13.9.2016 | 09:27
Það húmar að kveldi.
Stjórnmálaferils Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar.
Þegar menn eins og Guðni Ágústsson, segja hreint út að hann eigi að víkja, flokksins vegna, þá er ljóst að þunnur er orðinn stuðningsmannahópur hans.
Jafnvel þó hann taki slaginn, og hafi sigur, þá er ljóst að aðeins flokksbrot verður eftir til að leiða.
Svona eins og Samfylkingarbrotið er eftir atlögu Jóhönnuliðsins að Árna Pál.
Líkt og Sjálfstæðisflokkurinn er að verða eftir að gömlu kallarnir mættu á kjörstað og skáru konur flokksins niður við trog.
Sigmundur Davíð er sinn eigin sökudólgur.
Ég er ekki að vísa í Wintris,og þann klaufagang allan, ekki heldur þegar hann spilaði sig spinnegal með því að upplýsa um njósnir og annan yfirgang fjármálamafíunnar, án þess að geta fært fyrir því nokkrar áþreifanlegar sannanir.
Ég er að vísa þegar hann skreið ofaní vasa Bjarna Ben í aðdraganda uppgjörsins við kröfuhafa gömlu bankanna, sem mest megins eru hrægammar, bæði innlendir og erlendir.
Bjarni notaði Sigmund, leyfði honum að baða sig í sviðljósinu, og setti hann síðan út í horn, þegar nauðsynlegt samþykki Alþingis lá fyrir um að fjármálaráðherra mátti ganga frá samningum við kröfuhafana.
Bjarni leyfði Sigmundi eiga sviðið á blaðamannafundinum þar sem boðaður stöðugleikaskattur var kynntur, uppá langtum hærri upphæðir en síðar var samið um. Sigmundur Davíð lék síðan lykilhlutverkið þegar Alþingi samþykkti hinn boðaða stöðugleikaskatt, sem yrði lagður á nema kröfuhafarnir semdu fríviljugir um stöðugleikaframlag, sem ætlað var í kynningunni, svipuð upphæð og hinn boðaði stöðugleikaskattur, eða rétt tæpir 900 milljarðar.
Og Sigmundur lék sig svo inní hlutverk sitt að hann talar ennþá eins og að hinu háu upphæðir hafi komið í ríkissjóð. Og flokksmenn hans kyrja þá sömu möndru. Eins og fólk sé fífl og trúi öllu því sem logið er að því.
En eftir að Alþingi samþykkti að aflétta gjaldeyrishöftunum að undangengnu samkomulagi við kröfuhafana, samkomulagi sem Alþingi hefði síða ekkert um að segja, að þá var það fjármálaráðherra, ásamt seðlabankastjóra, sem fóru með forræði samningaviðræðnanna, og það virðist ekki hafa hvarflað að þeim eina einustu mínútu að semja um þær upphæðir sem um var rætt í frumvarpinu um stöðugleikaskattinn, og greinargerð þess.
Það kvisaðist strax út fréttir að til stæði að semja um miklu lægri upphæðir, og það var ljóst af tali Sigmundar, sem ennþá talaði um stóru upphæðirnar, að hann var ekki með í ráðum, eftir á er augljóst að honum var haldið utan við sjálfa ákvörðunartökuna, og honum var stillt upp við vegg og látinn samþykkja orðinn hlut.
Sigmundur Davíð var leiksoppur, og hann hafði ekki þá styrk, eða eigum við að kalla það manndóm, til að setja hnefann í borðið, og fara gegn þessar mafíu sem hann hefur svo fjálglega lýst að hann hafi snúið niður.
Eftir að Wintris málið komst upp, þá er ljóst að hann hafi haft beinan ávinning uppá 40-60 milljónir (þeir sem vilja vita forsendur þessara talna er bent á að lesa bloggpistil Friðriks Hansen þar um).
Það lítur þannig út að Sigmundur Davíð hafi selt þjóð sína fyrir smánarfé, eða um 12 silfurskildinga.
Lítur út fyrir segi ég því ég dreg það ekki í eina mínútu í efa að þannig sé málin ekki vaxin.
Ég trúi einfaldlega Sigmundi þegar hann segist vilja vel, og hann hafi alltaf tekið hag þjóðar fram yfir sinn eigin hag. Í það minnsta trúi ég konu hans þar um.
En ef menn eru ekki Júdas, og harðsvíruð mafía féflettir þjóðina á þeirra vakt, og einu viðbrögðin eru að láta eins og féflettingin hafi ekki átt sér stað; hvað eru þeir þá??
Það er spurning sem Sigmundur Davíð hefur ekki svarað, og þess vegna húmar að kveldi hans stjórnmálaferils.
Honum til vorkunnar má hann eiga að hann er ekki einn um að hafa ekki kjarkinn til að svara þeirri spurningu, til dæmis hímir uppí Móum geðvondur karl sem dreymir um endurkomu að hætti Churchils, en áttar sig ekki á forsendu hans endurkomu.
Sem var að Churchil hafði kjark til að ganga gegn fjármálamafíu þess tíma. Sagði satt þegar aðrir vildu stinga hausnum í sandinn.
Þar liggur efinn, það þarf kjark til að mæta ræningjum sem virðast öll tögl og haldir hafa í höndum sínum. Allavega vita það allir sem hafa séð Magnificent Seven.
Og kjarklaus maður mun ekki ná að spóla sig uppúr þeirri forarkeldu sem Sigmundur Davíð er í.
Eins og ég benti á í gær, þá er búið að grafa hans pólitísku gröf, og núna er Guðni að vefja hana silkiklæðum svo hvíldin í henni verði mýkri fyrir vikið. Silkiklæði ofin úr þeim rökum að flokkurinn sé stærri en einstaklingurinn, en segir í raun, forðumst þann subbuskap að þér verði hent emjandi úr formannsstól.
En það er annað með kjarkinn, hann losar sig við Ormstungurnar sem slefa í hann óráðum úr ráðgjafastól, tekur sér í hönd sverð baráttunnar, réttir úr sér, og ríður til orrustu. Jafnvel þó sigur sé ekki vís, eiginlega óvís, en fallið því sem næst óumflýjanlegt.
Það er aldrei of seint að rétta úr sér, og fara gegn fjármálamafíunni, og ég get svo svarið að það munu margir ríða með þeim sem það gerir.
Og margur fallinn maður, á von um pólitískt framhaldslíf, ef hann aðeins hefur það sem svo margir bíða í ofvæni eftir.
Kjarkinn til að segja hingað og ekki lengra, tökum slaginn.
Því fortíð skiptir engu þegar framtíð er í húfi.
Kveðja að austan.
![]() |
Sigmundur Davíð víki |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
12.9.2016 | 19:02
Margur heldur mig sig.
Og sömu rökin ganga aftur eins og ekkert sé lát á framhaldslífi.
"... gefa sér fyrirfram að neyðarlögin myndu ekki halda fyrir dómstólum og hafi því verið gengið mjög langt í að friða kröfuhafa gömlu bankanna.
Eða hvernig réttlætti Bjarni Ben 500 milljarða meðgjöf sína handa kröfuhöfum gömlu bankanna??
Hann notaði ekki þau sem stóðu honum næst, að þetta hefði verið helv. góður bissness fyrir frændur hans og vildarvini, nei stjórnmálamenn segja aldrei satt.
Hann sagði að með meðgjöfinni hefði verið komið í veg fyrir málssókn sem ríkið gæti hæglega tapað.
Munurinn er sá að þegar Steingrímur afsamdi hagsmuni þjóðarinnar, að þá vissi enginn fyrir víst hvort íslenski dómsstólar, sem og EFTA dómurinn, dæmdu eftir lögum, eða hagsmunum fjármagnsins. Við vitum að það var engin lagastoð að baki ICEsave fjárkúgun breta, samt var málssókn að hálfu ESB sögð ógn á við Grýlu gömlu.
Neyðarlögin voru þess eðlis að þau stóðust íslenska löggjöf, því þau voru samin út frá gildandi lögum, jafnt alþjóðlegum sem og innlendum um rétt þjóða að verja grundvallarhagsmuni sína.
En samt, það var ekki hægt að fullyrða, krumlur fjármagnsins, og dulbúnar ógnir fjárkúgarana, gátu sett strik í reikninginn.
En þegar Bjarni notaði þessu sömu rök og tilvitnað er í úr frétt Mbl.is, að þá voru dómar fallnir, og jafnt EFTA dómurinn, sem og Hæstiréttur Íslands, dæmdi út frá lögum, en ekki hagsmunum fjárkúgara.
Fata Steingríms hélt vissulega ekki vatni, enda götótt með afbrigðum, en það var enginn botn í fötu Bjarna, en samt notaði hann sömu rökin.
Er þetta boðlegt??
Er það boðleg blaðamennska að vitna í svona kosningaskítabombu, þar sem tilgangurinn, að henda skít í "hina", er svo augljós öllu hugsandi fólki.
Veit blaðamaður Mbl.is að í svínastíu er skítur útum allt, og enginn skítur, skítugri en annar.
Af hverju eru menn svona samdauna??
Af hverju gera menn annarra skít að sínum??
Þetta er ekki sorglegt.
Þetta er ekki grátlegt.
Þetta er aumt.
Kveðja að austan.
![]() |
Langt seilst til að friða kröfuhafa |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
12.9.2016 | 17:37
Fíllinn tók jóðsótt.
Og fæddi ekki einu sinni mús, heldur kattarþvott Steingríms Joð Sigfússonar.
Þó óviljandi væri.
Því þegar grannt er skoðað þá gerði Steingrímur Joð ekki annað en fyrirrennari hans í stól fjármálaráðherra, Árni Matt gerði.
Það er lét undan óbærilegum þrýstingi hins alþjóðlega fjármagns.
Sá þrýstingur útskýrir ICEsave samning Árna, og sá þrýstingur útskýrir samkomulag Steingríms við hrægammana.
Og yfir öllu vomaði svipa innheimtustofnunar hins alþjóðlega fjármagns, Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
Bomba Vigdísar reyndist því ekkert annað en enn eitt "Ekki benda á mig dæmið".
Þar sem gjörsekt fólk, sem varði ekki hagsmuni þjóðarinnar, bendir á hvort annað.
Röksemdirnar meira að segja þær sömu, eða því sem næst.
Vantaði lagaheimild er sagt um gjörðir Steingríms, fór ekki eftir ýtrustu túlkun laga um fundagerðir var ákæruatriðið sem dæmt var fyrir þegar Geir var dreginn fyrir Landsdóm þegar sökin var að hann vogaði sér að bjarga þjóðinni á neyðarstundu.
Steingrímur Joð var í svipaðri stöðu, hann þurfti að semja, enginn veit hvað hefði gerst ef hann hefði hamlað gegn þeim þrýsting að láta hrægammanna njóta vafans.
Aum er sú pólitík sem bendir á aðra en horfist ekki í augun á sínum eigin gjörðum.
Og aumast af öllu, er fólk eins og Vigdís og Guðlaugur, sem röfla fortíð, en þegja þegar þeirra eigin fjármálaráðherra gaf hrægömmunum a.m.k 500 milljarða í beinhörðum verðmætum,og einu skiljanlegu rökin að það var góður bissness fyrir innlenda hluta hrægmannanna.
Þetta auma fólk kastar ekki einu sinnu úr glerhúsi, það kastar aðeins búmmerangi sem hittir þau sjálf fyrir.
En aumast af öllu er fólkið sem lætur spilast, og grípur fegins hendi skítinn sem hið skítuga fólk réttir því til að kasta að þeim sem það mislíkar.
Eins og glæpur sé aðeins glæpur þegar "hinir" fremja hann, eins og skítur sé aðeins skítur ef hann lendir á þér og þínum.
Þetta er ekki einu sinni grátlegt.
Þetta er ekki einu sinni sorglegt.
Þetta er aðeins aumt.
Kveðja að austan.
![]() |
Tugmilljarða meðgjöf með bönkunum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.9.2016 | 10:32
Póltitísk gröf Sigmundar Davíðs var grafin í gær.
Og Sigrún Magnúsdóttir var fengin til að tilkynna að fjármálamenn flokksins, þeir Fínnur, Óli og allir hinir, væru búnir að forframa Sigurð Inga það mikið að hann teldi sig hafa styrk til að setja Sigmund Davíð af.
Að hætti hússins fylgdi hinni pólitísku aftöku mikil lofræða og mærð.
Þess vegna var Sigrún Magnúsdóttir fengin til að tilkynna tíðindin, hún fer vel með slíkan texta.
Þetta eru svo sem ekki stórtíðindi, það er ljóst að flokksmenn Sigmundar Davíðs líta á hann sem veruleikafirrtan og stórgalinn, það er ljóst af viðbrögðum þeirra við Akureyrarræðu hans.
Formaður flokksins, fyrrverandi forsætisráðherra upplýsti fundarmenn að harðsvíruðu fjármálaöfl hafi svo ég vitni í frétt Mbl.is "segir að ýmislegt hafi gengið á í baráttu hans við slitabú föllnu bankanna, hann hafi m.a. verið eltur til útlanda, sími hans hafi verið hleraður og þá fullyrðir hann að brotist hafi verið í tölvuna hans.".
Og það stóð enginn á fætur og krafðist opinberar rannsóknar á moldvörpustarfsemi hrægammanna.
Með öðrum orðum, það trúði enginn Sigmundi, heldur var klappað kurteislega, kinkað kolli, og horfst í augu, eins og menn vildu segja, "þetta fer bráðum að vera búið".
Það þarf ekki mikið ímyndunarafl eða rökvísi til að sjá hvaða sprengja hefði sprungið í Noregi eða Danmörku ef þarlendir ráðamenn hefðu upplýst um svipað athæfi, þar hefðu ásakanirnar verið rannsakaðar ofaní kjölinn, því þegar sést glitta í svona moldvörpustarfsemi, þá er vitað að undir niðri skiptir fé um hendur, fólki er hótað, og annað það sem þarf til að hafa áhrif á afstöðu þess og ákvarðanatöku.
Og ef enginn er fóturinn þá þarf sá sem ásakaði, að segja af sér, öllu.
Þriðji möguleikinn er vissulega til staðar, að álíta viðkomandi galinn líkt og Georg konung þriðja, gera hann óskaðlegan og útvega honum síðan viðeigandi hjálp.
Og þá leið hefur fjármagnið keypt innan Framsóknarflokksins.
Þjóðin virðist einnig vera sammála þriðju leiðinni, hvort sem hún er keypt eður ei, og fátt annað um það að segja en að benda á að þá þarf hún ekki að vera hissa á að vera rænd og rupluð af hinni sömu fjármálamafíu.
Því það hurfu 500 milljarðar frá boðuðum stöðugleikaskatti til þess samkomulags sem þeir ICEsave félagarnir, Már og Bjarni gerðu við slitabú gömlu bankanna.
Þjóðinni munar um minna, og menn hafa njósnað, rógborið og hótað fyrir lægri upphæðir.
En sjálfsagt er Sigmundur ekki í þessum heimi, og hrægömmunum veitir ekki af meðgjöfinni, enda koma hluti hennar í vasa innlendra aðila, á einn eða annan hátt.
Tilbúningurinn stjórnar fjölmiðlaumræðunni, og núna er mál málanna hvort fólk sé kosið eftir kynfærum þess en ekki mannkostum, eða þeirri hæfni sem þarf til að smala á kjörstað.
Aðferðafræði sem kennd er við grænar baunir.
Héðan af er aðeins einn maður sem getur skorið úr um hvað er rétt og rangt í þessu öllu saman.
Og það er Sigmundur Davíð niðrí sinni pólitísku gröf.
En það er ekki víst að hann fatti það.
Sem aftur kannski styður .....
Það skýrist.
Kveðja að austan.
![]() |
Komið að uppgjöri? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.9.2016 | 09:42
Hótanirnar virkuðu.
Ríkisstjórn Sigmundar Davíðs féll frá áformuðum stöðugleikaskatti sínum uppá tæpa 900 milljarða, og sömdu við þá, sem að sögn Sigmundar hótuðu, njósnuðu og ástunduðu brjálaðar aðgerðir, um mun lægri upphæð í svokallað stöðugleikaframlag.
Eftirgjöfin var að minnsta kosti uppá 500 milljarða.
Óskiljanleg eftirgjöf en skiljanleg í ljósi orða Sigmundar.
Hann lét undan óbærilegum þrýstingi.
Eina spurningin er, hver er staða og hlutverk Bjarna Benediktssonar, var hann fórnarlamb eins og Sigmundur lýsir stöðu sinni, eða var hann meðspilari vegna fjármálatengsla sinna, fjölskyldu hans og vildarvina?
Sjálfstæð þjóð rannsakar svona grafalvarlegar fullyrðingar, það er ekki Enginn sem setur þær fram, heldur formaður annars stjórnarflokksins, fyrrverandi forsætisráðherra, og þær eru settar fram á opinberum vettvangi stjórnmálanna.
Og nú reynir á manninn.
Þeir sem afgreiða svona orð sem rugl veruleikafirrts manns, af órannsökuðu máli, þeir afhjúpa sig aðeins sem gjörspillta meðreiðasveina fjármagnsaflanna sem höfðu 500 milljarða af þjóðinni með hótunum, njósnum og öðrum ólöglegum aðgerðum.
Það þarf þá ekki lengur að spyrja í hverju liði þeir eru.
Þeir sem þegja, eins og svo oft áður, eru annað af tvennu, undir þrýstingi ógnaraflanna, eða samsekir um glæp.
Það er enginn þriðji möguleiki í svona grafalvarlegu máli.
Núna reynir á manninn.
Það er fyrirfram vitað að Ruv mun þegja, þar þorir fólk ekki gegn mafíunni, það er þeir sem lúta ekki stjórn hennar.
Og sjálfstæðu fjölmiðlarnir eru aðeins sjálfstæðir á meðan þeir tala ekki gegn hagsmunum eiganda sinna.
Spurningin er hvort ennþá fyrirfinnst kjarkur uppí Móum, og svo má ekki gleyma gömlum hægrimönnum, eins og Styrmi og Jón Steinari. Þeir hafa áður risið upp og sagt satt, þó sannleikurinn hafi komið illa við fjármálahagsmuni vildarvina Sjálfstæðisflokksins.
Allavega þá voru það aðeins örfáir hægrimenn, af öllu hinu svokallað málsmetandi fólki, sem þorði gegn fjárkúgun breta og ESB á sínum tíma. Þeir hafa völina hvort það aðeins verið gagg í gegnum lúður úr músarhreiðri, eða kvölina hvort þeir séu keikir á berangri gegn ógnaröflum fjármagnsins.
Það reynir ekki á Alþingi, það var það fyrsta sem var keypt upp, eða hótað til hlýðni, og þar þegja menn.
Þegja þegar aurinn segir því að þegja.
Og örlitlu andófsflokkarnir eru flestir feik, lamaðir af trjóuhestum fjármagnsins, fastir í einhverju rugli og vitleysu sem engu máli skiptir, líkt og stjórnarskrárblöffið var, og munu örugglega ekki einu sinni gjamma.
Þeir hafa engu breytt frá Hruni, og munu engu breyta.
En það reynir á okkur öll hin.
Þegjum við, eða krefjumst rannsóknar.
Á beinum lögbrotum sem Sigmundur Davíð lýsir í ræðu sinni, á beinum þjófnaði þegar fjármálaráðherra samdi við hina meintu lögbrjóta um stöðugleikaframlagið, á heljartökum hrægamma á fjölmiðlum, í stjórnmálum, að ekki sé minnst á hina stóru spurningu; af hverju virka ekki stofnanir réttarríkisins á svona tímum þegar teinóttir fjárglæpamenn rupla og ræna þjóðina fyrir opnum tjöldum.
Af hverju gerist þetta, og af hverju þegja allir??
Það reynir á okkur að spyrja þessa spurninga, og krefjast svara.
Svara sem aðeins fást við opna, óháða rannsókn, þar sem fyrsta vitnið í vitnastúkunni er fyrrverandi forsætisráðherra þjóðarinnar.
Sem sagði frá glæp svo ekki verður lengur þagað.
Já, við hin, það eru engir aðrir.
Kveðja að austan.
![]() |
Svartur kafli, njósnir og brjálaðar aðgerðir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
3.9.2016 | 15:52
"Í upphafi var orðið svo kom blóðið".
Sjaldan hef ég lesið fyrirsögn á grein sem er eins sláandi og harmræn og sú sem blaðamaður Mbl.is setti á ítarlega grein sína um bakgrunn ófriðarins í Sýrlandi, og framvindu hans.
Þessi grein er alvöru blaðamennsku, skrifuð hjá alvöru fjölmiðli.
Og ætti að vera skyldulesning alls siðaðs fólks.
Það eru skýringar á að þetta fólk hraktist af heiman, og þetta fólk á skilið alla okkar samhygð.
Ríkisstjórn Íslands gerði þarft verk að bjóða fleiri sýrlenskum flóttamönnum til landsins, vissulega getum við ekki ein og sér bjargað heiminum, en við getum gefið fordæmi, sýnt reisn og samstöðu.
En allt verður að skiljast i stærra samhengi, og allt á sínar skýringar.
Hvort sem það er Hrunið á Íslandi eða harmleikurinn í Sýrlandi, aðgerðaleysi okkar í loftlagsmálum, eða hvað annað sem ógnar tilvist mannsins hér á jörð.
Í þó nokkun tíma hefur bráðsmitandi drepsótt sótt að samfélögum fólks, alltaf með sömu afleiðingunum.
Það er minnst á hana í þessari grein þar sem aðdraganda þessa hamfara af mannavöldum var lýst.
"Undir stjórn Assads var lögð mikil áhersla á markaðshyggju og nýfrjálshyggju sem jók mjög ójöfnuð meðal landsmanna"
Það eru margar skýringar á svona borgarastyrjöldum, en kveikjan er yfirleitt alltaf sú að fólk hefur fengið nóg, og slík viðbrögð eru mjög algeng í samfélagi ójafnaðar og misskiptingar, þar sem örfáir velta sér uppúr auðævum sínum líkt og svín í svínastíu, en allur almenningur er sláturfé í gróðafíkn þeirra.
Svona kveikjuþræðir eru víða í heiminum í dag, og þeim fer fjölgandi, því það er ekki bara línurituð um mannfjölgun eða hitastig sem rís uppí hæstu hæðir þessa dagana, hlutdeild hinna ofurríka í heimshagkerfinu vex með veldishraða.
Þeir eiga alltaf meir og meir, en við hin alltaf minna og minna.
Við Íslendingar áttum ekki langt í að upplifa blóðuga byltingu, og ennþá ólgar og kraumar undir.
Fólk sér ekki útgönguleið, það upplifir ekki mun á þeim flokkum sem verja auðinn og hina taumlausu auðsöfnun, og þeim sem þykjast berjast gegn henni.
Núna þegar Gamla Ísland hefur kastað grímunni, og segir að allt tal um Nýtt og betra Ísland hafi bara verið djók, við þurfum sko að halda áfram að hagræða og skera niður, svo auðsöfnun hinna Örfáu gangi snurðulaust, þá er ljóst að það þarf ekki mikinn neista svo fólk rísi upp, og noti ekki næst pönnur og potta til að skapa hávaða.
Það töpuðu svo margir miklu, það urðu svo margir útundan, að ef þetta fólk fær trúverðugan valkost, þá mun það fylkja sér um hann.
Ef valkosturinn boðar uppgjör í eitt skipti öll við þjóðfélag misskiptingar og óréttlætis.
Uppgjör við Gamla Ísland, og eigendur þess.
Í alvöru talað, af hverju var fórnarlömbum Hrunsins ekki í alvöru hjálpað og af hverju voru svona stórir hópar settir utangarðs?
Af hverju þurfti frjáls félagasamtök (Hagsmunasamtök heimilanna) til að sækja réttlæti varðandi hin ólöglegu gengislán??
Af hverju þurfti fjölmenn mótmæli og eggjakast til að Útburði barna af heimilum sínum var stöðvuð.
Afhverju, af hverju, af hverju???
Spurningarnar eru endalausar og allflestum ósvarað.
Og enginn lærdómur, ekkert réttlæti við sjóndeildarhringinn.
Því drepsóttir eru aðeins lagðar af velli með því að útrýma þeim.
Ef þeim er leyft að grassera í einhverjum afkimum, þá brjótast þær alltaf fram aftur og aftur, og illvígari í hvert skipti.
Sá tími er runnin upp á Íslandi að við þurfum að átta okkur á því.
Ef reiði fólks finnur sér farveg í kostuðu Andófi í vasa fjármagnsins, þá mun ekkert breytast, og sama argþrasið mun gegnsýra stjórnmálin og þjóðlífið allt.
Og reiðin mun aðeins magnast.
Í næstu niðursveiflu, í næsta samdrætti, mun allt springa, ef það gerist ekki fyrr.
Þá verður Bylting, þá verður afhausun (vonandi og reyndar mín vissa í óeiginlegri merkingu þessa orðs).
Því auðskrílinn virðist ekkert hafa lært, og er samur við sig.
Það er hætta á gosum víðar en í Kröflu.
Kveðja að austan.
![]() |
Í upphafi var orðið svo kom blóðið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
30.8.2016 | 20:17
Verðugur er verkamaður launa sinna.
Sjaldan eða aldrei í gjörvallri mannkynssögunni hafa örfáir starfsmenn skilað eins miklum hagnaði til eiganda fyrirtækja sinna eins og starfsmenn eignarhaldsfélaga gömlu bankanna.
Og ef launin eru ekki önnur en þokkalegt tímakaup og þessar bónusgreiðslur, þá eru fá dæmi um annan eins nánasarskap og greint er frá í þessari frétt.
Það er launað með eins litlu fyrir eins mikið.
Það gerist ekkert af sjálfu sér, og menn skulu ekki halda að gjafir stjórnmálamanna til hrægammanna, bæði erlendra og innlendra, hafi bara gerst án þess að nokkur hafi unnið í málunum.
Það er virkilega flókið verkefni að rýja eina þjóð inn að beini án þess nokkur æmti eða skræmti.
Lítum á helstu afrek þessa verkamanna.
Þeir hönnuðu atburðarrásina sem ríkisstjórnin notaði til að fá Alþingi til að veita undanþágur frá gjaldeyrishöftunum svo hægt væri að greiða út eignir þrotabúanna. Bara sú Gjöf var að minnsta kosti 500 milljarða króna virði.
Þeir hönnuðu hinn stóra díl sem kenndur er við afnám gjaldeyrishafta þar sem þjóðinni var talið trú um að hún hefði grætt á að nota gjaldeyrissjóði sína til að borga út verðlausar bólukrónur því hún hefði fengið hinar verðlausu krónur svo ódýrt.
Þeir sköpuðu sáttina um vaxtastig Seðlabankans sem á sér engar hagfræðilegar forsendur, en skilaði árlega tugmilljarða umframgróða, miðað við eðlilegt vaxtastig, sem rann beint í vasa hrægammanna, þeirra erlendu sem og þeirra innlendu.
Svona rán og rupl, án þess að nokkur stjórnmálaflokkur, án þess að nokkur stjórnmálamaður, án þess að nokkur fjölmiðill, eða nokkur fjölmiðlamaður æmti, hvað þá að rísi upp og vitni í fleyg orð Jóns Sigurðssonar, "Vér mótmælum", er afrek sem á sér fá fordæmi í gjörvallri mannkynssögunni.
Líklegast má fullyrða að ef dæmin eru þekkt, þá hafa þau ekki verið skráð á síður sögubóka.
Og ekkert óeðlilegt við að afreksverkamennirnir fái ríflega umbun í verkslok.
Sem þeir varla fá því þessi milljarður eða tveir, í ljósi féflettingar þjóðarinnar, minnir einna helst á enska landeigandann sem gaf leiguliða sínum eitt gullpund fyrir að uppgötva verðmæta silfurnámu á landareign sinni.
Og þótti það jafnvel ofrausn.
Miðað við ránsfenginn eru þetta smápeningar.
Og þeir sem nöldra hæst, bæði á þingi sem og í fjölmiðlum, vita það mæta vel.
Pirring þeirra má einfallega rekja til eftirsjár, að það hvarfli að þeim að þeir hafi selt sig of ódýrt.
Þeir hefðu getað fengið fleiri silfurpeninga í vasa sína.
Gleymum því ekki að snilld verkamannanna fólst ekki í ráninu fyrir opnum tjöldum, heldur samstöðunni sem náðist að þegja ránið í hel.
Og slík samstaða er ekki ókeypis, þeir sem halda annað ná ekki að vera bláeygðir bjánar.
Því það gerist ekkert að sjálfu sér, og á öllu er skýring.
Svo ég vitni í meistara Friedman, það er ekkert til sem heitir ókeypis þögn.
Nöldrið í netheimum er síðan annar kapítuli.
Sérstaklega hjá fólkinu sem þagði á meðan Gjafir voru gefnar.
Margt býr að baki, en einna stærst er tryggðin við forystumennina sem þáðu aurinn fyrir þögn sína.
Sem og að moldviðrið er að hluta til part of programmeð svo ég vitni í drukkinn Svía.
Hannað til að hylja hin napra sannleika sem ætti að blasa við öllu sæmilega skynsömu fólki.
Sem er megahagnaður þeirra sem launa verkamönnum sínum með þessu lítilræði.
Menn fá ekki milljarða í bónusa fyrir ekki neitt.
Og það er snilld að láta umræðuna kristallast um lítilræðið.
Bónusinn en ekki megagróðann.
Já, verðugir eru verkamenn launa sinna.
Þeir hafa sannarlega unnið sitt verk.
Kveðja að austan.
![]() |
Bónusgreiðslur Kaupþings samþykktar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
30.8.2016 | 13:25
Fjármagnið veit sínu viti.
Það lét Steingrím Joð Sigfússon böðlast í þágu AGS, og það lætur radikala byltingarinnar, eyða velferð Reykvíkinga innan frá.
Eftir stendur ofsagróði hinna ofurríku.
Með stjórnmálin í vasa sínum.
Kveðja að austan.
![]() |
Meðtók áhyggjur leikskólastjórnenda |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
29.8.2016 | 18:13
Joker.
En var hann ekki yfir Gotham borg, yfirglæpaborg hins tilbúna sýndarveruleik sem kennt er við Batman og seinna Superman??
Eins og fréttin á Mbl.is sem allt heiðarlegt sjálfstæðisfólk las, sem kvað á um örvæntingaróp Bryndísar skattrannsóknarstjóra gegn tregðu fjármálaráðuneytisins, hafi aldrei verið í þessum heimi.
Heldur í heimi teiknimynda og aflandsfélaga.
En aumt er það fólk sem fordæmdi ICEsave, því það voru hinir, þeir til vinstri sem ábyrgðina báru, en láta silfurskeiðina komast upp með yfirklór sitt.
Til hvers var skipt út í kosningunum 2013???
Í Reykjarvíkurbréfi sínu rakti Davíð óbreytingarnar, sem voru sýndarskattalækkanir, ekki afturköllun umsóknarinnar að Evrópubandalaginu, og aðeins minni eftirgjöf handa hrægömmum, sem óvart voru margir í venslaneti fjármálaráðherra.
Var þá ekki heiðarlegra að hafa Steingrím?
Hann sveik þó allt, hans eina markmið voru völd fram af næstu kosningum.
En Bjarni greyið, hann sveik ekki aðeins þjóðina, hann sveik líka Sjálfstæðisstefnuna.
Það eina sem Davíð sagði ekki, en öllum með lágmarks læsi var ljóst.
Og svo lesum við frétt um að fjármálaráðuneytið vísi á bug að kaup skattrannsóknarstjóra á félögum í skattaskjólum hafi dregist á langinn.
Ef rétt er, sem krefst aðeins lágmarks dómgreindar að sjá, að þá átti Bjarni að reka Bryndísi umsvifalaust þegar hún hélt öðru fram.
Bryndís skattrannsóknarstjóri er ekki Donald Trumph, hún hefur ekki rétt á að ljúga að þjóðinni svo hún þurfi ekki að vinna sína vinnu.
En Bjarni rak ekki Bryndísi, svo heimskur er hann ekki.
En hann treystir á heimsku hinna vitgrönnu sem höfðu vit í ICEsave, en töpuðu því þegar auðkýfingarnir fjármögnuðu tap sitt til sigurs með því að gera Bjarna að Yfirráðherra Íslands.
Tók við að Steingrími og engu var breytt.
Aumt er Ísland í dag.
Ef silfurskeið nær að fela sig í soranum, og enginn sér muninn.
Á þeim sem sviku hugsjónir sínar í þágu auðmanna, og þeim sem aldrei sviku.
Því auðurinn og þeir voru eitt.
Og lygin er sannleikur.
Og Gamla Ísland var aldrei til.
Því það breyttist ekkert.
Kveðja að austan.
![]() |
Aðeins átta mánuði tók að kaupa gögnin |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
23.5.2016 | 10:28
Peningaþvætti Seðlabanka Íslands.
Og ríkisstjórnar Íslands mun seinna meir verið skráð í sögubækur sem dæmi algjör yfirráð fjárglæpamanna á vestrænu hagkerfi.
Og gæsagangur stuðningsmanna borgarlegu flokkanna við ránið og ruplið rannsakaður eins og annar eldri gæsagangur múgsefjunarinnar sem sviptir vitiborið fólk ráði og rænu, og fær það til að ganga fyrir björg á eftir foringjum sínum.
Hvernig gat þetta gerst??
Hvernig geta fjárglæpamenn rænt heila þjóð svona fyrir opnum tjöldum, án þess að nokkur æmti eða skræmti? Þannig að einmana maðurinn sem sást á frægri ljósmynd af fjöldafundi múgsefjunar þriðja ríkisins, virkar fjölmennur miðað við íslensku mótspyrnuna.
En víkjum fyrst að byrjuninni og spáum í af hverju þetta samhljóða frumvarp um aflandskrónur er peningaþvætti í sinni fegurstu mynd. Wikipedia er eins og oft áður með kjarna skilgreiningarinnar á peningaþvætti.
Money laundering is the process of transforming the proceeds of crime, corruption or kleptomania into ostensibly legitimate money or other assets.
Ljósfælið fé er gert löglegt með einhverjum málamyndagjörningi löglegra aðila.
Íslensku aflandskrónurnar eru dæmi um slíka ljósfælna starfsemi.
Nú myndi einhver segja að aflandskrónurnar séu að mestu í eigu erlendra hrægammasjóða, og vitna þá einhver opinber gögn því til stuðnings. Því er til að svara að leppar eru jafngamlir fyrsta peningaþvættinu, og hrægammasjóðir eru ágætis yfirvarp hinnar ljósfælnu starfsemi.
En fyrst og síðast þá er eðli peningaþvottar að lauma sér inní eitthvað sem virðist vera löglegt á yfirborðinu. Smáfyrirtækin sem því íslenska eiturlyfjagróðann eru með líka með löglega innkomu svo dæmi sé tekið.
Mestu skiptir er að sjá hina innlendu aðila sem fljóta með innan um hinar stærri upphæðir.
Kjarninn gerði ágæta úttekt á hinum sýnilega hluta þess peningaþvættis sem Seðlabankinn hefur þegar komist upp með.
794 innlendir aðilar komu með peninga inn í íslenskt hagkerfi í gegnum útboð fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands. Peningar þeirra námu 35 prósent þeirrar fjárhæðar sem alls komu inn í landið með þessari leið, en hún tryggði um 20 prósent afslátt á eignum sem keyptar voru fyrir peninganna á Íslandi. Alls fengu þessir aðilar 72 milljarða króna fyrir þann gjaldeyri sem þeir skiptu í íslenskar krónur samkvæmt skilmálum útboða fjárfestingarleiðarinnar. Afslátturinn, eða virðisaukningin, sem þeir fengu með þessu umfram það ef þeir hefðu skipt gjaldeyrinum á skráðu gengi Seðlabankans er um 17 milljarðar króna. Seðlabankinn segir að sér sé ekki heimilt að greina frá nöfnum þátttakenda í gjaldeyrisútboðum sínum vegna þagnarskylduákvæðis í lögum um Seðlabanka Íslands.
Blaðamaður Kjarnans tekur það skýrt fram að vinnumennirnir í Seðlabankanum uppljóstra ekki um hið meinta erlenda eignarhald, hve mikið af því hverfur á eyjum í breska skattaskjólinu kennt við Tortóla.
Það sama gildir í dag, eignarhaldið liggur ekki fyrir, það er aðeins vitað að það er verið að þvo pening fyrir innlenda aflandseigendur.
En afhverju er aflandskrónurnar ljósfælið??
Eru þetta ekki bara löglegir fjármunir sem heiðarlegir bissness menn öfluðu í sveita síns andlits og þurftu að finna sé afland til að geyma þar sem þeir vissu sem er að bankar þeirra voru reistir á brauðfótum? Spurning sem er mandra sem gæsagangastuðningsveit fjárglæpamannanna kyrjar öllum stundum þessa dagana.
Byrjum að vitna í ríkisskattstjóra og harðorðan áfellisdóm hans yfir aflandsvæðingu fjármálakerfisins.
Ríkisskattstjóri spyr sig hvers vegna fjármagnseigendur hafi ákveði að færa eignir inn í aflandsfélög og sveipa þær huliðshjúpi með flóknum blekkingum og öðrum ráðstöfunum. . Þetta vekur hugrenningar um hvort útrásin margfræga hafi þurft á slíkri leynd að halda og hvort samhliða viðskiptagerningum hafi hún falist í því að koma fjármagni undan skattlagningu eða verið af öðrum hvötum, segir í leiðara.
Sem hann bendir réttilega á seinna í grein sinni að helstu aðvörunarorðin hefðu komið frá skattayfirvöldum, ekki íslenskum stjórnmálamönnum, eða stjórnkerfinu sem þeir ráða.
Hvert umfang hinnar ljósfælnu starfsemi er þá má vitna í Fréttatímann;
Panamaskjölin hafa dregið athygli að samfélagslegum skaða sem leiddi af útstreymi fjár frá Íslandi á árunum fyrir Hrun. Skaðinn er ekki aðeins tapaðar skatttekjur. Talið er að óframtaldar eignir og tekjur frá aldamótum til 2008 hafi numið um 1050 til 1800 milljörðum króna. Tapaðar skatttekjur af þeirri upphæð geta verið um 200 til 250 milljarðar króna. Það er mat skattasérfræðinga að um helming skattaundanskota á árunum fyrir Hrun megi rekja til skattaskjóla og útstreymis fjármagns út úr íslenska krónuhagkerfinu.
Þessar tölur eru mat, þar sem ítarleg rannsókn á umfangi fjárglæpanna liggur ekki fyrir sökum þess að íslenskir stjórnmálamenn dansa með gerendum, en ekki þjóðinni, eru í raun vinnumenn líkt og stjórnmálamenn í eiturlyfjaríkjum Mið Ameríku. Þeir fara ekki gegn hendinni sem fæðir þá, heldur hirða þakklátir molana sem að þeim er rétt.
Þúsund til tvö þúsund milljarðar eru miklir fjármunir, líka í stærstu hagkerfum hins vestræna heims.
Í okkar litla hagkerfi eru þeir ígildi alræðisvalds.
Og þessir fjármunir eru ekki áunnir í svita og strita hins heiðarlega bissnessmanns líkt og þeir sem gæsaganginn stunda halda fram.
Margir hafa lýst svikamyllunni sem íslenska efnahagsundrið byggðist á.
Enginn betur en Ragnar Önundarson gerði í frægri grein í Morgunblaðinu í árdaga íslenska fjármálaundursins kennt við Útrás og Úrásarvíkinga.
Greinin varð reyndar ekki fræg fyrr en eftir Hrunið, og margir sögðust þá hafa sömu Lilju kveðið, en sögðu það bara óvart eftir á.
Með sömu skarpskyggni lýsti Ragnar peningaþvætti Seðlabankans svo ekki verður betur gert. Í pistli á feisbókarsíðu sinni undir yfirskriftinni, "Viltu vinna milljarð".
Þegar framtíð þjóðar er í húfi, að ekki sé minnst á æru okkar sem heiðarlegs fólks að láta ekki ósómann viðgangast án mótmæla, þá ætla ég að vitna beint í Ragnar, löng lesning, en hvert orð þess virði að vera lesið.
Margoft, mörgum sinnum.
Viltu "vinna" milljarð ? Viltu svo "vinninginn heim" ? Þá er þetta aðferðin:
1. Þú stofnar "eignarhaldsfélagið" Rán ehf. og tekur milljarð að láni hjá kunningja þínum í bankanum eftir að hafa borgað "bónus" til hans með "þóknun skv. gjaldskrá".
2. Þú stofnar "aflandsfélag" Highway Robbery Inc. í Panama eða Tortóla með aðstoð kunningja þíns í bankanum og millifærir það sem eftir er af milljarðinum þangað.
3. Þú sérð enga leið til að eignarhaldsfélagið geti borgað afborganir og vexti og það fer í þrot. Bankinn afskrifar lánið þegjandi og hljóðalaust þrátt fyrir að hafa allar upplýsingar um hvað varð um peningana og hvert þeir fóru. Þú borgaðir svo góðan "bónus" að þeir fara ekki að vera með nein leiðindi.
4. Til öryggis stofnarðu fleiri aflandsfélög með aðstoð erlends banka og millifærir áfram nokkrum sinnum í þeirri von að það "snjói í sporin". Allt kostar þetta og þú þarft nú sjálfur að lifa eins og aðrir, svo nú "áttu" bara 900 millur.
5. Þú bíður í nokkur ár en svo sérðu tilboð Seðlabankans um að taka þátt í gjaldeyrisútboði. Þú tekur því og færð þriðjungs ábót á "vinninginn" og átt allt í einu 1.200 milljónir. Seðlabankinn tryggir þèr nafnleynd svo ekki sé unnt að lesa saman nöfn þáttakenda við afskriftalistana.
6. Þú kaupir þér teinótt jakkaföt og gerist "fjárfestir". Ásamt félögum þínum kaupir þú banka af ríkinu, sem gleðst yfir vel heppnaðri einkavæðingu og lýsir yfir sigri og fagnar að samkeppni virðist komin í bankaþjónustu.
Þetta eru illa fengnir fjármunir, þeir eru ávöxtur svikamyllu, og Alþingi Íslands, og seðlabanki þjóðarinnar eru í dag að endanlega að þvo þessa peninga.
Að gera þá löglega, svo fjárglæpamennirnir geti ráðstafað þeim að vild sinni, til dæmis sbr lið 6., að kaupa hina nýju banka sem ríkisstjórn hinna góðu verka mun fljótlega afhenda þeim til kaups.
Nú kynni einhver sem er samdauna spillingunni, segja, að þó rétt sé, að um peningaþvott sé að ræða, þá er það óhjákvæmilegur fylgifiskur þess frelsis að fá að flytja gjaldeyri úr landi sem er jú hið formlega markmið þessa frumvarps um peningaþvættis aflandskróna.
Svo mikill er heilaþvotturinn að menn þurfa ekki að vera samdauna spillingunni til að trúa bábiljunni. Í raun má þakka fyrir að fjárglæpamennirnir skuli ekki leiðinni fá fólk til að trúa að forsenda þess að sólin komi upp á mörgum sé að þúsund ungmenn ljái hjarta sitt á altari auðsins, líkt og prestar Azteka náðu að sannfæra trúgjarna á sínum tíma.
Margt má segja, en bendum á tvennt.
Það fyrra er að frjálst flæði gjaldmiðils er rót efnahagshruna. Meira að segja ESB þurfti að setja höft á hið frjálsa flæði til að bjarga evrunni, fjármagnsflóttinn lét ekki staðar numið við Miðjarðahafslöndin, bæði Belgía og Frakkland voru að falla þegar höftin voru sett.
Kreppurnar í Mið og Suður Ameríku eða í SuðAustur Asíu má líka rekja til hins frjálsa flæðis.
Og hið frjálsa flæði var forsenda hinna 1000-2000 milljarða sem hurfu úr íslensku hagkerfi á veisluárunum fyrir Hrun.
Saga sem mun endurtaka sig um leið og næsta frjálsa flæði verður lögfest.
Seinna eru rök hinnar hagsýnu húsmóðir, þeirrar persónu á hverru heimili sem lætur fæði og klæði barna sinna ganga fyrir.
Hún veit að heimilið getur ekki látið meira flæða út en kemur inn, hið seinna er ávísun á beina skuldasöfnun.
Heimili sem hefur 10% tekna sinna í afgang, getur ekki látið hærra hlutfall flæða út, jafnvel þó heimilisfaðirinn hafi lært allar kennisetningar frjálshyggjunnar um hið frjálsa flæði fjármuna, það kemur alltaf af skuldadögunum.
Það sama gildir um þjóðríki, það flæðir ekki meiri gjaldeyri út en kemur inn, og stærstum hluta þess sem kemur inn er þegar ráðstafað í nauðsynleg aðföng svo hægt sé að reka atvinnulífið sem og heimili landsins.
Ótrúlega augljóst samhengi sem svo mörgum er hulið.
Það flæðir aldrei meir út en kemur inn, sama hve frjálst flæðið er.
Rök peningaþvættisins eru því fals eitt.
Að ekki sé minnst á að verðlausar aflandskrónur fá því aðeins verðgildi, að til staðar séu gjörspilltir stjórnmálamenn sem nýta innkomu þjóðarinnar til að breyta hinu verðlausa í beinharðan gjaldeyri.
Skiptir ekki máli þó talað sé um einhver afföll, jafnvel þó hin meintu afföll séu blásin út, þá er afföll af engu, ekkert, og afföll af engu sem er gefið verðgildið 10 úr sameiginlegum sjóðum landsmanna, er heldur ekkert.
Ef eftir standa 8, þá er gjöfin 8.
Blekking, fals, svik.
Engin önnur orð ná að lýsa hinni þaulskipulagða peningaþvætti, sem frumvarpið um aflandskrónur er.
Og við sem þjóð æmtum hvorki eða skræmtum.
Við sem einstaklingar störum uppí loftið, þegjandi, það er þau okkar sem taka ekki þátt í gæsagang múgsefjunar fjárglæpanna.
Við munum ekki fá birta af okkur mynd í tímaritinu Sögunni, eins og maðurinn sem hafði kjark til að lyfta ekki hendi þegar múgurinn ákallaði foringja sinn.
Við þegjum og þegjum.
Eins og við eigum ekki börn, eins og við eigum ekki líf sem þarf að verja.
Og kosningarnar næsta haust munu engu breyta.
Því fjárglæpamennirnir munu útvega Andófinu nýja leikendur í stað þeirra sem úreltir þykja.
Og gæsagangurinn mun styðja sitt fólk.
Og svo gera menn grín af Dúdú fuglinum.
Fólk ætti að líta sé nær.
Kveðja að austan.
![]() |
Frumvarp um aflandskrónur samþykkt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (1.10.): 9
- Sl. sólarhring: 571
- Sl. viku: 3892
- Frá upphafi: 1492497
Annað
- Innlit í dag: 8
- Innlit sl. viku: 3190
- Gestir í dag: 8
- IP-tölur í dag: 8
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar