Einkenni gjörspiltra stjórnmálamanna.

 

Er að þeir benda alltaf á fortíðina, og þá fortíð annarra.

Til að skapa sér og sínum frið við myrkraverk sem þola ekki dagsljósið.

 

Einkenni réttarkerfis í vasa fjárglæpamanna (sem og annarra glæpamanna) er að það ákærir seint og illa, og þá alltaf þegar langt er liðið frá því að** glæpurinn hefur verið framinn, og ávinningurinn kominn í öruggt skjól. 

Og þá er eitthvað verkfæri tekið og dæmt á meðan höfuðpaurarnir halda sinni iðju áfram óáreittir.

 

Vigdís Hauksdóttir er viðriðin stærstu gjöf Íslandssögunnar, þegar um 500 milljarðar í þegar samþykktum stöðugleikaskatti voru látnir hverfa í myrkraviðræðum fjármálaráðherra við kröfuhafa gömlu bankanna, kröfuhafa sem að uppistöðu eru hrægammar í ýmissi mynd.

En vel borgandi og örlátum, þeir leyfa innlendri fjárelítunni að týna upp nokkra mola, smáaurar fyrir þá en geta bjargað fallandi fjármálaveldum í bakgarði Sjálfstæðisflokksins.

 

Vigdís Hauksdóttir er í þingliði ríkisstjórnar sem leyfði ríkisbanka að afhenda vildarvinum Flokksins verðmæta eign fyrir smáaura.

Hún krefst ekki rannsóknar á þeim gjörningi, hvað þá að hún krefjist að ráðherrar sem eiga beinna fjárhagslegra hagsmuna að gæta, víki á meðan spillingin er rannsökuð ofaní kjölinn.

 

Nei, Vigdís fær drottningarviðtal í Morgunblaðinu um eitthvað sem gerðist í fortíðinni, um eitthvað sem hægt er endalaust að rífast um.

Sem aftur vekur spurningar um Sjálfstæði Morgunblaðsins, hvort strengir að ofan séu tengdir við ritstjórn blaðsins.

 

 

Réttarkerfið okkar er nýbúið að kveða upp dóma yfir bankamönnum, þar á meðal vegna innherjasvika, markaðsmisnotkunar, og auðgunarbrot.

Markaðsmisnotkunin sem Landsbankamenn voru dæmdir fyrir nýlega var öllum ljós, fjármagnið sem fylgdi viðskiptum gervihluthafanna var að þeirri stærðargráðu að það gat aðeins komið frá bankanum sjálfum.  Samt gerði ákæruvaldið ekkert á þeim tíma, hóf ekki rannsókn, spurði ekki spurninga.  Afleiðingin var tap þúsunda á ævisparnaði sínum, fólk lét blekkjast, því eftirlitskerfið gerði engar athugasemdir við gjörninginn.

Innherjasvik voru líka í umræðunni á sínum tíma, en þau voru aldrei rannsökuð, aldrei kallað eftir gögnum, menn aldrei látnir svara spurningum.

 

Í dag er þjóðin vitni af innherjasvikum, og ágóðinn rennur í vasa aðila sem eru beintengdir stjórnmálamönnum og stjórnmálaflokkum.

Samt er engin rannsókn hafin, samt er ekkert ákært.

Vegna þess að tíminn er ekki liðinn, það er ekki búið að koma hinu illa fengnu fé í skjól, og það er ekki búið að finna verkfærið sem á að ákæra.

 

Eins er það með gjöfina miklu, stærsta rán Íslandsögunnar.

Fyrir opnum tjöldum, og einu fréttirnar úr ranni réttarkerfisins, eru dómar í áratugargömlum málum.

Sem segir að réttarkerfið er ekki að virka, ekki frekar en það virkaði í aðdraganda Hrunsins. 

Það er í vasa einhvers, einhvers sem múlbindur það.

 

Og eini Sjálfstæði fjölmiðill landsins ástundar sagnfræði.

Lægra er ekki hægt að lúta.

Og skömm þeirra sem stýrast af strengjum, er algjör.

 

Það er nefnilega styttra á milli Steingríms og sumra, en sumir vilja meina.

Kveðja að austan.

 

PS. **Glöggur ritrýnir benti mér á að minna hafði verið skráð en hugsað, puttarnir höfðu ekki undan við skráninguna og það féllu niður þessi orð; "langt er liðið frá því að".  Það væri jú skrýtið að ákæra áður en glæpurinn hefði verið framinn.  Vona að þessi Vaðlvíska hafi ekki truflað marga í skilja innihald pistilsins sem fjallar um stjórnmálamenn á kafi í spillingarmálum, ræða spillingu fortíðar, til að umræðan beinist ekki að þeirra eigin gjörðum.  Og ég gagnrýni réttarkerfi sem bregst seint og illa við fjármálaglæpum.  Sérstaklega ef þeir njóta verndar ráðandi stjórnmálamanna.  Sem ég kalla einu nafni; Flokkinn.  Og þarf ekki að vera einn ákveðinn flokkur.

Síðbúin kveðja að austan.


mbl.is Þarf að gera þennan tíma upp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll.

Þú segir hér ýmislegt sem ætti erindi við annað hvort saksóknara eða skattrannsóknarstjóra eða jafnvel bæði embættin.

Bentu þessu aðilum á það sem þú telur ólöglegt með vönduðu bréfi. 

Svo er ekkert sjálfgefið að hrunið hefði ekki orðið jafnvel þó bankamenn og aðrir hefðu farið í einu og öllu að þeim reglum sem giltu - raunar skiptir það ekki máli - hrunið hefði alltaf átt sér stað enda alveg sama hvað bankamenn gerðu eftir 2006: Útkomunni varð ekki breytt eftir 2006. Þetta átt þú að vita.

Það er útbreiddur misskilningur að bankamenn hérlendis hafi valdið hruninu hér - það er fjarri lagi. 

Hvers vegna varð hér hrun árið 2008 en ekki árið 2004 t.d? Menn verða að skilja hvað veldur hér til þess að geta komið í veg fyrir næsta hrun.

Næsta hrun verður innan skamms og það verður mun verra en 2008 hrunið. Ætla menn þá að kenna bankamönnum um? Er skýringin græðgi? Gerði réttarkerfið ekki sitt?

Gerðu þitt með því að benda réttarkerfinu á hvað er í gangi, hvaða lög er verið að brjóta? Ekki tuða úti í horni. Ef þetta er rétt hjá þér munu tilbær yfirvöld verða að bregðast við vönduðu bréfi frá þér - sérstaklega ef þú rökstyður mál þitt. 

Helgi (IP-tala skráð) 14.2.2016 kl. 13:33

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Helgi.

Áttu við að taka upp svona bréfaskriftir í anda Ástþórs?? 

Eða hvarflar það að þér kerfið þjáist að upplýsingaskorti, að þar séu allir að lesa New York Times, eða Prödvu??  Og viti því ekkert um samtíma sinn.  Síðan þegar þeir lesa sagnfræðirit, þá taki þeir upp mál, og ákæri.  Sem aftur skýrir dóma í áratugsgömlum málum??

Veistu ég held ekki.

Hins vegar veit ég alveg hvernig útkjálkasveitamenn geta haft áhrif á umræðuna, jafnvel búið til jarðveg fyrir hana.

Bjarni leik vissulega snjallan leik, þegar hann kynnti stöðugleikaskattinn, og fékk hann einróma samþykktan.  Samstaða sem við höfum ekki séð lengi. 

En þegar hann ljósið rennur upp fyrir fólkið, að þetta var allt leiksýning, að það stóð aldrei til, hvorki að innheimta skattinn, eða þá upphæð sem var kynnt, þá er Bjarni ekki í góðum málum.

Þá get ég slakað á.

Aðrir sjá þá um restina.

Ég spái því að hann verði fyrsti ráðherra lýðveldisins sem verði látinn sæta sakamálarannsókn.

Og að öllum líkindum verður Sjálfstæðisflokkurinn lagður niður.

Menn gefa ekki vildarvinum 500 milljarða án ábyrgðar.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 14.2.2016 kl. 15:05

3 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Er að þeir benda alltaf á fortíðina, og þá fortíð annarra.

Tilvitnun: "Við megum ekki gleyma því að hér varð hrun."  Þannig, meinarðu?

Já, gott að skoða samtímann.  En það er gagnslaust án samanburðar við firtíðina: hér er allt talvert betra en það var.  Ef við berum það ekki saman við fortíðina: þetta gæti verið betra.  Eða verra. 

Einkenni réttarkerfis í vasa fjárglæpamanna (sem og annarra glæpamanna) er að það ákærir seint og illa, og þá alltaf þegar glæpurinn hefur verið framinn,

Ég get ekki stuff kerfi sem ákærir fyrir glæpi sem hafa enn ekki verið framdir.

Og þá er eitthvað verkfæri tekið og dæmt á meðan höfuðpaurarnir halda sinni iðju áfram óáreittir.

Það hefur virkað fyrir fíknó síðan alltaf.  Sbr ferill Franklíns Steiner.   

Vigdís Hauksdóttir er viðriðin stærstu gjöf Íslandssögunnar, þegar um 500 milljarðar í þegar samþykktum stöðugleikaskatti voru látnir hverfa í myrkraviðræðum fjármálaráðherra við kröfuhafa gömlu bankanna,

Var ekki bara hætt við hann?  Mig minnir það.  Þegar maður lítur á það þannig, þá verður eitthvað lítið úr þessu meinta glæpaverki.

Vigdís Hauksdóttir er í þingliði ríkisstjórnar sem leyfði ríkisbanka að afhenda vildarvinum Flokksins verðmæta eign fyrir smáaura.

Þú gætir valið hvaða þingmann sem er og sagt þetta sama. 

Hún krefst ekki rannsóknar á þeim gjörningi,

Það yrði heldur aldrei samþykkt, af ofangreindri ástæðu.  Menn verða aðeins að velja sér bardaga sem þeir hafa von á að vinna. 

Nei, Vigdís fær drottningarviðtal í Morgunblaðinu um eitthvað sem gerðist í fortíðinni, um eitthvað sem hægt er endalaust að rífast um.

Ekki gátu þeir rætt við hana um atburði í framtiðinni.  Það hefði verið í besta falli óskhyggja.  Daman er enginn Nostradamus.

Réttarkerfið okkar er nýbúið að kveða upp dóma yfir bankamönnum, þar á meðal vegna innherjasvika, markaðsmisnotkunar, og auðgunarbrot.

Það er allt í fortíðinni.  Hvað varstu aftur að segja um að benda á fortíð annarra?

Samt gerði ákæruvaldið ekkert á þeim tíma, hóf ekki rannsókn, spurði ekki spurninga. 

Gögnun um það allt hafa verið innsigluð, að mig minnir í 80 ár.

... en aftur, það er fortíð annarra.

Afleiðingin var tap þúsunda á ævisparnaði sínum, fólk lét blekkjast, því eftirlitskerfið gerði engar athugasemdir við gjörninginn.

Fortíðin.

Innherjasvik voru líka í umræðunni á sínum tíma, en þau voru aldrei rannsökuð, aldrei kallað eftir gögnum, menn aldrei látnir svara spurningum.

1: Í fortíðinni.  2: Innsigluð gögn. 

Í dag er þjóðin vitni af innherjasvikum, og ágóðinn rennur í vasa aðila sem eru beintengdir stjórnmálamönnum og stjórnmálaflokkum.

Status quo.  En: svona vill fólk hafa þetta, annars væri þetta ekki svona.  Svona vilt þú líka hafa þetta.  Annar hefðir þú alla tíð kosið einhverja aðra.

Samt er engin rannsókn hafin, samt er ekkert ákært.

Kærðu.  Það er þinn réttur.

Vegna þess að tíminn er ekki liðinn, það er ekki búið að koma hinu illa fengnu fé í skjól, og það er ekki búið að finna verkfærið sem á að ákæra.

Jú jú.  Fotíðin er það sem gerðist fyrir sekúndu.   Kærðu.

Eins er það með gjöfina miklu, stærsta rán Íslandsögunnar.

Sem er?

Fyrir opnum tjöldum, og einu fréttirnar úr ranni réttarkerfisins, eru dómar í áratugargömlum málum.

Það tók áratug að meta það mál.  Málsgögn voru mörgþúsund blaðsíður.  Ekki segja mér að þú getir lesið slíkt magn af algjöru torfi á innan við viku og skilið það allt. 

Það er í vasa einhvers, einhvers sem múlbindur það.

Það er ein álpappahattskenning. 

Og eini Sjálfstæði fjölmiðill landsins ástundar sagnfræði.

Er til sjálfstæður fjölmiðill á Íslandi?

Ég segi bara eins og Helgi: "Gerðu þitt með því að benda réttarkerfinu á hvað er í gangi, hvaða lög er verið að brjóta? Ekki tuða úti í horni. Ef þetta er rétt hjá þér munu tilbær yfirvöld verða að bregðast við vönduðu bréfi frá þér - sérstaklega ef þú rökstyður mál þitt. "

Ásgrímur Hartmannsson, 14.2.2016 kl. 15:45

4 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Ég verð nú barasta að segja það eins og það er Ómar, að til lítils er að kasta perlum þar sem heilagir hundar eru á ferð, því það eru allar líkur á að svo mikið hafi farið úrskeiðis á milli eyrnanna á þeim að fyrr frjósi í helvíti en ekki verði hægt að taka einn snúning til í þeim vellingi.

Magnús Sigurðsson, 14.2.2016 kl. 19:41

5 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Ásgrímur.

Það er aldeis að tilltölulega stuttur og skýrt framsettur pistill geti valdið þér svona miklum flumbrugangi. Það liggur við að ég haldi að þú sért að taka námskeið í bréfaskóla í útúrsnúningum, svo mikið leggur þú á þig í þessu innslagi hér að ofan. 

Hvert ertu að fara með þessu??

Þorir þú ekki í efnislega rökræðu?? Færðu eitthvað kikk út úr því að setja fram útúrsnúninga, og slá keilur með að rífast við sjálfan þig??

Það má svo sem deila um það stílbragð mitt að hefja setningu í fyrirsögn, og botna hana svo í fyrstu línu pistilsins, en ég ætti að vera frjáls á bæði stílbrögðum og framsetningi á minni eigin bloggsíðu. 

Og ætti líka að skiljast sæmilega læsu fólki.

Fyrsta setningin er í heild svona; "Einkenni spilltra stjórnmálamanna er að þeir benda alltaf á fortíðina, og þá fortíð annarra".  Var með í huga 2 fyrrverandi forseta Perú þegar ég setti fram byrjunina, því á einhverju verður maður að byrja, annars er svo helv. erfitt að halda áfram.

En hvernig þú getur lesið út úr þessu að ég tali gegn skoðun og/eða lærdómi á fortíðinni, er mér hulin ráðgáta. Ég er mjög hrifinn af fortíðinni, er sífellt með tilvitnanir í söguna, nær og fjær, í nærtíma og fjartíma, og er mjög hlyntur því að spilltir stjórnmálamenn séu látnir sæta ábyrgð.  En fyrir fórnarlömbin, það er þjóðina, er mjög mikilvægt að stöðva þá í núinu, og um það er ég að fjalla í þessum pistli. 

Þetta gerðu til dæmis Perúmenn við Fujimori forseta, þingið setti hann af og hann var dæmdur og settur inni.

En samdaunarar spillingunni skilja kannski ekki svona einföld sannindi.

Hins vegar er ég þakklátur þegar þú benti mér á að ég hafði sleppt orðunum "langt um liðið" þegar ég var að var að fjalla um framda glæpi.  Það er svona tímahrakið þegar maður les ekki yfir sín eigin skrif.  En meiningin átti nú samt alltaf að skiljast.

Síðan er ég að vísa í Borgunarmálið, og ætti öllum að vera ljóst.

En þú afhjúpar hvað þú ert að verja þegar þú bendir á að Bjarni hafi hætt við stöðuleikaskattinn.

Það er kjarni málsins.

Og samdaunari getur maður ekki verið.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 14.2.2016 kl. 19:44

6 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Magnús.

Leikurinn er nú reyndar dálítið til þess gerður að fá viðbrögð.

Og smá ritrýni er ekki verri.

Til dæmis verð ég núna að setja inn PS leiðréttingu á ákveðið orðalag hjá mér, og jafnvel lesa pistilinn aftur, til að leiðrétta hann ef fleiri vitleysur hafa sloppið í gegn.

Þetta er ekki hugsað sem háalvarlegt blogg sem er til þess hugsað að einhver taki mark á rökum mínum og framsetningu, í þeirri merkingu að fólk skipti um einhverja skoðun eftir lestur pistlanna.

Meira svona að fólk máti sig við rökin og skoðanirnar, og jú reyndar, hugsunin er líka sú að láta eitthvað ákveðið þema síast inn.

En það þarf öflugri krafta til að hafa áhrif á þjóðfélagsumræðuna.

Og þar hafa vogunarsjóðirnir vinninginn, þeir keyptu upp svo marga í Andófinu.

Stundum beint, en aðallega óbeint.

Staðan er því miður 14-2 fyrir þá.

Og hálf mínúta eftir af leiknum.

Takk fyrir innlitið Magnús, gaman að heyra í þér.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 14.2.2016 kl. 23:16

7 Smámynd: Ómar Geirsson

Og einhvers staðar átti orðalagið að vera "samdaunarar spillingarinnar".   Og víðar má lagfæra hitt og þetta.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 14.2.2016 kl. 23:18

8 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

*Það er aldeis að tilltölulega stuttur og skýrt framsettur pistill geti valdið þér svona miklum flumbrugangi.

Hef ég grafið undan lyginni sem þú lifir í?

*Það liggur við að ég haldi að þú sért að taka námskeið í bréfaskóla í útúrsnúningum, svo mikið leggur þú á þig í þessu innslagi hér að ofan. 

Það eru útúrsnúningar í þér - eða viljandi misskilningur.  Ég var skýr.

*Hvert ertu að fara með þessu??

Ég tjáði mig á íslensku.

*Þorir þú ekki í efnislega rökræðu??

En þú?  Greinilega ekki.

*Var með í huga 2 fyrrverandi forseta Perú þegar ég setti fram byrjunina, því á einhverju verður maður að byrja, annars er svo helv. erfitt að halda áfram.

Þú hefðir átt að segja það.  Ég hef svo gaman af sögu.

*En hvernig þú getur lesið út úr þessu að ég tali gegn skoðun og/eða lærdómi á fortíðinni, er mér hulin ráðgáta.

Það sagði ég ekki, en ég stóðst ekki mátið þegar þú fórst sífellt að grafa í fortíðinni - sem er eiginlega þþað eina sem við höfum að byggja á.

Aftur: mér finnst mannkynssagan áhugaverð og oft skemmtileg.

*Ég er mjög hrifinn af fortíðinni, er sífellt með tilvitnanir í söguna, nær og fjær, í nærtíma og fjartíma, og er mjög hlyntur því að spilltir stjórnmálamenn séu látnir sæta ábyrgð. 

Sama hér.

*En fyrir fórnarlömbin, það er þjóðina, er mjög mikilvægt að stöðva þá í núinu, og um það er ég að fjalla í þessum pistli. 

Það gerir þú á of ljóðrænan nhátt fyrir minn smekk.  Þetta var eins og að lesa Hæku á stundum, og stundum eins og einhver álpappahattskenning.  Ég skildi nú eitthvað af því samt, og sagði við þig: "Kærðu.  Það er þinn réttur."

*Þetta gerðu til dæmis Perúmenn við Fujimori forseta, þingið setti hann af og hann var dæmdur og settur inni.

Munurinn er, að hér er allt sem gerist: A: löglegt, og verður aldrei gert ólöglegt vegna þess að allir eru viðriðnir (hlutir sem gerðust í fotríðinni) B: Spillingin gengur þvert á flokka, svo þeir geta ekki kært hvern annan.  Allir færu í djeilið.  (Sönnunargögnin eru geymd í 80 ár í amk 1 tilfelli.)

*En samdaunarar spillingunni skilja kannski ekki svona einföld sannindi.

Sjá atriði B hér að ofan.

*En þú afhjúpar hvað þú ert að verja þegar þú bendir á að Bjarni hafi hætt við stöðuleikaskattinn.

Ekki eru allir sem eru ósammála þér handbendi Bjarna Ben.  Ekki eru allir sem eru sammálaBjarna Ben handbendi hans.

Rökfræði, sko.

*Það er kjarni málsins.

Rökfræði, þú fellur í henni.

Kveðja úr Eyjum.

Ásgrímur Hartmannsson, 26.2.2016 kl. 20:23

9 Smámynd: Ómar Geirsson

Já Ásgrímur, það er sko rétt hjá þér, ég féll í rökræði þinni.  Mér líður eins og Kalla kanínu í þeirri ágætu mynd sem hann lék á móti Bob Hoskins. Gufa streymdi úr eyrunum á mér áðan og svei mér hvort ég heyrði ekki í flautið í gufulestinni.

En þú ert skarpur að átta þig á því að Samdaunn þarf ekki að vera handbendi handbendis.

Og þér er velkomið að segja mér það, sem og annað skarplegt sem þér dettur í hug.

Til þess er ég, meðal annars.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 27.2.2016 kl. 14:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 3
  • Sl. sólarhring: 12
  • Sl. viku: 997
  • Frá upphafi: 1321549

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 836
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband