10.1.2015 | 17:05
"Annars hafa þeir unnið".
Ofsatrúnaðurinn, hótanirnar, ofbeldið.
Og hinn pólitíski rétttrúnaður.
Sem gagnrýndi harðlega blöð eins og Charlie Hebdo fyrir að rugga bátnum, fyrir að vera ekki meðvirk í þeim rasisma að gera ekki sömu kröfur til allra menningarhópa sem mynda vestræn samfélög nútímans.
Jafn rangt eins og það er að mæta niður í miðborg Mekka með Whiskýflösku veifandi myndum að Muhamed spámanni, er sú krafa til atvinnuháðfugla að þeir sleppi að gera grín af ákveðnum hópum, því þeir eru á einhvern hátt viðkvæmir fyrir háði, eða eiga undir högg að sækja, og því ekki á bætandi að gera grín að þeim.
Grín er tjáningarmáti í hinum vestræna heimi, og við þurfum öll að sætta okkur við að það sér gert grín að okkur, og það sem meira er, það er hollt að kunna að gera grín af sjálfum sér.
Viðbrögð fólks við gríni segir mikið um það sjálft, og viðbrögð menningarhópa við gríni segir einnig mikið um þá sjálfa.
Í þessum orðum felst ekki að grín megi leyfa sér hvað sem er, og að grín geti ekki verið smekklaust, um það gilda lög eins og um aðra tjáningu.
Og við höfum öll rétt að hafna ákveðnu gríni.
Til dæmis með því að umgangast ekki fólk sem við teljum að sé með ósmekklegt grín, eða kaupa ekki þá fjölmiðla sem við teljum að gera út á ósmekklegheit.
En við getum ekki beðið aðra um að halda kjafti vegna þess að þeir móðga kolbrjálað fólk.
Eða vegna þess að til séu hópar sem þola ekki viðkomandi grín.
Og við getum ekki beðið heil menningarsamfélög að frábiðja sér grín með hótunum og ofbeldi.
Um það snýst deilan í dag.
Og við verðum að sigra þá deilu.
Kveðja að austan.
![]() |
Við ælum á allt þetta fólk |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
9.1.2015 | 17:24
Pólitískur rétttrúnaður á sér ýmsar myndir.
Við fengum fréttir frá Frakklandi í fyrradag og Saudi Arabíu í dag.
Þöggunin fer eftir aðstæðum hverju sinni.
Það sem við föttum ekki á Íslandi er að við upplifum þessa þöggun á hverjum degi.
Ef þú vogar þér að efast um hinn pólitíska rétttrúnað þá ertu fleginn lifandi í gegnum netmiðla, á bloggsíðum, í athugasemdarkerfum, og ef þú hefur eitthvað að segja þá getur þú náð svo langt að vera níddur niður í kostuðu skrípi frá áróðursskrifstofu ESB, sem kallað er áramótaskaup.
Markmiðið er þöggun um það sem er að gerast í heiminum í dag.
Miðaldavæðing öfgaafla, hvort sem þau eiga sér rætur í hægri öfgum USA, eða Saudi Arabískum ofsatrúnaði.
Hatur og heift er "Inn" hjá hinum jákvæðum velviljuðu ofsalegu réttsýnu Vesturlandabúum, þeir eru fylgjendur hommahatri, kvennakúgun, grýtingu, eða hengingum á almannafæri.
Að því gefnu að múslímar eigi einhverjar tengingu við slíka voðaverknaði.
Eins fá morð og limlestingar í bandarískum fangelsum topp tíu einkunn á spjallasíðum hægri fólks, og ekki er verra að eitt og eitt brúðkaup hafi verið sprengt í loft í löndum eins og Jemen, Pakistan, að ég tali ekki um hjá hinum "réttdræpa" skríl í Afganistan.
Helgi mannslífa nær ekki yfir slíkt fólk.
Og þeir sem leyfa sér að efast, hvað þá að spyrja, upplifa sameiningu hinna tveggja póla.
Þegiðu, eða hafðu verra af.
Saudarnir eru þó heiðarlegastir, þeir viðurkenna þó að þeir séu miðaldamenn.
Vesalingarnir í Frakklandi, eru sporgöngumenn þeirra.
Hvort ICEsave þjófahyskið, og þá miða ég við íslenskan raunveruleika, eða þeir sem eru svo barðir, að þeir tala um að bjóða hinn vangann gegn ofbeldi þöggunarsinna, eru aumkunarverðari, og þá vegna hræsni sinnar og yfirdrepsskapar, veit ég ekki.
Það er erfitt að greina á milli þeirra sem kjósa sér skítahaug aumingjaskaparins sér til búsetu.
Ógnarvald auðs og sérhyggju gerir þar engan greinarmun á.
Viljugir þjónar eru alltaf jafn réttháir.
Fórnarlömbin eru börnin okkar og framtíð þeirra.
Þau líða fyrir þann aumingjaskap okkar að láta óhroðann yfir okkur ganga.
Að við skriðum þegar við áttum að standa.
Sárara en það sem sárt er að maðurinn sem rétttrúnaðurinn hataði framar öllu, Stephane Charbonner vegna þess að hann kaus að ganga í stað þess að skríða, hann útskýrði afstöðu sína með því að hann væri ókvæntur og barnslaus.
Eins og aumingjaskapurinn væri bein afleiðing þess að eiga líf sem þarf að vernda.
Sárt vegna þess að þetta er alveg rétt.
Veruleiki íslenskra stjórnmála sannar það.
Það var ekki bara fjórflokkurinn sem seldi sig. Fólkið á móti stóð á torgum og reyndi allt til að yfirbjóða hina gömlu valdaflokka. Þráin eftir silfrinu yfirskyggði allt.
Þar á meðal eðlishvöt mannsins að rétta úr sér, sem skildi hann frá mannapanum fyrir árþúsundum síðan.
Og það þurfti barnlausan mann til að skilja þá eðlishvöt.
Bloggari í Saudi Arabíu skildi það líka, og galt fyrir með húð sinni.
Keyptur böðull sá um það verk.
Líkt og sá keypti á Íslandi, sem reyndar notar ekki svipu úr nautsleðri, heldur meitlaða úr orðum á ljósvökum auðþjófa og prentuðum miðlum þeirra.
Og eiga það sammerkt böðlarnir að gráta þá sem dóu í París.
Reyndar krókódílatárum, en tárum engu að síður.
Táknrænt því þeir sem skríða fyrir svipum hins pólitíska rétttrúnaðar, þeir eru ofboðslega hræddir við valdið, krókódíla þess, en fyrst og síðast þá dreymir þá um silfrið sem þeim áskotnast sem skara fram í skriði og undirlægjuhætti.
Og kyngja því öllu, láta bjóða sér hvað sem er.
Þess vegna á hinn pólitíski rétttrúnaður sér hinar ýmsu myndir.
Í anda nútíma markaðsvæðingar þá sérhæfir hann sig að þörfum hvers og eins.
"Hvað þarftu til að skríða, til að þú skríðir??".
Og eins og sannir neytendur þá svörum við því sem við teljum réttast til að auðvelda okkur skriðið.
Járnfrúin sagði að það væri ekki til "no such thing as a society", og var barn síns tíma, hún sá ekki fyrir þann veruleika að það væri ekki til "no such thing as a future of our kids".
Að fólk þyrfti að vera barnlaust til að standa í lappirnar gegn kúgun og ofríki miðaldamanna, hvort sem þeir vilja arðræna okkur líkt og var gert á lénstímanum, eða móta samfélag okkar eftir árþúsunda gömlum siðareglum löngu útdauðra samfélaga.
Hvort sem það er gegn frjálshyggjunni, eða miðaldahyggju íslamista.
Silfur og þras.
Ef þessar grunnþarfir eru uppfylltar.
Þá who fuckings care the children.
Saudarnir eru ekki verstir.
Hinn raunverulegi vandi er miklu nær en við viljum viðurkenna.
En það er svo auðvelt að benda á aðra.
Kveðja að austan.
![]() |
Hýddur fyrir að móðga íslam |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
8.1.2015 | 15:15
Við eigum í stríði.
Og það er kominn tími á að viðurkenna það.
Áður en mikið fleiri liggja í valnum án þess að við lyftum litla fingri til að verja samfélög okkar, lífsgildi, siðmenningu.
Við höfum látið það viðgangast að öfgafólk haldi fjölmiðlum okkar í gíslingu með stanslausum hótunum, sem og ofbeldisaðgerðum, án þess að svara á þann eina hátt sem virkar gegn slíku fólki.
Að birta það aftur og aftur sem reynt er að þagga niður.
Við höfum látið það viðgangast að miðaldafólk, með það eina markmið að færa klukkuna 800 ár aftur í tímann, fjármagni uppbyggingu bænahúsa og trúarmiðstöðva um alla Evrópu, og noti síðan þau hús til að útbreiða hatri og heift.
Í þokkabót kemst það upp með að senda syni sína og dætur í þjálfunarbúðir hermdarverkarmanna, auk þess að taka þátt í að murka lífið úr saklausu fólki á átakasvæðum Sýrlands og Íraks.
Við höfum látið viðgangast heiðursmorð, kvennakúgun, hommahatur, og aðra þá viðurstyggð sem fylgir þessu miðaldafólki, þessari miðaldahugsun.
Við höfum leyft hatursáróðurinn, við höfum leyft alla öfganna.
Hótanirnar, kúgunina, ofbeldið, sem ekki hvað síst hefur beinst að nútímafólki í hinu múslímska samfélagi Evrópu.
Allt í nafni hins pólitíska rétttrúnaðar að ekki megi segja sannleikann, ef sannleikurinn beinist af einhverju sem er flokkað sem minnihlutahópur.
Erum svo hissa á að gróusögurnar magnist, og að öfgahópar þrífist í andrúmslofti hinnar sjálfskipuðu þöggunar.
Vonandi dó hinn pólitíski rétttrúnaður í gær.
Þá dó Stephane Charbonner og samstarfsfólk hans ekki til einskis.
Því morðin voru afleiðing, ekki af hatursboðskap öfgaklerka, heldur af sinnuleysi okkar gegn einni þeirri skelfilegustu ógn sem siðmenningin hefur staðið gegn um aldir.
Miðaldahyggju ofsatrúnaðarins.
Hún skaut rótum í okkar boði.
Kveðja að austan.
![]() |
Markmiðið að valda ótta |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (50)
8.1.2015 | 09:25
Loksins, loksins, loksins.
Fór sem ég spáði að skynsemin sigraði í Sjálfstæðisflokknum.
Ekki sú skynsemi að skilja að nútímasamfélag þrífst ekki án lækna, því slíkt common sens er frjálshyggjufólki ofviða, heldur sú skynsemi að valdaflokkur þarf kjósendur.
Og kjósendur Sjálfstæðisflokksins eru mjög háðir læknum.
Hvort svo þessir samningar dugi er svo annað mál.
Það er ekki víst að þó læknar samþykki þennan samning, að þeir hætti nokkuð að greiða um leið atkvæði með fótunum.
Tíminn mun skera úr um það en hvernig sem á málið er litið, þá er ljóst að vatnaskil urðu þegar læknum varð þröngvað til að grípa til þeirra neyðaraðgerða sem verkfall þeirra var.
Skilaboð þjóðarinnar, því það er hún sem ber ábyrgð á að frjálshyggjubörn stýra landinu, voru skýr, þið megið missa ykkur, við metum fjármagn meira en líf.
Læknar meðtóku þessu skilaboð, og hugsa sitt.
Tíminn sker úr um, en tíminn er líka á þrotum.
Það er einfalt lögmál að það sem er byrjað að hrynja, hrynur, og er að lokum hrunið.
Vonandi eru þessir samningar ekki Pyrrhosarsamningar.
Kveðja að austan.
![]() |
Skurðlæknar semja |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
7.1.2015 | 20:12
Maðurinn sem hélt haus.
Á meðan aðrir lutu höfði, var myrtur í dag.
Þaggað niður í honum, vegna þess að hann kaus að tala, í stað þess að þegja.
Neitaði þeirri samdaunun sem einkennir hina opinberu umræðu á Vesturlöndum um málefni hins múslímska heims.
Umræðu sem má lýsa með tveimur orðum; Sjálfskipuð þöggun.
Þöggun sem er réttlætt með tilvísun í einhverja meinta ofurviðkvæmni hinna trúuðu, en stafar fyrst og fremst af ótta við kolbrjálað fólk.
Ótta sem Stephane Charbonner deildi ekki með restinni af starfsfélögum sínum.
Galt fyrir með lífi sínu, en dó sem maður, lifði ekki sem mús.
Sem er grundvallaratriði því forsenda einræðis og kúgunar er útbreiddur músafaraldur.
Meðal fólks, nota bene.
Mýsnar á fjölmiðlum munu keppast við næstu klukkutímana að fordæma morðið á Charbonner, fordæma morðin á samstarfsmönnum hans, fordæma morðin á saklausu fólki sem átti leið hjá.
En það hvarflar ekki að þeim að verja þau grunngildi sem hinn látni ritstjóri stóð fyrir.
Að láta ekki öfga og öfgafólk ritstýra frjálsum fjölmiðlum.
Mærðarfullar greinar varða samdar, hástemmdar yfirlýsingar birtar, en engin mynd af brjáluðum trúarleiðtogum eða skeggjuðum spámönnum mun fljóta með.
Að tillitsemi við hina sjálfskipuðu ritskoðun.
Því mýs eru ekki menn.
Það vita jú allir kettir.
Og öfgamenn líka.
Kveðja að austan.
![]() |
Maðurinn sem bauð þeim birginn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 8.1.2015 kl. 07:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
7.1.2015 | 17:14
Eru ekki bara bjánar í Sjálfstæðisflokknum??
Bera Framsóknarmenn líka ábyrgð á hinni sorglegu aðför að heilbrigðiskerfinu??
Voru þeir ekki saklausir meðreiðasveinar frjálshyggjunnar??
Heldur gerendur óhæfunnar.
Og ekki orð að marka öll þeirra orð þegar þeir voru í stjórnarandstöðu??
Jóhanna og Steingrímur réttlættu ALLT með tilvísun í hinn meinta stöðugleika.
Aðför evrunnar að samfélögum Suður Evrópu er einnig réttlætt með sömu orðræðunni.
Stöðugleika kyrrstöðunnar.
Stöðugleika hins hægfara dauða.
Stefna Evrópusambandsins, stefna Bjarna Ben.
En að ég hélt ekki stefna Framsóknarflokksins.
Svona getur manni skjátlast.
Kveðja að austan.
![]() |
Verðbólga fari af stað og lán hækki |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
7.1.2015 | 13:35
Ritskoðun hins pólitíska rétttrúnaðar á sér ýmsar myndir.
Í Frakklandi nota hinir rétttrúuðu vélbyssur til að þagga niður í fólki sem vogar sér að æmta og skræmta um hinn íslamska veruleika miðaldahyggjunnar.
Á Íslandi nota þeir níð og illmælgi.
Níðið dugar hér, en dugði ekki í Frakklandi, morðin voru því stigmögnun þöggunarinnar.
Þess vegna eigum við að fagna áramótaskaupinu, og vona að það virki.
Blessuð stúlkan sem vogaði sér að spyrja hvort það væri rétt að leyfa miðaldamönnum sem hatast við kvennaréttindi, mannréttindi, tjáningarréttindi, kynréttindi, að byggja í hjarta Reykjavíkur. Svona í ljósi reynslunnar, svona í ljósi þess sem þeir standa fyrir.
Hún var húðflett líkt og böðlar Jóns Hreggviðssonar væru ennþá meðal vor.
Löggan, sem vogaði sé að benda á í saklausum pistli að við værum ekki öll eins, að bakgrunnur okkar og menning væri ólík, og við ættum að skilja í stað þess að afneita, hún var brennimerkt sem rasisti, og rökin voru tilvísun í eitthvað sem hún aldrei sagði.
Hún baðst afsökunar, og lofaði aldrei meir að tjá sig um að við værum ekki öll eins.
Vélbyssurnar voru því óþarfar.
Níðið og hatursumræðan dugðu.
Og vonum að svo verði áfram.
Það dó jú enginn.
Ennþá.
Kveðja að austan.
![]() |
Mannfall í árás í París |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (7.8.): 0
- Sl. sólarhring: 5
- Sl. viku: 111
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 90
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar