Mogginn á góðu degi.

 

Er samfélagsleg nauðsyn því enginn annar fjölmiðill reynir að fiska kjarnann úr ruglandanum.

Það er langt síðan að Mogginn hefur átt góðan dag, á tímabili var blaðið undirlagt slúðri Meetoo byltingarinnar, þannig að vansi var af, og þar áður laug Agnes í fréttaskýringu um málefni Eflingar.

Sem var ekki síður vansi.

Smán, niðurlæging fyrir alla þá góðu blaðamenn sem starfa og hafa starfað á blaðinu.

 

Kjarabaráttan í dag minnir mig mjög á þann tíma þegar ég var strákur, og í skólanum þá boðuðum við strákarnir til snjóboltastríðs við íþróttahúsið sem þá var í byggingu.

Innbær versus útbær, allir mættu á tilskyldum tíma, svo var kastað snjóboltum í gríð og erg, frýjunarorð (ekki ókvæðisorð) flugu á milli, og jafnvel hetjudáðir unnar.

Og auðvitað vann útbærinn alltaf enda innbæingar flestra bæja þekktir fyrir að vera stærri í munni en í huga og hönd þegar á hólminn er komið.

 

En við vorum börn.

Fullorðið fólk stundar snjókastið í dag.

Og þjóðarhagur er undir.

Í svo mörgum skilningi.

 

Þess vegna er vitiborið fólk eins og Styrmir Gunnarsson svo mikilvægur.

Og Mogginn á góðum degi sem reynir að fiska staðreyndirnar út úr snjóboltunum.

Eru eins og mömmurnar sem bundu enda á öll stríð með því að kalla á okkur heim í mat.

 

Það eru gjár þarna úti sem þarf að brúa.

Það eru samræður um lausnir sem þurfa að heyrast.

 

Því þrátt fyrir allt erum við öll á sama báti, örlög okkar eru samtvinnuð.

Og alveg eins og stríðandi fylkingar snjóboltastríðanna hittust í skólanum daginn eftir sem mestu mátar, þá er svo margt í samfélaginu sem sameinar, svo margt sem krefst samvinnu, og síðan erum við öll meir eða minna skyld eða tengd.

Þess vegna eigum við að smíða brýr.

Og þess vegna eigum við að hlusta á þá sem benda á lausnir, í stað þess að hlusta á þá sem ala á ófrið, hlusta  á þá sem vilja byggja brýr í stað þeirra sem vilja grafa holur sundrungar og mislyndis.

 

Skynsamt, hógvært fólk stjórnar verkalýðshreyfingunni í dag.

Það hefur bara réttlætiskennd, og það sem það segir er alveg satt.

 

Við erum það rík þjóð að lægstu laun eiga að duga fyrir framfærslu.

Almenningur greiðir miklu hærri vexti en almenningur nágrannaþjóðanna, og það þarf að takast á við það.

Ungt vel menntað fólk, sjálf framtíðin, heykist við að snúa heim úr námi því startið er of dýrt. 

 

Af einhverjum ástæðum höfum við smurt allskonar kostnaði með ótal reglum og reglugerðum á næstum allt sem snýr að daglegum rekstri fjölskyldunnar, og á því virðast ekki vera nein takmörk eins og fyrirhugaður vegskattur ríkisstjórnarinnar sannar eða óhjákvæmileg hækkun orkunnar sem fylgir þriðja orkupakka ESB.

Ungt fjölskyldufólk fær ekki lán fyrir fyrstu íbúðakaupum því það stenst ekki greiðslumat, en á leigumarkaðnum borgar það margfalt í húsaleigu.

Næstum öll svið mannlífsins eru undirlögð sígræðgi markaðarins, og allt snýst um að blóðmjólka fólk.

 

Á meðan glópagullið var þarna úti þá lét fólk sér þetta lynda.

En það reyndist aðeins blekking ein.

Hundruð milljarða leituðu úr landi en eftir sat almenningur í súpu skulda og grotnandi innviða.

 

Það er vissulega hagsæld í dag en það breytir ekki þeim staðreyndum sem eru taldar uppi hér að ofan.

En hagsældin gerir okkur hins vegar kleyft að breyta og bæta.

Þess vegna naut ríkisstjórn okkar trausts í upphafi ferils síns.

 

Ekki til að leggja á veggjöld, ekki til að koma á kerfisbreytingu sem mun snarhækka raforkuverð til almennings.

Eða festa í sessi hið frjálsa flæði fjármagns sem óhjákvæmilega mun leiða til þess að eignir flæða úr landi í skattaskjól en skuldir verða skildar eftir á herðum almennings.

 

Heldur til þess að breyta og bæta.

Breyta og bæta.

Stjórna.

 

Og hvað sem við tautum og tuðum, þá er núverandi ríkisstjórn það eina vitiborna sem er í boði í dag. 

Miðflokkurinn er laskaður og restin er á beit á víðlendum vitleysunnar eða á bás í fjósi frjálshyggjunnar og hins frjálsa flæðis.

 

Þess vegna eigum við að gera þá kröfu að forystufólk hennar axli sína ábyrgð.

Fullorðnist.

Hætti snjóboltastríðinu.

 

Og höggvi á hnútinn.

Annað ekki.

Kveðja að austan.

 

 

 


mbl.is Útreikningar þrætuepli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veit einhver faxnúmerið í stjórnarráðinu??

 

Í lok þessarar fréttar um viðbrögð verkalýðshreyfingarinnar við sjálftöku elítunnar er sagt að erlendar ferðaskrifstofur hafi áhyggjur af yfirvofandi verkfallsaðgerðum.

Sem með réttu eru eðlilegar áhyggjur.

Og þeir sem ábyrgðina bera þurfa að vita af þeim.

 

Það væri séns ef nógu mörg föx berast í stjórnarráðið, að þau nái að fylla upp í  fílabeinsturn hrokans svo fólkið sem þar dvelur gæti hugsanlega áttað sig á hvað er að gerast hérna úti í hinum raunverulega heimi.

Og fái jafnvel áhyggjur af forsendum sjálftöku sinnar, sem er að gullgæsin sem vinnandi fólk fóðrar á lúsarlaunum, hætti að verpa.

 

Kannski ekki svo miklar að það fari að gera eitthvað til góðs.

En mögulega hætti að efna til ófriðar.

 

Hver veit.

Eitthvað þarf að gera.

Kveðja að austan.


mbl.is Raða niður verkfallsaðgerðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 25. febrúar 2019

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.5.): 42
  • Sl. sólarhring: 889
  • Sl. viku: 4490
  • Frá upphafi: 1329052

Annað

  • Innlit í dag: 41
  • Innlit sl. viku: 3968
  • Gestir í dag: 40
  • IP-tölur í dag: 40

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband