Íhald 1 - Frjálshyggja 0.

 

Svo í bili nýtur þjóðin griða.

 

Núna þegar íhaldsflokkarnir þrír, Framsókn, VG og borgaralegi armur Sjálfstæðisflokksins hafa komið sér saman um nýja ríkisstjórn og í kuldanum er frjálshyggjuarmur Sjálfstæðisflokksins, sem og klofningur hans kenndur við Viðreisn, ásamt flokkunum sem nýkomnir eru út úr frjálshyggjuskápnum, Samfylking og Píratar.

En um innra eðli þeirra þarf ekki að efast eftir að þeir buðu VG uppá mótvægi við Sjálfstæðisflokkinn, og það mótvægi var hin Svarta frjálshyggja Viðskiptaráðs.

Frjálshyggja Hrunverjanna

Viðreisn þar sem guðfaðirinn, Þorsteinn Pálsson grætur ennþá sárt að hafa ekki haft styrk á sínum tíma til að hagræða sjávarbyggðum landsins til helvítis með því að láta 2-3 risafyrirtæki nýta sjávarauðlindir landsins í kjölfar kvótauppboðs líkt og lærisveinum Friedmans hafði tekist á Nýja Sjálandi.  Þeir fengu líka 10 í einkunn hjá Friedmanni, en Þorsteinn náði ekki prófi.

Varð undir í glímunni við Sjálfstætt fólk.

 

Það er ljóst að landsbyggðin mun lifa næstu 4 árin

Atlagan af sveitum landsins verður stöðvuð, og sjávarbyggðirnar munu ekki verða settar á höggstokk kvótauppboðsins.

Frekari grunnþjónusta verður ekki einkavædd, og það verður reynt að rimpa í stærstu götin á verferðarkerfinu.

 

Eitthvað sem pótintátar Hrunverjanna kalla kyrrstöðu, og hina nýju ríkisstjórn Kyrrstöðustjórn.

Og það er illa meint, ekki bara háðið sem að baki býr, heldur sú sýn að hin siðlausa sígræðgi auðmanna, og þeirrar stjórnmálastefnu sem þeir fjármagna gegn almenningi og almannavaldi og kennd er við frjálshyggju, sé framfarir, framþróun.

Að fyrirmyndarþjóðfélagið sé þjóðfélag þar sem Örfáir eigi allt, ráði öllu, og engar reglur setji hömlur á athafnasemi þeirra.

Og þegar sú framþróun sé stöðvuð, þá taki kyrrstaðan ein við.

Eins og það sé kyrrstaða að reyna að endurbyggja hús sem brennuvargar hafa stórskemmt með eldi.

 

 

Réttmætari gagnrýni er að efast um vilja samstarfsflokka VinstriGrænna til góðra verka í þágu lands og þjóðar, að þeir svíki allt sem þeir hafa tök á að svíkja, og þvælist fyrir þar sem þeim er það ekki kleyft. Þetta voru jú einu sinni glaðbeittir taglhnýtingar Hrunverjanna, sem og að Sjálfstæðisflokkurinn er ný búinn að hrekjast úr fyrstu hreinræktuðu frjálshyggjustjórn Íslandssögunnar og fer inní þessa íhaldsstjórn með sama ráðherralið, fyrir utan einn sem var fórnað því ekki fannst stóll handa honum við háborðið.

Síðan má ekki gleyma þeirri bitru staðreynd, að fyrir völd þá sveik þáverandi forysta VinstriGrænna öll sín helgu vé og gerðust böðlar innheimtustofnunar hins alþjóðlega fjármagns, AGS, og af öðrum ólöstuðum átti stærsta þátt í að endurræsa hið gamla síránskerfi auðstéttarinnar eins og ekkert hrun hefði orðið, og að ekkert væri athugavert við forsendur þess, uppbyggingu, eða afleiðingar fyrir almenning þessa lands.

 

En það var þá, núna er núna.

Og það má aldrei gleyma að í dag knýr aðeins einn eldsmatur flokka okkar áfram.

Valdafíkn og henni er aðeins fullnægt með setu í ríkisstjórn.

Og þjóðin mun ekki líða neitt kjaftæði, því sem verður lofað, verður að efna, eða gera tilraun til þess.

Þjóðin er búin að fá nóg af niðurrifi velferðarinnar, af auðsöfnun hinna Örfáu, og hinum sísviknu loforðum.

Það kemst enginn upp með að mæta 5 dögum eftir skálaræður nýrrar ríkisstjórnar, og segja, að öll loforðin hafi eiginlegar verið fyllerísröfl, ekkert að marka, stefnan hafi alltaf legið fyrir, hún hafi verið skýrt orðuð í hinni nýsamþykktu fjármálaáætlun.

Ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar  var sú síðasta sem lék þann skollaleik. 

 

 

Þá er eðlilegt að spyrja, geta þessir flokkar unnið saman, eins ólíkur og bakgrunnur þeirra er?  Sérstaklega er efast um samstarf VG og Sjálfstæðisflokksins, til skamms tíma meintir svarnir andstæðingar.

Því er til að svara, að sama spurning var spurð þegar Steingrímur Hermannsson, þáverandi formaður Framsóknarflokksins myndaði ríkisstjórn sína og Sjálfstæðisflokksins, 1983, þá flokkar sem höfðu barist um forystuhlutverk í íslenskum stjórnmálum allt frá því á kreppuárunum, og til dæmis innan Sjálfstæðisflokksins var fólk sem hafði algjöran ímugust á öllu því sem Framsóknarflokkurinn stóð fyrir í íslensku stjórnmálum og íslensku samfélagi.

Og auðvitað gekk það samstarf upp, vegna þess að hagsmunir og aðstæður kröfðust þess.

 

Það sama gildir í dag, af mörgum ástæðum.

Til dæmis þarf Sigurður Ingi að komast í ríkisstjórn, svo Sigmundur Davíð éti flokk hans ekki endanlega upp í næstu kosningum.

Og Bjarni Ben fær ekki annað tækifæri til að þvo af sér þann stimpil að hann klúðri öllum ríkisstjórnum sem hann kemur nálægt, með sífellt verri útkomu í þeim kosningum sem koma í kjölfarið.

 

Og báðir mega ekkert við klúðri, klúðursríkisstjórnum. Það eitt sér útilokaði að Framsóknarflokknum væri nokkur alvara með tali sínu til vinstri, ekki með Pírata innanborðs. 

Vinstri Grænir eru því í raun eini flokkurinn sem gat uppfyllt bæði skilyrðin, ríkisstjórn, og EKKI klúðursríkisstjórn.

Þess vegna var augljóst að báðir flokkarnir myndu sameinast um að biðla til VG, og að þeir myndu bjóða hina nauðsynlegu forsendu, að Katrín Jakobsdóttir yrði leiðtogi þeirrar ríkisstjórnar.

 

 

Spurningin  er síðan hvað drífur VG áfram, annað en hið augljósa, þráin eftir endurnýjuðum valdastólum?

Og svarið blasir við, því þó 70% þjóðarinnar kjósi gegn Sjálfstæðisflokknum, að þá eru þessi 70% svo innbyrðis sundurþykk, að þau eiga ekkert annað sameiginlegt en að vera á móti. Enginn annar samnefnandi í áherslum er til staðar, og að leiða ríkisstjórn sundurlyndis í dag, er ávísun á pólitískt sjálfsmorð.

Hins vegar er þjóðleg íhaldssemi rauður þráður hjá bæði Framsókn og VG, sem og hinum borgaralega armi Sjálfstæðisflokksins.  Og mikill samhljómur varðandi til dæmis afstöðuna til Evrópusambandsins, gjaldmiðilsins, fiskveiðistjórnunarkerfisins, landbúnaðarins, að ekki sé minnst á viljann til að verja það sem er, gagnvart þeim sem öllu vilja breyta.

 

 

Eina spurningin sem eftir er, og er lykilspurningin í huga forystu VG, því hún leggur augljóslega langmest undir, er Sjálfstæðisflokknum treystandi?  Er hin nýja borgaralega ásýnd ekki aðeins leiktjöld fyrir hina undir niðri grímulausu frjálshyggju?

Eitthvað sem hinn ungi þingmaður, Andrés Ingi var látinn orða svo skelegglega á flokksráðsfundi flokksins í gær.

Og er róttækni VG ekki meiri en svo að flokkurinn láti sér duga að vera svona bútasaumari á handónýtt auðvaldskerfi??

Við þessu er ekkert einhlítt svar.

 

Málflutningur Katrínar varðandi síðari spurninguna er eitthvað á þá leið, að flokkurinn hafi ekki styrk til breytinga, aðeins til að halda aftur af, til að hemja.  Svona líkt og var rök hófsamra leiðtoga Palestínu þegar þeir sömdu frið við Ísrael á sínum tíma, þeir fengu sjálfræði yfir hluta af landi sínu, og þeir fengu einhver vilyrði að um frekara landrán yrði ekki að ræða.  Samningar sem að vissu leyti stóðust, þar til hið skítuga fjármagn sem græðir á stöðugum ófriði, kom öllu í bál og brand með morðum og ofbeldi.

Þetta er svona Varðstöðufriður, breytir í raun engu, en stöðvar, í bili minnsta kosti, niðurrif og eyðileggingu þess samfélags sem við fengum í arf frá áum okkar.  Samfélag sem reyndi að hlúa að þeim sem minna máttu sín, samfélag sem reyndi að gefa öllum tækifæri til menntunar og mannsæmandi lífs, samfélag þar sem vissulega sumir voru ríkari en aðrir, en ekki þannig að Örfáir ættu allt, og réðu öllu.

Rök sem allt vinstri fólk ætti að skilja, ef það á annað borð er til vinstri með lífsskoðanir sínar og hugsjónir.  En þarf vissulega ekki að samþykkja ef það telur stríðsöxina áhrifaríkari í hendi en friðarpípa í munni.

 

Varðandi fyrri spurninguna, um hvort Sjálfstæðisflokknum  sé treystandi, þá eru varnaglarnir sem slegnir voru svo augljósir, að Katrín ætlar ekki að láta á þá reyna.

Þó Sjálfstæðisflokkurinn sé með flesta ráðherrana, þá er hann í minnihluta í ríkisstjórninni.

Og honum er ekki treyst fyrir neinu ráðuneyti sem skiptir máli fyrir velferð þjóðarinnar.  Ráðherrar hans eru ekki í aðstöðu til að einkavinavæða eitt eða neitt, hvorki í menntakerfinu eða velferðarkerfinu. 

Við fyrstu sýn virtist það dulítið dubíus að Framsókn fengi ekki utanríkisráðuneytið, enda með langhæfasta einstaklinginn í það embætti.  Samanber að í þriggja flokka stjórn er virðulegu ráðherraembættunum skipt á milli flokkanna, það er forsætisráðuneytið, fjármálaráðuneytið og utanríkisráðuneytið.

En utanríkisráðuneytið er í raun embætti sem aðeins heldur utanum kokteilboð og kokteildrykkju, og það var ekki hægt að tryggja áhrifaleysi Sjálfstæðisflokksins nema ef Framsóknarflokkurinn gæfi það eftir en tæki að sér alvöru embætti í staðinn.  Og þjóðin fær loksins menntamálaráðherra sem gæti skákað Birni Bjarnasyni í skilvirkni og dugnaði.

 

 

Hvort þessir varnaglar duga, á eftir að koma í ljós.

Allavega eru miklir hagsmunir í húfi fyrir alla flokkana að samstarfið gangi snurðulaust fyrir sig, og eitthvað verði gert, eitthvað annað en að tala eða útskýra vanefndir eða engar efndir.

Ríkisstjórnin þarf ekki að óttast stjórnarandstöðuna á Alþingi, nema þá einna helst Sigmund Davíð, sem þó á eftir að finna sína fjöl.

 

En út í þjóðfélaginu bíða öflug öfl auðs og sjálftöku sem munu nýta sér minnstu sundrungu, hið minnsta sundurlyndi eða egóflipp einstakra ráðherra, til að kynda undir bál og brand, ófrið og vargöld.

Það eru mörg sár ógróin eða lítt gróin eftir Hrunið, og vantraustið á flokkana sem leyfðu auðmönnum að stela öllu steini léttara, og síðan grímulaust endurreistu hið fallna auðkerfi á kostnað alls almennings, er algjört.  Þanþol almennings er ekkert og viljinn til að kasta grjóti er ennþá ofarlega í hugum margra.

 

Hirðskáldin sem mærðu auðinn fyrir Hrun, og breyttust í stuðningsmenn ICEsave þjófanna á einni nóttu, þau eru ennþá í bandi, glefsandi eftir hverjum þeim bita sem auðurinn réttir þeim.  Og gjamma síðan útí eitt í þá átt sem þeim er sigað.

Og þeir kunna þá list að æsa fólk upp gegn Íhaldinu.

Síðan á auðurinn fullt af fjölmiðlum sem munu veita frjálshyggju stjórnarandstöðunnar alla þá athygli sem hún þarf til að vera efst á baugi í umræðunni.  Sem og að blása upp allt það neikvæða sem hugmyndaríku fólki dettur í hug að klína á "Kyrrstöðustjórnina".

 

 

Hvort varnaglar dugi, hvort geirnaglar forystunnar haldi, gegn allri þeirri orrahríð sem í vændum er, veit aðeins tíminn einn.

En hver mínúta sem þessi ríkisstjórn heldur, er mínúta sem hindrar frjálshyggjuna í óhæfuverkum sínum.

Því það er ekkert annað í boði í dag.

 

Ekki fyrir fólk sem á líf sem þarf að vernda, og ól það ekki upp til að upplifa helvíti í lifandi lífi.  En helvíti á jörð er óhjákvæmileg afleiðing hugmyndafræðar sem sækir innblástur sinn til þess í neðra.

Enda er alls staðar sótt að mennskunni.  Náttúran er undir, skaði hennar er að verða óbætanlegur.  Og 1% er langt komið með að söðla undir sig öll auðævi jarðarbúa.

 

Það er því ábyrgðarhluti að elta hina gjammandi rakka auðsins út í næstu keldu.

Vissulega mun þessi ríkisstjórn ekki takast á við grunnvanda samfélags okkar, sem er að alltof lítill hluti þjóðartekna kemur til skiptanna vegna þess að kerfið míglekur fjármagni í vasa auðsins.

En það er ENGINN að fara gera það í dag, allra síst hinir gjammandi flokkar í vasa frjálshyggjunnar.

 

Það er meinið, það er vandinn.

Okkur hefur ekki borið gæfu til að snúa bökum saman og verja það sem við eigum öll sameiginlegt.

Lífið sem við ólum, og hétum að vernda.

 

Við hundsum Aðferðafræði lífsins, við hundsum Hagfræði lífsins.

Við hundsum mennskuna, og samhygðin er hornreka í samfélagi okkar.

 

Alltof stór hluti þjóðar okkar hefur það æðsta markmið í lífi sínu að vera heilalaus neytandi í vasa örfárra stórfyrirtækja.

Alltof margir sjá ekki samhengið á milli grósku og gróanda, og þess að hlúa að öllum, hlúa að innviðum, hlúa að menntun og menningu, að gera öllum kleyft að blómstra á sínum forsendum, að gera öllum kleyft að lifa mannsæmandi lífi.

Skilja ekki sannindi hins æðsta boðorðs, að ef þú vilt ekki þess sama fyrir náunga þinn, og þú vilt fyrir sjálfan þig, þá munt þú ekki að lokum öðlast það sem þú vilt.

Því við erum öll eitt, ekki mörg.

 

Sundrung okkar er vopn hinna Örfáu.

Skortur á samkennd er hið bitlausa sverð sem ekkert stríð fær unnið.

 

Valkosturinn er því í raun enginn.

Og hið illskásta í raun það eina sem í boði er.

 

Og svo mun vera um aldur og eilífð.

Sem reyndar er stutt í ef hið svarta sígráðuga fjármagn fær sífellt að vega að mennskunni, að siðnum, að böndunum sem halda samfélögum okkar saman.

 

Um aldur og eilíf nema við ákveðum annað.

Þá ákvörðun tekur enginn fyrir okkur.

Það er ekkert þarna úti sem hjálpar okkur.

 

Aðeins Trúin og við sjálf.

Trúin og við sjálf.

 

Ekkert annað.

Kveðja að austan.


Sjálfstæðir menn í Sjálfstæðisflokki.

 

Eru ekki ráðherraefni flokksins, svo einfalt er það á meðan Engey ehf stjórnar flokknum.

Og það er ekki illa meint, Bjarni er læs drengur, og hefur sannarlega lesið eina bók um ævina, Furstann, eftir mætan ítalskan rithöfund sem skrifaði kennslubók um völd og valdatafl svo gott sem snemma á 16. öld.

 

Og þar er sagt skýrum stöfum að Páll eigi ekki að vera ráðherra.

Hann er of sjálfstæður, telur sig jafnvel eiga sig sjálfan.

Þurfi því ekki að kaupa sér húfu til að taka ofan og sýna þannig auðmýkt þess sem aðeins þjónar.

Hefur ekkert með Suðurkjördæmi að gera, nema þá kannski þannig að flokksmönnum þar er ekki treystandi fyrir frjálsu vali í prófkjörum.

 

En Páll er stór og sterkur, og hefur svo sem á sinni lífsleið upplifað marga höfnunina.

Alltaf komið til baka.

Og á kannski eftir að koma til baka.

 

Fer eftir gengi þessarar ríkisstjórnar.

Hvort hún starfi farsællega út kjörtímabilið, eða hvort Bjarni hrökklist enn einu sinni með skömm úr stjórn.

 

Því líffræðilega hljóta tárakirtlar hans að tæmast, þegar þeir eru stanslaust hans eina vörn gegn ásókn grimmilegra örlaga sem una honum ekki farsælan stjórnmálaferil.

Frá því að frjálshyggjuöfl flokksins sendu nemanda Hannesar honum til höfuðs, og eitt lítið tár í beinni útsendingu varð honum til bjargar á Ögurstundu, þá hefur Bjarni notað þá ótt og títt, núna síðast þegar dyggur taglhnýtingur flokksins setti lögbann á umfjöllun Stundarinnar um allt gruggið kringum björgunina einu þegar Engeyingar náðu á 14. stundu að koma fjármunum sínum í öruggt skjól áður en öll spilaborgin hrundi haustið 2008.

Og skynsamur maður eins og Bjarni mun því ekki láta reyna á enn eitt tárið, því ef einhver á meira undir en Katrín Jakobsdóttir að þessi ríkisstjórn verði starfhæf, þá er það Bjarni Ben, framkvæmdarstjóri Engeyjar ehf, og formaður Sjálfstæðisflokksins.

 

Mistakist honum, þá mun tím Páls renna upp, því þó ráherradvergarnir í kringum Bjarna kaupi sér stígvél með extra háum sólum, líkt og Elton John forðum daga, þá munu fáir veita þeim athygli, nema þá kannski helst mæður þeirra.  Þó ekki víst.

Þetta veit Páll, þess vegna verður hann tryggast stuðningsmaður  ríkisstjórnarinnar, vitandi eins og er, að fall hennar veður að koma að utan, því verði hann á einhvern hátt bendlaður við það fall, þá er frami hans innan flokksins fyrir bí, því það er aðeins eitt sem sjálfstæðismenn fyrirgefa aldrei, og það eru drottinssvik.

Þess vegna vilja þeir miklu frekar starfa með VG en Viðreisn, aðeins kjarkleysi Katrínar kom í veg fyrir það samstarf síðasta haust.

Kjarkleysi sem var næstum því búið að koma þjóðinni á heljarþröm, því stefna viðskiptaráðs, stefna Hrunverjanna í viðskiptaráði var stefna síðustu síðustu ríkisstjórnar, og þegar var byrjað að naga niður allt niður, sem ennþá var ónagað í samtryggingu okkar og samhygð.

 

Örlögin gripu inní, og björguð þjóðinni frá mestu viðrinisríkisstjórn sem stjórnmálasaga okkar kann frá að greina.

Ríkisstjórn lyga, svika og blekkinga.

Drifin áfram af hugmyndafræði frjálshyggjunnar.

 

Páll var utangátt í þeirri ríkisstjórn, enda ekki frjálshyggjumaður.

Hann er utangátta í dag, því hann er sjálfstæður maður.

Með persónuleika og persónutöfra, eitthvað sem verður ekki sagt um núverandi og fyrrverandi ráðherra flokksins, sem reyndar er sama fólkið fyrir utan Jón greyið Gunnarsson, sem var fórnað til að sýna VG liðum fram á að einkavæðing og einkavinavæðing og einkavinaeinkaframkvæmd væri ekki áhersluatriði hjá núverandi ráðherrum flokksins.

 

Páll er leiðtogi.

Ekki dvergur.

 

Og á því ekki séns á meðan Bjarni er formaður.

Kveðja að austan.

 


mbl.is Páll styður ekki ráðherralista Bjarna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Nóv. 2017
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30    

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 5
  • Sl. sólarhring: 14
  • Sl. viku: 999
  • Frá upphafi: 1321551

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 838
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband