31.12.2009 | 00:59
Eigi skal slíta sundur friðinn.
Mælti Þorgeir Ljósvetningagoði næstum því. Orðrétt sagði hann:
"En nú þykir mér það ráð, að vér látim og eigi þá ráða, er mest vilja í gegn gangast, og miðlum svo mál á milli þeirra, að hvorirtveggju hafi nokkuð síns máls, og höfum allir ein lög og einn sið. Það mun verða satt, er vér slítum í sundur lögin, að vér munum slíta og friðinn."
Þessi orð voru mælt árið 1000 eða svo segja annálar. Núna í dag, eftir eitt þúsund og níu ár, þá lýsa þau best því ástandi sem við blasir í dag.
Þjóðin er klofin í herðar niður, og héðan af geta aðeins vitrir menn grætt þann klofning ef þjóðin á aftur að vera ein. Ein þjóð sem býr áfram í landinu í friði og spekt.
Og til að sameina þjóðina á ný þá þurfa margir aðilar í samfélaginu að leita í visku Þorgeirs Ljósvetningagoða til að slíkt takist.
Það sjá það allir hugsandi menn að 33 þingmenn geta ekki samþykkt ríkisábyrgð upp á 650 milljarða auk vaxta í andstöðu við mikinn meirihluta þjóðarinnar. Og í andstöðu við stjórnarskrá íslenska lýðveldisins.
Slíkt klýfur þjóðina í herðar niður. Jafnvel þó hinn meinti ávinningur, sem hvergi er útreiknaður og byggist aðeins á huglægu mati, sé meiri en sá kostnaður sem fellur á íslensku þjóðina vegna ICEsave ríkisábyrgðarinnar, kostnaður sem er þekktur, þá er hinn óbeini kostnaður af ICEsave ríkisábyrgðinni ekki metinn til fjár, því hann er sjálf eining þjóðarinnar.
Klofin þjóð tekst ekki á við þann vanda sem við blasir í efnahagsmálum hennar, hvað þá við þann mikla félagslega vanda sem verður bein afleiðing þess að ekki var slegin skjaldborg um heimilin en örlög þeirra og framtíð var afhent amerískum vogunarsjóðum til brasks.
Klofin þjóð leysir engan vanda, klofningurinn magnar upp vanda, gerir það sem gæti hugsanlega verið viðráðanlegt, að ófærri forareðju.
Þetta ætti öllum hugsandi mönnum að vera ljóst, en það þarf málsmetandi menn til að orða þessar hugsanir mínar á þann hátt að þjóðin skynjar að framtíð hennar öskrar á sátt í ICEsave deilunni.
Því öllum er ljóst að ICEsave þarf að leysa.
Ég hef fært rök fyrir því að það sé engin lausn sem Alþingi samþykkti 2. sept síðastliðinn. Vissulega var unnin metnaðarfull vinna og vissulega voru þeir fyrirvarar sem Alþingi setti bjarghringur fyrir þjóðina ef illa færi.
En á því frumvarpi var einn stór galli. Það var ólöglegt.
Og lög þarf að virða.
Annað er ávísun á barbarisma og lögleysu.
Evrópsk lög kveða ekki á um ríkisábyrgð á innlánum, íslensk lög gera það ekki heldur. Og stjórnarskrá Íslands bannar svona eftirá ríkisábyrgð. Hún þurfti að liggja fyrir í upphafi til að standast stjórnarskrá.
En mesta lögleysan var að deiluaðilar vitna í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, án þess að fara eftir þeim samning. Sá samningur, eins og aðrir milliríkjasamningar, gerir ráð fyrir ágreining eins og þeim sem upp kom á milli íslenskra stjórnvalda annars vegar og breskra og hollenskra stjórnvalda hins vegar.
Og þann ágreining á að leysa á lögformlegan hátt eftir þeim réttarfarsleiðum sem EES samningurinn kveður á um. Fyrst þarf úttekt ESA, Eftirlitsstofnunar EFTA og síðan dóm EFTA dómsstólsins ef deiluaðilar sættast ekki á úrskurð ESA.
Allar aðrar leiðir eru skrílsleiðir, kenndar við þjóðfélög án siðmenningar og réttarfars.
Og verði þessi leið ekki farinn, þá verður aldrei sátt í íslensku þjóðfélagi.
Báðir aðilar geta haft sitthvað til síns máls, annars væru þeir ekki að deila. En það eru mörg hundruð ár síðan að siðmenningin fann upp á leið réttarríkisins til að leysa slík deilumál.
Þessa leið eiga íslensk stjórnvöld að fara.
Það á að leggja ICEsave frumvarpið í salt. Forsetinn á hvorki að synja því eða hafna. Það á aldrei að reyna á vald hans. Manndómur þjóðarinnar á að sjá til þess.
Núna á vitiborið fólk að taka höndum saman og setja málið í þann farveg sem það átti strax upphaflega að fara í. Og það eru ekki rök í málinu að deilendur okkar kjósi ekki að fara eftir ákvæðum EES samningsins. EES samningnum er framfylgt óháð vilja Breta og Hollendinga. Að því gefnu að þessar þjóðir sendi ekki her til landsins til að taka yfir stjórn þess, þá kemur þeirra vilji þessu máli ekki við.
Í gildi eru alþjóðalög, sem banna ofríki og kúgun. Og þessar þjóðir eru aðilar að EES samningnum i gegnum Evrópubandalagið.
Ég hef ekki hugmynd um hvernig dómur ESA og EFTA dómsstólsins verður, ekki frekar en aðrir sem setja mál sitt fyrir dóm. En þeim dómi verður að hlíta.
Falli hann gegn íslensku þjóðinni, þá má íhuga skaðbótamál á hendur ESB fyrir óskýra löggjöf, en það er samt aukaatriði málsins, eftir dómnum verður að fara.
En þá verður samið eftir ákvæðum alþjóðlaga, og fullt tillit tekið til greiðslugetu íslenska þjóðarbúsins, eða eins og svo margoft hefur verið bent á, farið eftir Brussel viðmiðunum svokölluðum.
Og út frá þeim fengin viðunandi lausn, sem allir málsaðilar eru sáttir við.
Því slíkt er eðli siðmenningarinnar.
En það þarf vélbyssur til að tryggja samning sem annar aðilinn er ósáttur við.
Og það væri mikil ógæfa fyrir íslenskt þjóðfélag að vegna skorts á manndóm málsmetandi manna, þá þurfi vélbyssur til að halda þessari þjóð saman.
"Það mun verða satt, er vér slítum í sundur lögin, að vér munum slíta og friðinn."
Kjarni málsins verður ekki orðaður á skýrari hátt.
Og þó eðli okkar standi til deilna, þá eigum við allflest börn og barnabörn. Það er skelfileg tilhugsun að ala þau upp í þjóðfélagi haturs og sundurlyndis.
Í þessu samhengi skiptir engu máli hvort ICEsave hefði verið hafnað. Þjóðin hefði verið jafnklofin fyrir því.
Og klofin smáþjóð á enga framtíð fyrir sér.
Og það er tími til kominn að fólk skilji það.
Kveðja að austan.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 28.3.2011 kl. 15:06 | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 279
- Sl. sólarhring: 828
- Sl. viku: 6010
- Frá upphafi: 1399178
Annað
- Innlit í dag: 237
- Innlit sl. viku: 5092
- Gestir í dag: 227
- IP-tölur í dag: 224
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Því skyldi halda til hafa að sami maður lagði til að leyfa skuli blót á laun, útburð barna og hrossakjötsát. Þannig náðist sátt í landinum ,,um ein lög og einn sið". Sem sagt segjum eitt en gerum annað er mottóið og þykir mér lítil reisn yfir slíkum ráðum. Í anda Þorgeirs Ljósvetningagoða er ríkisábyrgð á Icesavesamningum samþykktur. Ríkistjórn Íslands ætlar sér ekki að standa við hann enda sér það hvert heilvita barn að við þann samning getur þjóðin ekki staðið. Og þá er það spurningin um siðferðið: Er það rétt að skrifa undir samninga sem maður hvorki getur né vill ekki standa við? Er nokkur munur á þeim kónum sem komu þjóðinni á hausinn með marklausum undirskriftum skuldbindinga og þeim þingmönnum sem sögðu já við ríkisábyrgð?
Katrín, 31.12.2009 kl. 09:47
Blessuð Katrín.
Hafir þú lesið pistil minn, þá hefur þú ekki meðtekið orð af því sem ég var að segja.
Reyndu aftur.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 31.12.2009 kl. 09:58
Hef lesið hann og meðtekið boðskapinn...innlegg mitt er til að sýna fram á að Þorgeir Ljósvetningagoði er ofmetinn snillingur...greining þín er hins vegar góð:)
Katrín, 31.12.2009 kl. 10:01
Blessuð Katrín.
Það er ekki til meiri snilld en sú að koma í veg fyrir borgarastyrjöld. Og koma á nýjum snið.
Aðeins ein snilld er meiri og það er sú að fá fólk til að skilja tilgang friðar.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 31.12.2009 kl. 11:27
Ljóst er að við lítum Ljósvetningagoða sömu augum. Það sem sumir menn kalla snilld kalla aðrir kænsku. Karlinn sýndi kænsku þarna ekki nokkur spurning. Hins vegar lagði hann einnig grunninn að því tvöfalda siðgæði sem hér hefur ríkt alla tíð síðan. Vilhjálmur Bjarna lýsti því ágætlega með þeim orðum að Íslendingar hefðu ekkert á mót spillingu svo lengi sem þeir fengju að spila með. Annars eigum við ekkert að karpa þetta um löngu dauðann kall, elskum friðinn og strjúkum kviðinn kvað skáldið. Gleðileg ár austur á land!
Katrín, 31.12.2009 kl. 13:08
..ekki sömu augum....atviksorðin eru mikilvæg
Katrín, 31.12.2009 kl. 13:09
Sæll Ómar
Þjóðin er þverklofin. Ástæðan? Samfylking vill ESB, hvað sem það kostar. VG vill sitja í stjórn næstum því hvað sem það kostar. Að vísu eru þessar fullyrðingar mínar ansi miklar alhæfingar en einhver sannleikur felst þó í þeim.
Ég er mjög sáttur við greiningu þína á vandanum. Takk fyrir þitt innlegg
Jörundur Þórðarson (IP-tala skráð) 31.12.2009 kl. 13:11
Hjartanlega sammála þér Ómar. Hef lesið pistla þína undanfarna daga og fundist þú mæla af festu og miklum drengskap. Þjóðin þarf að fylkja sér saman og blessunarlega er þetta sama þjóðin og fyrr.
En vandamálið er að trúðleikur sá sem við höfum orðið vitni að á þingi hefur, ásamt fleiru, sundrað henni. Fylkingar hafa myndast, uppraðaðar eftir 4-flokka skítkast-pólitík. Mjög stór hluti þjóðarinnar, sá stóri hluti hennar sem er ekki múlbundinn með flokks-skírteinum, finnst hann hafa vera svikinn, smánaður og spottaður í þeim skrípaleik sem við höfum horft upp á.
Þess vegna horfa kallar eins og við Ómar til manns eins og Þorgeirs Ljósvetningagoða, þess vitra manns, í von um að íslenskir stjórnmálamenn hætti að stunda skítkast-keppni, eða migukeppni, heldur einbeiti sér að því einu að leita leiða til að finna sameiginlega sáttargjörð fyrir hönd lands og þjóðar, að sameina en ekki sundra þjóðinni. Finni þeir þær leiðir og vinni eftir þeim, þá mun þjóðin fylkja sér tvíefldari en fyrr. En...þeirra leiða hafa íslenskir atvinnu-pólitíkusar, því miður, ekki enn borið gæfu til að leita. Því óttast ég um friðinn eins og þú Ómar.
Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 31.12.2009 kl. 13:39
Takk fyrir innlitið kæra fólk.
Á átta mínútur í afmælisfagnaðinn minn, en fyrstu gestir mættir. Því get ég ekki svarað eins og ég vildi.
En mig þykir vænt um að fólk skuli lesa svona orð og íhuga á tímum þegar eðlilegasta tilfinningin er reiði og beiskja yfir svikum og refsskap.
En einmitt þá verðum við að skilja að lengra verður ekki komist á þeirri braut. En það þýðir ekki sama að við leggjum niður vopn, við hlustum á vitur sáttarorð, eins og gert var forðum daga. En það þarf tvo í tangó og ICEsave stjórnin vann í mesta lagi Pyrrhosar sigur, ekki alvörusigur.
Og Katrín, ef þú nennir að kíkja við eftir áramót þá skal ég útskýra mína sýn á þann mikla snilling sem um er rætt. Og ég er ekki sammála þessu með tvöfalda siðgæðið, eðli málmiðlana er að finna sameiginlegan flöt. Og þá, ekki núna, en þá var fátt talið óeðlilegt við það sem um var samið. En nýr siður gekk frá forsendum heiðninnar og vann því sigur.
En hverju hefði blóðbað skilað????
En takk fyrir mig og gleðilegt nýtt ár.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson.
Ómar Geirsson, 31.12.2009 kl. 13:58
Ef ég nenni syngur Helgi Björns en ég nenni og kíki við eftir áramót. Til hamingju með daginn!
Katrín, 31.12.2009 kl. 16:06
Góður pistill Ómar.
Þorsteinn Sverrisson, 1.1.2010 kl. 14:00
Takk Ómar
Kveðja og takk fyrir gamla árið
Vona að þú hafir það sem best á nýju ári
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 1.1.2010 kl. 23:32
Takk, sömu leiðis Jakobína.
Kveðja, Ómar.
Ómar Geirsson, 2.1.2010 kl. 19:02
Blessuð Katrín.
Vona að þú hafir ennþá nennu því mig langar aðeins til að ræða betur hann Þorgeir goða. Tel það nauðsynlegt því þessi pistill minn er grunngrein og ég gæti vísað á hann ef ég held áfram á þessari braut, að finna slíður fyrir sverðin, í stað þess að nota þau eins og ég hef hingað til gert i ICEsave deilunni, að höggva mann og annan.
Því flötur þinn, vel röktækur, var þess eðlis, að ég gat ekki látið hann fljóta athugasemdalaust, þó hugurinn á gamlaársdag var ekki bundinn við ICEsave og Þorgeir. En staðhæfing þín um að ríkisstjórnin sé að samþykkja ICEsave, vitandi að þjóðin mun ekki geta borgað, er vel hugsanleg, þó ég þekki til innri raka þeirra óhæfuverka, en sú leið er ekki í anda míns pistils og ekki í þeim anda sem þjóðin var sameinuð um fyrir 1009 árum síðan.
Og ég kann vel við atviksorð, er þekktur fyrir að nýta þau vel, jafnvel í ótíma.
En kænska og snilld eru hluti af þeirri skepnu sem blindu mennirnir þrír reyndu að lýsa, og sú skepna heitir sátt sem kemur í veg fyrir innbyrðis átök, jafnvel borgarastyrjöld, sem eru styrjalda verstar þegar bræður ríða um héruð og vega hvora aðra, og systur sínar í leiðinni.
Og það er engin snilld að samþykkja ICEsave, jafnvel þó menn ætli ekki að borga, og í því er engin tenging við Þorgeir, eða það sem þú kallar tvöfalda siðgæði hans. Vegna þess að 70% þjóðarinnar er alfarið á móti núverandi samning, og mjög stór hópur fólks mun leggja allt í sölurnar til að hindra þessi ólög og hafnar alfarið öllum nauðungarsamningum við breta. Og ef einbeittur vilji stjórnar andstöðu þessa hóps, þá verður látið sverfa til stáls, og í lýðræðisþjóðfélagi er erfitt að kúga 70% sem veit hvað hann vill.
Núverandi ICEsave samningur er því ávísun á átök, jafnvel nútíma borgarastyrjöld.
Og einmitt slíkt ástanda vildi Þorgeir goði koma í veg fyrir, og það tókst honum, með réttri stöðugreiningu og með sátt sem báðir deiluaðilar gátu fallist á og þar með voru sverðin slíðruð. Þveröfugt við það sem blasir við í dag.
Stöðugreining Þorgeirs fólst í að sjá fyrir um óhjákvæmilegan sigur kristninnar. Bæði var ekki um heiðin nágrannaríki að ræða sem gátu liðstinnt heiðnum mönnum er til vopnaviðskipta kæmi við kristinn Noregskonung og eins hefur honum verið fullkunnugt um tilhneigingu kristinna höfðingja að boða trú sína með illu þeim sem ekki vildu meðtaka með góðu. Þó rúm 200 ár væru liðin frá fjöldamorðum kristinna Franka á heiðnum Söxum, þá var sú sögn vel þekkt um hinn norræna heim. Og þetta mat var alveg rétt, um 200 árum eftir kristintökuna þá voru þýskir villimenn búnir að útrýma nokkrum Baltneskum þjóðum í nafni Hvíta Krists, og slík hefðu alveg getað orðið örlög íslensku þjóðarinnar ef vitiborið fólk hefði ekki náð sáttum milli stríðandi fylkinga á Alþingi árið 1.000. Hefði heiðnin sigrað þá, þá hefði hún örugglega orðið herská við að tryggja sína stöðu á næstum árum þar á eftir, en án bandamanna var slíkt ávísun á erlend afskipti, og þau þurftu ekki að vera friðsamleg.
Og það að sjá svona inn í framtíðina, að meta stöðu rétt, það kemur kænsku ekkert við, það er vit og snilldin fólst í þeirri málamiðlun sem Þorgeir fékk samþykkta.
Þú kallar þá málamiðlun "tvöfalt siðgæði!", og telur þá sátt upphaf af karakterbresti meðal íslensku þjóðarinnar. Og þú vitnar í einn ICEsaveþrælakaupmanninn sem hefur notað bankahrunið sem stökkpall til frama, og þann frama hefur hann notað til að þjóna bretum og innlendum Leppum þeirra. Þess vegna vil ég aðeins benda á einfalda staðreynd um hina meintu spillingu Íslendinga. Hún er í minni kanntinum miðað við bæði spillingu í sögulegu samhengi, sem og þess sem nú tíðkast í heiminum. Þjóðfélagið er vissulega markað af fámenni kunningja og vensla tengsla, eins og öll önnur smá samfélög, en þær spillingarávirðingar sem er borin upp á þjóð okkar er sammannlegur eiginleiki og hefur verið til staðar frá því að fyrstu samfélögin mynduðust fyrir árþúsundum síðan. Í elstu textum ritaðs máls, frá Súmerum, þá er rætt um viðskipti og síðan það þrennt sem hefur hrjáð hinn dómharða mann. "Lauslæti" kvenna, agaleysi ungdómsins og spilling embættismanna. En þjóð með minniháttarkennd trúir að hún sé SEK, og á þá plötu hafa ICEsave sinnar spilað með góðum árangri.
Spilling er sammannlegt vandamál, ekki sérvandamál íslensku þjóðarinnar.
Og kíkjum þá á hinn meinta glæp Þorgeirs. Hrossakjötsát, barnsútburð og blót á laun. Hrossakjötsátið var reyndar menningarleg bábilja, ættuð frá MiðAusturlöndum, þar sem hestar voru mikilvægir í stríði, en erfitt að ala, svo miklu var til kostað að hindar afát þegar hungur svarf að, en slík "skynsemi" kom trú Krists ekkert við.
En barnsútburðurinn og launblót þykja sjálfsagt öllu alvarlegri hlutir í dag, hið fyrra hjá allflestum en hið seinna hjá trúuðu fólki. En ef þú hefðir borið slíkt upp á Þorgeir á þingi árið 1.000, þá hefðu spennitreyjan verið fundin upp í snarheitum. Vegna þess að miðað við hugsunarháttinn þá, taldist hvorugt stórmál. Í raun gáfu heiðnir eftir framtíð hins forna siðs og það eina sem þeir fengu í staðinn voru viss praktísk atriði.
Sá siðaboðskapur sem taldi barnsútburð rangan var með öllu óþekktur á Alþingi árið 1.000. Harður siður, því vissulega fannst fólki jafn vænt um börnin sín og okkur, en taldist nauðsynlegur á harðindatímum þegar ekki var til nægur matur. Í þessu samhengi má minna á frásagnir annála frá því um 960 (að mig minnir) þar sem sagt var frá að sjúkum og öldruðum var kastað fyrir björg (þrælum líka) í miklum harðindakafla sem þá gekk yfir landið. Og einnig má þess geta að mannslíf voru ekki í miklum metum þannig séð. Víkingar höfðu til dæmis haft það fyrir sið að drepa allt kvikt nema þá sem þeir seldu, í ránsferðum sínum, þekkt er einnig sagan af þrælnum sem missti höfuð sitt vegna þess að hann lá svo vel við höggi, og svona má lengi telja.
Mannhelgi kristinnar var ekki hið ríkjandi norm hjá Norrænum þjóðum og fólk í dag má ekki falla í þá gryfju að setja sinn mælikvarða á gjörðir forfeðra sinna. Okkur þykir þetta rangt í dag, en þá var það ekki tiltökumál. En innleiðing kristninnar breytti þessum hugsanagang, og innleiðing tíundarinnar var mikið framfaraskref, þó stór hluti hennar rynni í vasa höfðingja, þá var samt hugsunin sú að tryggja lágmarksframfærslu fátækra, og þar með annars að koma í veg fyrir barnsútburð.
Launblót voru ekki heldur birtingarmynd tvöfalds siðgæðis, þau sýndu að hvorugur aðilinn þjáðist ekki af trúarofstæki. Almennt séð þá umbar fólk trú annarra, ef það fékk að hafa sína trú í friði. Og erlendu trúarofstækismenn sem komu með látum og brambolti, þeir voru almenn álitnir skrýtin viðrini og þannig er þeirra minnst í sögunni.
En heiðnir menn vissu að það að þurfa að mega ekki blóta opinberlega, var endirinn á þeirri trú. Hún myndi deyja út um leið og þeir sjálfir. Og það gekk eftir.
Hafi heiðnir menn tekið trú sína alvarlega, þá var um mikla fórn að ræða, fórn sem menn greiddu fyrir einingu og frið. Og það var líka fórn fyrir kristna menn að sætta sig við launblótin en þeir trúðu á mátt síns trúboðs og styrk Hvíta Krists.
Tíminn myndi tryggja þeim þann sigur sem vopnaburður hefði örugglega ekki gert á Þingvöllum árið 1.000.
Mín niðurstaða er því snilld hins mannlega vits að tryggja æðsta markmið manneskjunnar, frið á jörð og heilbrigða trú, hafi náð fram að ganga. Í sáttinni fólst ekki tvöfalt siðgæði, eftir þeirra tíma hugsunarhætti, og hún var þess eðlis að framrás tímans var ekki stöðvuð. Í þá daga þurfti heimurinn virkilega á kristnum siðgæði að halda, og trú sem sagði fólki að sumt væri rangt, og sumt væri rétt, og rétt breytni væri æðri mætti þóknanleg.
Í grundvallaratriðum sömu spurningar og við stöndum fram fyrir í dag. Aðeins hundheiðið fólk styður rangindi ICEsave. Það skynjar ekki rangindi þess að láta saklaus börn taka á sig skuldir óskyldra aðila í frjálsum viðskiptum á frjálsum markaði, og það skynjar ekki þau grundvallarsjónarmið mennskunnar, sjálfrar siðmenningarinnar að þú leysir ekki efnahagserfiðleika með því að fórna þínum minnstu bræðrum. En slíkt er megineinkenni á þeirri hagfræði sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn stendur fyrir.
Og ég vona það innilega að vitiborið fólk komi vitinu fyrir heiðingjanna, aftur.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 2.1.2010 kl. 20:58
Gleðilegt ár og farsælt til þín og þinna Ómar.
Mikið óskaplega gleður það mig, að enn búi hér á Íslandi vitrir menn. Athugasemd þín hér að ofan, með allri sinni röksemdafærslu og öllum sínum málatilbúnaði, er hreint út sagt snilld. Vona að sem flestir lesi hana, sem og upphafspistil þinn. Ég held að þín bíði nú að koma þessum skrifum þínum í eitthvert dagblað svo tryggt sé að fleiri lesi sannindin. Hafðu mikla þökk og mikinn heiður fyrir þessi skrif þín.
Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 3.1.2010 kl. 21:11
Sæll Ómar.
Það gladdi mig mjög, að lesa um greiningu þína á spillingu í svarinu til Katrínar. Við íslendingar erum góð og heiðarleg þjóð, í mannlegum skilningi. Spilling er mjög lítil í samanburði við margar þjóðir. En það hefur auðvitað verið þekkt lengi, að maðurinn er ófullkominn í eðli sínu, það þarf ekki að ræða það nánar.
Það sem er spilling í sumra augum, er í mörgum tilfellum, ekkert annað en óánægja einstaklinga sem hafa ekki fengið stöður sem þeir sóttust eftir. Sannleikur og heiðarleiki er huglægt mat hverju sinni, og sitt sýnist hverjum.
En á Íslandi getum við verið nokkuð örugg um að stjórnvöld geta ekki farið illa með okkur sem einstaklinga, út af stjórnmála eða trúarskoðunum okkar. Það er engu að síður sá veruleiki sem margir búa við.
Við eigum líka að vera stolt af okkur sem þjóð, þannig erum við sterkust.
Og til að koma í veg fyrir, að menn saki mig um þjóðrembu, segi ég líka, að allar þjóðir eiga að vera stoltar af sér.
Jón Ríkharðsson, 3.1.2010 kl. 23:39
Takk fyrir Pétur, og gleðilegt ár.
Vissulega þykir mér vænt um að orð mín veki athygli og séu íhuguð. Þegar ég lýt á skrif minna helstu samherja í ICEsave deilunni, þá er nokkuð ljóst að þeir hengja sitt á haldreipi á gamlan fjandvin, Ólafa Ragnar Grímsson. Og skil ég það svo sem vel.
Og segjum að Ólafur samþykki ICEsave frumvarpið, hvað þá???? Borgarastyrjöld???'
En segjum að hann neiti því samþykki, og það fari í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hvað þá????
Fellur stjórnin og hægri menn taka við, hvað þá?????? Halda menn að þá myndist einhver flóafriður??????
Klofin þjóð kemur engu í verk, það er ekki flóknara en það, enda tekur þú undir þau orð mín. Og ég vona að fleiri séu að hugsa svipaðar hugsanir. Því það þarf hina leiðina, sem heitir "Ekki borgarastyrjöld", flóknara er það ekki.
En hvað hvatningu þína varðar, þá er það ekki mitt hlutverk að breiða út boðskapinn, hef hvorki áhuga á að verða þekktur, hvað þá að ég sjái tilganginn í því að skrifa grein sem litlar líkur eru á að birtist, hvað þá að nokkur lesi.
Það er ekki þannig að við smáfuglarnir breytum heiminum, en hugsanlega getur söngur okkar vakið athygli stóru fuglanna, og eins getum við haft áhrif á stefið sem hinir smáfuglarnir syngja.
Og þá er ég ánægður.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 3.1.2010 kl. 23:55
Blessaður Jón.
Já, ég held að þetta sé nokkurn veginn kjarni málsins. Vissulega er það ekki þannig að margt megi ekki betur fara, og úr mörgu má bæta. Og fámenn samfélög bera alltaf keim af ættbálkasamfélagi, þar sem styrkur ættbálka (stjórnmálaflokka, vinahópa, ætta svo eitthvað sé nefnt, jú ekki má gleyma KR-ingum) fer mikið eftir því hvað þeir eru duglegir að tryggja framgang "sinna", og þá jafnvel á kostnað "hinna".
Og í sjálfu sér sé ég ekki hvernig hlutirnir verði mikið öðruvísi, en mótvægið er gagnsæi, og það heilbrigða vit að viðurkenna vandann, þá ætti hann ekki að gegnsýra allt.
Og síðan er það alltaf vandamál þegar einn flokkur hefur stjórnað of lengi, en það er ekki sér vandamál á Íslandi, það er hluti þess að tilheyra samfélagi manna, ég er ekkert að mæla því bót, en tel að þeir sem vilji annað, þurfi fyrst að sýna þetta annað, áður en þeir fái einhvern hærri sess en hinir.
Ein besta leiðin til að þekkja tilvonandi spillingarpúka er upphróp þeirra um að útrýma spillingu. Og fyrir vikið hafa þeir eyðilagt fyrir mörgum heiðarlegum manninum sem virkilega hefur meint sín orð, en ekki haft styrk til að koma nýrri breytni á.
En þetta þokast samt allt í rétt átt, og það er aðalatriðið.
En það má ekki misskilja mig þannig að ég sé að réttlæta eitt eða neitt, ég ítreka að ýmislegt mátti betur fara siðustu árin, og tel að um það séu allflestir sammála, þó sýn manna á vandann sé mismunandi, eðli málsins vegna.
Það er líka sammannlegt að sjá bjálkabyggingu nágrannans en ekki sína eigin.
En við verðum að bremsa þetta spillingartal af, það er verið að nota það sem eina meginrök fyrir því að við kunnum ekki fótum okkar forráð, og þurfum því að lúta öðrum aðilum, sem sannarlega eru þó ennþá spilltari en við. Og það sem verra er, með þessum lúmska tali um spillingu Íslendinga sem eitthvað sérstakt mein okkar, að það geri okkur SEK, og þess vegna eigum við að afplána refsingu og skuldaþrældóm, auk þess að afsala okkur sjálfstæði okkar, þá er þjóðin brotin niður inna frá.
Og þess vegna tel ég að við þurfum sem þjóð að taka okkur taki, við erum ekki sérstök, við erum einstök, eins og aðrar þjóðir, en ekki sérstök, hvorki í spillingu né öðru. En við erum kannski sérstök hvað varðar handboltalandslið okkar, það virðist alltaf koma til baka, en það er annað mál.
En okkar reglur í fjármálageiranum voru á evrópskum grunni, og þær voru framkvæmdar á evrópskum grunni, ég veit það vegna þess að alþjóðlegar stofnanir fylgdust með því. Við vorum ekki sérstakari en það, að þetta var eins hjá okkur eins og öðrum, var sagt í skýrslum þessara eftirlitsaðila.
Og kerfið brást, ekki við. Það var eitthvað mikið að þessu kerfi, og það féll um allan heim. Þeir sem efast geta lesið orð seðlabankastjóra Bandaríkjanna á MBl.is. í dag.
Og vandi og mistök eru til að læra að, ekki nota sem réttlætingu til að níðast á saklausu fólki.
Og ég er ekki spilltur, ekki börnin mín, og ekki það fólk sem ég þekki.
Og það kemur ekki til greina að líf mitt og minna sé lagt í rúst vegna einhverra fjármálagjörninga sem ég og mínir báru enga ábyrgð á, og gátum aldrei haft nein áhrif á.
Þetta er ekki flóknara en það.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 4.1.2010 kl. 00:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.