21.12.2009 | 13:27
Meira um Lygaveituna og störf hennar.
Í fyrri pistli mínum um Lygaveituna þá dró ég upp mynd af því hvað bíður þjóðarinnar ef ICEsave skuldaklafinn verður samþykktur. Áður en lengra er haldið skulum við draga saman helstu lygar og rangfærslur Bretavina á Íslandi í ICEsave deilunni.
1. ICEsave krafa breta og Hollendinga byggist ekki á regluverki EES. Íslensk löggjöf er í fullu samræmi við evrópska reglugerð og ef til ágreinings kemur þá eru skýrar réttarleiðir í EES samningnum um hvernig á að takast á við hann. Ef kröfugerð vegna meintra brota á EES samningi EFTA ríkis, fer ekki í gegnum Eftirlitsstofnun EFTA, ESA og síðan til dóms hjá EFTA dómnum ef ESA tekur undir kröfuna, þá er krafan ólögleg, eins og krafa handrukkara sem innheimtir skuld framhjá réttbærum dómsstólum. Allar tilvísanir í að um þjóðréttarlega skuld sé að ræða, eru því lygi, bretar og Hollendingar hafa engan dóm í höndum til að styðja kröfugerð sína.
2. Útrás bankanna var i einu og öllu eftir evrópsku regluverki, þeir máttu starfa þar sem þeir vildu, á þann hátt sem þeir vildu, að því gefnu að þeir stóðust þær kröfur sem regluverkið kvað á um. Og það að taka innlán er ekki glæpur, það er eðli bankaviðskipta að taka á móti innlánum. Og það er ekki glæpur að fara á hausinn.
3. Eftirlit íslenskra stjórnvalda var á engan hátt frábrugðið því sem gerðist í öðrum vestrænum löndum. Og svo vitnað sé í Ben Bernanke, seðlabankastjóra Bandaríkjanna, "we were only few hours from global bank brekadown" þá var vandi íslensku bankanna ekki sértækur, kerfið sjálft og regluverkið í kringum það brást. Eini munurinn er sá að íslensku bankarnir voru of stórir fyrir íslenskt hagkerfi, og skuldirnar að megin til í erlendri mynt, svo að íslensk stjórnvöld gátu ekki bjargað þeim. En í evrópsku regluverki var hvergi takmörk fyrir stærð bankakerfis miðað við þjóðarframleiðslu, og stærð okkar bankakerfis var ekki einsdæmi.
4. ICEsave skuldabréfið er ekki upp á 75-100 milljarða, eða jafnvel lægri upphæð eins og Jóhanna Sigurðardóttir fullyrti í sjónvarpssal í vor. Og það er ekki upp á 285 milljarða miðað við 90% endurheimtur á eignum Landsbankans. Sú upphæð sem stendur á skuldabréfinu er aldrei undir 1.000 milljörðum með vöxtum og vaxtavöxtum, allt hitt er óvissunni háð, og sú óvissa er Íslendinga. Forsendur lægri talna eru því aðeins rök í málinu ef "viðsemjendur" okkar taka tillit til þeirra og dragi fyrirhugaðar endurheimtur frá sínum kröfum á hendur íslenskum stjórnvöldum.
Og eitt er á hreinu, bæði samkvæmt íslenskum lögum, og lögum allra annarra þjóða, að þegar innlendir aðilar vinna að framgangi ólöglegra fjárkrafna erlendra þjóða, sem nema allt að 2/3 þjóðarframleiðslu, þá er um landráð að ræða. Lögin eru skýr hvað það varðar. Kannski eru til svo mikil stórmenni í röðum íslenskra Bretavina að þeim finnst 1.000 milljarðar ekki tiltökumál, en svo við setjum það í samhengi stórþjóða, þá væri það eins og óvinaþjóðir Bandaríkjanna krefðu þarlend stjórnvöld með handrukkun um 9.672 milljarða dollara, Þýskalands um 2.448 milljarða dollara og vini okkar í Bretlandi um 1.786 milljarða dollara.
Og hvernig heldur fólk að þessar þjóðir myndu taka þessum fjárkröfum????
Greiða þær???? Myndu fjölmiðlar í viðkomandi landi fá að reka miskunnarlausan áróður byggðan á lygum og rangfærslum til að erlendum óvinaþjóðum yrði afhentur 2/3 af þjóðarauð viðkomandi landa. Gætu óvinaþjóðirnar komist upp með að hafa Leppa í stjórnkerfinu eða meðal kjaftastétta til að berjast fyrir afhendingu 2/3 þjóðarauðsins með þeim rökum að maður eigi að borga það sem maður er krafinn um af hendi óvina sinna og þetta sé ekkert mál, greiðist ekki fyrr en eftir 7 ár, og þá á sjö árum????
Svarið er augljóslega Nei. Til skamms tíma hefði svona landráðamálflutningur þýtt náin kynni við riffilsveit eða þá lífstíðarvist innan fangelsismúra. Það lætur engin þjóð fara svona með sig mótþróarlaust.
Eru þá engin rök í ICEsave deilunni sem eru ekki landráð. Vissulega, og það er að segja satt og rétt frá. Það eru rök í málinu að landið sé beitt þvílíkri kúgun að það verði að láta undan og semja við kúgarana. "Þetta er það illskásta í stöðunni" segir Sigríður Ingvadóttir alþingismaður og um það mat er ekkert að segja. En að berjast fyrir málstað breta og nota til þess lygar og rangfærslur eru meint landráð og fjölmiðlar sem nota til þess hvert tækifæri til að koma þessum lygum og rangfærslum á framfæri, eru í vinnu hjá hinum erlendum kúgurum, þeir eru samsekir hinu meinta landráðafólki.
Þetta er Lygaveita Íslands.
Lygaveitan starfar eftir einfaldri reglu. Hún greinir seint og illa frá rökum þeirra sem hafa útskýrt lagagrundvöll íslensku þjóðarinnar. Hún reynir að hunda þær og ef það tekst ekki, þá eru strax fengnir Bretavinir til að skrumskæla eða snúa út úr rökum þjóðarinnar. Slík vinnubrögð eru mjög eðlileg á breskum fjölmiðlum, ekki íslenskum.
Það er ekkert að því að innlendir aðilar dragi fram rök hinna erlendu kúgara, og hafi þann fyrirvara á að þeir geti haft rétt fyrir sér samkvæmt EES reglugerðinni, en að sleppa "gæti" og taka það ekki skýrt fram að í EES reglugerðinni eru skýr ákvæði um réttarfarslegan ágreining, og að andstæðingar okkar hafi ekki rétt fyrir sér á meðan þeir virki ekki þau réttarúrræði, og fái dóm til stuðnings kröfugerð sinni, það er að taka skýran málstað þeirra aðila sem handrukka þjóðina um 2/3 af þjóðarframleiðslunni.
Málstaður Íslands hefur skýrast komið fram í greinum félaganna Stefáns Más Stefánssonar, lagaprófessors og Lárusar Blöndal hæstaréttarlögmanns. Engin fréttaskýring hefur verið gerð um greinar þeirra, og fyrir utan eitt örstutt viðtal í Speglinum, þá hafa ríkisfjölmiðlarnir ekki gert málflutning þeirra skil. Eins og það sé smámál að borga 2/3 þjóðarframleiðslunnar úr landi með skattpeningum þjóðarinnar.
Eins var það þegar okkar klárasti fræðimaður í dag í efnahagskreppum, Jón Daníelsson við London Scool of Economic, kom með harkalega gagnrýni á aðferðarfræði Seðlabanka Íslands þegar bankinn gaf Alþingi skýrslu um efnahagsáhrif núverandi nauðungarsamnings, kenndan við Svavar Gestsson, að sú gagnrýni fékk enga fjölmiðlaumfjöllun eða kynningu meðal þjóðarinnar. Hins vegar var embættismaður, sem hafði skrifað undir skuldbindingu að vinna að erlendri kúgun, hann var fenginn í Kastljós til að útskýra túlkun breta á samningnum.
Það hafa aðeins örfáir aðilar reynt að útskýra málstað breta og þær lagaforsendur sem þeir byggja á. Mér vitnalega hafa þeir allir á einhverjum tímapunkti komið fram í ríkisfjölmiðlum og útskýrt af hverju þjóðin á að gefast upp án dóms og laga. Þegar Hróbjartur Jónatansson hæstaréttarlögmaður skrifaði grein í Morgunblaðið þar sem hann reyndi á lúmskan hátt að löggera kröfu bretanna, þá var hann kominn í Kastljós um leið.
Meistaranemi í lögfræði, skrifaði grein í Morgunblaðið sem átti að vera andsvar Bretavina við greinum Stefáns og Lárusar, og þar er hennar eini rökstuðningur að vitna í embættismenn Evrópusambandsins um það sem þeir hefðu viljað láta standa í tilskipun ESB um innlánstryggingar. Ef þetta væru rök, þá væri ekki þörf fyrir lagatexta, ef til dóms kæmi þá þyrfti bara að láta lagasmiði segja hvað þeir vildu láta standa í lögunum, og út frá því væri dæmt. En hvernig fólk á að vita hvað er rétt og hvað er rangt, það er önnur saga. Gæti hjálpað að eiga farsímanúmer viðkomandi lagasmiða til að fá vitneskju um það. Og það þarf ekki að taka það fram að þessi meistaranemi er fastagestur í Kastljósi, Silfri Egils auk þess að ég hef heyrt í henni í Speglinum. Og hún kynnir málstað breta eins og hún fái borgað fyrir það, en tilheyri ekki þjóð sem mun þjást óheyrilega vegna fjárkrafa þeirra.
Það má nefna sérstakan vin Ruv, Silju Báru Ómarsdóttir stjórnmálafræðing, sem hefur fullyrt á prenti að ICEsave krafa breta sé þjóðréttarlega skuldbinding Íslands, án þess að rökstyðja það einu orði. Og hún er sú eina sem hefur verið það kræf að skrifa grein í Morgunblaðið (í félagi við annan bretavin, Dóru Tynes) þar sem hún gerði grín af þeim fyrirvörum sem Alþingi setti í sumar og sagði það væri fráleitt að gera slíka einhliða fyrirvara á skuld sem þjóðinni bæri að greiða. Hvergi annars staðar í heiminum kæmist manneskja upp með svona málflutning sem varðar þjófnað á 2/3 þjóðarframleiðslunnar, og verið hampað í ríkisreknum fjölmiðlum, í stað þess að sæta ábyrgð orða sinna.
Svona má lengi halda áfram um starfshætti Lygaveitunnar. En þessi grein þarf víst að vera innan skikkanlegrar lesmarka. Ég vil minna á orð Michael Hudsons um að íslenska þjóðin hafi orðið fyrir árás, árás erlendra fjármálaafla. Í dag er óljóst hvernig fer, en sporin hræða. Þjóðir sem fá ekki risið undir skuldaklafa sínum missa sjálfstæði sitt. Og þegnar þeirra líða miklar hörmungar meðan aflafé þeirra fer í erlenda vasa.
Ekkert land gengst sjálfviljugt undir slíkt skuldaok. Nema hugsanlega Ísland. Þar virðist mikill minnihluti þjóðarinnar ætla að styðja Leppa hinna erlendu árásarafla við að leggja ólöglega skuldaklafa á þjóðin, þvert gegn vitund og vilja meginhluta þjóðarinnar. Og helstu fjölmiðlar landsins styðja þann gjörning með vinnubrögðum sínum.
Í dag hefur þetta fólk völdin, en hvað verður á morgun??? Og hvað verður þá um Bretavini og aðra Leppa þeirra hérlendis????
Það fer eftir þeim hörmungum sem þeir ná að valda þjóð sinni áður en þeir eru stoppaðir. Bretavinum að vera hollt að kynna sér svipleg örlög Lord How How sem ljáði erlendum óvinum Breta á stríðsárunum rödd sína. Ef þeir hefðu unnið þá væri hann feitur þjónn i dag, en Þjóðverjar unnu ekki stríðið, og svik hans voru ekki fyrirgefin.
Ef hörmungarnar verða miklar á Íslandi, þá munu svik Lygaveitunnar heldur ekki vera fyrirgefin.
Það er um líf og dauða þjóðarinnar að tefla.
Fyrir suma samborgara okkar í bókstaflegri merkingu. Aðstandendur þeirra munu ekki sætta sig við svikin órefsuð.
Það varðar við lög að svíkja þjóð sína.
Kveðja að austan.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 28.3.2011 kl. 15:28 | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 5
- Sl. sólarhring: 15
- Sl. viku: 451
- Frá upphafi: 1412813
Annað
- Innlit í dag: 5
- Innlit sl. viku: 390
- Gestir í dag: 5
- IP-tölur í dag: 5
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Þessi samanburður þinn Ómar við bankaeftirlit annara þjóða með tilheyrandi hruni stenst ekk- því miður. Í mikið á þriðja ár bentu erlendir fjármálagreinendur á þá augljósu staðreynd að skuldir okkar banka væru orðnir þjóðinni ofviða ef illa færi. Því var hafnað og ráðherrar okkar hlógu að þessum aulahætti. Þess vegna ættu þeir sem þá áttu að standa fyrir okkur vaktina að hundskammast sín frá kolli niður í tær; biðja þjóðina fyrirgefningar og ganga fjöruleiðina ef þeir sýna af sér þann hroka að fara út úr húsi.
Árni Gunnarsson, 21.12.2009 kl. 18:42
Sæll kappi
Nú hlítur að styttast í uppgjör við lygaveitu rúv. Það nýjasta frá fréttaskáldunum á þeim bæ gerir útslagið, hér á ég við ekki fréttina um meinta ölvun Ögmundar. Mig grunar að fréttaskáldin hafi fengið fyrirmæli frá spunakokkum krata til að sverta mannorð og reyna að klekkja á Ögmundi vegna stuðnings hanns við Íslenskan málstað, hvort grunur minn er á rökum byggður kemur í ljós á næstu 2-3 vikum (eftirfylgni).
Íslandi allt
Umrenningur, 21.12.2009 kl. 19:42
Blessaður Árni.
Jú ég stend við þá fullyrðingu að vandi íslenska bankakerfisins hafi ekki verið sértækur, en það er forsenda þess að hægt sé að klína sök á okkar stjórnvöld umfram aðra.
Við erum kannski ekki vön dramaseríngu, en "few hours from breakdown" eru mjög sterk orð. Einhvers staðar á ég líka frétt úr Daily Mail frá því í okt á síðasta ári, þar sem sama er fullyrt um breska bankakerfið. Það er augljóst mál að kerfið brást.
Og með þessu kerfi var ákveðið eftirlitskerfi.
Í fyrsta lagi þá voru það bankastofnanirnar sjálfar, þær óneitanlega bera höfuðábyrgð á sínum gjörðum. Og ef málið hefði verið svona augljóst, þá hefðu þær ekki lánað til íslensku bankanna. En það var gert allt fram að frostinu mikla á millibankamarkaði. Og þá voru það Seðlabankar heimsins sem héldu bönkum gangandi. Lánafrostið til Íslands var ekki einsdæmi, það var víðtækt og í raun algjört. Bara af þessari ástæðu einni ættir þú skynsamur maðurinn að sjá að það er eitthvað bogið við þessa eftirá skýringu.
Í öðru lagi þá voru alþjóðleg matsfyrirtæki sem fóru yfir lánshæfimat íslensku bankanna. Þann 25. feb hækkaði Moody´s "langtímalánshæfiseinkunn allra íslensku viðskiptabankanna í Aaa úr A1 eða A2. Þetta er hæsta einkunn Moody"s fyrir langtímaskuldbindingar." svo ég vitni í Vísi frá 25. febrúar 2007. Og á mbl.is má lesa frétt 28. september sama ár þar sem matsfyrirtækið staðfestir þetta lánhæfimat.
Árni, þetta eru þeir fjármálagreinar sem hið alþjóðlega bankakerfi tekur mark á, ekki einhver maður hjá dönskum örbanka sem enginn hefur heyrt um, nema við á Íslandi, og þá vegna þess að danska er skyldugrein í íslenskum skólum. Annars hefðu við heldur ekki vitað af gagnrýni Danans sem þú kýst að kalla "erlenda fjármálagreinendur". Því miður, þetta voru bara hjáróma raddir þó við í minnimáttarkennd okkar miklum þá í risa, þá voru þetta bara dvergar, og við dvergarnir vitum það að á okkur er ekki hlustað.
En í þriðja lagi, og ekki hvað síst sem staðfestir að Ísland var ekki sértækt og íslensk stjórnvöld höfðu ekki frekar en önnur blind stjórnvöld (ef menn hefðu ekki verið blindir þá hefðu allir séð þá vitleysu sem var í gangi, en ekki bara hér, heldur allstaðar, sérstaklega í hinum engilsaxneska heimi) ástæðu til að taka mark á varnaðarorðum sérvitringa eða öfundsjúkra keppinauta. Og það er mat OECD, sem er alþjóðleg eftirlitsstofnun með fjármálum og efnahag ríkja. Og ef ég man það rétt, þá meira að segja um mitt ár 2008 þá kom jákvæð skýrsla frá þeim, þar sem einmitt ICEsave og Edge voru taldir styrkleikar íslensku bankanna í alþjóðlegri lausafjárkreppunni. Ég nenni ekki að Gúgla á skýrsluna en það geta allir áhugasamir sem draga þessi orð mín í efa.
Ef við leggjum þessa liði saman Árni, þá standast mínar fullyrðingar en ekki þínar. Því það eru ekki undantekningar sem gilda, heldur meginreglan þegar sekt er ákvörðuð. Það að vera í góðri trú er fullnægjandi afsökun ef til skaðabótamáls kemur því við vorum í sömu súpu og aðrir, og fengu sömu ráðgjöf og aðrir. Og allt kerfið féll.
En vissulega voru menn sem vöruðu við, en það var ekki bara við íslenska kreppu, það var varað við alheimskreppu, og hún er rétt að byrja.
En Árni, það gerir ekki þig eða mig eða börn okkar sek á skuldum Björgólfs og Björgólfs.
En takk fyrir að lesa grein mína. Ég met það mikils að hugsandi menn eins og þú gera það. Og ég ítreka að það er ekki mikið bil á milli forsenda okkar, þó ég sé harður á því að alþýða manna ber ekki eina einustu ábyrgð á höfðingja gjörðum.
En ég skal gefa heimsbyggðinni upp farsímanúmer Björgólfs og Björgólfs.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 21.12.2009 kl. 21:11
Blessaður Umrenningur.
Þetta er skemmtileg tilviljun, ef það má nota það orðlag yfir svona sorglegan hlut. Það er eins og Ruvararnir hafi lesið pistil minn hinn fyrri, og ákveðið að staðfesta hann.
Og það tókst. Það er engin tilviljun í refskák stjórnmálamanna. Þeir sem trúa á tilviljanir eiga að halda sig við póker eða lönguvitleysu.
Og já, þetta þarf að ræða. Það er ekki einleikið hvernig 3/4 þjóðarinnar láta 30% fólkið spila með sig og kúga.
En lögin gilda og lögin tifa, það flýr enginn þann dóm.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 21.12.2009 kl. 22:25
Þú stendur þig vel, nafni, í málflutningi gegn þessari ICESAVE vitleysu sem við eigum vitanlega ekki að borga. Og eins og þú bendir réttilega á þá er það ekki glæpur að fara á hausinn, en það er spurning hvort það er ekki glæpur að setja banka á hausinn..... Það gæti ábygrð Breta verið mikil.....
Ómar Bjarki Smárason, 22.12.2009 kl. 01:04
Já blessaður nafni.
Við erum allavega tveir nafnarnir sem stöndum með þjóð okkar gegn bretavinum.
Jú, það er mikill munur á þessu tvennu, það er glæpsamlegt að setja banka á hausinn, viljandi og þeir sem þá ábyrgð bera eru skaðabótaskyldir í það minnsta. Og það gerir þá seka, ekki þjóðina.
Og það er ótrúleg linka að sækja ekki að bretum á öllum vígstöðum, fyrir dómsstólum, fyrir Nató, og fyrir Sameinuðu þjóðunum.
Og lokahnykkurinn, á að vera í anda farsælar lausnar á handritamálinu, tillöguflutningur fyrir allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna, að ránsfengur fortíðar í skjóli hervalds og lögleysu, verði skilað til réttbæra eiganda, þar á meðal djásnið í kórónu bretadrottningar.
Þetta er ekki vinaþjóð okkar.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 22.12.2009 kl. 08:38
Vandinn er nú oft sá að deilur á milli vina eru erfiðari í meðförum en deilur á milli þeirra sem hatast hvort eð er. Og ég held að Bretar séu nú almennt mjög góðir vinir okkar, og þó við eigum í deilum við stjórnvöld þá ristir það ekki djúpt í þjóðarsálina. Bretar kunna nefnilega þá list að rökræða án þess að taka það inn á sig persónulega. Þar á íslensk þjóð mikið ólært.... Og Bresk sjórnvöld eru ekki búin að gleyma því hvernig þeim reið af í deilum við okkur út af landhelginni og því eru þeir ekki tilbúnir að gefast svo auðveldlega upp fyrir okkur núna. En því miður erum við með soddan linkur við stjórnvölinn í dag, og þá kannski sérstaklega í stjórnsýslunni, þ.e. ráðuneytum, að þeir sem þar eru virðast bara ekki nenna að standa í þessu. Og svo er spurning hvort það lið sem var í samninganefndinni um Icesave skildi nokkurn tíma í raun og veru hvað fór fram á þessum fundum. Ég leyfi mér alla vega að efast um bakgrunn þeirra samningamanna sem hlutu menntun sína í Þýskalandi, í enskri tungu.
Ómar Bjarki Smárason, 22.12.2009 kl. 11:11
Ekki er mér í nöp við bresku þjóðina, en framkoma hennar í ICEsave málinu er ólíðandi.
Hvað á maður að segja, vítaverð framkoma, er líka vítaverð þó nákominn eigi í hlut.
Og svona gerir maður ekki eins og þegar bretar settu hryðjuverkalögin. Og aðeins smámenni og smáar þjóðir sætta sig við slíkt.
Þess vegna eru bretar ekki vinaþjóð okkar lengur. Og það er þeirra að biðjast afsökunar, ekki okkar að skríða.
Að mínum dómi er það kjarni málsins.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 22.12.2009 kl. 11:44
Ég vil gera greinarmun á þjóð og ríkisstjórn. Þetta lagast allt varðandi Bretland eftir næstu kosningar þegar við fáum þar íhaldsstjórn aftur. Þá afskrifa þeir Icesave, eða semja við okkur upp á nýtt......
Ómar Bjarki Smárason, 22.12.2009 kl. 18:46
Kannski, en í mínum huga er það ekki nóg.
Í fyrsta lagi er það glæpsamlegt að semja við breta, því krafa þeirra er með öllu ólögleg. Verði það gert þá er það spurning um stjórnarskipti hér að rifta þeim samningum, því þeir eru ólöglegir samkvæmt öllum alþjóðlögum, þvingun er forsendubrestur.
En smán íslensku þjóðarinnar er algjör að þiggja ölmusur af hálfu breta, eins og þú lýsir. Það er er ekki frjálsra manna háttur.
En falli ríkisstjórn breta einhliða frá ICEsave kröfu sinni, þá er það heldur ekki nóg. Formleg afsökunarbeiðni þarf að fylgja, ásamt vilja til að greiða sanngjarnar bætur fyrir árásarstríð þeirra.
Hingað til hefur það ekki dugað fyrir ofbeldismenn að segja afsakið við fórnarlömb sín.
Eins er það með ofbeldi breta, það er ólöglegt og á ekki að líðast bótalaust.
Ekki flóknara í mínum huga, þannig að það er langur tími framundan í kuldakasti samskipta okkar við bresku þjóðina, því það var hún sem lét kúgunina óátalda, og með hverjum deginum eru fleiri og fleiri á Íslandi sem átta sig á alvarleika málsins.
Sá níðingsskapur að ráðast á varnarlausa smáþjóð í upphafi hörmunga hennar, er einstakur í gjörvallri sögu mannsins, og smán þeirra vex með hverjum deginum.
Evrópubúar eru nefnilega ekki villimenn.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 22.12.2009 kl. 21:56
Er ekki best að senda þig í víking til Bretlands, nafni, til að ganga frá málinu...... þú safnar liði að fornum sið og tekur þetta að þér.....
Ómar Bjarki Smárason, 22.12.2009 kl. 23:09
Blessaður nafni, og síðbúnar jólakveðjur.
Ég slíðraði ICEsave vopn mín yfir hátíðarnar og lét allan vopnaburð eiga sig. En núna er vonandi lokalokaorrustan framundan og því þörf fyrir allar vígfúsar hendur til að vernda þjóð okkar fyrir innlendum svikurum breta og Hollendinga.
Og já, ég færi létt með að gæta hagsmuna þjóðarinnar, líkt og flestar aðrar Steingeitur. Það er í eðli okkar að lúta ekki erlendri kúgun. En það er meira vandamál með liðssafnaðinn, er ekki ennþá búinn að ráða lúðraþeytarann og herforingjann, kvað þá aðra liðsmenn byltingarhers míns.
Þannig að í víking til Bretlands fer ég ekki í bráð. Enda ekkert þar að sækja hvað varðar hagsmuni þjóðarinnar, þeir hafa fyrirgert öllum sínum rétti til að siðmenntað fólk ræði við þá, nema í gegnum lögfræðinga og dómsstóla. Og í réttarsalnum þá er þeirra sæti sakamannabekkurinn við hliðina á þeim Radovan Karadzic og Osama Bin Laden. Sömu lögin ná yfir öll þessi illþýði.
En ég les það á milli línanna að þú sért hóflega bjartsýnn á að Emil kyrki fílinn, og það má vel vera. En í dýraverndarlögunum hinum nýrri, þá er fílnum bannað að traðka á Emil maur, og þar liggur von Emils.
Bretum er meinað samkvæmt alþjóðalögum að senda flugher og flota til að sprengja upp Alþingi, mega aðeins nota innlenda mútuþega til að ná fram markmiðum sínum. Þessa mútuþega á þjóðin að setja í svartan plastpoka eins og forfeður okkar gerðu við Jón Gereksson biskup, og síðan eigum við að ulla framan í bretanna. Þeir mega éta það sem úti frýs.
Reyndar má kannski ræða málin ef þeir setja bann á enska boltann, en samt... , það hlýtur að vera til leið til að komast fram hjá því banni.
En að gefast upp fyrir innantómum hótunum, það er ekki Steingeita háttur.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 28.12.2009 kl. 18:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.