Rangt með farið hjá Gros.

Ekki það sem kemur fram í fyrirsögn fréttarinnar "skert lífskjör og kaupmáttur", það er öllum augljóst nema þeim sem þjást af yfirgengilegri flokksblindu, eða þá mjög alvarlegri heimsku, nema hvorutveggja sé.

En það er rangt hjá honum að halda því fram að Ísland eigi eitthvað að borga vegna ICEsave.  Annað hvort lýgur maðurinn vísvitandi eða þá hann hefur fallið í þann fúla pytt að trúa margendurtekinni lygi, bara vegna þess að hann hefur ekki nennu til að kynna sér staðreyndir málsins.  Hann er eins og samningamenn Breta sem fórnuðu Tékkum fyrir svikalogn eftirgjafarinnar gegn ofríkismönnum.  Þá brutu Bretar öll alþjóðlög með því að neyða Tékka til að láta hluta af landi sínu að hendi til Þjóðverja með þeim rökum að Þjóðverjar hefðu staðhæft það svo oft að þetta væri þýskt land, að það hlyti að vera rétt.

Eins er það  með ábyrgð aðildarríkja á bankastarfsemi, samkvæmt öllum alþjóðlögum þá ráða ríki því sjálf í hvað þau setja skattpeninga sína, og eðli málsins vegna þá geta þau aðeins ábyrgst sinn eigin bankamarkað.  Ekkert ríki er skyldugt, og getur verið skyldugt að aðstoða banka í öðrum löndum, eignarhald þeirra skiptir ekki máli í því samhengi, það er aðeins réttlætanlegt að nota pening skattborgara til að tryggja fjármálastöðugleika í eigin landi, og jafnvel það er umdeilanlegt, og þarf að fara mjög varlega í að skuldir fjárglæframanna séu þjóðnýttar af almenning.

Þetta á Gros að vita, og hann á að vita að regluverk ESB um innlánstryggingar fyrirbýður einstökum aðildarríkjum að ábyrgjast banka sína, það sem slíkt er samkeppnishindrun sem regluverkið um innlánstryggingar átti að fyrirbyggja, fjármálakerfið sjálft átti að fjármagna sína bakábyrgð, alveg eins og húseigendur fjármagna sínar tryggingar og svo framvegis.

Enginn getur verið svo takmarkaður að hann skilji ekki muninn á merkingu orðanna "innlánstrygging" og "ríkisábyrgð", og á setningunni  "lánastofnanirnar skulu sjálfar almennt bera kostnaðinn við fjármögnun slíkra kerfa " og "Tilskipun þessi getur ekki gert aðildarríkin eða lögbær yfir-völd þeirra ábyrg gagnvart innstæðueigendum ".

Þeir sem halda öðru fram en því sem stendur þarna, hafa annarlega hagsmuna að gæta.  Til dæmis kaus Evrópusambandið að líta framhjá sínum eigin lögum og reglum þegar það ákvað eftir á að aðildarríki væru í ábyrgð fyrir tryggingasjóði sína, en það hefur ekki fundið þeirri túlkun neina stoð í lögum, og úr því var bætt með nýrri lagasetningu i sumar þar sem ábyrgð aðildarríkja var skilmerkilega orðuð.  En lög gilda ekki aftur á bak, og það vita allir.

Gros verður því að útskýra hvort hann sé trúgjarn eða þjóni einhverjum annarlegum hagsmunum. 

Nógu mikið er til af aumkunarverðum stuðningsmönnum ICEsave þrældómsins sem bulla út í eitt um lög og reglur Evrópusambandsins, sem það hefur aldrei haft fyrir að kynna sér.  Sjálfsagt til að viðhalda sinni fáfræði svo það geti með einhverjum hætti réttlætt þrælaánauðina fyrir sjálfu sér.

En þjóðin lætur ekki blekkjast, og þetta fólk mun uppskera fyrirlitningu og skömm samborgara sína eins og allir aðrir sem láta pólitíska blindni leiða sig út i óhæfuverk.

Því það er ekki þetta aumkunarverða fólk sem ætlar að borga ICEsave, það ætlar að láta sjúklinga, aldraða, öryrkja, alla þá sem hafa þurft að reiða sig á stuðning samhjálparinnar, það sem þeim verður skammtað úr hnefa ríkisvaldsins, eftir að það hefur reitt af hendi greiðslur til breta, mun ekki duga fólki til lágmarksframleiðslu.

"Þetta er ekki líf" sagði öldruð kona Í Suður Afríku, þegar hún lýsti því fyrir sjónvarpsmanni hvernig hún þyrfti að velja um í vetrarkuldanum að nota rafmagn til kyndingar eða kaupa lífsnauðsynleg lyf. 

"Þetta er ekki líf" mun vera sagt af tugþúsundum manna ef draumur ICEsave svikaranna verður að veruleika.

Þá ber að stöðva.

Kveðja að austan. 

 

 


mbl.is Skert lífskjör og kaupmáttur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Góður pistill, Ómar, sannur og góður!

Þó er dr. Daniel Gros með albeztu mönnum og gæti, ef sá staði Steingrímur færi að ábendingum hans, sparað þjóðinni á bilinu 185–240 milljarða króna og sennilega ennþá meira! (sjá HÉR!).

Jón Valur Jensson, 11.12.2009 kl. 09:26

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Jón Valur.

Örugglega ágætur maður.  En ICEsave er atlaga að sjálfri siðmenningunni, og aðeins bein hernaðarárás gæti réttlætt að íslenskt skattfé fari í að greiða skuldir bankamanna okkar.  

Það var nóg að löggjöf Evrópusambandsins heimilaði þeim þessar gripdeildir, en að senda síðan saklausum almenningi reikninginn og krefjast blóðfórna hans, er ekki bara ólöglegt og siðlaust, það er villimennska.

Og í því samhengi vil ég minna á lærdóm sögunnar, hver er næstur????  Þessi spurning hefur verið spurð áður.

En orð Haile Selassies hljómuðu lengi í hugum fulltrúanna á þingi þjóðabandalagsins.  Hann sagði að það sem væri einkum í húfi væri siðgæði í samskiptum þjóða, traust allra þjóða á hvers konar samningum og mati þjóða, einkum smáþjóða, á gildi loforða um að tilvera og sjálfstæði yrði virt og tryggt.

 “Í þetta sinn vorum það við” sagði hann.  “Næst kemur röðin að ykkur.”

Það er þannig með skrímsli Jón Valur, ef þau sleppa laus, þá veit enginn hver er næstur á matseðlinum.  

Þess vegna greiðir þjóðin ekki krónu, þó það kosti hana hungur og harðindi, nema að um það hafi fallið dómur réttbæra aðila, byggðan á skýrum lögum réttarríkisins Evrópu.

Og þann dóm óttast ég ekki.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 11.12.2009 kl. 11:35

3 Smámynd: Jón Valur Jensson

Kærar þakkir fyrir gott svar, Ómar. – Ég verð með mitt vikulega erindi í Útvarpi Sögu kl. 12.40/45 til 13.00 í dag (endurtekið kl. 18.00). Stöðin er á FM 99.4 á höfuðborgarsvæðinu, ennfremur er útsending HÉR á netinu.

Jón Valur Jensson, 11.12.2009 kl. 12:05

4 identicon

Evrópusambandið gaf út skýrslu árið 2007 er varðaði innistæðutryggingakerfi Evrópu sem bar heitið:

Scenario Analysis: Estimating the effects of changing the funding mechanisms of EU Deposit Guarantee Schemes..

Með þessari skýrslu fylgdi viðauki þar sem eiginleikar Innistæðutryggingasjóða mismunandi landa voru bornir saman..

http://ec.europa.eu/internal_market/bank/docs/guarantee/annex3_en.pdf

Í þessum viðauka er kafli fyrir tryggingasjóði hvers lands sem ber heitið: Other contributions/borrowing og er skipt í 3 liði..Tökum nokkur dæmi..

Danmörk:
Framlög frá ríkisstjórn: Nei
Ríkisábyrgð: Já, Fjármálaráðherra má veita ríkisábyrgð á lánum sjóðsins.
Leyfi til lántöku: Já

Þýskaland:
Framlög frá ríkisstjórn: Nei
Ríkisábyrgð: Nei
Leyfi til lántöku: Já

Frakkland:
Framlög frá ríkisstjórn: Nei
Ríkisábyrgð: Nei
Leyfi til lántöku: Já

Austurríki:
Framlög frá ríkisstjórn: Nei
Ríkisábyrgð: Já
Leyfi til lántöku: Já

Holland:
Framlög frá ríkisstjórn: Nei
Ríkisábyrgð: Nei
Leyfi til lántöku: Nei

Bretland:
Framlög frá ríkisstjórn: Nei
Ríkisábyrgð: Nei
Leyfi til lántöku: Já

Eins og sjá má er þetta fyrirkomulag mismunandi milli landa. Þetta sýnir þó svart á hvítu að dírektív 94/19/EEC gerir ekki sjálfkrafa ráð fyrir ríkisábyrgð ef sjóðurinn tæmist, einfaldlega vegna þess að í löndum á við Frakkland, Bretland og Hollandi er það beinlínis bannað...

Önnur lönd, til að mynda Ísland, Danmörk og Austurríki GETA ákveðið að veita ríkisábyrgð ef þau vilja..Þeim er það EKKI SKYLT..
Það að veita ríkisábyrgð upp á hálfa landsframleiðslu er þó sennilega eitthvað sem varla yrði tekið í mál bæði í Danmörku og Austurríki, enda gersamlega glórulaust bull þegar ríkið ber til þess enga skyldu..

Hættum nú þessu bulli og færum málið þangað sem það á að vera..fyrir dómsstólum..

TBR (IP-tala skráð) 11.12.2009 kl. 13:01

5 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þetta er mjög gagnlegt innlegg frá þessum/þessari TBR (eða frá Tennis- og badmintonklúbbi Reykjavíkur – hvað veit ég?!). Í alvöru: Ég met þetta mikils, og Loftur o.fl. eiga eftir að gera sér mat úr þessu.

Jón Valur Jensson, 11.12.2009 kl. 20:01

6 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður TBR.

Takk fyrir þessar upplýsingar.  Það væri líka fróðlegt að fá að vita hvenær þessi ríkisábyrgð Austurrríkismanna er til kominn, er það strax í upphafi tilskipunar ESB um innlánstryggingar, eða er það seinna eftir að þeir fóru að hafa áhyggjur af brauðfótum síns bankakerfis.

Og er þetta ekki blekkingaröryggisventill hjá Dönunum????  Svipað eins og yfirlýsing Geirs Harde um ríkisábyrgðina.  

En tilskipunin er í prinsippi sínu á móti ríkisábyrgð, telur hana samkeppnishindrandi.

Og síðan þarf ekki að ræða það að þjóðir fórni velferð sinni og lífsgæðum fyrir ríkisábyrgð á skuldum bankamanna.  Bretarnir til dæmis eru stórskuldugir og þeir eru aðeins að koma með eigið fé inn í bankanna til að dekka slæm lán.  Þeir hafa ekkert bolmagn til að taka á sig stærri skuldbindingar, nú þegar óvíst að þeir ráði við núverandi sem eru ekki nema brotabrot af innlánum landsins.  Og þó eru bretarnir með sinn eigin gjaldmiðil, fyrir þjóð sem er með Evru og getur ekki prentað sína eigin seðla, þá þýðir svona ríkisábyrgð við allsherjar bankahrun tafarlaust gjaldþrot, og þar með er öll ábyrgð fyrir bí.

En einfaldar staðreyndir hafa aldrei náð inn í þjóðmálaumræðuna á Íslandi, til þess eru Riddarar heimskunnar of öflugir og almenn rökvísi og staðreyndaöflun er þeim ofviða.  Tjá sig um almannaróm eftir almannarómi.

Ef þeir læsu þennan lista þinn, þá myndi gjörgæsla Landsspítalans fyllast,  vegna þess hve margir Riddarar myndu brenna yfir á heila.

Og hvað verður þá um alla flensusjúklinganna????

Nei, þá er betra að bulla um einhverjar þjóðréttarskyldur og hafa þar meistaranemann sem heimildarmann.  Eða þá vitna í Jóhann Hauksson, það hlýtur að vera ríkisábyrgð á innlánum því hann segir það, og svo er það jafnræðisreglan, hún er svo öflug að það er hægt að gera upp heilu þjóðirnar og setja þær í skuldafangelsi vegna hennar.

Ætli Charles Dickens hafi vitað af henni.  Hún hefði getað verið svona viðbótarplott í Oliver Twist.  Og ekki lýgur Jón Baldvin, eða þá hann Guðmundur Óla, alltaf jafn sannspár og rökvís.  Eða þá Jónas Kristjánsson, hver man ekki eftir styrk DV undir hans stjórn, brást ekki að blaðið færi rétt með.

Já, við skulum bara halda áfram að treysta á almannaróm, og svona staðreyndir gætu alveg gengið af honum dauðum.

Og þykir okkur ekki öllum vænt um hana Gróu?

En takk samt, ég er með Riddaravörn, þannig að engin hætta er á að upplýsingar þínar hér valdi skammhlaupi og þar með aukaálagi á Landsspítalann, nóg er álagið á starfsfólk samt.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 11.12.2009 kl. 22:08

7 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Þetta er algerlega réttmæt athugasemd Ómar, við ummælin sem höfð eru eftir Daniel Gros:

 

Íslendingar þurfa að greiða eitthvað vegna Icesave. Skilmálar samkomulagsins eins og það liggur fyrir eru hins vegar svo harkalegir að ég tel betra að hafna því... 

 

Hann rökstyður ekki, hvers vegna Íslendingar ættu að greiða eitthvað. Ég er að hugsa um að senda honum línu vegna þessara ummæla. Ég hef verið í sambandi við hann og fekk senda frá honum marg-rædda skýrslu og hana er að finna hér:

 
Jafnræði á Evrópska efnahagssvæðinu ? 

 

Ekki get ég séð að þar haldi Gros fram einhverri greiðsluskyldu okkar, enda er engin greiðsluskylda fyrir hendi. En það er fleirra í þessu máli, sem vekur athygli ef ekki furðu. Getur verið að jafnræði á Evrópska efnahagssvæðinu sé miklu meiri goðsögn, en kemur fram í blog-grein minni ?

 

Eins og flestir þá hélt ég, að jafnræði gilti á Evropska efnahagssvæðinu. Ég hafði þó tekið eftir að ekki eru allir viðskiptavinir bankanna jafnir. Í framhaldi af framangeindi blogg-grein minni fór ég að lesa Tilskipun 94/19/EB með sérstöku tilliti til jafnræðis og mér til furðu er ekki um að ræða jafnræði á Evrópska efnahagssvæðinu, á milli bankanna sjálfra.

 

Ég skrifaði grein um málið, sem birtist í Morgunblaðinu í dag og hægt er að lesa hér einnig:

 

Nýlenduveldin bera alla ábyrgð á Icesave-reikningunum 

 

Mín niðurstaða er sú, að jafnræði sé ekki á milli banka á EES. Bankar Evrópusambandsins eru “jafnari” en EFTA-bankarnir. Öll ábyrgð á útibúum EFTA-bankanna er hjá gistilandinu. Bretland og Holland báru því fulla og ótakmarkaða ábyrgð á Icesave-reikningunum. Ríkissjóður Íslands er því ekki bara laus við ábyrgð innistæðu-trygginganna, heldur er Íslendska ríkið algerlega laus undan öllum kvöðum varðandi útibúa Landsbankans.

 

Loftur Altice Þorsteinsson, 12.12.2009 kl. 15:33

8 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Loftur.

Jafnræðisreglan er þjóðsaga í dag, en það er vilji til að láta hana virka, en til þess þarf einhvern þann vilja hjá þjóðum Evrópusambandsins að mynda sterka heild á kostnað einstakra þjóðríkja.

Og þetta sannaðist þegar fjármálakreppan skall á 2008, þá hugsuðu allar þjóðir Evrópusambandsins aðeins um að bjarga sér og sínum, og engu skipt um hvort það væri á kostnað annarra innan evrópska efnahagssvæðisins.  Besta dæmi þar um er björgun breskra banka á bönkum með bresku eignahaldi, og bönkum sem gegndu mikilvægu hlutverki fyrir breskan efnahag.

Jafnræðisreglunni er hvergi hampað nema hér, og þá fyrir einfaldar sálir sem þurfa réttlætingu fyrir lögbrotum forystumanna sinna, og réttlætingu þess að samþykkja skuldaþrældóm með bros á vör.  Minnir einna helst þegar heittrúaðir kommúnistar gengu sjálfviljugir undir ok fátæktar og þrældóms því þeir trúðu á himnaríki kommúnismans, á jörðu reyndar, en hafa vonandi fengið það á himnum.

Og að lokum, það er engin skuldbinding til staðar í ICEsave deilunni, fyrr en að undangegnum dómi EFTA dómsstólsins, og síðan þarf samkomulagið að standast íslenska stjórnarskrá.  Það er ekkert til sem heitir pólitísk lausn sem gengur gegn lögum.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 12.12.2009 kl. 16:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.1.): 18
  • Sl. sólarhring: 28
  • Sl. viku: 2037
  • Frá upphafi: 1412736

Annað

  • Innlit í dag: 18
  • Innlit sl. viku: 1790
  • Gestir í dag: 18
  • IP-tölur í dag: 16

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband