23.3.2025 | 15:04
Þeirra er smánin.
Það er óhætt að segja að fátt hefur skekið þjóðina eins mikið og aðför fjölmiðla að Ásthildi Lóu, fyrrverandi mennta og barnamálaráðherra.
Fólki ofbýður að áratugagamall getnaður ungs fólks sé dreginn fram til að níða niður ærlega manneskju vegna einhvers meints stjórnmálaávinnings, hver sem hann ætti svo sem að vera því vandséð er hver ætti að hagnast á þessari aðför ómennskunnar að samfélagi okkar.
Það er vægast sagt sérkennilegt að ætla sér að ná frama með því að afhjúpa sig sem ómenni.
Rangfærslur, ef ekki klárar lygar, voru í föruneyti þess fjölmiðlafólks sem hóf þessa aðför.
Þær rangfærslur hafa fjölmiðlar ekki leiðrétt, enda sjálfsagt ekki tilgangurinn að fara satt með.
Þeim til smánar ætla ég að gefa lífinu sem varð til fyrir 35 árum síðan orðið, orð sem segja allt.
"Fullyrðingar um að mamma mín hafi verið leiðtogi eða leiðbeinandi innan safnaðirns voru rangar. Aldur blóðföðurs míns var einnig námundaðar niður í aldurinn þegar þau hittust fyrst en ekki þegar þau áttu í sambandi og sérstaklega var tekið fram að ef þetta samræði hefði átt sér stað í dag væri það ólöglegt. Aldur mömmu hefur að sama skapi verið námundaður upp í aldurinn þegar hún eignaðist mig, þegar sambandið var fyrir löngu búið. Þess var einnig ekki gætt eða lögð á það nein sérstök áhersla að samkvæmt lögum landsins fyrir 36 árum þegar þetta samband átti sér stað var blóðfaðir minn löglega orðinn fullorðin og að sams konar sambönd voru ekki óalgeng þá og ekki álitin hneykslanleg eins og þau eru í dag.
... Að mínu mati er ósanngjarnt að ætla að styðjast við nútíma viðhorf og lög yfir atburði sem gerðust fyrir bráðum fjörutíu árum. ".
Við sem eldri erum vitum að þetta er satt og rétt, þó yfirleitt hafi ekki verið mikill aldursmunur í samböndum ungs fólks þá voru samt á því margar og heiðarlegar undantekningar, og það fyrir bæði kynin, og viðkomandi einstaklingar voru ekkert verri manneskjur fyrir vikið. Og þetta er fyrir þann tíma þegar Rétttrúnaðurinn fór að barnavæða ungt fólk, með þekktum afleiðingum.
Þess vegna er ákaflega sorglegt að lesa skrif eldri manna hérna á Moggabloginu, sem tala gegn betri samvisku um barnaníð. Samfélagi okkar hérna til hrós þá er samt um undantekningar að ræða.
Smánin er þeirra sem ljúga og blekkja til að ná meintu höggi á pólitíska andstæðinga, og það er þeirra að þvo sinn smánarblett með því að leiðrétta rangfærslurnar og biðjast afsökunar.
Morgunblaðið er til dæmis minna á eftir ef ritstjóri blaðsins gerir það ekki í leiðara, hann má þó eiga að hann tók af skarið um meintan trúnaðarbrest úr forsætisráðuneytinu í nýliðnu Reykjavíkurbréfi. "Ekki verður séð af opinberum málavöxtum að forsætisráðherrann hafi brugðist í einhverjum efnum í þessu tiltekna máli. Enda verður ekki annað séð en að hraði afgreiðslu forsætisráðherrans hafi verið eins og eðlilegt var og við mátti búast.".
Um Rúv þarf hins vegar ekki að ræða, sorinn virðist vera eðlilegt fréttastef hjá ríkisfjölmiðli okkar.
Stofnunin biðst ekki einu sinni afsökunar á að starfsmenn hennar skipuleggi banatilræði við borgara landsins, steli símum þeirra, afriti gögn úr stolnum símum og semji síðan falsfréttir uppúr hinum stolnu gögnum.
Ærulaust fólk kann ekki að biðjast afsökunar, til þess þarf jú æru.
Ég hef hrósað þeim Guðrúnu Hafsteinsdóttur og Sigurð Inga fyrir hófstillt viðbrögð, þeirra spurningar snérust um hvort trúnaðar hefði verið gætt í forsætisráðuneytinu, þeim spurningum hefur verið svarað og málið ætti því að vera fullrætt.
Út af stendur aðeins spurningin um aðkomu fyrrverandi dómsmálaráðherra með meiru, Áslaugar Örnu, að málinu því upplýst hefur verið að af einhverjum ástæðum fékk hún tölvupóst svipuðum þeim sem barst til forsætisráðuneytisins.
Af hverju hún af öllum manneskjum, og hvað gerði hún við þessar upplýsingar??
Áslaug Arna sá ástæðu í gær til að svara meintum ávirðingum í sinn garð, eftir að það upplýstist að hún væri aðili málsins.
Dv hefur allavega greint frá svari hennar, sem og að ég las á feisbók áðan kostaða dreifingu á færslu Áslaugar á síðu sinni.
Þar var orðalag sem stakk mig og ég vil vekja athygli á: "Spurningin sem eftir stendur er sú hver það er sem ber raunverulega ábyrgð á því að einstaklingur, sem hefur samband við forsætisráðherra í góðri trú, er svikinn um trúnað og endar með annan ráðherra í ríkisstjórn hjá sér í óumbeðnu kvöldkaffi eftir að hafa setið undir símtalaflóði frá ráðherranum dagana á undan.".
Í ljósi staðreynda málsins og þeirrar fordæmalausu aðfarar fjölmiðla að Ásthildi Lóu, er mikill kaldrani í þessum orðum.
Kaldrani sem vekur upp spurningar.
Og þarna er himinn og haf á milli Áslaugar annars vegar og Guðrúnar hins vegar.
En það er mál að linni.
Hvort smánin situr eftir eða hvort hún verði þveginn burt með leiðréttingum á rangfærslum og síðan afsökunarbeiðnum í kjölfarið, veit tíminn einn.
Þetta er ekki það Ísland sem við viljum.
Og eins og einn góður maður sagði; er ekki tími til kominn að ræða stjórnmál.
Til dæmis að við ræðum þá spurningu sem ég las nýlega á bloggi Arnar Þórs Jónssonar; hvað er það sem við ætlum að verja með her, sem við erum ekki tilbúin að verja með lögum.
Vísar þar í fyrirhuguð svik íslensku stjórnmálastéttarinnar að afhenda Brussel æðsta vald í íslenskri löggjöf.
Látum ekki róginn og ómennskuna stýra okkur.
Losum okkur við þá stjórnmálamenn sem gera út á þau skítamið.
Fordæmum fjölmiðla sem haga sér svona.
Fyrirgefum samt ef bót og betrun er lofað.
Kveðja að austan.
![]() |
Kemur móður sinni til varnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
21.3.2025 | 16:23
Aumir eru þeir stjórnmálamenn.
Sem sjá höggstað í að vega að Ásthildi og samskipti hennar við Kristrúnu.
Að nýta sér fallega sögu um unga konu sem kom lífi til manns, í stað þess að eyða því í nafni þess Rétttrúnaðar sem segir, að ef líf er óþægilegt; dreptu það, þú ert jú kona.
Ekki að ég skilji að stundum var nauðsyn, og fyrir daga fósturmorða Rétttrúnaðarins, þá var um frumuklasa að ræða sem áttu eftir að mynda einstakling með vit og skyn.
Það er enginn dómur að dæma þær konur sem töldu sig knúna til að eyða fóstrum sínum, þeirra réttur er réttur sem á að virða og vernda.
En að ofsækja móðir sem kom fóstri sínu til lífs, fæddi það og klæddi, til manns og framtíðar, það gera aðeins ómenni. Ómennska.
Blessunarlega hefur enginn stjórnmálamaður í stjórnarandstöðunni slátrað æru sinni með upphafningu á eigin ágæti.
Gagnrýnin, sem að mínum dómi er ekki réttmæt, því rógur og níð á aldrei að njóta trúnaðar, snýst að meintum brotum Kristrúnar Frostadóttir á trúnaði við rógberann.
Þeir sem þekkja til skrifa minna vita að ég er ekki beint í uppklappningu á störfum Kristrúnar og ríkisstjórnar hennar, en þarna sýndi og sýnir Kristrún styrk sinn.
Hún hefur svarað og gert það vel.
Eftir standa hýenurnar.
Að vísa í þær er aðeins aumt.
Árás á siðferðiskennd þjóðarinnar.
Aumir stjórnmálamenn fá þar engu um breytt.
Hvort þeir þekki sinn vitjunartíma veit ég ekki, ég hef samt lesið viðtöl við bæði Sigurð Ingi og Guðrúnu, kjarninn er ekki fordæming, heldur spurning um meintan trúnaðarbrest.
Kannski, þrátt fyrir allt, þá eru alvöru stjórnmálamenn okkar ekki svo mjög aumir.
Að það eru fjölmiðlar okkar sem eru aumir, og þar með láta þeir stjórnmálamenn okkar lúkka auma.
Gagnvart þessum prófsteini mennsku og mannúðar er Mogginn hrak, smán svona líkt og þegar fréttaritstjóra blaðsins gaf grænt ljós á viðtal einfeldnings á útsendara morðingja Hamas.
Í knérum er höggið sem aðeins vekur viðbjóð.
Sigurður Ingi og Guðrún Hafsteins stóðust prófraun sem bæði Morgunblaðið og Rúv réttu að þeim.
Keik á eftir blasir við ný sýn, nýjar lendur, að baki eru galdraofsóknir Rétttrúnaðarins, fordæmingin, skinhelgin.
Megi þau halda haus, og megi þau skapa fordæmi.
Að nábítur og náriðill stjórni ekki Íslandi í dag.
Heldur fólk sem þorir að andæfa.
Kveðja að austan.
![]() |
Skiptir máli hvort konan hafi vitað að nafnið yrði gefið upp |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
21.3.2025 | 09:29
Þjóð án sóma.
Veltir sér uppúr svona áratuga gömlu máli.
Um það þarf ekki að hafa fleiri orð.
Kveðja að austan.
![]() |
Segir barnsföður sinn hafa verið eltihrelli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
19.3.2025 | 11:52
Yfir 400 morð á einni nóttu
Eru skilaboð ríkisstjórnar Ísraels til heimsbyggðarinnar, frelsun gísla var víst yfirskin eftir allt saman.
Tilgangurinn er að drepa og eyðileggja, ekki frelsa, ekki ná fram réttlæti.
Því réttlæti saklausra næst ekki með drápum á öðrum saklausum.
Eftir voðaverk Hamas í Ísrael þann 7. október 2023 var Ísrael í fullum rétti að herja á Gasa, Hamas var árásaraðili og sjálfstæð ríki hafa fullan rétt til að knýja árásaraðila til uppgjafar, hvort sem það er stjórnin í Jerúsalem eða stjórnin í Kiev.
Ef heimsbyggðin vildi stöðva þann hernað þá bar henni að sjá til þess að Hamas legði niður vopn sín og skilaði því fólki sem samtökin rændu í Ísrael.
Uppgjöf er eini valkostur þess sem getur ekki varið borgara sína og vill stöðva blóðbað og eyðileggingu.
Þess vegna lögðu Danir niður vopn sín 1940, þess vegna gáfust Pólverjar upp þegar þeir gátu ekki varið borgir landsins fyrir loftárásum Þjóðverja, þess vegna gáfu Frakkar París eftir án bardaga, þess vegna reyndu þýskir hershöfðingjar ítrekað að bana Hitler svo hægt væri að stöðva hið tapaða stríð við Bandamenn.
Og þess vegna voru allar ásakanir hins keypta alþjóðasamfélags, keypta af olíuauðnum við Persaflóa líkt og fótboltahreyfingin, um þjóðarmorð Ísraela á Gasa rangar. Það var Hamas að gefast upp, en ekki Ísraela, rétturinn til árása samkvæmt alþjóðalögum var þeirra meginn.
Í dag er þessi réttur ekki til staðar, og því er fyrirsögn þessa pistils eins og hún er.
Hamas gafst ekki upp, Ísraelsher gat ekki brotið samtökin á bak aftur og frelsað hið hertekna fólk.
Þess vegna var samið um vopnahlé og það vopnahlé fól í sér fyrsta áfanga þar sem hernaði var hætt og skipst á föngum í haldi Ísraela og herteknu fólki í haldi Hamas.
Í þessu vopnahléi fólst einnig skuldbindin beggja aðila um að taka upp viðræður um varanlegt vopnahlé, öllum gíslum yrði sleppt og öllum hernaði hætt á Gasa og við tæki uppbygging svæðisins.
Hamas hefur staðið við sinn hluta vopnahléssamkomulagsins, en öfgamennirnir í ríkisstjórn Ísraels hins vegar ekki.
Það átti að semja um lausn síðustu gíslanna, ekki að neita að semja fyrr en öllum gíslum hefði verið sleppt.
Að skrúfa fyrir mat og rafmagn er kúgun sem er skýlaust brot á undirrituðu vopnahléssamkomulagi, árásirnar í kjölfarið er síðan bein svik á því samkomulagi, yfirlýsing um að aldrei hafi staðið til að virða það.
Öfgamennirnir hafa ekki bara vanvirt ríkisstjórn sína, þeir hafa vanvirt ríki sitt og alla þá baráttu sem gegnir hafa háð til að tryggja tilverurétt þess innan um nágranna sem hafa það eina markmið að útrýma því.
Allt það fólk var fólk orða sinna, samningar sem það gerði stóðust.
Ekki svik og prettir.
Vopnahléssamningurinn er samt í fullu gildi þótt ofstækisfólk kjósi að svíkja hann.
Þess vegna eru árásirnar á Gasa sama eðlis og árásir Hamas á Ísrael 7. október 2023, morðárásir sem þjóna þeim eina tilgangi að drepa og eyða.
Morðárásir vitfirrtra manna sem réttlæta voðaverk sín með vísan í eitthvað sem þeim hefur verið gert, en tilgangurinn sá sami, dauði, eyðilegging, auðn.
Vitfirringa sem halda löndum sínum í gíslingu síátaka, þannig tryggja þeir völd sín og áhrif, skítt með þjáningar hins venjulega.
Stærsti glæpurinn samt að neita börnunum um framtíð, um frið, um mannsæmandi líf.
Voðaverkin, morðin eru sögð vera með samþykki ríkisstjórnar Donalds Trump.
Ómögulegt að segja hvort satt er.
En ef þetta er vegvísir friðarsamninga Donald Trumps, þá eru þau samningar ekki pappírsins virði, ef það á aðeins að framfylgja þeim þegar það hentar.
Það er nefnilega mikil ábyrgð að þrýsta á frið, og þeirri ábyrgð fylgir að fordæma brot ásamt því að knýja á að báðir deiluaðilar virði hinn undirritaðan friðarsamning.
Bregðist Trump núna þá lítur hann einfaldlega ekki lengur trausts.
Það er því mikið undir að voðaverkin á Gasa verði stöðvuð.
Því heimurinn þráir frið, en ekki frið ofbeldisseggjanna
Ekki Breiðholtsfriðinn.
Núna reynir á manninn.
Kveðja að austan.
![]() |
Árásir á Gasa héldu áfram í nótt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
19.3.2025 | 08:21
Svik á ögurstundu.
Núna þegar sést fyrir endann á eldsumbrotunum á Sundahnúksgígaröðinni og miklar líkur á að næsta eldgos verði það síðasta í þessari hrinu þá ákveður ríkisstjórn Íslands að stinga rýting í samfélagið í Grindavík með því að afnema rekstrarstuðning sem smáfyrirtækjum hefur staðið til boða, skapar þannig grundvöll fyrir fjöldagjaldþrot daginn áður en hægt er að koma samfélaginu á stað á ný.
Eftir ómetanlegan stuðning ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur, stuðning sem þjóðin var einhuga um að veita, þá ákveða Valkyrjurnar að skrúfa fyrir hjálpina, líklegast vegna þess að þeim vantar þessa fjármuni til að fjármagna stríðsæsingar sínar á fjarlægum slóðum.
Eftir stendur svikið fólk á Ögurstundu.
Viðtalið sem fréttastofa Rúv tók við Kristrúnu Frostadóttur var óskiljanlegt öllu venjulegu fólki, óðamálið var það mikið og talað um hluti sem skipta engu máli fyrir fólk í Grindavík.
Góð umfjöllun Morgunblaðsins hér í viðtengdri frétt útskýrir þó eitthvað sem Kristrún reyndi að segja, hún sér til dæmis afleiðingar náttúruhamfara sem sóknartækifæri fyrir Kerfið til að þenja út enn eina skriffinnskuna, ráðskast skal með líf og örlög fólks undir því sem hún kallar Sóknaráætlun Suðurnesja, þar á eftir að sitja marga fundina og semja margar skýrslurnar, útbúa flækjustig og kannski hugsanlega gera eitthvað, slá jafnvel í eina sýndarmennsku þar sem ráðherra klippir á eitthvað.
Og samfélaginu, sem er í sárum eftir atlögu hennar, bíður hún náðarmeðal; "Sjónum verður þess í stað beint að því að greina hvort persónulegar ábyrgðir vegna atvinnuhúsnæðis eða atvinnureksturs kalli á ráðstafanir til að forða gjaldþrotum einstaklinga. Þörf fyrir slík úrræði verður könnuð með milligöngu umboðsmanns skuldara.".
Umboðsmaður skuldara, hann er bjargræði samfélags sem lenti í miðju náttúruhamfara, ómerkilegra getur eitt stjórnvald ekki orðið.
Fréttastofa Rúv má eiga að hún brást við þessum tíðindum með því að tala við fólkið sem sá vonarneista sína kæfða.
Maður heyrði til dæmis hvernig brotinn Selensky, eftir að honum varð ljóst að hann gæti ekki varið orkuinnviði landsins án stuðnings bandaríkjastjórnar, hljómar á íslensku þegar Fannar bæjarstjóri tjáði sig um tíðindi dagsins, tjáði sig um svikin. Þann viðtalsbút á að geyma og spila reglulega, því fólki sem styður Valkyrjurnar til ævarandi minnkunar. Brotinn maður reyndi að styggja ekki valdið, en hann gat aðeins stjórnað orðum sínum, ekki röddinni.
Aðrir viðmælendur voru einfaldlega skelfingu lostnir, búnir að þrauka allan þennan tíma, boðið svo uppá almennt kjaftæði í stað hjálpar.
Auðheyrt er á viðbrögðum fréttamanna Rúv að það er kominn stór brestur í þá jákvæðu ímynd sem þeir höfðu af Valkyrjunum og ríkisstjórn þeirra. Jafnvel spurning hvort þeir sem eldri eru og lesnir, sé ekki farið að gruna að einhvers staðar uppá háalofti sé mynd sem sýnir raunverulegt eðli ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur, og sú mynd sé þegar orðin ljót líkt og myndin af Dorian Gray.
Enda þegar orðinn mikill munur á orðum og gjörðum.
Öll kosningaloforðin voru sungin út um gluggann. Það var víst búið að gera fjárlög svo það var engin önnur innistæða fyrir þeim önnur en blekkingin til að fá atkvæði.
Öll hin meinta hagræðing var sýndarmennskan ein, nema hin blautlegi draumur Viðreisnar að loka öllu því sem hægt er að loka á landsbyggðinni.
Pútín er tekinn á fjölmiðla sem voga sér að fjalla um spillingu innan ríkisstjórnarinnar, einfeldningur í ráðherrastól fenginn til að skera við trog styrki til þeirra.
Þingflokkur Samfylkingarinnar er griðastaður manna sem tóku þátt í að skipuleggja banatilræði, stela síma fórnarlambsins og afrita gögn úr honum og síðan að semja falsaðar fréttir úr hinum þjófstolnum gögnum.
Átökin í Austur Evrópu notuð sem tylliástæða til að setja mikla fjármuni í einhvera meinta hernaðaruppbyggingu okkar vopnlausu smáþjóðar svo ráðherrar okkar geta verið menn með stríðsmönnum á hinu stóra sviði alþjóðamálanna.
Á sama tíma er allt svikið sem var lofað, núna síðast á að kæfa eitt af fáum ljósum í geðheilbrigðismálum ungs fólks sem er lokun Janusar, geðendurhæfingarúrræðis, vegna fjárskorts.
Og svo framvegis, og svo framvegis.
Svikin loforð allstaðar söng Bubbi, sannspár að vanda, hefur líklegast séð inní framtíðina, séð hina raunverulegu mynd af Kristrúnu Frostadóttur og ríkisstjórn hennar.
Vonandi eru Grindvíkingar ekki það barðir af áföllum liðins árs að þeir hafi ekki kraftinn til að rísa upp og mótmæla.
Láta heyra í sér, afhjúpa falsið og svikin.
Og ef annað þrýtur, þá geta þeir þóst vera innflytjendur, komandi frá fjarlægum slóðum, þá eru fjárhirslurnar opnar.
Allt annað en að gefast upp.
Því það er ekki bara samfélag þeirra sem er undir.
Heldur líka mennska okkar, að við hjálpum hvort öðru á meðan hjálpar er þörf.
Það, akkúrat það, er það að vera Íslendingur.
Kveðja að austan.
![]() |
Enginn rekstrarstuðningur og kaupa ekki atvinnuhúsnæði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
18.3.2025 | 17:06
Hermann Austmar er hetja
Og almenningur þurfti að kjósa skólastjóra á þing til að þessi sönnu orð voru mælt.
Í millitíðinni höfum við þurft að hlusta á vanvit hjá fréttamiðlum okkar taka viðtöl, eða birta síðbúnar eftiráskýringar um kerfið sem brást, en sagði eftirá áð það hefði gert hitt og þetta.
Og þegar fólk, trúnaðarmenn almennings á góðum launum, lýgur til að réttlæta aðgerðarleysi sitt sem og vanhæfni og vangetu, allar bjargir virðast bannaðar, þá sagði þingmaður þessi orð.
Faðir er hetja.
Föður, sem beygði sig ekki fyrir öllu kjaftæði Góða fólksins sem stjórnar Reykjavík, reyndar á góðum launum, svo góðum að vestræn samfélög þekkja ekki þessi laun Góða fólksins, heldur sagði; þið látið ofbeldi gagnvart börnunum okkar líðast vegna þess að gerendurnir er erlendir.
Vegna þess að þeir eru erlendir, þá mega þeir halda heilu samfélagi í herkví, níðast á börnum okkar, breyta friðsömu samfélagi í ofbeldissamfélag.
Ósnertanlegir en fórnarlömb ofbeldis þeirra mega víkja.
Vissulega berum við sem samfélag ábyrgð.
Við berum ábyrgð á öllum skoffínunum og viðrinunum Góða fólksins sem fyrir utan einbeittan vilja til að gera óbúandi í Reykjavík vegna ofstækis gegn einkabílnum, hafa engin ráð fyrir utan ráð Exel skriffinnana, til að takast á við neikvæð áhrif fjölmenningarinnar.
Vanhæfni þess og spilling hefur blasað við síðustu 2 kjörtímabil eða svo.
Hvort sem það eru tré sem ógna flugöryggi, þrjóska við að viðhalda gatnakerfi liðinnar aldar, eða vega að fórnarlömb ofbeldis fjölmenningarinnar, þá er þetta fólkið sem stjórnar.
Hvort hetja fái því breytt, veit ég ekki.
Samt er gott að vita að það er þingmaður á Alþingi, ekki ljósmynd líkt og hið aumkunarverða fólk sem við á landsbyggðinni kusu, og getur ekki einu sinni tryggt flugöryggi á Reykjavíkurflugvelli.
Jón Pétur Zimsen er maður.
Örugglega ekki einn slíkur á þingi, en hinir hafa ekki beint verið áberandi.
Kannski eru þeir fleiri, kannski er hann sá eini.
Sá eini á ræflaþingi.
Kemur í ljós.
Sem fær mann til að spyrja.
Hvar er Miðflokkurinn og þingmann hans??
Spyr blekkt þjóð og mun halda áfram að spyrja.
Kveðja að austan.
![]() |
Hermann Austmar er hetja |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
11.3.2025 | 08:30
Forsenda friðar 38 í Munchen
Var ekki Ástþór Magnússon, hann var ekki fæddur þá, heldur einlæg ósk um frið í Evrópu ásamt ótta við vaxandi veldi Þjóðverja.
Evrópa hafði slátrað æsku sinni á vígvöllum fyrri heimsstyrjaldar, þau sár voru ennþá ógróin þegar Hitler hóf útþenslu sína, vestrænir stjórnmála menn leituðu eftir friði, vildu frið, næstum því hvað sem hann kostaði, á móti voru einræðisherrarnir Hitler og Stalín, í þeirra augum voru stríð og ófriður tæki til að efla völd sín og áhrif.
Friður átti því aldrei möguleika á þessum árum fyrir seinna stríð, en þráin eftir honum veikti vesturveldin, þau voru illa undirbúin fyrir komandi styrjöld.
Með þekktum afleiðingum, gjörsigruð, Bretar héngu aðeins á Ermasundinu.
Þessa dagana er ríkisstjórn Donalds Trump að undirbúa friðarviðræður við Rússa vegna stríðsins í Úkraínu.
Hluti af því ferli hefur verið að tukta til stjórnvöld í Kiev, afsökunarbeiðni Selenskí er hluti af því tuktunarferli.
Áður var hann mýktur upp með því að Bandaríkjamenn hættu að veita úkraínska hernum upplýsingar um yfirvofandi sprengjuárásir Rússa, og fyrir einhverja skrýtna tilviljun þá stórjuku Rússar sprengjuárásir sínar í kjölfarið.
Ef þetta er ekki velheppnuð samvinna, hvað er hún þá???
Enginn veit hvernig Bandaríkjamenn sjá fyrir sér hinn svokallaða frið, ef þeir ætla að knýja Kiev til uppgjafar þá er það smánarblettur sem mun fylgja Donald Trump yfir gröf og dauða, slíkt er því mjög ólíklegt.
Líklegast er einhvers konar realismi sem viðurkennir þá staðreynd að Kiev er á þrotum með mannafla, hefur ekki burði til að hrekja Rússana af herteknum svæðum.
Spurningin er þá hvað Rússar gefa eftir, þar reynir á Donald Trump og þá valkosti sem hann býður Rússum uppá.
Evrópa á allt sitt undir að það náist sátt við Rússa, þeir eru bandamenn okkar, ekki óvinir.
Eðlileg samskipti hljóta því að vera markmið þessara friðarviðræðna.
Sem og friður.
Megi það verða.
Kveðja að austan.
![]() |
Sagður hafa beðið Trump afsökunar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 12.3.2025 kl. 09:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
10.3.2025 | 23:23
Hver er þessi Musk??
Af hverju er alltaf verið að vitna í þennan Musk??
Það sjá það allir sem hafa þokkalega góða sjón að hann er eins og karekter í bíómynd, og leikur þar vörtu á nefi Trump.
Varta sem getur talað og tjáð sig, er bara samt varta fyrir það.
Ef það á að komast ró á samskipti við ráðamenn vestra, þá þarf að hundsa þessa vörtu, láta eins og hún sé ekki til.
Það gildir líka um fjölmiðla, það er ekki frétt að vitna í vörtu.
Trump er hins vegar með þetta, kann að spila á fjölmiðla, kann að vera miðpunktur athyglinnar, þannig í raun er það eins og það sé aðeins tvennt í fréttum.
Trump og svo allir hinir.
Að vitna í hann er í góðu.
Að vitna í vörtuna á nefi hans er ekki í góðu.
Það fyrra blaðamennska, hið seinna slúður.
Og Mogginn er með sérsíðu fyrir slúður.
Kveðja að austan.
![]() |
Musk kallar fyrrum hermann og geimfara svikara |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
10.3.2025 | 08:17
Hve lengi er hægt að afneita raunveruleikanum??
Því meir sem Trump og fylgihjörð hans hæðast að leiðtogum Evrópu, gera lítið úr þeim, hundsa þá algjörlega varðandi málefni Úkraínu, því nánari verður Bandaríkin í hvert skipti.
Það er marka á orð þeirra leiðtoga sem hæðst er að og gert grín að.
Það er eins og gleymst hafi að segja þessu blessuðu fólki að sá sem ber ekki virðingu fyrir sjálfum sér, nýtur ekki virðingar annarra.
Sérstaklega ekki búllans.
Bandamenn haga sér ekki svona, bandamenn sína hvor öðrum virðingu.
Bandamenn fara ekki í einhliða viðskiptastríð, þeir taka upp viðræður um viðskipti sín ef þeim finnst eitthvað á sig hallað.
Evrópa er vissulega veik fyrir vegna uppsafnaðs kjaftæðis síðustu 30 ára eða svo, en hún þarf þá bara að feisa það kjaftæði
Takast á við sín innri mál, auka styrk sinn á ný.
Það verður erfitt en lausnin felst ekki í því að skríða, hvorki fyrir Trump eða Pútín.
"Segðu takk fyrir" segir bandaríski utanríkisráðherrann við starfsbróður sinn í Póllandi um afnotin af bandarísku varnar og eftirlitskerfi.
"Hafðu hljótt, litli maður" sagði gæludýr Trump við þann sama utanríkisráðherra.
Orð sem segja allt sem segja þarf um stöðu Evrópu í dag sem og samskiptin við Bandaríkin.
Það er komið að skuldadögum.
Evrópa þarf að standa á eigin fótum.
Að skríða er ekki val.
Kveðja að austan.
![]() |
Líta enn á Bandaríkin sem náinn bandamann |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
9.3.2025 | 15:14
Vinir Trump þétta sig.
Sýna að þeir eru traustir bandamenn friðar og stöðugleika í heiminum.
Og til að greiða strax úr þeirri villu meinstrím fjölmiðlanna, eða heita þeir það ekki?? að þá er ekki verið að æfa vegna einhverrar "ógnar sem ríkin telja að stafi af Bandaríkjunum.", það er falsfrétt, lygi, uppdiktuð, skáldskapur, eitthvað sem allir vita sem lesa frjálsa sjálfstæða fjölmiðla, sem skýra frá en taka ekki þátt í allsherjarsamsæri ófriðarseggja með Evrópu vestan Rússlands í fararbroddi.
Núna þegar þeir félagarnir og vinir, má ekki gleyma því; Trump sagði það, eru á lokametrunum að tukta ófriðarseggina í Úkraínu, þeirra sem skammarlaust réðust inní Rússland 2014, segi svo menn að ég kunni ekki fræðin, með stórauknum friðarloftárásum á borgi og bæi landsins, og ætla svo að semja um réttlátan frið einhvern tímann eftir helgi, eða þar næstu helgi, þá er aðeins Taívan eftir.
Það er í fyrsta fasa friðun heimsins.
Taívanar hafa lengi verið miklir ófriðarseggir, verið með dólg við ríkið sem einu sinni réði yfir þeim, svona líkt og ófriðarseggirnir í Úkraínu við Rússland, en núna á aðeins eftir að dagsetja innrás Taivan í Kína og fljótlega eftir það mun friður aftur ríkja á þeim ófriðarslóðum.
Írönum mistókst að friða Ísrael með þekktum stríðafleiðingum, heræfing þessi er því hugsuð til að auka þeim aftur kjark og þor svo þeir verði aftur nytsamir í að stuðla að friði og stöðugleika í heiminum.
Bandamenn Trumps láta ekki að sér hæða, stöðugir sem fyrr í friðarstarfi sínu.
Vinir hafa skálað af minna tilefni og örugglega er skálin á lofti bæði í Kreml og Hvíta húsinu.
Á meðan eykst stríðsæsingatalið í Evrópu, það er vestan hins friðsama Rússlands, sumir þekkja einfaldlega ekki sinn friðartíma.
Svona er heimurinn í dag í huga margra félaga minna hér á Moggablogginu.
Og reyndar víðar, vitleysan lætur seint að sér hæða.
Þess vegna fór ég bara að horfa á þættina um Churchil á Netflix, alltaf hressandi að horfa á svona stríðsæsingarmann sem vildi vígbúast á meðan aðrir vildu mæta ofbeldisseggnum með því að leggja niður vopn.
Skrýtið hvað sagan endurtekur sig.
Kveðja að austan.
![]() |
Íranir, Rússar og Kínverjar saman á heræfingum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.3.): 31
- Sl. sólarhring: 517
- Sl. viku: 3125
- Frá upphafi: 1434065
Annað
- Innlit í dag: 28
- Innlit sl. viku: 2693
- Gestir í dag: 28
- IP-tölur í dag: 28
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar