26.2.2016 | 16:51
Grafaskrift frjálshyggjunnar??
Eða lofgjörð til hins frjálsa markaðar.
Hins frjálsa flæðis.
Evrópusambandsins, eins og það var hugsað frá upphafi.
Lofgjörðin segir að þetta sé það sem koma skal.
Grafskriftin segir að mennskan spyrni við fótum.
Ísland segir, látum fjármálamafíuna græða í skjóli Sjálfstæðisflokksins.
Einkavæðum, borgum bónusa, greiðum arð.
Og gefum hrægömmum 500 milljarða í boði Engeyjarættarinnar.
Því þeirra er gróðinn.
"You ain´t see nothing yet".
Kveðja að austan.
![]() |
Finna þræla í kjöllurum bakaría |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
14.2.2016 | 10:21
Einkenni gjörspiltra stjórnmálamanna.
Er að þeir benda alltaf á fortíðina, og þá fortíð annarra.
Til að skapa sér og sínum frið við myrkraverk sem þola ekki dagsljósið.
Einkenni réttarkerfis í vasa fjárglæpamanna (sem og annarra glæpamanna) er að það ákærir seint og illa, og þá alltaf þegar langt er liðið frá því að** glæpurinn hefur verið framinn, og ávinningurinn kominn í öruggt skjól.
Og þá er eitthvað verkfæri tekið og dæmt á meðan höfuðpaurarnir halda sinni iðju áfram óáreittir.
Vigdís Hauksdóttir er viðriðin stærstu gjöf Íslandssögunnar, þegar um 500 milljarðar í þegar samþykktum stöðugleikaskatti voru látnir hverfa í myrkraviðræðum fjármálaráðherra við kröfuhafa gömlu bankanna, kröfuhafa sem að uppistöðu eru hrægammar í ýmissi mynd.
En vel borgandi og örlátum, þeir leyfa innlendri fjárelítunni að týna upp nokkra mola, smáaurar fyrir þá en geta bjargað fallandi fjármálaveldum í bakgarði Sjálfstæðisflokksins.
Vigdís Hauksdóttir er í þingliði ríkisstjórnar sem leyfði ríkisbanka að afhenda vildarvinum Flokksins verðmæta eign fyrir smáaura.
Hún krefst ekki rannsóknar á þeim gjörningi, hvað þá að hún krefjist að ráðherrar sem eiga beinna fjárhagslegra hagsmuna að gæta, víki á meðan spillingin er rannsökuð ofaní kjölinn.
Nei, Vigdís fær drottningarviðtal í Morgunblaðinu um eitthvað sem gerðist í fortíðinni, um eitthvað sem hægt er endalaust að rífast um.
Sem aftur vekur spurningar um Sjálfstæði Morgunblaðsins, hvort strengir að ofan séu tengdir við ritstjórn blaðsins.
Réttarkerfið okkar er nýbúið að kveða upp dóma yfir bankamönnum, þar á meðal vegna innherjasvika, markaðsmisnotkunar, og auðgunarbrot.
Markaðsmisnotkunin sem Landsbankamenn voru dæmdir fyrir nýlega var öllum ljós, fjármagnið sem fylgdi viðskiptum gervihluthafanna var að þeirri stærðargráðu að það gat aðeins komið frá bankanum sjálfum. Samt gerði ákæruvaldið ekkert á þeim tíma, hóf ekki rannsókn, spurði ekki spurninga. Afleiðingin var tap þúsunda á ævisparnaði sínum, fólk lét blekkjast, því eftirlitskerfið gerði engar athugasemdir við gjörninginn.
Innherjasvik voru líka í umræðunni á sínum tíma, en þau voru aldrei rannsökuð, aldrei kallað eftir gögnum, menn aldrei látnir svara spurningum.
Í dag er þjóðin vitni af innherjasvikum, og ágóðinn rennur í vasa aðila sem eru beintengdir stjórnmálamönnum og stjórnmálaflokkum.
Samt er engin rannsókn hafin, samt er ekkert ákært.
Vegna þess að tíminn er ekki liðinn, það er ekki búið að koma hinu illa fengnu fé í skjól, og það er ekki búið að finna verkfærið sem á að ákæra.
Eins er það með gjöfina miklu, stærsta rán Íslandsögunnar.
Fyrir opnum tjöldum, og einu fréttirnar úr ranni réttarkerfisins, eru dómar í áratugargömlum málum.
Sem segir að réttarkerfið er ekki að virka, ekki frekar en það virkaði í aðdraganda Hrunsins.
Það er í vasa einhvers, einhvers sem múlbindur það.
Og eini Sjálfstæði fjölmiðill landsins ástundar sagnfræði.
Lægra er ekki hægt að lúta.
Og skömm þeirra sem stýrast af strengjum, er algjör.
Það er nefnilega styttra á milli Steingríms og sumra, en sumir vilja meina.
Kveðja að austan.
PS. **Glöggur ritrýnir benti mér á að minna hafði verið skráð en hugsað, puttarnir höfðu ekki undan við skráninguna og það féllu niður þessi orð; "langt er liðið frá því að". Það væri jú skrýtið að ákæra áður en glæpurinn hefði verið framinn. Vona að þessi Vaðlvíska hafi ekki truflað marga í skilja innihald pistilsins sem fjallar um stjórnmálamenn á kafi í spillingarmálum, ræða spillingu fortíðar, til að umræðan beinist ekki að þeirra eigin gjörðum. Og ég gagnrýni réttarkerfi sem bregst seint og illa við fjármálaglæpum. Sérstaklega ef þeir njóta verndar ráðandi stjórnmálamanna. Sem ég kalla einu nafni; Flokkinn. Og þarf ekki að vera einn ákveðinn flokkur.
Síðbúin kveðja að austan.
![]() |
Þarf að gera þennan tíma upp |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
13.2.2016 | 21:18
"Í þágu fólksins í landinu"
Segja galvaskir VinstriGrænir, flokkur án sögu, flokkur án fortíðar.
Og í anda Steingríms, yfirformanns, þá hvetja þeir til "gagnsæis við uppstokkun fjármálakerfisins".
Í gamla daga hét svona lestur faðirvor andskotans, það er þegar andskotinn fór með faðirvorið.
Það er að það var ekkert að faðirvorinu sem slíku, heldur mátti stórlega efast um einlægni þess sem flutti.
VinstriGrænir burðast með sekt, mikla sekt.
Þeir sviku þjóðina á ögurstundu.
Sviku hana í hendur böðla hins alþjóðlega fjármálakerfis.
En láta í dag eins og enginn hafi verið gærdagurinn, eins og þeir séu flokkur án fortíðar.
Þeim skortir kjark til að ræða fortíðina, til að gera upp fortíðina.
Kjark sem núverandi formaður Samfylkingarinnar hefur loksins öðlast.
Á meðan VinstriGrænir horfast ekki í augun á fortíð sinni.
Á meðan þeir biðja þjóð sína ekki afsökunar á svikum sínum.
Biðja ekki kjósendur sína afsökunar á þjónkun sinni við böðla fjármagnsins.
Þá er flokkurinn einskis nýtt skoffín sem ekkert ærlegt fólk leggur lag sitt við.
Ályktanir þeirra eru brandari.
Atkvæðasnap, sem þeir svíkja fyrir hina minnstu von um völd.
Skömm þeirra er algjör.
Skömm þeirra er ævarandi.
Kveðja að austan.
![]() |
Landsbankinn verði samfélagsbanki |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
13.2.2016 | 15:16
Væri ekki einfaldara fyrir þá að hætta borga reikningana?
Það er að segja ef Saudar hafa nokkurn áhuga að losa heiminn við þá óværu sem Islamistar eru.
Skrúfa fyrir fjárstreymið, stöðva vopnasendingarnar, og loka landamærum Tyrklands, og Rússarnir sjá um restina.
En það er meinið, Saudar hafa engan áhuga að berjast við Ríki Islams, menn berjast ekki við sitt eigið sköpunarverk.
Þeir hafa hins vegar mikinn áhuga á að stöðva Rússa, hindra að þeir gangi milli böls á höfuðs á miðaldabræðrum þeirra í Sýrlandi.
Yfirskynið er hins vegar þetta margfræga Ríki og sett fram í trausti þess að til séu nógu margir vitgrannir fréttamenn til að birta bullið. Eins og þessi hjá Morgunblaðinu sem tókst að skrifa heila frétt um Sýrlandsdeiluna án þess að minnast á kjarna hennar, sem er kostuð innrás erlendra vígamanna í landið.
Og til að tryggja að það færi ekki á milli mála að blaðamaðurinn tryði öllu því sem að honum væri rétt að áróðursvél kostunaraðilanna, þá tókst honum að setja inní aðra hverja setningu, "herir einræðisstjórnarinnar í Damaskus". Eins og að hann viti það ekki að í Arabalöndum fyrirfinnst ekki lýðræði í neinni mynd. Og það að það sé ekki lýðræði í viðkomandi landi, þá réttlæti það hervirki erlendra aðila gagnvart saklausu fólki.
Þeir hljóta að gráta hjá Mogganum að geta ekki skúbbað með fréttina frá Berlín þegar áróðursvélin þar birti mynd af aflífuðum mönnum í nýjum pólskum einkennisbúningum, og sagði að þeir hefði verið felldir við árás á þýska landamærastöð. Þá var nefnilega gósentíð fyrir trúgjarna vitgranna fréttamenn sem fengu nóg af tilbúnu efni um hitt og þetta, og hét einu nafni, áróður.
Nei, það er sorglegt að sjá fullorðið fólk éta upp vitleysu sem notuð er til að réttlæta hervirki gagnvart milljónum saklausra borgara.
Nógu slæmt er að sjá hið vanheilaga bandalag vestrænna ríkja við íslamska miðaldamenn, þó ekki bætist ofaná blaðamennska í anda Norður Kóreska ríkissjónvarpsins.
Við búum ekki í einræðisríki, við erum frjálst fólk.
Og fjölmiðlar okkar ættu að haga sér samkvæmt því.
Það er svo mikið í húfi að miðaldafólkið verði stöðvað í tíma.
Sjálfur friðurinn.
Kveðja að austan.
![]() |
Sádi-Arabar með her til Tyrklands |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
12.2.2016 | 21:14
Stórfrétt hjá Mogganum.
IKEA skaut undan 140 milljónum.
Eins og það sé skömm að frjálshyggjan virki.
Stefnan sem blaðið hefur dag og nótt vegsamað frá því að Matthías var og hét.
Og hefur virkilega sannað gildi sitt síðustu 30 árin, ekki bara í kjörgengi núverandi ritstjóra Morgunblaðsins, heldur í beinharðri tölfræði
Að þeir ríku verða ofsaríkari, og við hin berjumst í bökkum.
Það hvarflar að manni að þegar svona smápeningur er talinn til í forsíðufrétt, að einhver öfund sé í gangi.
Líkt og að einhver, og þá einhver sem tengist útgáfu blaðsins, hafi ekki fengið spón sinn í askinn.
Að hann hafi verið snuðaður þegar hann skipaði ritstjórn blaðsins að þegja yfir þjófnaði árþúsundsins.
Eins og það sé enginn frétt þegar íslenskur stjórnmálamaður setji heimsmet í spillingu.
Og þegar Mogginn hamri á IKEA, þá sé það skilaboð til þeirra sem rændu þjóðina um 500 milljarða.
"Ég vil mitt", og þá fjalla ég áfram um smáþjófnaði.
Sem aftur áréttar, aldrei skaltu vanmeta græðgi skálda í stól útgefanda.
Ritsnilld þeirra er vanmetin, ekki í gæðum, heldur í aurum.
Og þegar miðill þeirra fjallar um Ekkert, þá segir hann aðeins um hvað hann gæti gert, ef vasinn er ekki fylltur.
En lítið er eftir af Sjálfstæðinu sem klöppin í Vigur mótaði á sínum tíma.
Og hvílík heppni að IKEA sá á sínum tíma arð í okkar litla markaði.
Því Þögn verður ekki til að sjálfu sér.
Jafnvel þögnin þarf sitt fóður.
Kveðja að austan.
![]() |
Telur millifærslur geta verið ólöglegar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
12.2.2016 | 20:13
" Enginn gruni hér Bjarna sjálfan um græsku"
Þessi fyrirsögn er sótt í pistil á Hringbraut, þar sem fjallað er um tengsl fjármálaráðherra þjóðarinnar við ofsagróða fjármáladeildar Engeyjarættarinnar í spillingarmálinu sem kennt er við Borgun.
Sjálfur hef ég fjallað um þjófnað aldarinnar, og þá er ég að tala um á síðustu öld, og um hinn þekkta alheim, ekki Ísland, þar sem stjórnmáladeild Engeyjarættarinnar tók ákvörðun sem skilaði vogunarsjóðunum hundruð milljarða í beina hagnað.
Og fjármáldeild Engeyjarættarinnar hagnaðist í leiðinni um nokkra milljarða.
En enginn grunar Bjarna um græsku.
Og til að koma í veg fyrir alla grunsemdir, þá er fjarskafrétt á forsíðu Mbl.is um eitthvað sem enginn innlendur kostunaraðili hefur hagsmuna að gæta.
Og leiðarar blaðsins fjalla um eitthvað sem gerðist, eða um eitthvað sem er ekki að gerast.
Strútar gruna aldrei ljónið um græsku.
Enda sjá þeir ekkert með höfuðið á kafi í sandi.
Mogginn fjallar um IKEA.
Þjóðin er rænd um 500 milljarða.
Og við þegjum öll.
Eða næstum því.
Kveðja að austan.
![]() |
Umfangsmikil skattaundanskot IKEA |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
2.2.2016 | 08:50
Klárinn leitar þangað sem hann er sárkvaldastur.
Engin önnur orð er hægt að nota yfir þann stóra hóp eldri borgara sem ennþá lýsir stuðningi við Sjálfstæðisflokkinn.
Grein Kára Stefánssonar segir á mannamáli allt sem segja þarf um þann orðavaðal lyga og blekkinga sem fjármálaráðherra og fjárlaganefnd ástundar gagnvart þjóð sinni.
Dæmi um muninn á því sem þessi ríkisstjórn segir og gerir þegar kemur að heilbrigðismálum má sækja í gerð fjárlaga fyrir 2016. Undir lokin var tekist á um það hvort það ætti að veita því fé til Landspítalans að það væri hægt að reka hann á svipaðan máta og 2015, ekki bæta hann heldur halda í horfinu. Það var tekist á um það hvort það ætti að reka hann í þeim lamasessi sem hann var búinn að vera í um hríð eða láta honum hnigna enn meira.
Í raun er rifist um hvort haldi eigi lífi í horriminni eða slá hana endanlega af.
Það var mat þeirra sem stjórna sjúkrahúsinu að það þyrfti 2,5 milljarða króna í viðbót til þess að ná því markmiði. Þegar málið kom á borð fjármálaráðherra féllst hann ekki á að bæta við meira en helmingi af upphæðinni. Því var auðvitað haldið fram að það væru ekki til peningur fyrir meiru.
Og niðurstaðan að láta hana verða sjálfdauða, og það kallað stóraukin framlög spítalans.
Þessi sami fjármálaráðherra hefur síðan blekkt Alþingi til að veita þrotabúum gömlu bankanna undanþágu frá gjaldeyrishöftum með frumvarpi sínu um stöðugleikaskatt. Án þess að nokkurn tímann stæði til að innheimta þann skatt.
Eftirgjöfin til kröfuhafana nemur 500-600 milljörðum þegar allt er grandskoðað, og ávinningur fjármálaveldis Engeyjarættarinnar er hærri en sú upphæð stjórnmáladeild þeirra í fjármálaráðuneytinu sveik Landsspítalann um.
Að ekki sé minnst á aðra vini og vildarvini flokksins.
Samt mælist Sjálfstæðisflokkurinn með 25% fylgi, að uppstöðu frá eldri borgurum sem þurfa mest á þjónustu heilbrigðiskerfisins að halda.
Að kjósa fólk sem er vont við náungann, en er ekki vont við þig, ber ekki vott um gott siðferði. Kallast að láta stjórnast af eiginhagsmunum, og jafnvel græðgi. En virðist vera manninum eðlislægt, annars hefði frjálshyggjan ekki náð öllum völdum í hinum vestræna heimi.
En að kjósa fólk sem er vont við þig sjálft, það er fáheyrt. Kommúnistar fölsuðu alltaf niðurstöður kosninga fyrirfram, það hvarflaði aldrei að þeim að það fyndist einhvern nógu vitlaus til að kjósa þá, fyrir utan hina fámennu elítu sem naut arðsins af striti fjöldans.
Það voru hestar sem leituðu þangað sem þeir voru kvaldastir, ekki fólk.
Ekki fólk með sjálfstæðan vilja.
Slík fjarstæða þekktist hvergi á byggðu bóli.
Ekki þá, ekki áður, en er beisk staðreynd barna okkar á Íslandi á því herrans ári 2016.
Þjóðin er rænd og rupluð.
Vaxtaokrið kreistir hverja umframkrónu úr hagkerfinu þannig að stór hluti þjóðarinnar kemur aldrei til með að eignast í raun fátt annað en fötin utan á sér. Með öðrum orðum, þjóðin er aftur að verða þjóð öreiga eins og var um og uppúr aldamótunum 1900.
Misskipting eigna og tekna er á því stigi að stórir þjóðfélagshópar líða efnislegan og félagslegan skort. Samt hefur þjóðin aldrei verið ríkari, aldrei aflað meira. Aldrei ráðið yfir meiri þekkingu eða tækni.
Og innviðir hennar hafa hlotið hlutskipti sultarfanga útrýmingarbúðanna, að fá ekki nægjanlegt fjármagn til að reka sig, til að halda í horfinu, til að endurnýja sig.
Og nægilega margir veita vinnumönnum ruplarana stuðning svo þeir hrökklast ekki frá völdum.
Fremstir í flokki eru hinir sárkvöldu eldri borgarar, sem kjósa minninguna um það sem var, en ekki hinn bitra raunveruleik sem er.
Það er sorglegt að óhæfufólk komist upp með verk sín með beinum stuðningi hluta þjóðarinnar.
Að það þurfi ekki að nota byssur og skriðdreka við rán sitt og rupl. Að eyða því velmegunarsamfélagi sem gegnar kynslóðir strituðu við að byggja upp á síðustu öld.
En það er líka birta og von á meðan til eru menn eins og Kári Stefánsson sem þora að andæfa, þora að svara orðavaðli síblekkjandi stjórnmálamanna fullum hálsi.
Vonandi mun Kári sjá samhengi á milli fjárskortsins og ruplsins.
Þó stjórnmáladeild fjármálveldis Engeyjarættarinnar hafi komist upp með Gjöf sína, lögin fyrir ruplinu eru þegar samþykkt, þá á hún ekki að sleppa án ábyrgðar.
Það þarf einhver að rjúfa þögnina.
Að ákæra.
Að krefjast réttlætis.
Annað er eins og að vera líkt og klárinn sem leitar þangað sem hann er sárkvaldastur.
Að gefast upp fyrir kvölurum sínum.
Í von um heytuggu.
Eins og enginn sé morgundagurinn.
Og engir séu afkomendurnir.
Kveðja að austan.
![]() |
Ekkert að marka ríkisstjórnina |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
1.2.2016 | 17:21
Á eftur Gjöf kemur moldvirði.
Einskisnýt umræðu um eitthvað sem gerðist fyrir mörgum árum síðan, og hafi menn áhuga að vita staðreyndir málsins, þá er þingmönnum í lófalagt að leggja fram þingsályktun um skipan rannsóknarnefndar.
Það er ef þeir hafa hinn minnsta áhuga á að sannleikurinn komist uppá yfirborðið.
En á meðan það er þrasað, þá er Gjöfin einstaka ekki rædd.
Enda hvað eru 300-550 milljarðar á milli vildarvina??
Er þrasið ekki skemmtilegra?
Kveðja að austan.
![]() |
Ráðuneytið svarar Vigdísi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
1.2.2016 | 07:00
Sá Gjafmildi gumar sig.
Af því sem hann gaf ekki.
Hrósar sig af skemmdu eplunum sem skilin voru eftir á botni pokans.
Má þó eiga að hann lætur vera að minnast á hve gjöf hans gerir afnám gjaldeyrishafta "skilvirkari".
Óttast kannski spurninguna hve þungar verði byrðar almennings þegar fjárbraskarafé leitar úr landi í skjóli evruskuldabréfa sem almenningur er í ábyrgð fyrir.
Sem er náttúrulega bjánalegt.
Það er langt síðan að síðasti Sjálfstæði fjölmiðlamaðurinn lét af störfum.
Og spurningar því ekki spurðar.
Þannig er nú það.
Kveðja að austan.
![]() |
Íslandsbanki í hendur ríkisins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (28.7.): 11
- Sl. sólarhring: 14
- Sl. viku: 2494
- Frá upphafi: 1469896
Annað
- Innlit í dag: 10
- Innlit sl. viku: 2135
- Gestir í dag: 9
- IP-tölur í dag: 9
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar