Innlit sl. viku: 4367
  • Gestir í dag: 396
  • IP-tölur í dag: 386

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband