Hægriöfgar og frelsi.

 

Það er aðeins ein ástæða fyrir því að Sigríður Á Andersen er dómsmálaráðherra, og það er vegna þess að forsætisráðherra áleit hæfasta einstaklinginn vera ógn við framtíðarsetu sína í formannsstól.  Sbr. hina fornu ráðleggingu harðstjórans í Sýrakúsa að höggva þau akörn á kornakrinum sem stóðu uppúr.

Hvort það sé skýring þess að Sigríður vilji gera sig gildandi í embætti, vitandi það að hún er ekki álitin nein ógn, skal ósagt látið.

Nærtækara er að skoða ástarsamband hægriöfga og frelsis.

 

Þegar nýfrjálshyggjan kom fyrst fram á sjónarsviðið í upphafi áttunda áratugarins, þá var henni tíðrætt um frelsi, í velferðarsamfélögum Vesturlanda, þar sem almenningur naut frelsis sem áður var óþekkt í mannkynssögunni.

En það upplifðu sig ekki allir frjálsa, auðmenn töldu það mikla frelsisskerðingu að greiða skatta og þurfa að undirgangast lög og reglur eins og annað fólk.

Liðinn var sá gósentími  þegar þeir voru skattfrjálsir, voru ríki í ríkinu og gátu umgengist almúgann eins og þeim sýndist, og þá oftast eins og um skepnur væru.

 

Frelsiskrafa auðmanna var kjörorð nýfrjálshyggjunnar, og fjármagn þeirra og keyptir stjórnmálamenn tryggðu henni öll völd.

Með tilheyrandi skattafríðindum, skattasmugum aflandseyjanna, sem og öll hin risastóru gráu svæði viðskiptanna.

Kannski ekki alveg eins og í gamla daga, enda breyttir tímar þar sem vissa mannlega ásýnd þurfti að sýna til að fá endurkjör. 

 

En fyrir suma er það ekki nóg.

Frelsið skal vera algjört, og lög og reglu skal brjóta að geðþótta.

Við sjáum dæmin í Bandaríkjunum í dag, þar er mikil yfirtíð hjá dómsstólum við að halda í skefjum geðþótta hægriöfganna sem fara með völdin í Washington þessa dagana.

Og svipuð tíð virðist vera í vændum á Íslandi í dag.

 

Mitt er valdið er sagt.

Mitt er valdið.

Ég þarf ekkert að virða.

 

Og þegar meirihlutinn er aðeins eitt þingsæti, þá geta öfgarnir, þó ekki séu þeir taldir í fleirtölu, farið sínu fram.

Því ekki fórna menn kjötkötlunum fyrir fagleg og rétt vinnubrögð?

 

Er það nokkuð.

Kveðja að austan.


mbl.is 15 hæfir í 15 embætti „ótrúleg tilviljun“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Costco æðið sannar eitt.

 

Að blýmengun í umferðinni á höfuðborgarsvæðinu er mun alvarlegri en áður var talið.

Og hún leggst á heilafrumur á fólki, og snarfækkar þeim.

Annað getur ekki útskýrt Costco æðið.

 

Hvernig heldur fólk að heimurinn væri að allt hið smáa, einstaklingurinn og rekstur hans, sé drepinn af risakeðjum sem veita enga þjónustu?

Risakeðjur sem æpa á risaverksmiðjur sem lágmarka allan tilkostnað.

 

Lifum við á því að vera skynlausir neytendur??

Fáum við borgað kaup við að vera neytendur??

Eða þurfum við fyrirtæki sem borga okkur laun??

 

Og hvaða líf er það að það sé bara eitt fyrirtæki, ein bensíndæla, eitt apótek??

Að allt sé rekið í stórum einingum án nokkurrar þjónustu.

Og að það sé næstum óendanlega langt á milli þessara stóru eininga, og aðeins auðnin ein þar á milli.

Og ekkert í hinum dreifðu byggðum landsins.

 

Við ættum aðeins að íhuga þessa framtíðarsýn.

Í samfélagi Homo sapiens, hins vitiborna manns, er hún aðeins hryllingsmynd sem sýnd er seint á kvöldin, á eftir myndinni með uppvakningunum

Í samfélagi mannapa þekktist hún ekki, því mannapar ráða ekki yfir tæknikunnáttu til að gera hryllingsmyndir.

En í samfélagi þar sem blýmengun hefur lagst á heilafrumur, líkt og gerðist í Róm forðum daga og útskýrir allt svallið, bæði kyn og drykkju, er þessi sýn útópía sem allir láta sig dreyma um.

 

Stanslaust níð gagnvart fyrirtækjum okkar, þeim sem borga allavega náunga okkar launin, og Þórðargleði mikil þegar menn bera saman verð án nokkurrar þjónustu, og verð þar sem hún er til staðar.

Kaupum í Costko, setjum hin helvítin á hausinn.  Djöfull er það gott að þessi missti vinnuna eða þessi þurfti að sæta stórlegri kjaraskerðingu til að halda henni.

Og djöfull er gott að þurfa ekki lengur að hafa áhyggjur af frítíma sínum, núna getur maður eytt helgum í að ferðast til Costco, og standa í biðröð í Costko, og njóta alls þess ódýra sem maður keypti í Costkó, borðað meira og borðað ennþá meira.  Og svo verður jafnvel frí alla vikuna þegar enga vinnu er að fá.  Þá fær maður bara borgaralaun og verslar ennþá meira.

Meira, meira, meira.

 

Já, Mengunarvarnir ríkisins hafa verið ræsta út af minna tilefni.

En verða ekki því það þarf víst skatttekjur til að halda þeim úti.

Og forsenda skatttekna er víst innlend fyrirtæki og innlend framleiðsla.

Svo geta menn líka hætt að rífast um hið opinbera heilbrigðiskerfi, hvað þá að skammast í menntakerfinu.

 

Því það er eins og enginn geri sér grein fyrir hvernig ástandið er í draumalandi Wall Mart og Costco, þar sem allt er svo ódýrt.

Raunlaun verkafólks hafa ekki hækkað frá því á áttundaáratug síðustu aldar.

Um 20% af vinnandi fólki þarf mataraðstoð.

Venjulegt fólk hefur ekki efni á að senda börnin sín í framhaldsnám, þau verða alfarið að treysta á styrkjarkerfið.

Og heilbrigðisþjónustan er þannig að lýðheilsa fátækustu 20% er eins og hjá þokkalega stæðu þriðjaheims ríki.

Og svo má lengi telja.

 

Því leitnin að hinu lægsta, er leitnin að algjörri örbirgð.

Lága verðið í Costco er eins og að hundur tæki uppá því að elta skottið á sér til að afla sér auðveldar matar þann daginn.

En það hefur bara ekki ennþá frést af slíkum hundi.

En við höfum Costco.

 

Svo segja menn að blý sé ekki skaðlegt.

Kveðja að austan.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


mbl.is Telur Costco leggja 15 kr. á lítrann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig er hægt að keyra niður vöruverð?

 

Án þess að keyra niður laun?

Hvað gerir birgi sem stendur frammi fyrir sífelldri kröfu um lægra verð??

Endar hann ekki með framleiðslu sína í lokaðri skemmu í Bangladesh án nokkurra eldvarna, án nokkurra öryggistækja?

 

Ódýrt verð roðað blóði nútíma þræla er dýrt verð.

Því undir er sjálfur siðurinn.

 

Mennskan og mannúðin.

Lífið sjálft.

 

Við sjálf, því ómennskan finnur alltaf skottið á eiganda sínum.

Kveðja að austan.


mbl.is Costco-samstaða um laun?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 30. maí 2017

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.4.): 269
  • Sl. sólarhring: 1126
  • Sl. viku: 2282
  • Frá upphafi: 1323082

Annað

  • Innlit í dag: 252
  • Innlit sl. viku: 1955
  • Gestir í dag: 250
  • IP-tölur í dag: 246

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband