Höfuðlausn Jóhönnu.

 

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra gerði upp 4 ára valdatíma sinn í áramótaávarpi sínu til þjóðarinnar.

 

"Hún sagði að árangur erfiðisins á síðustu fjórum árum megi meðal annars sjá í að gildi jöfnuðar, mannúðar og samfélagslegrar ábyrgðar vegi þyngra nú en áður. „Krafan um traust, heiðarlegt og siðað samfélag, þar sem meira fjárhagslegt jafnræði og félagslegt réttlæti ríkir hefur fengið aukinn þunga,“ sagði Jóhanna.

„Það er von mín og trú að við munum á næstu árum halda áfram að byggja hér upp samfélag samhjálpar og jöfnuðar, -samfélag þar sem allir hafa tækifæri en ekki bara sumir, -samfélag sem byggir upp þjónustu við þá sem minna mega sín.".

 

Það taka ekki allir undir þessa lýsingu Jóhönnu, það eru ekki allir eins þakklátir og hún.

 

Á Dv.is má lesa þetta í frétt frá 5. des síðastliðnum.

 

Hingað sækja ekkert færri en síðustu ár. Ástandið er ekkert betra en verið hefur. Það er frekar verra,“ segir Ragnhildur G. Guðmundsdóttir formaður Mæðrastyrksnefndar sem í gær afhenti fimm hundruð fjölskyldum og einstaklingum matargjafir......

Í fyrstu kom staða þeirra starfsfólki Símans ákaflega á óvart. Það átti hreint ekki von á að sjá svo mikla neyð hér á landi,“ segir Elísa G. Jónsdóttir, skrifstofustjóri hjá Símanum.

Ásgerður Jóna Flosadóttir, formaður Fjölskylduhjálpar Íslands tekur í sama streng. „Fólk hefur æ minna á milli handanna og ekkert eftir að hafa greitt húsaleiguna og fyrir lyfin sín. Ég finn fyrir mikilli uppgjöf meðal fólks. Það er orðið svo þreytt á þessu stöðuga peningaleysi. Margt eldra fólk sættir sig orðið við að borða hafragraut síðustu tíu daga mánaðarins.“.

 

Fyrirsögn fréttarinnar var, ástandið er  " Ástandið er ekkert betra en verið hefur. Það er frekar verra.". 

Og hún var tilefni fyrirsagnar í  leiðara blaðsins frá 21. des, " Biðröð eftir brauði."

 

"Mikil og vaxandi fátækt er á Íslandi. Þetta fullyrðir fólk sem stundar sjálfboðastarf við að hjálpa þeim sem ekki eiga til hnífs og skeiðar. Aldrei hafa fleiri leitað aðstoðar en í ár. Það eru þung spor fyrir fólk að biðja um matargjöf til að bjarga sér og sínum um lífsviðurværi. Fjöldi fólks sem alla sína ævi hefur verið harðduglegt og séð vel fyrir sér og sínum er skyndilega komið í þá stöðu að lifa á bónbjörgum. Íslenskt samfélag hlýtur að beina sjónum sínum að fátæktarvandanum og leita skýringa. Það er ekkert mikilvægara í samfélaginu en að gefa sem flestum tækifæri til þess að lifa með reisn. Í því felst að einstaklingar þurfi ekki að leita eftir ölmusum.

Formaður Mæðrastyrksnefndar hefur bent á ábyrgð stjórnvalda á því hvernig fátækum hefur fjölgað á undanförnum árum. Þúsundir leita hjálpar sjálfboðaliða vegna þess að samfélagið bregst þeim. Og það hefur verið upplýst að opinberir aðilar vísa fólki í nauð á biðraðirnar eftir brauðinu. Það er auðvitað dapurlegt að ríkisstjórn sem kennir sig við jöfnuð og velferð skuli ekki hafa náð að stjórna málum betur en raun ber vitni. Eftir fjögurra ára valdatíð eru æpandi vísbendingar um fjölgun í hópi bláfátækra. Jafnframt er ljóst að stór hópur fólks lifir í vellystingum á himinháum launum. Himinn og haf skilur að fátæka og ríka. Gjáin á milli fátækra og sjálfbjarga breikkar stöðugt.

.... Það er á ábyrgð stjórnvalda að stöðugt fleiri verða ósjálfbjarga og festast í fátæktargildru. Vandinn stækkar því lengur sem hann er látinn óhreyfður. Og leiðin til baka verður sífellt erfiðari.".

 

Það er himinn og haf milli þessar orða ritstjóra Dagblaðsins og þess sóma sem Jóhanna Sigurðardóttir upplifir vegna árangur ríkisstjórnar sinnar síðustu  4 árin.

Stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar afneita þessum raunveruleika.  Þeir leita í smiðju félagshyggjuprófessorsins Stefáns Ólafssonar sem hefur reiknað það út að jöfnuður hefur aukist hér á landi síðustu 4 ár.  Vitnað er í einhvern Gin stuðul sem á að staðfesta það.

 

Málið er að fólk lifir ekki á tölfræðinni, fólk lifir á mat.

Og það er mjög einföld skýring á því að fólk líður skort á Íslandi í dag.  Hún er mjög vel orðuð í grein í vefriti Öryrkjabandalagsins, sem er skrifuð sama dag og DV skrifaði sinn leiðara um Biðröðina eftir brauði.

Greinin heitir  "Að dæma fólk í örbirgð"og er eftir þau Guðmund Magnússon formann ÖBÍ og Sigríði Hönnu Ingólfsdóttir, félagsráðgjafa ÖBÍ.  Gefum þeim orðið.

 

Mjög erfitt, ef ekki ómögulegt, er fyrir lífeyrisþega og annað lágtekjufólk að láta enda ná saman. Á þetta einkanlega við um þá sem hafa engar eða litlar aðrar tekjur en greiðslur úr almannatryggingakerfinu og félagslega aðstoð. Tekjuskerðingar eru mjög miklar og þá sérstaklega hjá tekjulægsta hópnum. Við þeirri spurningu hvernig fólk á að geta framfleytt sér á ráðstöfunartekjum á bilinu 156-173 þúsundum króna á mánuði fást engin svör. Þá eru ónefndir þeir sem vegna búsetu erlendis fá enn lægri greiðslur. Mikilvægt er að hafa það í huga að örorkugreiðslur eru yfirleitt framfærsla til lengri tíma fyrir fólk sem oft á tíðum ber mikinn kostnað vegna fötlunar sinnar og veikinda. Almennt er talið að öryrkjar þurfi 15-30% hærri tekjur en aðrir til að njóta sömu lífskjara, þar sem heilbrigðiskostnaður er meiri hjá þeim og einnig kostnaður vegna kaupa á margvíslegri þjónustu.

Við samanburð á hækkun bóta almannatrygginga og vísitölu neysluverðs frá 1. janúar 2008 til dagsins í dag sést að vísitala neysluverðs hefur hækkað um 42,5% á tímabilinu á meðan bætur almannatrygginga hækkuðu einungis um 27,5%. Hækkun bóta á tímabilinu heldur því engan veginn í við verðlagsþróun.

Mikilvægt er að almannatryggingakerfið geri fólki kleift að lifa með reisn en sé ekki dæmt í ævilanga örbirgð. Brýnt er að draga úr tekjutengingum og hækka frítekjumörk og tekjuviðmið til að koma í veg fyrir að fólk festist í fátæktargildru. Miklar tekjutengingar draga úr sjálfsbjargarviðleitni fólks til að lifa sjálfstæðu lífi, stunda atvinnu, byggja upp varasjóð og stofna fjölskyldu. ÖBÍ hefur margsinnis skorað á stjórnvöld að virða rétt allra til mannsæmandi lífeyris og hverfa frá þeim innbyggðu fátæktargildrum sem eru í núverandi kerfi. Þá er krafa bandalagsins að stjórnvöld dragi til baka þær skerðingar sem gerðar voru á kjörum öryrkja í kjölfar efnahagshrunsins.

 

Sá sem rétt skrimti fyrir Hrun, skrimtir ekki eftir Hrun, svo einfalt er það.

Fólk er svangt á Íslandi í dag.

 

Fjölmiðlar auðmanna og Ríkisútvarpið hafa ekki fjallað um þennan raunveruleik nema þá helst í ýktri skrípamynd og dæmi valin þar sem því er lætt af almenningi að hin bágu kjör séu ekki raunveruleg, að þau séu ýkt, eða þá einhver skringileg heit séu skýring þeirra.  

En samt sleppa í gegn frásagnir sem ekki er hægt að þagga niður eða afskræma.  

Í sumar fór um netheima bréf sem dóttir öryrkja birti á Pressunni og var lýsing á nöturlegri ævi konu sem hafði skilað sínu en missti heilsu á miðjum aldri. "Ákall frá áhyggjufullri dóttur konu á sjötugsaldri: Þarf þetta að vera svona niðurlægjandi líf? ".

Ég ætla að birta linkinn á þetta bréf í athugasemdum en það hefst á þessum orðum.

 

Í dag hringdi móðir mín í mig, reyndi að vera hress og spyrja mig hvað væri að frétta af mér og börnum mínum. Ég fann strax að aðdragandi símtalsins var annars eðlis, móðir mín var með kökkinn í hálsinum, búin að reyna að hringja í systkini mín og betla, ég var endastöð. En um 15. hvers mánaðar á móðir mín ekki fyrir mat. Hver er þessi kona?.

 

Hver er þessi kona???  Svarið er að hún er ein af þeim sem má ekki nefna, sem má ekki tala um.

Hún er fátæk, hún er svöng.

Og hún er ekki ein.

 

Þeir sem verja ógæfustjórnina, þeir sem finna til þakklætis með Jóhönnu Sigurðardóttur þegar hún gerir upp stjórnarár sín, þeir segja að það séu ekki margir í þessari stöðu, og það hafi orðið Hrun.

Þeir gæta ekki að að ef það er rétt að fjöldinn sé ekki eins mikill og af er látið, líkt og kemur fram í leiðara DV, þá er smánin, svívirðan að gera ekki neitt, ennþá meiri.  

Því það eru til peningar á Íslandi í dag, miklir peningar. Seðlabankinn er með risa gjaldeyrisvarasjóð að láni hjá AGS og vextir uppá tugi milljarða hafa verið greiddir úr ríkissjóð vegna hans.  Eins eru tugir milljarða greiddir árlega í vexti af jöklabréfunum svokölluðu, hlutfallslega miklu hærri en önnur vestræn lönd greiða af sambærilegum bréfum.

Aðeins örlítið brot af öllu þessu fóðri handa fjármagninu þyrfti til að aldraðir og öryrkjar sem lifa á bótum einum saman, hefðu í sig og á.  Sérstaklega ef þeir eru svona fáir eins og af er látið.

 

Þetta er aðeins hin klassíska spurning um lifandi fólk versus dautt fjármagn, hvort kemur undan í forgangsröðinni.

 

Það sama gildir að afsaka sig með því að hér hafi orðið Hrun, því það var ekki matvælaframleiðslan sem hrundi, útflutningsatvinnuvegirnir hrundu ekki, það var fjármálakerfi pappírsviðskiptanna, og fólk borðar ekki pappír, heldur mat.

Það afsakar ekkert matarskortinn annað en skeytingarleysi gagnvart þeim sem hafa ekki efni á mat út mánuðinn.  Og hvað sem verður sagt um það skeytingarleysi, að þá er ekki hægt að nota þessi orð til að lýsa því.

....halda áfram að byggja hér upp samfélag samhjálpar og jöfnuðar, -samfélag þar sem allir hafa tækifæri en ekki bara sumir, -samfélag sem byggir upp þjónustu við þá sem minna mega sín.

 

Höfuðlausn Jóhönnu er því argasta háð um þann raunveruleika sem blasir við fátæku fólki á Íslandi í dag.

Háð sem einna helst má finna í skrifum frjálshyggjumanna 19. aldar sem réttlættu eymd iðnaðarborganna með  tilvísun í einhverja ósýnilega hönd.

 

Höfuðlausn Jóhönnu Sigurðardóttur er gjaldþrot hinnar íslensku félagshyggju, þegar á reyndi var hún aðeins innantómt slagorð, án innihalds, án nokkurs skilnings á hvað felst í orðunum samhjálp eða jöfnuður.

Hún afhjúpar grímulausa valdagræðgi og algjöra þjónkun við fjármagn og fjármagnseigendur.

Samhjálpin er velferð auðs.

 

Um hana má aðeins segja eitt, sjaldan hafa eins mörg orð verið notuð til að afhjúpa það sem ekkert er.

Og það ekkert er er hugsjónir íslenskra jafnaðarmanna.

Sem á reyndi var aðeins ein.

 

Völd.

Kveðja að austan.

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Takk Ómar, gleðilegt ár til þín og haltu áfram að segja sannleika um auminjaskap núverandi ríkisstjórnar gegn frjármálaöflunum þar sem hún mokar fjármagni inn í þann geira og viðheldur bankarisanum sem fytnar á bitanum sem aldrei fyrr! Undirstaðan er veitk á þeirra kostnað og ekkert getur nú úr því sem komið er komið í veg fyrir annað og mun alvarlegra hrun en hrunið 2008.

Sigurður Haraldsson, 2.1.2013 kl. 18:29

2 Smámynd: Guðni Karl Harðarson

Sæll Ómar, gleðilegt ár og þakka fyrir það gamla Flott og raunsönn þessi grein þín!

Úr bloggfærslu minni á Nýársdag:
"Eitt af því sem stjórnvöld þurfa að gera er að viðurkenna að vandinn sé fyrir hendi. Að sýna vilja til þess að vinna með fólki að því að leysa málin. Í stað þess að tala allt upp og lofgera sín eigin verk sem kannski eru ekki byggð á raunveruleikanum. Enda vitum við að orð standa gegn orði. Þetta endalausa hjal þeirrar ríkistjórnar sem ræður, um að allt sé svo gott og fínt, því þau hafi verið svo dugleg við að leysa málin. Sama hvort það sé rétt eða ekki. Sama þá hverjir eru við stjórn. Raunveruleikinn er jú sá sem við finnum fyrir en ekki sá sem okkur er sagður að sé.

Sjálfur veit ég hvað er rétt í þessu enda kynnst af eigin raun hversu erfitt er að lifa af með þeim tekjum sem skaffaðar eru. Og á meðan hækka bara vörunar ótt og títt.  Sjálfur er ég tildæmis atvinnulaus og það er svo himin-langt frá því að endar nái saman! Og áhyggjunar fara í skrokkinn eins og með vöðvabólgu og magaverkjum tildæmis.


Það þarf svo sannarlega að taka til hendinni í þessum málum!
Síðan þarf að búa til aðrar aðstæður þannig að koma í veg fyrir að svona ræður endurtaki sig. Allt þetta upptal þeirra sem ráða án þess að kanna fyrir alvöru hvað sé satt og rétt í þessum málum!

Ég held nú samt að skynsamt fólk átti sig á raunveruleikanum og sé hætt að trúa þessu kjaftæði......

Guðni Karl Harðarson, 2.1.2013 kl. 18:36

4 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Frábær grein hjá þér Ómar, ég hugsaði það sama þegar ég var að hlusta á lofrullu forsætisráðherrans, og var að spá í hvaða plánetu hún kæmi frá, því ekki er hún úti á meðal íslensk almennings.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 2.1.2013 kl. 20:09

5 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk Sigurður, gleðilegt ár.

Ætli maður haldi þessi ekki eitthvað áfram, ég var á leiðinni í stríð núna eftir áramótin.  En við skyndilegt fráfall Lilju úr pólitíkinni þá ákvað ég að skipta um kúrs.  Fara svona meir inná astralsviðið eins og ég gerði í páskapistlum mínum, og nokkrum pistlum eftir það.  

Nenni ekki mikið að stríða þegar óvissa er um að það sem í boði er sé nokkuð betra en við höfum.  

Ætla svona meira að hugsa það sem ég segi, áður en ég segi það.  

En stríðsmaðurinn verður aldrei langt undan Sigurður og hann mun mæta reglulega þegar eitthvað fútt er í gangi.

Því það er jú verið að berjast um framtíð þjóðarinnar.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 2.1.2013 kl. 20:43

6 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk Guðni og gleðilegt ár.

Jú ég er mikið sammála færslu þinni.  En ég efast um að fólk sé hætt að trúa þessu bulli, þá á ég við stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar.  Hún er ennþá með um þriðjungs fylgi þrátt fyrir sína hörðu frjálshyggju og fjármagnsdekur.  

Síðan flýja margir úr þessu bulli í ennþá meira bull, alla leið yfir í Bjarta Framtíð.

Eða það sem er ennþá verra, yfir í ekki neitt eins og þau Bjarni og Hanna Birna standa fyrir.

Við megum ekki gleyma því að eftirspurnin stjórnar framboðinu og það er fátt annað í spákúlunni annað en alræði vogunarsjóðanna.

Það er að  við förum úr öskunni beina leið til helvítis.

Ef vonin lifði ekki í grænum dal fjarri alfaraleið, þá væri lítt eftir til að berjast fyrir, annað en það að frjáls maður ver frelsi sitt, jafnvel þó sú barátta sé vonlaus.

Þess vegna berst maður Guðni, því maður á ekkert val.

En það væri skemmtilegra að hafa valkost.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 2.1.2013 kl. 20:55

7 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk Ásthildur.

Er hún ekki frá Venus??

En það alvarlegast er að í hinni opinberu umræðu er látið eins og hún sé jarðtengd, að hún hafi sagt eitthvað sem á sér stoð í raunveruleikanum.

En ég fæ alltaf sterkara á tilfinninguna að ég sé að upplifa annað ár, annað land, og aðra konu, og það er ekki bara hárgreiðslan sem er sláandi, líka firringin.

En Elena átti sér afsökun, hún hafði aldrei verið neitt annað ein illgjörn smásál.  En Jóhann erfði draum ömmu sinnar um betra líf alþýðu landsins til handa.

Samt seldi hún þjóð sína í hendur amerískra vogunarsjóða og telur slíkt vera uppbyggingu á þjóðfélagi samhjálpar og jafnaðar.

Það er eiginlega ekki hægt að fyrirgefa slík svik, Jóhann veit betur en að trúa þessum orðum sínum.

Hún á sér fáar málsbætur,.

Kveðja að austan. 

Ómar Geirsson, 2.1.2013 kl. 21:09

8 identicon

Samhjálp og jöfnuður hmmm, þíðir það að allur almenningur eigi að vera jafn fátækur og hjálpi þeim efnameiri sem héldu öllu sínu nema skuldunum á meðan almenningur heldur engu nema skuldunum?

Gleðilegt nýtt ár Ómar minn.

Alexander Smári Gjöveraa (IP-tala skráð) 2.1.2013 kl. 22:01

9 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Eða frá Mars heldur líklegra, venus er mjúk, Mars er hörð.  Sammála hún á sér engar málsbætur.  Og allt þetta stríð sem hefur verið í kring um hana allan stjórnarferilinn er reyndar mest henni sjálfri að kenna, því hún hefur aldrei skilið að það þarf að ræða um hlutina og komast að sameiginlegri niðurstöðu.  Frekja og yfirgangur eru hennar ær og kýr.  Það sýnd atkvæðagreiðslan um bleyjurnar á þingi núna fyrir jólin.  Þar sem hún braut allt siðferði og heiðarleika, hvað þá jafnrétti. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 3.1.2013 kl. 00:06

10 Smámynd: Ómar Geirsson

Gleðilegt nýtt ár Smári.

Það er margt skrýtið í kýrhausnum.

"... og hjálpi þeim efnameiri sem héldu öllu sínu nema skuldunum á meðan almenningur heldur engu nema skuldunum".

Stefna Eurokratans í hnotskurn.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 3.1.2013 kl. 11:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (30.4.): 15
  • Sl. sólarhring: 929
  • Sl. viku: 4095
  • Frá upphafi: 1325546

Annað

  • Innlit í dag: 11
  • Innlit sl. viku: 3608
  • Gestir í dag: 11
  • IP-tölur í dag: 11

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband