14.11.2009 | 08:50
Hlustum á aðvörunarorðin áður en það er of seint.
Íslendingar hlustuðu ekki í aðdraganda Hrunsins.
Þó komu aðvörunarorð úr ýmsum áttum. Og hættan augljós öllum, nema þeim sem ákváðu að stinga höfði sínum í sandinn.
Þeir sem vara við ICEsave samningnum, og hinum stórfeldum lántökum hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, þeir benda á að hinar miklu erlendu vaxtagreiðslur, og síðan afborganir af þessum risalánum, munu veikja krónuna enn frekar, krónan mun jafnvel hrynja.
Hjörleifur B, Kvaran segir þá hreint út að þá verði Orkuveitan gjaldþrota.
Allt skynsamt fólk sér að þessar miklu erlendu lántökur yrðu banabit hins íslenska lýðveldis. Og rústa lífskjörum þjóðarinnar um langt árabil, jafnvel endanlega því hún næði sér ekki upp úr hjólförum Kreppunnar. Þannig hefur farið fyrir mörgum þjóðum Afríku sem hafa notið náðar Amerískra vogunarsjóða, sömu sjóða og íslenska ríkisstjórnin vill gera að yfirmönnum hins nýja íslenska bankakerfis.
Á mannamáli heitir það að fara úr öskunni yfir í eldinn.
"Efnahagsáætlun" íslensku ríkisstjórnarinnar, sem unnin er eftir forskrift Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, er katastrófa sem getur aðeins endað á einn veg.
Þjóðargjaldþroti.
En það er meira sem felst í þessum orðum forstjóra Orkuveitunnar. Hann er að segja það hreint út að tími hinna einföldu lausna sé liðinn.
Það er ekki lengur hægt að leysa öll vandamál þjóðarinnar með frekari virkjunum. Skuldsetning Orkufyrirtækjanna er of mikil. Það er ekki endalaust hægt að taka ný og ný lán til að reisa nýjar og nýjar virkjanir.
Að lokum þola slík fyrirtæki engin ytri áföll. Þau lenda í greiðslufalli. Verða gjaldþrota eins og það heitir á mannamáli. Ekki nema þá eigendur þeirra leggi þeim til meira eigin fé. En er það fé til í landinu???
Stundum eru erfiðleikar það miklir að það er nauðsynlegt að staldra við, hugsa, viðurkenna staðreyndir, og taka skynsamar ákvarðanir út frá því.
Finna nýjar leiðir.
Tími hinna einföldu lausna er liðinn.
Kveðja að austan.
Hætta á greiðslufalli OR | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:19 | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (18.1.): 7
- Sl. sólarhring: 69
- Sl. viku: 2647
- Frá upphafi: 1412705
Annað
- Innlit í dag: 3
- Innlit sl. viku: 2311
- Gestir í dag: 3
- IP-tölur í dag: 3
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
"Þeir sem vara við ICEsave samningnum, og hinum stórfeldum lántökum hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, þeir benda á að hinar miklu erlendu vaxtagreiðslur, og síðan afborganir af þessum risalánum, munu veikja krónuna enn frekar, krónan mun jafnvel hrynja."
Ætlun AGS mun nást og við munum verða gjaldþrota. Og þeir munu ná ríkisfyrirtækjum eins og Orkuveitunni voða ódýrt. Það er all samkvæmt vanalegu plani AGS gereyðingar-báknsins. Við getum ekki tekið öll hundruða milljarða AGS lánin sem ætluð eru til að skuldsetja okkur fyrir Icesave + vöxtum. Við getum ekki borgað Icesave. Og sem við skuldum ekki einu sinni samkvæmt neinum lögum.
AGS hefur stundað þessa glæpi í Afríku, Asíu og Suður-Ameríku og nú er fjöldi landa 3ja heims ríki af þeirra völdum. Við verðum þannig ef yfirvöld ekki losa okkur við AGS. Stjórnarandstaðan hefur oft bent á þetta. Og Lilja Mósesdóttir og Ögmundur Jónasson. Ætla hinir í stjórnarflokkunum ekki að fara að vakna???
ElleE (IP-tala skráð) 14.11.2009 kl. 10:47
Sæll Ómar Geirsson
ég vil þakka þér fyrir góðan pistil. Ég er sammálaþér í þessari greiningu. Auðvitað geta Reykvíkingar enn bjargað þessu fyrirtæki sínu fyrir horn.
Kristbjörn Árnason, 14.11.2009 kl. 11:17
Blessuð Elle.
Þú og Kristbjörn takið á báðum þáttum þessa pistils, enda greinilega með sitt hvort áhugasviðið.
Núna skulum við vona að akademían vakni. Að prófessorar og aðrir háskólamenn, leggi pólitískum skoðunum sínum inn í bílskúr, mæti síðan í fjölmiðla, til dæmis til Láru, og útskýri að það sem þeir kenna í tímum hjá sér um hættu mikillar skuldsetningar, gildi líka á Íslandi. Og þeir geta haft með sér einn prófessor í eðlisfræði, sem útskýrir að þyngdarlögmál Newtons gildi einnig hér. Ef það tekst einhvern tímann að rækta eplatré hér, þá munu eplin falla til jarðar, hér alveg eins og í útlöndum.
Þó við tölum íslensku, sem enginn annar skilur, þá breytir það ekki staðreyndum lífsins, og þeim lögmálum sem gilda í heiminum. Við erum ekki það sérstök þó við höfum hjarað hér á mörkum hins byggilega heims í nokkrar aldir.
Og of mikil skuldsetning í erlendri mynt, fellir gengið, og dregur úr ráðstöfunartekjum þjóðarinnar. Og stríðsskaðabætur draga máttinn úr okkar hagkerfi, alveg eins hjá Karþagóbúum hinu fornu eða Þjóðverjum millistríðsáranna. Og of háir skattar, veikja efnahagslífið, og draga úr hagvexti. Og fólk flýr land hér eins og annarsstaðar þegar lífskjörin eru óbærileg.
Það er með þetta eins og fall eplisins, þetta eru staðreyndir. Sem enginn á að komast upp með að rífast um með þrætubókartækni eða útúrsnúningum. Þegar fólk mætir til Láru til að segja satt, þá munu fleiri fylgja í fótspör meistara Ögmundar. Og kannski munu ógnaröflin líka hætta að ógna Guðfríði Lilju með þeim hrikalegu hótunum sem urðu til þess að hún sveik sannfæringu sína. Sem er í raun það versta sem illir menn geta gert, þvingað sannfæringarbrest hjá ungu hugsjónafólki. Í raun verra en mannsmorð.
Já, það er tími til kominn að fólk segi satt.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 14.11.2009 kl. 14:47
Blessaður Kristbjörn og takk fyrir innlitið.
Í þessu máli erum við sammála, ætli þú hafir ekki vitað það eftir að þér tókst að móðga Smára Geirs, með því að kenna mig við hann. Og ég bar af honum sakir.
Það kom í dag tilkynning frá Orkuveitunni, þar sem Hjörleifur sagðist eiga tvífara sem stundum platar blaðamenn með ýmsum tröllasögum um fjárhagslega stöðu Orkuveitunnar. Ég skaut nýjum pistli inn um þessa frétt, og það mætti þú líka. Ég veit að þú ert stærri en það en að láta einhverja úti í Móa ákveða hvar þú skrifar þína speki. Það er illa farið með þá reynslu sem hefur gert þig gráan til hárs og rúnum ristan í framan, ef þú miðlar henni ekki þar sem hún er lesin, af þjóðinni, ekki jámönnum eins og þeim sem spjalla saman í litla herberginu á Vísisblogginu. Þú getur svo sent Saxa afrit af pistli þínum, ef hann vill fylgjast með.
En ef þú samþykkir aðferðafræði mínu hvað varðar fjárhag Orkuveitunnar, þá vil ég benda þér á að ég nota sömu aðferðarfræði til að útskýra af hverju ICEsave samningurinn er tilræði við hag almennings í þessu landi. Og ég held að þú vitir það Kristbjörn að ég ekki beint hægrimaður í stjórnmálum, þannig að ekki er ég í vinnu hjá Valhallarbúum þegar ég stend í þessu ströggli mínu.
En ég er alþýðumaður, síðasti burgeisinn af mínum forfeðrum var prestur á Mývatni sautján hundruð og eitthvað, þannig að ekki er það veisluborð auðmann sem villir mér sýn í ICEsave málinu. Ég tel mig aðeins vera að segja satt og rétt frá þeirri ógn sem við blasir, og einnig hef ég fært rök fyrir í pistlum mínum (það er áður en ég fór að vega mann og annan), að ICEsave sé tilræði við sjálfa siðmenninguna, forsendur þess að menn getir búið saman í sátt og samlyndi. Slík sátt er aldrei til staðar á meðan hinn sterki, kúgar hinn veika. Ekki nema þá að hinn veiki sé gjörsneyddur öllum manndóm og láti kúgunina yfir sig ganga.
Kristbjörn, ég veit að þetta var ekki erindi þitt með þínu góða innslagi, en þetta var samt kjarni þess sem pistill minn fjallaði um. Skoðun mín á álæðinu, var bara hliðarspor sem ég lét fylgja með ef einhver nennti að lesa og hugsa um.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 14.11.2009 kl. 15:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.