16.11.2009 | 16:52
Sáttur við blekkingarhjúpin.
Ingibjörg Sólrún kallaði Árna Pál og félaga hans í ríkisstjórninni, sakamenn.
Sjálfsagt telur hún þá seka um glæp gagnvart íslensku þjóðinni.
Og Ingibjörg Sólrún færir rök fyrir sínu máli. Og þeim reynir Árni Páll að svara.
Svarið er aumt, en það er samt margt athyglisvert sem fram kemur í vörn Árna. Hann er til dæmis annar ráðherrann sem viðurkennir það opinberlega að Svavarssamningur hinn fyrri hafi verið aðför að sjálfstæði þjóðarinnar. En hann hefði batnað í meðförum þingsins og nú væri hann sáttur.
En Árni Páll og félagar í Samfylkingunni hótuðu uppreisnarhópi VinstriGrænna öllu illu ef þeir samþykktu Svavarssamninginn hinn fyrri ekki óséðan. Samningurinn var það góður að hann þurfti ekki umræðu á Alþingi, hvað þá að það þyrfti að gera á honum breytingar.
Núna segir Árni Páll þetta um þann ágæta samning:
,Ég er sammála henni um að ekki var nægilega gengið úr skugga um það upphaflega, að Brusselviðmiðin giltu og um hina sérstöku stöðu Íslands," sagði Árni Páll. Hann tók hins vegar fram að þau atriði hafi eftir það náðst fram í því ferli sem svo fór í hönd. ,,Við stöndum eftir með mun sterkari réttarstöðu," sagði Árni Páll.
Vissulega er Árni Páll maður að meiri að viðurkenna að upprunalegi samningurinn hafi verið þvinguð hryðjuverk gegn íslenskri þjóð, og hann sjái eftir að hafa stutt þann gjörning. Kannski var það rétt sem Ögmundur upplýsti að ríkisstjórn Íslands hafi átt að samþykkja þann samning óséðan, og um innihald hans hafi verið logið að ríkisstjórninni. Ég dreg það ekki í efa að Árni Páll hefði aldrei samþykkt það sem hann samþykkti, ef hann hefði vitað hið sanna í málinu.
Hinsvegar má velta fyrir sér hugtökum eins og ráðherraábyrgð og vanhæfni þegar ráðherrar í ríkisstjórn Íslands viðurkenna að hafa samþykkt ríkisábyrgð upp á 1.000 milljarða með vöxtum, án þess að hafa hugmynd um skilmála ríkisábyrgðarinnar.
En samt, Árni Páll viðurkennir þó glæpinn. En segist bara vera fyrrverandi sakamaður. Núna hafi hann bætt fyrir glæpinn, bæði lesið Svavarssamninginn hinn nýrri, og telji að réttarstaða íslensku þjóðarinnar sé núna tryggð.
En það eru ekki rök málsins að segja "ég telji". Til dæmis segi ég allt af barnungum sonum mínum að tunglið sé úr osti, en það er víst ekki rök í málinu. Tunglið er úr grjóti, og ekki mjög músavænt.
Og um hina meintu réttarstöðu Íslands segja þeir félagarnir Stefán Már, lagaprófessor við Háskóla Íslands, og Lárus Blöndal, hæstaréttarlögmaður, í grein í Morgunblaðinu að hún sé Engin. Þeir segja að:
Niðurstaða þessa samanburðar er afdráttarlaus. Þeir fyrirvarar sem mestu skiptu til að takmarka ríkisábyrgðina vegna Icesave-samninganna eru nánast að engu orðnir út frá lögfræðilegu sjónarhorni. Skuldbindingar íslenska ríkisins eru á ný orðnar óljósar og ófyrirsjáanlegar bæði hvað varðar fjárhæðir og tímalengd.
Vera kann að Alþingi samþykki umrætt frumvarp engu að síður og þá út frá öðrum brýnum sjónarmiðum en lögfræðilegum. Um það verður ekki rætt hér. Hins vegar er ljóst að fyrirvararnir sem settir voru fyrir ríkisábyrgðinni í haust geta ekki verið réttlæting fyrir því að samþykkja ríkisábyrgðina samkvæmt fyrirliggjandi frumvarpi.
Og þessum orðum þeirra hefur engin málsmetandi lögfræðingur mótmælt með rökstuðningi.
Það tók marga mánuði að fá fram viðurkenningu Árna Páls, að hann hefði haft rangt fyrri sér í vor og sumar þegar hann hélt því fram að þeir fyrirvarar sem Svavar kom með heim frá Brussel, hefðu verið með öllu gangslausir. Þá voru það þeir Stefán og Lárus, sem afhjúpuð nekt Svavars.
Af hverju ætti Árni Páll að hafa rétt fyrir sér núna, en ekki þeir félagar, sem alltaf hafa haldið uppi málefnalegri gagnrýni á þeirri gjörð að samþykkja allar kröfur breta og Hollendinga án mótmæla, eins og málstaður þeirra byggðist bæði á lögum og reglum Evrópusambandsins.
Hingað til hafa þeir félagar haft rétt fyrir sér.
Og þeir hafa líka rétt fyrir sér núna.
Kveðja að austan.
Sáttur við lyktir Icesave | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.1.): 1
- Sl. sólarhring: 13
- Sl. viku: 1225
- Frá upphafi: 1412779
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 1084
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.