13.11.2009 | 13:49
Meira um Bóluskatt Ragnars Önundarsonar.
Ragnar Önundarson, er sá maður sem sagði nákvæmlega fyrir Hrunið. Og hann gat útskýrt af hverju það varð. Eftir Hrun hefur hann skrifað nokkrar góðar greinar í Morgunblaðið og reifað ýmis mál, meðal annars gert upp við villutrú Nýfrjálshyggjunar.
En í Morgunblaðið 15. desember skrifar hann áhugaverða grein undir heitinu "Gjald til verndar eignarréttar", skatt sem ég kýs að kalla Bóluskatt. Greinina má finna í greinasafni Morgunblaðsins, en ég ætla að birta aðeins hluta hennar fólki til fróðleiks.
Ragnar færi rök fyrir þessu gjaldi, en síðan segir hann:
Auðæfi hinna ofríku eru í seinni tíð að mestu fengin með eignatilfærslum. Ekki með vinnu og ekki með rekstri sem skapar atvinnu handa fólki. Vanhugsuð framkvæmd einkavæðingar, verðbólur á hlutabréfa- og fasteignamarkaði vegna lánaþenslu og sjálftaka ofurlauna eru nýleg dæmi. Erfitt er að rekja frá hverjum fé var tekið. Hinir ofríku hafa að vísu sumir tapað fé nýlega, væntanlega að hluta. Það breytir ekki því að féð er eða var illa fengið. Sumir hafa þegar flutt fé úr landi, en aðrir leitað skjóls innanlands.
Og síðan bendir Ragnar réttilega á:
Það er hrópandi ranglæti að þeir sem féflettir hafa verið með eignatilfærslum beri kostnað við að vernda eignir fjárplógsmannanna.
Og þetta er kjarni málsins. Þeir ríku verða líka að bera byrðarnar og allir þeir sem hafa orðið margmilljónerar og jafnvel margmilljarðamæringar, þeir eiga að hlaupa undir bagga, því þeir hefðu aldrei eignast sína peninga nema vegna þess sjúka ástands, sem almenningur situr svo uppi með kostnaðinn af.
Og Ragnar leggur síðan til að:
Munum að slík fjáröflun, að undanteknum þeim fjárhæðum sem teljast laun í skilningi skattalaga, er ekki háð tekjuskattlagningu og að eignarskattur hefur verið lagður af. Það er einkum 10% fjármagnstekjuskattur sem nær til þessa fjár nú og er hann hvergi lægri á byggðu bóli. Eðlilegt er að leggja hömlur á flutning slíks fjár úr landinu eða leggja tilfinnanleg gjöld á slíka flutninga, við núverandi aðstæður. Þetta þarf að athuga þegar fjallað er um þá vernd sem ríkið veitir með eignarrétti án endurgjalds, en þó með ærnum tilkostnaði. Endurskoða ber skattkjör þessa fjár og leggja gjald á hreina eign manna, en þó aðeins umfram þá sem venjuleg fjölskylda þarf sér til viðurværis. Að auki nær eignarskattur til fjármuna sem skotið er undan eða koma ekki til tekjuskatts. Munum að ekki er spurning hvort við þurfum að endurgreiða lánin með sköttum, aðeins hvernig.
Og niðurlag greinar Ragnars ætla ég að gera að mínum:
Tekjum skv. ofansögðu verði varið til að endurgreiða lánin sem ríkið er nú að taka. Fljótlega mun saxast á skuldirnar og um leið er unnið gegn ójöfnuðinum sem kreppunni olli. Vextir lækka svo smám saman vegna batnandi stöðu ríkissjóðs, sem aftur mun valda vaxandi einkaneyslu og almennri eftirspurn. Atvinnulífið tekur þá við sér með endurnýjun framleiðslutækja. Alvöru fjárfestar, sem helst er að finna í smærri fyrirtækjum, færast því næst í aukana og atvinna fer vaxandi. Senn verða mestu erfiðleikarnir að baki og þá má lækka aðra skatta á móti eða hækka persónuafslátt.
Engar sérstakar hættur eru við að taka þetta gjald upp á ný. Auðvitað munu hinir ofríku reyna að flytja fé úr landi, en stemma má stigu við því með reglum og eftirliti. Sumum dettur án efa í hug að gjaldið drægi úr framtaki og fjárfestingum. Svo er ekki því hinir ofríku eru ekki alvöru fjárfestar heldur spákaupmenn. Frekar má reikna með vaxandi fjárfestingum þegar fram í sækir, vegna lækkandi vaxta.
Stundum er óþarfi að flækja hlutina.
Það á að skattleggja þá peninga sem til eru.
Allt annað er andskattur.
Kveðja að austan.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:04 | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 30
- Sl. sólarhring: 631
- Sl. viku: 5614
- Frá upphafi: 1399553
Annað
- Innlit í dag: 23
- Innlit sl. viku: 4787
- Gestir í dag: 22
- IP-tölur í dag: 22
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.